Helgarlok

Nú er ég óttalega fátækur í anda og lúinn enda var síðasta nótt eiginlega vinnunótt sem þýðir að ég fékk ekki svefninn sem ég þarf, það er að segja átta tíma eins og börnin. Það var þó bót í máli að fólkið sem ég var að vinna með þennan sólarhring, fólkið sem á þá ósk að verða betri manneskjur, sagði svo margt fínt sem þeir einir geta sagt sem tala um þrár sínar og væntingar beint frá hjartanu. Ég er í startholunum núna að stinga mér í bólið og ég veit að félagi minn lokbrá verður nálægur.

En áður en ég leggst á koddann verð ég að segja frá því að hún Valdís kona mín sat ekki auðum höndum meðan ég var þennan sólarhring í vinnunni. Hún hefur komið svo miklu vel fyrir hér heima og enn einu sinni sorteraði hún í bláa IKEA haldapoka og innihald þeirra á að fara á haugana. Þeir eru þegar komnir í bílinn. Dag frá degi líkjast Sólvellir meira og meira heimili. Og hlýtt var að koma heim, það logaði mjúklega í kamínunni, og ég fékk vöfflur með rjóma í verðlaun fyrir að skila mér.

Það falla til önnur verkefni hér en það gerði á Mejramvägen í Örebro. Ég bar inn við úr birgðageymslunni sem kemur til með að nægja til upphitunar í heila viku og maturinn ferfætlinganna, epplin og gulræturnar, er kominn á sinn stað úti í náttmyrkrinu og bíður matargestanna. Ruslatunnan var líka að mestu á kafi í ruðningnum við veginn og hún er tilbúin til tæmingar þegar sorpbíllinn kemur eldsnemma á þriðjudagsmorguninn.

Við fylgdumst áðan með lokasprettinum í 50 km skíðagöngu þar sem svíinn Johan Olsson fékk brons og þar með eru svíar búnir að fá ellefu verðlaun. Valdís fylgist vel með þessu og gefur mér skýrslu og við hrífumst með svíunum þegar verðlaunin eru afhent og hljómsveitin leikur Du gamla du fria.

Í kvöld hefur snjóað og veðurfræðingur var að segja frá því áðan að veðrið sem hefur skekið til Frakkland komi til með að gefa okkur meiri snjó af alsnæktum sínum. Gott að snjórinn er runninn af Sólvallaþakinu. Þá þolið það mikla snjókomu ef svo skyldi fara.

Fátækur var ég í anda sagði ég í byrjun og nú er mál að linni enda býst ég við að Óli lokbrá sé orðinn óþolinmóður. Kannski draumar næturinnar verði með þeim fallegri, hver veit?

Kálfafell og Hrísey

Í gærkvöldi, all seint, var ég að spjalla við hann Markku á netinu. Þá barst í tal hvaðan ég kæmi og þar nefndi ég Kálfafell og Kirkjubæjarklaustur. Augnabliki síðar fékk ég þessa slóð frá Markku http://bit.ly/9ctSIZ 
og þegar ég klikkaði á slóðina birtist Kiskjubæjarklaustur. Kálfafell fannst ekki en ég fylgdi þjóðvegi 1 austur frá
Kirkjubæjarklaustri og viti menn; Þar birtist allt í einu bæjarnafnið Kálfafell en all langt vestan við sjálfan bæinn. En auðvitað fann ég bæinn líka og síðan Djúpá. Djúpá fylgdi ég inn alla Kálfafellsheiði og inn að jökli. Kálfafell og Kálfafellsheiði er mér hugleikið og fannst mér afar fróðlegt að sjá staðhætti þar frá þessu sjónarhorni. Ég sá meira að segja Lundinn hennar Fríðu systur greinilega. Ég set þetta inn á bloggið til gamans ef einhver skyldi hafa áhuga.

Svo töluðum við Markku líka um Hrísey og Sólvallagötu 3 og stuttu síðar fékk ég þessa slóð frá honum http://bit.ly/9zquZg . Og hvað haldið þið; undir pílunni var Sólvallagata þrjú og gaf þar að líta handverkin mín frá 1972 og 1973 og reyndar einhver ár þar á eftir. Svo er auðvitað hægt að skoða alla Hrísey út frá Sólvallagötu 3 ef einhver vill. Ég er engin tölvufrík en þegar ég er í sambandi við Markku er reyndar gaman að þessu. Ég geri ráð fyrir að hann hafi gaman af því að sjá að ég legg þetta út á bloggið öðrum til gamans. Hann les nefnilega oft bloggið mitt þessi finnskættaði maður sem aldrei hefur lært íslensku en hann hefur fundið leið til þess eigi að síður.

Í dag vorum við Valdís inn í Örebro að tæma útigeymsluna okkar og bílageymsluna. Og alltaf blöskrar okkur. Það er eins og það séu engin takmörk fyrir því hvað hefur safnast upp. Einstaka hlutir eru síðan á Bjargi í Hrísey og margir frá Sólvallagötutímabilinu. Nú gengum við lengra í því að henda eða senda í Mýrurnar en nokkru sinni fyrr. Hlutir sem við höfum lagt til hliðar nokkrum sinnum í 30 til 40 ár án þess að koma að gagni létum við loksins flakka núna. Eins og venjulega vorum við helmingi lengur að þessu en við reiknuðum með, einfaldlega vegna þess að þetta var mikið meira en gátum ímyndað okkur. Það er svo ótrúlegt hvað hægt er að þjappa hlutunum saman á mörgum árum. En nú er það búið, allt húsnæði sem við látum af hendi um mánaðamótin er tómt.

Áður en við fórum til Örebro í morgun fór ég með óhug upp á þak til að moka burtu snjó. En það var ekki undan því komist og þetta er í annað sinn í vetur sem ég moka þakið. Í þetta skiptið mokaði ég einungis af mæninum og þar sem það var frostlaust aldrei slíku vant hafði það þau áhrif að snjórinn neðan við mæninn tók að renna sjálfkrafa af þakinu með miklu brauki og bramli. Eiginlega var eins og það væri komið þrumuveður. Um daginn mokaði ég því sem ég náði til neðan frá og þorði ekki upp á þakið. En nú er þakið mikið léttara og ég fer í vinnu um hádegi á morgun áhyggjulaus af Sólvallaþakinu.

Að loknu hangikjöti

Já, það var ekkert annað en það að Valdís lumaði á hangikjöti sem angaði af hér um hálfa sveitina þegar hún sauð það í dag. Það er að komast á skipulag hér heima, eða alla vega er það gríðarlegur munur frá því kvöldið þann 23. febrúar þegar búið var að hrúga öllu inn á hálfgerðum hlaupum. Það má segja að það hafi skeð mest í dag og það var það sem Valdís var farin að skynja þegar hún skellti hangikjötinu í pottinn um miðjan dag.

Ég verð að segja smá sögu af mér frá þeim 23. eftir flutningana og við vorum orðin dauð þreytt og ég jafnvel hálf afundinn. Ég þurfti að renna inn til Örebro og þess vegna stakk Valdís upp á því að ég keypti hamborgara handa okkur svo að ekki þyrfti að elda kvöldmat. Jú jú, ég tók það að mér og þegar ég var búinn með önnur erindi í Örebro fór ég i Max hamborgara í Marieberg. Þegar ég kom inn á Max komst ég að því að ég kunni ekki að kaupa hamborgara! Þetta var í allra fyrsta skipti sem ég gerði það einn enda borða ég aldrei hamborgra þegar ég er einn. Stúlkan sem afgreiddi mig fann þetta á sér og var mér þægilega hjálpleg. Án þeirrar hjálpar hefði ég ekki komið heim með sumt af því sem fylgdi í verðinu, svo sem drykk, sugrör og servíettur sem kaupandinn á að sjá um sjálfur. Svona lítill heimsmaður er ég.

