Skógarferð með afa

Stundum segjum við fast og ákveðið nei, nei, nei, nei! og þá þýðir það þvert nei við einhverju. Stundum segjum við nei, nei, nei nei í undrunartón eða aðdáunartón og þá hljómar það allt öðru vísi. Þannig var það hér um daginn þegar við nafnarnir fórum út í skóg, ég haldandi á honum á handleggnum og þegar ég áttaði mig á því að honum fannst þetta hinn stórkostlegasti heimur, þá auðvitað varð ég mjög glaður. Svo komum við að gríðar háum trjám og ég benti upp og sagði: nei, nei, nei, nei, sjáááðu baara! Hann horfði eftir því sem ég benti og svo fór hann að segja í sama tón og ég: nei, nei, nei, nei.

Í dag fórum við aftur út í skóg og nú höfðum við ljósmyndara með. Mamma hans var með og tók mikið af myndum sem hún svo setti á Flickr og þaðan var ég svo að taka nokkrar myndir rétt í þessu, myndir sem mér fannst alveg sérstaklega mikilvægt að heimsbyggðin ætti kost á að sjá. :)


Þegar við komum aðeins skammt út í skóginn benti hann á stór tré og sagði í undrunartóninum: nei, nei, nei, nei. Svo leit hann á mig og við vorum báðir voða glaðir og svo horfðum við þangað sem hann benti. Ég verð að viðurkenna að ég átti ekki minnstu von á að hann myndi eftir þessu sem farið hafði okkar á milli fyrir fimm dögum síðan. Ég held að mamma hans hafi líka orðið undrandi þegar hún heyrði hann segja þetta, en ég var jú búinn að segja þeim frá þessu og einnig að blogga um fyrri ferðina.


En ekki vorum við komin langt þegar nafni vildi ganga sjálfur og svo leitaði hann upp gönguslóðina undir burknahafinu og honum tókst það ótrúlega vel.


Svo hvarf hann bara ennþá lengra inn í burknahafið og fyrir þessum smávaxna manni hljóta stórvaxnir, þéttir burknarnir að hafa verið sem hreini frumskógurinn. Þarna var það hann sem réði ferðinni og hann hélt sig við slóðina. Ef hann fór út af slóðinni áttaði hann sig strax á því og leitaði hana þá uppi aftur. Vinstra meginn við hann má sjá eikarplöntu sem er að hasla sér völl og er að vinna í því að komast yfir burknana til að geta virkjað fyrir sig sólarljósið.


Hér lækkar gróðurinn heldur og það er að sjá að Hannes sé að athuga eitthvað merkilegt. Auðvitað hlýtur það mesta að hafa verið merkilegt fyrir hann fyrst hann hreinlega hræddist það ekki.


Já, leiðin er hérna, komiði bara á eftir mér. Hver ratar ef ekki ég afi minn.


En hvað var þarna? Núna var ekki um annað að ræða en að stoppa og þarna talaði Hannes mikið og var undrandi. Það nefnilega var aragrúi af maurum fyrir framan hann sem þustu bæði til hægri og vinstri og þeir virtust vera í miklu annríki. En þegar maurarnir byrjuðu að æða upp eftir stígvélunum hans þótti honum nóg komið. Hann valdi þá að halda áfram í all nokkrum flýti. Það sem ég er að gera þarna með hendina niður á fætinum er að slá burtu maura sem voru farnir að herja á mig líka.


Ástæðan fyrir þessum maurafaraldri þarna er þessi mauraþúfa sem reyndar er farin að taka á sig mynd af fjalli. Þvílíkur aragrúi og ég segi aftur; aragrúi. Allt yfirborð þúfunnar var á iði og umhverfi hennar líka. Þarna var allt kvikkt og það var nánast ekki hægt að fara nær til að taka mynd. Ég var berfættur á sandölum og Hannesi virtist ekki alveg standa á sama svo að dvöl okkar þarna varð ekki svo löng. Þegar aðeins dró frá þúfunni voru mauraslóðirnar greinilegar eins og fjárgata. Ótrúlegt en satt.


Frá mauraþúfunni héldum við heim á leið. Þegar við vorum að fara yfir brúna yfir skurðinn bakvið húsið áttaði Hannes sig á því að við værum að fara heim. Hann sneri þá við og fór annan hring og var fyrstur allan tímann. Hann var svo ótrúlega ratvís í skóginum þar sem margir fullorðnir geta villst -og hafa villst. Ég held að drengurinn hafi í sér eitthvað af skógareðlinu mínu. Það er gott eðli.


Það er víðar grænt á Sólvöllum en inni í skóginum. Hér eru þau amma og drengur akkúrat hinu megin við húsið og hann hvílir sig nú í kerrunni. En kannski við ættum að fara inn. Mögulega lumar amma á einhverju.


Og það gerði hún svo sannarlega. Hún var nefnilega búin að baka kanelsnúða. Hvað þær eru góðar þessar ömmur. Svo bárum við út snúða, í fyrsta lagi þá sem ömmu fannst ekki líta nógu vel út, og drykkjarföng bárum við út líka. Svo héldum við snúðaveislu við tréborðið. Takk fyrir daginn Hannes, Rósa og Pétur og auðvitað þú líka amma.

Ég var bara fyrir

Hálfa daginn höfum við Valdís verið í Örebro að ljúka ýmsum erindum og eins að kaupa ýmislegt varðandi húsið. Svo var ég klipptur snoturlega enda fer ég í vinnu á föstudag og verð að vera góð fyrirmynd. Það teygist á þessum innkaupum varðandi húsið en einhvern tíma lýkur því. Þegar við vorum komin heim og vorum buin að fá okkur miðdegiskaffi byrjaði ég á köppunum undir efri skápana í eldhúsinu. Skömmu eftir það byrjuðu aðrir fjölskyldumeðlimir að undirbúa kvöldmatinn. Í kvöldmat eigum við að fá Pétursgrillaðar lambakótilettur ásamt ýmsu meðlæti, svo sem kús kús sem ég veit ekki hvað er annað en að það er gott til matar og það fer vel í maga.

