Vorylurinn tók okkur í faðm sinn í dag

Það var langt síðan ég hafði farið í Vornes þangað til í morgun, en þá var tími til kominn á ný. Klukkan rúmlega hálf sjö gekk ég út að bíl, setti í gang og gekk svo kringum bílinn með sköfuna og hreinsaði hélu af rúðum. Fyrst var það framrúðan og svo hliðarrúðurnar bílstjóra megin og svo gekk ég hvatlega aftur fyrir bílinn og beint á dráttarkrókinn. Ég leit með djúpu andvarði niður á buxnaskálmina og það sannaðist sem mig grunaði, ég hafði ekki sett hettuna á kúluna í fyrradag. Það var ljót smurolíuklessa á buxunum svo ég snaraði mér inn og skipti um buxur. Þetta voru aðrar buxurnar sem ég gerði óhreinar þennan fyrsta vinnudag í nær fjórar vikur. Við svona grínlaus tækifæri líður tíminn fljótt. Hitamælirinn í bílnum stóð á núlli en eitthvað í loftinu lofaði góðum degi. Ég kom í tíma í Vornes og á morgunfundinum hlógu vinnufélagar mínir að frásögn minni af buxnaævintýrinu þannig að eitthvað jákvætt hlaust af því að lokum.

Eins og lög gera ráð fyrir var fullt af alkohólistum í Vornesi og dagurinn var eins og hver annar venjulegur dagur á meðferðarheimili. Fimmtán mínútur yfir fjögur gekk ég út að bílnum veifandi lyklunum. Nú stóð mælirinn í 17 stigum. Á leiðinni heim flakkaði hann milli 17 og 18 stig og loftkælingin fór nokkrum sinnum í gang í fyrsta skipti á þessu ári. Víðirunnar voru á fullri ferð inn í grænu árstíðina, heggir voru farnir að breyta lit, haustsánu akrarnir voru grænir og aðrir akrar ný unnir, sléttir og fallegir. Ég sá fyrir mér vorið og snemmsumarið og ég spilaði á píanó með fingrunum á stýrinu. Það lá við að ég færi að syngja.

Þegar ég kom heim var þvottur á snúru, þriðji umgangurinn í dag. Valdís var búin að þvo báðar buxurnar sem ég gerði óhreinar í morgun. Hún hafði verið í essinu sínu í dag fiskimannsdóttirinn. Og hún hafði þurrkað af, skúrað og almennt verið á fullu mest allan daginn. Ég fór til að athuga með heggina bakvið galma kamarinn. Toppbrumin stóðu nú opin og hlynurinn var strax á eftir. Sírenan með græn brum og ör örlítil hrokkin blöð voru að brjótast fram á birkinu. Beykið sefur ennþá en brumin eru að túttna út og skógarsóleyjarnar þekja meira og meira af skógarbotninum. Brennisóley sá ég í gær þar sem var farið var að sjást inn í gula litinn. Fimm daga spáin á textavarpinu gerir ráð fyrir ellefu til fimmtán stiga hita og þá má reikna með að dagarnir verði líkir deginum í dag. Það er vor.

Dyggðir hins grandvara manns

Ég held að ég verði að byrja á því að nota myndir til að færa mig nær því sem ég vil segja með þessu bloggi mínu.

Valdís í stöðu vélstjóra
Áhaldið sem Valdís er að vinna með þarna köllum við kvörnina. Að fella tré er lítið verk en að taka höndum um greinarnar er töluverð vinna. Að hreinsa þær af stofninum, að draga þær á einhvern ákveðinn stað, og hvað skal svo gera við þær. Við getum flutt þær á haugana, eða brennt þær upp, en við veljum að mala þær í kvörninni.

Afurðir sem fara til baka í skóginn aftur
Svo líta afurðirnar svona út.

Í dag, laugardaginn 24. apríl, höfum við verið að mala greinarnar eftir grisjun vorsins og flytja þær þannig út í skóginn aftur. Við notum þær til að fylla í og laga gönguslóðir og um leið verða þær að nýjum jarðvegi fyrir áframhaldandi trjágróður. Sama gerum við við öskuna frá kamínunni, við dreifum henni um skóginn þar sem hún verður vítamín og míneraler framtíðarinnar. Þannig eigum við góð samskipti við skóginn. Í staðinn skýlir hann okkur fyrir norðlægum, austlægum og suðaustlægum áttum og skógur er líka samofinn opnu svæðunum og akurlöndunum vestan við okkur. Hann hitar upp húsið okkar, gleður okkur með laufskrúði sínu á sumrin og kristalveröld í snjó og frostum á vetrum. Hann er frábær til útivistar og að lokum; þegar líður á sumarið gefur hann okkur fullt af berjum. Þetta er ekkert smáræði og ég held bara að þetta geti kallast sjálfbært eitthvað.

Við gætum líka notað skóginn á allt annan hátt. Við gætum fellt fjölda trjáa sem við gætum selt til vinnslu og annað gætum við selt sem eldivið. Þannig gætum við hæglega klárað þennan litla skóg á einu ári, eða kannski tveimur, og eftir stæði alveg óhemju óhrjálegt svæði og nokkrar krónur einhvers staðar. Nýlega sá ég skrifað að "kristin siðfræði býður okkur að vera ráðsmenn guðs í þessu ríki. Ekki með yfirgangi, heldur til að viðhalda því af skynsemi og með hluttekningu". Hvort sem við erum trúuð eða ekki, þá býr það í flestum okkar trúi ég að svo eigi það að vera en þrátt fyrir það er svo oft erfitt að fylgja því eftir.

Ólína Þorvarðardóttir alþingismaður var við skátamessu á Ísafirði á sumardaginn fyrsta. Hún var virkur skáti á árum áður. Eftir messuna skrifaði hún hugleiðingar sínar og meðal annars þetta: "skátalögin kveða í raun á  um dyggðir hins grandvara manns". Ég hreifst af þessu. Við keyptum ekki Sólvelli af því að við værum rík. Við keyptum vegna þess að við sáum fram á að við gætum unnið heiðarlega fyrir því og þess vegna vorum við svo ánægð í dag þegar Valdís hengdi upp þvott á snúru í fyrsta skipti síðan 1993. Og ekki vorum við minna ánægð þegar við brutum saman þvottinn undir kvöldið og hann var mjúkur og ilmaði svo þægilega. Ég vona að okkur takist að lifa samkvæmt dyggðum hins grandvara manns, bæði fjárhagslega og í umgengni við umhverfi okkar. Þannig búum við framtíðina sem best í hendur barnabarnanna okkar.

Valdís er að hengja upp þvott á alvöru snúru í fyrsta skipti síðan 1993
Snúran var bæði keypt og sett upp í gær og Valdís vígði hana í dag. Það var alveg ótyrúlega gaman að sjá þvottinn blakta á snúrunni í dag og ég segi fyrir mitt leyti að mér fannst ég ekki vera ári eldri en 35 ára þegar ég horfði á þetta, þetta var svo gaman. Sólin og útiloftið hefur gert okkur gott í dag og nú er mál að byrja að hvílast fyrir morgundaginn svo að við getum tekið við meiru útilofti á morgun.

Hin miklu vorverk

Ég hef mikið talað um vorverk að undanförnu, eitthvað í bloggi, eitthvað í e-pósti, eitthvað í smsum og eitthvað í símtölum. Það er eins gott að við höfum ekki 300 ær að hugsa um líka og sauðburð framundan. Þá yrðum við greinilega að hafa nokkra vinnumenn. En vorverkin hjá okkur eru ekki lífsnauðsynleg í þeirri merkingu sem fólk leggur í þá hluti, en þau eru okkur mikilvæg eigi að síður. Þungur vetur jók á vorverkin þar sem snjór braut niður smátré og svöng spendýr í ólíkum stærðum lifðu á gróðri sem við kannski ætluðumst ekki til að væri étinn. Því þurfti á útmánuðum að klippa til mikið af sköðuðum smátrjám, jafnvel að binda upp og í sumum tilfellum hreinlega að fjarlægja og setja nýtt í staðinn. En við erum ekki ein í heiminum og ferfættu nágrannanna viljum við þrátt fyrir allt hafa kringum okkur.

Alparós í sorg
Hér gefur að líta alparós, hressilega stóra. Hún var þriggja metra há og fjórir metrar í þvermál. En illa er hún farin af snjóþunga og hún er ekki þriggja metra há lengur. Haugurinn næst á myndinni er það sem var svo brotið að það varð að fjarlægja. Að sjá þarna megin frá er alparósin ekki sjálfri sér lík lengur en við erum nú búin að gera samkomulag við hana um að ná sér eftir þetta áfall. Bláa yfirbreiðslan er dæmi um hvernig hlutirnir geta litið út þegar þeim er ósmekklega fyrir komið á öfugum stað. Það verður eitt af vorverkunum að fjarlægja þennan voða.

