Gestakoma á Sólvöllum

Það eru gestir á Sólvöllum. Það er mest þegar gestir koma þangað sem grillið er tekið fram og hér eru myndir frá einum slíkum degi. Það þarf enga skýringatexta við myndirnar annað en að þarna eru Rósa og Pétur á ferð í síðdegissólinni á Sólvöllum.





Það mjakast

Hér eru fjórar myndir úr byggingasögu sveitasetursins Sólvalla (naumast grobbið). Texti er undir hverri mynd.


Það eru tíu mánuðir síðan þessi mynd var tekin og þá gistu Rósa og Pétur á Sólvöllum. Að kvöldi byrjuðum við að smíða þetta borð og svo héldu þau áfram en við Valdís fórum heim. Þegar við komum á Sólvelli um morguninn var borðið tilbúið og þau ánægð með gott verk. Þetta borð er búið að gera mikið gagn enda náðist af því upp í mæni. Svo var alveg rosalega gott að geyma allt mögulegt á þessu borði og það var engin hætta á að smiðurinn ég dytti úr tröppu eða stiga. Borðið stóð vel fyrir sínu.



Þessi mynd er tekin sama dag og myndin af borðinu var tekin og sýnir að hér er bara verið að byrja verk. Reyndar er enn verið að rífa innan úr þakinu yfir gamla húsinu.



Nú eru nýir tímar og borðið er búið að þjóna vel og Valdís beitir hvatvíslega á það kúbeini. Nú er búið að jafna þennan þarfa þjón við jörðu ef svo mætti segja. En -hver einasta spýta og plata úr því er geymd á vísum stað ef við skyldum vilja nota það við frekari byggingarframkvæmdir. Hveir veit hverju við getum tekið upp á.



Að lokum; þessi mynd er tekin af svipuðum stað og næst fyrsta myndin þar sem sér upp í hrátt þakið. Mér leiðist ekki þegar ég ber þessar tvær myndir saman. Í dag var líka opnað dyraopið inn í gamla húsið. Á myndinni sést hvar þetta dyraop á að koma. Það var heldur ekki leiðinlegt þegar gamla spónaplatan losnaði og við sáum á milli gamla og nýja hlutans. Það eru bara farnar að vera vegalengdir í Sólvallahúsinu. Það er svalahúrð á þessu herbergi líka og hana höfum við notað fram að þessu til að komast út og inn í þetta herbergi.

Það er vestan andvari og væta í lofti. Þessi júní er sá kaldasti í Svíþjóð í afar mörg ár en í maí voru sumarhlýindi. Þegar líður á vikuna (en nú er sunnudagur 14. júní) er svo spáð hlýnandi veðri á ný. Við íslendingarnir erum svo sem ekkert krumpnir vegna þessa veðurs. Við höfum lifað kaldari júnímánuð en við erum að upplífa núna Landið er óvenju grænt vil ég segja og þegar hlýnar hlýtur að verða einmuna fallegt.

Að vinna á ný

Hann Anders rafvirki var á Sólvöllum í dag og árangurinn var innstungur, rofar, dimmir, útiljós, ofnar og frágengnar tengidósir. Hann er röskur kall Anders. Hann er bara svona kall eins og ég, 64 ára og nálgast ellilífeyri. Sólvellir eru eitt af seinustu verkunum hans eða þannig að hann byrjar ekki á nýjum verkefnum hér eftir. Honum fannst í dag að við íslendingarnir værum ansi glaðir á innstungur en hann fékk þá skýringu á fyrirbærinu að okkur íslendingum væri illa við liggjandi snúrur um allt. Eitthvað hef ég talað um Anders áður en til að ljúka kynningunni á honum, þá vil ég segja frá samtali þegar við töluðum um ellilífeyri. Hann sagði að konan hans hefði oft talað um að hún mundi fá svo lítinn ellilífeyri þar sem hún hefði verið svo mikið heima og oftast unnið aðeins hálft starf. Svo sagði Anders; en ég hef svo oft sagt henni það að ellilífeyrinn minn og ellilífeyrinn hennar, það eru peningarnir okkar og svo engar áhyggjur af því meir. Mér fannst þetta voða sætt sagt af honum.