En málið var það að þegar matargerð var hafin við eldhúsbekkinn og ég var þar að smíða, þá varð ég ekki svo vinsæll þar. Ég var bara fyrir. Það er þess vegna sem ég er sestur við tölvuna og klukkan er bara á sjöunda tímanum. Ég mun þó ekki ljúka við þetta blogg fyrr en seinna í kvöld, eftir kvöldmatinn og eftir að hafa smíðað aðeins meira í eldhúsinu. Það eru aðeins tvö atriði eftir í eldhúsinu, það eru þessir kappar og svo táskotin undir eldhúsbekkina.


Nú er ekki búið að borða kvöldmatinn þegar ég er að skrifa þetta þannig að ég gríp hér til myndar frá því í fyrradag, laugardag, þegar hún Ingigerður kom í heimsókn. Hún er vinkona Rósu og fjölskyldu, fædd í Hälsingland, búsett í Stokkhólmi og með sumarbústað í Dölunum, en hún var einmitt að koma þaðan þegar hún kom hér við. En þarna er loksins mynd af margnefndu tréborði þar sem flestar máltíðir dagsins eru bornar fram og innbirtar. Þar verður líka kvöldmatur dagsins borðaður eftir nokkrar mínútur. Það er ekkert merkilegt við þetta tréborð annað en það að sænska sumarið gefur okkur möguleika á að borða þar nánast hvenær sem er þegar okkur bara físir eða dettur í hug.


Við erum ekki bara búin að hafa hér gesti, við erum líka búin að hafa hér aðstoðarfólk sem ekki lætur sér allt fyrir brjósti brenna. Eitthvað hef ég talað um það undanfarið en enga mynd birt sem staðfestir þetta. Hér er Pétur að flísaleggja forstofugólfið fyrir síðustu helgi. Þetta eru vel valdar flísar á forstofugólf -eða hvað?


Og hér lætur hann eftir sér að líta upp frá flísalagningunni í eldhúsinu. Það eru fínar flísar hér líka þykir okkur. Bæði flísarnar í forstofunni og þessar í eldhúsinu hreinlega duttu upp í hendurnar á okkur fyrir nokkrum vikum síðan.

---------------------------------------------------

En nú er löngu búið að borða kvöldmatinn og það er komin á kyrrð í húsinu. Ég smíðaði ekkert eftir kvöldmatinn eins og til stóð en ekki er þó hægt að láta eitt kvöld líða án þess að stússa svolítið. Svo töluðum við um ferðalög í Noregi, Sognfjörðinn, fólk sem við þekkjum í Noregi og ýmislegt fleira. Svo verð ég að enda þetta blogg með mynd af tveimur athafnasömum mönnum.


Það er ekki slæm myndin af þessum strákum sem báðir vinna þarna að sínu og láta ekkert trufla sig

Ég get orðað það svo að þetta sé dagbókarfærsla dagsins, færsla sem þeir geta lesið sem dettur í hug að taka sér stund til þess. Það er vel hægt að láta það kyrrt liggja sem ég segi í bloggunum mínum og venjulegra að fólk geri svo. Hins vegar verða það alltaf all margir sem heimsækja bloggsíðuna og sannleikurinn er sá að mörgum líkar vel að lesa um einfalt, venjulegt líf. Líf okkar er afar einfalt og engin afrekaskrá sem ég get miklað mig af. Það klæðir mig líka best að reyna ekki að vera annað en það sem ég er. Mér heyrist líka á Óla Lokbrá að hann sé á sama máli og hann er farinn að toga ákaft í mig. Ég heyri líka fyrir aftan mig svefnhljóð frá fiskimannsdótturinni frá Hrísey sem eitt sinn lagði land undir fót til að prufa nýjar víddir í lífinu. Hún er enn á þessu ferðalagi með mér. Fyrir all nokkrum árum vorum við stödd langt upp í snarbröttum brekkum í Sognfirðinum í Noregi og undruðumst mikið það sem fyrir augun bar. Við töluðum um þetta fyrr í kvöld og okkur langar að fara aðra ferð og kanna betur þessar ótrúlegu brekkur. Góða nótt.

Það var of mikið að gera

Það var bara of mikið að gera hér síðustu daga til að ég kæmist yfir það að blogga. Það hefur ýmislegt komist í verk, reyndar heil mikið, og afar mikilvægt. Og það er alltaf þetta; þegar einn áfangi er búinn er svo gaman að líta yfir. Það er líka gaman að taka myndir af áföngum og bera svo samna fyrir og eftir. Fjölskyldan frá Stokkhólmi hefur verið okkur til mikillar hjálpar við mörg verk frá því að þau komu. Þó að Hannes sé ekki verkmaður ennþá hefur hann gaman af að fylgjast með og svo er hans glaða nærvera hvatning til frekari verka.


Það má segja frá þessu litla apparati utan við einn gluggann. Meðan Rósa og Valdís voru í bæjarferð til að kaupa körfur og hillur í fataskápa ásamt fleiru leituðum við Pétur eftir besta staðnum fyrir þetta loftnet fyrir þráðlausan heimasíma og breiðband. Loksins vorum við ekki í vafa hvar það gerði mest gagn og svo var bara að setja tækið upp og tengja við módemið inni. Nú erum við komin með nánast jafn gott tölvusamband og við höfðum í Örebro þar sem við höfðum breiðbandskapalinn alla leið inn fyrir vegg.

Tölvan er líka ný, prentarinn er nýr og er inni í skáp í öðru herbergi, þrálaust tengdur tölvunni. Tölvan er líka þráðlaust tengd módeminu. Leiðslur og kaplar eru í lágmarki og Rósa og Pétur eru búin að setja upp í tölvuna það vinnuumhverfi sem hentar okkur ellilífeyrisþegunum vel. Það er einfalt að komast inn á hvert einasta atriði sem við notum og það er einfalt að nota það. Svoleiðis á það að vera og hratt gengur það.


