Hakamaðurinn á Sólvöllum

Ég fékk tvö meil í morgun. Annað þeirra minnti mig á að ég ætti að forsá fyrir graskerjum á morgun og hitt minnti mig á að ég ætti að forsá fyrir zucchini. Zucchini var mér vitanlega ekki í umferð á Íslandi þegar við fluttum út en mig grunar að það kallist kúrbítur á íslensku. En svo er það þetta; er þetta aprílgabb? Ef svo er verður hlegið að mér.
 
Nei, ég hef engar áhyggjur af því. Ég sái fyrir nokkrum graskerjum og kúrbít. Ég á tvo tóma eggjabakka sem ég ætla að skera til og sá í. Þá verður hægt að setja plöntuna í mold úti seinna í vor án þess að skemma ræturnar. Þetta er aðeins fyrr en ég ætlaði að byrja með útiverkin. Ég ætla að vinna á Bjargi á morgun, fara svo í vinnu á miðvikudag og fram á fimmtudag og eftir það ætla ég að fara af fullum þunga í útiverkin fram að Íslandsferð.
 
Ég að vísu sái þessum tveimur frætegundum á morgun. Svo verð ég næstum því búinn með það sem ég hafði sett mér að vera búinn með fyrir vorverkin. Þegar ég fer í þau verð ég þar, bæti við frekar en ekki og gef ekkert eftir. Ég er orðinn slakur við innivinnuna. Ég er eins og fullmettaður af henni og það verður gott fyrir mig að breyta til.
 
Í dag fór hann Ívar framhjá á hálfrar aldar gamla Fergusoninum sínum með litla vegasköfu aftan á vélinni. Þá var ég á leið til vinnu út á Bjargi en sneri mér á punktinum þegar ég sá hvað Ívar var að gera, sótti hakann minn og garaðhrífuna og fór líka út á veg. Rafmagnsveiturnar grófu niður nýtt rafmagnsinntak í fyrrahaust hjá nágranna mínum. Þeir skildu við veginn þannig að það varð alger hraðahindrun eftir þar sem skurðurinn var. Á þessu eru svo allir bílar búnir að hossa síðan verkinu lauk og þessi nágranni er of ungur til að taka til hendi við svona nokkuð.
 
Slíkt á að laga með vél finnst þeim ungu og Fergusoninn hans Ivars réði ekkert við það. Hakinn er hins vegar mikilvirkur ef maður nennir að taka sér hann í hönd. Það þarf ekki einu sinni að reiða hann til höggs, það er nóg að lyfta honum og láta hann svo detta og draga aðeins að sér um leið. Síðan notaði ég garðhrífuna til að raka burtu hrygginn sem rafveiturnar skildu eftir þarna og jafna honum í lægðina við hliðiina. Svo sótti ég vatn í tvær garðkönnur og vökvaði og svo sótti ég bílinn til að troða og þar með lagði ég blessun yfir vel unnið verk. Þannig getur vegaviðhald farið fram á einkavegi í hátæknivædda landinu Svíþjóð.
 
Þar sem ég er nógu gamall og mátulega einfaldur til að leggja mig í svona verkefni með hendurnar að vopni, þá ákvað ég fyrir löngu síðan að það mundi verða verkefnið mitt. Ég ætla að fá kerru unga nágrannans að láni í staðinn. Það verða ágæti skipti því að ég var ekki mikið meira en háftíma að laga þetta og hálftíma að sýna ungu fólki hvernig oft er einfaldast að leysa hlutina. Annars eru nágrannar mínir góðir. Við erum hins vegar á misjöfnum aldri og þurfum stundum að bæta hver annan upp.
 
Á morgun koma vörubílar með vegamöl sem þeir sturta á einhvern svo leyndardómsfullan hátt í hnífjafnt sex eða sjö sentimetra lag á veginn. Þetta þýðir að þeir fara ótrúlega hratt með pallinn uppi og þar sem greinar stóru Sólvallaeikurinnar hafa stækkað síðan þetta var gert síðast, þá sagaði ég af henni nokkrar greinar sem ég bar síðan út í skóg. Bílstjóranum mundi ekki líka að brjóta þessar greinar með bílpallinum. Vorverkin eru eiginlega hafin.
 
Þetta með að dreifa mölinni svo jafnt á veginn hefur nánast heillað mig. Því fór ég að máli við bílstjóra fyrir nokkrum árum þegar hann hafði losað nokkur bílhlöss á þennan hátt og hrósaði honum fyrir verklagnina og sagðist einfaldlega dást að því að þetta væri hægt. Ekki gekk upp í honum hrokinn við hrós mitt, en hann tók því vel og sagði svo af mikilli hógværð að þetta væri nú bara hálgerð tilviljun frekar en verklagni. Ha ha ha sagði ég, tilviljun þegar losuð eru sex vörubílshlöss í einni lotu og hvert þeirra fer á hátt í hundrað metra vegakafla -og hnífjafnt allt saman.
 
Jæja, það er gaman að þessu. Ég ætla að fylgjast með bílstjóranum á morgun og njóta þess að fylgjast með verklagninni. Svo jafnt sturta þeir efninu að ójafnan sem rafveiturnar skildu eftiri í fyrra hefði komið í gegn svipað og undirskál sem lendir undir borðdúknum, hún verður vel merkjanleg og ekki svo skemmtileg að hafa hana þar undir borðhaldinu.
 
Það er rúmlega kominn háttatími fyrir hakamanninn á Sólvöllum. Góða nótt.

Vordagur í Stokkhólmi

Frá gönguferð á Kungsholmen og nágrenni í Stokkhólmi meðan annað fólk stundaði vinnu sína og barnabarnið undi sér í leikskóla.
 
I Kronubergsgarðinum. Ég get alveg lofað að þarna kemur smám saman að birtast mikið og aðlaðandi laufhaf þegar lengra kemur fram á vorið. Þessi garður er nokkra tugi metra ofan við Celsiusgatan þar sem ég er nú í heimsókn hjá honum Hannesi Guðjóni og fjölskyldu hans. Laufhafið, þetta indæla græna líf sem gefur svo mikinn ljúfleika og ilm, það gefur lífinu aukið gildi. Það er bara þannig.
 
 
Nokkrum metrum neðar tók ég þessa mynd í hina áttina, niður Kungsholmsgatan. Þarna til vinstri sér í Celsiusgatan þar sem hún mætir Kungsholmsgatan. Byggingarnar á móti Celsiusgatan, þarna hægra megin götunnar, eru höfuðstöðvar sænsku lögreglunnar og þar er líka annað af traustustu fangelsum í Svþíþjóð, Kronubetgshäktet. Hitt traustasta fangelsið er í Kumla, ekki svo langt frá Sólvöllum.
 
 
600 skrefum neðar í Kungsholmsgatan er Kungsholmsgatan 17 þar sem Hannes átti heima fyrstu mánuðina eftir að hann fæddist. Ég gekk þarna hjá á gönguferð minni í dag á leiðinni niður til Riddarfjärden.
 
 
Á leiðinni niður að Stadshuset gekk ég meðfram Klarasjö. Það er mikið vatn í Stokkhólmi og snnleikurinn er sá að þetta er afar, afar falleg borg. Brúin sem er lengra frá heitir Kungsbron og liggur út til Kungsholmen þar sem Rósa, Pétur og Hannes Guðjón eiga heima. Að vísu alls ekki eina brúin sem tengir Kungsholmen við aðrar eyjar þessarar borgar.
 
 
Og Klarasjö í hina áttina og þarna sést í turninn á Stadshuset þar sem Nobelveislurnar fara fram. Hinu megin við Stadshuset er svo Riddarfjärden. Básarnir fyrir bátana þarna hægra megin vatnsins verða brátt fylltir af bátum ásamt tugþúsundum annarra svona bása fyrir báta vítt og dreift um Stokkhólmssund.
 
 
Og enn við Klarasjö. Byggingarnar hinu megin við Klarasjö eru stærri en á Sólvöllum.
 
 
Riddarfjärden. Ætli við getum ekki látið eftir okkur að kalla hann Riddarafjörðinn.
 
 
Kominn framhjá Stadshuset og að Riddarholmsbron. Myndin tekin yfir Riddarafjärden.
 
 
Þessi mynd er tekin af Riddarholmsbron sem liggur yfir til Gamla Stan. Meðan ég gekk þarna nokkur hundruð metra vegalengd sá ég svo margar svona lestir fara hjá að ég var farinn að halda að það byggju mörg hundrðu manns í þessum bæ. Þetta varð nú hálfgerður aulabrandari.
 
Í Gamla Stan fékk ég mér kaffi og smurbrauðssneið, leit inn í Storkyrkan, Stórkirkjuna. Í Gamla Stan var aldeilis krökkt af fólki. Síðan hélt ég svipaða leið heim á leið. Þessa leið gekk ég líka með Valgerði fyrir tæplega ári síðan. Ég lagði ýmis nöfn á minnið og ein ástæðan til að ég skrifa þennan texta og birti þessar myndir er að fá betri yfirsýn yfir nöfn og staðhætti í Stokkhólmi.
 
 
Nú var ég búinn að fara heim og leggja mig og þegar Rósa hætti að vinna fórum við á leikskólann að sækja Hannes. Hann fór á nýja hjólinu sínu á leikskólann í morgun og svo hjólaði hann með okkur heim og hann sýndi afa hvað hann var duglegur að hjóla, beygja og bremsa. Við fórum nú meðfram enn einu sundinu, sundi sem ég kann ekki nafn á. Það er margt að sjá í Stokkhólmi og ég þarf að taka mig til og skoða mikið, mikið meira af þessari borg, læra nöfn á mörgum sundum, eyjum og hólmum. Svo á ég líka eftir að skoða stóran meirihluta af þessu landi. Ég á eftir að skoða síðustu 1000 kílómetrana norður í þessu langa landi og þeir sem eiga þar heima segja að ég eigi þar með eftir að skoða það merkilegasta af allri Svíþjóð. Hverjum þykir jú sinn fífill fegurstur en ég trúi þessu vel og veit að eftir því sem norðar dregur verður landslagið stórbrotnara. Hver landshluti hefur sinn ljóma.
 
Og svo er það þetta. Ef ég skyldi eftir tvo mánuði ganga þessa sömu leið og ég gekk í dag, sem ég ætla rétt að vona að ég komi í verk, og tæki myndir á sömu stöðum, þá yrðu þeir staðir óþekkjanlegir miðað við útlitið sem þeir hafa í dag. Græna hafið sem brátt fyllir allar trjákrónur breytir afar, afar miklu. Það er önnur ástæða til þess að ég blogga á þennan hátt núna, að geta síðar borið saman myndirnar nú og síðar á vorinu eða komandi sumri.
 