Á leiðinni heim kom sjálfur konungur skógarins, stærðar elgur, hægt en ákveðið út á veginn skammt framan við mig. Þá var ekki um annað að ræða en bremsa harkalega. Og þarna rétt fyrir franman mig stóð svo elgurinn salla rólegur, horfði fyrst til hægri móti bílnum og síðan til vinstri, og þar með sá hann að allt var í lagi og hann gekk í rólegheitum yfir veginn og hvarf inn í skóglendi.

Eftir kvöldverðinn tókum við Valdís svolitla hvíld í djúpu stólunum á Sólvöllum og horfðum á vetrarólympíuleika. Fljótlega dottaði ég. Eftir það var komið að kvöldverði fjórfætlinganna úti í vetrinum og kvöldrökkrinu. Epli voru brytjuð ásamt gurlrótum og svo var þessu dreift í snjólausa svæðið við innkeyrsluna hjá bílnum. Ef að vanda lætur hverfur þessi kvöldverður um ellefu leytið. Það er hart í ári hjá þessum dýrum, ekki vegna kulda, heldur vegna snjóþyngsla og erfiðleika við að ná fæðu.


Það eru margar svona slóðir hér í kring um þessar mundir og eftir þessum slóðum taka dýrin sig út á rudd svæði,í fyrsta lagi á kvöldin, og það eru margir sem brytja niður epli og gulrætur á kvöldin og gefa á ákveðnum stöðum. Elgurinn sem ég talaði um áðan hefur sjálfsagt verið svangur líka.


Við hlökkum til vorsins en óneitanlega er þessi veröld falleg líka. Það var sterkt sólskin þegar þessi mynd var tekin.

Þessi sígilda mynd móti Kilsbergen
Og einu sinni enn þessi gamalkunna mynd til norðnorðvesturs móti Kilsbergen sem sjást í fjarska.

Til gamans þetta hér sem ég birti líka í gær. Sólvellir eru undir oddinum á grænu pílunni.

 

http://bit.ly/Solvellir

Það er hann Markku, góður maður og góður finni, sem hjálpar mér með svona. Ég er voða lítill tæknimaður.

Fjugesta er höfuðstaðurinn

Í dag var það staðfest að svo mikill snjór sem nú er í Örebrosýslu hefur ekki verið síðan 1954. Þetta hef ég eftir grandvörum manni og snjóvini sem hafði lesið það í Örebroblaðinu í morgun. Í gær sagði ég á blogginu að þetta væri mesti snjór í 33 ár en það er gott betur, 66 ár er það ef mér reiknast rétt.

Það kom ekki almennilega fram hjá mér í gær að þá vorum við raunverulega flutt að Sólvöllum og sváfum hér í nótt. Í dag urðum við svo formlega skráð til heimilis í Lekebergshreppi. Þegar flutningamennirnir Ronny og Kalli voru búnir að lesta flutningabílinn heima í Örebro í gær var bara samtíningur eftir sem við ætluðum svo að sækja í dag og ganga endanlega frá. En samtíningurinn varð býsna drjúgur. Við hlóðum í bílinn eins og frekast var unt en það dugði ekki til. Það eru einir tveir eða þrír fólksbílsfarmar eftir ennþá. Við vorum að vísu búin að fá lánaða geymslu hjá húsfélaginu sem við getum haft fram eftir mánuðinum og þar er þetta umframdót núna. En alla vega ég varð alveg undrandi. Það var hreinlega eins og draslið rynni út úr innstungum og loftræstingaropum eða hvaðan eiginlega í ósköpunum kom það. Við ætluðum bara að skreppa og kippa þessu í liðinn, skreppa svo í bæinn og fá okkur kaffi og koma svo til baka klukkan sex og hitta manninn sem veitir húsfélaginu forstöðu. Að því búnu væri mál að fara heim og hvílast. En það varð ekkert kaffið og ekki var glösunum eða bollapörunum til að dreifa svo að við gætum þó drukkið vatnsglas. Það var bara að láta sig hafa það að drekka úr lófa sér og þurrka hendurnar með klósettpappír á eftir.

Skömmu áður en ég fór til Svíþjóðar í febrúar 1994 skrapp ég norður til að tæma Sólvallagötuna endanlega. Það var sama saga þá, það var eins og síðustu hreyturnar væru endalausar. En að lokum var ég búinn að troða öllu í gáminn og fór ég þá inn til að fá mér smá næringu, þá síðustu í því húsi. Nú voru engin borð, sæti eða áhöld til neins. Ég var með brauð, álegg og eitthvað gossull sem ég ætlaði að láta mér nægja. Ég settist á gólfið í eldhúsinu og hallaði mér upp að vegg, tók fram nestið og ætlaði að fá mér fyrstu brauðsneiðina. Þá komst ég að því hvernig það er að vera án allra þæginda. Ég var sem fatlaður og alveg ráðalaus. Að lokum fann ég skrúfjárn sem ég notaði til að reita sundur brauðið með og rífa upp áleggsumbúðirnar og svo hófst borðhaldið. Þetta var með allra frumlegustu máltíðum sem ég hef tekið þátt í. Ég get alveg trúað að þetta skrúfjárn fylgi ennþá Sólvallagötu 3 í Hrísey því ég held að ég muni það rétt að ég hafi skilið það eftir á hillu í geymslunni.

Nú er orðið áliðið kvölds og þessi lokafrágangur sem fór svo fram úr áætlun gerði okkur bæði þreytt. Nú er mál að ég fari að leggja mig. Valdís er þegar komin undir sængina og ég finn fyrir öfund. Að lokum ætla ég að koma hér á framfæri nýju heimilisfangi og þeim símanúmerum sem eru á boðstólum fyrst um sinn.

Västanbäck 5209 D
716 92 Fjugesta

Farsími Valdís   +46 70 5385 631
Farsími Guðjón +46 70 5385 491

Fjugesta er höfuðstaðurinn í Lekebergshreppi

Valdís er búin að raða englunum sínum aftur í skápinn á nýna heimilinu
Valdís er búin að raða englunum skínum í skápinn á ný á nýja heimilinu

Og hér getið þið séð nákvæmlega hvað Sólvellir eru

http://bit.ly/Solvellir
http://bit.ly/Solvellir

Græna pílan bendir beint ofan í svart þakið

Ja, af hverju ekki?

Ein minning hefur bergmálað í höfðinu á mér mest allan daginn og þó að ég hafi trúlega bloggað um þetta áður læt ég það fara aftur. Það var í september 1993 og ég var út á lóðinni heima við Sólvallagötuna í Hrísey eitthvað að bardúsa. Valdís kom út í dyrnar og sagði að Ingólfur Margeirsson hefði hringt og spyrði eftir mér. Ég gekk inn og eftir að við höfðum við heilsast sneri Ingólfur sér þegar að erindinu. Hann sagði að ég hefði talað um það við sig að hugsa til mín ef hann vissi um vinnu sem gæti hentað mér, en við Valdís vorum þá þegar með það í huga að flytja frá Hrísey. Ingólfur spurði mig nú hvort ég gæti ekki hugsað mér að flytja til Svíþjóðar vegna atvinnutækifæris þar. Ég varð mjög undrandi en sagði ekki nei og leit á Valdísi sem fylgdist með samtalinu. Ég sagði við hana að hann spyrði hvort við vildum flytja til Svíþjóðar þar sem ég gæti hugsanlega fengið vinnu. Valdís sagði ekki heldur nei og þar með sagði ég Ingólfi að við vildum hugleiða þetta þó að hugmyndin virkaði all galin. Fimm mánuðum seinna fór ég til Svíþjóðar og Valdís kom þremur mánuðum seinna og við erum hér enn. Það vakti furðu mína að strax meðan á símasamtalinu við Ingólf stóð að Valdís aftók þetta ekki.

