Ánægður skattgreiðandi

Stuttu eftir sjónvarpsmessuna í morgun kom Satan í heimsókn. Boðskapur hans var ljúfur og þýddi hjálp við ákveðið verkefni og svolítið innlegg á bankareikninginn minn. Hver vill ekki njóta svona fríðinda?
 
Ég held að ég hafi sagt frá því hvað eftir annað núna lengi að ég ætti eftir ákveðinn fjölda verkefna sem væru af stærri gráðunni, alla vega fyrir mig, verk sem væri vont að framkvma en væru naðusynleg. Ég er mitt í því síðasta einmitt núna. Eftir það eru framundan ýmis verkefni eins og á öllum bæjum en þau þurfa ekki endilega að vera búin fyrir veturinn, eða ég get vel hætt í þeim miðjum og byrjað aftur eftir eina viku eða tvær. Sem sagt; frjálsræði mitt eykst þegar þessu verki er lokið.
 
Og svo kem ég aftur að þessu eftir messuna. Ég þarf að útbúa rúmlega 30 m2 gólf upp á lofti á Bjargi og fæ þar með geymslu sem er af sömu stærð. Allt í einu fékk ég góða hugmynd. Ég fæ Anders með mér í þetta og bið hann svo að gera reikninginn þannig að það líti út fyrir að við höfum verið að vinna við íbúðarhúsið. Þá fæ ég helminginn af laununum hans endurgreidd frá skattinum. Það er samkvæmt sænskum lögum -en, það á við íbúðarhús sem verið er að breyta, lagfæra eða stækka. Bjarg heyrir ekki undir það.
 
Það var svolítið skrýtið svona strax á eftir messu sem ég hafði að nokkru leyti lifað mig inn í, að mér skyldi detta þetta í hug. Svo þegar ég hafði fengið hugmyndina hugsaði ég hvers vegna ég hefði ekki tekið þessa ákvörðun fyrir löngu síðan. Þarna sat ég í djúpa stólnum sem Valdís alltaf notaði áður og nú beitti ég samvisku minni virkilega til að fá svar við spurningunni sem ég hafði lagt fyrir mig. Það fékk mig niður á jörðina aftur. Nei, svona bara get ég ekki gert. Ég hef unnið við það nánast í 20 ár að halda fyrirlestra fyrir fólk sem er að takast á við líf sitt og ég kenni því að undirstaðan sé að vera svo heiðarleg manneskja sem hugsast getur. Hvernig skyldi ég þá verða á næsta fyrirlestri um heiðarleika ef ég lifi ekki eftir því sem ég kenni.
 
Ég bakkaði, steinhætti við svindlið. Svo hugleiddi ég í hvað skatturinn minn færi. Mikið var ég þakklátur fyrir nýja mjaðmarliðinn sem ég fékk á sjúkrahúsinu upp í Lindesberg árið 2009 og gersamlega gerbreytti lífi mínu. Mikið var líka hjúkrunarfólkið gott við mig. Og mikið er ég þakklátur heilsugæslunni þó að þeim hafi ekki tekist að bjarga lífi Valdísar. Ég er nefnilega þakklátur þeim fyrir alla þá alúð og góðmennsku sem hún var aðnjótandi hjá þeim undir eins árs tíð, frá því að hún greindist með krabbamein og þangað til hún dó. Ég á eftir að fara á lungnadeildina í Örebro og leita uppi Rose-Marie og Jary og segja þeim að Valdís hafi svo oft talað um hvað þau væru góð. Ég held að ég hafi þakkað öðrum viðkomandi sem ég veit um fyrir umhyggjuna. Svo að segja allur kostnaðurinn við þetta var greiddur með skattpeningum -og þar með talin laun góða fólksins.
 
Ákvörðun að freistast ekki kemur til með að gefa mér góðan svefn og betri drauma. Að láta undan ljúfri freistingunni hefði úthlutað mér lélegri svefni og gert drauma mína órólega.
 
Það var margt sem flæddi gegnum huga minn þarna eftir messuna í morgun og þangað til ég fór svo inn í Marieberg og í kaupfélagið til að gera stærri innkaup. Ég gekk nokkrum sinnum að tövunni og skrifaði minnispunkta í nýtt blogguppkast en nú þegar er þetta blogg orðið of langt eins og öll mín blogg. Ég geymi því hina minnispunktana eða hendi þeim ef ég met þá þannig. Þó verð ég að láta meira fylgja sem viðkemur skattapeningunum sænsku.
 
Fyrir tæpum tveimur vikum fór ég til sjúkraþálfara vegna þess að ég er með slit í hálsliðum sem var staðfest með röntgen fyrir rúmum tveimur árum. Þetta hefur lítið bagað mig hef ég talið nema þá helst þegar ég er að aka bíl í umferð. En mér finnst eftir því sem ég eldist meira að mér beri skylda til að varðveita eftir bestu getu þann líkama sem skaparinn gaf mér og þá miðað við þá möguleika sem finnast nú til dags. Ég borga 80 krónur á heilsugæslustöðinni í hvert skipti sem ég kem þangað og stundum 120 krónur. Þegar ég verð svo kominn upp í 800 krónur þarf ég ekki að borga meira í heilt ár. Hitt er greitt með skattapeningum.
 
Sjúkraþjálfinn mældi hversu mikið ég gat hreyft höfuðið í allar mögulegar áttir og kenndi mér svo fjórar æfingar sem ég á að gera þrisvar sinnum á dag og ég geri samviskusamlega. Viku síðar kom ég í aðra heimsóknina til hans og hann mældi hreyfigetuna á ný. Miklar framfarir sagði hann og svo kenndi hann mér þrjár æfingar í viðbót sem ég á að gera jafn oft. Svo var ég sem sagt í kaupfélaginu í dag og þar er afar vítt til veggja og nóg pláss til að snúa sér við. Nú voru tæpar tvær vikur frá því að ég kom fyrst til sjúkraþjálfarans.
 
Svolítið er ég stundum ringlaður á þessum stað og þarf að líta mikið í kringum mig og má ekki við truflunum. Svo var ég að veljan ávexti af mörgum borðum og leit við til að athuga hvort ég væri kominn framhjá einhverju sem ég leitaði að. Þá áttaði ég mig á nokkru ánægjulegu. Ég sneri mér ekki lengur við þó að plássið væri nægjanlegt -ég leit við. Trúið mér eða trúið mér ei. Ég leit við í stað þess að snúa mér við eftir að hafa gert æfingarnar í aðeins fjórtán daga. Mikið fyrir skattapeningana þar og hvernig ætli ég verði þá eftir 140 daga..

Mikið hollur og góður matur

Ég var búinn að hlakka til að borða kvöldmatinn frá því að ég ákvað í dag hvað ég ætlaði að borða. Ég hlakkaði líka til að borða hann í fyrradag, en þá ætlaði ég að borða á Brändåsen. Þegar ég kom þangað var búið að borða upp matinn sem ég ætlaði að borða. Það er í annað skiptið á stuttum tíma sem þetta skeður. Í fyrrdag var steikt smásíld þar og ég ætlaði einfaldlega að sjá hvernig smásíldin væri steikt þar. Ég verð að fara mikið fyrr á Brändåsen annað kvöld því að þá er eftirfarandi í matinn: "Citrusmarinerad havsgös med pestocreme." Hvað er nú þetta!? kann einhver að spyrja. En satt best að segja get ég bara spurt þess sama því að ég hef ekki hugmynd um hvað þetta er. Orðabókin mín segir að gös sé vatnafiskur og það segir lítið. Havsgös hlýtur þá að vera fiskur sem lifir í sjó. Það verður forvitnilegt að sjá hvað þetta er og hvort þetta er góður kostur fyrir þann sem hænist að fiskmeti. Eflaust er ég búinn að heyra talað um gös en ég hef bara ekki velt því neitt fyrir mér enda eðlilegast að álíta það vera venjulega bleikju.
 
Á þessari mynd gefur að sjá það sem ég ákvað um miðjan dag að ég skyldi hafa í kvöldmatinn í kvöld. Fiskurinn er smásíld og ég dæmdi sem svo að með steiktri smásíld passaði að hafa rauðlauk. Paprika hlaut líka að passa með honum. Bæði voru ríflega af miðlungsstærð. Mér finnst svo sem brokkóli ekkert gott en menn segja að það sé tvímælalaust svo hollt að ég borða af skyldurækni. Svo er það ágætt þegar máltíðin er hafin. Potturinn virðist skítugur á botninum en svo er alls ekki. Ég veit ekkert hvað myndavélin sá þarna.
 
Þarna er matargerðin komin einu stigi lengra. Mér finnst alltaf þessi blanda, laukur og paprika, líta svo girnilega út þegar búið er að brytja niður og gera tilbúið á pönnuna. Á þessu stigi var brokkólíið þegar tilbúið.
 
Tilbúið að borða. Hver mundi "ekki" vilja borða þetta með mér ef ég byði upp á það? Nú veit ég það sem þið vitið ekki. Í dag er ég búinn að liggja í sandi og vegamöl meðfram tveimur húsveggjum hér heima og meira og minna með höfuðið inn undir húsinu. Þetta hefur ekki verið neinn leikur hjá mér, heldur nauðsynleg vinna framkvæmd af mikilli samviskusemi. Ég fór í drulluskítug vinnuföt í morgun og ennþá skítugri voru þau í kvöld. Svo þegar ég var búinn að þvo mér og fara í hrein föt, matreiða þetta og svo sestur við matarborðið, þá voru andstæðurnar minnst sagt rosalega miklar. Þetta gerði matinn ennþá betri en ella. Ég er ánægður með að takast að bjarga mér sjálfur.
 
Nú ætla ég að birta þetta, hita síðan engiferrótarte og þegar ég hef drukkið það ætla ég að ganga til fundar við Óla Lokbrá. Í gærkvöldi var ég á AA fundi, borgaði reikningana, gekk frá ýmsum pappírum, skrifaðist aðeins á við fólk á netinu og leit svo á klukkuna. Þá var hún að ganga eitt og ég var ekki tilbúinn í rúmið fyrr en um eitt leytið. Svoleiðis bara gerir ekki góður AA maður og því ætla ég að vera betri AA maður í kvöld.