 
Útivistum þennan dag lukum við með því að fara á kaffihús og halda svolítið upp á föstudaginn með því að smakka á góðgæti. Til dæmis Hannes fékk sér súkkulaðibollu og afi stóra sneið af eplaköku. Mikið, mikið gott var það og allir ánægðir. Við Hannes erum búnir að lesa heilmikið saman nú í kvöld og hann leiðrétti stundum framburð minn. Það var líka svo skrýtið að í barnablaðinu sem við lásum voru nokkur orð sem ég minnist ekki að hafa séð áður.
 
Nú er sem sagt komið hljóðlátt kvöld. Eftir samveru fram eftir degi á morgun fer ég heim á leið og hversdagsleikinn tekur við á ný. Að vísu er ég boðinn í mat í Örebro á morgun, en varðandi þennan hversdagsleika, þá er hversdagsleikinn á Sólvöllum alls ekki svo galinn. Ég kvarta ekki, vorverk eru að ganga í garð.
 
 

Sólin er komin upp yfir skóginn í suðaustri

Klukkan er hálf tíu og eftir tvo og hálfan tíma ek ég úr hlaði áleiðis til Stokkhólms. Ég fer á bílnum til Hallsberg, legg honum þar á mjög stórt bílastæði rétt hjá járnbrautarstöðinni, og fer síðan með lest til Stokkhólms.
 
Það sem verður á dagskrá þar verður skipulagt frá klukkutíma til klukkutíma. Hannes Guðjón er ekki viss um að afi hans geti sótt hann á leikskólann því að það sé ekki víst að hann rati. Það verður að koma í ljós.
 
Sólin er komin yfir skóginn í suðaustri og minnir mig á tímann sem framundan er og þá dýrð sem skaparinn lætur okkur í té yfir fallegasta tíma ársins  -og alla aðra tíma ársins að auki.
 
Burknar, lauf og barr. Mögnuð birta sem leikur sér í lauf og barrhafi og gefur háum stofnum breytileg klæði.
 
 
Að koma heim til Sólvalla á fallegum sólardegi er ekki bara að koma hvert sem er. Myndir sem verða teknar af þessum stað að sumri verða öðru vísi en þessi, mörgu hefur miðað áfram sem breytir ásýndinni. Engin tilviljun það sem hefur skeð, það hefur verið unnið markvisst að því.
 
 
Gönguferð með gestum um Sólvallaskóginn. Á undan gengur Uhsa, indverska konan sem ekki verður oftar með í gönguferðum um Sólvallaskóg. Á eftir fylgir Rósa. Þetta var ein af síðustu ferðum Uhsa sem Rósa stóð fyrir til að gera indversku konunni lífið léttara eina dagstund. Þó að þessi mynd veki upp sorg, segir hún samt hvernig góður staður og fallegur dagur gera lífið vert að taka þátt í því.
 
 
Loftmynd að heiman. Þegar finnsk kona kom inn á lóðina og sýndi mér þessa mynd missti ég verðskinið fullkomlega. Valdís líka. Við hefðum getað farið í minni utanlandsferð fyrir þá peninga. En í staðinn hangir þessi mynd í fallegum ramma á vegg beint fyrir framan mig. Valdís var líka stolt af henni.
 
 
Svona stundir getur komandi sumar boðið upp á þó að ekki geti allir verið lengur með á slíkri mynd.
 
Eigið góðan dag. Ég mun gera mitt besta til að minn dagur verði góður.
 
 

Fjórtándi jólasveinninn er líklega fundinn

Í morgun ákvað ég að baka tvær uppskriftir af rúgbrauði. Ég fór yfir í huganum hvað vantaði og það vantaði bara þrjár fernur af fílmjólk  -kom í ljós eftir nákvæma íhugun. Ég fór til Fjugesta eftir fílmjólkinni og fór með pakka í póst um leið. Svo hraðaði ég mér heim til að baka og lá á því að ég ætlaði ekki að fá mér morgunverð fyrr en allt brauð væri komið í ofninn.
 
Svo þegar ég var að telja bollana af rúgmjöli í uppskriftirnar sem ég byrjaði á að setja í sitt hvora skálina, þá kom í ljós að það vantaði rúgmjöl, það lítið að  ég setti meira af heilhveitimjöli í staðinn. Svo þegar til átti að taka átti ég ekki natron nema í aðra uppskriftina. Þá hringsnerist ég kringum sjálfan mig og komst að því að íhugunin fyrir Fjugestaferðina hefði ekki verið svo mjög nákvæm. Svo ákvað ég að fara eftir meira natroni en setti samt fyrstu uppskriftina í bakarofninn þar sem ég var hvort sem var búinn að hræra hana.
 
Nú fór ég í hina búðina í Fjugesta til að fólk tæki ekki eftir því að ég hefði verið utan við mig fyrr um morguninn. Alkarnir fara líka studnum í næsta hérað til að fara í ríkið ef þeir þurfa að fara þangað tvisvar sinnum sama daginn. Þegar ég var á leiðinni út úr þeirri búð spurði afgreiðslukonan hvort ég vildi ekki taka kortið mitt. Þegar heim kom hraðaði ég mér með seinni uppskriftina og þar sem ég hafði keypt rúgmjöl ásamt natroninu bætti ég einum bolla af rúgmjöli í deigið ásamt hálfum bolla af fílmjólk. Svo setti ég hrærivélina í gang og nú var hún svo full að ég fékk gusu af hálf hrærðu deigi framan á mig. Svuntan hlífði maganum en skyrtuermarnar urðu flekkóttar.
 
Skórnir límdust nú við gólfið sem gaf til kynna að það hafði ekki bara gusast á mig, gólfið fékk sitt líka sá ég á flekkjunum sem þar mynduðust. Síðan setti ég í fernur, tók fyrri uppskriftina út úr ofninum til að setja þá seinni á bakvið. Þá valt ein fernan inni í ofninum þannig að það rann hálf heitt deig í ofninn svo að nú þurfti ég að þrífa. Að lokum hafði allt komist í ofninn en þá sá ág að brauðið í fyrri uppskriftinni hafði fallið við það að vera tekið út úr hitanum. Tilfærslan hafði tekið sinn tíma ásamt því að þurfa líka að þrífa ofninn og deigið hafði væntanlega verið farið að kólna.
 
Þegar ég loks lokaði hurðinni að bakarofninum var ég farinn að halda að ég væri orðinn ellilífeyrisþegi. Ég hefði líklega átt að byrja daginn á morgunverði.
 
Það fylgdu mér fleiri rósir í dag en hér segir en ekki varð ég fyrir rneinu tjóni. Svo fór ég á AA fund og viðurkenndi að ég væri ekki fullkominn maður. Einhvern tíma fyrr á árum hefði ég reiðst og bölvað, kannski krossbölvað, fyrirgefið orðbragðið, en í dag tók ég þessu með jafnaðargeði og sjálfsagt einni og annarri stunu. Nú er ég búinn að smakka á brauðinu úr fyrri uppskriftinni, þeirri sem féll í fernunum, og það er mjög gott, betra en síðasti bakstur minn. Ég er þess vegna að öllum líkindum ekki orðinn neinn ellilífeyrisþegi ennþá, en ég held að fjórtándi jólaveinninn sé fundinn.

Þar sem hunangið drýpur

Ég var á öðrum hluta námskeiðs um býflugnarækt í kvöld. Ég skal nú bara viðurkenna í fullri auðmýkt að skerpa mín er ekki orðin meiri en svo að ég man ekki svo mikið eftir fyrirlestur í rúma tvo klukkutíma. En ég get þó líka sagt í fullri auðmýkt að eins og síðast lærði ég núna í kvöld að ég veit minna en ég hált að ég vissi áður en þetta byrjaði. Mér hentar betur að komast í það verklega og læra af því, enda verður næsta kvöld verklegt og þá auðvitað verð ég á Íslandi. En Agneta sem var fyrirlesari þessi tvö kvöld segir að ég muni fá minn skerf eigi að síður. Hún er næstum nágranni minn og í næstu viku fer ég í heimsókn til hennar til að sjá og læra meira. Það eru fleiri sem eru næstum nágrannar og eru með býflugnrækt og allir eru fúsir að veita hjálparhönd ef ég skyldi fara af stað líka. Það sem ég lærði helst í kvöld fjallaði um hvar hægt er að ná í griðar mikinn fróðleik um fagið og hvar hægt er að gera innkaup á því sem óhjákvæmilegt er fyrir nýbyrjara að kaupa.
 
Þetta er hún Agneta yfirbýfluga og hún nýtur þess að tala um bý. Hún byrjaði líka námskeiðið í kvöld á því að sýna myndir frá Reykjavík og nágrenni. Hún hefur komið í Bláa lónið en hafði engar myndir þaðan. Henni fannst afar mikið til Bláa lónsins koma. Hún bjó á hóteli sem heitir Leifur heppni eða hvað það nú var og hún var ekki í neinum vafa þegar hún sagði að það væri lélegasta hótel sem hún hefur búið á. "Það er þarna hjá stóru kirkjunni" sagði hún, "en þó að kirkjan væri ágætlega stór var klósettið sem ég hafði á hótelinu ekki stærra en svo að ég þurfti að bakka inn á það". Svo sagðist hún hafa þurft að bursta tennurnar sitjandi á klósettinu. En þrátt fyrir þessa annmarka á hótelinu var hún mjög ánægði með að hafa komið til Íslands.
 
Þarna er þátttakendaliðið. Þeir sem sitja lengst til vinstri og lengst til hægri eru býflugnabændur og voru Agnetu til aðstoðar. Maðurinn sem ber í dökkun hurðina er líka með býflugnarækt og býr hér rétt hjá, í Furubrekku. Tallbacken. Ein hjón vantar á myndina, en sonur þeirra varð fyrir slysi í dag og var fluttur til Uppsala vegna brunaskaða. Fyrst hann var fluttur þangað er málið all alvarlegt.
 
Svo er bara að sjá hverju fram vindur. Margt sem þarna kemur fram gerir býflugnahugmyndina hrífandi. Maðurinn sem situr lengst til hægri framleiðir þrjú til fjögur tonn af hunangi á ári. Fyrir þá sem þekkja til, þá býr hann mitt á milli Täbykirkju og Örebroflugvallar, ekki svo hættulega langt frá Sólvöllum. Þægilegur maður og vingjarnlegur, kunningi hans Martins gröfumanns sem hefur hjálpað til á Sólvöllum.
 
