Lífð í sveitinni

Fyrir nokkrum dögum sáum við kvikmynd um siglingu breskra hjóna þvert yfir suður Svíþjóð, það er að segja frá Gautaborg til austurstrandarinnar og út á Eystrasaltið. Þau sigldu Gauta skipaskurðinn sem er afburða falleg leið og góð upplifun. Þetta minnti okkur á siglingu á Gautaskurði í fyrrasumar í sól og blíðu og mikilli náttúrufegurð og tilhugsunin um að fara aftur í svona siglingu kittlaði.
 
 
Susanne stendur þarna við lunninguna og aftur í skut er þreyttur maður, líklega of þreyttur til að sjá það sem fyrir augun ber. En þessa dagana er meinlaus vetur á okkar slóðum en vetur samt. Þá er meiri einfaldleiki yfir lífinu og gaman þegar svona perlur eins og siglingin á Gautaskurði birtist á skjánum.
 
 
Það lítur svona út á Sólvöllum þessa dagana en það er alls ekki kalt. Það er nógur viður til að brenna og við höfum nóg til að bíta og brenna. Matarbúr fuglanna er hlaðið góðgæti. Það eru aðstæður til að hafa það gott. Svo baukum við við okkar daglegu sýslur.
 
 
Hún Kristín Guðmundsdóttir skólasystir mín í Skógum kom í heimsókn til okkar í fyrrasumar. Eitt af því fyrsta sem hún talaði um eftir að hún steig út úr bílnum hér fyrir utan húsið var hvort við lifðum ekki sjálfbæru lífi hér á Sólvöllum. Nei, ég sagði að það væri reyndar langt frá því, því miður.
 
Lífið gæti verið mikið meira sjálfbært hér á Sólvöllum. Það er bara að vinna að því og sem ellilífeyrisþegi á ég að hafa tíma til þess. Vil ég eða vil ég eða ekki, nenni ég eða nenni ég ekki. Í pottunum á myndinni fyrir ofan er það sem ég kalla graskerssúpu. Ég útbý þessa súpu nokkrum sinnum á ári, svona um það bil tuttugu máltíðir hverju sinni. Síðan frysti ég súpuna og það er hægt að grípa til hennar hvenær sem er án nokkurrar fyrirhafnar. Ég kalla þessa súpu graskerssúpu þó að það sé orðið meira af öðru í súpunni en bara grasker. Fyrsta skiptið sem ég gerði þessa súpu var Pétur tengdasonur með og svo skrifaði hann uppskrift að henni. Þessi uppskrift er alltaf þungamiðjan í súpugerðinni þó að seinna hafi farið að kenna margra grasa í henni.
 
 
Það mesta þarna á borðinu hef ég einhvern tíma ræktað sjálfur, en brokkólíið hefur mér ekki tekist að rækta. Kálmaðkurinn étur blöðin og þegar þau eru uppétin verður ekkert brokkólí. Ég vil ekki eitra og þar með er ég dæmdur til að kaupa brokkólíið. Í skálinni næst lengst til vinstri er hvítkál en það hef ég ekki reynt að rækta. Ég reikna með að kaupa hvítkálsplöntur að vori og prufa. Ég veit ekki hvort kálmaðkurinn er hrifinn af hvítkáli. Það á eftir að sýna sig. Annað sem er þarna á eldhúsbekknum hef ég einhvern tíma ræktað sjálfur þó að sumt sé keypt í þessu tilfelli. Lengst til hægri er svo graskerið og það er heimaræktað. Það er skemmtilegt að gera mat frá miðju sumri og fram á haust því að þá eru margar ferðirnar farnar út í grænmetisholuna til að sækja krydd og eitt og annað grænt. Hluti af sjálfbærni ekki satt.
 
Svuntuna sem ég er í við súpugerðina fékk ég frá Vestmannaeyjafjölskyldunni í jólagjöf. Hún er í stíl við þjóðbúninginn.
 