Hjartsláttur minn leitar oft upp í Dali

Eftir hádegismatinn í dag leit ég í tölvuna og óvænt kom myndin upp sem er hér fyrir neðan. Ég notaði hana ekki fyrir svo löngu síðan, en hún er frá Svartnesi í Dölunum þar sem ég byrjaði fyrst að vinna þegar ég kom til Svíþjóðar. Mín tíð í Svartnesi byrjaði á því að ég fór í gegnum meðferðina þar, en það urðu allir að gera sem hugðu á vinnu á meðferðarheimilinu sem þar var rekið. Ég var margar vikur í þessari meðferð, lærði sænsku af miklum þráa og stundaði ákaft gönguferðir á þeim tíma. Kynntist ég þannig mjög vel staðháttum á Svartnessvæðinu og aðeins líka fólki sem þar bjó.
 
Ég setti myndina á feisbókina í dag og bað þá sem þekktu staðinn að rétta upp hendi. Það var gamansemi í mér þegar ég gerði það. En síðan byrjaði ég að horfa á myndina og þá runnu fram hver myndin og minningin á fætur annarri. Það var ekkert lítið fyrir mig að koma þarna tæplega fimmtíu og tveggja ára og að byrja að takast á við lífið á þennan mjög svo ólíka hátt miðað við allt sem ég hafði þekkt áður. Ég held að ég verði bara að segja að það var nokkurs konar endurfæðing. Þegar ég horfði á myndina í dag fann ég vel fyrir því að Svartnes var mér og er mjög kær staður. Ég ætla að fara nokkrum orðum um myndina.
 
Mig grunar að það hafi ekki svo margir Íslendinganna sem unnu í Svartnesi komið á staðinn þar sem myndin er tekin, en hún er tekin frá húsi sunnan við vatnið og Svartnes er norðan við það. Akkúrat fyrir miðju er jú kirkjan. Þetta var mjög stór kirkja fyrir þennan litla stað sem Svartnes var 1994. Staðurinn byggðist upp af finnsku fólki fyrir löngu síðan og var þar fjölmenni, fleiri hundruð manns. Ég settist oft inn í þessa kirkju og sótti þá í næðið þar inni og velti fyrir mér gangi lífsins og þessum nýja vetvangi mínum. Vissulega var ég í þörf fyrir mikinn styrk þó að ég færi ekki hátt með það.
 
Nokkru til hægri við kirkjuna eru húsakynnin þar sem meðferðin var rekin, en þau eru í hvarfi bakvið skógarjaðarinn. Niður við vatnið vinstra megin við kirkjuna er prestsbústaðurinn eins og það var kallað, rautt hús með mörgum gluggum. Mér þótti þetta hús afar fallegt og bjóða af sér mikinn þokka. Hreifst ég mjög af því þar til ég kom inn í það fleiri mánuðum eftir að ég kom í Svartnes. Það sló heldur á hrifninguna að koma inn í það, en í húsinu bjó enginn og hafði ekki gert lengi. Ég held að það hafi að stórum hluta verið músagangurinn í húsinu sem tók af því mesta glansinn í augum mínum. En hvað um það; þetta er mjög fallegt hús.
 
Niður við vatnið aðeins vinstra megin við myndina var lítið hús. Ég held að það hafi verið bátaskýli og það hafi verið hægt að koma með bát af vatninu og beint inn í húsið en þannig hafði það ekki verið notað mjög lengi. Ég sá mög heillandi mögueika við þetta hús. Ég fékk næstum ólæknandi þrá til að eignast það og gera það að sumarhúsi. Við Valdís fórum þangað einu sinni til að spá í þetta og með okkur var Trausti Jónsson sem vann í Svartnesi. Eins og yfirleitt þá var Valdís meira með fæturna á jörðinni en ég og í þessu sambandi var það mikilvægt. Það hefði ekki stýrt góðu heilli að kaupa húsið og flytja svo hundruð kílómetra frá því eins og síðar varð. Það er óvíst að það hefði selst þó að mér hafi tekist að fá algeran glampa í augun yfir þessari hugmynd og mikil vandræði hefðu getað hlotist af. En hvernifg sem allt hefði getað farið þá hef ég hreinlega ekki oft sét fallegri staðsetningu á sumarhúsi í Svíþjóð en þá sem þarna var um að ræða.
 
Gult hús er niður við vatnið vinstra megin við prestsbústaðinn og þar var verslunin í Svartnesi. Það var 17. maí sem við Valdís komum frá Íslandi, en þá var ég búinn að fara heim eftir meðferðina til að sækja hana. Trausti sótti okkurn á járnbrautarstöðina í Falun og fór með okkur beint upp í Svartnes. Við vorum ekki fyrr komin þangað en ég var sendur á fyrirtækisbílnum í verslunina til að sækja birgðir fyrir meðferðarheimilið. Valdís fór að sjálfsögðu með mér og það var hreinlega það fyrsta sem við gerðum saman alveg á eigin spýtur í þessu landi. Þá var ég búinn að vera í Svíþjóð í þrjá mánuði og kominn það langt í sænsku að ég gat talað við búðarkonuna það sem með þurfti. Síðar vann finnska konan Minna í þessari verslun, en hún vann í eldhúsinu á meðferðarheimilinu meðan það var og hét. Þar hitti ég hana nokkrum árum seinna og voru það góðir endurfundir.
 
Ég er ekki viss um hvort Stora sést á myndinni, en meðferðarheimilið átti Stora. Þar bjuggum við Valdís fyrstu tvær eða þrjár vikurnar sem við vorum saman í Svíþjóð. Stora var mjög gott hús að vera í og var nokkuð notað af starfsfólki á meðferðarheimilinu þegar gista þurfti nótt og nótt. Tíminn sem við vorum þar var mjög góður. Þá var Valdís að upplifa þessa fyrstu spennandi daga sem það er að vera í nýju landi. Þá komum við þar saman nokkrir Íslendingar öðru hvoru og Valdís bakaði gjarnan pönnukökur. Það var þá ekki að sökum að spyrja að þá fengu margir fyrstu pönnukökuástina á Valdísi sem síðan breyttist í væntumþykju til hennar fyrir þá manneskju sem hún var. Þessar vikur í Stora var mikið hlegið og gert að gamni sínum og þær eru mér ennþá indæll, ljóslifandi tími.
 
Að lokum. Asbjörn bjó í Svartnesi í húsi niður við vatnið en ég er ekki viss um það núna hvaða hús það var. Hann var Norðmaður sem gerði eitthvað á stríðsárunum sem Þjóðverjarnir voru ekki sáttir við. Hann flýði til Svíþjóðar og settist að í Svartnesi. Hann hitti þar konu og flutti aldrei til baka til Noregs aftur. Ég kynntist Asbjörn aðeins meðan ég vann þarna uppfrá. Nokkrum árum síðar kom ég í Svartnes í einhver skipti og gerði mér far um að hitta þennan rólynda, vinalega og traustvekjandi mann. Þá var eins og við þekktumst meira og við ræddum mikið saman. Síðast þegar ég hitti Asbjörn var kona hans dáin, eitthvað í augnaráði hans hafði kannski dáið með henni og hár hans var orðið hvítt. Samt var hann þessi gamli Asbjörn, hlýr, notalegur að vera nærri, traustur og með báða fæturna á jðrðinni. Mér þótti vænt um þennan mann og langar að vita örlög hans.
 
Síðar vil ég skrifa þetta blogg mitt út, heimsækja Svartnes og bæta inn í og leiðrétta ef einhverjar rangfærslur eru á þessu hjá mér. Ég vil þá líka fá vitneskju um Asbjörn og hvernig honum reiddi af eftir okkar síðasta fund.

Stór áfangi

Það er búinn að vera heil mikill dagur í dag. Fyrsta markmiðið sem ég setti mér fyrir daginn eftir að borða morgunverð var að horfa á sjónvarpsmessuna, en hana hef ég ekki horft á síðan í mars eða apríl. Hún fjallaði um að okkur mannfólkinu beri að rétta hvert öðru hendina þegar á bjátar og einfaldlega til að gera daglega lífið léttara. Ennfremur fjallaði hún um að mammon sé svikull og að hin raunverulegu verðmæti í lífinu verði hvorki vegin eða mæld og að þau séu svo ósýnileg eins og til dæmis áhrifin af útréttu hendinni sem styrkir og gleður en verður ei mæld í einingum. Ég er orðinn svo meir ellilífeyrisþeginn að það er eins gott að ég sé einn þegar ég hlusta á umfjöllunina um þessa hluti.
 
Annað markmið mitt í dag var að taka þokkalega á móti gestunum sem komu um hádegisbilið. Vissulega réttu þau mér hendina með því að koma og gleðja mig með nærveru sinni og að gleðja mig tókst þeim svo sannarlega. Ég á Auði og Þóri mikið að þakka fyrir þá tryggð sem þau sýna mér og ég vona að ég geti einhvern tíma rétt út hendina til þeirra, ekki af því að það bjáti eitthvað á hjá þeim, heldur bara einhvern tíma til að lyfta hversdagsleikanum þegar þau eiga minnst von á.
 
Þegar þau voru farin fór ég í óhreinan vinnugallann minn til að ljúka áfanga sem ég eiginlega ætlaði að ljúka í gær en tókst ekki. Það var áríðandi að ljúka honum ekki seinna en núna vegna þess að ég hefði þurft að ljúka honum fyrir eins og tveimur vikum. Ég hef ekki bloggað undanfarið um það sem ég er að gera en núna finnst mér að það sé tími til kominn. Ég er hér með nokkrar myndir sem tala sínu máli.
 