Veðrið er indælt og spáin er góð. Ég þurrkaði þvottinn minn á útisnúru í dag og ósköp er nú mikið notalegra að ganga frá þvotti sem er þurrkaður úti og mikið ilmar hann betur og er mjúkur að leggja að vanga sér. Það fylgir vorinu að geta gert þetta. Nú er Óli Lokbrá farinn að svífa hér um sali og hefur áhrif á augnalok mín. Það er merkilegt hvað hann sýslar mikið við svoleiðis. Ég ætla að hlíða honum Óla og fara að bursta og pissa og svo kannski rekur huggulega drauma á fjörur mínar í nótt.

Í myndum og máli

 
Ég hrærist langt inn í hringiðu mannlífsins skulið þið vita. Á laugardaginn kom maður í heimsókn og í tilefni af því bakaði ég pönnukökur. Þess vegna átti ég pönnukökur daginn eftir, sunnudag, þegar fjóra gesti bar að garði. Svona á þetta að vera á góðum sveitabæjum. Ég þarf varla að segja hvaða fólk er vinstra megin við borðið, ég birti svo oft myndir af Auði og Þóri. Hinu megin við borðið eru þau Guðbjörg Gunnarsdóttir og Björn Guðjónsson frá Íslandi. Sonur þeirra heitir Guðjón Björnsson. Ég fer að halda að ég sé skyldur þessu fólki. Guðbjörg og Björn skutust í helgarferð til að heimsækja vini sína í Örebro. Þau komu líka í heimsókn á Sólvelli árið 2006, en þá var fyrsta viðbyggingin í gangi.
 
Svona er góð vinátta og þegar hún er góð, þá verða 2000 kílómetrar af hafi ekkert á milli vina. Þannig varð mér hugsað í dag þegar ég var eitthvað að velta þessu fyrir mér. Ég gat ekki boðið upp á rúgbrauð því að síðasti ellefu fernu rúgbrauðsbaksturinn minn tókst ekki almennilega. Ég nota það sem mat en það er ekkert reglulegt sælgæti eins og rúgbrauð á að vera og ég vil bara bjóða upp á það besta.
 
Þakka ykkur öllum fyrir heimsóknina. Þið lyftuð hversdagsleikanum upp um þessa helgi.
 
 
 
Skömmu áður en ég flutti til Svíþjóðar heimsótti ég Kristínu Aðalsteinsdóttur kennara og Hallgrím Indriðason skógfræðing á heimili þeirra í innbænum á Akureyri. Þegar ég var að fara þaðan bað Kristín mig að hafa endilega samband við hann Tryggva Þór bróður sinn sem byggi í Örebro í Svíþjóð. Ég gerði það, skrifaði honum stutt bréf frá Svartnesi og fékk bréf til baka. Eftir þriggja ára dvöl í Dölunum fluttum við Valdís svo til Örebro. Fljótlega eftir komu okkar þangað hringdi ég til Tryggva og hann spurði að bragði hvort við gætum ekki bara litið til þeirra og talast við auga mót auga. Einhverjum hálftíma eða klukkutíma síðar vorum við Valdís komin heim til þeirra Svanhvítar og Tryggva og við höfum umgengist síðan.
 
Í dag fór ég í verslun niður í Laxá (Laxå) og fannst rétt að hafa félagsskap. Því komu þeir með mér þeir Tryggvi Þór Aðalsteinsson, bróðir Kristínar í innbænum á Akureyri og er hann lengst til hægri á myndinni, og Svíinn Hans Hellson sem býr á 16. hæð í hæsta fjölbýlishúsi í Örebro. En svo þegar við komum að versluninni varð Tryggvi fyrstur til að taka á hurðarhandfanginu og uppgötva að verslunin var alls ekki opin. Þetta er verslun sem selur notuð húsgögn í gæðaflokki og mikið rétt, hún er opin fimm daga vikunnar en ekki á mánudögum og þriðjudögum.
 
En stútungskallar eins og við hrökkvum ekki upp af standinum við svona lítilræði. Undir leiðsögn Tryggva fundum við bakarí með kaffisölu þar sem á boðstólum voru ótrúlega fallegar kökur og þar drukkum við kaffi, nærðum okkur og leystum nokkur af vandamálum tilverunnar.
 
 
 
Það var í janúar sem við fórum til Laxá, ég og þessi maður, Hans Hellson, sem líka er á myndinni fyrir ofan. Eitt sinn hjálpaði hann mér að gera við bíl. Það var þegar við Valdís vorum rétt lögð af stað til Bergen árið 2002 til að taka ferjuna til Seyðisfjarðar. Um það bil 15 km vestan við Örebro heyrði ég hljóð frá öðru framhjólinu og ég vissi strax hvað það var; bremsukklossar sem voru fastir á bremsuskífunni. Ég hringdi í Hans og sagði honum mjög ákveðið að nú yrði hann að koma heim og vera verkstjóri yfir mér. Bíllinn væri bilaður og ferjan í Bergen mundi ekki bíða eftir okkur. Hans kom, stjórnaði verkinu og bíllinn komst í gott lag. Þá var ég honum mikið þakklátur. Öll ferðaplön okkar Vldísar gegnum Noreg gengu úr skorðum en við náðum ferjunni og komumst til Íslands.
 
Það var Hans sm kom á laugardaginn sem varð til þess að ég bakaði pönnukökur. Ég var búinn að bíða lengi eftir því að einhver kæmi sem gæfi mér ástæðu til að baka pönnukökur. Ég var orðinn svolítið sólginn sjálfur þannig að ég bakaði ekki bara fyrir Hans.
 
Erindi okkar Hans til Laxá í janúar var að sækja þetta borð og fjóra stóla sem ekki sjást á myndinni. Þetta sést allt á fyrstu myndinni. Það er mikið af húsgögnum frá sjötta og sjöunda áratugnum í þessari verslun og þetta tekkborð er frá þeim tíma. Mannsfóturinn sem sést á myndinni hefur stigið á íslenska grund. Það eru hjón sem reka þessa verslun og maðurinn hefur komið til Íslands og þegar hann byrjaði að segja mér frá þeirri ferð byrjaði hann að stama. Konan hans sagði þé að þetta væri svona; hann hefði fengið svo mila Íslandsdellu að hann yrði málhaltur þegar hann ætlaði að fara að segja frá íslandsferðinni sinni.

Það verður gert við bílinn meðan ég verð á Íslandi

Það eru yfir tvö ár síðan að við Rósa lögðum Fordinum mínum að kvöldi til í næst, næstu götu neðan við götuna þar sem þau búa í Stokkhólmi. Þegar ég sótti hann þangað daginn eftir var lítil beygla í boddíinu ofan og framan við hægra afturhjól. Lítil sagði ég, en á næstum nýjum bíl á bara ekki að vera nein beygla. Ég gerði ekkert í þessu þá og svo fóru í hönd tímar þar sem lítil beygla í boddíi á bíl var smámál móti öðru og alvarlegra máli.
 
Svo kom í ljós önnur beygla og skrapsár og hugsanlega veit ég eitthvað um tilurð þessa en ég er ekki viss. Nú þótti mér sem málið væri orðið öllu flóknara og leist mér ekki á ef ég þyrfti að fara að borga tvær sjálfsábyrgðir. Ég fann strax að ég mundi ekki geta skrökvað því að þetta hefði komið í sama óhappinu. Svo leið tíminn og ég hummaði þetta fram af mér.
 
Svo skeði það fyrir rúmlega ári eða svo að ég var að moka snjó þannig að ég kæmi bílnum út á veginn og ég mokaði ekkert allt of breið göng. Til að komast út á veginn þarf að fara gegnum op á grjótvegg sem er á lóðamörkunum og nákvæmlega þegar ég er í þessun opi datt steinn úr veggendanum og lenti á hægra framhorni. Ég heyrði hljóð sem ég vildi alls ekki heyra, fór út að athuga og það var svo sem hálfs meters löng rispa á plaststuðaranum framan við framhjólið. Ekki vænkaðist hagur strympu við þetta.
 
Nokkrum dögum síðar var ég að moka snjó frá öllum bílnum og þá var ég svo laginn að ég rak skófluna í plaststuðarann aftan við hægra afturhjól og þar kom svo sem fimmtán sentimetra löng rispa. Nú var málum þannig háttað að mér fannst orðið afar erfitt um vik að hringja í tryggingarnar og tilkynna um fjögur tjón. Ég skammaðíst mín. Bílinn vildi ég fá í lag en þar sem það var mér ofraun að skrökva því að tvö fyrstu óhöppin væru eitt óhapp, þá var mér ennþá ómögulegra að skrökva því að fjögur óhöpp væru eitt. Svo kúrði ég á þessu og spekúleraði og fannst þetta býsna óþægilegt, enda er ég ekki nema sjötíu og eins árs.
 
Í fyrradag hringdi ég að lokum í tryggingarnar og tilkynnti fyrsta óhappið, það sem ég varð var við í Stokkhólmi, en sagðist ekki vita um tilurð þess næsta. Það var kannski satt eða kannski ekki satt. Ég talaði við mjög hjálplega og þægilega konu og hún yfirheyrði mig. Ég get ekki sagt að ég hafi skrökvað að henni, enda var það mjög erfitt vegna hennar góðu framkomu. Þarna var ég búinn að taka ákvörðun; þá ákvörðun að ég ætlaði að borga viðgerðina á síðustu tveimur rispunum sjálfur. Að lokum vísaði hún mér á skaðaverkstæði Ford og Volvó í Örebro og gaf mér tíma klukkan tvö í dag.

Þangað kom ég rétt fyrir tvö í dag og þar hitti ég afar prúðan, traustvekjandi og þægilegan mann, væntanlega á fimmtugsaldri. Fyrst sýndi ég honum fyrsta skaðann, Stokkhólmsskaðan. Hann strauk og þreifaði og talaði við sjálfan sig. Svo sýndi ég honum annan skaðann og hann strauk, þreifaði og talaði við sjálfan sig. Þá var komið að því að skoða rispurnar tvær, þær sem tengdust snjónum, og ég sagði honum að þær tengdust snjómokstri og að ég væri ekki stoltur yfir því. Hann var fljótur að skoða þær og sagði við sjálfan sig að þetta væri bara að sparsla, slípa og lakka. Þá bætti ég við að þessa tvo skaða ætlaðí ég að borga sjálfur án nokkurra frekari umræðna. Þar vorum við umsvifalaust sammála.
 