Þetta voru mikil þáttaskil í lífi okkar og stundum velti ég því fyrir mér hvort ég væri orðinn galinn. Ég man til dæmis vel eftir því þegar þotan var á leið að flugstöðvarbyggingunni á Arlanda og ég horfði niður í blá ljós í brautinni að ég velti því fyrir mér hvað ég væri eiginleg að gera, þetta væri alger bilun, en væri þó gott tækifæri til að heimslkja Rósu og Pétur sem þá voru búin að vera hálft ár í Stokkhólmi. Þegar ég svo hitti þau á flugvellinum á Arlanda fannst mér sem ég væri verulega bjánalegur og til að bæta aðeins úr því spurði ég hvar blaðamennirnir væru. Núna eru ný þáttaskil þar sem við erum búin að selja íbúðina í Örebro og erum flutt tímabundið í sveitina.

Veðráttan hefur ekki leikið við okkur varðandi þennan búferlaflutning. Það var mikið langt frá því þegar við skrifuðum undir sölusamning þann 17. desember að við yfir höfuð mundum lenda í að flytja í þessari vetrarveðráttu í lok febrúar. Menn segja núna að svona veðrátta hafi ekki komið í 33 ár og svo kom hún þegar við Valdís síst vildum. Við fengum hann Mikka bónda til að koma á stóru dráttarvélinni sinni og ryðja aðeins í kringum innkeyrsluna. Hann vildi ekki ryðja heim að húsinu þar sem jörð er þýð og það hefði getað orðið jarðrask. Svo töluðum við um veðrið eins og menn virkilega gera hér um þessar mundir. Að lokum sagði Mikki; en þú veist hvernig sumarið er hér hjá okkur, mundu það og að sumarið er á leiðinni. Hann vildi mér vel með þessum orðum.

En svo var eitt sem ég átti erfitt með að segja frá, að vera að flytja inn í vatnslaust hús. Það var hallærislegt. Vatnsinntakið var frosið. Í gær var ég lengi hér og barði mig niður í frerann bakvið húsið þar sem inntakið er. Svo setti ég þar rafmagnsofn í holuna og lét hann blása í átt að inntakinu í nokkra klukkutíma en ekkert skeði. Á níunda tímanum í gærkvöldi fór ég heim með lafandi skottið og var ekki sérstaklega stoltur. Strax þegar við komum hingað í morgun setti ég ofninn á að nýju og hann hefur blásið allan daginn. Með jöfnu millibili hef ég farið að krananum og vonað og prufað en ekkert skeði. Núna 20 mínútur fyrir ellefu fór ég að krananum og hafði vatn í ausu sem ég hélt upp við kranann og ætlaði að sjá hvort það kæmu loftbólur. Það komu engar loftbólur en hins vegar vatnsgusa sem ýrðist út um allan eldhúsbekkinn. Við yngdumst upp um fjölda ára á einni sekúndu. Það var ekki hallærislegt lengur að hafa flutt í sveitina. Það hefur verið mikið vandamál í Svíþjóð þetta með frosin vatnsinntök.


Það var hellings vinna við að moka sig að geymslu og viðargeymsludyrum en góð áreynsla í hreinu lofti.


Valdís var að kíkja eftir plássi í þessari geymslu og þarna er hún að horfa á snjóinn í stóru Sólvalllaeikinni


Mikki búinn að ryðja innan við innkeyrsluna svo að flutningakallarnir gætu athafnað sig.


Svona er það vítt og breytt um alla Örebro þó að búið sé að flytja nokkur hundruð þúsund rúmmetra af snjó á bílum og dráttarvélum út fyrir borgina.

Sólin skín björt

Sólin skín björt í Lekebergshreppi núna um hálf þrjú leytið þriðjudaginn 23. febrúar 2009. Það eru stór þáttaskil hjá okkar Valdísi í dag, en núna þennan eftirmiðdag er ekki tími til að blogga. Ég vona að kvöldið verði svolítið gjöfult á tíma og ég geti setst niður og skrifað svolítið.

Frekar en að gera ekki neitt

Frekar en að gera ekki neitt get ég reynt að blogga í kvöld þó að ég sé svo gersamlega tómur í andanum. Það stendur yfir undirbúningskeppni fyrir val í söngvakeppnina og ég nenni ekki almennilega að hanga yfir því, hef heldur ekki gert það hingað til. Það eru orðin mörg ár síðan Grétar Örvarsson og Sigga Beinteins kepptu fyrir Íslands hönd og mér fannst þau svo fjári góð að ég var alveg á því hreina að þau mundu vinna keppnina. En þau unnu ekki keppnina og jörðin hélt samt áfram að snúast. Að sama skapi vona ég að þeim sem annast sænska lagavalið fyrir keppnina núna takist að ljúka því þó að ég sitji ekki í sófanum.

Það lengsta sem ég hef komist út úr húsi í dag er út í geymslu sem er eina tólf metra frá útihurðinni. Mér datt í hug á tímabili að drattast út í bílskúr líka og var lagður af stað með þar til gerða snjóskóflu til að moka frá bílskúrshurðinni. Þegar ég var kominn hálfa leið þangað, eina 25 metra, sneri ég við og stillti skóflunni aftur við útidyrnar og kom mér til baka inn. Erindið þangað var að raða í bílinn miklu magni af drasli sem við höfum tínt frá í dag til að henda en ég skipti um skoðun á miðri leið. Nú erum við komin svo langt að við erum búin að fara í gegnum allt, bæði hér innan húss og í geymslunni, og það verður ekkert meira að henda í bili.

Þetta kemur oft upp í umræðunni hjá mér um þessar mundir og lítur því ekki út fyrir að ég hafi mikið til að tala um annað en að flytja, henda og gef í Mýrurnar. Það er kannski svo í kvöld að það er ekki svo mikið annað á takteinunum, enda hef ég verið í eitthvað lágri stemmingu í dag. Það er þó venjulegra að ég eigi erfiðara með að halda mér saman. Í dag fundum við eina möppuna til sem er með alls konar efni sem búið er að tína frá á mörgum árum og leggja til hliðar. Svo var þessi mappa gleymd og allt sem í henni var. Nú tókum við möppuna upp úr bananakassa og veltum fyrir okkur hvað væri þarna á ferðinni. Ég fletti af handahófi og fann nokkur atriði frá löngu liðnum árum. Ég fann til dæmis úrklippu úr blaði þar sem ég hafði gert grein fyrir árinu 1992 frá mínum bæjardyrum séð. Og það sem ég hef hef verið mikill heimspekingur á þessu herrans ári, ekkert smá. Mér datt í hug að setja greinina á bloggið. Þessi mappa fær að tilheyra fjölskyldunni áfram.

Frekar en að gera ekki neitt er ég nú búinn að skrifa nokkrar línur. Það er hollt að gera það, sérstaklega ef ég er í lágri stemmingu. Þá næ ég stemmingunni upp. Keppninni er lokið og aðal sigurvegararnir voru fjórar stelpur rétt innan við tvítugt, ósköp fallegar og skemmtilegar og léku á alls oddi. Ég hlýddi Valdísi og mætti í sófann til að sjá þær flytja lagið sitt og svo var bara eftir að skrifa þessi lokaorð.

Nokkur orð frá Snælandi

Þegar ég kom út í Vornesi upp úr kl. sex í morgun var komið 15 sem nýsnævi á það sem fyrir var. Ég tók strákústinn við dyrnar og ýtti honum á undan mér til að fá ekki allt of mikinn snjó niður í uppháu gönguskóna mína. Þegar ég hafði svo opnað þær dyr sem ég þurfti og hitt nokkra sjúkllinga sem voru komnir út á dyrapallana, þá liðuðust fallegar slóðir milli húsanna. Ég geri þetta alltaf þegar snjóað hefur á næturnar. En þessar fallegu slóðir mína áttu ekki langa lífdaga. Skömmu fyrir klukkan sjö kom hann Roland á dráttarvélinni með snjóruðningstönnina í bardagastöðu og á skammri stundu höfðu listaverkin mín lifað sitt fegursta.