Ég var búinn að birta mynd af veröndinni en þó að tréverkið væri komið upp voru það engin verklok. Anders smiður hjálpaði mér við tréverkið og að steypa stöplana undir það. Það flýtti mikið fyrir. En þar sem ég get gert margt sjálfur leyfi ég mér að vanda ýmislegt meira en ég kannski mundi annars gera, eins og til dæmis hvernig ég gekk frá tröppunni meðfram veröndinni. Þarna var ég búinn að grafa niður á möl þó að það sýnist vera mold í botninum á þessum grunna skurði. Síðan flutti ég á hjólbörunum mínum helling af vegamöl og fyllti skurðinn með henni. Það var gert með ákveðna hluti í huga.
 
Svo sléttaði ég mölina af mikilli vandvirkni og útbjó mér ákveðinn máta til þess sem sést á myndinni. Áður var ég búinn að þjappa mölina og gerði það með sjö kílóa sleggjunni minni. Ég lyfti henni 1560 sinnum reiknaði ég út og sló hausnum niður í mölina og það gerði samtals tæp ellefu tonn sem ég lyfti á mikið styttri tíma en mig óraði fyrir. Einstaka sinnum er ég fljótari en ég reikna með og þá verð ég svo glaður.
 
Það var stór skemmtilegt verk að leggja niður hellurnar og það virtist afar stór áfangi. Það var ekki svo mikil vinna, en þegar ég var búinn að leggja þær niður á sinn stað voru ákveðnar línur alveg á hreinu.
 
Þessi maður, hann Lennart nágranni og ellilífeyrisþegi, kom eitt síðdegi og hjálpaði mér við að ganga frá kubbum sem ég festi svo tröppuna ofan á. Það var heilmikil hjálp í því þar sem það var svolítið óþægilegt að fá þessa kubba rétta, bæði í hæð og breidd ef svo má segja.
 
Hér er svo komin trappa ofan á hellurnar og allt er búið að fá á sig fyrirhugað form. Nokkrar hjólbörur af mold vantaði í uppfyllinguna þegar ég hætti í gær og var ég fljótur að bæta úr því í dag. Síðan jafnaði ég og valtaði og stráði þunnu lagi af mold yfir. Svo sáði ég grasfræinu og valtaði á ný. Þessa sáningu hefði ég þurft að vera búinn að framkvæma helst fyrir tveimur vikum en ég var bara ekki búinn að því. Verði ég heppinn getur blessast að það nái að koma upp fyrir veturinn. Verði ég ekki heppinn verð ég að sá aftur í vetrarbyrjun eða bara að vori. Við höfum slegið lóðina þann fyrsta nóvember að minnsta kosti einu sinni og ef það verður haust núna eins og var þá, þá verður þetta allt í lagi.
 
Það verður gott að slá þegar hægt verður að láta aðra hliðina á sláttuvélinni renna eftir hellunum. Það verða engar rendur sem þarf að reyta eða slá með mótororfi. Það verður létt að hirða Sólvallalóðina með þessum frágangi.
 
Það verður létt að hirða Sólvallalóðina sagði ég. Við Valdís vorum löngu búin að ákveða að leggja hellur meðfram öllu húsinu til að auðvelda hirðinguna. Hún sá það sem sitt skylduverk að slá og því hefði þetta orðið svo mikil hjálp fyrir hana. Hellurnar meðfram húsinu eru ekki komnar en þarna eru komnar hellur sem aldrei var reiknað með. Að við vorum búin að ákveða þetta í sameiningu hefur fengið mig til að hugsa margt bæði í gær og í dag. Ég hef skrifað það niður, ekki alveg án tilfinninga. Hvort ég birti það blogg sýnir sig síðar, ég er ekki búinn að taka ákvörðun um það.
 
Þar sem ég er búinn að fara all náið í gegnum þessa framkvæmd vil ég segja frá því að fyrir nokkrum árum hringdi til mín ókunnur íslenskur maður. Hann hafði séð mig sem stráklingur en ég gerði mér ekki grein fyrir honum fyrr en hann útskýrði fyrir mér hverra manna hann var. Það sem hann vildi mér var að hann hafði fundið bloggið mitt og sagðist lesa það af athygli. Fyrir alla muni hættu ekki að blogga sagði hann. Hann sagðist sjálfur vera að byggja eða breyta sumarbústað og þess vegna hefði hann svo gaman af að fylgjast með því sem við vorum að gera hér úti í Svíþjóð. Óneitanlega hafði þetta nokkur áhrif á bloggdellu mína.
 

Þegar þú sýnir öðrum kærleika

Það hvílir friðsöm þoka yfir öllu þannig að efstu trjátopparnir eru svolítið ógreinilegir. Það er fullkomlega kyrrlátt en örhæg gola fær mikinn aragrúa af laufblöðum að veifa til mín. Sérstaklega veifa blöðin á hlyninum, þessi stóru sem eru á stærði við tvær útbreiddar hendur. Þau eru farin að gulna á litlu trjánum og spurning fyrir þau að veifa til mín strax ef þau á annað borð vilja gera það. Mörg þeirra geta fallið á hvaða augnabliki sem er. Eftir það verða þau fæða fyrir tré framtíðarinnar sem verða einnig með laufblöð sem vilja veifa mér svo lengi sem ég fæ að sitja hér og virða fyrir mér þetta dásamlega umhverfi sem ég hef austan við húsið. Þetta hús sem ég er búinn að púla við svo margar stundir sem síðan hafa orðið að árum.
 
Ein svona morgunstund eins og ég er að upplifa núna gerir púlið vert fyrir mig að hafa hafa staðið í því. Mikið af því vil ég líka fremur kalla bardús eða bauk. Ég sé mjóan stíg sem liggur út í skóginn beint fyrir framan mig, stíg sem gleypti af mér tugi hjólböruferða af mold til að fá botninn nægjanlega jafnan og sláttuvélatækan, ekki beinan. Ég sló hann í fyrradag og hann er tæpar tvær sláttuvélabreiddir. Svoleiðis stígar eru margir og hlykkjast um lítið svæði af skóginum hér næst húsinu. Ef ég hugsa mér alla þessa stíga gleyptu þeir marga, marga tugi af hjólböruferðum, hundruð. En nú eru orðin eitt og fleiri ár síðan.
 
Meðan ég var að því sá ég fyrir mér litinn dreng á hlaupum, kannski í feluleik með öðrum börnum, eða kannski með afa. Hann hefur þegar verið þarna í feluleik með afa og hann fékk þá hjálp foreldranna við að leita kallinn uppi. Hann er einmitt að komast á þann aldur að þetta verði skemmtilegt. Hann á líka frænkur í Vestmannaeyjum og frænda í Noregi og þó að þau séu orðin táningar og fullorðið fólk -ja, hver veit nema þau hafi líka gaman að þvi að hlaupa þarna með honum innan um allar þessar lifandi gersemar skaparans. Ég á mér líka þær óskir að hann á vissum aldri vilji ganga með afa á þessum stígum, leiðandi hönd í hönd, og tala um lífið og það sem fyrir augu ber.
 
Þessi morgun er svo sannarlega ljúftregur og veltir upp minningum og augnablikum. Því staldra ég við og vil upplifa augnablikin. Ég ætlaði að byrja bardúsið mitt austan við húsið snemma í morgun en ég vil ekki rífa mig alveg strax fá því sem ég upplifi þessa stundina. Það sem ég upplifi núna er einmitt hluti af því sem ég fyrr á árum reiknaði með að maður á mínum aldri mundi upplifa ef ég fengi árin til þess. Ég ímyndaði mér ekki endilega að ég mundi sitja einn við að upplifa það, en það gengur líka að gera svo hef ég fengið að reyna.
 
Þokan hefur enn þéttst og lækkað frá því að ég byrjaði á þessum línum en ég veit að björt sólin er komin vel á loft í suðaustri. Hún mun innan tíðar víkja þokkunni á braut, þurrka upp grassvörðinn og ylja mér við baukið mitt hér úti þegar ég verð kominn af stað með það. Ég kveikti upp í kamínunni áðan í þriðja skiptið á þessu hausti. Ég er með viftu hjá kamínunni til að dreifa hitanum betur um húsið. Ég tími ekki ennþá að setja hana í gang því að þá verður of mikill hávaði í húsinu. Hún er hljóðlát en á sumum stundum er það svo að bara lítill þytur verður að hávaða. Það heyrast mjúk dumphljóð frá kamínunni öðru hvoru en þau minna mig bara á að hlýindin eru að breiða sig um húsið. Næsta hljóð sem mun heyrast verður kraumið í grautarpottinum þegar ég hleypi upp suðunni undir hafragrautnum.
 
Rétt í þessu settust tvær spætur, gröngölungar eða grænspætur, stutt frá glugganum. Þær hlaupa þar um og ég veit ekki hvað þær eiginleg hafast þar sem þær hlaupa fram og til baka. En þær minna mig alla vega á að ég get líka hreyft mig og þær urðu til þess að nú ætla ég að fylla þennan dag með athöfnum. Ég er með það á dagskránni að flytja margar, margar hjólbörur af gróðrarmold að veröndinni austan við húsið og svo ætla ég að sá grasfræi áður en dagurinn er úti. Ég hefði getað fengið gröfu til að gera þetta en það hefði valdið hávaða, tætt upp grænt grasið á lóðinni og plokkað peninga úr veskinu mínu, peninga sem ég get svo notað til að gera eitthvað ánægjulegt fyrir.
 
Spæturnar eru farnar, þokan hefur skyndilega hækkað og þynnst og enn einn af þessum afar fallegu septemberdögum er byrjaður að brosa við mér.
 
Móðir Teresa sagði að "þegar þú sýnir öðrum kærleika, færir það þér frið - og þeim líka".

Þorskurinn var búinn

Ég veit ekki hvort ég er einn um þetta en þannig er að vissar stundir er ég mikið duglegri við inniverkin en aðrar stundir og þessar aðrar stundir eru mikið lengri en hinar. Þannig var það nefnilega núna að þvotturinn var búinn að bíða í tvo daga eftir að ég gengi frá honum. Svo ákvað ég eftir kvöldmatinn að brjóta saman og þetta fór mér eitthvað svo vel úr hendi að þegar ég var búinn sá ég næstum því eftir því að það skyldi ekki vera meira að brjóta saman.
 
