Ungur fulltrúi á afmæli í dag

Undanfarið hef ég oft nefnt 1959 árganginn frá Skógaskóla. Þau síðustu okkar í þessum hópi eru að fylla sjötíu árin um þessar mundir. Ég hef lítið orðið var við afmæli þessa Skógaskólaliðs þangað til um daginn þegar hún Kristín Guðmundsdóttir átti sitt sjötugsafmæli í Västerås og hún var svo elskuleg að bjóða mér að vera með. Þegar ég virti hana fyrir mér í afmælinu hennar, glaða, unglega og glæsilega, og hugleiddi öll þessi ár, þá fannst mér það svo gott sem ómögulegt, en svona var það bara. En "Þannig týnist tíminn". Í dag á síðasti fulltrúi okkar í þessum hópi sitt sjötíu ára afmæli, hún Soffía G. Ólafsdóttir. Vegna fjarlægðarinnar treysti ég mér ekki til að mæta í afmælisveisluna hennar í Garðinum þó að ég sé velkominn, en svo gjarnan vildi ég vera þar til að fylgja þessum síðasta fulltrúa okkar inn í áttunda áratuginn. Ég mundi sennilega ekki heldur skrifa þessar línur ef ég hefði ekki verið í afmælinu hennar Kristínar um daginn. Ég finn það núna að það var lán að hún átti afmæli svo nálægt mér, það kom af stað nýjum þætti í bloggandi mínu.
 
 
 
Þessi mynd af Soffíu er frá 1959
 
Soffía kom í skólann heldur seinna en við hin, en hún kom fyrst í þriðja bekk haustið 1958. Ég tók ekki svo mikið eftir henni í fyrstu og ef ég man rétt kallaði ég hana um tíma nýju stelpuna. Svo var það einn laugardag að hópur okkar var úti á túni að sparka fótbolta og þrátt fyrir fótboltafælni mína var ég með í það skiptið. Soffía var líka með. Svo skullum við all harkalega saman í hita leiksins og ég leit á Soffíu, beint í augu hennar, og ég held að ég hafi sagt fyrirgefðu. Þann laugardag urðum við miklir vinir og hún var ekki nýja stelpan lengur. Hún var Soffía og ekki þótti mér leiðinlegt að hún hét Guðjónína líka. Svo urðum við Soffía líka miklir pennavinir.
 
Mánuðurnir liðu hratt og skólanum lauk. Nokkrum vikum eða fáum mánuðum eftir það skildu leiðir okkar og við héldum á vit örlaga okkar og pennavináttunni lauk þar með. Við hittumst ekki í fleiri ár og ég heyrði sjaldan af henni. Hópurinn frá 1959 byrjaði að hittast reglulega en ég var allt of sjaldan með. Ég kenndi um fjarlægð af því að ég bjó fyrir norðan en auðvitað var það bara aulagangur af minni hálfu. Svo var það einhvern tíma að við Valdís vorum stödd á síldardegi á Siglufirði og þá stóð þessi kona óvænt og ljóslifgandi fyrir framan mig. Þá áttum við einungis stutt orðaskipti.
 
Um það bil þrjátíu árum eftir útskriftina frá Skógum, eða um 1990, var ég einn eftirmiðdag á leið heim frá hreppsskrifstofunni í Hrísey. Þegar ég var kominn niður tröppurnar þar og búinn að taka stefnuna áleiðis heim heyrði ég nafn mitt kallað. Ég þekkti þessa rödd á sekúndubroti og þar var Soffía að koma í heimsókn ásamt Sæmundi manni sínum og fleira fólki. Við gengum til baka inn og ég hitaði kaffi. Svo settumst við við kaffiborðið sem var líka fundarborð hreppsnefndar Hríseyjarhrepps.
 
Beint á móti mér við borðið sátu Soffía og Sæmundur og þetta var í fyrsta skipti sem ég hitti hann. Ég virti hann vel fyrir mér þennan þægilega mann og þarna hljótum við öll að hafa verið hátt á fimmtugs aldri. Hæglátur var hann, íhugull virtist mér hann vera, vingjarnlegur og ég var viss um að hann var traustur, bara eins og traustustu menn geta verið. Í svo mörg ár hafði mig dreymt um að vera einn slíkur. Við sátum þarna góða stund og ræddum allt mögulegt. En það var eitt sem ég tók eftir sem ég tók ekki upp í umræðunni. Soffía, minn gamli pennavinur, hafði örugglega fengið góðan mann. Það fór vel á því.
 
Valgerður dóttir mín og Guðjónína dóttir Soffíu vinna sams konar vinnu og eru því vel kunnugar. Mér brá þegar Valgerður hringdi fyrir fáeinum árum og sagði að Sæmundur væri farinn heim. En samt er það svo að þessi ár okkar eftir sjötugt eru góð ár, þau eru gjöful, og sum okkar fá að halda heilsu eins og litlir hvolpar sem velta sér við leik í grængresinu á vordegi. Verðmætamatið hefur breytst og hin minnstu blæbrigði lífsins gefa hjartanu ljós. Utan við gluggann minn eru mikið frosthrímuð tré. Þau hafa áhrif á það hvernig orð mín koma á blað á þessum afmælisdegi minnar gömlu pennavinkonu. Þau eru ekki eins og orðin í litlu bréfunum forðum en þau eru skrifuð af miklu þakklæti og hlýhug.
 
Soffía mín, innilega til hamingju með þennan áfanga í lífi þínu. Þú sagðir einhvern tíma að þú værir óttalegt "partýljón". Vertu "partýljón" í veislunni þinni í Garðinum í dag og gleðstu ásamt þinni stóru fjölskyldu og þínum mikla vinahópi og haltu áfram að láta ljósið streyma inn í hjarta þitt. Haltu líka áfram að birta á vinabókinni myndir frá húsbílaferðunum þínum.

Barnalegt eða hvað?

Ég var búinn að fara fram á bað í morgun og koma við hjá eldhúsvaskinum og fá mér vel að drekka af vatni. Svo læddist ég inn aftur og lagði mig á bakið með hnakkann upp á svolítlum kanti sem er við höfðalagið. Svo horfði ég upp í loftið og hugleiddi lífið. Mitt í þeim hugleiðingum hringdi síminn og ég hrökk við. Þá var klukkan að nálgast níu. Ég hefði nú helst viljað skrifa níu með mjög litlum stöfum en ég get það ekki, kann það alla vega ekki.
 
Ég ræskti mig rösklega, setti upp gleraugun og reyndi svo að tala eins og maður sem var búinn að borða morgunverðinn sinn. Í símanum var Ove dagskrárstjóri í Vornesi. Hann spurði hvort ég gæti unnið tvo daga fyrir helgi og tvo daga eftir helgi. Ég kom með móttilboð; einn dag fyrir helgi og tvo daga eftir helgi. Samþykkt án athugasemda. Svo sagði hann mér ástæðuna og án þess að tala um það sýndist mér sem það gæti orðið all nokkuð meira en það sem við töluðum um.
 
Í gær lofaði ég líka að vinna um jólin. Á jóladagskvöld og fram á annan í jólum og svo einn dag milli jóla og nýárs. Ég sá fram á að ég hefði gott af þessu. Það mundi bara lyfta mér upp í skammdeginu. Og að vinna í Vornesi um jól er mjög þakklátt af sjúklingunum. Í hitteðfyrra vann ég á aðfangadagskvöld. Þá borðuðu allir við langborð og maturinn var mikill og fjölbreyttur, hreina jólahlaðborðið.
 
Þegar fólk var nokkurn veginn búið að borða fór ég fram í eldhús, setti upp jólasveinahúfu og stikaði svo inn í matsalinn aftur berandi all stóran sekk. Hvaðan kemur jólasveinninn? hrópaði ég. Frá Íslandi hrópuðu allir sjúklingarnir í kór, mikið hærra en ég hafði hrópað. Svo deildi ég út pökkum úr pokanum. Það voru konfektkassar, allir nákvæmlega eins utan að þeir voru ólíkir á litinn. Liturinn á jólapappírnum var líka misjafn. Svo opnuðu allir pakkana sína með mikilli andakt. Síðan litu þau á hvers annars pakka og sögðu til dæmis: Já, er þinn rauður, eða, fínn litur á þínum, eða hvernig er þinn pakki? minn er blár, og þar fram eftir götunum.
 
Barnalegt eða hvað? Nei! Stemmingin var góð og ég vissi vel að nærvera mín var nokkur þáttur í því. Þarna var fólk trúlega frá 18 ár og upp í 60+ og þau voru eins og fjölskylda sem vildi af sannri einlægni sína að þau væru þakklát og það væru einu sinni jól. Ég er dálítill sögukall og einhverja sögu hafði ég sagt þeim þennan aðfangadagseftirmiðdag. Svo var kvöldfundur og þá sögðu sumir að þetta væri besti aðfangadagur í fjöld ára og einhver sagði sá besti í lífi hans.
 
Að hugsa sér. Ef þetta fólk hefði allt verið úti í samfélaginu hefði stór hópur af því lifað í niðurlægingu alkohólismans, valdið leiðindum, vandræðum, mikilli sorg og ótta og tárin hefðu runnið víða. Eftir öll þau jól sem ég hef unnið í Vornesi man ég eftir einum einasta degi þar sem fólk var þumbaralegt. Ég reyndi að breyta því í það skipti en mér mistókst það. Ég man vel að þá var ég vonsvikinn með frammistöðu mína. Lang fallegasta jólasaga sem ég hef verið með um varð samt til þau einu jól sem ég var í Svartnesi. Það er ekki nema von að ég væri hrærður við að ganga þar um ganga í haust. Þessi fallega jólasaga er bara eitt þeirra mörgu atriða sem höfðu djúp áhrif á mig þar uppfrá.
 
Sú jólasaga verður ekki sögð í þessu bloggi, það yrði of mikið. Og nánast allt sem stendur í þessu bloggi er allt annað en það sem ég ætlaði að segja. Áður en ég komst fram til þess sem bjó í huga mér beinlínis ultu hugsanirnar fram og út frá því varð efnið sem ég skrifaði.
 
*          *          *
 
Við hlið mér á skrifborðinu stendur bók eða almanak sem mér var gefið í haust. Á síðu dagsins í dag, þann 27. nóvember, stendur þetta: "Þeir sem lifa í sínum eigin hugarheimi geta sjaldnast deilt annarra gleði". Það var þetta sem ég var með í huga þegar ég settist við tölvuna. Ég var nefnilega að hugsa um að ég hafnaði mikið í eigin hugarheimi einn hér heima og því væri ég heppinn að fara að vinna svolítið.
 
Að geta ekki deilt annarra gleði eða gleði með öðrum er auðvitað mikill þrándur í götu hvers einstaklings. Ég hugsaði um það í dag að það væri kannski ekki leyfilegt fyrir fullfríska manneskju að vera ekki meiri þátttakandi í lífinu en svo að geta ekki tekið þátt í gleðinni með öðrum. Ég bloggaði svolítið um þetta fyrir nokkrum dögum síðan þegar ég sagði frá þáttastjórnandanum sem stjórnaði beinni sjónvarpsútsendingu frá Örebro hér um árið.
 
En nú er það svo að það varð annað efni sem sigraði í kvöld þannig að hugleiðingar mínar legg ég í skattakistuna mína. Það sem ég var að hugleiða í morgun þegar Ove hringdi var af allt öðrum toga. Kannski eitthvað um það að lífið eftir sjötugt væri gott líf ef við höldum heilsu og látum ekki mótlæti og eymd ná yfirhöndinni. Ég held að við höfum ekki leyfi til þess heldur. Sé okkur gefin heilsan sé það skylda okkar í þakklætisskyni að láta lífið vera gott.
 