Ég leyfði mér að dreyma um að það hefði snjóað minna á Örebrosvæðinu en þegar ég kom þangað var það bara staðreynd að þar hafði jafnvel snjóað meira en í Södermanland. Valdís hafði eins og kona af sönnu víkingakyni verið iðin við kolann hér heima. Það voru stórir pokar og kassar tilbúnir til brottfarar. Það var ekki eftir neinu að bíða, leið mín lá með þessa poka og kassa í Mýrurnar og á haugana. Síðan fórum við á Sólvelli.

Mitt hlutverk þar í dag var að moka snjó af geymsluþaki sem ég var orðinn hræddur um. Snjórinn á þakinu var orðinn rúmlega 60 sm djúpur og vel pressaður neðst. Þakið var farið að bogna inn enda er það alls ekki gert úr garði sem traust þak. Konan af víkingakyninu lét sér ekki fallast hendur meðan á snjómokstri mínum stóð. Hún raðaði í kommóðuskúffur, hengdi á herðatré, raðaði bókum á hillur og enn einu sinni tíndi hún helling í poka sem eiga að fara í Mýrurnar og slatta sem á að fara í sorteringu á haugunum. Ja -þvílík hreinsun Valdís.

Á morgun förum við varla á Sólvelli þar sem spáð er 30 til 40 sentimetra nýsnævi og fólki eindregið ráðlagt að halda sig heima. Það er líka á nógu að taka hér heima. En nú fer jafnvel fólki af víkingakyni að blöskra snjórinn. Það er eins gott að það er ekki stormur með þessari snjókomu. Þá væru víða hræðilegir skaflar. Fuglar, dádýr og hérar eru farin að dragast að húsum þar sem fólk gefur gjarnan gulrætur og epli. Við eitt hús sáum við átta dádýr þegar við vorum á leiðinni á Sólvelli. Skýrslugerð minni lýkur hér með á þessum degi. Það er ekki mikill tími aflögu þessa daga en eftir mánaðamótin fæ ég tíu daga frí frá vinni. Ég vænti þar góðra daga.

Valdís hefur sett inn svolítið af myndum að undanförnu http://www.flickr.com/photos/valdisoggudjon/ Góðar stundir og kveðjur frá Örebro

Mikið verður gaman þá

Valdís var að fara yfir fimm daga spána og það er engin breyting fyrir utan að það á að verða kaldara um helgina. Nú er ég farinn að hlakka virkilega til vorsins og öllu því sem þá verður að fylgjast með. Ég er bjartsýnn á vorið þegar snjóa leysir af frostlausri jörðinni. Í augnablikinu er heilmikið annríki hjá okkur vegna búferlaflutninga og  atvinnu og enginn tími fyrir skriftir og hugarflug. Síðar koma góðir ellilífeyrisþegadagar og þá verður mikið um leiki og dýrðir. Mikið verður gaman þá.

Töfrakona

Á leiðinni heim frá Vornesi í morgun kom ég við hjá töfrakonu í Vingåker. Þetta er fyrrverandi hjúkrunarfræðingur sem síðar fékk þá köllun að gera eitthvað fyrir fólk til að forða því frá veikindum eða alla vega að fresta því að fólk veiktist. Því lærði hún sjúkranudd og nálastungur. Hún var dugleg þessi kona við að gera mér lífið bærilegra á síðustu tveimur árunum fyrir mjaðmaaðgerðina. Síðast þegar ég fór til hennar og hafði beðið um nuddtíma að vanda, spurði hún hvort ég vildi ekki prufa nálar líka sem ég jú þáði. Við þá meðferð lagaist ég mikið um tíma og varð mikið hressari. Nú vildi ég prufa þetta aftur til að hressa mig eftir svartasta skammdegið og eins vegna þess að hryggjarliðir milli herðablaðanna vilja festast og því ekki að athuga hverju hún getur komið til leiðar.

Hún sallaði á mig töluverðu af nálum og allar ullu smá rafmagnsstuði og sumar meiru, ein svo hressilega þegar hún stakk í annan hælinn að fóturinn kipptist við og nálin losnaði úr aftur. Ég sofnaði á bekknum að því er virðist því að mig dreymdi að ég væri lagður af stað frá Vingåker til Örebro og allt í einu hljóp hvítur héri yfir veginn spölkorn fyrir framan bílinn. Hún fiktaði eitthvað við hárið aftan við gagnaugun og þá fann ég fyrir rafmnagni kringum nál sem stóð í hvirflinum og svo gæti ég haldið áfram. Nú ætti að vera auðskilið hvers vegna ég tala um töfrakonu.

Engan sá ég hérann á leiðinni til Örebro en þess meira fólk var úti á Hjälmaren að pimpla. Það hefur gert smá él að undanförnu þannig að snjórinn helst alltaf jafn hvítur. Það er snyritilegt landið en erfitt hlýtur það að vera fyrir þann aragrúa minni dýra sem þar berjast fyrir lífi sínu. Smádýrn eins og mýs lifa víst góðu lífi undir snjónum þar sem jörð er þýð undir þekjunni. Viss óvinsæl skordýr lifa þar líka góðu lífi og munu heimsækja okkur í fullu fjöri síðar ef ekki kemur eitthvað frost eftir að snjóa leysir.

Húsið sem við byggðum í Hrísey er 340 rúmmetrar. Snjóhaugarnir vestan við Örebrú sem búið er að hreinsa af götum í borginni eru hins vegar 300 000 rúmmetrar. Langar lestir af vörubílum og dráttarvélum með stóra vagna eru í viðstöðulausum ferðum að og frá borginni frá morgni til kvölds við að flytja burtu snjó svo að það verði pláss fyrir meiri snjó þegar næst snjóar. Það er reiknað með því sem vísu að það muni snjóa meira.

Meðan þessir snjóflutningar standa yfir baukum við Valdís við að sortera hafurtaskið okkar eins og fyrri daginn. Sumt fer í viðeigandi gáma á haugunum, annað til hjálpræðishersins og enn annað í kassa sem eiga að halda utan um það þangað við pökkum því upp á nýju heimili. Í þessu öllu tölum við talsvert um ferð til Finnlands, eða langt upp í Norðurland, rútuferð til Noregs eða fara einn rúnt með ferju við vesturströnd Noregs, Hurtigruten. Það má kíkja á það hér:

http://www.hurtigruteninpictures.com/

Kannski væri skinsamlegra að nota peningana þannig í staðinn fyrir að reyna að kaupa hamingju gegnum dauða hluti sem valda svo fyrirhöfn þegar þarf að henda þeim eða gefa til hjálpræðishersins.

Ad vera gódur félagi

Nú er lag á, íslenska stafrófid sem ég hafdi fengid á thessa tölvu hér í vinnunni er horfid. Hvad gera baendur thá? Ég aetladi ad setja thad inn án hjálpar en thad gekk ekki enda eru öll kerfi í thessari tölvu mér aldeilis ókunn. Ég er einn starfsmanna á stadnum og aetla ekki ad velta mér upp úr thessu, heldur skrifa vid thaer adstaedur sem mér standa til boda akkúrat núna. Kannski ég hóti ad haetta hér ef ég fae ekki íslenska stafrófid aftur! Nei, ég er enginn ofstopamadur, ég geri bara nýjan samning.