Þá tók ég fram straugræjurnar og lagði fyrstu buxurnar á strauborðið. Ekki get ég neitað því að þær hefðu ekki verið alveg eins krumpaðar og þær voru orðnar ef ég hefði straujað þær beint af snúrunni. En sem betur fer valdi Valdís straujárn fyrir fáeinum árum sem er svo vel úr garði gert að ef ýtt er á einn hnapp á því kemur þéttur úði niður úr því en ef ýtt er á annan hnapp kemur buna beint fram úr því. Forsendan er þó að það sé sett vatn á þetta makalausa straujárn, þá alla vega virka hnapparnir mun betur. Þessum eiginleikum beitti ég fimlega og innan tíðar hafði ég lagt nokkur pör af buxum á rúmið og brotin voru hreinlega hnífskörp. Þá var komið að skyrtunum, en sumar þeirra líta þannig út að það er ómögulegt að sjá hvort þær eru straujaðar eða óstraujaðar. Slíkar skyrtur straujaði ég því ekki.
 
Vissulega kenndi mamma mér að strauja og pressa buxur en aðal æfinguna í því fékk ég þó í Skógaskóla. Það var ekki fátt sem mér lærðist þar. Samt var ég orðinn eitthvað rytjulegur þegar ég kom heim til Páls bróður og  Guðrúnar mákonu minnar eftir skólaferðalag. Síðan átti að gera eitthvað sameiginlegt í Reykjavík um kvöldið, hvort það var leikhúsferð sem mér dettur helst í hug. En þegar hún mágkona mín leit á mig sagði hún mér einfaldlega að fara strax úr fötunum því að það væri skelfing að sjá mig. Ég að vísu vissi það en reyndi að láta sem ég tæki ekki eftir því. Svo þvoði og straujaði mágkona mín fötin og feginn varð ég þegar ég fór svo í bæinn um kvöldið var ég í nýþvegnum og straujuðum fötum. Sem sagt glerfínn.
 
Ég var ekkert sérstaklega glerfínn þegar ég kom á Brändåsen í kvöld til að fá mér kvöldmat. Ég var að vísu búinn að fara í sturtu og raka mig en fötin var ég búinn að nota hér heima flest kvöld vikunnar. Ég var ákveðinn í því að fá mér þorsk og það ákvað ég þegar á mánudaginn var þar sem ég var búinn að skoða matseðil vikunnar á netinu. Ég hlakkaði til þessarar máltíðar. Innan við afgreiðsluborðið stóð glaðleg, lágvaxin ung kona og þegar ég sagði að ég ætlaði að fá þorsk sagði hún að hann væri búinn, því miður. Og hvað gerir maður þá, sagði ég. Bollurnar eru mjög góðar líka svaraði hún. Hún sagði þetta eitthvað svo óttalega falleg og brosmild að þó að ég hefði ekki viljað bollurnar hefði ég líklega tekið þær samt.
 
Svo settist ég og borðaði einhver fyrn af grænmeti. Eftir stutta stund kom kona með bollurnar á gríðarlega stórum og djúpum diski ásamt sósu, kartöflustöppu og slatta af týtuberjasultu. Bolurnar voru of saltar. Ég er alveg meðvitaður um að ég er dálítið skrýtinn og ég varð alveg viss um það að ef ég hefði fengið þorskinn eins og ég ætlaði og hann hefði verið jafn saltur og bollurnar, þá hefði ég ekki fundið fyrir þessu. Svo borðaði ég bollurnar án þess að gera mér rellu út af saltinu, fékk mér kaffi og eina smáköku á eftir og varð mjög gott af matnum. Var það kannski þess vegna sem ég var svo duglegur þegar ég kom heim?
 
Klukkan er að verða hálf ellefu og ég er búinn að lofa mér því að fara snemma að sofa. Ég ætla líka að vera duglegur á morgun, en það verður að mestu leyti úti, alla vega vel frameftir degi. Það er orðið talsvert síðan ég hef gefið skýrslu um það sem ég starfa við utandyra hér á Sólvöllum. Fyrir mér er það mjög spennandi en ég ætla að halda því leyndu enn um sinn.

Satsumas

Um hádegi tók ég makrílflökin úr frysti og lagði í pakningunni á disk. Svo hélt ég áfram mínu bardúsi hér úti. Ég byrjaði seint þar sem Ford yfirfór bílinn fyrir hádegi þannig að ég var ekki heima aftur fyrr en um eitt leytið. Svona dagar verða ódrjúgir. Svo stuttu eftir að ég kom heim var hringt frá tannlæknastofunni minni og þar vildi fólk fá mig í eftirlit klukkan rúmlega sjö í fyrramálið. Ég afþakkaði. Mér finnst ég þurfa að bremsa aðeins við ef ekki allir dagar eiga að ódrýgjast af einhverju. Annars er þetta misjafnt. Svo er ekkert heilu vikurnar og þá nýtist tíminn mikið betur fyrir það sem ég vel sjálfur.
 
En satt best að segja notaði ég tímann vel meðan þeir yfirfóru bílinn. Ég gerðist meira að segja meðlimur hjá The Body Shop. Það er varla hægt að vera nútímalegri sjötugur maður -eða hvað? Og góð var bollan sem ég fékk mér með bananakreminu og súkkulaðihúðinni ofan á. Og mér tókst tevalið vel. Mér meira að segja fannst teið gott í Marieberg í dag. Annars finnst mér te óttalegt pissivatn, því miður, og selskapsdrykkur er það ekki. Að vísu skipti það ekki máli í dag þar sem ég var einn.
 
Svo keypti ég eitthvað alveg nýtt í kaupfélaginu. Alla vega var það nýtt fyrir mig. Ég las nafnið á verðmiðanum en varð eingu nær. Svo fór starfsstúlka framhjá með vörur í vagni sem hún var að ganga frá og ég spurði hana hverju þetta líktist. Þetta líkist einhverju súru sem er c-vítamínríkt sagði hún um leið og hún tók einn ávöxt og tók börkinn utanaf. Svo rétti hún mér þriðjunginn af þessum litla citrus ávexti og bauð mér að prufa. Hún spurði hvort það hefði verið of súrt og rétti mér svo afganginn. Ef þú borðar vel af þessu verður þú mikið hraustur sagði hún og svo hélt hún áfram.
 
Ávöxturinn gengur undir nafninu satsumas í kaupfélaginu og hefur kannski verið lengi, lengi á boðstólum. Mér fannst þessi kona taka vel á spurningu minni og ég sagði henni líka að hún hefði tekið mér vingjarnlega. Hún sagði að henni bæri að gera það og ég sagði á móti henni hefði tekist það sérstaklega vel. Þar með hringdi Gústav og sagði að bíllinn væri tilbúinn. Ég var því feginn þar sem ég gat þá farið heim að sinna mínu.
 
Klukkan var á sjöunda tímanum nú í kvöld þegar ég kom inn eftir bardúsið mitt hér úti, gekk að tölvunni og skrifaði "steka makril" á Google. Ég fékk upp fjölda mörg svör og hvað skyldi ég svo hafa valið? Jú, ég valdi einföldustu uppskriftina og gerði það ekki flóknara en svo. En árangurinn var slíkur að ég gæti alveg hugsað mér að bjóða hvaða höfðingja sem er upp á þennan einfalda makrílrétt.

Hvati til góðrar heilsu

Ég hitti lækni í dag, stórskemmtilegan kall. Hann skar blett af bakinu á mér samkvæmt ákvörðun frá í fyrri viku. Hann er nokkuð við aldur og ég leit á hann sem jafnaldra minn. Annars er það að taka nokkuð vel í að tala um að vera nokkuð við aldur á mínum aldri.
 
Með honum var hjúkrunarfræðingur og einnig sjúkraliði sem virtist vera að byrja þarna á heilsugæslunni. Sjúkraliðinn spurði hjúkrunarfræðinginn út í eitthvað sem ég skildi ekki og hjúkrunarfræðingurinn sagði að reyndu mennirnir gerðu svona en þeir ungu vildu gera öðru vísi. Ég leit á þetta sem meðmæli með honum jafnaldra mínum.
 
Þegar læknirinn var búinn fór hann en hjúkrunarfræðingurinn var eftir til að plástra mig og ganga frá. Ég spurði þá hvort þessi læknir væri nýlega byrjaður því að ég hefði ekki séð hann fyrr en í síðsutu viku og svo núna. Hjúkrunarfræðingurinn sagði að hann kæmi oft aðra hverja viku þegar vantaði fólk en hann væri ekki ráðinn. Hins vegar sagði hún að það væri frábært að hafa þennan mann vísan þegar á þyrfti að halda. Það voru önnur meðmælin sem ég fékk að heyra um jafnaldrann.
 
Svo vildi hann fá mig í stutt viðtal inn á stofuna til sín þegar ég væri tilbúinn. Hann vildi gefa munnlega skýrslu vegna prófa sem voru tekin í síðustu viku. Þar kom fram að öll próf og öll athugun sem hann gerði sýndu að ég væri við góða heilsu. Ég sagði honum þá að ég fynndi það vel að ég væri við góða heilsu og að ég væri mjög þakklátur fyrir það. Þá sagði hann að ég væri bara ungur miðað við hann og hann gæti sagt það sama um sína heilsu. Hann sagðist líka stunda mátulega mikla vinnu sem gerðu það að verkum að hann hitti fólk, það væri örvandi fyrir hann og það héldi hugsuninni við. Ég skildi vel að hann var bara að gefa mér heilræði með því að segja þetta og þá sagði ég honum að ég ynni dálítið líka og að ég tryði á það sem hann væri að segja mér. Nú áttum við orðið eitthvað sameiginlegt annað en það að við vorum ekki jafnaldrar lengur, hann var talsvert eldri.
 
Svo kom rúsínan í pylsuendanum þegar þessi vinalegi maður sagði eftirfarandi: "Heilbrigð og nytsöm störf eru hvati til góðrar heilsu og hindra synd."
 