Alparósin ber harm sinn vel
Frá götunni séð ber alparósin harm sinn nokkuð vel. Áburður og alúð munu hjálpa henni að komast á strik aftur. En sjáið bara, þó að ég reyndi láta bláu yfirbreiðsluna ekki sjást á þessari mynd, þá sést hún samt. Þetta er hreina umhverfisslysið

Siv og Alma, Siv byggir og Alma útbýr sósu
Þarna eru þær Siv og Alma. Mitt í vorverkunum komu þau nágrannarnir, Lars og Alma, yfir til okkar og buðu upp á kaffi í sólinni. Þær systur og foreldrarnir Stína og Lars eru góðir nágrannar. Við gætum satt best að segja verið langamma og langafi þeirra systra, en þau eru öll svo afskaplega elskuleg í okkar garð. Annars eigum við bara góða granna hér.

Alma kom með blöðrur til að gleðja afmælisbarnið
En hvað er nú þetta. Er kallinn orðinn eitthvað bilaður. Nei, ekki aldeilis. Þetta eru blöðrurnar sem hún Alma gaf mér þegar ég varð 68 ára.

Skógarsóleyjarnar eru farnar að gleðja með brosi sínu
Þegar við vorum á leið heim úr kaffinu hjá Stínu og Lars urðu þessar skógarsóleyjar á vegi okkar. Þær eru ekki ennþá farnar að þekja skógarbotninn en allt er á góðri leið þó að hitinn hafi verið undir meðallagi.

Það mælti mín móðir

Í gær bloggaði ég undir yfirskriftinni "Að höggva mann og annan". Það er lang einfaldast fyrir mig að viðurkenna að ég kunni ekki vísuna sem er kennd við Egil skallagrímsson þó að ég myndi þessa ljóðlínu, en hún malaði í höfðinu á mér eftir að ég bloggaði í gær og aftur þegar ég vaknaði. Nú, það var svo einfalt að ég skrifaði "höggva mann og annan" á Google núna rétt áðan og fékk upp fjöldan allan af fyrirsögnum. Svo fór ég inn á blogg Ómars Ragnarssonar frá 31. maí 2007 og las bloggið og lærði vísuna.

Það mælti mín móðir
að mér skyldi kaupa
fley og fagrar árar
fara á brott með víkingum
standa uppi í stafni
stýra dýrum knerri
halda svo til hafnar
og höggva mann og annan.

Mér finnst þetta ilma rosalega mikið af anda útrásarvíkinga og blogg Ómars var fróðlegt að lesa. En ég veit að sólin smýgur ljúflega inn um austurgluggann og broshýrar skógarsóleyjarnar eru byrjaðar að þekja skógarbotninn. Það er komið mál fyrir mig að fara út og gera skemmtilega hluti.

Að höggva mann og annan

Hann var enginn útrásarvíkingur maðurinn sem dreginn var fyrir dóm í Stokkhólmi í dag, hann var bara venjulegur innanríkisdrullusokkur og hafði stolið milli sjö og átta miljónum SKR af Krabbameinssjóðnum og Rauða krossinum. Hann baðst afsökunar og þótti þetta hræðilegt! sagðist hafa fengið gullsótt. Ósköp var það lítils virði sú afsökunarbeiðni fannst mér og alla vega ekki tímabær fyrr en hann er búinn að borga til baka. Talið um gullsóttina hefði verið betra að láta kyrrt liggja.

Ég las í íslensku blaði í dag að vísindamenn telji líklegt að Ísland sé að ganga inn í eldgosaskeið sem geti staðið í áratugi. Einnig er þar haft eftir erlendu fagtímariti að að það sé aukinn órói í jarðskorpu Íslands. Hér hefur þetta líka verið í fréttum oft á dag í marga daga og hefur þá Katla verið efst á baugi. Birt var viðtal við íslenskan hóteleiganda í sænsku sjónvarpi í dag. Hann hélt þessu líka fram í viðtali við sænsku fréttamennina, að ef Katla gysi yrði það mikið heiftarlegra en gosið í Eyjafjallajökli.

Ég hef ekki verið sáttur við Ólaf Ragnar að undanförnu en nú hef ég þörf fyrir að verja hann. Mér skilst á öllu að nú sé hann skotinn niður bara fyrir það að vera Ólafur Ragnar og það að hann sagði við fréttastofuna BBC það sem er til umræðu um allan hinn vestræna heim. Hann ljóstraði ekki upp neinu íslensku leyndarmáli. Íslenskir vísindamenn hafa líka talað um þetta á sjónvarpsskjáunum hér ásamt hrjáðum bændum undir Eyjafjöllum. Hér er talað um að það hafi verið hættuleg þróun að leggja niður ýmsar ferjuleiðir og að það verði að auka afkastagetu járnbrauta. Hugsanlegt Kötlugos er hvati til þessarra hugleiðinga og þær umræður eru greinilega alveg bráð nauðsynlegar eftir flugsamgöngum undanfarna daga dæma.

Annars á ég ekki að vera að rífa kjaft en ég vil bara ekki vera með í að "að höggva mann og annan" eins og höfðinginn á Borg fyrir þúsund árum ef það er hugsanlega að ósekju. Mér finnst líka endilega að það hafi verið hóteleigandi sem álasaði forsetanum fyrir að kjafta frá íslenska leyndarmálinu til BBC, sami hóteleigandi og síðar talaði sjálfur fjálglega um hina voðalegu Kötlu við sænsku sjónvarpsmennina. Ég hlýt að vera voðalegur einfeldningur fyrst ég skil ekkert í þessu.

Vorverkin standa enn yfir á Sólvöllum þó að engin sé framleiðslan á þessu sveitasetri. Í morgun var jörð hvít þegar við litum úr um austurgluggann, en þegar við drógum frá suðurglugganum stuttu síðar var hún ekki lengur hvít. Það hefur verið rigning og slydda í dag og hænsnaskíturinn og blákornaáburðurinn hljóta að hafa runnið ljúflega niður í rótarkerfin. Á morgun er svo spáð níu stiga hita. Vorverkin eru gríðarlega skemmtileg þegar ellilífeyrisþeginn á frí vinnu og sannleikurinn er sá að ég hef ekki unnið einn einasta dag ennþá í þessum mánuði. Svo ljúft er lífið -þangað til á mánudag.

Konunglegur skítur

Í dag er ég búinn að klippa niður einhver hundruð plöntur hérna bakvið húsið þar sem um mikið offramboð er að ræða. Samt skil ég eftir talsvert, aðallega birki, eik, hegg og hlyn. En ég hef meðan á þessu hefur staðið undrast yfir því magni sem búið er að bíta ofan af. Að vísu er ég búinn að virða þetta fyrir mér síðan snjóa leysti en ég var bara svo hissa á því í dag hversu nærri húsinu þetta át hafði farið fram. En svo kom skýringin þegar ég fann elgsskít nokkra metra bakvið húsið. Þetta þýðir að ljóskastari sem er á gafli móti skóginum og kviknar á við hreyfingu hefur auðvitað farið að lýsa, en það hefur greinilega ekki haft áhrif. En auðvitað er það bót í máli eftir skaðann á einhver hundruð plöntum að konungur skógarins skeit bakvið húsið okkar. Auðvitað þurfti eitthvað af þessum plöntum að fara en svoleiðis vil ég gjarnan stjórna sjálfur. Hins vegar hefur enginn sagt mér að  ég hafi meiri rétt en elgurinn á því sem skógurinn býður upp á. En sem "maður" vil" ég taka mér þennan rétt.

Þar sem ég var þarna að hamast með klippurnar datt mér í hug næturnar áður en baðherbergið var tilbúið og ég fór út á nóttunni að sumri til á nærbuxunum og á stígvélum númer 46 til að pissa. Þá fundu dádýr upp á því að gelta aðeins út í skóginum og ég bókstaflega tókst á loft. Það þurfti ekki einu sinni dádýr til. Þegar froskur hoppaði við hælana á mér í næturrökkrinu bókstaflega kólnaði ég upp áður en ég áttaði mig á því hvað þetta var. En hugsið ykkur ef elgur hefði allt í einu þefað af herðablöðunum á mér, hvað hefði þá orðið af mér. Þegar mér datt það í hug fór ég að hlæja aleinn sitjandi á trjástupp.

Brumin á heggnum eru orðin græn og aðeins byrjuð að opnast. Einnig á sýrenunni. Heggur og sýrena blómgast með stuttu millibili og tala menn um vikuna milli heggs og sýrenu. Það er að segja vikan milli þess að heggurinn er í blóma og þangað sýrenan blómstrar. Víðitegundir eru líka að laufgast og önnur brum eru farin að þrútna og jafnvel að fá á sig ögn grænan blæ.