 
Á þessari mynd eru tvær vinnukonur sem vinna gott verk fyrir mig. Þetta eru moltukerin. Í fötunum er moldin sem ég notaði ekki í grænmetisræktunina í fyrra. Tunnan sem er opin á hliðinni, sú til vinstri, er tunna sem ég var að tæma í föturnar. Síðan setti ég hliðina í aftur, setti lag af eikarlaufi í botninn, og tók síðan burtu eina hlið í tunnunni til hægri. Þegar ég hafði tekið efsta lagið úr henni og lagt til hliðar í hjólbörur, það er að segja lagið sem minnst var byrjað að molda sig, þá losaði ég innihaldið í tómu tunnuna og þar er nú í gangi seinni hluti moltuvinnslunnar. Ég gerði þetta eftir áramót en ef ég hefði gert þetta fyrr hefði ég líklega getað notað þá mold að vori. Hún verður tilbúin þegar líður á sumarið. Ég nota þessa heimagerðu mold sem jarðvegsbætandi og ennþá tölum við um sjálfbærni.
 
 
Fyrir eins og einu ári spurði mig ungur maður hvað það væru margar byggingar á Sólvöllum. Ég svarað því að vísu aldrei. En hér er skýli, einmitt hjá moltutunnum. Þar eru nú föturnar með moldinni frá í fyrra ásamt hænsnaskít, kalki, yfirbreiðslu, laufi, hefilspónum og fleiru sem tilheyrir moltuframleiðslunni. Það er sem sagt sjálfbær starfsemi þarna í Sólvallaskóginum. Tunnurnar þurfa á hvor annarri að halda og þær þurfa líka á skýlinu að halda svo að allt sé til staðar. Fyrsta árið var framleiðslan fáeinar fötur, næsta árið fáeinar hjólbörur og á þessu ári verður framleiðsla af tilbúinni moltu nokkrar hjólbörur. Tunnan til vinstri er nefnilega full og þær eru mun stærri en sýnist.
 
Vitiði eitt?! Það er gaman að þessu. Ég stunda meira sjálfbært en þetta og stefni á að gera lífið hér ennþá meira sjálfbært. Ég lít á þetta sem mitt verk enda er ég ellilífeyrisþeginn og kall þar að auki. Hins vegar var ég mjög þakklátur í fyrrasumar þegar ég sá að Susanne var komin út að grænmetinu og þar baukaði hún við að hreinsa burtu allt illgresi. Svo gerði hún tvisvar sinnum og eins og ég segi; þá var ég henni þakklátur.
 
Það er misjafn áhuginn. Stundum er ég að tala um skóginn við Susanne og svo átta ég mig á því að hún hlustar á mig kannski bara af því að hún vill mér vel. Ungur nágranni minn stóð við grjótgarðinn sem er milli lóðanna bæði hjá mér og honum. Við tókum tal saman og það var svolítill spölur á milli okkar. Við hlið hans var sjálfsáin skógarplanta, kannski einn og hálfur metri á hæð. Hvaða planta er þetta? spurði ég hann. Hann horfði nokkur andartök á plöntuna og sagði svo rólega: "Þetta er tré". Svo gekk ég alla leið og komst að því að þetta var silfurreynir. Í haust fékk ég lánaðan hjá honum langan stiga og hann vildi koma með mér og halda á stiganum með mér. Þú verður nú hissa þegar þú sérð hvað ég ætla að gera, sagði ég. Nei, svaraði hann, ég er löngu hættur að vera hissa á uppátækjunum þínum. En aðalatriðið er að Lars er afar góður strákur.
 
 
Aftur út á Gautaskurð.
 
En lífið er meira en bara það sem skeður á Sólvöllum og hér erum við aftur kominn í siglinguna á Gautaskurðinum. Hann er 390 km langur og þar af eru 87 km grafið, sprengt í klöpp eða hreimlega hlaðið. Annað eru ár og vötn sem skurðurinn tengir saman. Ef að er gáð má vel greina að landið hægra megin við skurðinn er mun lægra en vatnið í skurðinum. Fróður maður sagði mér að einu verkfærin sem hver maður hafði við gröftinn hefðu verið haki, skófla og hjólbörur. Og að hugsa sér; hann er hátt í 200 ára.
 
 
Það er auðugur og fallegur gróður meðfram Gautaskurði. Tréð næst lengst til vinstri er ekta hengibjörk. Tvær slíkar eiga að bætast við í Sólvallaskóginn í vor. Ég má ekki gleyma að panta þær í mars og þær eiga að vera heldur hærri en ég þegar ég kaupi þær. Þess vegna verð ég að panta þær.
 
Nóg að sinni en ég stefni á að skrifa meira um sjálfbærni
RSS 2.0