Alveg fannst mér þetta frábært og ég lagði orðin á minnið og endurtók þau margoft í huga mér og var fljótur að skrifa þau niður þegar ég kom heim. Svo þýddi ég þau eins nákvæmlega og mér var unnt. Það var bara vegna þessara orða sem ég bloggaði núna. Við áttum það líka sameiginlegt að við höfðum vinnu sem við gátum stundað á okkar aldri. Værum við til dæmis smiðir eða jarðýtustjórar væri alls ekki víst að við gætum stundað heilbrigð og nytstöm störf á því sviði sem væru okkur til aukinna lífsgæða og heilsubóta.
 
 

Rúgbrauðið

Fyrir fleiri árum meðan Valdís var í vinnu gat ég bjargað mér og okkur með ýmsa matargerð. En þegar hún hætti að vinna færðist það yfir á hana. Svo tapaði ég niður því litla sem ég kunni og rúgbrauð hafði ég aldrei bakað. Eitt af því síðasta sem við Valdís gerðum saman var að baka rúgbrauð. Hún sat þá á stól utan við eldhúsbekkinn en ég var innan við hann og vann við brauðgerðina undir hennar leiðsögn. Hún var búin að segja mér það áður meðan hún var á sjúkrahúsinu í Örebro að uppskriftin væri framarlega í matreiðslubókinni hennar, ofarlega á síðu hægra megin. Þetta stóðst nákvæmlega eins og hún hafði sagt það.

Fáeinum dögum eftir að Valdís dó kom fólk frá Vornesi í heimsókn og þá var þeim boðið upp á rúgbrauðið sem við höfðum bakað saman og þeim var einnig sagt frá því hvernig baksturinn hefði farið fram. Þau sögðu svo frá því í Vornesi á morgunfundinum daginn eftir. Þau fengu einnig einn brauðhleif með sér og hann var notaður sem meðlæti með árdegiskaffi starfsfólks þann dag.

Svo leið langur tími þangað til ég kom aftur í Vornes aftur, en þá talaði fólk um það hversu ótrúlega gott þetta brauð hefði verið. Sumir báðu um uppskriftina og ég lofaði að birta hana á Feisbókinni. Svo liðu vikur og mánuðir þangað til ég kom þessu í verk. Í kvöld útbjó ég tvær uppskriftir sem eru núna í bakarofninum og verða þar til morguns og það varð til þess að ég kom því loksins í verk að skrifa uppskriftina á sænsku og birta hana á Facebook. Og málið var að það tók mig örstuttan tíma.

Á einum tveimur tímum er þessi uppskrift nú búin að fara um víðan völl og ég hef grun um að hún muni halda því áfram eitthvað framvegis. Þeir sem vinna í Vornesi geta safnað tómum mjólkurfernum á einum degi þar sem mjólkin bókstaflega rennur út þar. Svo fara margir að smakka og mig grunar að íslenska rúgbrauðsuppskriftin eigi eftir að verða vinsæl hér um slóðir um skeið því að ekkert sem hér er kallað rúgbrauð kemst í hálfkvisti við hið mjúka, ilmandi íslenska rúgbrauð.

Sólin er komin upp!

Það var rétt upp úr hálf átta í morgun sem Hannes Guðjón kom inn í herbergið til mín, lyfti gardínunni og sagði; sólin er komin upp. Og það var rétt hjá honum. Það var kominn bjartur dagur. Ég lofaði honum að ég væri alveg að koma fram til þeirra og svo leit ég á nokkrar fyrirsagnir i blöðum áður en ég dreif mig á fætur. Ég var ekki einn yfir hafragrautarmorgunverði í morgun, það var sameiginlegur morgunverður með fleira fólki og það var líka öðruvísi morgunverður.
 
Svolítið baukuðum við saman strákarnir, annars er ég ekki nógu hugmyndaríkur í leikjum mínum við hann. Á þessari mynd erum við greinilega hvor í sínum hugarheimi. Bílunum sem voru miðpunkturinn í leikjunum í gær hafði verið lagt snyrtilega hlið við hlið í gærkvöldi og þannig voru þeir fram eftir degi.
 
Nokkru eftir hádegi fórum við í mjög skemmtilega heimsókn. Við skruppum til Íslendinganna Þórhalls og Völu sem eru til hægri á myndinni. Þórhallur er læknir á Karólinska sjúkrahúsinu í Huddinge en Vala er málvísnindamaður sem vinnur við að skrifa doktorsritgerð og kennir íslensku. Rósa og Þórhallur kynntust á sjúkrahúsinu í Huddinge þar sem þau vinna bæði. Þar komst Rósa líka að því að þau hjón baukuðu við býsna forvitnilega framleiðslu. Þau eru nefnilega með býflugnarækt og hunangsframleiðslu á byrjunarstigi. Það hefur aðeins komið til tals að einsetumanni á Sólvöllum mundi henta mjög vel að fást við þetta. Til gamans má líka geta þess að í plastdunknum þarna á borðinu er afbragðs góður eplasafi af stóra eplatrénu þeirra neðan við húsið. Góðviðrislandið Svíþjóð gefur kost á ýmsu sem skemmtilegt og hollt er að fást við og gott er að hafa á boðstólum.
 
En aftur að býflugunum. Hér eru þau Þórhallur og Vala búin að útbúa trausta undirstöðu undir býflugnabú og byrjunin eru þessar tvær samstæður. Það er ástæða fyrir þessum trausta frágangi. Þó að þau eigi heima í Stokkhólmi sem verður að teljast miljónaborg, þá geta verið dádýr þar á ferðinni. Til að þau velti ekki öllu um koll verður þetta að vera traustlega byggt.
 
Þarna var fullt af flugum á ferð fram og til baka. Við sem vorum þarna gestir héldum að býflugurnar væru ekki svo skemmtilegar að umgangast en það voru þær nefnilega. Þær sýsluðu við sitt og við fylgdumst með og undruðumst hversu þægileg dýr við höfðum þarna í seilingarfjarlægð frá okkur. Svo sagði Þórhallur okkur frá ýmsum stórmerkilegum eiginleikum býflugnanna. Það má mikið vera ef hann smitaði ekki ellilífeyrisþegann í Krekklingesókn.
 
Vala og Þórhallur búa í miljónaborg eins og ég sagði áðan. Samt var sveitakyrrð þarna heima hjá þeim og þau búa í einbýlishúsi á all stórri lóð, lóð sem er í halla og með landslagi, með stórum björgum og klöppum. Lóð sem með sanni getur kallast ævintýraland.
 
Þegar ég kom heim á áttunda tímanum núna í kvöld byrjaði ég á því að fara út í kartöflugarð og kanna uppskeruna, það er að segja uppskeruna af kartöflusáningu númer tvö. Þegar við vorum búin að taka upp í sumar og borða fyrstu sáninguna setti Rósa niður nokkrar kartöflur sem urðu eftir í vor. Það sem er í pottinum er undan þremur grösum af þeirri sáningu. Lítið er það en þetta má svo sannarlega endurtaka að sumri. Við settum mjög seint niður í vor og gátum því ekki sett aðra sáningurna niður fyrr en mjög seint. Að vori ætti að vera hægt að gera þetta allt í tíma og þá kannski verður sáning númer tvö gjöfulli en hún varð núna.
 
Takk fyrir mig öll þið sem ég hitti í Stokkhólmi um helgina.

Í sumarfríinu

Ég sagði í óttalegu syfjubloggi í gærkvöldi, föstudag, að ég ætlaði að vera í "sumarfríi" í dag, laugardag, og meira að segja á sunnudag líka. Svo las ég þetta blogg yfir í morgun og lét slag standa. Ég lét það vera óbreytt. Stundum kemur það fyrir þegar ég er nógu syfjaður að mér dettur í hug það sem mér mundi ekki detta í hug á miðjum degi. Þess vegna lít ég alltaf yfir þessi blogg og það er afar sjaldan sem ég eyði því sem ég er búinn að skrifa.
 
En nú fór ég út í sálma sem ekki stóð til að fara út í. En alla vega er ég kominn til Stokkhólms og það var jú meiningin í skrifum um sumarfrí. Það er gott að fara með lest og bara geta setið þar og slapað af, horft út yfir grænt landið eða beint í skógarvegginn við hliðina á lestinni. Það er líka gott að loka augunum og dotta svolítið. Hvort tveggja er notalegt og svo áhyggjulaust. Svo þegar sessunautur minn, maður um tvítugt, missti pennann sinn í gólfið lenti hann framan við fæturna á mér. Ég dró pennann til mín með fætinum, beygði mig svo eftir honum og rétti þessum unga manni. Hann leit glaðlega á mig og þakkað fyrir sig. Þar með var lokið samskiptum mínum við samferðafólk mitt í þessari lestarferð. Engum bauð ég góðan daginn.
 
En það urðu meiri samskipti á lestarstöðinni í Stokkhólmi þegar Celsíusgötufjölskyldan tók þar á móti mér. Hannes kom á hlaupum á móti mér og kastaði sér á hné mér og svo heilsuðumst við innilega. Hann var mikið fallegur með sitt ljómandi bros og svo hafði hann frá heilmiklu að segja. Hann átti þá þegar fjarstýrðan bíl heima hjá sér sem hann fékk á afmælisdaginn sinn um síðustu helgi. En hann vissi ekki að í stóra, hvíta haldapokanum sem ég var með var annar fjarstýrður bíll. Hann komst hins vegar að því þegar við vorum komin í hús og stuttu síðar fór prufukeyrslan fram. Úti í húsagarðinum fórum við svo í aksturskeppni en þá vorum við líka öll búin að fá okkur auka morgunverð. Kannski var það meira aksturssýning en keppni, og líklega höfðum við báðir á tilfinningunni að við værum með meira prófið.
 
Mér sýnist þegar ég horfi á þessa mynd af mér að mér leiðist ekkert sérstaklega að taka þátt í þessari aksturssýningu. Við vorum nú báðir í essinu okkar nafnarnir.
 
Svo vildi Hannes fá mig inn í herbergið sitt þar sem við rannsökuðum aðra bíla. Ég var að vísu svolitla stund að átta mig á því hvað hann vildi því að ég hlustaði ekki á því augnabliki sem hann talaði við mig, en hann vildi einfaldlega að ég léki mér við hann. Það var ekki flóknara en svo. Svo fékk ég að prufukeyra legóbílana hans sem sumir eru svo frægir að hafa verið settir saman á Sólvöllum.
 