Í dag gleymdi ég því ekki að ég er 30 % sjúkraskrifaður af sjálfum mér. En mér fannst nú pínulítið að ég væri svo góður í fótunum þegar leið á daginn að ég gæti alveg haldið áfram. Hins vegar gerði ég mér grein fyrir því að ég væri góður í fótunum vegna þess að ég hefði farið betur með mig. Svo leit ég bara yfir árangur dagsins og svo var störfum lokið. Frá Sólvöllum langaði mig ekki. Helst hefði ég viljað fá mér stóran bolla af tei og stóra jólaköku, setjast síðan út á veröndina og hlusta á kyrrðina og gróðurinn vaxa, svo ég nú tali ekki um að vera með öllu þessu græna þegar kvöldaði. En það er ekki til setunnar boðið því á morgun um tíu leytið fer ég í vinnu og er þar með byrjuð all hörð vinnutörn sem stendur fram til ágústloka, þó með tveimur níu daga fríum auk að sjálfsögðu venjulegra frídaga.

Hér fyrir neðan eru tvær myndir frá erli dagsins


Tveir bitar í herbergisloftinu voru farnir að stinga í augu þar sem ekkert hafði verið borið á þá. Nú eru þeir búnir að fá fyrri umferð að málningu sem er sérstaklegas gerð fyrir óheflaðan við og það var nú ansans munur.


Hún slær ekki slöku við þessi kona. Þegar batteríið í rafmagnsorfinu hennar er orðið full hlaðið er hún komin í gang á ný. Það er gott að fjarlægja svona óræktargróður frá húsinu því að óvelkomnir gestir fjarlægjast þá að sama skapi. (má þar nefna slöngur og mýs sem eru þó alls ekki ljót dýr en óvinsæl undir rúmum)

Fallegir dagar

Ég vann við málningu á Sólvöllum í dag. Valdís hins vegar saumaði út, prjónaði og sá mér fyrir mat sem gerir mér mögulegt að halda áfram. Ég var að mála glugga- og dyrakistur ásamt gereftum og notaði olíumálningu. Ekki get ég sagt að ilmurinn hafi verið indæll, heldur að mér hafi verið hálf óglatt. Hins vegar var árangurinn alveg með ágætum og mér fannst þessi áfangi vera í meira lagi stór. Við skruppum heim þar sem Valdís ætlaði á tónleika í kirkjunni og svo þurftum við að kaupa smávegis þar sem rafvirkinn ætlar að koma á morgun. Þegar heim var komið var ég þreyttur og næstum önugur innra með mér og sá ekki alveg tilganginn í öllu umstangi okkar. Svo gerði ég klárt að elda mat sem átti að vera tilbúinn þegar Valdís kæmi heim úr kirkjunni. Því næst hlóð ég myndum inn á tölvuna, myndum sem teknar hafa verið á nokkrum síðustu dögum. Þegar ég fór að skoða þessar myndir breyttist allt. Oj, oj, oj, þarna kom bara hver myndin annarri magnaðri. Sólvellir urðu allt í einu eitthvað meira meiri háttar en mér hefur fundist lengi og ólundin rauk út í veður og vind. Gaman, gaman. Ég valdi myndir til að setja inn á bloggið og fannst sem ég yrði að velja margar, margar myndir en endaði þó á þremur sem eru hér fyrir neðan. Svo sauð ég kartöflur og norskan lax og svo kom Valdís úr kirkjunni og við borðuðum.

Eitt enn gerði ég meðan ég var heima. Ég tíndi fram alla launamiða sem tilheyra þeim greiðslum sem ég fæ í Svíþjóð. Ég nefnilega þarf að senda tryggingarstofnun tekjuupplýsingar vegna umsóknar um ellilífeyri frá íslandi. Svona þykir mér leiðinlegt en það er ljómandi gott þegar það hefur verið gert. Umsókn um ellilífeyri frá Íslandi barst tryggingastofnun eftir miðjan mars og er enn í vinnslu og verður sýnist mér eitthvað áfram. En ég segi Valdísi að mér liggi ekkert á því að við höfum nóga peninga. Svolítil mannalæti, en þó að ég eigi þegar að vera farinn að fá greiðslur, þá veit ég að ég fæ greitt til baka samkvæmt öllum reglum og réttlæti

En nú skil ég ekki hvað ég er eiginlega að nudda út af þessu með eillilífeyrinn. Ég ætla að snúa mér að því að setja texta við myndirnar.