Þessi rauf efst og til hægri í myndinni var oft búin að minna mig á að þarna væri eitthvað ógert. Listarnir til að loka raufinni með voru búnir að vera til í fleiri vikur en þeir komu ekki að miklu gagni liggjandi út við vegg bakvið rúmið í gestaherberginu. Í dag tók ég á mig rögg, tók inn tröppuna og setti hana mottu á gólfinu sem ég dró svo til eftir þörfum. Síðan fyllti ég upp í rifuna með lista og setti svo hinn eiginlega lista upp þarna í 3,5 m hæð. Á meðan voru Rósa og Pétur í tölvufráganginum en Valdís fór meðal annars út með Hannes og þau ferðuðust um nágrennið. Hannes hefur gaman af slíkum ferðum og bendir mikið og segir frá því sem fyrir augu ber. Hann er mikill vinur í svona ferðum og þær eru líka góð aðferð fyrir okkur Valdísi til að kynnast yngsta barnabarninu okkar. En aftur að listanum; mikið, mikið var ég ánægður eftir á að þessu smáverki var lokið. Það var búið að standa verulega í mér að koma því í verk.


Við Pétur vorum búnir að flísaleggja forstofuna en þar áður var Kristinn dóttursonur búinn að hjálpa okkur við að flota gólfið. Við vorum Pétur vorum líka búnir að flísaleggja yfir eldhúsbekknum. En þá var eftir að flota og flísaleggja kringum kamínuna samkvæmt reglugerð. Ég stundi nokkrum sinnum og hugsaði hvort ég ætti að fara í þetta núna eða seinna. Svo auðvitað ákvað ég að fara í þetta núna. Þarna er ég búinn að skera til og máta nokkrar flísar. Svo var að flota þarna líka undir flísarnar eins og í forstofunni -samkvæmt reglugerð.


Hér eru svo flísarnar komnar á og allt eins og það á að vera. Mikið var gaman að reisa sig upp eftir að síðasta flísin var fallin á sinn stað og virða fyrir sér. Já, það er hægt að gera lífið skemmtilegt. Við Valdís þurfum í bæinn á morgun og ég hef grun um að Pétur verði búinn að fúgufylla þegar við komum til baka. Mér heyrðist það á honum fyrr í dag.


Það var líka gaman að sjá yfir verkið þegar fataskáparnir voru full frágengnir í nýja gestaherberginu. Þeir eru fjórir og ein hurðin er spegill. Þar getur maður sagt að Hannes hitti Hannes og það er að sjá að honum líki lífið í þessu herbergi. Hún Guðdís barnabarn sem hvílir sig þarna í rúminu sagði að það hefði verið gott að sofa í þessu herbergi. Hún fékk að vígja það með því að sofa þar fyrstu tvær næturnar.


Það var ekki bara vinna í dag. Veðrið bauð að vanda upp á að borða úti og fá sér kaffi og við notfærðum okkur það. Hannes situr þarna við borðið og segir okkur frá flugvél sem fór yfir. Hann er þarna með dúkkuna vinkonu sína hjá sér. Hann leikur sér að bílum, dúkkum, dúkkukerru, hjólbörum, legókuppum og mörgu fleiru og svo á hann líka litla strákasláttuvél.


Mamma og pabbi eru samt best þegar á reynir og þau eru alltaf til staðar.

Eins og venjulega er komin nótt áður en ég veit af. Ég er með það í bígerð að fara þriggja km hringinn í fyrramálið með Hannes í kerrunni og hlusta á hann segja frá því sem fyrir augun ber. Ég veit að mamma hans þarf frið til að sinna verkefnum sem hún þarf að vinna. Kyrrðin hvílir yfir byggðinni og ég veit að Óli vinur minn verður mér hjálplegur þegar ég leggst á koddann.

Við Hannes og fleira

Þó að dagurinn 22. júlí byrjaði með súld voru útihurðirnar bæði á fram- og bakhlið opnar alveg frá fótaferð og nánast það sem eftir lifði dags. En fyrir hádegi þornaði upp og það varð næstum mollulega hlýtt. Merkilegt að vera að skrifa þann 22. júlí og það er komið langt fram yfir mitt ár og mitt sumar. Að vísu má reikna með að Valdís slái alveg fram í nóvember en samt er sumarið meira en hálfnað. Margir akrar eru orðnir þroskaðir og gulir eins og segir í Njálu þegar Gunnar vildi hvergi fara og þá breytist landið mikið. Það er eins og vorið ráði ríkjum þangað til akrarnir gulna og þá er allt í einu komið fram yfir mitt sumar.

Þegar Norðmenn voru að upplifa skelfilega hluti vorum við Hannes hérna megin í skóginum að tína hindber og mamma hans með. Við vorum að endurupplifa berjatínsluna frá í gær þegar hann áttaði sig á því að hindber væru voða góð og alls ekki gerð til að henda þeim á jörðina. Svo tók ég Hannes á handlegg mér og við gengum lengra út í skóg en mamma hans gekk heim sem hann mótmælti ekki. Það var eins og hann upplifði það að þetta var annar heimur og hann varð hljóður og horfði mikið í kringum sig.

Ég gat auðvitað ekki þagað yfir þessari veröld sem ég taldi mig eiga svolítinn þátt í að hafa skapapð. Á nokkrum stöðum benti ég á eitthvað sem mér fannst hugsanlegt að ég gæti fengið hann til að taka eftir og þá sagði ég; nei nei nei sjáðu bara. Fyrst sagði hann ekkert en svo fór hann að segja eftir mér; nei nei nei og leggja á það sömu áherslur og ég. Við vorum afar góðir vinir í þessari skógarferð og þurfum að endurtaka hana. Kannski ættum við að taka einhvern með okkur til að taka mynd af okkur.