Ps. Eftir hálftíma verður rúgbrauðið tilbúið, hluti af daglegum matarforða á Sólvöllum. Það er bara della að maður prumpi af rúgbrauði.

Að láta sér detta svona nokkuð í hug!!!

Ný ákvörðun, nýtt verkefni byrjað. Baðherbergisverkefnið á Bjargi er komið í gang. Það eru tíu dagar síðan ég bloggaði um eirðarleysi sem ég yrði var við þegar eitthvað væri búið. Það er spurningin hvort ég er vinnualki en ég vel nú samt að neita því. Ég átti von á manni í vinnu um fjögur leytið, það er að segja til að leggja í baðherbergisgólfið á Bjargi. Ég vissi að nánast allt væri tilbúið af minni hálfu og svo væflaðist ég um húsið og kringum húsið fram yfir hádegi og fannst ég vera að svíkjast um. Ég auðvitað gat farið að tína eitthvað saman úti, laga meira til, og ég hefi getað borði meira upp á loftið á Bjargi en við gerðum um helgina og ég hefði getað farið með greinaklippur út í skóg til að snyrta tré og klippa burtu ruslplöntur. En nei, ég gerði ekkert gagnlegt hálfan daginn. Ég bara bið! Látið mig vita ef einhver þekkir þetta annar en ég.
 
Svo gerði ég það ónauðsynlegasta af öllu ónauðsynlegu. Ég settist við tölvuna og fór að þvælast um á veraldarvefnum. Hvað haldi þið að ég hafi svo sem haft upp úr krafsinu? Jú, til dæmis mynd af sama stað og þessi mynd er tekin og þar stóð maður með réttan enda upp. Mér finnst það nú óneitanlega skynsamlegra en að haga sér eins og villimaðurinn gerir á myndinni. Að láta sér detta svona nokkuð í hug!!! Ég gat aldrei gengið á höndum og að hætta sér út í þetta ævintýri! Það hefði bændunum í Fljótshverfinu ekki þótt merki um dómgreind á mínum uppvaxtarárum. En nú viltist ég af réttri leið. Ég ætlaði að tala um baðherbergið á Bjargi.
 
Hér er maður að vinna vinnuna sína út á Bjargi. Hann kom upp úr klukkan fjögur. Fyrst lagði hann í gólfið og síðan þurfti hann að bíða þar til flotið harðnaði nógu mikið til að hann gæti farið út á það til að skafa kringum sturtusvelginn. Á meðan fórum við inn og ég spurði hann hvort hann væri hræddur við mat sem hann hefði aldrei smakkað áður. Nei, hann hélt nú ekki. Síðan borðaði hann hreinan helling af heimabökuðu rúgbrauði og hangikjöti frá Húsavík. Þetta er mikið gott sagði hann og svo fékk hann bara meira og meira. Ég hafði nú reglulega gaman af þessu. En kannski við ættum að sjá manninn betur.
 
Hér er hann nefnilega og hann heitir Anders gólf á farsímanum mínum. Hann er harðduglegur og þetta er líka sami maðurinn og gengur á höndunum á Tröllatungunni í Noregi á efstu myndinni. Hann reyndar lítur ekki svo villimannslega út enda er hann enginn villimaður þegar hann er sestur við matarborðið á Sólvöllum og borðar heimabakað rúgbrauð með hangikjöti frá Húsavík. Það er nú bara gman að þessu.
 
En mest er kannski gaman að því að vinnan við baðherbergið á Bjargi er byrjuð. Henni mun ekki ljúka eins fljótt og mér finnst núna í augnablikinu að hún ætti að gera. En allt í einu verður þó baðherbergið á Bjargi tilbúið með sturtu, klósetti og handlaug ásamt krókum fyrir handklæði og pappírsrúllu. Þá verð ég að baka mér pönnukökur og þeyta rjómaslettu til að setja innan í ásamt svolitlu af persimónusultu gerðri af GB. Svo þarf ég að venja mig við þá hugsun að ellilífeyrisþegi megi alveg slæpast framyfir hádegi einhvern daginn án þess að halda að það komi svartur blettur undir tunguna.

Annar í bloggi í dag

Ég er ekki einn að hringla á Sólvöllum núna. Heil fjölskylda er hér og það er heilmikið líf á staðnum. Hannes Guðjón og fjölskylda komu í gær og hann leikur á als oddi og er forvitinn um hagi afa síns.
 
Þetta var ég búinn að skrifa í gærkvöldi, laugardag, og síðan skrifaði ég ekki meir en vaknaði hins vegar eftir svefn sem ég veit ekki hvort stóð frekar í tvær, fimm eða fimmtán mínútur. Þá átti ég eftir að segja það sem ég ætlaði helst af öllu að segja í því bloggi, en svo var bara ekki meira sagt. Eftir að hafa sofið teinréttur, sitjandi beint framan við tölvuna setti ég hana á "hvíla" eða hvað það nú heitir og gekk sjálfur til minnar hvílu.
 
Þessi ávöxtur heitir persimona hér og er með mjúku kjöti sem mér sýndist vera upplagt til sultugerðar. Ég talaði um það við Rósu og Pétur þar sem þau eru svo dugleg að afla sér upplýsinga um ýmislegt, til dæmis á google, en ég er hins vegar þannig að ég vil vita það áður en ég les mig til. Pínulítið er ég væntanlega ýkinn núna en ég finn samt fyrir þessari tilhneigingu. Leti kannski. Svo er líka eitt. Þegar ég les uppskriftir er svo oft talað um efni sem ég veit engin skil á.
 
Hér er alla vega búið að gangsetja sultugerð og afraksturinn var góður, það góður að Guðjón frá Kálfafelli hóf svo sultugerð í gær. Afrakstur minn var mikið súrari en afrakstur Rósu enda ekki sama uppskrift, þannig að ég hélt bara áfram og gerði nýja uppskrift og notaði enga sítrónusýru í hana. Síðan blandaði ég báðum uppskriftum mínum saman og þá varð úr þessu sulta sem alla vega var ágæt í pönnukökurnar sem við bökuðum í dag. Er það ekki svona sem góðir kokkar verða til; að voga og reyna sig á uppskriftunum þar til árangurinn verður góður. :)
 
Sjáið bara, hver krukkan á fætur annarri fylltist af sultuframleiðslunni á Sólvöllum. Mér finnst gaman að þessu, ótrúlegt en satt. Nei, það er reyndar ekkert ótrúlegt en alveg nauðsynlegt við mínar aðstæður. En ég var að reyna að vera skemmtilegur þegar ég tók þessa mynd og blandaði saman þarna á myndinni Húsavíkurreyktu lambalkjöti og sultu framleiddri á Sólvöllum í Lekebergshreppi í Svíþjóð. Svíum var svo boðið upp á þetta hangikjöt í dag eins og kom fram í blogginu mínu um afmælisdaginn hennar Valdísar fyrr í dag.
 
Ég sendi gestina mína upp á loftið á Bjargi til að taka af þeim mynd þar. Þá fékk ég svolitla viðmiðun þannig að fólk gæti áttað sig á hvílík góð geymsla er þar uppi. Ég er svo sem ekki búinn þarna en gólfið er tilbúið og rammgert og 30 sm einangrun er undir því þannig að það á ekki að tapast svo mikill hiti upp frá herberginu og geymslunni þar undir. Ég á eftir að setja meiri einangrun út undir þakfótinn og klæða með tveimur eða þremur borðum upp á stoðirnar sem sjást til hliðanna. Þetta verk má bíða fram í september á næsta ári en það má líka vinnast mikið fyrr ef svo vill.
 
Svo er líka gaman að fá nærmyndir af fólki. Þarna þótti Hannesi líka gaman að láta taka mynd af sér. Fyrir honum var auðvitað himinhátt að fara þarna upp og ferðin hreint ævintýri.
 
Hannesi fannst afi hálfgerður trassi að haf allan þennan snjó á veröndinni. Hann sótti því hamarinn sinn, þennan með gúmmífingurbjörg á skallanum, og braut burtu frosinn snjóinn. Hann vildi dansa á pallinum og vildi fjarlgja hálkuna fyrst. Þegar hann var búinn að vinna bug á hálkunni var dansinn gleymdur þó að útvarp með tónlist væri komið út í glugga. Það er að mörgu að huga á Sólvöllum.
 
Það er spurning hvort ég er orðinn montinn. Eitthvað dró mig alla vega að myndavélinni og að taka mynd af steikta kjúklingnum sem ég bauð gestunum upp á á föstudagskvöldið. Blandan af papriku, lauk, hvítlauk, engifer, kartöflum og kannski einhverju fleiru sem sést þarna á pönnunni hélt ég að væri nokkuð sem væri einkenni Sólvallabóndans. Ég er búinn að komast að því að svo er ekki og bara gaman að heyra það. En Rósa og Pétur kenndu mér hvers konar sósur ég get keypt í mjólkurdeildum verslananna til að hafa út á þennan rétt. Ég er handviss um það að þessi réttur er hollari en meðalholl fæða. Ég bara finn það á mér.
 
Það var tvennt sem ég ætlaði að segja frá í stuttu bloggi í gær áður en ég sofnaði á skrifarastólnum. Annað var um það að Valdís hefði átt afmæli í dag en nú er ég búinn að blogga um það. En hitt er verulega merkilegt mál. Nú verða allir að setjast sem gera það ekki nú þegar.
 
H
L
U
S
T
I
Ð
!!!
 
Í gærkvöldi sótti ég um inngöngu í býflugnaræktunarskóla í Örebro.
 
Þetta er búið að vera á dagskránni í all langan tíma. Meira að segja er ég búinn að heimsækja býflugnabændur í Huddinge syðst í Stokkhólmi. Það var hjá þeim Þórhalli lækni og Völu kennara sem þar búa ásamt börnum sínum. Svo fann Rósa heimasíðu skólans hér í Örebro í gærkvöldi og sendi mér í e-pósiti hér milli herbergja á Sólvöllum. Ég var varla búinn að fá heimasíðuna til mín þegar ég var búinn að sækja um og ég tel mig innritaðan. Allt er sjötugum fært.

Afmælisdagar á Sólvölum

Síðasta afmælisdaginn í lífi hennar Valdísar héldum við upp á með því að fara með henni á jólahlaðborð í Karlslunds herragarði vestast í Örebro. Ég held að hún hafi notið þess þó að hún væri ekki heil heilsu.
 
Síðan morguninn þann sextánda apríl þegar hún lést á sjúkrahúsinu í Örebro hef ég skrifað mörg blogg um hana eða tengd henni, mikið fleiri en ég ætlaði mér í fyrstu. Ég hef svo oft ekki getað látið það vera að nefna hana á einn og annan hátt og það er eins og orðakistan sem tengist þessari konu tæmist aldrei. Í dag hefði hún orðið sjötíu og eins árs og í tilefni af því hafa myndirnar, orðin og minningarnar runnið hjá, eða kannski hreinlega hrannast upp. Sérstaklega eftir að helgargestirnir mínir og fólkið sem kom í dag fóru, þá lagði þetta ferli Sólvelli hreinlega undir sig um tíma. Nú hefur vinur minn kyrrðin lagt sig yfir og enn einu sinni set ég orð á blað sem tengjast Valdísi.
 
Í gærkvöldi logaði ljós við stóru myndina af henni á kommóðunni hérna frammi og þá kveiktum við líka á ljósi úti við rósirnar hennar. Ljósið við myndina logar oft og slokknaði í gærkvöldi að vanda. Ljósið hjá rósunum lifði alla nóttina og lifir enn. Kertið við myndina er það stórt núna að það mun endast allan daginn og í kvöld kem ég til með að slökkva á því. Ljósið úti fær að brenna út. Með þessu vil ég og við sem höfum verið hér um helgina sýna að við munum og virðum og að tilfinningarnar eru ekki ósnortnar á þessum afmælisdegi. Svo mun það verða um ókomin ár.
 