Alkohólistarnir mínir sitja allir á fundum sem their sjá um sjálfir frá klukkan sjö til átta. Hugsid ykkur, 20 alkohólistar og fíkniefnaneytendur sem sitja á sjálfstaedum fundum og thad er svona líka fín kyrrd í húsinu. Fyrir mörgum árum var ég spurdur hvort ég vaeri ekki of meinlaus í munninum til ad stunda thessa vinnu. Gód spurning thad. Mín vinna gengur ekki út á ad munnhöggvast vid fólk, mín vinna gengur út á ad vera gódur félagi sjúklinganna án thess ad vera persónulegur vinur, sjá um ad reglum sé framfylgt og rétta út hendina til hjálpar theim sem vilja taka á móti hjálpinni. Einnig til ad fraeda og gefa von. 12 spora programmid passar fyrir alla. Thad passar fyrir alla sem innst í hjarta sínu vilja haetta neyslu.

Eiginlega aetladi ég ekki ad blogga en fyrr en vardi var thetta komid á blad. Ég laet thad thá flakka.

Enn um snjó

Ég vík út af framhaldsefninu um heiðarleikann í dag. Ég hef verið að hnoðast í öllu mögulegu og ekki getað fest hugann við háleit markmið.

En fyrst. Hún Valdís kona mín er slæm í hné, í sinafestingum segir læknirinn, og það er ekkert að gera grín að. Hún fer aftur til læknis á morgun og hann ætlar að sprauta einhverju galdralyfi í sinafestingarnar og við vonum að þá verði þáttaskil.

Ég er búinn að vera með hálfgert volæði í nokkra daga yfir snjóþyngslunum á Sólvallaþakinu, gamla hlutanum. En volæði skal maður mæta með myndugleik og í dag skellti ég mér á Sólvelli með mjög ákveðnar hugmyndir um það hvernig ég leysti þetta mál. Svo gerði ég það. Eftir á var ég himinlifandi og áhyggjulaus þar sem ég settist niður í Sólvallamatkróknum og drakk nýtt og gott kaffi og át súkkulaðikex með. Ég er búinn að játa lúxuslífið fyrir Valdísi. Nú er klukkan hálf tíu að kvöldi og ég finn ennþá fyrir léttinum eftir að hafa losað þakið.


Þarna vinstera megin er snjódýptin 40 sm en í lægðinni og til hægri 60 sm. Ég held eftir á að þunginn hafi ekki verið eins mikill og ég hélt. Ég er samt glaður. Það er spáð frekari snjókomu og nú má alveg snjóa mín vegna.


Það eru bara snjóhaugar eins og í gamla daga. Þetta er líka á Sólvöllum. Þegar ég kom svo inn til Örebro kom ég við í aðalbækistöðvum Mammons í Örebro, Marieberg, til að gera innkaup fyrir heimilið. Þar horfði ég á snjóhaugana sem búið var að ryðja upp og ég skrökva því ekki, þeir líktust snjóhaugum bæði í Hrísey og á Akureyri eftir stórhríðar þegar búið var að hreinsa götur og plön. Ég er nokkuð góður að giska á í metrum og snjóruðningarnir voru örugglega á fjórða meter sums staðar.

Aðeins um bílinn okkar. Við leigðum kerru á laugardaginn var og eftir það hefur verið eitthvað bévítans vesen á rafkerfinu. Ég kom því við á Fordumboðinu í Marieberg í dag og talaði við strákana á verkstæðinu. Við höfum verið dálítið óheppin með okkar annars góða bíl. Ég nenni ekki að rekja neina bilanasögu en hann Gústav móttökustjóri á verkstæðinu veit um þetta og hann hefur bætt mér þetta upp á svo margan hátt að ég veit varla lengur hvor hefur tapað meira á þessu, við eigendurnir eða verkstæðið. Ég hef getið Gústavs áður á blogginu sem mjög þægilegs manns. Í dag bar ég bílaáhyggjur mínar upp við annan mann sem studnum er í hlutverki Gústavs. Sá hafði mikið að gera og sagði mér að kaupa perur og svo gæti ég fengið lánað skrúfjárn á verkstæðinu og bjargað þessu sjálfu. Svo sá ég að þeir mættust eitt augnablik, þessi maður og Gústaf. Síðan kom hann til mín og sagði að sér væri svo sannarlega skylt að hjálpa mér. Takk Gústav hugsaði ég.

Ég er búinn að skrifa endirinn þrisvar sinnum en hann glatast alltaf svo að nú gefst ég upp.

Að vera heiðarlegur . . .

Fyrir nokkrum árum árum hófst framhaldsþáttur í sænska sjónvarpinu sem hét Sumarhúsið. Hann fjallaði um gamalt og lúið hús sem nokkrar manneskjur tóku sig til við að lagfæra og endurnýja og komu þarna fram ýmsar hugmyndir og aðferðir við að koma gömlu húsi í gott stand. Þessum þáttum stjórnaði maður sem heitir Ernst. Þegar þessi þáttaröð hófst vorum við einmitt að vega og meta hvað við vildum gera fyrir okkar sumarhús og við tókum hann upp til að geta lært af honum síðar. Ernst var virkilega skemmtilegur í þessum þáttum þó að hann væri fram til þess tíma algerlega ókunnur sem sjónvarpsmaður. Svo liðu misserin og okkur fannst sem Ernst yrði drjúgur með sig og við misstum að stórum hluta áhuga á honum vegna þessa. Í framhaldinu af framhaldsþáttunum um Sumarhúsið fór Ernst að koma fram í öllu mögulegu sjónvarpsefni af ólíku tagi.

Fáeinum árum eftir að Ernst fyrsta sinni birtist á skjánum var haft viðtal við hann við eitthvað hátíðlegt tækifæri og líklega hefur það bara verið á síðasta ári. Hann var meðal annars spurður eitthvað í þá áttina hvaða verkefni hann teldi sig eiga eftir að uppfylla í lifi sínu. Þarna sat þessi liðlega fimmtugi maður alvarlegur, þægilegur, án allra látaláta og gaf svo ótrúlega falleg svör við spurningum stjórnanda þáttarins og það var allt svo fölskvalaust og ekta. Hvað skyldi það svo hafa verið sem honum fannst mikilvægt að ljúka áður en hann yfirgæfi þennan heim? Jú, honum fannst mikilvægt að honum tækist að færa yfir til barna sinna og verðandi barnabarna, eða hvernig hann nú orðaði það, allar góðar hefðir og venjur sem hefðu verið í góðu gildi hjá kynslóðum liðinna tíma, þær hefðir og venjur sem hans fólk hafði gefið honum í veganesti. Svo virtist sem honum þætti hann ekki vera búinn að ljúka þessu á þann hátt sem honum bæri, sérstaklega hvað ófæddu barnabörnin áhrærði.

Ég man vel hvað okkur Valdísi fannst við sjá þarna aðra hlið á þessum manni en við hefðum veitt athygli fram til þessa. Eftir þetta hefur mér staðið nákvæmlega á sama um hlátrasköll hans sem oft heyrast áður en hann birtist á skjánum því að mín skoðun er sú að hjarta hans sé hlýtt og gott og samviskan ótvíræð. Hann vill deila með afkomendum sínum því besta sem hann fékk í veganesti. Ég fékk þarna lexíu í því að dæma varlega og sýna fólki auðmýkt, meira að segja á sjónvarpsskjánum. Þessi maður hefur einnig fengið mig til að spyrja sjálfan mig hvaða góðar hefðir og venjur mér hafi borið og beri að færa yfir til afkomenda minna.


Hér er mynd af yngsta barnabarninu mínu, honum Hannesi Guðjóni, sem er tæplega fimm mánaða á myndinni. Hvaða góðar hefðir og venjur ber mér að erfa hann að. Sannleikurinn er sá að við íslendingar erum fátækari af slíku en til dæmis Svíar. Það er alla vega mín skoðun. Í morgun talaði ég um þessa mynd og ímorgun var fyrirsögn að blogginu mínu "Að vera . . .", núna á þessu sunnudagskvöldi er hún "Að vera heiðarlegur . . ." og sjáum svo hverju fram vindur. Síðar ætla ég að segja frá því sem ég tel að mér beri sem afa að erfa barnabarnið mitt að.