Ég fór til tannlæknis í dag í örlitla viðgerð. Það var eins og ég væri eini viðskiptavinur dagsins. Ég held að ég fari rétt með að það var símastúlka, tannlæknir og tannhjúkrunarfræðinur á staðnum og alls ekki meira fólk. Það virtist líka vera lítið að gera og þegar tannlæknirinn var búinn með sitt spjölluðum við saman aðeins í léttum dúr. Svo sagði hann allt í einu og benti á öxlina á mér; það er sulta á skyrtunni þinni. Nei, ég sagði honum að ég hefði farið út í skóg í gær að tína hindber með barnabarninu mínu. Já, honum líkaði það vel og sagði að það yrði enginn klókur af því að hanga heima og liggja yfir tölvum. Ég hafði svo sannarlega ætlað að skipta um skyrtu áður en ég fór en það bara varð ekki af.

Það er komið fram yfir miðnætti og ég ætti að skammast mín til að fara að sofa. Ég er að skrifa á nýja tölvu sem keypt var í dag, ég er að æfa mig á hana. Þetta er Mackintosh (eða hvernig það er nú skrifað) og virkar talsvert öðru vísi en PC. Við notum tækifærið meðan Rósa og Pétur eru hér til að aðstoða okkur. Meðan ég var hjá tannlækninum keypti Rósa tölvuna. Rósa sagði stúlkunni sem afgreiddi hana að hún væri að aðstoða pabba sinn og mömmu. Jahá, stúlkan sem afgreiddi hafði líka verið að enda við að hjálpa pabba sínum og mömmu við að koma í gang tveimur tölvum sömu sortar og við keyptum. Svona er þetta; ef maður tekur upp þó ekki sé nema pínulítinn félagskap fær maður eitthvað til baka. Með það segi ég góða nótt og hugsa til Norðmanna fyrir svefninn.

Dagurinn byrjaði með blíðviðri

Það er þriðjudagurinn 19. júlí og dagurinn byrjaði með blíðviðri og svo hélt bara blíðviðrið áfram allan daginn. Útihurðin aðaldyramegin var galopin og útihurðin bakdyramegin var galopin og það skelltist ekki hurð. Hannes litli tipplaði fram og til baka, út og inn, talaði og hló, rétti út hendi og fékk hendi á móti. Við vorum að sýsla við frágang allan daginn. Við Rósa skruppum til Örebro og sóttum hluta af búslóðinni í geymsluhúsnæði. Svo stilltum við upp kommóðum, settum stóla á sinn stað, settum saman gamla furuskrifborðið, hengdum upp myndir og málverkið af Lómanúp og Öræfajökli og Rósa og Pétur yngdu upp tölvur og tölvukerfi. Hannes hélt áfram að leika sér í kringum okkur og veðrið þreyttist ekki á að láta vel að okkur. Húsið breyttist í ennþá meira heimili eftir því sem leið á daginn.

Þegar leið að kvöldmat grillaði Pétur kjúklinginn og Valdís og Rósa sinntu meðlætinu en ég hélt áfram við að koma fyrir myndum. Svo borðuðum við við tréborðið vestan við húsið og dáðumst að veðrinu og útsýninu og hurðirnar héldu áfram að standa opnar. Hannes fékk að fara inn í bílinn þar sem hann undi sér vel, fór úr skónum, stóð upp í  bílstjórarasætinu og þótti gaman að halda með annarri hendinni um stýrið en skipta um rásir á tækinu með hinni. Nokkra kólómetra í suðri sáum við himininn verða dekkri og dekkri en rigningin lét okkur vera þar til við vorum búin að sitja nægju okkar við tréborðið. Svo kom rigningin en varð minni en reikna mátti með.

Svo kom miðvikudagurinn 20. júlí og hann byrjaði á sama hátt og gærdagurinn. Það var í raun enginn munur annar en sá að við aðhöfðumst annað en í gær. Við Valdís skruppum inn í Örebro ýmissa erinda, Hannes undi sér með mömmu og pabba og skrapp með þeim í kaffi til nágrannanna. Eftir að við Valdís komum heim fórum við Pétur í að fúgufylla forstofugólfið og það er ábyrgðarmikið fagverk sem við unnum af nákvæmni þar til ég fór á AA fund í Fjugesta og eftir það annaðist Pétur verkið einsamall.

Í gær sagði Valdís að það þyrfti að slá lóðina en ég sagði að lóðin yrði ekki slegin þann daginn. Í dag sagði hún að hún ætlaði að slá lóðina og svo hvarf hún út og sláttuvélin var komin í gang örstuttu síðar. Rósa var í hálfu starfi við að halda Hannesi frá forstofugólfinu og svo undirbjó hún kvöldmatinn. Meðan ég var á AA fundinum borðuðu þau kvöldmatinn við tréborðið úti. Jarðarberin voru hins vegar borðuð eftir að ég kom heim. Það rigndi ekkert seinni partinn þó að það hefði hálf partinn verið gert ráð fyrir því. Norræn hreystitré héldu áfram að vaxa af fullum þunga í hlýindunum eftir sæmilegar rigningar undanfarið. Laufkápur þeirra hafa líka orðið þéttari og grænni eftir þetta regn. Suðlægari tré eru hins vegar gætnari og það er að sjá að þau séu búin að skila ársvexti sínum, einkanlega hvað hæðina snertir.

Fimmtudagurinn 21. julí byrjaði eins og afrit af fyrri dögum með veðurblíðu, opnum útihurðum á báðum hliðum og löngum morgunverði. Satt best að segja finnst mér að þessi veðurblíða sé búin að standa yfir frá því um mánaðamótin apríl-maí með einhverjum dögum sem voru eitthvað kaldari en þeir eru svo fáir að þeir eru gleymdir. Við sýsluðum sitt af hverju að vanda og svo miki er víst að það er búið að fúgufylla allt sem þarf að fúgufylla. Mest öll lóðin vestan skógar, tæpir 2000 m2, er ný slegin sem þýðir að Valdís er búin að leggja langa vegalengd að baki í gær og í dag.