Næst okkur eru jú Hannes, Rósa og Pétur. Konan vinstra megin við borðið næst glugganum er hún Annelie sem ég verð að telja bestu vinkonu Valdísar frá árinu 1997 eða 1998 og áfram. Og þá er ég að tala um vinkonu. Þær gátu setið hér frammi í stofu, eða úti, og talað og talað saman tímunum saman og sama var það meðan við áttum heima í Örebro. Þó að það skildu þær að tuttugu ár, þá var það einhver besta vinátta sem ég hef verið vitni að. Sársaukafyllsta símtalið sem ég átti snemma um morguninn þann 16. apríl var símtalið til hennar.
 
Snemma þann morgun hafði ég fengið sms frá henni þar sem hún spurði eftir líðan Valdísar, en þá var Valdís þegar farin heim til sinna nýju heimkynna. Að heyra sorg hennar skar gegnum hjartað. Hin vinkonan, Ghita, situr fyrir miðju hægra megin við borðið. Kannski var það hennar finnska sinni sem gerði henni kleift að taka hlutunum með meiri ró. Báðar þessar konur eru heimilisvinkonur á Sólvöllum í dag og ekki síst þegar Rósa og fjölskylda eru hérna. Sérstsaklega Annelie hefur oft samband til að athuga hvort allt sé í lagi. Kannski bað Valdís hana þess þó að ég fái ekki að vita það. Það hefði ekki verið ólíkt henni. Menn þeirra beggja sitja við hlið þeirra.
 
En það finnst líka léttari hlið við þessa mynd. Allir eru brosandi. Hannes er líka með. Hann stríðir mér bara með einu, og það er að vilja ekki vera með á mynd, ekki alltaf en oft. En þegar ég tók þessa mynd skaust hann allt í einu fram að stólnum hennar mömmu sinnar og stillti sér upp -á sinn hátt. En sá háttur var líka bestur á því augnabliki og ég flýtti mér að smella af meðan hann ennþá var þarna til staðar.
 
Næst okkur á borðinu er rúgbrauð og ostur. Fjær er smjörið og hangikjötið og fjærst eru pönnukökurnar. Þegar ég sagði að hangikjötið væri reykt lambakjöt runnu tvær grímur á mann einn í hópnum og hann spurði hvort það væri skylda að smakka á því. Ég sagði svo vera, annars fengi hann ekki vísum til Íslands. Það runnu á hann tvær grímur en svo smakkaði hann á hangikjötinu og þótti gott. Hann mun fá vísum til Íslands.
 
Þetta var stórskemmtileg stund, blanda af hádegisverði, árdegiskaffi og síðdegiskaffi. Að ég er að telja upp það sem borið var á borð geri ég til þess að sýna fram á að það var íslenskt borð á afmælisdeginum hennar Valdísar. Þannig hefði hún haft það sjálf. Afmælisdagurinn hennar heppnaðist vel.
 
Þegar þetta fólk var komið í hús á Sólvöllum saknaði Hannes þess að athyglin snerist frá honum til gestanna. Að lokum settist hann við tölvuna í herbergi afa og horfði á barnaefni. Hann lét sér það vel líka þó að það væri óreiða á afa skrifborði. Hann sagði ekki skamm, skamm afi, en leyfði mér þess í stað að taka eins margar myndir og ég vildi.

Ég horfi út í skóginn þar sem bláberjabekkurinn stendur

Ég vildi helst ekki líta út í morgun enda var ég ekki fjótur til þess. Klukkan var rúmlega níu þegar ég hætti að horfa upp í loftið og láta hugann reika. Það var margt ógert þegar það var orðið dimmt í gær en ég sætti mig við vetrarundirbúninginn. Ég hefði viljað vera búinn að ganga betur frá en hlutirnir voru bara eins og þeir voru og hafa verið verri eins og til dæmis fyrir þremur eða fjórum árum. Það var þegar veturinn lagðist yfir 1. nóvember og stóð fram undir vor. Þá fór margt óundirbúið undir snjó en jörðin hélt samt áfram að snúast og lífið hélt líka áfram að vera til. Svo fór snjórinn einum fjórum mánuðum seinna, vorið kom og hlutirnir voru í þokkalegasta lagi þrátt fyrir allt.
 
Á morgun kemur fólk í heimsókn sem mun hjálpa mér við að koma ýmsu upp á loft á Bjargi. Það bíður nú í þurru húsnæði í bílageymslunni. Hannes ætlar að koma með fjölskylduna sína. Kannski setjum við á könnuna saman og það verður hann sem ákveður en ég fæ að hjálpa til eins og síðast þegar hann var hér. Það varð líka gott kaffi úr því og verður áfram.
 
Ég horfi út í skóginn þar sem bláberjabekkurinn stendur. Hann fær að vera úti í vetur, bara þar sem hann er. Nokkrum sinnum hef ég setst í hann á liðnu sumri en of sjaldan. Það verður ekki byggt meira á Sólvöllum á næstunni en klárað að ganga frá ýmsu. Þar af leiðandi vona ég að ég geti í róleghetum setst oftar á bláberjabekkinn og látið hugann reika -dreymt dagdrauma öðru hvoru. Ég þarf að kaupa eina tvo svona bekki í viðbót og setja á aðra staði í skóginum svo að dagdraumar mínir fái á sig fleiri myndir. Ég þarf líka að láta eftir mér að sitja oftar í hengirólunni á veröndinni móti skóginum. Einnig að setjast oftar í stólinn snemma á morgnana, stólinn á litlu veröndinni utan við útihurðina á herberginu mínu, líka á móti skóginum.
 
Það er nefnilega svo notalegt með þetta á móti skóginum. Þangað er hægt að rölta á nærbuxunum og kannski í nærskyrtu líka og svo bara vera þar. Sjá síðan sólina koma upp á austurhimininn, brjóta sér leið gegnum smá glugga í skógarþykkninu og mynda hinar ótrúlegustu myndir af upplýstum salarkynnum sem færast til í laufhafinu eftir því sem sólin hækkar sig og dregur sig móti suðri. Svo að lokum tekur hún sig yfir græna laufhafið og hellir ylnum yfir nærbuxnamanninn sem situr á veröndinni og bíður nærveru hennar. Þá verður gott að vera til, ekki einn, heldur með þessum lífsförunaut sem ekki hefur svikið lífið á jörðinni í miljónir ára.
 
Mikið er notalegt að hugsa um vorið og sumarið á þessum gráa morgni þegar hitamælirinn stendur í 0 gráðum. Það falla niður gisin og smávaxin snjókorn. Jörðin nær þó alls ekki að vera hvít og verður það líklega ekki í dag. En veturinn er eðlilegur og nauðsynlegur og án hans verður vorið og sumarið ekki svo fallegt sem skyldi. Ég veit líka að það munu koma tímar í vetur þegar ég hugsa; hvort er fallegra vetur eða sumar? Það verður þegar allur skógurinn kristallar sig í ótrúlegu hrími. Þá er hægt að horfa út um gluggann, eða fara hring í Sólvallaskóginum og hugsa; þetta er af öðrum heimi. Svo kemur lág vetrarsólin upp og kristalhallirnar og silfurturnarnir hverfa snögglega -oftast nær. Stundum er nógu kalt og sólarlítið til að þetta haldist allan daginn.
 
Þá getur til og með Sólvallakallinn orðið skáldlegur eins og Jónas forðum, eða Matthías, eða Davíð þegar hann sat í lynginu í eyfirskum brekkum og skrifaði sín fallegustu ljóð.
 
Klukkan er farin að halla í ellefu og ég þarf að fara að elda hafragraut og borða svo að ég geti orðið nýtur maður í dag. Ég kem nú til með að fara einhverja hringi hér úti og líta eftir. Líka til að binda upp brómberin sem ég gat ekki bundið upp í gærkvöldi því að það var orðið svo dimmt. En aðal áhersluna verð ég að leggja við að þrífa hér innanhúss. Ég sagði þrífa. Ég þarf að þrífa mikið og vel í dag og á morgun. Ég er svo heppinn að hafa þurrkað af einn og einn hálftíma öðru hvoru, þrifið eldhúsinnréttingu og hurðir og stundum er ryksugan vinur minn. Þá er ég feginn að hafa þetta fína parkett á gólfunum. Það lítur svo vel út þegar það hefur verið ryksugað. En nú skal gera betur. Gesta er von.
 
Svo þarf ég að gera innkaup. Í vikunni fékk ég tilkynningu um að á coop kaupfélagskortinu mínu er innlagður 10 % afsláttur á einu innkaupi um helgina frá og með í dag. Ég safna því á bakhliðina á umslaginu utan af rafmagnsreikningnum sem mestu af því sem ég þarf að kaupa fyrir helgina.
 
Ég settist við tölvuna til að skrifa niður tvær setningar sem ég vildi ekki gleyma. Þessar setningar urðu aðeins fleiri. Góður dagur hefur byrjað á Sólvöllum, morguninn er ekki lengur grár og ég hlakka til að borða hafragrautinn.

Veturliði

Ég var svolítið í kapphlaupi í dag en ég hafði erfiðan keppinaut. Hann verður ekki umflúinn og hann leggur allt undir sig og gefur engin grið. Það er best að gefa honum nafnið Veturliði. Í nótt leggst veturinn yfir þetta land samkvæmt spám en þó er það svo að það á að snjóa í nótt, rigna í fyrramálið og snjóa svo síðdegis á morgun. Ekki svo venjulegt hér að það sé spáð svona misjöfnu veðri en við sjáum til hvers konar hrærigrautur það verður.
 
Ég ýkti í fyrstu setningunni. Ég var ekki í neinu kapphlaupi í dag. Ég hef lýst því yfir að nú sé Sólvallaeignin komin á það stig að það sé hægt að slá slöku við hvenær sem er. Það er að segja að fresta verki, taka hlé í miðju verki og að ég fari mér hægt ef ég vil. Það er mikið notalegra þannig en að finnast sem það sé alltaf þrýstingur á að klára fljótt, fljótt hvert verkið á fætur öðru. (Að vísu er ég aldrei fljótur með þessi verk mín þó að ég reyni) En nú ætla ég samt að gera játningu. Ég er ekki alveg kominn í þann gírinn ennþá. Ég á í örlitlum vandræðum með sjálfan mig hvað þetta varðar. Samt er það orðið mikið betra núna en fyrstu dagana þegar ég hafði statt og stöðugt á tilfinningunni að ég yrði að flýta mér með eitthvað.
 
 
Þetta er óásjáleg mynd. Framan á þessu grindverki til sitt hvorrar hliðarinnar eru klifurrósir. Ég vil ekki hafa klifurrósir upp við húsvegg. Þær bíta sig ótrúlega fast við viðinn. Því ákváðum við Valdís að setja þessar rósir út á lóð þar sem hún sæi þær út um gluggann frá stólnum sínum. Þannig gróðursettum við þær vorið 2012. Svo kom veturinn 2012 -2013, veturinn sem drap rósir í Örebroléni í þúsundatali, þar á meðal rósirnar hennar Valdísar. Svo gróðursettum við nýjar rósir síðastliðið vor en ég byggði ekki bakvið þær fyrr en í dag. Því vildi ég endilega ná fyrir veturinn. Það var að skyggja í dag þegar ég tók þessa mynd og þess vegna var ég ekki búinn að ganga frá þegar ég tók myndina.
 