Að vera . . .

Fyrir einhverjum vikum bloggaði ég undir fyrirsögninni Heiðarleiki. Ég sagði þar að framhalds væri að vænta og ég hef oft verið með hugann bundinn við þetta framhald. Ekki vegna neinnar þvingunnar, heldur vegna þess að málið er mér hreinlega hugleikið. Ég held líka að það sé mikil hjálp við það sem ég er að velta fyrir mér að setja það á blað og í mínu tilfelli er tölvan nú orðið oftast blaðið. Hitt er svo annað mál hvort ég þarf að birta það öðru fólki eins og ég geri svo oft, en það er líka æfing að þora að sleppa öðrum í það sem ég hugsa og punkta niður. Ég á nokkur óbirt blogg en ég trúi að einhvern daginn leiti ég þau uppi og sleppi þeim frjálsum út á netið. Við Valdís erum undanfarið búin að fara í gegnum þvílík ósköp af skúffum, möppum og pappakössum og ég hef fundið þvílíkan helling af ýmsu sem ég hef skrifað niður og sumt er mjög gamalt. Ég hef aðeins kíkt á þessi blöð mín og ég hef sjálfur undrast það að ég hafi skrifað svona fyrir svo og svo mörgum árum. Ég hef því lagt þetta undan og les það kannski þegar ég verð fullorðinn. Svo safnast í einn pappakassann af öðrum og allt of margir pappakassar þurfa að komast í geymslu, það fáum við Valdís að reyna um þessar mundir.

En aftur um heiðarleikann. Í morgun þegar ég var milli svefns og vöku kom það upp í huga mér að ég væri ekki farinn að skrifa nokkuð framhald. Valdís fór fram á undan mér því að hún ætlaði í kirkju. Ég vorkenndi mér hins vegar pínu lítið eftir amstur gærdagsins og fannst sem ég ætti það skilið að hvíla mig aðeins lengur. Ég var líka ákveðinn í að horfa á sjónvarpsmessuna. En framhaldsbloggið um heiðarleikann sótti að mér og ég velti þessum hlutum fyrir mér fram og til baka. Svo allt í einu og snaggaralega setti ég vinstri fótinn út á gólfið  og á eftir fylgdi allur ég. Valdís var þá að hlusta á þátt um faglega kosningabaráttu, en á leiðinni fram í baðherbergið kveikti ég á tölvunni. Þegar ég hafði snurfusað mig svolítið til og reynt að strjúka úr dýpstu svefnhrukkunum gekk ég fram og sá þá útundan mér skjámyndina á tölvunni. Þar blasti við hann nafni minn, barnabarnið, í umsjá ömmu sinnar.

Á þessari mynd liggur hann á maganum upp á borði og amma hans styður við hann til alls öryggis. Framan við hann liggur dagbók ömmu hans og penni. Með vinstri hendi heldur hann utan um mjóan, bláan borða með mynd af íslenska fánanum með jöfnu millibili og nafninu Iceland, einnig með jöfnu millibili. Sjáum nú til, hún amma hans er bara farin að treysta honum fyrir símanum sínum. Hún hefur þennan borða nefnilega festan við farsímann sinn til að geta brugðið honum um hálsinn á sér þegar þannig stendur á. Á myndinni reisir hann sig upp og horfir sínum fallegu barnsaugum móti myndavélinni. Ef ekki þessi mynd af barnabarni mínu lokkaði mig til umhugsunar um það sem ég hafði verið að hugsa um milli svefns og vöku, þetta; að vera heiðarlegur og góður maður.

Svo gekk ég inn að sjónvarpinu þar sem einhver orð þaðan vöktu athygli mína og þar sátum við svolitla stund hlið við hlið og hlustuðum á vísdóm klókra manna og kvenna. Þar var til dæmis talað um slagorð og hvernig þau væru notuð með viðeigandi líkamshreyfingu, rödd, tónfalli, augnaráði, brosi og fleiru og fleiru. Svo undarlegt sem það nú var, þá var þetta einnig framhald af því sem ég hafði verið að grufla yfir síðustu hálftímana.

Valdís lagði af stað í kirkjuna og sagði bless um það leyti sem ég var tilbúinn með morgunverðinn og var að flytja hann að stólnum mínum fyrir framan sjónvarpið. Ég ætlaði nefnilega að hafa morgunverð með sjónvarpsmessu þennan sunnudagsmorgun. Svo hófst messan frá kirkju í Sigtuna sem er annar elsti bæjarkjarni í Svíþjóð. Allir sem koma til Arlandaflugvallar og fara þaðan inn til Stokkhólms sjá skiltið Sigtuna á þeirri leið. En aftur til messunnar. Hvað var það ekki sem presturinn talaði um? Jú, hann talaði meðal annars um það sem við manneskjurnar skilum til næstu kynslóðar. Nú varð ég alveg stein hissa. Eitt atriðið af öðru var í beinu framhaldi af því sem ég hafði verið að grufla undir sænginni áður en ég setti vinstri fótinn fram á gólfið. Enn einu sinni varð ég svo hissa þegar ég las rétt áðan bloggið hans Per Ekström, www.per.blog.is en Per er maður frá Álandseyjum sem býr með íslenskri konu sinni í Seljunum í Reykjavík.

Framhalds er að vænta.

Þreyttur var ég og sofnaði fyrir framan sjónvarpið

Þegar ég kom heim undir kvöldið eftir tvær ferðir með búslóð á Sólvelli var ég hund þreyttur. Það tók í fyrir "miðaldra" manninn að bera búslóð þessa 40 metra sem voru frá kerrunni og inn í bústaðinn eftir snjógöngunum sem ég gróf í fyrradag. Þegar ég skilaði kerrunni á bensínstöðina spurði ungur stimamjúkur maður hvort ég hefði ekki haft góðan dag með kerruna og ég hélt það nú. Annars hefði ekki verið mikið gert ef þeir hefðu ekki verið með í fyrri ferðinni þeir Magnús og Tryggvi Þór sem eru íslendingar í Örebro. Það er gjarnan við svona tilfelli sem Íslendingarnir hér hittast.

Annars var hér samkoma, jólaborð, hjá Norræna félaginu í Örebro í byrjun desember. Þar hittum við í fyrsta skipti íslenska konu sem við höfum oft heyrt talað um, hana Önnu, en hún hefur unnið í áratugi við háskólann í Örebro. Með henni voru dóttir hennar og sænskur tengdasonur. Þessi sænski tengdasonur Önnu er fyrsti Svíinn sem ég hef heyrt segja að harðfiskur sé góður. Það byggðist á því að hann þorði að smakka á honum en dæmdi hann ekki vondan eftir lyktinni.

En nú er það svo að ég tala allt of mikið og ég kemst ekki að efninu. Ég var þreyttur sagði ég og ég var ákveðinn í því að slappa vel af framan við sjónvarpið eftir sturtu og vel ofnsteikt lambakjöt sem Valdís bauð upp á í kvöld. Ég var ákveðinn í því að gefa skít í hvaða efni væri á skjánum. Svo byrjaði undankeppni í vali á lagi í Söngvakeppni sjónvarpsstöðva. Fyrst komu þrír stjórnendur fram á sviðið og sögðu brandara og svo byrjaði Óli að syngja sitt framlag. Undir því miðju sofnaði ég. Eftir um það bil hálftíma vaknaði ég aftur og þá var Jessika að syngja. Ég var nú allur annar maður og hafði orð á því að Jessika væri fallega klædd. Ja! þú hefðir átt að sjá þær sem voru að skemmta í byrjun, sagði Valdís, og þær voru berar upp í pjötlu held ég. Æ, ég er svo gamaldagas að mér finnst fólk bara fallegra í fötum. Jessika er mjög falleg og hún var stórglæsileg í fallegu fötunum sínum.