Hannes hefur fengið góða umönnun sem og alla aðra daga og hans góða skap og skemmtilegu uppátæki geta ekki annað en glatt viðstadda. Hann fékk líka að fara með pabba og mömmu í ferðalag til Kumla í dag þar sem er að finna sérstaka skóverslun og hann fékk nýja skó til næstu missera. Eitt af hans uppátækjum í dag varðaði skó -eða öllu heldur að vera ekki á skóm, og hann fékk mig til að gera stórkostlega tilraun. Ég nefnilega fór með ruslapoka út í tunnu sem er hinu megin við veginn. Það sá Hannes og þegar ég kom til baka vildi hann endilega fara sömu leið með dúkkukerruna sína. Svo lögðum við í hann, Hannes, pabbi hans og afi gamli ég.

Hannes hafði verið berfættur að leika sér á grasinu inn á lóðinni og berfættur fór hann út á götu. Þegar hann var búinn að koma við hjá ruslatunnunni sem vakti ekki svo mikið aðdáun hans lagði hann af stað suður veginn. Og berfættur var hann og virtist hreinlega ekki taka eftir því. Ég minntist sumardaga fyrir 60 árum þegar við gerðum slíkt hið sama á Kálfafelli og nú snaraðist ég úr skónum. Ég hreinlega kveð fyrir að setja fyrri fótinn niður í mölina en viti menn- það gekk, en mikið varð ég að fara varlega. Svo gengum við eina 100 metra suður götuna og hluta þeirrar leiðar til baka, Hannes hlaupandi öðru hvoru með kerruna sína og ég farandi fetið af mikilli gætni. Svo ótrulegt sem það nú er, þá var eins og gömlu eiginleikarnir að ganga berfættur á möl væru enn þá fyrir hendi og þegar þessari malargöngu lauk gekk mér betur en þegar hún byrjaði.

Hann Kristján Ivar sjúkranuddari í Reykjavík réðist oft á yljarnar á mér og fann þar marga auma punkta. Steinarnir í málarveginum voru álíka flinkir og Kristján við að finna þessa aumu bletti. Ég er búinn að fara í yljanudd í dag. Ég er viss með að prufa þetta á morgun líka. Þvílíkt skemmtilegt uppátæki hjá drengnum að fá mig til að gera þessa tilraun.

Í fyrra var Hannes afar viljugur við að fara út í skóg og tína upp í sig bláber. Núna eru næstum engin bláber en hins vegar mjög mikið af hindberjum. Við fórum út í skóg í dag og gáfum honum nokkur hindber sem hann tók úr lófa okkar og henti á jörðina. Við héldum að honum þætti hindber vond en að lokum setti hann  eitt þeirra upp í sig og viti menn; hann stein hætti að henda þeim á jörðina. Hann vildi alls ekki hætta að borða hindber en svo fór þó að lokum að við létum hann hætta að borða þau. Það kæmi mér ekki á óvart að hann stingi upp á skógarferð á morgun.

Hér er dæmi um það hvernig dagar líða á Sólvöllum. Fyrr á árum reyndi ég að gera daga stórbrotna en tókst illa til. Í dag eru flestir dagar stórfenglegir -þeir bara verða það. Eigið góðar stundir.

Ps. Við borðuðum við tréborðið í dag líka, einn daginn enn í þessu dásamlega sumarveðri. GB


Sumir gestir eru farnir og aðrir eru eftir



I fyrradag var fullt af fólki hér og þá flotuðum við eitt forstofugólf undir stjórn Kristins dóttursonar. Í gærmorgun komu svo Kristinn og Johanne og eftir kaffi og rístertu hjá Valdísi lögðu þau af stað til Noregs og með Guðdísi með sér þar sem hún ætlar að prufa að vinna í fiski í Bergen ásamt barnapössun sem hún ætlar að taka að sér. Þau ætluðu að vera nótt í Ósló til að dreifa aðeins langri ferð. Á myndinni gefur að sjá Johanne, Kristinn og Guðdísi og meira að segja má greina rístertuna á borðinu. Að baki þeimer svo ellilífeyrisþegi sem gjarnan reynir að vera með á myndum.


Nú erum við fimm sem dveljum hér á Sólvöllum og þar með er hann nafni minn, Hannes Guðjón, sem er hvers manns hugljúfi í sveitinni og mikill miðpunktur. Honum finnst spennandi að standa á bakvið stýrið og skipta um rásir á útvarpinu með þar til gerðum hnappi í stýrinu og svo dansar hann inn á milli eftir tónlistinni.


En það er margt fyrir hann að rannsaka eins og til dæmis hvernig það getur verið mögulegt að sprauta vatni úr slöngu.


Og ef það gengur ekki sem best að fá það á hreint er ekki annað að gera en að koma enn nær og einbeita sér enn betur.


Svo er líka gott að skella sér inn á milli í stólana hjá henni ömmu, slappa af með leikföng og kannski inn á milli að kíkja á litríkt efni í sjónvarpinu.


En það gengur ekki til lengdar að liggja inni í mjúkum stólum. Hann drífur sig þá út með pabba og vökvar sírenurunnana. Hér er það nú þurrt maður!


Meðan faðir og sonur önnuðust ýmis mál og amma bakaði pönnukökur handa nokkrum konum sem ætluðu að koma í heimsókn fór, hún Rósa dóttir mín með mér að sækja eldivið út í skóg, við sem felldur var snemma í vor. Við þurftum að byrja á því að stækka svolítið hlaðið sem er á bakvið eldiviðargeymsluna þar sem við ætlum að vinna viðinn. Mannfræðingurinn, Dr. Rósa, sagði mér að láta sig hafa skófluna og svo mokaði hún mölinni í hjólbörurnar. Vísst var það mikill léttir fyrir mig svo að það var bara fyrir mig að taka ofan hattinn, hneigja mig, og vera þakklátur.


Svo fórum við út í skóg að sækja viðinn. Þetta er ekki alveg réttasti árstíminn til að vinna við eldivið en ég vitna bara í það sem fyrrverandi vinnufélagi minn sagði eitt sinn; ef maður hefur ekki tíma til að ganga fré eldiviðnum á besta tíma, þá gerir maður það þegar tækifæri gefst. Mér líkaði þessi afstaða hans.