Sómakonurnar vinkonur Valdísar vildu endilega láta eitthvað af hendi til að sýna henni hlýhug eftir að hún féll frá. Svo komu kerlingaangarnir með umslag með sér þegar þær komu hér í heimsókn í haust og í umslaginu var gjafakort fyrir einni rós. Ég er búinn að gefa þeirri rós pláss mitt á milli þeirra gömlu og svo er spurningin hvort sú rós verður í einhverjum öðrum lit. Í hvítum lit kannski? Þær sem þarna eru eru báðar rauðar. Þannig vildi Valdís hafa það. Garðyrkjumaðurinn sem ég hef oft samband við ráðlagði mér að bíða vorsins úr því sem komið væri. Það var nú líka best þannig. Grindverkið er komið upp og rósamold og hænsnaskítur er kominn í rósabeðið og allt er frágengið og nú má veturinn koma á þetta. Að vori verður mikil gróska í rósunum á Sólvöllum þar sem nú fyrst er þetta almennilega tilbúið.
 
Þetta er reyndar ekki það sama. Hér eru brómber. Þegar ég varð sjötíu ára komu nokkrir fulltrúar frá Vornesi í heimsókn. Starfsfólkið hafði safnað peningum fyrir tveimur eplatrjám og svo varð afgangur. Þá bættu þau við tveimur brómberjaplöntum. Ég var þeim þakklátur fyrir þessa sniðugu hugmynd því að ég held að mér hefði seint dottið það í hug sjálfum. Þá um vorið gróðursetti ég þessar plöntur á ótrúlega fáránlegum stað og í sumar færði Rósa þær á þaulhugsaðan stað og nú er líka búið að byggja bakvið þær. Óásjálegt er þetta líka eins og rósirnar en að vori mun koma mikil gróska í brómberjaplönturnar líka. Ég yrði mjög stoltur ef ég fengi einn eða tvo bolla af brómberjum á næsta ári. Á morgun þarf ég að binda þessar plöntur við grindverkið. Það er góð tilfinning að vera búinn að gera vel við þetta hvort tveggja.
 
 
 
Persimónur
Já, persimónur heita þessir ávextir. Ég held að ég hafi séð þá lengi í verslunum en aldrei keypt þá fyrr en fyrir eins og viku. Þetta eru bragðgóðir ávextir fannst mér, safaríkir og kjötkenndir. Ætli ég kaupi ekki eins og tvö kíló af þeim fyrir helgina. Rósa og fjölskylda koma nefnilega um helgina og það er til nóg af sultusykri hér heima. Því ekki að gera tilraun með persimónusultu? Ég las um þessa ávexti áðan og mér sýnist sem þeir séu með ólíkindum hollir. Það er margt hollt í þessum heimi ef að er gáð. Því ekki að nýta sér það í skammdeginu og koma svo ungur og hraustur undan vetri.

Ég er dálítið af gamla skólanum

Eftirfarandi sagði ég í blogginu mínu í gær: "Allt í einu kom hann hlaupandi niður tröppurnar þar sem við Valdís stóðum, svona líka snarlifandi, og eitt augnablik snarstoppaði hann beint fyrir framan mig og leit undrandi í andlit mér. Og ég segi aftur "undrandi". Svo hljóp hann að næstu tröppu og þar upp. Ég var ekki í vafa um að hann tók eftir lífleysi í andliti mínu. Ég skal líka viðurkenna að á því augnabliki fannst mér það sjálfum miðað við hans sterka lífsloga."
 
Þetta var ekki á auðveldasta tímabili í lífi mínu en samt langt frá því versta, og það kom aðallega fram í því að ég var með stuttu millibili að fá ofnæmi fyrir hinu og þessu. Ég vann með fólk sem var að taka sig á til að fá betra líf og ég gerði mér grein fyrir því að ég þyrfti sjálfur að taka mig á á minn hátt. Fyrir mig fjallaði það ekki lengur um áfengi eða nein vímuefni, heldur um að þroska mig á mörgum sviðum. Til dæmis að gera mér vinnuna léttari, að æfa mig í því að líta á ýmsar skyldur og kvaðir í lífinu sem skemmtilegri viðfangsefnum í stað þess að til dæmis fara í fýlu við að borga reikningana mína.
 
Að þessu og mörgu öðru vann ég skipulega og lengi. Ég hætti að fá ofnæmi, fæ nánast aldrei kvef eða inflúensu og aldrei magapestir. Lífið varð sem sagt ekki bara betra á andlega sviðinu, heldur líka því líkamlega. Og svo fór ég að finna fyrir óvæntum ávinningum á fleiri sviðum. Peningarnir mínir fóru að duga betur þegar ég var búinn að vinna bug á reikningafýlunni. Ég sagði frá því eitt sinn á morgunfundi starfsfólks í Vornesi og lagði áherslu á þetta með að penginarnir hefðu farið að duga betur. Þá heyrðist kona ein sem sat fundinn segja lágum rómi við sjálfa sig: "Þetta verð ég líklega að prufa".
 
Fari einhver að hlæja núna þá vil ég bara segja að þetta segi ég í fullri alvöru; peningarnir fóru að endast betur.
 
Ég hef þurft að taka á ýmsu undanfarið án þess þó að mér hafi fundist ég hafa nokkra ástæðu til að kvarta undan lífinu. Þegar ég hef látið eymd og væmni ganga of langt hefur það komið fram á öllu sem ég hef aðhafst. Allt hefur farið að ganga hægar eða ekki neitt. Ég hef farið að finna fyrir veikindaeinkennum sem auðvitað voru bara ekki fyrir hendi og svo margt og margt hefur fengið á sig dekkri blæ. Skammdegið hefur þá líka orðið svartara.
 
Það er búið að segja við mig marga og mjög mikilvæga hluti undanfarið sem ég hef tekið mark á og síðan hefur mér tekist að vinna úr miklu mér til mikils ágætis. Bloggið mitt í gærkvöldi var þáttur í því. Að viðurkenna eigin takmarkanir og sjá að aðrir komist betur af með jákvæðni og dug í stað þess að finna gildar orsakir fyrir eigin takmörkunum, það er stærsta skrefið. Það hvetur mig til dáða. Hvað er stærst og stærst er kannski alltaf teygjanlegt, en eitt veit ég: Stjórnandi sjónvarpsþáttanna sem sendir voru út frá Örebro um árið og ég talaði um í gær, hann var með krabbamein og dó nokkrum mánuðum síðar. Hann vissi það og hann snarstoppaði fyrir framan mig og horfði undrandi á mig af því að ég, fullfrískur maðurinn, leit svo eymdarlega út.
 
Hvílík lífsgæði sem hann skapaði sér á síðustu vikum lífsins með afstöðu sinni. Það nefnilega fór ekki milli mála að hann naut vinnunnar sinnar, "alveg í botn", þegar hann stjórnaði þessum sjónvarpsþáttum. Hvað ætti ég þá að geta, fullfrískur maðurinn nýbúinn að fá úrvalsskoðun hjá 80 ára gömlum lækni sem vinnur vinnuna sína einhverja viku í mánuði vegna þess að hann nýtur þess að vera virkur samfélagsþegn.
 
Í blogginu mínu í gær viðurkenndi ég að nokkru annmarka mína, svolítið á dulmáli. Á milli línanna fundust líka fleiri viðurkenningar. Það er góður siður ef ég vil komast áfram og vinna á annmörkum mínum að viðurkenna. Þá segi ég frá sjálfum mér. Sjúklingarnir mínir í Vornesi segja oft að þeir skilji svo vel það sem ég segi þó að ég tali svolítið bjagaða sænsku. Ég segi eins og er og ég nota afar lítið kenningar. Þegar ég segi sannleikann um sjálfan mig um leið og ég tala til þeirra skilja þeir mig. Ég er dálítið af gamla skólanum og er alveg þokkalega stoltur af.
 
Dagurinn í dag hefur verið lýsandi. Ég þakka það að nokkru blogginu mínu í gær. Það logar á kerti við stóru myndina af Valdísi og það geri ég af virðingu við hana. Hún vinnur hins vegar ekkert á því að ég liggi í eymd og svíki þar með samferðafólk mitt. Mér ber að vera lifandi meðan Herrann lætur mig lifa.
 
(Ég held bara að það sé vitleysa að hann Guðjón á Sólvöllum sé rugludallur)

Að vera þátttakandi í birtunni

Ég ætlaði ekkert að segja frá þessu en málið var að ég var að hengja upp fuglamat í trén hérna heima á laugardaginn var. Svona tólgarbolta í neti sem eru með miklu af fræi í og öðru góðgæti fyrir fuglana. Ég dreg band í gegnum netið og hengi boltana svo upp.
 
Lítill fugl kom svífandi og settist ofar í tréð. Hann horfði niður til mín og byrjaði að tala við mig. Hvernig hefurðu það manni? spurði hann. Jú takk, það dugir svaraði ég. Lélegt svar sagði fuglinn. Ég vissi það og átti erfitt með að tjá mig meira. Mig langað að segja að ég væri alveg í sjöunda himni en ég treysti mér ekki til að ljúga. Ég vonaði að hann bjargaði mér úr klípunni og héldi áfram. Sjálfsagt vissi hann það og beið átekta -lengi. Ég sótti fleiri kúlur af fuglamat til að hengja upp á næstu grein. Kannski var ég að reyna að blíðka fuglinn.
 
Þegar ég var að hengja þær upp sagði hann: Manni! Þú sem ert alltaf vera að lesa góðar bækur og gera góða hluti, af hverju ertu ekki í sjöunda himni? Úff, í sjöunda himni, vissi hann hvað ég hafði verið að hugsa. Ég vissi að hann hafði rétt fyrir sér en það vantaði einhverja skerpu til að það sem ég hef verið að taka til mín og gera fyrir sjálfan mig kæmist alveg til skila.
 
Fuglinn flaug nú nokkra hringi kringum tréð og mér fannst sem hann væri þyngdarlaus, svif hans var svo létt. Takk fyrir matinn sem þú gefur okkur og bless, bless, sagði hann. Svo tók hann flugið upp á við og austur yfir skóginn og hvarf. Eftir skildi hann birtu yfir trjátoppunum þar sem hann hvarf og ég skildi hana ekki alveg. Það var ekki andlit í birtunni en samt var hún eins og birta af andliti sem geislar af lífi, lífi sem lætur ekki hindra sig af smámunum. Hvorki smámunum eða neinu öðru sem þyngra vegur á vogarskálinni.
 
Þetta voru skilaboðin til mín: Manni, farðu nú að vera fullorðinn og slepptu ljósinu inn í líf þitt. Fylltu þig af því og vertu lifandi fyrir allt og alla. Þá geturðu orðið afi barnabarnanna þinna í mörg ár til, afi sem þau munu aldrei gleyma.
 
*          *          *
 
Ég var á tónleikum í gær. Hún Kristín skólasystir mín var með mér. Hún er tónlistarkona og hún hlakkaði mikið til. Það gerði ég líka. Svo þegar við komum að sætunum okkar, númer 1116 og 1117 var kominn maður í annað sætanna. Hann var líka með 1117. Dyravörður var á næsta leiti og hann gekk í málið og svo gekkst annar maður í þetta líka og hann hafði greinilega hærri gráðu en dyravörðurinn. Meðan þetta var í óvissu settist Kristín í autt sæti ofarlega á áhorfendabekkjunum.
 
Eftir að hringsnúast þarna nokkur andartök með þessum mönnum gekk ég áleiðis til Kristínar og þá varð mér litið upp á móti bekkjaröðunum og virti fyrir mér andlit hennar þar sem hún sat og beið eftir að dregið yrði frá sviðinu. Andlitið lýsti af þessari líka afslöppuðu lífsgleði og vissu um að bráðum yrði gaman og hún mundi taka þátt í því. Það ætlaði ég líka að gera en ég fann samt mun á mér og þessu andliti. Þarna sá ég hana líka fyrir mér þegar hún gekk kvöld og kvöld með gítarinn sinn inn í matsalinn í Skaftafelli þegar búið var að ganga frá öllu og starfsfólkið fylgdi henni. Svo var spilað og sungið og allir höfðu gaman. Fólkið frá Asíu, Alaska eða Kamerún eða hvaðan það nú kom. Líka fólkið frá Akranesi og Reykjavík.
 
