Sjónvarpsgláp

Ég horfði á sjónvarpsfréttirnar og tókst auðvitað að sofna og man ekki eina einustu frétt. Ég man þó að það er ekki séð fyrir endann á hlýindunum og góða veðrinu í veðurspánni. Það er búið að koma sér vel fyrir húsbyggendur eins og okkur að hafa haft þetta veður. En hvað um það; eftir að Valdís hafði horft á þátt um konungsfjölskylduna horfðum við reyndar á heila mynd, sænska mynd um ofneyslu eiturlyfja og áfengis og allt það hræðilega öngþveiti sem verður í fjölskyldunni fylgjandi því. Ekki var myndin falleg enda fátt fallegt hægt að finna sem fylgir svoleiðis löguðu. Myndin endaði þó vel og var það eitt af því fáa fallega í myndinni. Þetta var ekki fallegur raunveruleiki og líkist mjög mörgum sögum sem ég hef heyrt í Vornesi. Myndin heitir Mun mot mun og er bara sannleikurinn um líf fjölda fólks.

En svo er það allt annað mál. Á morgun á að vinna á Sólvöllum við að klæða utan veggi og jafna úr sandi  bakvið húsið. Þennan sand flutti ég á litlu kerrunni og litla Renónum í dag og keppti þar við klukkuna til að ná nægilegum sandi fyrir lokun Syðri malarnámunnar eins og það heitir. Ég má til með að segja sögu þaðan.
Fyrir jól kom ég þangað til að taka eina kerru af sandi. Ég rétti fram 100 kr og afgreiðslukonan sem hefur aðstoðað mig vo oft áður hristi höfuðið og sagðist ekki geta skipt en ég fengi sandinn samt og svo kallaði hún á manninn á vélskóflunni og baða hann að moka á kerruna. Þegar kom enn nær jólum kom ég þangað aftur til að sækja sand og þá sagði hún einfaldlega að þetta byði hún upp á og svo kallaði hún aftur á vélskóflumanninn gegnum talstöðina. Ég varð yfir mig hissa því að ég er alls ekki vanur því að hlutirnir kosti ekki neitt hjá þeim sem selja. Ég á margar minningar frá Syðri malarnámunni. Það hefur nefnilega verið athyglisvert að hitta fólk þar, en þangað er ég oft búinn akoma til að sækja sand, möl og mold. Nú er háttatími og mál að bursta og pissa.

Aðfangadagur 2006

Hún Rósa dóttir mín útbjó bloggsíðuna mína í dag og þetta er fyrsta tilraun mín til að skrifa inn á hana. Við erum tvö heima við Valdís og það er rólegur aðfangadagur hjá okkur. Það er afar óvenjulegt að vera heima heilan dag því að undanfarna mánuði hef ég verið í Vornesi í vinnunni eða á Sólvöllum að vinna við stækkun á bústaðnum. Það er svo gaman að vinna við það að ég kunni ekki vel við það í morgun að fara ekki þangað, en núna finn ég að það var virkilega tími til kominn að taka frídag frá öllu vinnu- og smíðaamstri. Gleðileg jól öll þið sem lesið þessa fyrstu síðu mína.

Vetrarmynd frá Sólvöllum

Vetrarmynd frá Sólvöllum

Stórfalleg mynd frá Sólvöllum.

Mynd af næstum tilbúnu þaki

Mynd af næstum tilbúnu þaki

Hér sjáið þið mynd sem Valdís tók um daginn. Lítur þetta ekki vel út?
RSS 2.0