Að lokum hafði ég orð á því að ég ætti líklega að fara að hætta að keyra bíl. Það taldi hann af og frá en sagði að ég ætti frekar að hætta að moka snjó. Svo gaf hann mér tíma fyrir bílinn og sagði að tryggingarnar mundu ganga vel frá þessu máli. Mér þótti vænt um alla framkomu þessa manns og sagði líka að það hefði verið gott að hitta hann og mér væri nú léttara að þetta væri komið á rekspöl, ég væri nefnilega búinn að skammast mín lengi fyrir þessa óhapparöð og fannst hún merki þess að mér færi orðið illa úr hendi að hafa með bíl að gera. Maðurinn stoppaði við, benti á bílinn og sagði: þetta er bara "en baggis".
 
"En baggis" er einfaldlega stytting á sænska orðinu yfir smámál eða eitthvað sem er pínulítið. Auðvitað var það rétt hjá honum þegar öllu er á botninn hvolft. En ég er bara sá einfeldningur að sjá ekki að það er "en baggis" fyrr en mér er sagt að svo sé. Ég er þessum manni þakklátur fyrir framkomuna og viðmótið . Það verður gert við bílinn meðan ég verð á Íslandi. Hér tókst mér að gera "en baggis" að miklum orðaflaumi.
 
Í janúarlok 2011, nýr og engin rispa og engin beygla.

17 mínútur fyrir átta

Það var 17 mínuútur fyrir átta í morgun, einmitt þegar ég lá undir notalegri ullarvoðinni minni og lék mér með heimspekilegar hugsanir (að mér fannst sjálfum), að farsíminn minn víbraði þrisvar sinnum á náttborðinu. Ég þurfti svo sem ekki að lesa skilaboðin sem ég var að fá, ég hefði getað sagt já bara svona í blindni. Að fá sms á þessum tíma þýðir að Ove dagskrárstjóri í Vornesi er kominn á vinnustað og sá sem vann nóttina búinn að segja honum að einhver sé búinn að tilkynna sig veikan.
 
Það skaffar mér síðan smá tilbreytingu í lífinu og fær mig til að skilja það að ég sé enn fær um að rétta út hendina til þeirra sem hafa komið í Vornes undanfarið. Komið þangað vegna þess að skelfingin hefur knúið þá til þess. Heima geta verið eiginkona eða eiginmaður, börn eða foreldrar, eða þetta allt saman og systkini í viðbót, og skelfingin, reiðin, biturðin, vanmátturinn, söknuðurinn, sektarkenndin, skömmin og sorgin er förunautur þeirra allra líka. Aðstandendurnir upplifa nefnilega líka flestar þær tilfinningar sem eru að knésetja alkohólistann.
 
Geti ég öðru hvoru orðið að liði við að hjálpa einni svona fjölskyldu til að endurheimta það sem hún þráir mest, þá geri ég það gjarnan. Það er ekki að ég geri það gjarnan, það er hreinlega skylda mín sem borgara þessa lands.
 
Fyrir mörgum árum var tæplega miðaldra maður frá suður Svíþjóð innskrifaður í Vornesi. Þetta var hress náungi, virtist vel að sér í flestu, snöggur að hugsa og almennt þægileg og góð manngerð. Alkohólisminn spyr ekki eftir manngerð eða hæfileikum, hann kastar sinni voðalegu sprengju að hverjum sem er, bæði háum og lágum, góðum og minna góðum, greindum og minna greindum, vitrum og minna vitrum. Undankomunnar verður ekki auðið þegar þessi voðasjúkdómur er búinn að velja fórnarlambið.
 
En nú snúum við okkur að suðurSviþjóðarmanninum aftur. Ég var að vinna helgi og það var sunnudagur, heimsóknartími. Sonur þessa manns, sem mér þykir trúlegt að hafi verið fimm eða sex ára, var í heimsókn hjá pabba. Hann var svo fínt klæddur. Hann var í dökkum, vel pressuðum buxum með brotum og hann var í fínni skyrtu og vesti. Og viti menn, svo var hann líka með bindi. Ég gekk eftir endilöngum matsalnum og nálgaðist borð þar sem þeir feðgarnir sátu. Drengurinn sneri baki við mér en pabbinn horfði á mig koma.
 
Þegar ég var alveg að koma að borðinu renndi drengurinn sér niður af stólnum, sneri sér að mér, hneigði sig og heilsaði með handabandi. Við svona atvik verður svolítið eldri maður hrærður. Eitthvað gott hefur pabbinn líka sagt við drenginn sinn fyrst að hann gerði þetta.
 
 En nú er kvöldað á Sólvöllum eftir góðan dag. Það er engin kyrrstaða hér og einn fallegan dag kem ég til með að gera grein fyrir athöfnum mínum. En það sem er fremst á dafgskrá hjá mér núna er að bursta og pissa og ég hef sett mér það markmið að vera kominn undir ullarfeldinn fyrir klukkan tíu. Ég vil koma vel hvíldur í Vornes og líta þannig út að ég geti með réttu verið boðberi þess að það sé virkilega þess virði að vera edrú.
 
Maður á fimmtugs aldri sagði við mig í grúppu um daginn: Þú gætir verið pabbi okkar allra en samt lítur þú svo fjári vel út og þú ert svo sléttur og fínn að maður vill endilega koma þangað sem þú ert núna. Þann dag hef ég verið í góu formi og sannur boðberi betra lífs. Þannig á það að vera.
 
Ég held að ég sé búinn að birta þetta allt í bloggi fyrir ekki svo löngu síðan. En það verður bra að hafa það og ég segi líka öðru hvoru að ég sé óttalegur rugludallur.

Að sofa með gleraugun á nefinu

Ég endaði daginn á því að líta aðeins í vísdómsorðaalmanökin mín, líta á þá daga sem ég hef ekki litið á undanfarið. Og eitt það fyrsta sem ég rakst á var þetta: "Gott líf felst yfirleitt ekki í stórviðburðum, heldur í litlum, ljúfum andartökum." Það sagði Maya V. Patel en það nafn segir mér ekkert en samkvæmt Google er hún doktor. Meira veit ég ekki og gái ekki að því svo seint á degi. Hins vegar var það mér ljúft að lesa þetta þar sem stórviðburðirnir hafa ekki sótt Sólvelli heim í dag og engar dáðir hef ég drýgt. Ég veit heldur ekki hvort ég get státað mig af svo mikið af ljúfu andartökunum. En alla vega þegar mér fannst um miðjan dag í dag að hlutirnir væru mér öfugsnúnir, þá greip ég til æðruleysisbænarinnar. Líklega verður það að teljast ljúfara andartak en að grípa til blótsyrða vegna mótlætis sem er á endanum upprunnið í sjálfum mér.
 
En ég las meira og næst rakst ég á þetta: "Taktun  þér tíma til að vera einn með sjálfum þér á hverjum degi."
 
Það þarf varla að minna mig á þetta. Einvera er mín daglega gjöf ef ég ekki er á faralds fæti -sem ekki er svo oft.
 
Á öðrum stað las ég um að "ég ætti að læra að vera einn". Að ég staldraði við þegar ég las þetta kemur til af því að mér finnst oft mjög gott að vera einn, ekki alltaf en mjög oft.
 
Nú er ég að hugsa um að skapa ljúft andartak, en það er að ganga til fundar við Óla L þegar ég er búinn að bursta og pissa. En fyrst ég hef nefnt þetta má ég til með að segja frá byrjun eins slíks fundar fyrir nokkrum kvöldum síðan.
 
Ég gekk inn að rúmi, dró af mér sokkana og nærskyrtuna og lagðist á bakið upp í rúm með hátt undir hnakkanum.. Ég ætlað bara aaaðeins að slappa af áður en ég bæri á mig handkremið. Svo slappaði ég af í einn klukkutíma, en þá vaknaði ég við mínar eigin hrotur með gleraugun á nefinu og kveikt á lampanum við hlið mér. Það varð ekkert handkrem það kvöldið.

Svo þarf ég heldur ekki að vera mikilmenni

Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að segja að ég hafi verið að dunda mér úti á Bjargi um helgina eins og svo marga aðra daga undanfarið. Það er eins og ég hafi ekki frá svo mörgu öðru að segja. Innantómt, atburðalaust hversdagslíf kannski? Og grátt í ofanálag. Ég bloggaði talsvert um það á síðasta ári að ég ætti að breyta lífsstílnum en svo er ég í svipuðu fari eftir sem áður.
 
Í dag gekk ekki allt eftir sem skyldi en samt gaf ég mér tíma til velta fyrir mér atburðarás. Við Valdís höfðum oft talað um hvort við ættum að fara út í þessa byggingu eða ekki. Við vorum nú bæði gætin hvað það áhrærði og þá sérstaklega Valdís. Eins og ég hef oft sagt var hún oftast með báða fæturna á jöfðinni þegar ég var að reyna að svífa á vængjum morgunroðans. Ef þú ert viss um að þetta setji okkur ekki á hausinn, sagði hún, þá finnst mér að við eigum að gera þetta. Þá vorum við komin þangað.
 
Ekki neita ég því að þegar hún sagði þetta var ég farinn að veita athygli einkennum sem mér féll ekki við. En það er nú bara þannig að ef ég rýni endalaust á þannig hluti, þá verður aldrei neitt. Svo teiknaði ég, mældi fyrir húsi, við ræddum um stað og ég mældi aftur og svo var skipt um stað. Það voru fleiri í þessari umræðu en við Valdís. Rósa og Pétur komu mikið við sögu. Og aftur og aftur var skipt um stað fyrir húsið og aftur og aftur breytti ég teikningu.
 
Að lokum sótti ég um byggingarleyfi. Þegar það var klappað og klárt var líka ljóst að Valdís væri alvarlega veik. Þá var líklega rétt að hætta við. Nei, ég komst mjög fljótt að þeirri niðurstöðu að ef ég vildi hætta við væri ég að undirstrika að hún væri að deyja. Svo héldum við áfram. Um þessa hluti hugsaði ég í dag og fann fyrir notalegri tilfinningu og virðingu fyrir því sem ég var að gera. Það var komið sem komið var. Það er hægt að spila úr lífinu á misjafnan hátt og mér finnst ég vera að gera rétt. Líf mitt er einfalt, látlaust, ég er nægjusamur en ekki nýskur, legg meiri pening í matinn en margur gerir, en ég vil vita að það sé vandað sem ég býð líkama mínum upp á.
 
Í gær hafði liðið langur tími frá því að ég hafði litið í almanökin mín með vísdómsorðum dagsins þannig að mér fannst tími til kominn. Í fyrra almanakinu sem ég leit í sagði fyrir gærdaginn: Andaðu að þér ferskum blæ dögunarinnar svo að hún verði hluti af þér. Það færir þér styrk. Það er sagt að þetta komi frá Hopi indíánum.
 