Að lokum fengum við auð sæti, nokkuð að eigin vali. Svo var dregið frá sviðinu og tónleikarnir hófust. Þá var eins og þyngdarlögmálið upphæfist, hyrfi, og líkamsþyndgin yrði eins og hjá fuglinum sem heimsótti mig við matargjöfina. Eftir einhvern hálftíma datt mér allt í einu að líta á klukkuna og varð alveg hissa hvernig ég hreifst. Ég var viss um að ef ég hefði verið að hlusta á þessa tónlist í bílnum mínum á leiðinni í vinnuna, þá hefði ég slökkt á tækinu. En þarna var ég algerlega gagntekinn. Ég leit á Kristínu og hún virtist hafa orðið af með þyngdarlögmálið líka. Hún var í tónlistarheiminum. Svo héldu tónleikarnir áfram.
 
Að sjá lýsandi andlit Kristínar þarna á áhorfendabekknum minnti mig á það að fyrir mörgum árum var send beint út í sjónvarpi þáttaröð frá Örebro. Það var látið út ganga að æskilegt væri að áhorfendur væru viðstaddir og fylgdust með. Að minnsta kosti eitt kvöldið fórum við Valdís til að fylgjast með. Við stóðum nálægt einum af tröppunum sem lágu upp á stórt sviðið. Stjórnandinn var lítið yngri en við, en svo ótrúlega lifandi og drífandi. Ég hugsaði sem svo að það væri svona líka sterkur í honum lífsloginn. Alveg aðdáunarvert. Allt í einu kom hann hlaupandi niður tröppurnar þar sem við Valdís stóðum, svona líka snarlifandi, og eitt augnablik snarstoppaði hann beint fyrir framan mig og leit undrandi í andlit mér. Og ég segi aftur "undrandi". Svo hljóp hann að næstu tröppu og þar upp. Ég var ekki í vafa um að hann tók eftir lífleysi í andliti mínu. Ég skal líka viðurkenna að á því augnabliki fannst mér það sjálfum miðað við hans sterka lífsloga. En það var þá og síðan eru ár og dagar og mér hefur tekist all nokkuð að virkja lífslogann og stefni enn fram á við.
 
En tónleikadagurinn var mjög góður dagur og að kvöldi þess dags hafði mér tekist að höndla birtuna sem fuglinn skildi eftir yfir trjátoppunum. Ég var ákveðinn í því að vakna í þeirri birtu í morgun líka. Ekki gekk það alveg eftir en lífið er samt miskunnsamt við mig og gefur mér möguleikann á að vera þátttakandi í birtunni.
 
 
(Hann er nú meiri rugludallurinn hann Guðjón á Sólvöllum)

Að fá að njóta náðarinnar

Ég fékk í morgun nokkrar línur frá góðum vini sem heitir Trausti Jónsson og þessar línur höfðu djúp áhrif á mig. Svo djúp áhrif að ég valdi strax skipunina "skrifa" á blogginu og byrjaði. Það hafði líka dýpri áhrif á mig að þessar línur voru frá karlmanni en samt tókst honum að segja orðin á þann hátt sem karlmönnum er ekki svo oft létt að gera. Hann talaði til dæmis um "einlægni" og að vera "vitur". Það vakti upp ákveðnar hugsanir hjá mér og sé ég einlægur, hver er þá rótin til þess.
 
Þær eru margar sorgirnar í lífinu. Það var mikil sorg að bíða í andyrrinu á Vogi eftir því að þar kæmi ókunnug kona sem tæki á móti mér og skrifaði mig inn. Í þrjátíu ár hafði ég reynt að stjórna drykkju minni eða hætta henni alveg en mér hafði aldrei tekist það. Þarna stóð ég á vegamótum, hálf fullur og gríðarlega sorgmæddur yfir því að hafa skaðað líf mitt og annarra í svo langan tíma. Guð minn góður hvað ég var veikur. Ég leit samt á mig sem aumingja sem ekki hafði tekist að ávaxta þá eiginleika og hæfileika sem mér höfðu verið gefnir.
 
Næstu fjörutíu daga var ég að læra það að ég væri ekki aumingi. Það uppgjör var samt sem áður eitt sorgartímabil þar sem fólk hló samt öðru hvoru og gerði að gamni sínu og víst reyndi ég líka að bera mig vel, svona inn á milli allavega. Enn í dag get ég fundið fyrir sorg vegna þessara þrjátíu ára. Ég þarf ekki að vera meiri eða merkilegri en aðrir, eða einhver annar, ég þarf bara að spila á sem bestan hátt úr því sem mér var gefið. Þá er ég vitur. Ég tel mig ekki hafa mikla þörf fyrir að vera áberandi þó að fólki geti kannski þótt bloggið benda til einhvers annars.
 
Ég heyrði eitt sinn sanna sögu um mann sem fór í gegnum áfengismeðferð. Hann var ögn þroskaheftur og ráðgjafarnir voru kannski ekki svo vongóðir um að honum tækist að nýta sér boðskapinn. Þremur árum seinna mætti einn ráðgjafanna þessum manni og spurði hann hvernig gengi. Hann svaraði því til að honum hefði verið sagt á meðferðarheimilinu að gleyma aldrei þremur atriðum. Það var að borða og sofa reglulega, hreyfa sig reglubundið og fara reglulega á AA fundi. Þetta hef ég staðið við sagði maðurinn og ég á gott líf.
 
Þessi maður var að mínu mati vitur.
 
Ég vildi að ég hefði látið skrifa mig inn á Vog fyrr en ég gerði vegna þess að ég hefði verið svo vitur. Svo var það samt ekki. Ég og maðurinn sem ég sagði frá hér áttum það sameiginlegt að koma inn í meðferð vegna þess að við vorum báðir komnir að sársaukamörkum í lífi okkar. Síðan áttum við það sameiginlegt, og eigum enn, að hafa hæfileikann að vera nógu vitrir til að fara þá leið sem hefur hjálpað tugum miljóna manna og kvenna í heiminum til að bjarga sér frá áfengisbölinu. En þetta segir bara hálfa sögu. Það er svo merkilegt að það er eins og það fái ekki allir að njóta náðarinnar til að fara þennan veg. Og ég vil aftur nefna orðið "náð".
 
Ég þekki svo margar góðar manneskjur, manneskjur sem voru svo ótrúlega "góðar", en þær fengu ekki að njóta náðarinnar. Ég veit ekki hvað Guð meinar með þessu en svona er það. Þegar ég skrifa þessi sönnu orð finn ég fyrir sorg. Sorgin og treginn eiga greiðan aðgang að mér á þessum morgni. Ég lít ekki niður á þær manneskjur sem ekki tókst. Þeim var ekki úthlutað náðinni og mér þykir reyndar vænna um svo margar þeirra en ýmsa aðra. Mótsagnakennt eða hvað? Þessar manneskjur voru margar hverjar svo vitrar en þær fengu ekki að njóta náðarinnar.
 
Það er erfitt að orða þetta allt saman skipulega en ég finn fyrir sterkri þörf fyrir að gera það af einlægni. Af hverju í dag alveg sérstaklega get ég ekki svarað, en ég get á þessari stundu séð fyrir mér andlit sem hafa borið merki sorgarinnar vegna þessa skelfilega sjúkdóms, bæði alkohólistanna sjálfra og þeirra sem hafa elskað þá mest. Það er ekki svo langt síðan ég sagði að ég væri barnalegur en þá var mér sagt að ég væri ekki barnalegur heldur einlægur. Ég bæði var og er þakklátur fyrir þau orð. Ef það væri til meiri einlægni í heiminum liti hann öðru vísi út.
 
 
 
Ég hef nefnt Skógaskóla æði oft undanfarið. Þar voru fótboltalið, jafn mörg og bekkirnir. Ég var ekki í neinu liði vegna þess að ég var lélegur í fótbolta og mér var alveg nákvæmlega sama. Maður að nafni Gunnar stofnaði svo eitt lið enn og það lið hét "Úrkastið". Ég lenti í Úrkastinu og gerði það til að vera ekki félagsskítur.
 
Svo keppti Úrkastið við eitt hinna liðanna og tapaði auðvitað eins og alltaf. Eitt sinn í þessum leik vorum við báðir á marklínunni, ég og boltinn, og þá er maður nálægt markinu. Örfáa metra. Markmaðurinn hafði dottið hálf illa og var nokkur augnablik að ná sér á strik. Ég hafði því góðan tíma, bakkaði aðeins, hljóp svo til og sparkaði af alefli. Ég ætlaði að láta netið bakvið markið bylgjast af þrumuskoti mínu og fá klapp frá fimmtíu fallegum stelpum sem horfðu á. Skelfingu lostinn sá ég síðan boltann fara mjög hátt yfir markið, bera drjúgan spöl yfir Drangshlíðarhnjúk í vestri og lenda síðan vestur á túni hinu meginn við veginn heim að Skógum.
 
Já, og þær fimmtíu sætu stelpur sem horfðu á þennan leik, þær klöppuðu ekki fyrir mér. Ég verðskuldaði það heldur ekki. Þegar maður er sextán ára sefur maður ekki mikið nóttina eftir svona atvik, eða svo gerði ég ekki. Ég sá lengi fyrir mér boltann þar sem hann bar yfir fjallið og hljóðlátann stúlknahópinn sem ég hafði reiknað með að klappaði fyrir mér eftir vel gert mark. Mér fór illa að vera með rembing. Ég var bara í Úrkastinu af félagslegum ástæðum en ekki til að það yrði tekið eftir mér. Ég gleymdi því bara eitt augnablik og lét rembinginn taka yfirhöndina í staðinn fyrir að láta boltann rúlla rólega inn í markið.
 
Góðir fótboltamenn eru hreint alveg frábærir og það klæðir þá vel að vera á vellinum. En ég var bara ekki einn slíkur og fór heldur ekki vel að leika hann. Mér fer betur að vera einlægur og helga mig því sem klæðir mig betur. Þannig er ég vitrari. Þakka þér fyrir orðsendinguna í morgun Trausti. Ótrúlega hvað þetta setti mikið af stað.
 
 *          *          *
 
Nú undir kvöldið leit ég yfir það sem ég skrifaði með all miklu hraði nokkuð tímanlega í morgun. Ég velti fyrir mér að henda því eða fela á harða diskinum mínum. Svo ákvað ég að láta það fara út á veraldarvefinn.
 
Gömlu tilfinningarnar svo sem biturð, ótti og vanmáttarkennd eiga ekki lengur bústað í brjósti mér og því þarf ég ekki að nota vörn og ósannindi til að dylja minn innri mann. Skammdegið hér á Sólvöllum í morgun ríkti dágóðan tíma framyfir birtingu en síðdegismyrkrið er bjartara núna undir kvöldið en venjulega -þó að það rigni.
 
Mér er ljúft að læra af því sem lífið hefur boðið mér upp á. Öðrum kosti væri lífsreynsla einskis virði. Suma daga er heimanámið erfiðara en aðra daga, en ánægjan yfir að hafa ekki brugðist náminu þeim mun meiri að lokum. Sumum, eða mörgum, virðist hafa tekist að halda utan um þær góðu dyggðir sem þeir fengu að gjöf, aðrir hafa skemmt þær og þurfa að æfa þær upp. Það er margt að sýsla með í mannheimi. Ég er þó nokkuð ánægður með þau útiverk sem ég setti mér fyrir í gærkvöldi og í fyrramálið verður auðvelt að ganga til verka á ný.
 