Gosfréttir og umræður halda áfram í sænska sjónvarpinu. Fréttamaðurinn sænski sem svo oft sendir féttir frá New-York, Jerúsalem, London, Moskvu eða einhverjum öðrum stórstað á þessari jörð stóð allt í einu í öskumekki undir Eyjafjöllum og sat furðu lostinn í helikopter yfir Eyjafjallajökli. Hópur sérfræðinga ræddi eldgos og áhrif þeirra og bakgrunnurinn var gosmökkurinn íslenski. Bogi Ágústsson svaraði spurningum um sálarró Íslendinga þegar undirheimar æsa sig. Þannig gengur lífið og nú er kominn háttatími á Sólvöllum

Rökfesta ráðherrans

Það er ekki oft sem ég hita mér kaffi á kvöldin en ég gerði það núna. Svo tók ég bolla með ilmandi kaffinu inn að sjónvarpinu til að hlusta á frábæran kór syngja afskaplega fallega vísu eftir Evert Taube. Þegar ég var sestur sagði ég af rælni að nú væri gott að eiga svolítið súkkulaði. Og hvað haldið þið að konan mín hafi ekki sagt bara sí svona eins og ekkert væri; það er við hliðina á hveitinu í búrinu. Sjúbb. Svo át ég eina rönd af súkkulaðinu með kaffinu og hlustaði á Taube. Alsæll var ég.

Ég var hálf lúinn. Þó að ég hefði byrjað seint og um síðir í morgun að vinna við eitthvað úti af öllu því sem þar er eftir að gera, þá var ég búinn að ganga heilan helling og þar að auki var ég búinn að klippa óskaplega margar greinar með greinaklippunum og ég klippti upp í þann gildleika sem ég bara með nokkru móti réði við. Röltandi með greinarnar dragandi á eftir mér fannst mér ég hafa frábæran tíma til að láta hugann reika þannig að þetta var bráðskemmtilegt verk. Nú er ég búinn að gleyma stærstum hluta af því sem ég dundaði við að hugsa um en stór hluti af því var þó hvað við gætum gert hér á staðnum til að gera hann ennþá yndislegri en hann er.

Ég var nýbúinn að kíkja á íslensku fréttirnar áður en ég fór út og því voru hin óhemju öflugu náttúruöfl ofarlega í huga mér. Í umræðuþætti í fyrradag sagði kona að þessi múgsefjun, eða hvað hún nú kallaði það, varðandi öskufall og flug væri undarleg, þar sem mikið stærri gos hefðu átt sér stað eftir að þoturnar komu í gagnið og ekkert hefði skeð. Maður sem var líka þátttakandi í þessum þætti sagði þá að það væri lang best að með auðmýkt muna þetta; þó að við manneskjurnar héldum oft að við hefðum vald á öllu á þessari jörð, þá værum við afar lítil þegar á náttúruöflin reyndi. Hann sagði þetta á svo hógværan hátt að það var ekki annað hægt en taka það inn í hjartastað.

Svo var það annar samtalsþáttur frá síðustu dögum sem ég hugsaði um. Tveir viðmælendur voru í þætti um flugslysið þegar pólski forsetinn fórst ásamt fjölda annarra pólskra ráðamanna. Annar þessara manna var sænski utanríkisráðherrann, stífur í öxlum, hálsi og andliti, án allra tilfinninga fyrir utan kannski reiði, gersneiddur af hlýhug en ákaflega auðugur af rökfestu. Hinn maðurinn var Pólverji sem greinilega var búinn að búa lengi í Svíþjóð. Það síðasta sem var sagt í þessum þætti var þegar Pólverjinn sagði frá eftirfarandi (nokkurn veginn svona): Ég hef gegnum árin fengið mörg sms frá Pólandi þar sem fólk hefur látið í ljós mikla óánægju með stjórn landsins. Þetta slys er alveg hræðilegt og kemur til með að valda margs konar vanda og breytingum. En takið nú eftir. Í dag er ég búinn að fá þrjú sms og í þeim hefur staðið; gleymdu öllu sem ég hef sagt áður um Pólland því að ég elska svo mikið þetta land. Þegar hann sagði þetta var han verulega klökkur. Að því búnu hálf reisti hann sig upp, leit á sænska utanríkisráðherrann og hneigði sig.

Og hvað segir maður svo. Ekkert. Ég varð bara klökkur líka. Ég kannski tala ómaklega um sænska utanríkisráðherrann því að hann er mjög fær maður. Ég held ég mundi segja þetta á sænsku líka ef ég fyndi fyrir að gera það. Alla vega hann Markku mun skilja þetta ef hann les það og allt í lagi með það. Fyrir svo sem einu til tveimur árum var ég mjög á því að kjósa moderaterna, það er að segja sænska sjálfstæðisflokkinn. Mér fannst þá sem þeir hefðu gert margt mjög gagnlegt og væru verðir atkvæðis míns, en í dag býst ég þó ekki við því að gera það.

Um Reyni Böðvarsson og fleira

Klukkan átta fyrst opnaði ég augun og hugsaði med mér að það væri kannski kominn tími til að taka þátt í lífinu. Það heyrðist óljóst gegnum loftinntakið vestan á húsinu að það blés úti. Það var líka búið að lofa því í gær. Nokkrar mínútur tók ég í að hugsa minn gang, ég las nokkrar línur og svo ætlaði ég bara að koma mér af stað, kveikja upp og borða morgunverðinn. Í gær ákvað ég hvað ég ætlaði að gera í dag og ég vildi koma mér sem fyrst að verki. Svo gekk ég framhjá tölvunni og hægði á mér. Svo, gegn því sem ég hafði hugsað mér, kveikti ég á henni og smellti á ruv.is. Það var svo sem ekkert óvænt, en það var einmitt þetta hvort það hefði nokkuð "sérstakt" átt sér stað á Íslandi. Ég sá að það var byrjuð að falla aska í Vestmannaeyjum en sá ekkert nýtt um gosið.

Og ég sem hefði átt að byrja á því að kveikja upp. Nú sneri ég mér að því og þá kom Valdís og kveikti á sænska sjónvarpinu. Þar var á þeirri stundu Lasse Bengtsson að tala í síma við sænskuna Anniku Rosén sem býr væntanlega undir Eyjafjöllunum þó að ég hafi aldrei heyrt nákvæmlega hvar hún býr. Hún talaði um ösku, búpening og óvissuna um framhaldið í tíu kílómetra fjarlægð frá eldgosinu í Eyjafjallajökli. Eftir all langt samtal við Önnu sagði Lasse að til hans væri kominn annar Íslendingur sem hefði þekkingu á eldgosum. Þar var kominn Reynir Böðvarsson jarðskjálftafræðingur í Uppsala og forstöðumaður fyrir einhverri jarðfræði- og jarðskjálftadeild á landsmælikvarða (of flókið fyrir mig að útskýra). Á Wikipedia er hann sagður sænskur en Lasse nefndi hann sem Íslending. Wikipedia segir líka um Reyni að fjölmiðlar nefni hann oft sem sérfræðing varðandi jarðskjálfta og þess háttar. Lasse hafði mjög fróðlegt samtal við Reyni og lokaspurningin var hvenær þetta mundi enda. Það gæti hætt skyndilega á morgun sagði Reynir og það gæti líka staðið yfir í marga mánuði. Það var ekki björgulegur endir á samtalinu en það er bara veruleikinn sagði Reynir. Svíar almennt sem fygljast eitthvað með telja Reyni vera Íslending.

Ísland, Eyjafjallajökull og aska eru nöfn sem hafa ríkt mjög í sjónvarpi og útvarpi hér síðustu dægrin, hafa verið fyrstu orðin í öllum fréttatímum og fengið langa umfjöllun. Í gærkvöldi sagði í fréttum að miljónir fólks í Evrópu væru strandaglópar, kæmust ekki af stað eða kæmust ekki heim. Reynir sagði líka í sjónvarpinu að það væru þeir ríku sem nú yrðu fyrir mestum áhrifum, þeir sem notuðu þotur. Þeir fátæku gætu haldið sínu áfram eftir sem áður. Vissar efasemdir hafa komið fram um að askan sé svo hættuleg sem sagt er. Nokkrar finnskar orrustuþotur lentu í ösku sem menn vissu ekki þá að væri þegar komin yfir Finnland. Nokkrir þotuhreyflanna voru stórskemmdir eftir og hefðu valdið íkveikju eftir nógu langan tíma sögðu Finnarnir.

Hvað er ég svo að gera með hér úti í Svíþjóð að skrifa um eldgos á Íslandi fyrir Íslendinga?