Ég horfði á þetta um stund og hugsaði sem svo að utan útvarps, sjónvarps, síma, farsíma, bíla, flugvéla og án alls annars skarkala í nútíma neysluþjóðfélagi, að þá yrði ég meira og öðruvísi móttækilegur fyrir lífinu sem bærist kringum mig og fyrir jörðinni sem ég geng á og er heimili mitt í alheimi.
 
Þegar ég hætti smíðum í dag gekk ég út í skóginn minn, nokkuð sem ég hef ekki gert í einar tvær vikur. Það var lygnt í skóginum, það var hljótt og mörg trjánna gnæfðu meira en tuttugu metra yfir mig. Loftið var ferskt og ég bókstaflega fann hvernig það dróst niður í lungun við innöndunina og gaf mér líf. Það var gott líf og ég gekk annan hring. Þegar ég var að koma til baka heim var hringt til mín frá Íslandi og ég var svo feginn að það var hringt eftir að ég hafði gengið þessa tvo hringi en ekki meðan ég lá á hnjánum í nýbyggingunni og boraði með höggbor fyrir festingum í steingólfið.
 
Texti gærdagsins í hinu almanakinu var svohljóðandi: Staða, völd, peningar eða vinsældir skapa ekki mikilmenni.
 
Það var góður og einfaldur boðskapur. Það er kannski í góðu lagi að ég lifi einföldu lífi hér heima á Sólvöllum, baukandi við mitt án mikilla efna og með völd einungis yfir sjálfum mér. Svo þarf ég heldur ekki að vera mikilmenni. Lífið er ekki innantómt, atburðalaust hversdagslíf og ekki grátt heldur.

Ég lenti í þráskák við þekktan mann í dag

Arkitektinn í mér beið hnekki í dag og það sem brást var svo augljóst. Það nálgaðist að ég ætlaði að setja tvo skápa í sama horbnið. Nálgaðist sagði ég. Það var í hádeginu sem mér varð þetta ljóst. Ég hugsaði um óþarfa vinnu sem ég hefði skapað mér með þessari vitlaysu og ákvað að fara inní bæ og fá mér vatn að drekka og svo að fá mér smá snarl. En bíddu nú við. Nei ég geri rástafanir fyrst og lýk þessari óþarfa vinnu styrax, annars verður ekkert varið í fá vatn að drekka og borða smá snarl.
 
Ég gekk öruggur til verks og var fljótari en ég hafði reiknað með. Reyndar tók ég svolitla áhættu. Ég hefði alveg getað misst efri skáp í gólfið vegna þess að ég ákvað að spara vinnu en ég gætti ýtrasta öryggis. Mér hafði mistekist skipulagningin og ekki mundi það bæta úr að missa áttatíu sentimetra breiðan skáp og níutíu sentimetra háan í gólfið. Fumlaust og af öryggi vann ég þetta verk og svo fór ég inn í bæ, drakk vatn og fékk mér rúgbrauð með miklu áleggi. Með það var ég mettur og fór inn að tölvu og ætlaði að forvitnast um gang mála nær og fjær.
 
Ég var ekki fyrr búinn að ýta á bilslána til að vekja tölvuna til lífs en glottandi Hannes Hólmsteinn birtist á skjánum. Hann var eitthvað að skæla yfir því að Norðmenn, Finnar og Svíar hefðu hlunnfarið Íslendinga í kjölfar hrunsins 2008. Hann var ekkert að tala um að þessar þjóðir hefðu í fullri alvöru aðvarað íslendinga og sagt þeim að háttarlag þeirra mundi enda með ósköpum sem það og gerði. Ég fylgdist með viðbrögðum Íslendinga í íslenskum fréttum á þessum tíma og þeir dæmdu Norðmenn Finna og Svía auðvitað bara kjána. Mestar viðvaranir komu samt frá Dönum en Hannes Hólmsteinn nefndi þá ekki. Steingrímur Sigfússon varaði líka við þessu en hann var að sjálfsögðu dæmdur mesti kjáninn.
 
Þegar Islendingar bera Svíum illa söguna, landsmönnum mínum, þá finn ég óþægileg viðbrögð innra með mér en ég hef haft vit á því að þegja. En fyrst ég er nú byrjaður verð ég að segja það að ég skil ekki Íslendinga, ekki í þessu sambandi og ekki í svo mörgu öðru sem er að ske innan þeirra landssteina. Það er kannski bara vegna þess að ég er álíka mikill kjáni og Norðmenn, Finnar og Svíar og Steingrímur Sigfússon.
 
Ég byrjaði að lesa rausið sem rann frá Hannesi Hólmsteini en áttaði mig svo á að ég væri að fara illa með tímann. Ég las það því ekki til enda. Ég var að sýsla með viðfangsefni sem voru mér mikið nær hjartanu en þetta lesefni. Svo klikkaði ég á xið efst á skjánum til að losna við Hannes Hólmstein en þá skeði eitthvað. Skipsskrúfa á stærð við litla tölu með misjafna liti á skrúfublöðunum hóf að snúast á skjánum. Það boðaði ekki gott. Þegar hún fer að snúast á skjánum getur það tekið óratíma. Ég sneri því frá og fór út á Bjarg að sinna hugðarefnum mínum -að setja upp skápa.
 
Eftir einn og hálfan klukkutíma fór ég inn aftur og viti menn! Hannes Hólmsteinn var ennþá á skjánum. Ég reyndi með alls konar leiðum að losna við hann en án árangurs. Ég ætlaði að slökkva á tölvunni á venjulegan hátt en henni datt ekki í hug að hlíða skipuninni. Það var augljóst að mér væri ætlað að hafa Hannes Hólmstein á skjánum þar til ég sættist við álit hans á Norðmönnum, Finnum og Svíum. Það var ekki til umræðu af minni hálfu þannig að nú greip ég til þess rótækasta sem hægt var að grípa til. Í stað þess að hringja í Landsvirkjun (E-ON) og biðja þá að rjúfa strauminn af Krekklingesókn, þá gekk ég að innstungunni og dró tölvuklóna úr sambandi.
 
Eftir stundarkorn kveikti ég á tölvunni aftur og viti menn; Hannes Hólmsteinn birtist á skjánum en það var bót í máli að nú gat ég losnað við hann. En þegar ég var laus við hann af skjánum kom litskrúðuga skipsskrúfan á skjáinn aftur og hóf að snúast þar í einhverri fáránlegri gleði. Þá gekk ég til fartövunnar og þar sit ég nú.
 
Ef ég hefði losnað við Hannes Hólmstein af skjánum strax hefði þetta blogg ekki orðið til, en þar sem hann ofbauð mér algerlega með þrásetu sinni, þá ákvað ég að hafa þetta svona.

Góður föstudagur

Stundum er ég eldsnemma útivið. Í morgun var ég ekki eldsnemma útivið. Það var um hádegi sem ég fór af stað og það lá við samviskubiti. Þá hafði ég gert æfingarnar mínar samviskusamlega, næstum tvisvar sinnum. Ég hafði lesið nokkur blogg og blaðagreinar, skoðað feisbókina, skoðað myndir og velt fyrir mér hlutum. Svo hafði ég borðað hafragraut. Ég leit aðeins inn á Bjarg áður en ég lagði af stað inn í Marieberg og þar komst ég að því að sem ellilífeyrisþegi mætti ég alveg hafa árdegistímana svona. Mér finnst betra að sýsla á morgnana eins og ég gerði í morgun og vera svo duglegur seinni partinn. Ég er duglegastur á tímabilinu fimm til sjö og það er á takmörkum að ég tími að hætta þá. Ég var að til klukkan hálf átta í kvöld.
 
Ég velti fyrir mér vörum í kaupfélaginu í Marieberg, las á umbúðir og spáði í ýmislegt sem ég hef aldrei keypt. Ég skoðaði skrúfur og smáverkfæri í byggingarvöruversluninni K-rauta og keypti að lokum stjörnuskrúfjárnasett (bitsasett). Það er orðið svo flókið þetta með skrúfur og ég á erfitt með að skrúfa ef ekki er rétt stjörnuskrúfjárn í verkfærunum mínum. Svo keypti ég nokkra metra af smíðavið. Einhvern veginn á þennan hátt leið tíminn í Marieberg og ég var að hugsa um að fá mér kaffi að lokum og ríkulega brauðsneið. Svo datt mér í hug að skipta á kaffinu og frekar dýru kremi í TheBodyShop og svo gerði ég. Eftir hátt í þriggja tíma ferð í Marieberg kom ég heim og fékk mér eigið kaffi og brauð sem ég smurði sjálfur.
 
Þegar ég kom svo út á Bjarg var klukkan orðin hálf fjögur og mér fannst pínulítið sem dagurinn hefði runnið út í sandinn. Ég þurfti að byrja á því að saga efni sem ég hafði keypt í K-rauta. Ég dró því yfirbreiðsluna af kínversku vélsöginni minni og sagaði það sem ég þurfti. Það var farið að blása all hressilega fannst mér og sagið vildi meðal annars fara bakvið gleraugun og þar olli það mér óþægindum. Mér varð líka kalt og ég flýtti mér sem mest ég mátti, pússaði spýturnar með sandpappír, burstaði af þeim rykið og flýtti mér svo inn í bílageymsluna þar sem ég fór að mála viðinn sem ég hafði verið að vinna.
 
Heyrðu! en hvað það var notalegt að vera kominn inn í hlýjuna, teygja hendina að rofanum og kveikja ljós. Það var bæði hlýtt og bjart og málningin lagðist á viðinn bara nákvæmlega eins og ég óskaði mér. Þetta var nú reyndar allt í lagi að ég byrjaði svona seint. Stundum verð ég að fara í bæjarferð. Það er hluti af því að lifa lífinu. Svo gekk mér allt vel og nýir hlutir komust af stað í bílageymsluinnréttingunni. Ég komst að því að þetta húspláss var hreinn ríkidómur. Ég fann að það var gott að bardúsa þarna við sitt, gera vistlegt, og það yrði alveg örugglega gott að bauka þarna í framtíðinni líka.
 
Ég var harla ánægður ellilífeyrisþegi þegar ég var búinn að ljúka því sem ég hafði ætlað mér. Ég sá fram á góða tíma og skemmtileg verkefni og þegar vindinn lægði undir kvöldið fann ég fyrir tilhlökkun vegna vorsins. Þá verður svo margt að fylgjast með, ótrúleg fegurð hvert sem litið verður og margt að hlú að. Og það sem hlúð verður að mun sýna þakklæti sitt í því að sýna árangur af mögum toga. Á leiðinni inn í bæ sá ég fyrir mér að bílageymsluinnréttingin yrði tilbúin vel í tíma fyrir Íslandsferðina. Ég þarf líka að sinna mörgu öðru fyrir þá ferð.
 