En nú er klukkan að verða ellefu og þetta kvöld hefur liðið með leiftur hraði. Kannski ég hafi sofið meira en ég hélt. En ég veit þó að Valdís talaði við Rósu Kára okkar gamla granna í Hrísey í síma og svo fengum við okkur mjög góðan eftirrétt. Það var Tyrkjajógúrt með granatepli, pínulitlum púðursykri og smá skvett af rjóma og svo mjólk til að þynna blönduna. Hrærðum svo vel og borðuðum síðan. Íslenskt skyr væri örugglega mjög gott í þetta líka. Tyrkjajógúrt líkist góðu skyri en þó held ég bara að jógúrtin sé betri. Ef einhver skyldi prufa þessa uppskrift með skyri væri gaman að heyra hvernig það smakkast.

Það verður í nógu að snúast á morgun en núna eru í vændum góðar stundir með Óla lokbrá.

Lekebergshreppur

Í dag fór ég á Sólvelli í fyrsta skipti í langan tíma. Hann Mikki bóndi var búinn að ryðja opið svæði við innkeyrsluna en þaðan og að húsinu voru svo rúmir 30 metrar af 55 sm djúpum snjó. Mikka var mjög illa við að ryðja alveg að húsinu þar sem jörð er auð undir og þá væri vitað að hann mundi skemma lóðina. Þá var bara að taka því og mitt fyrsta verk var að grafa göng í þennan snjó og gera greiðfæra og fína leið heim að húsinu. Að því búnu gerði ég óvandaðri slóð að geymslum. Svo horfði ég á þakið og það var ekki eins mikill snjór þar uppi og ég eiginlega bjóst við. Það hefur runnið einhver snjór af þakinu eða fokið og upp við veggina er snjórinn mun dýpri en út á lóðinni. Húsið lítur því út fyrir að vera lágt um þessar mundir. Svo kom smiðurinn Anders í heimsókn. Skrýtið. Smiðurinn heitir Anders, rafvirkinn heitir Anders og pípulagningamaðurinn heitir Andreas.

Að þessari heimsókn lokinni spígsporaði ég þarna úti og íhugaði að moka einhverjum snjó af þakinu á morgun. Það er vetrarríki um þessar mundir, það fer ekki hjá því. Svo kom ég heim og horfði á hluta af sjónvarfpsfréttum og þar var talað um snjóþyngsli á þökum. Langt, langt upp í Norrland eru þökin gerð til að þola 250 sentimetra djúpan snjó. Ja, þvílíkt. Þakið á gamla hlutanum á Sólvöllum er að mínu mati frekar veiklega byggt jafnvel þó að það hafi staðið af sér snjóa í 43 ár. Ég ætla að styrkja það til að þessi hugsun snerti mig aldrei framar.
       Framhald undir myndinni.


Nú þurfti ég að senda byggingarfulltrúanum í Lekebergshreppi tölvupóst og til að finna netfangið hjá honum fór ég auðvitað inn á heimasíðu Lekebergshrepps (Lekebergskommun). Þá bara svona skemmtilega á óvart í þessu vetrarríki sé ég allt í einu þessa fallegu mynd sem er auðvitað úr Lekebergshreppi og er mjög dæmigerð fyrir landslag og gróður þar. Og þessi dásamlega tilfinning gagntók mig; svona verður umhverfið kringum Sólvelli næsta sumar, svona ólíkt öllu sem ber þar fyrir augu í dag í öllu vetrarríkinu. Ég hlakka svo sannarlega til vorsins og ég á von á góðum dögum þar í sumar fyrir okkur Valdísi bæði og þá sem vilja gista hjá okkur.

Vetur vetur

Það var svolítið sérstakt að vakna í morgun. Ég vissi hreinlega að það væri snjókoma, þurfti ekki að líta út til að vita það. En það var annað sem ég varð var við um leið og ég vaknaði til meðvitundar; ég heyrði að það blés vindur úti. Svo eftir að hafa teygt úr mér og velt mér svolítið til og frá í rúminu fór ég fram, og mikið rétt; það var snjókoma og vindur og það blés í skafla. Ég gerði mér grein fyrir því að ég yrði að endurskoða fund minn með honum Anders smið sem við höfðum ákveðið á Sólvöllum strax eftir hádegið.

Næsta mál var að fara með Valdísi á heilsugæsluna þar sem henni er illt í hné og hefir verið í nokkra daga. Þegar þangað kom stoppaði ég beint framan við dyrnar og sleppti henni út. Þegar hún hafði lokað bílhurðinni var kominn strætisvagn frá Mjúku línunni og stoppaði fyrir framan mig og sá ég hvar bílstjórinn fórnaði höndum og virtist ekki sjá fram úr þessu. En Íslendingurinn var ekki í vandræðum með smámál. Ég byrjaði að bakka og um leið og bíllinn byrjaði að skríða aftur á bak sá ég að annar bíll hafið komið fast að afturendanum hjá mér. Þar með ók ég bílnum aðeins út í ruðninginn hægra megin við mig og örvæntingarfulli strætisvagnabílstjórinn komst framhjá. Þá var ekki um annað gera en að tala við bílstjórann sem var aftan við. Dráttarkrókurinn hafði snert hans bíl samkvæmt tilfinningu okkar beggja en það fannst enginn skaði nema ef þá dráttarkrókurinn hafði kannski þrýst inn skrásteningarnúmerinu. Svo skildum við án vandræða.

Ég er búinn að skafa einu sinni í morgun, sagði Mikki snjóruðningsmaður þegar ég hringdi til hans um tíu leytið, en það er allt orðið fullt aftur hélt hann áfram. Hann ráðlagði mér að sleppa Sólvallaferð í dag, það mundi bara leiða til vandræða. Ég afboðaði smiðinn og við ákváðum tíma klukkan 13 á morgun. Enn svo lengi gef ég enga frekari skýrslu um þennan fund okkar Anders smiðs. Ég geri bara eins og Jóhanna, held fundinn og gef svo skýrslu.

Sem sagt, það er ögn íslensknorðlenskt veður hér í dag. Í gær hrundi inn þak á reiðskóla í suður Svíþjóð. Það er kannski ekkert öruggt í málinu en ég held að miklum snjóþunga sé kennt um. Það sem átti sér stað augnablikin áður en þakið féll inn var að hestarnir flúðu allir í eitt horn í hesthúsinu. Kennslustund stóð yfir og nokkrir foreldrar sátu í kaffistofu þar sem hægt er að horfa gegnum glugga inn í sjálfan reiðsalinn. Engin manneskja hafði nokkurn fyrirboða en hestarnir voru greinilega næmari. Engin slys urðu fyrir utan að ein stúlka handleggsbrotnaði og annarri var illt í hálsi. Hins vegar varð að aflífa einn smáhest, ponny, sem er nýr í hestahópnum þarna og sá var eini hesturinn sem ekki uggði að sér. Þetta þykir mér mjög fróðlegt. Það minnir á fílana í Tælandi sem slitu sig lausa og flúðu til hærri svæða áður en flóðbylgjan skall á ströndinni.

Valdís hvílir sig nú og líður strax betur. Hann Folke læknirn tók henni vel og hlúði að henni. Eftir blóðprufur og bráðabyrgða athugun á hnénu fékk hún sprautu í hnéð og svo fékk hún bólgueyðandi töflur og á að fara í töntgen á morgun. Svo er vorið fram undan. í Sólvallaskóginum hvíla beyki, hlynir, eikur, bjarkir, kastanía, lind, og álmur ásamt fleiru og ef ég færi núna og gætti vel að mundi ég væntanlega sjá að brumin hafi þegar breytst frá því í desember.