Það er líka hægt að taka dansspor með eldivið í höndunum.

En nú er kominn háttatími fyrir ellilífeyrisþegann mig. Snemma í fyrramálið kemur hann Patrik rafvirki til að klára það mesta af verkefnum rafvirkjans í þessu húsi. Óli lokbrá er mættur og ég ræð ekki við hann og get ekki annað en hlýtt honum.

Guðdís í Svíþjóð

Hún Guðdís dótturdóttir og Valdís amma hennar fóru í Marieberg í dag og voru þar á búðarrölti. Búðarröltinu luku þær svo með því að fara í stórinnkaup í Coop forum sem er alveg þokkalega stór matvöru- og heimilisþarfaverslun í Marieberg. Þá hringdu þær í mig og ég fór á eftir þeim. Við hlóðum stórinnkaupunum í bílinn og svo fórum við áfram inn í Örebro samkvæmt fyrirframgerðri áætlun. Í dag tókum við nokkrar vetvangsmyndir og auðvitað verðum við að skarta einhverju af þeim. Valdís er líka búin að birta nokkrar þeirra í http://www.flickr.com/account



Þær nefnilega gleymdu stelpurnar að kaupa grilololíu fyrir morgundaginn þegar Rósa, Pétur og Hannes koma, en þá á að grilla og auðvitað koma þau Kristinn dóttursonur og hún Johanne kærastan hans líka. Það verður því heilmikið fjölskyldumót á Sólvöllum á morgun. En aftur að efninu; hér er Guðdís að gæta innkaupavagnsins meðan amma skrapp inn í verslunina aftur til að kaupa grillolíuna og afi var á leiðinni frá Sólvöllum. Henni virðist ekkert leiðast stúlkunni þarna.


Við skruppum í Sveppinn til að fíka, það er að segja við fengum okkur eitthvað að drekka og þokkalega köku með. En þessi mynd er tekin til austurs úr svampinum og sér þarna yfir nærliggjandi bæjarhverfi í Örebro og lengra frá sést sá hluti Hjälmaren sem næstur er Örebro.


Norðurlandafánunum er daglega dags flaggað uppi í Sveppinum og við hlið fána hvers Norðurlandanna er sænska fánanum einnig flaggað. Valdísi er mikið í mun að fá mynd af gestum sem koma til okkar við þessa tvo fána sem við sjáum á myndinni. Fyrir miðri mynd: Valdís og Guðdís.


Og Guðdís stillti sér upp með afa líka. Lengst til hægri á myndinni og lengst í burtu sér til Suðurbæjarengisins þar sem við bjuggum áður en við fluttum á Sólvelli og hæðin við sjóndeildarhringinn er Suðurbæjarbrekkan.


Eftir hringferð uppi á hatti Sveppsins fórum við inn að "fíka" eins og ég sagði áður. Svo varð auðvitað að taka mynd af ömmu og Guðdísi þarna inni í svalanum meðan sólin baðaði í heitum geislum sínum sjálfa Örebro ásamt skógum sem virtust ná endalaust í allar áttir.


Eftir fíkuna í Sveppinum. Valdís er á fullri ferð lang fyrst, þá Guðdís dótturdóttir frá Vestmannaeyjum og afi að snúlla einhvers staðar í nágrenninu með myndavélina. Sveppurinn er kaldavatns miðlunartankur fyrir Örebro og er 58 m hár. Uppi í svamphattinum er veitingastofa.

-----------------------------------------------------------------




Svo að lokum eitt smá atriði: Ætli það sé allt í lagi með hann, manninn þarna til hægri á myndinni?

Fullt,fullt af fólki

Það eru góðar tíðir núna. Fram undan eru 18 dagar í fríi frá allri launavinnu en að vísu ekki frá byggingarvinnu. Rosalega verður það gaman og það mun nú eitt og annað klárast af óunnum verkefnum í Sólvallahúsinu hinu sögulega og marg umskrifaða. Ég er búinn að vinna alveg helling í Vornesi á síðustu 20 dögum og innréttingarvinnan hefur því gengið fremur hægt. Það er seint kvöld núna en að horfa hér á myrkan gluggann og hugsa til þessara 18 daga framundan veldur því að ég sé bara haf af sólskini.

Það er líka gestagangur hjá okkur núna og í nýja herberginu sefur dótturdóttirin Guðdís, en hún kom í dag með lest frá Gautaborg þar sem hún hafði verið í nokkra daga á stóru handboltamóti.


Myndavélin hefur ekki verið hér á lofti síðan hún kom og þess vegan nota ég ljósmyndastofumynd af henni. Ég kom heim úr vinnu nokkru eftir hádegi þannig að það var hann Kristinn bróðir hennar sem tók á móti henni á járnbrautarstöðinni. Hann er búinn að búa í Örebro áður og er öllum mikilvægum hnútum kunnugur.


Hann Kristinn dóttursonur er hér líka með norsku kærustuna frá Bergen, henni Johanne. Þau nefnilega komu í gærmorgun eftir langa og stranga ferð alla leið frá Bergen í einum áfanga. Þau lögðu af stað frá Bergen eftir vinnu á föstudag og komu mátulega til að borða morgunverð með okkur á laugardag áður en ég fór í vinnu í Vornesi til að vinna nóttina sem leið. Annars búa þau inn í Örebro meðan á dvölinni stendur og tilláta sér þannig svolítinn munað í ferðinni.


Svo er hér mynd af öllum systkinunum frá Vestmannaeyjum. Erla sem er til vinstri á myndinni er að fara í æfingabúðir í Þýskalandi um miðjan mánuðinn. Við verðum að vera dugleg við að taka myndir af þessari heimsókn svo að ég þurfi ekki að vera að nota myndir sem ég hef notað áður eins og þessar allar sem ég notaði líklega síðla vetrar. Auðvitað er líka skemmtilegast að nota myndir af fólkinu sem eru teknar á vetvangi akkúrat núna meðan á heimsókninni stendur.