Til Íslands fer ég þann 19. apríl og ég fer til baka þann 5. maí. Ég mun leysa all nokkuð af í Vornesi í sumar og þar á milli vonast ég til að geta hlúð að ýmsu. Eins og ég hef svo oft sagt vonast ég líka til að geta ferðast svolítið og þegið eitthvað af þeim gistingum sem mér hefur verið boðið upp á. Það verða engar hitabeltisferðir. Meiningin er að það verði í fyrsta lagi ferðir norður á bóginn. Það er margt skemmtilegt sem liggur fyrir.
 
 
 
Hér fyrir neðan eru svo þrjár myndir "að norðan" og þá er ég að tala um 600 til 800 kílómetra fyrir norðan.
 
 
 
 Foto: Agne Säterberg
 
 Foto: Agne Säterberg

. . . . . röddin verður þýðari og ber keim af lotningu

Það var mánudagur 10. mars og ég fór í vinnu nokkru fyrir hádegi. Ég gekk beint til verks og ég hitti talsvert af fólki sem ég hafði aldrei hitt áður. Ég á aldrei í neinum vandræðum með að nálgast það og það er líka talsvert forvitið um mig. Ég var mest á sjúkradeildinni sem var líka minn aðal vetvangur allra fyrstu árin mín í Vornesi.
 
Svo kom þriðjudagur og þann dag vorum við þrír ellilífeyrisþegar sem önnuðumst meðferðina þar sem allir ráðgjafarnir voru einhvers staðar á ráðstefnustað að leggja á ráðin um meðferð framtíðarinnar. Við gamlingjarnir héldum okkar gamla striki og meðferðin gekk afar lipurlega hjá okkur. Við þurftum að taka á móti fjórum nýjum sjúklingum og þar af tveimur verulega veikum, þeir veikustu sem ég hef tekið á móti í mjög mörg ár. Að fara höndum um farangur slíkra manna kostar að hafa hanska og ég kann á það og hika ekki við að ganga að verki. Henda síðan af mér hönskunum og fara beint inn í grúppu eða fyrirlestrarsal. Hafa síðan samtöl og að skrifa samtölin og fara síðan í grúppu aftur eða eitthvað, eitthvað annað. Það gilti að vera á fullri ferð og það örvaði mig á undraverðan hátt og skrefin urðu bara léttari og léttari.
 
Klukkan fjögur seinni daginn lagði ég af stað áleiðis til Örebro. Ég var á leiðinni á námskeið! Fyrst var að finna húsið og svo var að finna bílastæði og svo var ég mættur í skólastofu fimmtán mínútum áður en námskeiðið byrjaði. Það var kona, nánast nágranni minn, sem annaðist námskeiðið. Hún kynnti sig og svo áttum við þátttakendur að kynna okkur og segja líka frá því hvað það var sem dreif okkur á þetta námskeið.
 
Þegar ég var búinn að kynna mig með nafni sagði ég nokkurn veginn þetta: Áhugi minn fyrir að koma á þetta námskeið í býflugnarækt byggist á því að vinnufélagi dóttur minnar, íslenskur skurðlæknir á Karólinska sjúkrahúsinu í Huddinge, talaði um það við hana að pabbi hennar ætti kannski að kynna sér býflugnarækt. Ég veit að í vinnunni opnar hann kviði fólks og brjósthol, gerir við innihaldið, færir það jafnvel út á vinnuborð, vinnur með það þar og setur það síðan á sinn stað aftur og lokar. En þegar hann kemur heim sýslar hann gjarnan með býflugurnar sínar og þegar hann segir frá þeim breytist raddblærinn, röddin verður þýðari og ber keim af lotningu.
 
Lýsing mín á störfum læknisins er algerlega mín, ég hef ekki hugmynd um hvernig svona vinna fer fram, en fyrir mig er þessi vinna nokkuð sem er ofar mínum skilningi.
 
Konan sem sá um námskeiðið er sjálf með býflugnarækt. Hún talaði í næstum tvo klukkutíma og hvað eftir annað kom hún inn á þetta með lotninguna og að raddblærinn breyttist. Hún einfaldlega notaði það og sagði þá; "eins og íslendingurinn sagði um skurðlækninn í Huddinge". Lotning hennar sjálfrar fyrir býflugnasamfélögunum leyndi sér ekki. Hún hafði um langt árabil áður en hún varð ellilífeyrisþegi unnið við aðstæður þar sem bæði yfirvöld og almenningur stóðu í stríði við hana, en hjá býflugunum sínum fann hún svo griðastað á kvöldin. Hún sagðist því vel geta skilið að raddblær skurðlæknisins breyttist þegar hann talaði um þær. Ég get sagt um þetta kvöld, þar sem ég var þó aldeilis allt of þreyttur, að ég lærði það í fyrsta lagi að þessi býflugnasamfélög eru mikið, mikið fullkomnari og adáunarverðari en ég hafði gert mér nokkra grein fyrir áður.
 
Eftir rúmlega tvo og hálfan tíma lauk námskeiðinu það kvöldið og skömmu síðar var mér öllum lokið. Skrefin sem ég steig svo létt í Vornesi fyrr um daginn urðu þung og ég reyndi yfir höfuð að komast hjá því að stíga þau. Fyrst var það djúpi stóllinn eftir heimkomuna og þaðan valt ég í rúmið með viðkomu hjá tannburstanum.
 
Svo gekk miðvikudagurinn í garð og ég var all nokkuð tímanlega á fótum og ætlaði að koma miklu í verk, var búinn að leggja það allt vel niður fyrir mér og hlakkaði til. Eftir hafragrautinn hringsnerist ég svo kringum sjálfan mig og verð að segja að ég var mjög mikilvirkur -mikilvirkur í að gera ekki neitt. Ég fór meira að segja á AA fundinn um kvöldið án þess að fara í sturtu eða raka mig.
 
Á fimmtudagsmorgni, í dag, kom ég eins og svífandi úr miklli fjarlægð þegar klukkan hringdi sjö. Sótarinn var að koma. Ég hvolfdi í mig þremur glösum af vatni og tók síðan til við að þrífa kamínuna og nágrenni hennar. Það var mikið að þrífa! Svo kom sótarinn klukkutíma á undan áætlun. All dökkur var hann á hörund og skítugur vel. Hann vann hratt og ég geri ráð fyrir að hann hafi gert skyldu sína og svo skildi hann talsverðan skít eftir sig þegar hann yfirgaf Sólvelli.
 
Síðan gekk ég að verki og tók loks til við það sem ég gerði ekki í gær. Ég skipulagði líka bókasafn í því sem ég dags daglega kalla bílageymsluna. Mér býr svo hugur að bílageymslan verði bílageymsla án bíls. Bíll er líka einungis blikk og plastdrasl, nauðsynlegur en steindauður hlutur.
 
Þessa mynd tók ég þegar ég fór í kynnisferð til læknisins seinni partinn í fyrrasumar til að sjá býflugurnar hans. Þarna eru jú Rósa, Hannes Guðjón og Pétur, síðan hjónin Þórhallur og Valgerður. Ég held að Valgerður sé eins og Þórhallur, að hún sé einnig með svolítið býflugnasmit. Leiðbeinandinn á námskeiðinu í fyrrakvöld sagði að þau okkar sem væru þegar ákveðin í að hafa tvær býkúpur mundum innan mjög skamms tíma verða komnir með 36, svo smitsamar væru býflugurnar.
 
Ég er nú meiri rugludallurinn en ég verð bara að standa undir því.

Í helgarlok

 
Á fimmtudagsmorguninn var lét ég vekjaraklukkuna hringja klukkan sjö og ég vaknaði aðeins fyrr. Það er alltaf best að vakna á undan því að vekjaraklukkuhljóð eru óþægileg. Ég ætlaði að gera mikið þann dag. Meðan ég var að borða morgunverðinn hafði Rósa samband við mig og spurði meðal annars hvort ég væri búinn að kaupa farmiða til Íslands. Spurði bara sí svona. Nei, ég var ekki búinn að því, var búinn að humma þetta fram af mér lengi, lengi. Svo fór ég í það að kaupa farmiða og ég er ekki fljótur að svoleiðis, velja daga, velja verð, velja morgun, miðjan dag eða kvöld. Svo byrjaði ég á mínum verkum um hádegi en farmiðinn var þó alla vega kominn í höfn.
 
Það var föstudagsmorgun og klukkan hringdi sjö eins og daginn áður. Þá vaknaði ég við klukkuna en ekki af sjálfsdáðum. Ég var búinn að skipuleggja að gera mikið þann dag líka. Ég byrjaði þó á því að panta íslenskan mat hjá honum Guðbirni. Svo byrjaði ég á skipulögðu verkunum um hádegi. Svona er að vera ellilífeyrisþegi og vera verkefnum hlaðinn. (Grín)
 
Það var laugardagsmorgun, í gær, og klukkan hringdi sjö að vanda. Ég vaknaði á undan klukkunni. Ég borðaði minn hafragraut og fór svo út að sækja eldivið. Nákvæmlega þá renndi lúxusbíll inn á Sólvallahlaðið og reffilegur maður um þrítugt kom til móts við mig. Ert þú Bergkvist sem selur eldivið? spurði hann. Nei, ég var ekki Bergkvist og ég vissi ekki hvar hann ætti heima. Síðan lenti ég í löngu símtali við nágranna sem skilaði svo sem engu. Strax á eftir því hringdi síminn og fólk spurði hvort það mætti koma í heimsókn. Já, auðvitað!
 
Svo vonaði ég að þau yrðu lengi á leiðinni því að þá gæti ég bakað pönnukökur. Það var nefnilega sælkeri í mér í gær. En þau voru fljót á leiðinni og ég fékk engar pönnukökur. En það var þó kaffi og hressileg stund og skemmtileg. Svo byrjaði ég á verkunum mínum um hádegi eins og hina dagana og ég kom óvenju miklu í verk. Hressileg heimsókn og kaffibolli gera oft stórvirki. Hveitið er ennþá í skálinni, ég var ekki kominn lengra og ég hef ekki látið eftir mér að baka pönnukökur handa mér einum og háma í mig allt of mikið af þeim.
 