Honum er lagið að vera fyrirhafnarlaust í stellingum sem mér finnst ekki svo sérstaklega notalegar eða afslappandi. Ég var nú einu sinni í "sumarfríi" og hann var svo tillitssamur að fara alls ekki fram á að ég stillti mér upp eins og hann til dæmis gerir á þessari mynd.
 
En þegar hann var búinn að nota mig aftur og aftur sem hástökksrá, þá fór hann fram á það við mig að ég gerði það sama við hann. Það var auðvitað ójafn leikur þegar litli hoppar yfir stóra og stóri yfir litla, en þegar heimskortið hangir á veggnum svo nærri og flest dýr jarðarinnar spássera þar í kring -ja, þá eykst manni ásmegin.
 
Hann nafni minn er sofnaður núna en við hin sitjum hér í stofunni og það er fremur hljótt í stórborginni. Ég hef bara talað um Hannes og mig en vissulega höfum við verið fjögur í dag og reyndar fimm fyrst eftir að ég kom hingað. Hún Dúdda er mikill vinur Celsiusgötufjölskyldunnar og lætur gjarnan sjá sig hér á laugardögum. Hún er málvísindamaður eins og Pétur en við Rósa erum svo sitt á hvoru sviðinu. Þannig er fjölbreytileikinn hjá okkur mannfólkinu.

Geta afar gengið í barndóm?

Ég er búinn að rembast eins og rjúpan við staurinn með verkefnin mín hér heima. Það hefur gengið ágætlega en ekki eins hratt og ég vonaði einu sinni. En  það er lang best vita ekki hvað hlutirnir taka langan tíma. Ef ég vissi það alltaf fyrirfram er hæpið að ég mundi byrja á öllu sem ég byrja á. En hvernig sem því viðvíkur klárast þau að lokum ef ég byrja. Það sem ég er að gera núna er kannski dálítið snobbað en ég tel mig geta látið það eftir mér þar sem ég geri svo mikið sjálfur. Við næstu áfangaskipti ætla ég að birta mynd af öllu saman ef einhver skildi vilja sjá við hvað ég dunda mér þessa dagana.
 
En verður er verkamaðurinn launa sinna og því ætla ég í ferðalag á morgun. Ég ætla hvorki meira né minna en að heimsækja Hannes Guðjón og fjölskyldu við Celsiusgötuna í Stokkhólmi. Hann nefnilega varð fjögurra ára þarna um daginn en ég kom ekki til hans þá. Á morgun og sunnudaginn verð ég í sumarfríi og ætla að mæta í síðbúið afmæli. Það má nú ekki minna vera en að ég taki sumarfrísdag til að sinna þessu. :)
 
Þegar Hannes Guðjón vaknaði í gærmorgun hafði hann spurt hvort afi væri kominn. Það er gott að vita að barnabarnið hefur þennan áhuga á afa sínum. Úti í bíl er hvítur plastpoki með býsna nýstárlegri afmælisgjöf til hans. Það er spurning hvor þeirra muni hafa meira gaman að þeirri gjöf, afinn eða barnabarnið. Kannski það birtist mynd af okkur við leik á morgun þar sem ég er genginn í barndóm.
 
Eiginlega ætlaði ég ekkert að blogga í kvöld. Ég ætlaði bara að fara í ferðasturtuna og fara svo að sofa. En mér fannst ég ekkert of góður til að láta aðeins vita af mér. Svo finn ég núna að Óli er kominnn með handfylli af sandi og hann er byrjaður að salla honum í augu mín. Það er því best að ég drífi mig í sturtuna og gnagi svo til fundar við Óla. Það fer best á því þar sem ég er orðinn vinnulúinn. Við heyrumst í næstu viku.

Ég var skoðaður í krók og kring

Ég hef ekki bloggað í fimm daga, hvað er á seiði. Nei, reyndar ekkert. Þetta bara verður stundum svona. Ég vann löngu helgina, þessa helgi þegar sami ráðgjafi vinnur tvo sólarhringa og skilar þar með 40 tímum. Laugardagskvöldið var ég í fríi og var boðinnn í mat inn í Örebro, í alveg frábæra sjávarréttasúpu. Í því sambandi get ég nefnt nöfnin Auður og Þórir sem segir það sem segja þarf um matinn. Ég get líka nefnt nöfnin Svanhvít og Tryggvi og þá tala ég um hluta af félagsskapnum. En ekki skrifaði ég það kvöldið heldur. Í gær eftir að ég kom heim úr vinnunni byrjaði ég á svo skemmtilegu verkefni hérna úti að ég gat bara ekki hætt fyrr en það var komið myrkur. Eftir það borðaði ég, horfði svolitla stund á tölvuskjáinn og ákvað svo að fara að sofa.
 
Í morgun pússaði ég mig upp, borðaði hafragrautinn minn og hafði bæði rúsínurnar og apríkósurnar í honum. Síðan fór ég til Fjugesta. Ég fór vel tímanlega. Ég átti tíma hjá lækni klukkan hálf ellefu. Ég ætlaði að biðja um að athuga tvö smá atriði, svo lítil að ég hálf skammaðist mín fyrir að hafa pantað tíma hjá lækni til þess. Svo þegar ég kom að afgreiðslunni var tölvukerfi hússins í uppnámi og læknar og hjúkrunarfræðingar snerust í kringum konuna sem hafði með tölvuna að gera. Augnablik sneri hún sér að mér og sagðist stundum halda að það væri best að nota pappír og penna.
 
Svo fékk hún tölvuna að virka og gáði að tímanum mínum. Hún leit á umslag sem ég var með og sá þar nafnið mitt. Þá spurði hún mig hvort ég hefði ekki átt að vera þar hálf tíu. Þá hefðu þau kallað mig upp en ég ekki svarað. Ég vissi að það stóð hálf ellefu í dagbókinni minni en fékkst ekkert meira um það. Í þessu kom læknirinn og sagðist mundi taka kallinn inn, hann hefði fimmtán mínútur aflögu. Svo tók hann mig inn á stofu sína og hafði mig þar í meira en hálftíma. Sagði hann kallinn? Nei, hann sagði það ekki. Ég held að hann hafi verið eldri en ég. Ég hafði aldrei séð hann þarna áður.
 
Röskur var hann og það voru engar smá móttökur sem ég fékk. Ég var skoðaður í krók og kring og það voru tekin blóðbpróf og ég látinn pissa. Ég var nú alveg steinhissa á öllu þessu. Orðlaus. Svo settist ég fram á biðstofu og svo var ég kallaður inn til hjúkrunarfræðings og aftur fram á biðstofu. Inn tilhjúkrunarfræðings aftur og aftur fram á biðstofu. Svo aftur inn til læknisins og hann sagði mér að setjast. "Du", sagði hann og beið svo aðeins. Hvað nú hugsaði ég. Þú ert alveg stálhraustur sagði hann og rétti fram hendina með þumalfingurinn upp. Svo sagði hann að það hefði verið best að athuga mig almennilega fyrst ég var á annað borð kominn á heilsugæsluna.
 
Þakklátur var ég fyrir það og þakklátur var ég fyrir að fá þessa staðfestingu á að ég væri vel frískur, eða eins vel og hægt er að áætla eftir góða læknisathugun. Það kom mér reyndar ekki á óvart, ég tala oft um góða heilsu mína. Eftir viku á ég að koma til hans aftur og þá ætlar hann að taka brúnan flekk af síðunni á mér og senda í athugun. Hann sagðist ekki hafa neina ástæðu til að ætla að það væri ekki í lagi með flekkinn en það væri best að fara þessa leið samt.
 
Öllum hlýtur nú að líða mikið betur að vita að ég hafi pissað á heilsugæslustöðinni í dag og að ég sé með brúnan flekk á síðunni. Varla. Að ég segi frá þessu kemur til af því að ég var mjög ánægður með móttökurnar á heilsugæslustöðinni minni í dag. Oftast nær eru fréttir neikvæðar eða frekar neikvæðar eða skipta jafnvel ekki nokkru máli. Þessi heimsókn mín á heilsugæslustöðina mína í dag skipti mig heilmiklu máli, meiru en ég átti von á þar sem ég fékk meiri skoðun en ég ætlaðist til. Svo eru það góðar fréttir að heilsugæslan tekur vel höndum um fólkið sitt. Nú hef ég sagt góða frétt og hana nú.

Ég fann ekki brotin í buxunum mínum

Það var fyrir fáeinum vikum sem ég ætlaði að strauja fimm pör af buxum en ég gafst upp. Ég fékk góða æfingu í þessu þegar ég var í Skógum og þá lagði ég blautt stykki á buxurnar og svo var talað um að pressa þær. En að ég gafst upp þarna um daginn kom til af því að allir mínir fingur virtust vera þumalfingur mitt í lófanum og mér bara tókst það alls ekki. Ég gat ekki lagt buxurnar þannig á strauborðið að brotin pössuðu, ég bara fann þau ekki, og allt var einhvern veginn snúið og ómögulegt. Sem sagt, ég gafst upp.
 
Ég þeytti nýþvegnum buxunum aftur inn í þvottavélina ásamt tvennum buxum sem virðist hreinlega ekki þurfa að strauja. Svo notaði ég þær í vinnuna dag eftir dag með því að vera alltaf að þvo þær. Hinar buxurnar sem þurfti að strauja hengdi ég snyrtilega upp á herðatré þegar þær voru orðnar þurrar og það var ekki fyrr en núna í kvöld sem ég tók fram strauborð og straujárn og gerði nú nýja tilraun með að strauja buxur.
 
Og svo gekk það svo ljómandi vel og ég var svo ánægður að ég straujaði allar þrennar buxurnar og vandaði mig mikið. Á meðan hlustaði ég á þátt í sjónvarpi um fólk á elliheimili og hvernig það gengi að láta því líða vel á kvöldi lífsins. Það gekk á ýmsu. Þekktur sænskur kokkur hafði komið vikulega á þetta heimili um skeið og útbúið mat fyrir íbúana, svona rétt til tilbreytingar og til að athuga hvort hægt væri að gera góðan mat fyrir þá peninga sem hann mátti kosta.
 