Nú, þau fara í vikunni og í vikunni kemur í staðinn Rósa og fjölskylda og stoppa líklega í tvær vikur. Það verður sem sagt nóg að blogga um á næstunni en nú er ég orðinn svo syfjaður að ég er hættur að halda höfði og veit varla hvað ég skrifa. Það er mál að ganga til fundar við Óla Lokbrá.

Ps. Það er kominn morgun á ný og þegar ég gerði þetta blogg í gærkvöldi var ég orðinn svo syfjaður að einu sinni sofnaði ég á iinu þannig að það koma bar langt iiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiii. Ég þorði því ekki annað en lesa þetta yfir núna að morgni og hélt kannski að ég hefði ruglað alveg hroðalega. En ég komst að því að ég hefði ekki ruglað meira en ég bara á vanda til. GB

Um flísar og fleira

Meðan við enn áttum heima á Íslandi var ekki til efni sem hrært er út í vatni og síðan hellt á gólf og úr verður þræl sterkt lag sem líkist steypu. Það er síðan hægt að dúk- eða flísaleggja eftir vild og hér heitir þetta efni flytspackel. Samkvæmt því ætti það að heita flotsparsl á íslensku. Ég ætla alla vega að kalla það flotsparsl. Svona efni ætlum við að setja á forstofuna hjá okkur og hafa gólfhita í forstofunni. Ég var búinn að spyrja marga hvernig ætti að gera þetta og hafði fengið afar mörg svör við því. Svo hélt ég að allt væri til reiðu og í morgun kom rafvirkinn og ætlaði að ganga frá hitaþráðunum í gólfið. Þegar hann leit yfir gólfið sagði hann að bragði að svona gætum við ekki gert. Síðan skrifaði hann lista yfir ýmsan lokafrágang sem hann ætlar að framkvæma á þriðjudag í næstu viku og fara þá í gólfið um leið.

Þegar hann var farinn sagði ég við Valdísi að ég ætlaði að fara í Flísahúsið í Marieberg og hvort hún kæmi ekki með. Fyrst var hún ekki viss en svo fórum við bæði í Flísahúsið og Valdís sagðist vera búin að tala oft um það áður að fara þangað. Kannski þarf ég að fara að fara aftur á heilsugæsluna í Fjugesta til að láta hreinsa meiri eyrnamerg.

Í Flísahúsinu hittum við grannvaxinn mann, eitthvað yngri en við var hann, alvarlegur í bragði en hjálplegur var hann. Það sem hann sagði virtist vera sagt af þekkingu og nú virtist eitthvað vera að verða á hreinu með þetta blessað forstofugólf okkar. Svo gengum við um salina í Flísahúsinu og Keyptum allt sem til þurfti til að geta klárað gólfið. Flísar, flísalím, fúgusement, vírnet og eitthvað fleira. Það var alls ekki meiningin að kaupa flísarnar fyrr en seinna en nú er sem sagt allt til staðar. Netið vorum við búin að kaupa áður en því neti verðum við að skila aftur.

Þegar ég var að plokka flísakassana á vagninn datt mér allt í einu í hug að það þyrfti að kaupa eitthvað til að leggja undir netið, lyfta því frá gólfinu. Þá var hjálpsami maðurinn að afgreiða annan mann úti við og ég gekk þangað og spurði. Hjálpsami maðurinn spurði þá viðskiptavininn hvort það ætti að setja eitthvað undir netið. Nei sagði hann og leit á mig. Bara við að líta á hann datt mér í hug eiginleikar sem heita virðing, öryggi, kunnátta, innri ró. En athugaðu, sagði hann, að það á að kaupa sérstakt efni þegar á að nota net en ekki gipsónett.

Ég gat ekki látið vera að segja við þá að allt í einu hitti ég menn sem vissu alveg upp á hár hvernig ætti að vinna hlutina. Já, svaraði viðskiptavinurinn, ég ætti að fara að vita það eftir 27 ár í faginu. Heyrðu, sagði ég, viltu líta á kerruna og segja mér hvort efnið sem ég keypti í annarri verslun í gær er það rétta. Alveg sjálfsagt þótti honum og svo kom hann og staðfesti að ég væri með rétt efni á kerrunni. Þar með var ekki annað að gera fyrir mig en að lúta höfði og þakka þeim báðum fyrir hjálpina. Þeir lyftu báðir hendi og báðu mig að njóta vel. Svo lögðum við Valdís af stað heim og ég reyndi að láta í ljósi að það hefði ekki verið vitlaust af henni að vilja fara í Flísahúsið.

Nokkru seinna vorum við í málningarbúðinni í Fjugesta. Við vorum að sækja viðbót við veggflísar sem við setjum í eldhúsið. Þar gekk Per framhjá á fullri ferð og heilsaði að vanda. Heyrðu Per, kallaði ég á eftir honum, hvernig á ég að taka tvö göt fyrir rofadósum hlið við hlið í sömu flísina? Ekkert mál sagði Per. Svo kom hann með litla svarta tösku og tók dósabor upp úr töskunni og rétti mér. Hann lýsti því fyrir mér að þessi dósabor væri útbúinn med demanta sem biti á flísarnar. Það gat ég svo sem sjálfur séð. En tvö got hlið við hlið, flísin hlýtur að brotna. En Per sat við sinn keip en sagðist ekkert taka fyrir að lána borinn, ég væri þar svo oft á ferðinni í innkaupaerindum. Heim fórum við og ég var vantrúaður á árangurinn en ákvað að reyna.


Svona gekk það að bora fyrir tveimur dósum í sömu flísina. Hún brotnaði ekki og þetta var ekkert mál. Ef einhverjir lesa þetta verða sjálfsagt margir til að hlæja að mér fyrir að vita ekki svona einfaldan hlut. Það get ég vel boðið upp á, annars hefði ég ekki sagt frá þessu.

-------------------------------------------------------------------------------


Hann Broddi er samur við sig og alltaf jafn skemmtilegur og forvitnilegur, þetta litla dýr sem hefur ekkert breytst í ótrúlega margar miljónir ára.