Laxinn er nánast þiðnaður á eldhúsbekknum og það er kominn tími til að krydda hann. Bakarofninn er að hitna. Síðan ætla ég að þrífa svolítið inni hjá mér og setja í eina þvottavél sem ég ætla að láta byrja að þvo klukkan sex í fyrramálið. Eftir því sem ég fæ best séð verður þvottasnúruveður á morgun. Þá kemur þvotturinn minn til með að anga vel, að anga af úti. Svo ætla ég að enda daginn á því að lesa um stund í bók sem heitir Það hendir þegar þú hvílist.

Eirðarleysi

Ég fann það strax í morgun þegar ég var að koma mér á stjá -eirðarleysi. Ég fann þetta líka þegar ég var búinn að loka grunninum undir íbúðarhúsinu. Ég átti eftir að loka grunninum undir einum gafli, minna en fimm metra breiðum gafli sem vissi að skóginum, í hálfgerðum felum, og þá reyndi ég að skrökva því að sjálfum mér og öðrum að ég væri búinn. Í laumi ætlaði ég bara að draga þennan eina gafl til næsta vors og fann til þess afsakanir sem ég man ekki lengur, svo lélegar voru þær. Málið var bara að ég var búinn að fá mig meira en fullsaddan af þessari grunnavinnu minni.
 
Svo fórum við Kristín upp í Dali og með því var ég meðal annars að halda upp á að grunnavinnan væri búin. En hún var ekki búinn. Meðan við vorum þar uppfrá fann ég á öllu að ég mundi fara í þetta strax og ég kæmi heim. Daginn eftir byrjaði ég og var óánægður yfir að hafa verið að skrökva þessu og viðurkenndi yfirsjón mína. 12-spora prógrammið segir að við eigum að gera svo og ég fylgdi því eftir. Eftir nokkuð samfleytta viku vinnu við þennan eina gafl var ég að lokum búinn og það með réttu. Grunnurinn undir öllu húsinu var orðinn eins og best verður á kosið. Þá kom eirðarleysið.
 
Eirðarleysið byggðist á því að ég ætti ýmislegt eftir en ég þurfti að taka ákvörðun um hvað næst yrði gert. Ég fann að ég gæti ekki slegið slöku við nema stuttan tíma. Þetta var eins og timburmenn. Svo ákvað ég að fara að vinna við loftið á Bjargi, að setja rúmlega 30 m2 gólf þar uppi og geta síðan gengið frá öllu lauslegu sem liggur svolítið hingað og þangað í óreiðu í þessa afbragðs góðu geymslu sem nú er tilbúin á loftinu. Nú er gólfið tilbúið og þá kom eirðarleysið aftur -timburmennirnir.
 
En nú undir kvöldið tók ég ákvörðun um hvað næst tæki við. Það var í raun aðeins um eitt að ræða og það var að taka til hér á Sólvöllum og fara að tína upp á loftið það sem þangað á að fara. Hins vegar veit ég að eirðarleysið hverfur ekki að fullu fyrr en ég verð byrjaður á þessu á morgun. Ásamt þessari tiltekt kem ég til með að setja stuðning eða þil bakvið rósarunnana hennar Valdísar sem eru utan við gluggann þar sem hún sat svo oft. Einnig bakvið brómberjarunnana sem Rósa færði frá ómögulegum stað og á góðan stað seinni partinn í sumar. Tiltektin og þetta hangir saman.
 
Verkefnið á eftir þessu verður svo að ljúka við baðherbergið á Bjargi. Vinnulega séð lendir það kannski ekki svo mjög mikið á mér því að þar er um fagvinnu að ræða sem ég kaupi að miklu leyti. Ég vil að þar verði allt gert eins og tryggingarfélög krefjast annars get ég setið illa í súpunni og ég er orðinn of fullorðinn til að lenda í svoleiðis.
 
Svona er lífið í sveitinni og það er ekki svo slæmt líf. Ég legg mér línurnar og ráðfæri mig oft. Svo vinn ég að hlutunum og ég er alltaf að sjá nýja hluti fæðast. Samt er það þannig að verkefnin minnka að umfangi eftir því sem frá líður. Þannig á það líka að vera. Kannski ég geti svo farið í smá ferðalag næsta sumar til að halda upp á að einhverju nýju verði þá lokið. Samt verður aldrei öllu lokið og það er líka best þannig.
 
Að lokum þrjár myndir sem allar fá smá texta.
 
Þarna sér yfir einn áfanga síðsumarsins. Skrúðgarðameistarinn inn í Adolfsberg í Örebro sagði mér hvaða helgi væri sú allra síðasta til að sá grasfræi. Svo sáði ég tveimur vikum eftir það og sáningin er orðin nokkurn vegin græn. Ekki náði ég að slá þetta, en hann sagði að ég þyrfti að slá sáninguna tvisvar sinnum fyrir veturinn ef vel ætti að vera. Ég er samt mikið glaðari með þetta grænt en að hafa moldina drullublauta og óyndislega fyrir augunum.
 
Þetta er áfanginn sem lauk í gær. Við gaflinn hinu meginn er mikið pláss sem ekki sést svo vel á myndinni, en þangað ætla ég að flytja ýmislegt á morgun. Til dæmis fimm garðkönnur sem liggja út um allt, eina fjörutíu til fimmtíu metra af garðslöngum, garðhrífur, arfasköfur, stóra og litla blómapotta, nokkrar fötur og svo framvegis. Eftir það verður sveitasetrið Sólvellir enn þá meiri sómastaður. Þið eruð velkomin í kaffi þegar þetta er tilbúið.
 
Svo er hér eitt sem er alveg óskylt efninu. Þetta er granatepli sem hefur verið tæmt með sleifarlaginu. Nú er orðið svo gaman að tæma granatepli að ég er farinn að borða meira af þeim. Þau eru sögð mikið holl.
 
Það hvarflaði ekki að mér að blogga í kvöld en eiginlega var það áðurnefnt eirðarleysi sem dreif mig til þess. Góðar stundir.

Stórafmæli skólasystur

Ég var í afmæli í gær og ég hef bloggað út af minna en sjötíu ára afmæli. Hún Kristín skólasystir mín átti þetta afmæli. Þegar ég hitti hana fyrst í Skógum haustið 1957 var hún tæplega 14 ára og ég fimmtán ára. Þá kom hún í annan bekk og ég sem var 15 ára var þá annan veturinn minn í Skógum og líka í öðrum bekk. Ég bloggaði í haust um Ferðafélagann og þá sagði ég: "Þegar þessi lágvaxna, unga, fallega kona gekk um gangana í Skógum haldandi báðum höndum um bækurnar sínar og pennaveskið framan á maganum fannst mér alltaf, feiminn og hlédrægur sem ég var, að hún væri bæði þroskaðri og eldri en ég. Samt var hún yngri."
 
Haustið sem hún kom í Skóga var hún skólastúlka sem var ári á undan jafnöldrum sínum. Þegar ég skrifaði þetta í haust áttaði ég mig alls ekki á því að hún hefði verið svona ung. Og að hugsa sér þegar við skrifuðumst út frá Skógaskóla vorið 1959 að við ættum eftir að vera saman hér úti í Svíþjóð á þessu stórafmæli hennar fimmtíu og fjórum árum síðar. Það var svo sannarlega ekki samkvæmt neinum áætlunum. Það var líka mjög óvænt þegar Kristín hringdi til okkar fyrir fáeinum árum og sagðist vera hjá dóttur sinni í Västerås og sig langaði að koma í heimsókn. Auðvitað var hún velkomin og svo birtist hún hér á Sólvöllum og gerði það svo áfram í ein tvö eða þrjú skipti.
 
Það er til mjög falleg frásögn sem heitir Gjöf rabbínans. Hún fjallar um gamla munka sem af gefnu tilefni gera hljóðláta úttekt á hver öðrum. Þar segir um hann Filippus að hann hafi haft þann eiginleika að einfaldlega birtast við hlið annarra þegar þess var mest þörf. Ég veit í dag að Kristín hefur líka fundist við hlið margra þegar þess hefur verið mest þörf. Svo varð það líka þegar líf mitt var í brotum að hún birtist allt í einu við hlið mína og ég er að átta mig á því að þörf mín fyrir stuðning var meiri þá en ég áttaði mig sjálfur á. Þetta kom upp í huga mér á leiðinni heim í vetrarmyrkrinu eftir að hafa verið í afmælinu hennar í gær. Kannski vissi hún um þessa þörf þegar hún kom í heimsókn fyrsta sunnudaginn í júlí.
 
Kristín mín, þakka þér fyrir þína hreinu, einföldu og góðu vináttu og að hafa birtst við hlið mér þegar þess var þörf. Þakka þér líka svo innilega fyrir að fá að koma í afmælið þitt og þakka ykkur öllum fyrir hvað þið tókuð vel á móti mér. Það var eins og ég væri með fjölskyldunni minni.
 
Ég sagði við Kristínu í gær að mig langaði að blogga fallega um hana. Æ, vertu ekki að neinni vitleysu sagði hún, eða eitthvað á þá leið. Hún vill nefnilega ekki að það sé verið að hampa henni. Svo þegar ég var að leggja af stað heim og hún stóð í útidyrunum sagði ég að ég mundi blogga um hana en ég skyldi fara gætilega. Jæja þá, sagði hún, ég skamma þig þá bara ef ég verð ekki ánægð. Ég veit að hún skammar mig ekki. Ég veit að það var rétt að hún var þroskaðri en ég þegar hún kom í Skóga haustið 1957 -þó að hún væri yngri. Og ætli það sé ekki best að viðurkenna að svo er það enn. Konur eru vísar.
 
Innilega til hamingju með sjötíu ára áfangann Kristín.
 
Kristín er þarna með kaffikönnuna og sér til að allir fái í bollann sinn, Alma dóttir hennar búsett í Västerås er hinu megin við borðið og nágrannarnir hinu megin við götuna eru nær glugganum.
 
 
Glatt á hjalla. Alma ásamt dætrunum fagna þegar Kristín var að taka mynd af þeim.

Hvönnin virkar

Ég get ekki sagt að hafragrauturinn sé beinlínis fallegur þegar ég er búinn að hræra út í hann einni matskeið af þurrkuðu og möluðu hvannalaufi frá honum Bjarna Thor í Hrísey. Og svo þegar það er líka komin hálf matskeið af hvannafræi unnu á sama hátt og laufið, þá er grauturinn orðinn smá skrýtinn á að líta. Það getur líka farið þannig að það fari undarleg dreif út undir barmana á diskinum þegar ég er búinn að hræra þessu saman og þegar nágranni á mínum aldri kemur í heimsókin meðan ég er að borða þessi furðulegheit, getur hann orðið undarlegur í framan þegar hann lítur á grutardiskinn minn.
 
Svo fór fyrir honum Áka nýlega. Hann horfði undrunaraugum á morgunverðinn minn og varð svo vandræðalegur að mér fannst að ég yrði að hjálpa honum svolítið og spurði hvort honum þætti þetta skrýtinn hafragrautur. Ég sagði honum hvað ég væri með í grautnum og hann spurði hvort það gerði eitthvað gagn. O já já, ég hélt nú það. Ég sagði honum að klósettferðum mínum á nóttunni væri til dæmis að miklu leyti lokið, alla vega ef ég væri ekki að þamba of mikið vatn á kvöldin. Ég sagði honum líka að svefninn væri orðinn ennþá betri þó að ég hefði ekki þurft að kvarta. Ég sagði honum ennfremur að minn sjötíu og eins árs gamli magi væri orðinn svo rólyndur að hann væri hættur að senda brjóstsviða upp í hálsinn á mér þó að ég fengi mér kökubita að kvöldi dags.
 