Það var sunnudagsmorgun, í dag, og ég vaknaði klukkan sjö án þess að klukkan væri stillt á hringingu. Svo drakk ég slatta af vatni og gerði æfingarnar mínar, tvær umferðir í einni lotu. Svo fór ég út í skóg klukkan átta til að snyrta ungar eikur. Hálf tíu kom ég inn til að borga morgunverð og horfa á messu. Ég slapp með morgunverðinn fyrir messuna, settist í djúpan stól og svaf af mér messuna. Ég gerði alla vega ekki ljótt á meðan.
 
Að öðru leyti gerði ég mikið í dag, endurnærður eftir útivistina, morgunverðinn og árdeigislúr í djúpa stólnum mínum.
 
Þessa skápa og marga aðra skápa kom ég með frá Hannesi og fjölskyldu í tveimur ferðum í vetur. Þeir voru þá í ótrúlega mörgum pörtum, sundurskrúfaðir og snyrtilega staflaðir á kerrur. Þetta var eldhúsinnrétting hjá Rósu og Pétri, snyrtileg og fín innrétting, en alveg ótrúlega illa skipulögð og illa uppsett af fyrri eigendum. Nokkurn veginn óskemmd samt. Í seinni ferðinni kom ég með stærri stykkin og þegar ég var að bera þetta inn á Bjarg kom í heimsókn sama fólk og kom í gær. Síðan þurfti ég að færa þetta til tvisvar sinnum inni á Bjargi og þegar ég byrjaði á að setja saman í vikunni varð ég alveg ringlaður í öllum þessum ósköpum af hlutum sem nú voru komnir í algera óreiðu. Samt náði ég árangri.
 
Þarna er ég búinn að setja fastan sökkul undir gamla eldhúsbekkinn þar sem skáparnir stóðu á fyrri mynd. Á miðvikudag ætla ég svo að byrja að setja þessa innréttingu upp. Eftir það fer ég með margt út á Bjarg sem er inni í íbúðarhúsinu núna. Eftir það fer að verða mikið fínt hjá Sólvallamér.
 
Mennirnir sem standa þarna komu í heimsókn í gær. Hann Þórir er þarna til vinstri en maðurinn til hægri er sonur Auðar, en Auður stóð á bakvið myndavélina. Það voru Þórir og Auður sem komu aðvífandi og báru inn með mér innréttinguna í vetur. Heimsóknin í gær var hressandi eins og ég sagði áður og sonurinn er á leið til Barsilóna. Hann nefndi það við mig að ef ég ætti leið þar um ætti ég að hafa samband við hann. Hann sagði það með góðum vilja og í fullri alvöru.
 
Það hringdi í mig gamall vinnufélagi núna í kvöld, kona sem er að ég held sex árum yngri en ég. Eftir það samtal er ég ennþá þakklátari en áður fyrir þá heilsu sem ég hef. Þvílík sjúkrasaga sem tók hana langan tíma að segja frá. Eftir að hafa hlustað á þetta fór ég í myndirnar mínar og skoðaði þessa mynd sem Rósa eða Pétur tóku af mér um síðustu helgi. Þegar ég horfi á myndina finnst mér sem ég sé mörgum, mörgum árum yngri en mér finnst þessi kona vera sem sagði mér sjúkrasögu sína fyrr í kvöld. Samt er það hún sem er yngri. Ég tala oft um að ég beri mikla ábyrgð á heilsufari mínu, ég megi ekki sjá mig bara sem fórnarlamb örlaganna. En þegar ég horfi magann á mér á þessari mynd er eins og ég taki ábyrgðina ekki alveg að fullu. Ég fullyrði að ég borða mjög hollan mat en líklega borða ég of mikið. Ég kemst nú að þeirri niðurstöðu eftir að hafa horft á myndina.
 
Ég veit ekki hvort þið sjáið það sem ég sé. Það er tvennt sem ég á við. Annað er að kamínan er orðin skítug og hitt er að það eru fætur undan kommóðu þarna í eldinum. Kommóða á bænum var búin að gera sitt og fer að hluta í eldivið og að hluta í geymslu sem gott smíðaefni. Þetta er hluti af endurskipulagningu heima hjá mér.
 
Um hádegi á morgun fer ég í vinnu og kem ekki heim fyrr en seint á þriðjudag. Í fyrsta lagi kem ég seint úr vinnunni og svo fer ég á námskeið í býflugnarækt sem byrjar klukkan sex á þriðjudagskvöld. Það er að vísu hæpið að það minnki á mér maginn ef ég fer að borða mikið af hunangi
 

Spæta

Ég horfði á veðurspána klukkan átta, tíu daga veðpurspá, og það er spáð hlýindum. Það er eins og það sé næstum fáránlegt að orða það þannig en það er vorlegt að vera til núna, hreinlega vorlegt. Ég harma það alls ekki en þykir snemmt að segja að nú göngum við inn í þessa árstíð. Ég byrjaði að hlakka til vorsins óvenju snemma í vetur en átti þá ekki von á þessu en nú er ég bara þakklátur. Hins vegar krefst það af mér að koma mörgu í verk hið fyrsta en sannleikurinn er sá að ég er að vinna við smíðar inni þessa dagana og mun gera það nokkra daga til. Síðan verð ég að hefja vorverkin.
 
Í gær var nógur fuglamatur í tveimur trjám. En allt í einu var hann búinn um miðjan dag í dag. Ég er búinn að bæta úr því. Ég tala um vor en er samt að hengja upp fuglamat. Ég gerði þetta líka í fyrra alveg fram í maílok og og komst þá að því að fuglarnir eru gráðugir í matinn langt frameftir. Ég skal ekki spara það. Hann Pétur tók um helgina vídeómynd af spætu sem var að næra sig, mjög fallega mynd, og ég veit ekki betur en hann hafi tekið myndina út um glugga sunnan á húsinu. Við skulum sjá.
 
Pétursvídeó
 
Pétur gæti alveg sent þetta vídeó sem keppnismynd í þátt sem heitir Mitt i naturen.
 
Þetta er fallegur fugl, mjög svo, og hljóðin sem hann sendir frá sér, einkanlega á morgnana, eru eitthvað í skyldleika við rósemi eða kyrrð. Ég er að vísu alltaf að tala um kyrrð hér en þegar ég vakna tímanlega á morgnana og hlusta á víbrandi bankið innan úr skóginum, þá dettur mér í hug rósemi og innileg nálægð við náttúru.
 
Samt er spætan grimm. Hún hikar ekki við að höggva göt á fuglahólkana þegar ungarnir eru komnir og svo étur hún unga annarra fugla. Þvílík grimmd er auðvelt að láta sér detta íhug en ef ég hugsa um gerðir mannsins, þá er þetta mesta sakleysi. Spætan tekur þessa unga til að fá fæðu og lifa en við slátrum lífi í gríðarlegum mæli til að borða og kaupa óendanlegt magn varnings til að reyna að auka lífsgleði okkar og hamingju. Síðan klæðum við okkur upp og förum í leikhús, giftingar og skírnarveislur en spætan situr upp í sínu tré og lemur nefinu í harðan viðinn.
 
En svona er þetta og ég ætla að birta mynd sem gæti verið af einum nágranna minna, mynd sem ég fann á netinu og kemur heim og sanman við vídeómyndina hans Péturs.
 
Stora hackspett er sænska nafnið á þessum fugli en ég finna bara orðið spæta á íslensku. Þetta er væntanlega kvenfugl þar sem það er enginn rauður flekkur í hnakkanum en fuglinn sem Pétur tók vídeóið af hefur rauðan flekk í hnakkanum og er því væntanlega karlfugl.

Fyrsta athöfn dagsins

Um hádegi í gær eftir algert skítverk út á Bjargi og eftir að hafa farið í sturtu til að hreinsa af mér óhreinindin, þá settist ég við tölvuna og orðaflaumurinn bara rann fram svo að ég hafði ekki undan að skrifa. Svo þegar af mér var runninn mesti móðurinn las ég þetta yfir og fannst það vera eintóm steypa. Svo las ég það yfir núna aftur rúmum sólarhring seinna eftir góðan kvöldmat á Brändåsen og sá að það var ekki verra en svo margt sem ég hef birt þannig að ég læt það flakka líka.
 
*          *          *
 
Fyrsta athöfn gærdagsins að lokinni morgunbæninni var að ræsta ösku niður úr kamínunni, taka svo skúffuna sem askan fellur í, fara með hana út í skóg og losa hana þannig að hún dreifðist yfir sem stærst svæði. Á leiðinni til baka í fersku morgunloftinu leit ég heim til Sólvalla og þessi kunnuglega tilfinning að hér væri góður staður umfaðmaði mig. Svo ræsti ég meiri ösku niður í skúffuna, fór aftur út í skóg og losaði öskuna á öðrum stað. Þetta kalla ég að skila því síðasta aftur til skógarins.
 
Þessi skógur sem skapar griðastað á Sólvöllum fyrir öllum vindáttum öðrum en vestri er alls góðs verður af mér. Víst væri einfaldast að hafa hitaveitu eða ódýrt rafmagn til að hita upp með, en það er ekki alveg svo einfalt að sú hugsun leysi allt. Ég vil hafa skóginn og ég vil grisja hann með eigin hendi. Ég vil nota hann á sem bestan hátt og skila honum til baka því sem mögulega gengur að skila til hans. Þá verður hann sem fallegastur og vefur mig þar að auki örmum þegar vindar blása í meira en tuttugu metra hæð þannig að niðri heyrist bara gnýrinn frá vindum allra árstíða. Svo vefur hann mig örmum við allar aðrar aðstæður líka, einnig þegar ég uni mér í draumalandinu.
 
Eldiviðarvinnsla er hluti af menningu og það er þess vegna sem hún Fanney Erla Antonsdóttir frá Hrísey gaf mér bókina um "Hel ved". Tré sem falla í skógi og rotna þar mynda líka koltvísýring og aðrar lofttegundir sem of mikið er af. Þess vegna skilar skorsteinninn ekki svo miklum umframóhreinindum út í andrúmsloftið, eða kannski bara alls engum. Þetta hugsaði ég þegar ég hafði snúið við úti í skógi í gærmorgun og horfði heim.
 