Þessi mynd af útsýninu til vesturs frá Sólvöllum. Hún er birt oft á ári, bæði í
blogginu mínu og í myndunum hennar Valdísar. Okkur finnst þetta útsýni
vera ríkidómur. Og svo fékk úrkomumælirinn að vera með.


Við erum stolt af þessari alparós. Ég gekk hringinn i kringum hana í dag og
Svo taldi ég blómin á örlitlu svæði hérna megin en gafst fljótt upp. Síðan
giskaði ég á að blómin væru milli 500 og 1000. Reynið ekki að telja þar sem
það sem virðist vera eitt blóm á myndinni getur verið mörg. Hæðina á alpa-
rósinni getið þið áætlað þar sem Valdís er 170 sm há.


Voða voru gluggarnir ásamt umbúnaði fínir. Ég kannski lýsi ekki af gleði á
myndinni en ég var mikið ánægður.

Að sjúkraskrifa

Sjúkraskriftina sem ég setti á mig um hádegi í gær rauf ég seinni partinn í dag. Ástæðurnar voru tvær. Annars vegar var Óli lokbrá hér svo mikið í nótt að við sváfum heila níu tíma. Svo var annað að ég var að vinna óþrifalegt verk og vildi klára það og fara svo í sturtu og skola af mér miklu af pússryki. Nú er það búið og sjúkraskriftin frá í gær er gengin í gildi á ný. Það er þjóðhátíðardagur í dag en ég hef samt verið í málningarvinnu. Valdís hefur verið með rafmagnsorfið á lofti og snyrt kringum okkur og svo hefur hún verið í kringum mig að koma reiðu á óreiðuna sem alltaf skapast milli áfanga hjá mér.

Maður niður í Smálöndum spjallaði við mig í gær og talaði um mikla rigningu þar niðurfrá. Ég sagði honum að okkur vantaði rigningu og hann brást vel við og sagðist skyldi senda nóg af rigningu hingað. Hann vildi fá sól. Hún verður komin til þín í fyrramálið sagði hann í gærkvöldi. Núna um níu leytið í kvöld kom svo þessi vel þegna rigning en það hefur þó ekki rignt nema þrjá millimetra ennþá. Við vonum það besta og að það verði dásamlegur gróðrarilmur sem berst inn þegar við opnum út í fyrramálið. Að þeim orðum skrifuðum lýk ég þessu og segi góða nótt.

Fallegt kvöld

Sólin skín á vesturhliðina á Sólvöllum og á skógarhliðina sem að húsinu veit. Það er kyrrt hér í sveitinni og gaukurinn er kominn í gang með sitt go-gú, go-gú og nokkrir þrestir leita sér fæðu í grasinu. Ég auðvitað ætti að vera úti og gera ekki neitt annað en bara vera þar en ég reiði mig á að það komi fleiri svona kvöld.

Í dag keyptum við parket á eitt gólf og eina hurð. Annars hef ég tekið því nokkuð rólega í dag. Ég nefnilega sjúkraskrifaði mig að hluta um hádegið. Í nótt var allur vinstri fóturinn í uppnámi og verkjaði frá tám og upp í nára. það var því dapurt með svefn. Ég var farinn að velta því fyrir mér að ég mundi ekki geta unnið í Vornesi þær afleysingar sem ég er búinn að lofa og ég sá fyrir mér að vinna við Sólvelli mundi gufa upp í ekki neitt. Ég þyrfti líka á vinnunni i Vornesi að halda til að fjármagna framkvæmdir á Sólvöllum. Það væri ekki upp á marga fiska að flytja lífeyrisgreiðslurnar á hálfvirði til Svíþjóðar, það mundi ekkii fjármagna mikið. Ég kom fram til að ég yrði að reyna að flýta mjaðmaaðgerð sem reiknað er með einhvern tíma eftir sumarmánuðina. Ekki voru þetta björgulegar hugsanir á tímabilinu eitt til þrjú í nótt. Svo velti ég mér hring eftir hring í rúminu í leit að bærilegri stellingu sem ekki fannst. Klukkan hálf fjögur byrjaði ég á æfingunum sem sjúkraþjálfarinn Elías í vestmannaeyjum kenndi mér í vor og þar að auki gerði ég líka æfingarnar sem hann René sjúkraþjálfari í Örebro hefur kennt mér. Ónotalegt var að byrja og vinstri fóturinn var rosalega þungur að lyfta honum en það smá lagaðist eftir því sem á æfingarnar leið. Eftir næstum 40 mínútur að þessum rúmliggjandi æfingum fannst mér sem ég mundi geta sofnað á ný. Smám saman tókst það líka að sofa allt að einn tíma í einu. Það var þó enginn svefn sem maður fær þegar Óli lokbrá er með í spilinu. Eftir tólf tíma í rúminu fann ég allt í einu að ég hafði endurheimt krafta mína og lífið var gott á ný.