Gamla rúmið heyrir sögunni til

Við Valdís vorum lengi nokkuð í Örebro í dag. Hún fór til sjúkraþjálfara og svo í mat með hinum norrænu vinkonum sínum. Ég fór hins vegar með kerruna á haugana fulla af rusli frá Sólvöllum. Eftir það fyllti ég kerruna aftur í geymslu sem við fengum lánaða hjá húsfélaginu þar sem við bjuggum og svo fór ég á haugana á ný. Og nú skeði það sem hefur verið í farvatninu í fáein ár. Gamla rúmið okkar er komið í tvo ruslagáma. Dýnurnar í einn gám og viðurinn í annan. Þetta rúm eignuðumst við þegar við bjuggum á Bjargi og í því erum við búin að hvílast oft og lengi. Ég hund sá eftir rúminu og eiginlega fannst mér það vera í besta lagi. En það var eins og eldri rúm, 180 sm langt og 145 sm breitt. Sem nútíma rúm er það bara ekki gjaldgengt vegna smæðar sinnar. Það er samt ekki langt síðan ég svaf í því og það fór svo notalega um mig í því. Eiginlega hefði rúmið verið alveg ágætt fyrir einhleyping sem sefur hjá svo sem einu sinni í mánuði. Ef svo sjaldan er sofið hjá sefur fólk þétt og þá þarf rúmið ekki að vera svo breitt. En nóg um þetta rúm, það er komið til feðra sinna eins og sagt var um konunga Gyðinga þegar þeir létust.

Svo komum við heim og þá lá okkur auðvitað svolítið á að heyra féttir frá Íslandi. Valdís byrjaði á því að kveikja á sjónvarpinu og þá var bara Ísland á skjánum. Hátt í hálfir fréttatímarnir hafa síðan fjallað um ösku, Ísland og Eyjafjallajökulsgos. Við erum búin að heyra Ísland oftar nefnt í fréttum í dag en samtals á fjöldamörgum undanförnum árum. Svo gerir tölvan okkur líka kleift að hlusta á fréttir beint frá Íslandi. Reynir Böðvarsson í Uppsala er búinn að vera í nokkrum samtölum í sjónvari eins og venjulega þegar umbrot eru í jörðu.

Ég setti matardisk út til að fylgjast með ösku. Ekki veit ég hvernig þetta er í svo mikilli fjarlægð en sú aska sem er í háloftunum og kemur í veg fyrir flugsamgöngur hlýtur einhvern tíma að falla til jarðar. Kannski er þetta barnalegt en hver veit. Ég alla vega veit það ekki fyrr en ég hef prufað. Þetta gerði ég í Hrísey á sínum tíma þegar það gaus í Heklu. Þá hafði ég disk úti á stétt heima og svo varð diskurinn grár af ösku. Þá var mál að setja inn nautgripahjörðina og gekk það nokkuð vel þó að það væri sumar. Að lokum voru allir gripir komnir á hús utan kýrin Grána. Hún virtist verða alveg geðveik við þessa atburði og ef ég man rétt fékk hún aldrei vitið til baka. Þetta sumar þurfti alveg gríðarlega marga hnífa í sláttuvélina því að þeir eyddust upp á afar skömmum tíma.

13. apríl

Það er víst afmælisdagurinn minn og hvað segir maður á afmælisdaginn sinn. Ég eiginlega veit það ekki en ef að vanda lætur er nóg að ég byrji þá bara kemur það. Það er nú meiri uppfinningin þessi Feisbók. Það hefur svoleiðis rignt inn afmæliskveðjunum að mér næstum finnst sem ég eigi barnaafmæli. En sannleikurinn er sá að fólk veit þó að ég er til. Það kemur upp á Feisbókinni þegar einhver í vinahópnum á afmæli, en það getur vel farið framhjá mér.

Ég fékk seinni partinn línu frá henni Evu Þórðardóttur Buskqvist og hún segist geta látið sér detta í hug að Valdís sé búin að stjana við mig í dag. Já, um þrjú leytið angaði byggðarlagið af pönnukökulykt og um hálf sex leytið af steiktri ýsu veiddri á Íslandmiðum. Og hvað haldið þið svo að hafi skeð um átta leytið. Pönnukökulyktin gekk aftur og svo var kvöldkaffi. Já Eva, þú ert sannspá. Ég get ekki kvartað. Þú hlýtur að hafa hitt Valdísi einhvern tíma.

Annars ætluðum við að vera dugleg úti í dag en alla vega ég komst ekki í sama gír og í gær. Ég má heldur ekki fara að halda að allir dagar verði afkastamestu dagarnir. Ég er ekki tilneyddur að gefa neina skýrslu en ég fer nú líklega ekki að láta afmælisdaginn minn fara fram hjá dagbókarfærslum. Það væru hrein bókhaldssvik. En það eru hérna nokkrar myndir sem ég tók frá eftir að við borðuðum ýsuna sem var veidd á Íslandsmiðum. Það er þægilegt að notast myndir þegar skáldagáfan lætur á sér standa.

Hann er eins og pínulítið óléttur þessi
Ég var úti við geymslu og var að fara í fötin sem ég nota þegar ég vinn með keðjusög þegar hann Páll bróðir minn hringdi. Það var ágætlega hlýtt og það var sól og ég stóð mitt í dýragarðinum hennar Valdísar. Ég sé ekki betur en hvíta öndin sé að skjótast fyrir hornið. Hún er líklega að hugsa að hreiðurgerð. En svo lít ég á magan á sjálfum mér og uppgötva að hann er að tútna út. Kannski ég þurfi líka að fara að huga að hreiðurgerð. Valdís hefur sjálfsagt stjanað of mikið við mig. Svo spjölluðum við bróðir saman um stund og síðan lá leiðin út í skóginn.

Svona lítur órækt í skóginum út
Ég hef í tvö til þrjú ár horft á þennan reynivið sem vex þarna rammskakkur mitt í greniþykkni og viljað fella hann ásamt lágu en breiðvöxnu greni sem hefur skaðast af reyniviðnum. Það eru margar efnilegar eikar- og birkiplöntur þarna sem eiga engan möguleika nema þessi tvö tré séu felld. Eftir rannsóknarferð okkar hjóna fyrr í dag var tekin ákvörðun um að fara nú og koma þessu í verk.

Og þarna fellur illa haldinn reynuviður
Valdísi tókst að ná mynd af reyniviðnum í fallinu og hann féll á milli tveggja grenitrjáa eins og til stóð og ekkert skemmdist. Til vinstri sést myrkrið sem of þétt tré valda. Svo þegar grenitréð var fallið líka bókstaflega flæddi sólin inn á svæðið og eikar- og birkiplönturnar munu nú taka hressilega við sér og vaxa mikið í sumar. Ekkert er því til fyrirstöðu.

All gamall skógur
Hér erum við svo komin að landamörkum okkar og sjáum út í skóg til hægri sem einstaklingur í nágrenninu á. Til vinstri er hins vegar skógurinn hans Arnolds og ég er að bardúsa við stubbinn sem eftir stóð þegar snjórinn braut eitt af grenitrjánum hans. Til þess að sjá til þess að skógurinn til hægri verði ekki felldur væri ekki vitlaust að eignast hann. Blogg um það síðar.

Nú skulu hérarnir hafa það, Valdís gengur frá naghlíf
Við erum þarna komin heim á lóð aftur og búin að gróðrusetja tvö eplatré í staðinn fyrir þau sem hérarnir eyðilögðu í vetur. Valdís er þarna að ganga frá naghlíf sem fyrirbyggir þetta en ef snjórinn verður nógu djúpur komast hérarnir upp fyrir naghlífina og verða voða glaðir. En þá verðum við ekki jafn glöð og eina leiðin ef snjórinn verður svo djúpur er að moka honum frá trénu. Það er eina örugga leiðin segja Svíar.

Já, hvað getur maður sagt yfir svona mynd, jafnvel þótt ég sé afinn verður mér ögn orðavant
Svo er að lokum þessi ómótstæðilega mynd. Sænsku konurnar eru alveg bálskotnar í drengnum, honum dóttursyni mínum. Þessi mynd er tekin þegar ég sótti Valdísi til uppsala upp úr 20. mars.