Þetta er reffilegur kall og örugglega mjög duglegur kokkur sem telur að aldnir eigi að fá góðan mat til að geta verið við sem besta heilsu og liðið vel. Fólk hlakkaði til komu hans. Starfsstúlka á heimilinu spurði konu sem var greinilega mörgum árum eldri en ég hvernig henni líkaði við Leif og matargerðina hans. Hún sagði Leif mjög duglegan og svo væri hann reglulegur karlmaður. "Ég er orðin ástfangin af honum" sagði sú gamla. Þá leit ég af buxunum og á sjónvarpið og það leyndi sér ekki; það lifði ennþá í gömlum glæðum. Augnaráðið varð tindrandi og augnablikið virtist vera þessari konu mjög notalegt. Og ekki var henni of gott hugsaði ég.
 
Ég var að strauja buxur vegna þess að ég er að fara í vinnu fyrir hádegi á morgun, á að vera mættur klukkan ellefu. Ég vinn fjörutíu tíma þessa helgi með fríi frá hádegi á laugardegi og til hádegis á sunnudag. Hann finnski Jorma vinnur á móti mér þann tíma sem ég verð heima. Svo veit ég ekki um meiri vinnu fyrr en í lok október. Það verður góður tími sem mér finnst ég eiga inni. Ekki er ég þó í vafa um að einhver vinna mun koma upp með litlum fyrirvara á þessum góða tíma. Þannig er það bara og hefur alltaf verið en það má ekki verða eins mikið og hefur verið núna upp á síðkastið.
 
Um síðustu helgi vann ég á móti henni Lottu. Hún er fimmtíu og eins árs gömul og nýlega byrjuð sem ráðgjafi. Við töluðum um heilsufar í ráðgjafahópnum þegar við skiptumst á vöktum og ég taldi mig ennþá vera mjög heppinn með mína heilsu. Lotta, sem ég held bara að verði aldrei veik, sagði mér þá að ég ynni mátulega mikið til að viðhalda góðri heilsu. Ég var henni þakklátur fyrir þau orð.
 
Og nú er ekki mikið annað að gera en fara að bursta og pissa og undirbúa samveruna með Óla, honum sem kastar sandi í augu mín ef ég legg mig ekki í tíma. Ég ætla ekki að gefa honum neinn möguleika á sandkastinu í kvöld og ég ætla að plata hann og verða fyrri til að leggja mig. Hann Mats sagi í veðurspánni að það yrði sumarhiti um helgina. Ég sat úti á nýja pallinum austan við herbergið mitt áðan og drakk te. Svo lagðist kvöldrökkrið yfir. Það var svo notalegt og hljóðlátt. Það eru margar góðu stundirnar hér undir skógarjaðrinum á þessum blíðviðriskvöldum.

Það er ekki svo vitlaust að vera til

Ég má til með að gera svolítið grín að mér og störfum mínum í eldhúsinu. Ég er búinn að borða alveg ógrynni af fiski undanfarið og fannst nú tími til kominn að fara að borða íslenska lambakjötið sem var búið að vera í frystinum frá því í vor. Þetta voru fallegar sneiðar og mér sýndist á öllu að þær væru ætlaðar til steikingar en ég ákvað að sjóða þær. Öðru hvoru kom ég inn meðan kjötið var að sjóða og leit í pottinn. Skrýtið þótti mér að það var rautt í suðunni og botnaði ekkert í því. En ég batt bara vonir við að það mundi fljótlega fara að grána þó að vissulega fyndist mér þetta óvenjulegt.
 
Svo þegar kjötið var búið að sjóða í klukkutíma leit það ennþá út eins og saltkjöt í suðu. Þá fannst mér mál að fara að lesa á pakkninguna. Það var saltkjöt. Hvergi stóð nokkuð um það hvort það væri útvatnað þannig að ég varð að smakka á soðinu. Það var rammsalt. Þá var bara að hella soðinu í vaskinn og setja nýtt vatn á kjötið. Þrisvar þurfti ég að gera þetta og síðan var maturinn tilbúinn og máltíðin var alveg skínandi. Saltkjöt, kartöflur og smjörklípa þegar bitarnir voru hvað magrastir. Einfalt, hollt og gott.
 
*          *          *
 
Ég settist í stólinn hennar Valdísar í stofunni í morgun. Vinnuborðið hennar með prjónum, heklunálum, nálum, tvinna, töluboxi, skærum og fleiru og fleiru stendur ennþá við hliðina á stólnum eins og það hefur gert svo lengi. Stöku sinnum gríp ég mjög litla bók sem liggur á borðinu og í þessari mjög litlu bók er að finna 167 spakmæli eftir mæta menn og konur.
 
Bókin heitir Von og er á kilinum kölluð gjafabók. Sjálfsagt á hellingur Íslendinga þessa bók, en ég ætla samt að segja frá orðunum á þeirri síðu sem ég lenti á þegar ég notaði aðferðina að setja nöglina á þumalfingri á bókina og opnaði hana þar sem nöglin hafnaði.
 
"Ég þrái að vinna mikil og göfug verk, en það er skilda mín að vinna lítil verk eins og þau væru mikil og göfug."
 
Þetta voru orð Helen Keller sem var rithöfundur þó að hún væri bæði blind og heyrnarlaus. Það er búið að vera svo skrýtið að þessi orð eru búin að flakka fram og til baka í höfðinu á mér í allan dag. Fyrst var ég eiginlega of tregur til að átta mig almennilega á þeim, en síðan komst ég að því að þessi orð eiga vel við mig. Mikill fjöldi athafnamanna framkvæmir svo ótrúlega stórbrotna og mikla hluti, oft á skömmum tíma. Svo er ég hér á Sólvöllum og framkvæmi smáhlutina eins og þeir séu stórbrotnir og göfugir og ég framkvæmi þá svo sannarlega af umhyggju.
 
Fyrir áratugum átti ég mér þann draum að ná tökum á lífi mínu og lifa því á fábrotinn og göfugan hátt og það væri fyrir mig að eiga ríkt líf. Ég held að það hafi verið að renna upp fyrir mér í dag að ég sé kominn þangað. Trúlega hefði ég ekki áttað mig á þessu í dag ef Valdís hefði ekki síðast þegar hún opnaði bókina lagt hana frá sér einmitt á staðinn þar sem ég tók hana í dag til að opna hana af tilviljun.
 
Litla kerran mín sést í fjarska á myndinni ofan við kerru nágrannans sem ég fékk lánaða í dag. Kerra nágrannans má taka helmingi meira en mín. Ég var að viða að mér í dag. Fremst á kerrunni má greina tvær af átta gangstéttarhellum sem ég keypti í dag. Svo eru á henni 300 kíló af sandi og svo fjórtán plankar sem eru fimm metra langir. Úr þessu ætla ég að vinna næstu viku ásamt hluta af 255 gangstéttarhellum sem vörubíll kemur með eftir hádegi á morgun. Hluta af hellunum ætla ég svo að leggja niður að vori.
 
Þrír nágrannar gengu framhjá í morgun. Anní kona Lennarts, ellilífeyrisþegans sem stundum réttir mér hjálparhönd, kallaði yfir grjótgarðinn til mín; "þú þrælar og slítur". Já, svaraði ég, sumir fara í útreiðartúra, aðrir fara í ferðalög, enn aðrir veiða á stöng og sumir drekka brennivín. En hér er ég og bauka við mitt.
 
Ég held að lesturinn á spakmælinu í morgun hafi hjálpað mér að svara þessum orðum á þann hátt sem ég gerði og það á sama augnabliki og Anní sleppti orðinu. Það er ekki svo vitlaust að vera til.
 

Bláberjaskálin er tóm

 
Ég var það stoltur af þessu kvöldmatarborði mínu að ég gat ekki orða bundist. Bláberin höfðu þroskast síðan fyrir helgi og ég fékk passlegt í eftirrétt kvöldsins. Svo reiknaði ég út að ég gæti fengið í eftirrétt einu sinni enn eftir eina þrjá daga. Að því búnu er þeirri veislunni lokið. Það er sama með tómatana. Það er til einu sinni í matinn eftir þetta og þá er þeirri veislu einnig lokið.
 
Stykkið af laxinum var of stórt fannst mér en ég fann ekki annað minna í kaupfélaginu. Ég réttlætti kaupin á þann hátt að ég gæti notað afganginn í léttan hádegismat á morgun, en ekki get ég sagt að þetta stykki hafi verið beinlínis ódýrt. Svo hófst máltíðin og laxinn var góður.
 
Þegar ég var búinn að borða eins og mig lysti leit létti hádegisverðurinn út eins og myndin sýnir. Það var ekkert eftir. Ég varð alveg hissa á þessu, gekk að ruslafötunni og gáði á umbúðirnar hversu þungt þetta stykki hefði verið. Mér blöskraði alveg. Það stóð 477 grömm á miðanum og það er svo mikið að mér dettur ekki í hug að segja frá því. Eitthvað verð ég að haf útaf fyrir mig. :-)
 
Þarna er ég búinn að setja rjóma á berin og pínulítið af sykri til að taka súra bragðið af þeim. Svo beið ég meðan laxinn sjatnaði aðeins. Að því búnu færði ég mig út í hengiróluna og og reyndi að vera lengi að borða þennan næst síðasta veislumat af bláberjarunnanum.
 
Meðan ég borðaði bláberin hafði ég þetta fyrir augunum. Mér leið ekki illa með það. Kvöldsólin var farin að varpa blæ sínum á skóginn eins og sjá má á háa hlyninum aðeins til hægri á myndinni. Það er greinilega ekki allt í röð og reglu á Sólvöllum eins og þessi mynd sýnir, en ég reyndi bara að horfa yfir það. Bæði innanhúss og utanhúss fær hreingerning og tiltekkt að bíða meðan ákveðnar framkvæmdir standa yfir á Sólvöllum. Mér er nú ljóst að annars klára ég aldrei þessar ákveðnu framkvæmdir.
 