Ég sá líka fyrir mér roskna menn á vöðlum, skríðandi í ám upp í nyrðra Norðurlandi, fangandi lax til að flytja upp fyrir virkjanir sem voru byggðar þegar þeir voru ungir. Þar vilja þeir láta laxinn hrigna. Þessa menn langar í dag að skapa skilyrði sem voru hluti af náttúrunni og frjálsræðinu þarna norður áður en virkjanirnar voru byggðar. Senda þá til Íslands til að læra að byggja laxastiga hugsar kannski einhver. En það fjallar ekki um það. Íslendingar gætu líka komið og lært heil mikið um þetta hér. En þegar búið er að sprengja sundur með tugum og hundruðum tonna af dýnamíti það lífríki sem þróast hefur á þúsundum ára og hella yfir það hundruðum þúsunda tonna af steypu og hlaða í það ótrúlegu magni af vélabúnaði, þá er erfitt með snöggum handtökum að þróa nýtt og skilvirkt lífríki við nýjar aðstæður.
 
Mennirnir sem skríða á vöðlum nú til dags í norðlensku ánum eru margir sömu menn og lágu í hópum á jörðinni, keðjuðu sig við tré eða dráttarvélarnar sínar, fylktu liði haldandi hönd í hönd eða samanbundnir -og það var fyrir mörgum áratugum. Það er reyndar þessari baráttu að þakka sem vissar flúðir og fossar eru ennþá til. Einnig að það eru til ár sem ennþá búa yfir óbreyttum þúsunda ára eiginleikunum og gera mönnum kleift að standa með stangirnar sínar á fallegum morgnum og veiða fisk á vissum stöðum. Annars á ég ekki að vera að segja frá þessu. Það eru þeir sem stóðu í eldlínunni um og upp úr miðri síðustu öld til að bjarga nokkrum ám, fossum og flúðum sem eiga að hafa orðið. Það er þegar þetta sama fólk segir frá sem hlutirnir verða svo óvéfengjanlega sannir.
 
Með þessi orð í huga var ég svo kominn heim úr seinni ferð minni með ösku í skóginn og með það kveikti ég upp. Eftir hafragrautinn, D-vítamínið og kaffibollann fór ég svo út á bjarg til að framkvæma það sem ég ákvað daginn áður að ég skyldi gera með sem glöðustu geði á nýjum degi, en það var að slípa sparsl á átta metra vegglengju. Það er of mikið að segja að ég hafi kviðið fyrir því en skítverk var það samt. Svo slípaði ég i einum áfanga með dyr og glugga opna en samt vildi sem mest af þessu ryki fara upp í nefið á mér. Það sá ég þegar ég var búinn og fór í sturtu til að losna við óþverran af líkama mínum.
 
Þegar ég snýtti mér í eldhusrúlluna urðu sýnilegar langar ræmur af leðju sem höfðu sama lit og jökulleirinn sem brýtst fram þegar hlaup koma í íslensku jökulárnar. Það var mjög ólíkt rennslinu í silfurtæru, óspjölluðu laxveiðiánum sem enn finnast þúsund kílómetra norður í landi, þeim sem ég hafði hugsað til nokkru áður á leiðinni heim úr Sólvallaskóginum. Öll önnur sparslslípun í bílageymslunni á Bjargi verður framkvæmd af málara sem kemur með rafknúna slípivél tengda ryksugu, allt knúið rafmagni sem að hluta til kemur frá fossunum langt norður í landi. Málarinn er búinn að lofa mér að gera þetta þó að hann fái enga aðra vinnu hjá mér. Hann vill mér vel og við erum þar að auki mjög svo sammála um það sem þetta blogg hefur gengið út á. Hann hefur frætt mig um margt skemmtilegt sem er að finna í náttúru þessa lands sem engum skal leyfast að eyðileggja fyrir stundargróða.
 
Hann Pétur tengdasonur tók um helgina kvikmynd af spætu sem fær sér að éta hangandi neðan á tólgarbolta í hestkastaníutré hérna sunnan við húsið. Hann sýndi mér brot af þessari upptöku og það var mjög falleg náttúrulífsmynd sem þar gaf að líta. Spætan, svo litfögur og hrein, og fim var hún og eitthvað svo eðlileg og fín. Ég sá allt of lítið af þessari upptöku því að ég var eitthvað annars hugar og upptekinn. Ég þarf að sjá þetta aftur hjá Pétri og gefa mér almennilega tíma til þess. Náttúran er hér alveg inn á gafli og þegar hún er sem hreinust og best er hún í gríðarlegri andstöðu við svo margt sem við sköpum með athöfnum okkar. Hefði þessi spæta lent í sparslinu sem ég vistaðist í í gær og ég dró upp í nefið á mér, hefði hún sennilega drepist. Þá hefðu hennar hreinu og ótrúlega fallega skipulögðu litir verið fljótir að fölna.
 
Mikið get ég átt góðan eftirmiðdag í þessu jarðlífi mínu ef mér tekst vel við að tileinka mér einfaldleikann og meta hið smáa að verðleikum.

Hversdagsleikinn fór og kom

Á föstudaginn yfirgaf hversdagsleikinn Sólvelli og ég veit ekki hvert hann fór, kannski langt inn í skóg. Bíll ók í hlað síðdegis, heldur fyrr en ég átti von á og skúringunum var ekki almennilega lokið. Þegar ég varð bílsins var yfirgaf ég skúringafötuna og fór út til að heilsa. Skúringafatan er ennþá ótæmd frammi í þvottahúsi og býður þess að mér þyki tími til kominn að sinna henni. Hannes og fjölskylda voru komin og mér fannst mikilvægast að taka á móti þeim.
 
Eitt af því fyrsta sem gestirnir gerðu eftir komuna var að skoða Bjarg og breytinguna þar frá síðustu heimsókn. Síðan vildi Hannes endurnýja kunningsskapinn við leikturninn sinn. Eftir það gekk hann öruggur að leikföngum sínum og öðru sem tilheyrði honum og hann vissi nákvæmlega hvar allt var að finna. Hann kíkti líka upp á loft á Bjargi þegar mamma hans fór þangað upp til að sækja hjólið hans og fleira sem þar var geymt meðan hinn stutti vetur gekk yfir.
 
Pabbi hans byrjaði á því að taka hjálparhjólin af hjólinu og eftir það tók Hannes hjólið og byrjaði umsvifalaust að hjóla. Það var ekki vitað að hann kynni það en það var sama, hann bara kunni það og hjólaði á fullri ferð út og suður á sveitaveginum.
 
Í fyrstu umferð voru engar myndir teknar á Bjargi. Það var ekki tími til þess. Ég blaðraði og þau skoðuðu. En nú er ég búinn að taka fyrstu almennilegu myndirnar inni í þessu góða húsi og Rósa er búin að vígja sturtuna og gefa henni topp einkunn.
 
Já, hér er allt sem til hlutanna þarf og ekki af verra taginu. Þegar ég var að velja sturtu, handlaug og fleira sem þarfa að vera í góðu baðherbergi var aftur og aftur hringt til mín frá Vornesi vegna vinnu. Það varð til þess að aftur og aftur valdi ég vandaðri hluti því að mér fannst sem ég mætti alveg láta það eftir mér fyrst ég nennti að vinna.
 
Það var í apríl í fyrra sem Valgerður vígði herbergið. Hún svaf þar þó að baðherbergið væri ekki tilbúið enda voru þá margir gestir á Sólvöllum. Það er svo sem ekki hægt að segja að málverkin þeki veggina enda voru síðustu handtökin unnin þarna sama dag og gestirnir komu, sértstaklega inni á baðinu, en dyrnar þarna á móti eru þangað inn.
 
Við undum okkur þarna um stund í gær eftir að hafa verið úti við. Það eru í fyrsta lagi bílarnir sem blasa við utan við gluggann á þessari mynd en útsýnið út um þennan vesturglugga á Bjargi er raunar fallegra en frá sjálfu íbúðarhúsinu.
 
Mér fannst ég mega vera svolítið drjúgur með mig þarna í þessu nýja og fína herbergi. Ég var nú einu sinni í helgarfríi.
 
Þarna er Hannes að taka utan af eggjum fyrir hádegismatinn í dag og syngur hraustlega. Ég syng heldur minna og það er pönnukaka á pönnunni, eftirréttur til að hafa eftir hádegismatinn. Ég gekk skrefi lengra í matargerð minni um þessa helgi. Í gær eldaði ég graskerssúpu undir vökulu auga Péturs tengdasonar. Nú er ég löggiltur graskerssúpari.
 
Á eldhúsbekknum er kommóðuskúffa. Það standa yfir all nokkrar breytingar í íbúðarhúsinu á Sólvöllum. Ég fer ekki út í það nánar enda má ég með fullum rétti þegja yfir einhverju. Stuttu eftir að þessi mynd var tekin var hádegismatur og stuttu eftir það héldu gestirnir mínir heim á leið.
 
Hversdagsleikinn kom til baka á Sólvelli jafnskjótt og gestirnir voru farnir. Ég dreif mig í málaragallann og fór út í bílageymsluna til að sparsla. Ég horfði á málara sparsla inni í baðherberginu um daginn. Ég horfði á hvernig hann lagði lag af sparsli yfir samskeyti á gipsplötum, aðeins meira en það sem fyllti yfir samskeytin. Ég hugsaði að það væri snilld að sjá hvernig hann vann þetta, svo jafnt og fínt að það þurfti næstum ekki að slípa eftir hann þegar sparslið hafi harðnað og innþornað aðeins. Ég fann fyrir pínu öfund.
 
Nokkrum dögum seinna var ég sjálfur að sparsla yfir samskeyti í loftinu þarna í bílageymslunni og þá allt í einu veitti ég því athygli að ég var farinn að gera eins og málarinn. Svo áðan þegar ég fór út til að sparsla veggina þarna, veggina móti herberginu og baðherberginu, þá fann ég að ég var bara orðinn flinkari með spaðann en ég hafði nokkru sinni áður verið. Það sem sagt kom eitthvað gott með hversdagsleikanum þegar hann kom til baka eftir að gestirnir fóru. Ég ætlaði að láta málningarvinnuna í bílageymslunni bíða seinni tíma en það er eins og aðstæðurnar krefjist þess að það ég ljúki þessu líka. Ég ætla að spara peninga með því að gera það sjálfur eins og svo margt annað sem ég hef gert sjálfur á Sólvöllum.
 
Eftir að hafa látið sjónvarpið garga yfir mér um stund hef ég nú þaggað niður í því. Kyrrðin er því gengin í garð með öllum sínum gæðum. Fyrir framan mig og aðeins til hægri er altanhurð með stórri rúðu. Ég hef ekki dregið fyrir hana ennþá þannig að ég horfi þar beint út í dimmuna. Það er í lagi. Þegar rósemin ræður er dimman bara dimma, ekki kol svarta myrkur.
 
Góða nótt og gangi ykkur allt í haginn þið öll þarna úti og með stóru þakklæti fyrir heimsóknina Hannes og fjölskylda.
RSS 2.0