Þvílíkur fallegur dagur

Tímanlega í morgun drifum við Valdís okkur út í sólskinið og héldum áfram að taka höndum um trén sem voru felld fyrir nokkrum dögum og felldum svo tvö í viðbót. Við hálf svitnuðum við við að bera greinar og flytja niðurbrytjaða trjástofna í hjólbörum og lífið lék við okkur. Smáfuglarnir tóku þátt í þessu og sungu ástarljóð meðan þeir flugu inn og út úr fuglahólkunum og unnu greinilega glaðir við að gera heimilið klárt. Syngjandi svanahópur kom úr vestri og flaug áfram austur á bóginn. Spætan sendi frá sér einstaka trommuspil og dóttir nágrannanna hljóp um heima hjá sér og hló og kallaði. Já, það varð ekki undan því komist að smitast af vorinu sem sýndi sig í ýmis konar myndum. Meira að segja grasið á lóðinni hafði hreinlega vaxið frá því í gærkvöldi. Útivistin og sólin gerði okkur báðum greinilega mikið gott.

Þegar leið á daginn fannst okkur sem afköstin væru nægjanleg og við ákváðum að leggja af stað til Örebro. Það hafði verið með á skipulaginu alveg frá því í morgun að gera svo. Pínulítið matarkyns þurftum við að kaupa og svo héldum við í Blómaland í Marieberg. Já, það er skelfilegt að segja það af tveimur nær 68 ára manneskjum, en við duttum bæði í það. Það nefnilega skein líka sól í skrúðgarðadeildinni sem er undir berum himni og það var of erfitt að halda sönsum. Við sem ætluðum bara að kaupa tvö eplatré í staðinn fyrir þau sem hérarnir tóku af lífi hjá okkur í vetur.

En svo létum við ekki staðar numið við það. Við keyptum líka tvær alparósir og við keyptum fimm sekki af plöntumold og svo var það hænsnaskíturinn. Tveir sekkir af honum. Úff, bíllinn mundi fyllast sem hann líka gerði. En þetta með hænsnaskítinn verð ég að fara nokkrum orðum um. Fyrir nokkrum dögum kom ég við í Blómalandi og spurði þá hvað ég gæti gert til að fá ennþá meiri sprett á margumtöluð beykitré og hvort það væri æskilegt. Jú jú, svaraði lipur afgreiðslukona sem ég ímyndaði mér að væri skrúðgarðafræðingur. Það er bara gott meðan beykitrén eru í þessari stærð að fá dálítinn sprett á vöxtinn, fræddi hún mig um. Oj, hvað ég varð glaður.

Og hvaða áburð á ég að nota? Hænsnaskít svaraði hún að bragði. Hann er mjög góður og gerir trjánum bara gott. Takk fyrir þær upplýsingar. En svo getur þú líka gert annað sagði hún og sagði "dfghjklaujklæ", eitthvað sem ég alls ekki skildi. Og hvað meinarðu með því? spurði ég. Jú, svaraði hún, í staðinn fyrir að fara á klósettið til að pissa getur þú með góðum árangri pissað á beykitrén þín. Ha ha ha, það hef ég gert í nokkur ár svaraði ég, en ég hef alls ekki talað svo mikið um það.

Nú er það svo að beykitrén eru 21 og meðan snjór var yfir öllu lét ég eiga sig að fara þessara erinda út í skóg. Nú verð ég ekki búinn í tíma að pissa nógu oft á beykitrén og mér finnst ég ekki geta beðið Valdísi að taka þátt í þessu með mér. Því keypti ég tvo sekki af hænsnaskít til að hjálpa mér við áburðargjöfina. Það mun fara vel á með mér og hænsnaskítnum í þessu samstarfi. Á morgun verður gróðursetning á Sólvöllum þar sem eplatrén verða sett niður ásamt alparósunum. Það verður ekki í fyrsta skipti sem gróðursett verður á Sólvöllum 13. apríl.

Dagurinn í dag hefur verið góður og ég hlakka til morgundagsins. Ég brúkaði svolítið munn í næsta bloggi neðan við en mér fannst ég verða að gera það því að annars væri ég falskur og ómerkilegur. Það er heiðarlegra að segja eins og mér finnst og vera ekki í neinum feluleik.

Þrútin beykibrum
Fókusinn er ekki góður þarna en ef vel er að gáð má sjá beykibrumin sem eru þrútnari en nokkuð annað vor hingað til.

Þrútið kastaníubrum
Og hér er brumið á hestkastaníunni.


Hún klikkaði ekki á því í sólskininu fiskimannsdóttirin frá Hrísey.





Ráðist að dauðadæmdri björk
Þarna réðist ég að dauðadæmdri björkinni og lagði að velli og þar hafði ég mikinn aflsmun vegna keðjusagarinnar. Björkin var of nálægt viðargeymslunni og nakinn allt of langt upp. En ef ég hefði getað spurt hana hefði hún sjálfsagt viljað lifa áfram.

Vonbrigði

Við Valdís fórum út fyrr en venjulega í morgun og unnum af krafti við vorverkin. Við fylgdumst með klukkunni og þegar tíminn nálgaðist að það kæmu fréttir af birtingu "skýrslunnar" ætluðum við inn til að fylgjast með. Svo litum við hvort á annað og sögðum svo; ætlum við að fylgjast með, nei, hvers vegna skyldum við gera það? Svo héldum við áfram vorverkunum.

Ég veit að það hafa margir farið mikið verr út úr íslenska efnahagshruninu en við Valdís en hér er ég að tala um okkur en ekki aðra. Sem ellilífeyrisþegar var ljóst að við mundum fá 35 % af tekjum okkar frá Svíþjóð og 65 % frá Íslandi. Þetta var niðurstaðan eftir að hafa talað við lífeyrissjóði á Íslandi og tryggingastofnun. Við gerðum áætlanir sem byggðust á þessu og eftirmiðdagur lífs okkar leit ágætlega út. Fyrri hluta árs 2008 lækkaði allt í einu íslenska krónan um 20 til 30 % í verði móti þeirri sænsku. Það má nánast segja að þetta hafi skeð á einni nóttu.

Haustið 2008 var þessi lækkun orðin 50 %. 65 % tekna okkar höfðu lækkað um 50 %. Það er all nokkuð og aðrir peningar sem við áttum á Íslandi voru nú bara hálfvirði. Við fengum sem sagt að smakka á því eins og svo margir aðrir Íslendingar. En það var bara að taka því, við vorum Íslendingar og við mundum taka þátt í skellinum eins og aðrir.

Síðan skeði nokkuð sem erfitt var fyrir mig að sætta mig við. Upp hófst á Alþingi rugludallaspil, atkvæðasöfnun og eftirtektarsýkin blómstraði. Forsetinn sprengdi reyksprengju og frestaði þar með því óhjákvæmilega og einnig efnahagslegum bata á Íslandi. Á sama tíma jókst fylgi flokkanna sem voru við stjórn í einkavæðingaæðinu gríðarlega. Þá fylltist mælirinn. Í mínum huga hefðu þeir átt það skilið að fá einn til þrjá þingmenn eða svo og búa við það í svo sem 20 ár. Þá hefðu menn komist að því hvar Davíð keypti ölið og það kostaði sitt að vera óábyrgur stjórnmálamaður. Ég hef alls ekki getað skilið þessa fylgisaukningu og eftir þetta minkaði vilji minn til að vera Íslendingur -svo sorglegt sem það nú er.

Vorverk

Þennan sunnudagsmorgun er sólin búin að skína glatt æði lengi en hér á bæ er sein fótaferð í dag. Það verður óvinur minn skattaskýrslan sem verður viðfangsefni dagsins. Í gær var það hins vegar útivinna. Þá lágu í valnum fjórar bjarkir sem ég hef talað um áður að við þyrftum að losna við, þrjár smá bjarkir og ein á miðjum aldri. En áður en við komumst að verki lagði Arnold bóndi dráttarvélinni sinni hér framan við og var hann með kerru fulla af birki, eldiviði sem hann var að flytja til viðskiptavinar. Stuttu síðar sátum við yfir kaffibolla og sandköku sem Valdís hafði bakað daginn áður. Svíar eru ekki vanir að borða sætt svo snemma dags og við reynum að halda okkur frá því líka en spjallstund er nú alltaf spjallstund. Við fengum okkur öll af sandkökunni.

Heyrðu, sagði Arnold, það hefur fallið all stórt grenitré við hjá mér rétt við landamörkin ykkar, viljið þið ekki bara hirða það. Það voru svo ójafnar á því greinarnar og það hefur ekki þolað snjóþyngslin. Jú, við ákváðum að taka höndum um þetta tré. Það var skiljanlegt að hann vildi ekki gera ferð út í skóginn á dráttarvél til að sækja eitt tré, enda er tré sem fellur á þennan hátt væntanlega sprungið eftir átökin og ekki nothæft sem byggingarefni. Fyrir okkur er þetta stutt ferð með nokkrar hjólbörur af niðurbrytjuðu greni.