Þetta síðastnefnda hefur að vísu nokkurn ókost. Það verður meiri freisting að narta í eitthvað á kvöldin og við því er bara eitt ráð og það er að eiga ekkert heima til að narta í. Auðvitað má breyta út af þeirri venju stöku sinnum og það gerði ég til dæmis um helgina í Stokkhólmi. En þetta er ekkert vandamál, það kemur fljótt upp í vana að halda þessu frá sér. Hins vegar var ég í matvöruverslun um daginn og ég sá út undan mér hvar tæplega miðaldra viðfelldin og falleg kona stóð við borð út á miðju gólfi og bauð upp á krásir. Ég þóttist fyrst ekki sjá hana og þá sá hún mig ekki heldur. Svo varð mér á að gjóa aðeins á hana auga og það var ekki að sökum að spyrja að hún náði mér umsvifalaust á sitt vald.
 
Þetta er dökkt súkkulaði sagði hún og rétti fram ljúflega, fallega súkkulaðikúlu. Ég hafði varla bitið í hana þegar ég greip sólginn tvo af pokunum sem voru til sölu á borðinu. Þannig náði hún tökum á súkkulaðifíkn minni. Svo þegar ég kom að kassanum með það litla af marvötum sem ég hafði keypt bætti ég við tveimur frekar minni súkkulaðistykkjum. Ég var eins og alki sem fellur við það að það er of mikið koníak í konfektinu. Svo át ég annað súkkulaðistykkið á leiðinni heim á Sólvelli en að öðru leyti tókst mér að koma þessu ósnertu til Stokkhólms. Súkkulaðiskúffan er tóm skuliði vita, galtóm.
 
En aftur að honum Áka. Hann kom seinni partinn í dag og sagði að konan hans hefði verið að lesa um hvönnina á Google. Hann ræddi þetta frá ýmsum sjónarhornum og ég veit að það er erfitt fyrir marga karlmenn að tala um klósettferðir á nóttunni þannig að ég annaðist það mál. Ég sagði honum að þetta stórbætti pisseríið. Stuttu síðar fór Áki heim og glaður hélt hann á litlum poka með möluðu hvannalaufi í hendinni. Síðan hringdi ég til Ottós og Dísu og bað þau að annast það að ég fengi meira af hvönn frá honum Bjarna Thor í Hrísey. Þá skal Áki líka fá hvannafræ. Ég hef ennþá meiri trú á því en laufinu.
 
Þetta er nú það helsta sem ég hef fréttnæmt úr Sólvallahverfinu sem stendur. Annars nokkuð hressir ellilífeyrisþegar hér um slóðir og aðrir óhressari ellilífeyrisþegar fara líklega að verða þrælhressir allir saman ef mörgum tekst að fara að nota hvönnina hans Bjarna Thor í morgungrautinn sinn. Ég er ekki að gera að gamni mínu -hvönnin virkar!

En það er ég sem ákveð

Afi, þú mátt alveg hjálpa mér en það er ég sem ákveð, sagði Hannes Guðjón barnabarn. Hann stóð á stól við hliðina á mér við eldhúsbekkinn í sumar eða haust og við vorum að setja kaffi á könnuna þegar hann sagði þetta. Í gær fór ég með lest til Stokkhólms til að heimsækja barnabarnið og fjölskyldu. Ég hafði meðferðis legóþyrlu handa honum og ég verð að segja að það voru æði flóknar græjur sem ég færði honum. Á umbúðunum stóð að þetta væri fyrir fimm til tólf ára en Hannes er bara fjögurra ára.
 
Svo settumst við við borð inni í stofu og helltum innihaldi pakkans á borð. Ég tók annan plastpokann af tveimur sem komu úr umbúðunum og gerði mig líklegan til að hella úr honum á borðið. Hannes tók hins vegar tvær bækur sem líka komu úr umbúðunum, leit í þessar bækur í skyndi og sagði; nei afi, það á byrja á þessum poka og hann rétti mér hinn.  Og hann hafði rétt fyrir sér. Síðan gengu þeir í það feðgar að setja saman legóþyrluna og það var all tímafrekt. Ég varð þess var að Hannes var mjög virkur í þeirri vinnu og las í teikningarnar sem voru í bókunum alveg eins mikið og pabbi hans gerði. Þeir höfðu samvinnu.
 
Ég tók enga mynd af þessari þyrluvinnu og almennt enga mynd af Hannesi hversu skrýtið sem það nú var. Við fórum líka í gönguferð í gær og ég tók þá fáeinar myndir og þær voru flestar hreyfðar og ómögulegar. En þessa mynd tók ég af hluta af bílunum hans Hannesar. Oft sýnir hann af sér mikið skipulag og snyrtimennsku og hefur röð á hlutunum. Stundum raðar hann upp bílunum sínum eins og almennt er gert á merktum bílastæðum við stórverslanir. Stundum raðar hann þeim líka upp í lengjur eins og hann hefur gert á þessari mynd. Nákvæmlega svona stóðu bílarnir þessa tvo daga sem ég dvaldi hjá þeim. Þessi mynd er líka hreyfð en ég nota hana eigi að síður. Við Hannes vorum mikið í feluleik um helgina en það þykir honum afar skemmtilegur leikur þegar afi er á ferðinni.
 
*          *          *
 
Fyrir nokkrum vikum hittust Skógaskólanemendur úr útskriftarárgangi 1959 í Perlunni. Við erum tvö úr þessum hópi í Svíþjóð sem vorum fjarri góðu gamni. Það er ég og hún Kristín Guðmundsdóttir sem fór með mér upp í Dali í haust. Kristín kom upp í lestina í Västerås þegar ég var á leið til Stokkhólms í gær og var með okkur framundir kvöldið.
 
Rósa tók þessa mynd af okkur í Kulturhuset við Sergilstorg þar sem við fengum okkur kaffi á gönguferð okkar í gær meðan Hannes og pabbi hans unnu við að setja saman þyrluna. Kulturhuset væri jú á Íslensku einfaldlega Menningarhúsið og Sergilstorg er aðal miðbæjartorgið í Stokkhólmi. Þegar ég horfi á þessa mynd á ég erfitt með að trúa því að við höfum skrifast út frá skólanum fyrir hátt í 55 árum síðan. Það hlýtur að skakka einum tíu árum eða hvað? Ertu því ekki sammála Kiddý?
 
Fyrir allmörgum árum sátum við Gunnar Bergmann í sól og sumaryl úti á svölum sem eru á sömu hæð og við Kristín sitjum þarna og vita líka í átt að háhýsinu sem er þarna í baksýn. Meðan við Gunnar sátum þar yfir kaffibolla kom ung kona út í glugga efst í háhýsinu og veifaði okkur. Það var hún Rósa dóttir mín sem þá vann í þessu húsi. Nokkrum árum seinna sátu þær þarna í Kulturhuset yfir kaffibolla dætur mínar báðar, Rósa og Valgerður, og meðan þær höfðu það notalegt henti sér maður ofan af þaki hússins og sveif hann niður stutt fyrir framan þær. Honum tókst ekki ætlunarverk sitt og var lífgaður við af vegfaranda. Kaffitíma systranna lauk kannski ekki jafn ánægjulega og hann byrjaði. Við þrjú sátum þarna allnokkra stund í gær og okkar kaffitíma lauk jafn vel og hann byrjaði. Flestum kaffitímum lýkur þannig.
 
Ps. Meðan ég var að skrifa þetta blogg fékk ég senda þessa mynd af Hannesi þar sem hann er að hjálpa foreldrum sínum við eldhússtörfin.
 
 

Guðjón, hvenær ætlarðu að fjarlægja þessa hauga?

Ég bloggaði um Tryggva og Svanhvíti í gær. En ég var ekki búinn! Þegar ég kem heim að húsinu þeirra í Örebro er ég varla kominn á bílstæðið þegar ég tek eftir því að þar er allt einstaklega þrifalegt og í röð og reglu. Þannig er það alltaf og bæði úti og inni og þetta hefur mér verið ljóst lengi. Samt finnst mér sem þau hafi ekkert fyrir þessu. Er það mögulegt? Þetta bara verði einhvern veginn svona. Því hefur mér oft dottið í hug þegar þau koma á Sólvelli að þar sé ekki allt í röð og reglu en þnnig er það bara.
 
Þegar við tókum við Sólvöllum voru tveir all stórir haugar syðst á lóðinni. Þessir haugar höfðu greinilega byggst upp á löngum tíma og í þeim virtist vera alls konar illgresissamansafn, rætur, gras, grjót, aska, möl og bara allt mögulegt sem til fellur þegar fólk er að laga til hjá sér. fyrirenarar okkar hafa valið þá leið að safna því öllu í þessa tvo hauga og ekki fengist meira um það. Það hafa líka verið aðrar aðstæður hjá þeim, tel ég víst, en ég hef kerru og dráttarkrók á bílnum ef ég þarf að fjarlægja eitthvað og svo hef ég alveg burði til þess. Konan sem var hér ein á undan okkur Valdísi var orðin mun eldri og kannski veikburða. Ekki veit ég.
 
En haugarnir voru engin staðarprýði, ójafnir og ósláandi og voru þeir því vaxnir margra ára djúpri sinu. Fyrir nokkrum árum vorum við Tryggvi á rölti um lóðina og þá vék Tryggvi að mér spurningu um það hvenær ég ætlaði að fjarlægja haugana. Um leið og hann bar fram spurninguna skildi ég að þessir haugar voru kannski merki um hálfgerða leti og trassaskap þó að ég segði það ekki. Mín verkefni voru mörg á þeim árum og hafa verið framundir þetta. En einn góðan veðurdag fyrir einum sex árum þurfti ég uppfyllingarefni austan við húsið og þá byrjaði ég að flytja haugana burtu. Svo þegar ég var byrjaður varð þetta að köllun þangað til það var búið.
 
Hvort þetta voru frekar 60 hjólbörur eða 120 hef ég ekki hugmynd um í dag. Ég veit hins vegar að þegar ég byrja á einhverju svona verður þolinmæði míðin takmarkalaus. Ég hefði getað fengið hann Mikka á Suðurbæ til að gera þetta með stóru dráttarvélinni sinni en þá hefði ég þíka þurft að jafna og sá í mikið af sárum sem þetta gríðarlega tæki hefði orsakað. Nei, hjólbörurnar og þolinmæðin er oft minn háttur. Mér finnst sú aðferð oft vera einkenni fyrir nægjusemi og dyggð, alla vega hér á Sólvöllum. Gamaldags? Nei, getur varla verið. :-)
 
Það varð mikil staðarprýði að losna við haugana og að sama skapi var það ánægjulegt. Í upphafi datt mér í hug að slá þá með motororfi og gera þá snyrtilegri. Það var léleg hugmynd. Nú er ég himinlifandi vegna framtaksins. Tryggvi! þú áttir þar hlut að máli.

Svanhvít og Tryggvi

Það mun hafa verið stuttu áður en ég fór til Svíþjóðar, en það var 9. febrúar 1994, að ég heimsótti þau hjónin Krístínu Aðalsteinsdóttur kennara á Akureyri og Hallgrím Indriðason skógfræðing. Við ræddum meðal annars um þetta uppátæki mitt að freista gæfunnar í nýju landi. Kristín bað mig að lofa sér einu; að hafa samband við hann Tryggva Þór bróður sinn sem byggi í Örebro. Ég hafði með mér heimilisfang og örugglega símanúmer líka. Fljótlega eftir að ég kom i Svartnes skrifaði ég nokkrar línur til Tryggva og færði honum kveðjur frá systur hans. Á einhvern hátt svaraði Tryggvi þessum línum mínum, annað hvort í bréfi eða með póstkorti.
 