Svo þegar hann varð þess var að það ætti að fara að taka mynd af andlitinu á honum varð hann feiminn og laut höfði.


Froskarnir eiga það sameiginlegt með broddgöltunum að oft eru þeir bara þarna allt í einu og þegar ég varð þessa var, var ég við það að stíga ofan á hann. Ég kippti upp undir mig fótunum af öllum mætti og báðir komumst við lifs af.


Í gær gengum við yfir til nágrannanna sunnan við. Þau eru líka að byggja og hér er Stína að mála með Falufärg. Það er málmrík rauð leðja sem er tekin upp úr gamalli koparnámu upp í Falun og er mjög góð raka- og fúavörn. Stina og Valdís ræða oft málin.


Þeirra hús er stærra en okkar hús en við því verður ekkert gert. Haha, lélegur brandari, svefnórar og mál fyrir mig að leggja mig.

Ps. Það er rigningartíð og 20 stiga hiti. Ef einhver les þetta, segið mér gjarnan hvað þetta gólfefni heitir.

Andamamma bjargar sér

Undanfarið hefur lífið verið vinna í Vornesi og innréttingarvinna heima. Veðrið hefur að mestu verið hiti, nokkuð yfir 20 stig, og of lítil úrkoma. Því hef ég líka verið duglegur með garðkönnurnar til eftirlætis vinanna minna með rætur, en Valdís hefur meira aðhyllst garðsalönguna með úðaranum. Það er ótrúlegt þetta hvað maður er gagnlegur þegar maður fer út að vökva þegar líður á kvöldið. Ekkert verk er mikilvægara þá stundina.

Ég var á leiðinni heim á fimmtudagsmorguninn var og á aðalgötunni í Vingåker var stolt andamamma með ungana sína níu á leið niður að Vingåkersánni. Hún vaggaði áfram meðfram gangstéttarkantinum, vildi yfir götuna en treysti mér ekki. Ég hélt því áfram og þegar ég var kominn framhjá þessari fjölskyldu blikkaði ég næsta bíl á móti. Andamamma treysti þeim bílstjóra betur enda var kona þar á ferð. Hún stoppaði þegar sýnt var að andamamma ætlaði sér yfir götuna og nokkrir bílar komu úr hinni áttinni og stoppuðu líka. Þannig sá ég í bakspeglunum hvernig andamamma komst slysalaust yfir götuna með allt sitt smávaxna lið og marga bíla sem biðu. Þar með var áin skammt undan.

Í gær, sunnudag, kom ég í Vornes um hádegi og var þar þangað til í morgun. Skömmu eftir komuna þangað í gær hafði ég upplýsingafund fyrir fólk sem kom í sunnudagsheimsókn til fjölskyldumeðlima sem voru í meðferð. Þegar allir voru komnir sem ætluðu að vera þarna með sá ég á augabragði að einginn nærstaddra var hreinræktaður Svíi. Það voru þrír Írakar, einn Írani, einn Pólverji og einn Íslendingur -ég. Í hljóði spurði ég sjálfan mig; hvernig verður nú þessi upplýsingafundur. Já, og hvernig varð hann?

Þetta varð besti upplýsingafundur sem ég hef haft í Vornesi í þau 16 ár sem ég hef unnið þar. Að ég spurði sjálfan mig þessarar spurningar í upphafi kom til af því að þarna var saman komið fólk af ólíkum þjóðernum og með ólík trúarbrögð. En þvílíkar manneskjur sem allar stefndu að sama markmiði og sýndu hver annarri svo einstakan skilning og hlýju. Mér þótti vænt um þau öll að þessum fundi loknum og ég átti virðingu þeirra allra. Ég hef oft áður haft fólk af ólíkum þjóðernum á þessum fundum en aldrei áður að hver einast einn var af erlendu bergi brotinn. Það er mikið til af góðu fólki.

Já, það er mikið til af góðu fólki og það eru góðir sumardagar og mikið jákvætt að upplifa um þessar mundir. Við sjáum betur og betur eftir því sem líður á sumarið hvernig skógurinn okkar er að þakka fyrir þá umhyggju sem við höfum reynt að sýna honum.


Í fyrra talaði ég um það við hann Pál bróður minn hversu stór blöðin gætu orðið á hlyninum. Ég held að Páll hafi orðið hálf hissa á þessari lýsingu minni. Rétt fyrir dimmumótin núna í kvöld bað ég Valdísi að koma út og hjálpa mér. Hún heldur hérna um stilkinn á einu meðal stóru laufblaði af hlyn og stærðina getum við því miðað við hendina á henni.


Hér heldur hún í grein á álmi sem ég klippti niður árið eftir að við keyptum Sólelli þar sem ég hélt að þetta væri ösp. En álmurinn gafst ekki up og fór að vaxa á ný og nú er hann orðinn svo stór að hann nær aðeins upp fyrir það sem myndin spannar. Hann er orðinn nokkrar Valdísir á hæð. Svona eru trén farin að fylla upp fyrir þá nöktu stofna sem misstu allar neðstu greinarnar sínar vegna þess að greni og reyniviður uxu allt of þétt innan um bjarkir og eikur áður en við komum. Það eru til gríðar há tré í Sólvallaskóginum, en sem sagt, þau eru of nakin að neðan af fyrrnefndri ástæðu. Árið sem við verðum 75 ára og höfum opið hús allt sumarið verður þetta orðinn afar fallegur skógur og með afar háum trjám.


Svo vex eitthvað innan húss líka. Hér eru komnir upp nokkrir skápar og bókahilla í nýjasta herberginu á Sólvöllum. Hér gafst rétt einu sinni ástæða til að ganga nokkur skref aftur á bak þegar síðasta hurðin var komin upp og virða fyrir sér glæsibraginn. Svo kom nokkuð óvænt í ljós. Við settumst á stóla beint á móti skápnum og tókum þá eftir því að í speglinum sjáum við nánast of vel heim til nágrannanna sunnan við ásamt fallegum trjágróðri.

RSS 2.0