Svo þakkaði Arnold fyrir kaffið og var á leið út. Þá barst talið að smíðum og þá varð Arnold svolítið eins og fuglahólkur svo að ég bað hann að bíða, ég ætlaði að sýna honum svolítið. Ég fór inn í svefnherbergið og niður í skúffu þar og dró upp teikningar. Þegar ég rétti úr mér aftur með teikningarnar í hendinni var Arnold kominn inn í svefnherbergið á eftir mér, rúmið óumbúið, sængurnar uppsnúnar og Arnold á skógarvinnugallanum sínum. Af þessu væri gaman að eiga mynd.

En svo skoðuðum við teikningar og Arnold lýsti hrifningu sinni. Þegar við verðum búin að fá svar frá byggingarfulltrúanum er ég viss með að birta þessar teikningar á blogginu. Eftir þetta byrjaði vinnan við að klippa greinarnar af björkunum. Stóru greinaklippurnar voru dregnar fram, valdís snaraði sér í vinnugalla og verkið hófst. Það er ekkert að fella tré og það er ekkert að brytja tré niður í eldivið, en það er hellings vinna við að hreinsa af greinar og koma þeim fyrir.

Eftir þetta fórum við inn til Örebro til að taka þátt í afmælishátíðahöldum í kirkjunni. Þar hittum við marga kunnuga og þar var margt skemmtilegt og fróðlegt í gangi og svo bauð kórinn upp á afar fallegan söng. Mat fengum við líka með forrétti og eftirrétti og kaffi. Hvað þetta var nú notalegt allt saman.

Hljóðir grannar fallnir í valinn
Jörð er lítillega farin að grænka, eiginlega ótrúlega lítið miðað við að hún kom ögn græn undan snjó. En nú er vor, skyrtuveður og glampandi sól síðustu daga. Undir austurglugganum beint fyrir framan við mig er ennþá eins fets djúpur snjór sem í vetur rann í miklu magni af þakinu. Það er ekki mikill skógur sem liggur þarna en greinarnar eru kannski hátt í eitt þúsund. Áfram nú Íslendingar á Sólvöllum -byrja.

Fiskimannsdóttirin frá Hrísey greip vinnugallan í snatri og réðist á greinarnar.
Ég get látið ykkur vita að ég var ekki einsamall við þetta verk. Þegar ég var búinn að gera það sem hægt var að gera með klippunum kom fiskimannsdóttirin frá Hrísey og kom röð og reglu á hlutina á ný.

Kötlugos 1918, myndir

Ég heyrði oft talað um Kötlugos sem barn eða unglingur, eða svo finnst mér alla vega. Nú hefur verið talað um það í mörg ár að það megi vænta Kötlugoss og ég hef oft velt því fyrir mér á þessum árum að ég veit nákvæmlega ekkert um Kötlugos og ekki einu sinni gosið 1918. Það má þó geta þess að ég var "jafnvel" mjög nálægt einu gosi í Kötlu en ég kem að því í lokin. Ég hef leitað að lesefni um Kötlu á netinu og er þar af miklu að taka en ég hef þó aðeins lesið eitt örlítið brot enn svo lengi. Hins vegar fann ég nokkrar myndir og ég hef grun um að fólk hafi ekki séð mikið af myndum af Kötlugosum og ég ætla að birta þessar myndir á blogginu.

Kötlugos 1918
Það stendur greinilega neðst á þessari mynd að hún er frá gosinu 1918. Myndin er lítil og ljósmyndatæknin 1918 lítilfjörleg miðað við þá tækni sem fólk beitir við myndatökur af gosinu í Fimmvörðuhálsi með aðdráttarlinsum og mikilli ljósnæmi. En hvað um það, að horfa á þennan öskumökk kemst maður ekki hjá því að skynja að þarna er um að ræða mökk sem er afskaplega mettaður af þéttum efnum. Gosið hófst 12. október.

Kötlugos 1918
Og þó að þetta sé sama mynd sem búið er að lita býst ég við að það sé gert af kunnáttu. Þessi mökkur er mun meira uggvænlegur en sá fyrri. Næsta Kötlugos á undan þessu átti sér stað 1860, sjö árum áður en hann Stefán Þorvaldsson afi minn fæddist. Það var því engum í fersku minni hvernig Kötlugos litu út. Það segir um tjón af gosinu 1918 að það hafi verið óverulegt og áttu einungis nokkrir fótum fjör að launa.

Það er mikill endemis kraftur í þessu gosi ef marka má myndina.
Þessi mynd er alveg skuggaleg og þó að hún sé ekki merkt Kötlu er hún í hópi mynda af Kötlu á netinu. Ég get að vísu ekki hlaupið hratt nú á tímum en ég held að ég mundi fjárfakornið reyna það ef ég væri nálægt svona ófögnuði þegar hann ryddist upp úr jörðinni. Það er eins og reyk- og öskumekkirnir á Fimmvörðuhálsi séu mikill barnaleikur hjá þessum mekki.

Vorið 1955 var ég á leið heim af sundnámskeiði í Seljavallalaug. Það var auðvitað Ford rúta með gírkassahljóði frá Brandi Stefánssyni sem þá annaðist áætlunarferðir austur um Suðurland og bílstjórinn var Jóhannes sonur hans, Jói Brands. Á þeim árum hlykkjaðist vegurinn niður austanverða Höfðabrekkuheiði og nákvæmlega þegar niður var komið tók við gamla brúin yfir Múlakvísl. Ég var mikið kvefaður eftir sundnámskeiðið en samt var þetta ferðalag mikið ævintýri og skemmtilegt. Ég tel mig muna vel eftir ferðinni niður heiðina og eins yfir mjóa brúna. Þegar komið var yfir brúna tók við nokkur aflíðandi brekka upp á sandinn austan megin og þegar rútan var komin upp þessa brekku og út á sandinn kom á móti okkur fólksbíll að austan.

Síðan er ekkert meira um ferðina að segja fyrr en rútan var að keyra heim að Klaustri að þá tók fólksbíllin fram úr rútunni og stoppaði fyrir framan hana. Bílstjórinn kom með miklu fasi að rútunni og það var eitthvað meiri háttar svakalegt að segja frá. Rétt eftir að hann mætti okkur og kom að Múlakvísl var þar engin brú. Vegurinn bara endaði í jaðrinum á ægilegum leirlituðum vatnsflaumi og lengra komst þetta fólk ekki. Trúlega hefur fólkið í þessum bíl virt ósköpin fyrir sér um stund fyrst þau náðu okkur ekki fyrr en í heimreiðinni að Klaustri. Eftir þetta var Mýrdalssandur mikill farartálmi þar sem vatn flæddi víða um sandinn og lengi. Voru þá tíðar flugferðir austur yfir sand og lent mikið að mig minnir á flugvelli á söndum neðan við Foss á Síðu. Hertrukkar voru einnig fengnir af Keflavíkurflugvelli sem önnuðust hluta af samgöngunum.

Þetta var vorið sem ég varð 13 ára og fannst mér svolítið sem ég hefði orðið maður að meiri að lenda í þessari síðustu ferð um Höfðabrekkuheiði. Hátt í 30 árum seinna fór ég á Fólksvagen bjöllu til að skoða gamla veginn niður Höfðabrekkuheiði, og fór hann líka, og var þá allt ósköp líkt því sem minnið hafði sagt mér annað en það að engin var brúin. Að því er mér skilst er talið vafamál að þetta hafi verið eiginlegt Kötlugos. Ég hef hér haft lítils háttar eftir Ara Trausta Guðmundssyni.

Aumingja ég

Þegar ég er spurður hvernig ég hafi það svara ég að ég sé hraustur eins og stráklingur og hressari en en ég hef verið í áratugi eða ég veit ekki bara hvað. Í gær gerði ég áætlun um að fara út sæmilega snemma og hreinsa frá sýrenurunnunum og bæta síðan á þá skít og mold. Hvað er að fara sæmilega snemma ræði ég ekki frekar. Síðan ætlaði ég að stilla af ákveðinn hlut á baðinu og að þessu loknu ætlaði ég að fara í skattaskýrsluundirbúning. Þetta með skattaskýrsluna er það leiðinlegasta sem ég geri allt árið. Það var hátíðisdagur að losa kamarfötuna í rotþróna miðað við að gera skattaskýrslu. Nú er enginn kamar lengur þannig að ég get ekki afsakað mig með því að ég verði að losa fötuna, það er ekkert annað að gera en að fara í árans skattaskýrsluna.

Að borða morgunverð er eitthvað það besta sem ég geri flesta daga. Þegar ég var búinn að finna til morgunverðinn og setja heitt te á matborðið fór hann Lars eldri framhjá á fergusoninum sínum með skúffuna aftan á, svona skúffu eins og Hríseyingar nota á dráttarvélarnar sínar þegar þeir skreppa niður að ferju eða í búðina. Í skúffunni hafði Lars vegamöl.