Vetur

Það var orðið dimmt, það var myljandi stórhríð og hvassviðri og ég var á leiðinni heim í Sólvallagötuna í Hrísey. Ég var orðinn sprengmóður eftir að vaða skaflana í mitti og síðast skaflinn frá ofanverðri Sólvallalóðinni og upp að hliðinu hjá Dísu og Ottó. Ég kastaði mæðinni, horfði nokkur augnablik inn um næsta eldhúsglugga og svo lagði ég í síðasta en líka allra hæsta skaflinn, þann sem var við það að byrgja sjónlínuna milli okkar eldhúsglugga og eldhúsgluggans hjá Rósu og Ásgeiri. Þegar ég var efst í skaflinum sökk ég upp undir bringsbalir og byrjaði þar með að vagga mér fram og aftur til að fá svolítið holrúm í kringum mig til þess að ég gæti aðeins lyft öðrum fætinum og svo þrýst hnénu fram og lyfta mér þar með upp um leið. Það voru aðeins fáeinir metrar í útihurðina þvottahúsmegin heima og ég horfði löngunaraugum á þangað.

Þá gerði gríðar hvassa og langa stormhrinu sem aldrei virtist ætla að taka enda. Miskunarlaus snjóiðan barði á mér og ég sá ekki út úr augum og nú varð mér erfitt um andardrátt þar sem ég var svo móður. Ég sá alls ekki í hurðina lengur og allt í einu virtist sem ég ætti gríðar langt eftir heim. Ég man vel enn í dag að þarna var ég í þann veginn að byrja að brjótast um í hálfgerðu æði til að losa um mig og geta svo látið mig velta niður brattan skaflinn og komast sem allra fyrst að hurðinni sem ég vissi að var þarna. Mér fannst sem þessari stormhrinu ætlaði aldrei að ljúka og mér leið illa en ég vissi að nú var um að gera að slappa af og hafa hemil á andardrættinum. Mér tókst það með naumindum og að lokum dró úr vindinum og snjóiðan gaf sig. Allt í einu var útihurðin örskot framundan. Ég náði að losa um mig, lyfta mér upp og svo gat ég látið mig hálf velta niður af skaflinum. Svo stóð ég inn í þvóttahúsi heima.

Ég man ekki á þessari stundu eftir annarri svona örvæntingarbaráttu í sköflunum í Hrísey en ég man eftir að hafa oft orðið þreyttur við að koma mér heim eða hvert það nú var sem ég var að fara. Við Valdís höfum oft eftir að við komum til Svíþjóðar talað um þetta og hvílíkur ógnar munur það er á veðráttu að lenda aldrei í þessum skaflaumbrotum. Þegar ég var að skrifa þetta þá bara fjárakornið var ég kominn í skaflinn í Sólvallagötunni og marga aðra skafla sem þurfti að brjótast í gegnum. Skaflinn við Brynjólfshúsið, Skjöldu og Kelahúsið var oft langur og erfiður á stórhríðar- og ísaárunum á sjöunda áratugnum þegar við áttum heima á Bjargi.

Ég er búinn að blogga áður í dag og nefndi þar að ég hefði farið á haugana. Það var nefnilega þá sem ég rifjaði þetta upp fyrir mér og ég tók líka nokkrar myndir í þeirri ferð sem sýna hvernig snjóalögin setur niður niður hér.


Þetta tré er oxel eða silfurreynir og er örstutt utan við svefnherbergisgluggann okkar. Það næðir ekki mikið á þessu tré þó að það standi stakt og þess vegna getur það líka skartað fögru. Að hugsa sér þá tré sem standa langt inni í skógi hvað þau bera á greinum sínum núna.


Það næðir heldur ekki mikið á þessu klifurhúsi barnanna sem stendur aðeins lengra frá glugganum. Þessi snjór er búinn að hvíla á þaki þess í margar vikur og bætir á alltaf öðru hvoru.


Og tujan utan við útihurðina okkar er þver klippt að ofan. Þar mætti mæla snjódýptina þó að það væri ekki nákvæm úrkomumæling.


Hengibjarkirnar þarna lengst burtu hafa svo fíngert hár að þar getur snjórinn ekki sest að.


Og að lokum. Nálægt ruslagámunum sem ég sorteraði í í dag er gasstöðin í Örebro þar sem dag og nótt, í blíðu og stríðu, sumar sem vetur verður til lífrænt gas sem notað er á alla strætisvagna sem renna um göturnar í Örebro og þar að auki á alla aðra bíla á vegum borgarinnar.

Myndir af dóttursyni

Ja hérnana hér. Nú eru dagar framundan sem ég ræð yfir sjálfur en það er samt ekki þar með sagt að ég verði í fríi. Við erum nefnilega að flytja. Í dag er ég búinn að vera á haugunum og sortera í marga gáma, ekki búslóðinni heldur því sem við erum að henda. Mér finnst gott að sortera og gera ekki eins og í gamla daga að brenna hverju sem var við ófullnægjandi aðstæður. En nú ætla ég ekki að gera meira í dag, en í stað þess ætla ég að leika mér solítið, til dæmis að blogga.

Það er merkilegt þetta með tæknina. Rósa er með þunnan farsíma og ég get ímyndað mér að hann sé á stærð við þrettán spil þegar þau hafa verið lögð í snyrtilegan stokk. Og þetta er ekki bara farsími, heldur einnig regluleg tölva, myndavél, kvikmyndavél og sjálfsagt eitthvað fleira. Allir geta gert sér nokkuð í hugarlund hversu mikið fer fyrir þrettán spilum í bunka. Eitt sinn var ég fréttamaður sjónvarps í Hrísey og fékk þá kvikmyndatökuvél hjá sjónvarpinu sem ég þurfti svo að vinna fyrir með því að senda fréttir. Þessi kvikmyndatökuvél er hérna inni í skáp og nú ætla ég að mæla hana.

Hún reynist rúmlega tvö kíló að þyngd, 40 sm löng, 23 sm há með handfangi sem er ofan á henni og hún er tíu sm breið. Ég held bara að farsíminn hennar Rósu taki jafn góðar myndir og gamla fyrirferðarmikla kvikmyndatökuvélin mín. Ég er að hugsa um að sýna hér tvo filmubúta sem Rósa tók þegar við vorum síðast í Uppsala.

Fyrri filmubúturinn er af því þegar ég var að gefa honum nafna mínum að borða hafragraut sem var bragðbættur með jarðarberjamauki. Í gamla daga þurftum við stundum, og nú segi ég stundum, að vera með alls konar leikaraskap til að fá börnin okkar til að borða, en ég get bara látið ykkur vita það að ég þurfti ekki að vera með neinn leikaraskap við hann dótturson minn. Hann tók við samt. Og gaman var að gefa honum.

http://www.flickr.com/photos/pinkhaddock/4319401089/in/photostream/

Hinn filmubúturinn er af því þegar hann stóð á hnjám mér og við töluðum líflega saman. Við hlógum báðir mikið og það var voða gaman. Amma tók líka þátt í þessum umræðum. Eftir á þegar ég skoðaði þennan filmubút varð ég hissa á því að ég skyldi ekki hafa gert drenginn sjóveikan, svo mikið ruggaði ég honum þar sem hann stóð.


http://www.flickr.com/photos/pinkhaddock/4318189701/in/photostream/

Nú verður þetta blogg ekki lengra enda ekki minna en tvær kvikmyndir í því. En nú vaknar ein spurning; á ég að henda kvikmyndatökuvélinni eða senda honum Boga Ágústssyni hana sem forngrip.
RSS 2.0