Dyggðir hins grandvara manns

Ég held að ég verði að byrja á því að nota myndir til að færa mig nær því sem ég vil segja með þessu bloggi mínu.

Valdís í stöðu vélstjóra
Áhaldið sem Valdís er að vinna með þarna köllum við kvörnina. Að fella tré er lítið verk en að taka höndum um greinarnar er töluverð vinna. Að hreinsa þær af stofninum, að draga þær á einhvern ákveðinn stað, og hvað skal svo gera við þær. Við getum flutt þær á haugana, eða brennt þær upp, en við veljum að mala þær í kvörninni.

Afurðir sem fara til baka í skóginn aftur
Svo líta afurðirnar svona út.

Í dag, laugardaginn 24. apríl, höfum við verið að mala greinarnar eftir grisjun vorsins og flytja þær þannig út í skóginn aftur. Við notum þær til að fylla í og laga gönguslóðir og um leið verða þær að nýjum jarðvegi fyrir áframhaldandi trjágróður. Sama gerum við við öskuna frá kamínunni, við dreifum henni um skóginn þar sem hún verður vítamín og míneraler framtíðarinnar. Þannig eigum við góð samskipti við skóginn. Í staðinn skýlir hann okkur fyrir norðlægum, austlægum og suðaustlægum áttum og skógur er líka samofinn opnu svæðunum og akurlöndunum vestan við okkur. Hann hitar upp húsið okkar, gleður okkur með laufskrúði sínu á sumrin og kristalveröld í snjó og frostum á vetrum. Hann er frábær til útivistar og að lokum; þegar líður á sumarið gefur hann okkur fullt af berjum. Þetta er ekkert smáræði og ég held bara að þetta geti kallast sjálfbært eitthvað.

Við gætum líka notað skóginn á allt annan hátt. Við gætum fellt fjölda trjáa sem við gætum selt til vinnslu og annað gætum við selt sem eldivið. Þannig gætum við hæglega klárað þennan litla skóg á einu ári, eða kannski tveimur, og eftir stæði alveg óhemju óhrjálegt svæði og nokkrar krónur einhvers staðar. Nýlega sá ég skrifað að "kristin siðfræði býður okkur að vera ráðsmenn guðs í þessu ríki. Ekki með yfirgangi, heldur til að viðhalda því af skynsemi og með hluttekningu". Hvort sem við erum trúuð eða ekki, þá býr það í flestum okkar trúi ég að svo eigi það að vera en þrátt fyrir það er svo oft erfitt að fylgja því eftir.

Ólína Þorvarðardóttir alþingismaður var við skátamessu á Ísafirði á sumardaginn fyrsta. Hún var virkur skáti á árum áður. Eftir messuna skrifaði hún hugleiðingar sínar og meðal annars þetta: "skátalögin kveða í raun á  um dyggðir hins grandvara manns". Ég hreifst af þessu. Við keyptum ekki Sólvelli af því að við værum rík. Við keyptum vegna þess að við sáum fram á að við gætum unnið heiðarlega fyrir því og þess vegna vorum við svo ánægð í dag þegar Valdís hengdi upp þvott á snúru í fyrsta skipti síðan 1993. Og ekki vorum við minna ánægð þegar við brutum saman þvottinn undir kvöldið og hann var mjúkur og ilmaði svo þægilega. Ég vona að okkur takist að lifa samkvæmt dyggðum hins grandvara manns, bæði fjárhagslega og í umgengni við umhverfi okkar. Þannig búum við framtíðina sem best í hendur barnabarnanna okkar.

Valdís er að hengja upp þvott á alvöru snúru í fyrsta skipti síðan 1993
Snúran var bæði keypt og sett upp í gær og Valdís vígði hana í dag. Það var alveg ótyrúlega gaman að sjá þvottinn blakta á snúrunni í dag og ég segi fyrir mitt leyti að mér fannst ég ekki vera ári eldri en 35 ára þegar ég horfði á þetta, þetta var svo gaman. Sólin og útiloftið hefur gert okkur gott í dag og nú er mál að byrja að hvílast fyrir morgundaginn svo að við getum tekið við meiru útilofti á morgun.


Kommentarer
Þórlaug

Takk fyrir bloggið þitt Guðjón, einu sinni enn vil ég segja hvað mér finnst gaman að lesa það og sjá myndirnar sem þú setur með.

Bestu kveðjur í sveitina til ykkar.

Þórlaug

2010-04-25 @ 00:20:58
Guðjón

Þakka þér fyrir Þórlaug mín, það er gaman að þú lest bloggið mitt. Með bestu kveðju til ykkar Jóhanns frá okkur Valdísi.

2010-04-25 @ 00:32:09
Rósa

WOW! Flottar snúrur!



Kveðja,



R

2010-04-25 @ 20:23:13
Guðjón

Já Rósa, þetta eru flottar snúrur, valdar af kostgæfni í K-rauta

2010-04-25 @ 20:39:21
Dísa gamli nágranni

Alveg finn ég þessar tilfinningar sem þú lýsir svo fallega Guðjón,með vinnsluna íá skóginum og svo blaktandi þvottinn og ilmandi á snúrunum.

Bestu kveðjur

2010-04-26 @ 20:01:29
Guðjón

Já Dísa, þetta með snúrurnar voru ótrúlegar framfarir. Finndu bara lyktina sagði Valdís og rétti mér jakka sem hún hafði þvegið og þurrkað í dag. Þið komið einhvern tíma Dísa og gangið um skóginn með okkur.

2010-04-26 @ 21:48:52
Dísa gamli nágranni

'Eg ætla rétt að vona það að við eigum það eftir.

Við gætum kanske orðið að gagni.

Kveðja

2010-04-26 @ 23:36:17
Guðjón

Já Dísa gamli nágranni, þið gætuð svo sannarlega orðið að gagni. Bara að ganga um og rabba um hlutina er nokkuð sem kemur að gagni.

2010-04-27 @ 20:34:46


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0