Að loknum síðbúnum morgunverði byrjaði ég gætilega vinnu við smíðarnar í svefnherberginu. Ég velti fyrir mér þessu ástandi mínu en var þó miklum mun bjartsýnni en liðna nótt. Svo reiknaði ég út hvað ég hafði verið lengi við smíðar í gær og kom fram til að það var ekki undir tíu tímum og þar að auki hafði ég verið á fullri ferð allan tímann. Ég vissi um fólk sem er sjúkraskrifað 25 %, 50 % og jafnvel meira og þetta er gert vegna þess að fólkið hefur ekki þá heilsu og kraft sem til þarf til að vera full vinnandi og þá er átt við átta tíma vinnu á dag. Ég bíð eftir mjaðmaaðgerð og er 67 ára og held svo að ég geti unnið við smíðar tíu tíma á dag. Hvenær verð ég fullorðinn? Að vísu aldrei í þeim skilningi sem ég nota í þessu tilfelli en kannski varð ég einum þumlungi fullorðnari í dag þegar ég sætti mig við að í minni stöðu þarf ég ekki að vera að hamast við smíðar tíu tíma á dag. Í dag hef ég verið sjúkraskrifaður svo sem 30 % og ætla að vera það á morgun líka.

Ég hef svo sem enga ástæðu til að opinbera málefni mín á þann hátt sem ég geri til dæmis í þessu kvöldbloggi mínu. En ekki eru þetta heldur nein leyndarmál og bloggið er eina dagbókarfærsla mín. Í nótt ætla ég að sofa í félagsskap Óla lokbrár og vakna hvíldur á skikkalegum tíma á morgun. Valdís steikti svo gott lambakjöt og ég er vel á mig kominn. Sólin er sest en kyrrðin úti er fullkomin.
Góða nótt

Alparós og áfangar

Í kvöld stóð til að birta myndir frá Sólvöllum og fara nokkrum vel völdum orðum um lífið í sveitinni. Þetta var í fyrsta skipti sem við hlöðum myndum inn á Sólvallatölvuna sem er ferðatölva. Þar með stóðum við hjónin frammi fyrir ótal tæknilegum spurningum og vandamálum að leysa. Tíminn rann áfram miskunnarlaust eins og stórfljót sem leitar til sjávar. Loksins voru myndirnar komnar á sinn stað í Mínar myndir og þá átti að setja nokkrar myndir inn á Flickr. Þá byrjuðu tæknilegu atriðin að hlaðast upp á ný og þau leystust ekki. Að lokum ákváðum við hætta við Flickr en setja hins vegar myndir á bloggið mitt eins og alltaf stóð til. Þar með ætlaði ég að grípa til andagiftarinnar en -öll andagift var brunnin upp þennan daginn. En tvær myndir skyldu það þó verða. En viti menn! tæknin glotti enn á ný og nú verða engar myndir á blogginu mínu heldur þennan daginn.

Önnur myndin sem birta átti er af alparósinni okkar sem stendur norðan við húsið og skartar ótölulegum fjölda af blómum. Þessi alparós er þriggja metra há og um fjögurra metra breið svo að það rúmast á henni mikill, mikill fjöldi lillablárra blóma.

Hin myndin er af glugga í svefnherginu þar sem búið er að ganga frá áfellum, sólbekk og gereftum. Þó að tæknivinnan hafi mjög ögrandi á þessu kvöldi þá get ég ekki annað en sagt gaman, gaman. Einum áfanga er náð enn einu sinni.
RSS 2.0