Sunnudagurinn 21. september

Það er kannski best að stiga fram og segja eitthvað. Ég hef verið fáorður lengi miðað við það þegar ég bloggaði næstum daglega. Hvað veldur veit ég ekki, það bara er svona. En ég veit hins vegar að ég er jafnlifandi núna og ég var áður en mitt bloggandi byrjaði að dragast saman.
 
Upp úr klukkan átta þennan sunnudagsmorgun fór ég út í bílskúrinn til að mála nokkur penslilför. Það var ekki bílskúrinn sem ég var að mála heldur notaði ég hann sem verkstæði til að mála allt aðra hluti. Ég nýt þess að mála þegar ég þarf ekki að vera með sparslfötuna og sandpappír á lofti og sparslrykið smígur um allt, inn í hvert horn og undir fötin alveg inn að skinni. Að klæða viðinn í svo fínt tau og vita að vel málaður kemur til með að verja sig fyrir vatni og vindum, að hafa hljótt í kringum mig og geta látið hugann reika -jú, það er bara svo undur notalegt.
 
 
 
Og hálftíma síðar gekk ég út, tók mér hrífu í hönd hóf að raka saman laufi. Það er ekki fyrsta daginn á þessu hausti sem ég geri það, en þetta var fyrsti dagurinn á þessu hausti sem ég fann virkilega að það var haust. Loftir var rennandi blautt þó að það rigndi ekki, það var lágskýjað og það blés hægum haustvindi og það var nákvæmlega þetta haustveður sem vekur trega hjá mér, vitandi það líka að bráðum falla síðustu gulnuðu laufin til jarðar.
 
 
 
Eftir nokkur hrífudrög leitt ég á trén og skóginn og sá að aðeins einstaka lauf fannst á flestum trjánna, á öðrum trjám litfagurt haustlauf og á einstaka trjám og runnum var iðjagrænt lauf eins og á beykinu á myndinni.
 
Ég reiknaði út að það væri fimm og hálfur mánuður þangað til ég fer að ganga að vissum trjám, taka í grein og grein til að skoða brumin. Er eitthvað farið að ske? Já vissulega. Ef allt verður eins og í meðal ári veit ég að þá verða mörg brum farin að verða þrýstin, jafnvel að fá á sig grænan lit sem greina má undir yfirborðinu. Það er komið fram í apríl. Eftir það ske hlutirnir hratt og á eins og einum mánuði verður það mesta iðjagrænt. En viti menn! mánuðinn þar á eftir verður allt mikið, mikið grænna. Svo er lífið sem paradís á jörð, jafnvel þó að það geti orðið allt of heitt og þurrt.
 
 
 
Svo hélt ég áfram að raka laufi. Ég er búinn að fara margar ferðir með lauf út í skóg. Fyrst fylli ég hjólbörurnar og svo fylli ég bala sem ég set ofan á hauginn í hjólbörunum. Eftir það vel ég eitthvað tré í skóginum sem ég vil vel og þek jarðveginn kringum það með laufinu. Ég kannski veit ekki hvort ég er að gera vel með þessu en í mínum huga er ég að gera það. Þessi laufflutningur er ekki mjög nútímalegur en hér á Sólvöllum er aðferðin viðurkennd.
 
 
 
Hengibjarkirnar tvær sem ég pantaði snemma í vor komu í ágúst. Ég var búinn að gleyma því að ég hafði pantað þær. En hvað um það, ég tók við þeim og gróðursetti þær, að vísu ekki á sama stað og ég hafði ætlað mér. Þar voru þá komin önnur tré. Hengibjarkirnar voru sem sagt gróðursettar seint og nú hef ég varið rætur þeirra fyrir frosti með allt að hálfs meters þykku lagi af laufi. Ég vona að það hjálpi. Svo geri ég ráð fyrir að þetta lauf verði þeim til hjálpar næstu árin á eftir, sem næring og til að varðveita raka. Hengibjörkin á myndinni fyrir ofan sést varla þar sem hun er budninn upp við bambusstöng, þó er hún tveir og hálfur meter á hæð. Svo veikburða getur lífið verið í bernsku. En ef vel tekst til verður hun orðin nokkrir metrar eftir fimm ár. Það langar mig að geta séð þó að ég verði þá kominn yfir áttrætt. Til hægri við björkina og bambusstöngina er fuglakirsuber. Það skal hverfa í vetur og fær sem sagt ekki að vera með um vorkomuna oftar.
 
 
 
Ég hef líka sett lauf í kringum hluta af beykitrjánum sem ég flutti hingað fyrir ellefu árum og talaði um næstum daglega næstu árin á eftir. Þessi beykitré voru tuttugu en eru nú nítján. Að verja þau með laufi yfir veturinn og gefa þeim hænsnaskít snemma á vorin, var það rétt eða ekki rétt? Það var ekkert vísindalegt að baki þeim gerðum mínum en eitt er víst; þau stærstu eru orðin yfir sjö metra há.
 
Ég vissi þegar ég gróðursetti þau hér að Sólvellir eru á nokkuð norðlægri breiddargráðu fyrir beykitré. En ég var ákveðinn í að þau skyldu lifa og ég hef annast þau með hjartanu. Það virðist hafa verið þeim góð umönnun.
 
En heyrðu mig. Dagurinn hefur liðið afburða fljótt. Það hafa verið lauf og tré, málning í morgun og sjónvarpsmessa fyrir hádegi. Ég hef líka smíðað svolítið, horft á það sem ég hef gert og verið ánægður. Susanne fór í vinnu upp úr hádegi á förstudag og fer nú að koma heim og verður þá búin að skila 36 tóma vinnu um helgina. Nú á ég aðeins eitt eftir; að laga svolítið til í kringum mig -og dagurinn er þegar að kveldi kominn.
 
 
 
 
 
RSS 2.0