Þá var ekki annað að gera en snúa sér að vegagerðinni. Ég lagði morgunverðinn til hliðar og klæddist stígvélum og vinnujakka og tók með mér derhúfu og vinnuvetlinga. Við ætluðum að holufylla malarveginn heim til okkar af aðalveginum og það er þannig að þegar einhver einn tekur af skarið og byrjar, þá koma venjulega aðrir á eftir. Ég skálmaði síðan á eftir Lars með skóflu og gekk rösklega. Þegar ég tók fram úr Stínu nágranna hafði hún orð á því að henni hefði fundist sá sem kom á eftir henni hefði haft svo létt og snaggaralegt fótatak. Þetta gladdi mig svo að ég gleymdi því að vinnudagskrá dagsins hefði hrunið til grunna um leið og ég sá Lars fara framhjá á gráa Fergusoninum.

Síðan slóst Lars yngri í hópinn og Per tróð fram með garðhrífu, breiða skóflu og sígarettu í munnvikinu. Per er sá eini í þessum hluta Krekklingesóknar sem reykir. Nokkru síðar kom svo Lennart smiður og ellilífeyrisþegi og var nú vegagerðarhópurinn veglegri en nokkru sinni fyrr síðan við Valdís komum á svæðið árið 2003. Segi ég nú ekki meira af vegagerð fyrr en að um tveimur tímum síðar var verkinu lokið. En það var ekki nóg með það, mér var eiginlega öllum lokið líka.

Ég fór heim, hitaði nýtt te og hófst þar með morgunverður minn. Valdís var þá byrjuð á meiri háttar matargerð og útbjó það sem við köllum Kjötkökur Valdísar og eru nú nokkrar máltíðir af þessu tilbúnar í frystinum. Ég ætlaði að hvíla mig aðeins í djúpum stól eftir morgunverðinn en ég hreinlega steinsofnaði. Þegar ég vaknaði af værum blundi var ég kominn með skelfilegar harðsperrur og varð að viðurkenna að ég hef lifað full þægilegu lífi undanfarna mánuði. Að flytja hefur bara verið árans dútl með hluti fram og til baka og hefur ekki reynt á mig og vinnan í Vornesi hefur heldur ekki stælt líkamann. Nú verð ég að taka á honum stóra mínum enda mikil vorverk og byggingarvinna framundan.

Vinnunni við runnana er lokið og þeir munu þakka fyrir sig á næstunni. Það er spáð upp í 14 og 15 stiga hita næstu daga. Vinnunni á baðinu er slegið á frest til morguns ásamt skattaskýrslugerðinni. Að loknu þessu bloggi ætla ég að lesa mér svolítið til um Költugos. Kannski hafnar það á blogginu líka ásamt myndum sem ég hef fundið af Kötlu gömlu. Ég býst við að segja áfram að ég sé hraustur eins og smástrákur enda líður mér betur en á mörgum liðnum árum. Sumir segja meira að segja að ég sé orðinn svo spengilegur og þegar Guðjón frá Kálfafelli heyrir að hann sé spengilegur verður hann glaður. Hér með er lokið dagbókargerð dagsins.

Umhyggjan, sorgin og hamingjan

Strax eftir að við höfðum borðað byrjaði mjög áhrifamikill þáttur í sjónvarpinu. Við fórum beina leið frá matarborðinu og að sjónvarpinu og frágangurinn fékk að bíða.

Fyrir einum átta til tíu árum horfðum við af kostgæfni á þáttaröð í sjónvarpi um andlegheit. Tveir menn voru leiðandi í þessum þáttum. Það var Martin, eldri maður og fyrrverandi biskup, og það var Tomas, prestur á fertugs aldri. Þeir voru oft glaðir, brostu, hlógu og gerðu svolítið að gamni sínu í þessum þáttum sínum. Martin og Tomas voru menn sem við tókum eftir, það einhvern veginn var ekki hægt annað. Þeir hurfu alls ekki þó að þáttaröðin tæki enda. Einhvern veginn voru þetta menn sem höfðun alltaf eitthvað að segja og það var athyglisvert að fylgjast með því sem þeir höfðu að segja.

Svo kvisaðist það út að næst elsti sonur Tómasar var mikið veikur. Hann hafði einhvern rýrnunar- eða hrörnunarsjúkdóm og var ekki hugað líf. En það nægði ekki með að þessi sonur væri veikur og ætti ekki afturkvæmt. Yngsti sonurinn var einnig byrjaður að sýna einkenni sama sjúkdóms. Síðan fréttum við að Jónas sonur Martins fyrrverandi biskups hafði fæðst með heilaskaða. Hann var dæmdur til að verða aldrei eðlilegur maður.

Kem ég þá aftur að þættinum sem við horfðum á strax eftir kvöldmatinn. Þessir tveir menn voru áhrifapersónurnar í þættinum og lýstu ótrúlega vel lífsreynslu sinni. Þeir eru vinir og það var greinilegt þegar við sáum þá í þáttunum fyrir mörgum árum að þeir voru þá þegar góðir vinir. Þeir skrifast mikið á og spyrja, spyrja kannski ekki til að endilega fá svör, heldur til að láta hvorn annan vita að spurningarnar séu fyrir hendi.

Í dag er eldri sonur Tomasar, sá sem varð fyrst veikur, dáinn. Hinn sem var tólf ára þegar þátturinn var unninn situr í hjólastól og er langt leiddur. Ég veit ekki almennilega hvernig hann hefur það, sagði Tómnas, en stundum finnst mér sem ég sjái skelfinguna í augum hans. Sonur Martins sem er orðinn maður á miðjum aldri býr ennþá hjá foreldrum sínum. Hann fæddist á aðfangadagskvöld sagði Martin frá og einnig að hann væri besta jólagjöfin sem þau hefðu fengið. Martin var heldur ekki viss um það hvernig syni hans liði en sagði að stundum virtist sem sonurinn skynjaði mikla fegurð. Hann var enn í foreldrahúsum. Þeir fóru oft í gönguferðir og það var vilji sonarins, hann lét vita þegar hann vildi ganga. Þeir leiddust hönd í hönd eins og faðir og lítill sonur sem er í þörf fyrir nálægð og styrk á göngunni. Hann sagði aldrei orð. Einhvern tíma verður Jónas einn eftir og ég held að það hafi verið hið þunga áhyggjuefni Martins og einnig að sonurinn gerði sér grein fyrir þessu líka. Að lokum verður hann einn eftir í fjölskyldunni.

Þessir tveir prestar voru ekki bitrir eða reiðir. En sorgin virtist hafa mótað þá og trúarlegar vangaveltur gefið þeim kraft. Þeir brostu aldrei í þættinum eins og þeir gerðu í þáttunum sínum í gamla daga. Spurningar þeirra hvor til annars og tilraunir þeirra til að ræða þær höfðu byggt þá báða upp. Það var mikið sem hafði byggt þá upp og ég vil bara segja, hvílíkur mannlegur og andlegur þroski. Kona Tómasar var líka þátttakandi í þættinum en kona Martins sást bara einu sinni.

Að þættinum loknum sagði Valdís; þetta var hrærandi. Já, það var svo hrærandi að mér fannst sem maginn í mér hefði hætt störfum og strengur af harðsperrum lá þvert yfir mig neðan við bringsbalirnar.

Páskar 2010

Nú eru okkar fyrstu páskar á Sólvöllum sem heimili. Við vorum seint á ferli í morgun, svo seint að við tókum morgunmatinn með okkur inn að sjónvarpi. Hugsið ykkur ef fólk mætti í kirkjuna með morgunverðinn sinn og sæti þar og muðlaði á kræsingunum undir messu. En svona getur það litið út á okkar heimili. Að hugsa sér!

Messan var reglulega fín. Hún var send út frá Luleå sem er eina 800 km fyrir norðan okkur í beinni loftlínu. Þetta var afar falleg messa og vandalaust að einbeita sér að því að horfa á hanna og hlusta. Hár og stæðilegur prestur með mjög fallega söngrödd þjónaði fyrir altari í byrjun en allt í einu birtist á skjánum yngri kona sem við giskuðum á að væri bæði frá Suður-Ameríku og Sri Lanka. Við komumst ekki að niðurstöðu um þetta enda skaðaði það ekki messuna. Hún steig í predikunarstólinn og þegar hún hafði talað um stund bað hún barnakór að koma fram og syngja um það sem hún hafði verið að tala um. Svo hélt hún áfram og hafði fallegan páskaboðskap fram að færa.