Svo hafði ég aftur samband við hann nokkrum vikum síðar og svo ekki meira í ein tvö ár. Ég mundi alltaf eftir honum og fannst sem einhvern tíma mundi koma að því að við hittumst. Um mánaðamótin janúar-febrúar 1997 fluttum við Valdís svo til Örebro, nokkuð sem alls ekki var á dagskránni fyrstu árin okkar í Svíþjóð. Stuttu eftir að við vorum komin í hús í Örebro hringdi ég til Tryggva og það var ekki að sökum að spyrja; hann spurði umsvifalaust hvort við gætum ekki komið í heimsókn til þeirra þá strax. Svo gerðum við og þá kom Svanhvít líka inn í myndina.
 
Við hittumst öðru hvoru en ekki nógu oft. Í gærkvöldi hringdi Tryggvi til mín og spurði hvort þau mættu líta við hjá mér upp úr hádegi í dag. Auðvitað. Það var á þeim tíma sem ein uppskrift af rúgbrauði var búin að vera fjóra tíma í ofninum. Ég var líka búinn að lofa sjálfum mér því að baka pönnukökur í dag og hafa svolítil hátíðabrigði. Allt féll á sinn stað og svo birti af nýjum degi. Ég tók smávegis til, horfði á sjónvarpsmessuna og svo bakaði ég pönnukökurnar. Heppin var ég að fá fólk í heimsókn. Þá fæ ég hjálp við að borða þessa hálfu uppskrift að pönnukökum sem ég ætlaði að baka. Mér finnst ekki hægt að baka minna en það. Hefðu þau ekki komið hefði ég verið að úða í mig pönnukökum fram á þriðjudag. Hellingur er eftir samt. Ég hefði átt að senda þau með nokkrar pönnukökur heim til að forða mér frá því að þurfa að víkka beltið mitt um eitt gat.
 
Ég byrjaði að ganga með þeim hjónum kringum húsið í von um að fá svolítið hrós frá þeim fyrir nýafstaðnar framkvæmdir. Barnaskapurinn yfirgefur mig seint. Mér varð að ósk minni. Þess fleiri daga sem ég hef verið einn heima, þess meira tala ég þegar einhver kemur. Það getur orðið botnlaus orðaflaumur. Heppin þau að ég hafði verið að vinna svo mikið í vikunni. Það hjálpaði, annars hefði ég ekki þagnað.
 
Tryggvi og Svanhvít voru bráð hress. Tryggvi hefur fengið að kenna á því að sumir fá að glíma við meiri heilsubrest en aðrir. En hann er af norrænu víkingakyni og hefur náð sér ótrúlega eftir áfall sem sótti hann heim fyrir fáeinum árum. Það er ótrúlegt hvað hann hefur tekið á hlutunum með mikilli þolinmæði og þess vegna hefur hann náð sér betur en ella er ég viss um. Tryggvi var eitt sinn förstöðumaður Menningar- og fræðslusambands alþýðu á Íslandi. Störf hans hér í Svíþjóð hafa verið af svipuðum toga. Svanhvít vinnur við að gera öldruðum lífið léttara. Mikið meigum við hin vera þakklát að það er til fólk sem vill vinna við það.
 
Eftir kaffi og rúgbrauð með hreinu kúasmjöri og prestosti ásamt rjómapönnukökum spjölluðum við um alla heima og geima um stund. Svo sagði ég að mig vantaði mynd af þeim, mynd sem ég teldi best að taka við útidyrnar. Því notuðum við tækifærið að taka þessa mynd þegar þau voru að fara. Ég bullaði einhver óskop í von um að þau gætu hlegið og mér tókst. Fólk hlær ekki að bulli nema allt sé í góðu gengi. Við áttum góða stund saman og þakka ykkur fyrir þessa góðu heimsókn Svanhvít og Tryggvi.

Að geta sofið næstum endalaust

Þegar ég byrjaði að skrifa þetta var klukkan fimmtán mínútur yfir tíu á þessum laugardagsmorgni. Ég var þá að enda við að kveikja upp í kamínunni en á sama tíma veit ég að dóttursonurinn Hannes Guðjón í Stokkhólmi var búinn að mála heilan björgunarbát með vatnslitunum sínum. Það var sem sagt misjafnt hvað mennirnir höfðust að. Seint í gær lauk rúmlega heilli vinnuviku hjá mér og ég kom heim um átta leytið. Einhvern tíma eftir klukkan tíu settist ég í stól fyrir framan sjónvarpið, kveikti á því, tók hljóðið af og fór inn á textavarpið til að sjá veðurspána til næstu fimm daga. Þegar klukkan var hálf tólf hafði mér ekki tekist að sjá veðrið þannig að mig minnir að ég hafi sleppt því. Mér fannst líklegt að ég hefði sofnað og var næstum óhuggulega þreyttur. Í dag er ég ekki í miklum vafa um það að ég hafði sofnað.
 
Einhvern tíma milli fimm og sex í morgun þurfti ég að fara fram á bað og man varla eftir að hafa komið til baka. En alla vega vaknaði ég aftur í rúminu mínu klukkan níu og var næstum hissa á öllum þessum svefni. Núna þegar ég er almennilega vaknaður er ég ekkert hissa á því. Þegar ég fer í vinnuna mína fer ég þangað til að vinna hana. Ég fer ekki þangað til að grafa skurði með höndunum eða að moka út skít með stunguspaða. Hins vegar fer ég þangað til að aðstoða fólk við að moka út mikilli óvissu og óhreinindum úr lífi sínu. Það eru viss átök líka þó að ég meigi ekki gráta með þessu fólki.
 
Margir geta sagt það bara eins og það er að lífið hafi verið orðið óbærilegt. En aðrir segjast hafa það gott en þeir séu knúnir af einhverjum óréttlátum aðila til að vera á þessum óttalega stað, Vornesi. Að fá spurningu um nafn yngsta barnins, hvaða augnalit dóttirin hafi eða hvað það sé langt síðan barnabörnin hafi komið í heimsókn, allt þetta snertir eitthvað viðkvæmt langt inni í brjóstinu. Að nefna nafn litla barnsins síns, að vita jafnvel ekki hvaða augnalit dóttirin hefur eða að hafa ekki séð barnabörnin sín í sjö mánuði þó að þau búi í næstu götu -nei bíddu nú við, hvað þetta allt snertir það fínasta í manneskjunni.
 
Þessi vinna er ekkert sálfræðikukl af viðvaningum. Hún gengur út á að fá fólk til að byrja að tala eins og alkohólistar og fíkniefnaneytendur gera frjálslega á venjulegum AA fundum. Vinnan gengur líka út á að deila klukkustundum, dögum og sólarhringum með þessu fólki og vera sönnun þess að lífið geti verið gott. Hún gengur einnig út á að sjá til þess að fólk fái það sem til þarf og að sjá til þess að reglum sé fylgt. Það er best fyrir þetta fólk að viðurkenna ástandið og segja sannleikann allan, þá birtir af degi og fuglasöngurinn berst inn um gluggann og vonirnar glæðast í hugskotinu. Það gengur ekki átakalaust en það er alls erfiðis og allra tára vert fyrir þá sem þurfa að vakna til nýs lífs. Það byrjar með því að segja sannleikann djúpt frá sínum innstu hjartarótum.
 
Ég hef ótrúlega góða vinnu en rosalega get ég orðið þreyttur á einni viku.
 
Á minnst eins árs fresti fer ég með bílinn til Ford í Örebro í þjónustu. Einstaka sinnum fer ég með sjálfan mig í viðhaldsþjóðustu af einhverju tagi. Í haust fór ég til dæmis til sjúkraþjálfara til að ræða um hálsinn við hann. Einhvern tíma talaði ég um að samkvæmt röntgenmynd væri ég með hressilegt slit í hálsliðunum. Ekki hef ég liðið þrautir fyrir það en hins vegar var ég orðinn duglega stirður í hálsinum og að líta til hliðar og aftur fyrir mig þegar ég ók bílnum mínum, það var erfiðleikum háð. Svo sá ég orðið á ljósmyndum að stirðleikinn í hálsinum sást greinilega á einkennilegum líkamsburðum mínum.
 
Sjúkraþjálfarinn kenndi mér nokkrar æfingar og svo er það á mína ábyrgð að nota þær. Svo vildi ég bæta um betur fyrst ég var byrjaður og fékk tíma hjá töfrakonunni í Vingåker, en hana hef ég talað um áður. Ég kom til hennar klukkan fimm í fyrradag, fimmtudag, og var á bekknum hjá henni til klukkan sjö. Hún nuddaði hálsinn og herðarnar og stakk í mig einhverjum helling af nálum. Þegar hún stakk nál neðarlega í kálfann var eins og það neistaði á nál fremst á ristinni. Jahérna. Svona kröftugt hafði það aldrei verið fyrr. Og svo skeði þetta á nokkrum fleiri stöðum. Það verður ansi dimmt að aka heim sagði hún. Það verður mikið af elgjum, hjörtum og dádýrum kringum vegina. Já, ég vissi það en sagðist mundi fara mér hægt.

Þegar ég hafði borgað henni, þakkaði fyrir og kvaddi sagði hún í þriðja skiptið. Mundu að það er mikið af elgjum, dádýrum og hjörtum kringum vegina í myrkrinu. Þegar ég hafði ekið eina sjö kílómetra móti Örebro sá ég framundan þar sem þrír bílar stóðu þétt hver aftan við annan og það blikkuðu stöðuljós á þeim öllum. Ég næstum stoppaði áður en ég fór framhjá þeim og sá fólk sitja í öllum bílunum. Stór jeppi var fremst og ég reyndi að sjá framan á hann en sá ekkert í myrkrinu. Ég minntist varnaðarorða töfrakonunnar og ég veit núna að þarna varð slys. Það hljóp elgur upp á veginn og þegar fyrsti bíllinn stoppar svo snögglega er erfitt fyrir hina að forðast aftanákeyrslu. Elgurinn mun aldrei hlaupa meir. Er töfrakonan virkilega svo mikil töfrakona að hún sá þetta fyrir?
 
Eiginlega finnst mér sem ég sé hálf timbraður en ég er það ekki. Ég er ánægður með mig í dag og ég má vera eftir mig. Uppþvottavélin var að enda við sitt og þvottavélin er í gangi. Kannski get ég hengt út á snúru í dag. Svo þarf ég að þvo aðra vél og svo enn aðra. Þá verð ég búinn að ná í skottið á sjálfum mér. Fasani með ótrúlega langar stélfjaðrir hefur verið að spígspora stutt utan við gluggann minn. Mig langar að fá hann fyrir fastan nágranna. Sólin skín glatt og hitinn er um átta stig. Svæðin hér úti sem ég sáði í allt of seint eru orðin nokkurn vegin græn. Mikið er ég feginn að vera nú frjáls maður og þurfa ekki að leggjast meira undir húsveggina.
 
Lífið er dálítið tregablandið sem stendur en það er gott samt. Treginn getur líka verið fallegur. Lauffallinu er nánast lokið en beykitrén mín eru þakin næstum rauðbrúnu laufi sem mun fylgja þeim fram á næsta vor. Þessi litur er svolítið tregablandinn líka. Vísdómsorð sem er að finna þann annan nóvember í bók sem stendur við hlið mér segja: "Þó þú gerir ekki annað í dag en sýna elskusemi öllum þeim sem þú hittir hefur þú staðið þig með prýði." Ég veit ekki hvort ég yfir höfuð hitti nokkra manneskju í dag. En hugsanlega þarf ég í verslun og viða svolítið að mér. Ég get þá alla vega þakkað manninum eða konunni við kassann fyrir lipurðina eða hjálpsemina eftir því sem við á.
 
Það er komið framyfir hádegi og svo ætla ég að sofa lengi í nótt.
RSS 2.0