Hér er líka af ýmsu að taka þegar þessar yfirstandandi framkvæmdir eru um garð gengnar. Valtarinn kemur til með að eiga sitt hlutverk í framkvæmdunum og litla grjóthrúgan þarna neðarlega til hægri er þegar búin að fá sinn samastsað til frambúðar þegar ég fer í það að laga til eftir atið mitt. Viðurinn þarna út í skógarjaðrinum, það er að segja sá sem er undir bláu ábreiðunni, fer kannski í hús ef vetur byrjar seint. Þann sem er undir þakinu hreyfi ég ekki fyrr en hann fer beint í hús til upphitunar. En þetta með viðinn set ég ekki í forgang. Ég vil til dæmis láta það ganga fyrir að laga stuðninginn bakvið rósirnar hennar Valdísar. Frágangurinn á því hjá mér í fyrra var ekki alveg nógu vel úthugsaður og ég fæ að gjalda fyrir það með nýrri vinnu.
 
Langleggirnir þrír sem eru þarna næstir viðnum eiga að falla í valinn í vetur eða alla vega fyrir næsta vor. Þegar langleggirnir verða farnir ásamt viðnum kemur þarna dálítið svæði sem á að fara undir matjurtir og berjarunna. Til dæmis fleiri bláberjarunna, rifs, hindber og fleira. Fleiri langelggir sem eru lengra út í skóginum eiga líka að fara og eftir það verður fallegra að líta inn í skóginn á þessum stað. Þar er ný kynslóð trjáa að vaxa þar úr grassi þó að það sjáist ekki á myndinni og lágur nýskógur verður mikið fallegri en langleggirnir. Sá skógur verður væntanlega fjórir til fimm metrar eftir eins og tvö ár. Svona grisjun var framkvæmd í vor á svæðinu sem sést á næstu mynd fyrir ofan og sú grisjun breytti afar miklu.
 
Svona er það á Sólvöllum, staðnum sem mér tekst endalsust að tala um. Að geta á næstu árum sinnt í rólegheitum þessari lagfæringu á skóginum er ekki kvöð, heldur verkefni sem mig hefur lengi dreymt um að dunda mér við sem eldri maður. Mér hefur áunnist talsvert í dag og þessi draumur færist nær með degi hverjum. Og svo er bláberjaskálin tóm.
 

Að varðveita minninguna

Ég sagði í bloggi nýlega að ég gerði hluti hér heima sem líka er hægt að leigja vélar til að framkvæma. Ég sagði líka hvers vegna ég vel oft að fara þá leiðina að gera þetta af eigin ramleik og með handafli. Svoleiðis verk var ég að framkvæma í dag. Ég var að undirbúa rúmlega hálfs meters breiða uppfyllingu fyrir hellulögn. Í staðinn fyrir að leigja 120 kg víbrator sem hugsanelga hefði riðið að fullu hluta af undirbúningi mínum valdi ég að troða fyrst með eigin þyngd. Að lokum, í dag, dró ég hendurnar úr vösunum og tók sjö kílóa sleggjuna mína, setti hausinn á uppfyllinguna með skaftið upp, tók í endann á skaftinu og svo sló ég sleggjuhausnum niður svo þétt að það kom far í far.
 
Ég hafði dregið þetta svolítið við mig þar sem ég gerði mér grein fyrir því að það væri lýjandi og ég mundi verða móður. Kannski mundi ég líka fá það á tilfinninguna að ég yrði aldrei búinn. Eftir nokkrar mínútur var ég orðinn móður, það stóðst. Hins vegar komst ég að því að ég mundi verða búinn fyrr en ég hafði ætlað. Hugsandi um þetta kastaði ég svolítið mæðinni eftir fyrsta áfangann. Svo hélt ég áfram þangað til ég var orðinn móður á ný. Ég tók einhverja mínútu í að spá í annað og svo tók ég eina törnina enn og þegar ég var orðinn nægjanlega móður í þriðja skiptið fór ég inn og leit í tölvuna.
 
Ég leit í íslensku blöðin og sá fyrirsögn; Valdís eldar; Gamaldags gómsætt kjöt í karrý með hrísgrjónum og salati. Þar skrifar íslenskur læknir um matargerð tólf ára gamallar dóttur sinnar.
 
Minningabankinn opnaði dyr sínar upp á gátt og ég sá í einu andartaki fyrir mér matarborðið á Sólvöllum og áður við Mejramveginn í Örebro. Það var gjarnan þegar einhverju striti var lokið eða eitthvað mikilvægt var að baki. Þá var það önnur Valdís sem eldaði lambakjöt, hrísgrjón, karföflur og bjó til karrýsósu. Hún bakaði líka oft pönnukökur við slík tilfelli en vissi einnig mæta vel að matur með betri undirstöðu var mikilvægur. Þá rauk af matarborðinu og það lyktaði vel. Stritið sem þá var að baki gleymdist og svo borðuðum við góðan mat. Við borðuðum bæði óþarflega mikið, en hvað um það. Það var nú einu sinni nýtt lambakjöt í karrý.
 
Annars dvínandi sorgin steig hljólátlega fram, settist í hásæti sitt og fyllti herbergið, fyllti heila húsið. Það var ekki sorg sjálfsvorkunarinnar, það var sorg saknaðar og hlýrra minninga. Ég bjarga mér sjálfur en söknuðurinn; það er bara eins og hann komi í heimsókn, bara svona upp úr þurru eins og þegar nágrannar bönkuðu upp á í Hrísey í gamla daga og spurðu hvort það væri til kaffi. Ég get soðið lambakjöt, kartöflur og hrísgrjón, en karrýsósu hef ég aldrei lagað. Sjálfsagt get ég lært það en ég er jafnframt viss um að matarborðið mundi ekki anga á sama hátt hjá mér og það gerði áður.
 
Svo gekk ég út á ný, greip um sleggjuskaftið og hélt áfram að berja niður uppfyllinguna. Jarðneska lífið heldur áfram hjá þeim sem lifa, það verður ekki umflúið. Þegar ég hafði barið niður fyrstu tíu metrana af tuttugu og sex metra langri uppfyllingunni tók ég vatnsslönguna og lét renna vatn í hana til að fá hana til að setjast ennþá betur. Eins og vatnið rann látlaust úr slöngunni runnu myndir hjá og rjúkandi, vellyktandi matarborðið birtist mér hvað eftir annað. Þegar ég fann að tár mín voru að breytast yfir í sjálfsvorkunn skrúfaði ég fyrir vatnið, fór inn og kveikti á kerti fyrir framan stóru myndina af Valdísi. Ég á engan rétt á að vorkenna sjálfum mér en mér ber að bera virðingu fyrir og varðveita minninguna.

Það má ekki skrökva

Í rauninni er heilmikið sem ég gæti hugsað mér að blogga um í kvöld en kollurinn á mér er of óskipulegur til þess núna eftir vinnu helgarinnar. Ekki að það hafi verið svo erfitt í vinnunni heldur bara að ég er búinn að leggja mig allan fram, hitta marga og eiginlega búinn að tala of mikið. Ég er með sjónvarpið í gangi frammi í stofu og er að hugsa um að slökkva á því vegna þess að núna langar mig að hafa hljótt. Það sem fær mig til að hafa það í gangi er að sá sem stjórnar þar músíkþætti sem verið er að senda út, hann er bara svo klár. Hann heitir Kalle Moraeus eða Kalli frá Úrsa (Orsa).
 
Þegar ég skrepp upp í Dali þarf ég að fara til Úrsa. Þar er bjarndýragarður þar sem bjarndýrin lifa all nokkuð frjáls og svo eru þar nokkrar aðrar dýrategundir sem lifa við sama frjálsræði. Ég hef verið þar á ferðinni í ein tvö skipti og í annað skiptið fórum við þangað með hann Kristinn dótturson þegar hann var ellefu ára. Honum leiddist ekki sú ferð. En það er ekki bara þessi bjarndýragarður sem þar er að finna, heldur er þar útsýnisstaður sem ekki er að finna hvar sem er. Það er hægt að segja margt fleira um Úrsa en ekki meira að sinni.
 
Ég kom heim um sex leytið í kvöld þó að ég væri hættur að vinna um hádegisbil. Ég heimsótti gamlan vinnufélaga á leiðinni heim og svo kom ég við í Marieberg til að sinna nokkrum erindum. Meðal annars var ég með farsímann sem Valdís átti og þurfti að koma honum í notkun fyrir mig. Svo gerði ég eiginlega ekkert annað en það í Marieberg þar sem málið tók á sig svo einkennileg hliðarspor. Og ekkert meira með það en þegar ég kom heim dreif ég mig í vinnugalla, fór út og tók mér skóflu í hönd og hóf að moka mold í hjólbörur.
 
Sjúklingarnir nefnilega spurðu mig hvað ég ætlaði að gera þegar ég kæmi heim og ég sagði eins og til stóð að ég ætlaði að flytja til jarðveg í hjólbörum hérna heima hjá mér. Þeim leist vel á það. En nú kom ég svo seint heim en fann mig þó knúinn til að gera eins og ég hafði sagt. Ég segi þessu fólki að þegar alkohólistar ætla að hætta að drekka verði þeir líka að hætta að skrökva. Ég varð því að vera sjálfum mér samkvæmur og gera eins og ég hafði sagt. Ekki gerði ég eins mikið og ég hafði ætlað en ég gerði þó eins og ég hafði sagt. Og hana nú.
 
Ef ég hætti ekki núna verður þetta svo mikið bull að einhver kemur til með að hringja í félagsmálastofnun og tilkynna að það sé ekki allt í lagi með mig. Því lýk ég þessu bloggi en ítreka þó það að það sem ég sagði um vinnuna með hjólbörurnar og að skrökva ekki, það er dagsatt.
 
Ps. Ég gleymdi að segja það að eftir morgundaginn gerir tíu daga spáin ráð fyrir um og yfir tuttugu stiga eitthvað framvegis.
RSS 2.0