Nokkru síðar stóðu þau hlið við hlið, hún og mannlegi presturinn, og hún var ekki svo mikið minni en hann. Hún náði honum í eyra. Svo gengu þau fram fyrir altarið og hún steig greinilega niður af þrepi. Svo þegar þau stóðu hlið við hlið framan við altarið náði hún manninum varla í öxl. Hún gerði sem sagt eins og tónlistarmaðurinn Kalli frá Úrsa sem stundum stendur á goskassa til að vera ekki svo mikið minni en allir aðrir. En án þess að gera nokkuð grín, þessi kona var alveg frábær og ég bar líka virðingu fyrir mannlega prestinum sem gaf henni eftir svo mikið af messunni. Einhverjum finnst þetta kannski óþarfa athugasemd en sannleikurinn er bara sá að það hefði ekki öllum tekist svo vel að gera það.

Eitthvað í messunni minnti mig á orð nítján ára gamallar konu í Vornesi eitt sinn. Við sátum grúppu og lásum annað sporið í sporabókinni sem fjallar um að trúa á eitthvað. Þetta er bara svo einfalt, sagði hún, það er einfaldast að trúa bara á Guð og það gera það svo margir. Hins vegar er það svo að þegar það fjallar um að trúa á Guð, þá verða svo margir skræfur og þora ekki að viðurkenna það.

Já, þannig er það. Unga fólkinu í Vornesi hefur svo oft tekist að láta falla klók orð af munni og þessi orð eru ekkert einsdæmi þar. En uppi í Luleå hélt messan áfram og fólk gekk til altaris. Undir altarisgöngunni var leikin tónlist eftir Duke Ellington. Það var að vísu Valdís sem veitti því athygli. Organistinn var virkilega lifandi maður og stundum flaug hann til á orgelstólnum og hann sveiflaði hendi frá nótnaborðinu og upp í takkaborð við hliðina, niður á nótnaborðið aftur og áfram hélt orgelleikurinn. Í vissu sjónarhorni yfir öxlina var þessi orgelleikari líkur honum Sigurði mági mínum í Völvufellinu í Reykjavík. Það var líka Valdís sem fyrst tók eftir þessu. Af hverju er hún svo oft á undan?

Snjórinn minnkar og þegar ég lít út í skóginn finnst mér sem snjóflekkirnir hafi minnkað síðan í morgun. Snjóhaugurinn undir austurglugganum á herberginu okkar nær núna bara upp undir glugga í staðinn fyrir næstum því upp á miðjan glugga áður. Það er að vísu minnst sólskin á þessum glugga. Við vorum búin að tala um að skreppa inn til Örebro en núna erum við að hugsa um að gera það frekar á morgun en fara þess í stað út og svipast um hér í kring, þá auðvitað á tveimur fjafnfljótum. Annars vitum við um góðgerðir í húsi við Kristnibrautina í Reykjavík. Ég held að þar angi hamborgarhryggur ásamt fleiru meiri háttar góðgæti. Nei, við verðum að eiga það inni.

Elgur, elgur

Það er nú meiri róin sem hvílir yfir Sólvallaheimilinu. Veðrið er á batavegi og meira að segja sat Valdís úti og las bók á tímabili í dag. Fyrri partinn tókum við í algerum rólegheitum en eftir hádegi gekk ég út í skóg með exi, hæla og snæri eins og ég gerði í gær. Það var fljótlega eftir það sem Valdís fór út með bókina og það þótti mér ekki leiðinlegt.

Ég veit ekki almennilega hvað ég á að segja um veru mína í skóginum en ég gerði ýmsar uppgötvanir þar í dag. Þegar við felldum grenitrén í húsbygginguna hér um árið óttaðist ég svolítið að öspin mundi vaða yfir allt og verða óviðráðanleg. En sannleikurinn er sá að það er eikin sem er duglegust við að nema landið. Svo eftir því sem snjórinn hverfur sé ég bara meira og meira af elgsskít og ég finn líka fleiri og fleiri eikarplöntur sem elgurinn hefur notað sér til framfærslu. Ég sé fyrir mér hvernig það mundi líta út ef einir 200 fermetrar af skógarsvæðinu væru þéttvaxnir eikum sem væru svo sem tveggja til fjögurra metra háar. Það væri ekki leiðinlegt að vera á ferðinni snemma á morgnana og ganga inn í svoleiðis svæði þegar sólin væri á leiðinni upp og geislar hennar smygju gegnum laufþykkni hærri trjáa og niður á þennan ímyndaða eikarlund. Ég get lofað að það væri notaleg byrjun á degi.

En ef fram fer sem horfir núna verður það ekki nema ein eikarplanta af tíu eða svo sem mun komast til vits og ára. Hann Jónas nágranni okkar sagði mér í dag að fjórir elgir hefðu verið heimilisfastir hér í vetur. Hann hefur meira opið svæði bakvið húsið en við og sér því meira til þeirra. Við erum líka svo nýlega orðin heimilisföst hér og höfum minna fylgst með. Þrátt fyrir þetta er gaman að hafa þessi dýr svo nálægt en við verðum að læra að mæta því.

Á morgun verður mótorsögin tekin út og nokkur tré verða felld. Það er gott fyrir mig að segja það núna því að þá á ég erfiðara með að slá því á frest á morgun.

Maður gekk út að sá og kona að slá

Ég var í óttalegum vandræðum með mig í morgun. Ég snerist í kringum sjálfan mig og hafði fjölda mörg verkefni til að snúa mér að en ég hreinlega gat ekki ákveðið mig. Mér fannst ég ekki geta farið í þetta vegna þess að annað væri mikilvægara og þetta annað gat ég ekki farið í vegna þess að ég var ekki alveg ákveðinn í hvernig ég ætlaði að framkvæma það. En þá var það hitt og það gæti ég auðvitað gert, en nei, ég mundi ekki klára það í dag og þá væri asnalegt að byrja. Ég er að segja alveg satt. Svo kom Annelie vinkona Valdísar í heimsókn og þá fann ég mér ástæðu til að hanga í kringum þær og bulla einhverja vitleysu.

Maður að nafni Guðmundur Ragnarson kommenteraði á blogginu mínu fyrir nokkru og sagði að ég væri svo duglegur við að drífa mig í að framkvæma hlutina. Síðan lýsti hann því sem hann hefði skoðað í sumarbústaðnum sínum upp í Borgarfirði, það er að segja atriði sem hann þurfti að framkævma þar, og honum hefði vaxið það svo í augum að hann hefði bara farið heim og helst viljað leggja sig. Það var einmitt þetta sem ég upplifði í dag. En ef ég hefði lagt mig hefði ég orðið mjög óánægður með mig.

Ég er búinn að vinna mjög mikið í Vornesi undanfarið og kannski ætti ég ekki að vera svo óánægður með einn aðgerðarlausan dag. En ég vil heldur hafa aðgerðarleysið á morgun, föstudaginn langa, eða þá á páskadag. En nú skeði nokkuð skrýtið um hálf fjögur leytið í dag. Ég fór út í skóg með snæri, hæla og skarexina sem hann Kristinn dóttursonur minn færði mér í hitteðfyrra. Með skarexinni hjó ég börkinn af einum tólf trjám sem þarf að fella vegna ess að þau eru of þétt eða vansköpuð vegna þrengsla. Við viljum ekki fá hundrað rótarskot frá þessum tólf trjám sem vel gæti átt sér stað ef ekkert er gert til að koma í veg fyrir það.

Þegar vinnunni með exina lauk fór ég að binda upp minni tré og plöntur sem lögðust illa undan snjónum í vetur. Það er enn mikilvægara vegna þess hve fjórfætlingarnir voru duglegir við að bíta ofan af þeim. Ég fann tveggja metra háa eik í dag og toppurinn var bitinn af henni. Sennilega hefur hún lagst undan snjóþyngslum og þar með verið auðveld bráð.

Nú þarf ég ekki að velta fyrir mér hvað ég geri næst. Ég ætla að halda þessu áfram alla vega einhvern dag í viðbót. Svona nauðsynlegum verkefnum sinnti ég alls ekki í fyrravor vegna þess að ég var að flýta mér við að koma nýju herbergi í gagnið. Svo þegar verður heldur þurrara þarf ég að fella nokkur tré til að grisja, til að fá í eldinn og til að fá pláss fyrir þvottasnúru bakvið húsið og einnig slá til að geta viðrað og pískað mottur. Það er mörgu að sinna í sveitinni og ef fram fer sem horfir hef á ég þriggja vikna frí fram undan. Ég er hins vegar orðinn vanur því að svoleiðis lúxus standist ekki en ég held að ég hefði mjög gott af fríi núna.

Svo eru hér tvær sumarmyndir í tilefni þess að vorið er framundan.

Maður gekk út að sá
Maður fór út að sá . . .

Og svo fór kona út og sló grasið
Nokkrum vikum síðar fór kona út og sló grasið sem kallinn hafði sáð fyrir.
RSS 2.0