Katrineholm

Árið 1996 fór ég oft frá Vornesi til Katrineholm til að reyna að fá svo jákvæða tilfinningu fyrir þessum bæ að ég mundi vilja flytja þangað. Þetta var árið sem ég vann í Vornesi en átti heima í Falun. Bosse, þáverandi vinnufélagi minn, var mér hjálplegur í þessu, benti á vissa bæjarhluta og vissi gjarnan um íbúðir til leigu. Við Valdís fórum einu sinni þangað saman en allar tilraunir voru án árangurs, hvorki ég eða Valdis fengum þá tilfinningu fyrir Katrineholm að vilja flytja þangað. Svo fluttum við til Örebro.
 
 
 
 
 
Árin liðu og ný kona var komin inn í myndina, Susanne, og hún á sína nánustu ættingja og vini í Katrineholm. Susanne er fædd og uppalin í Västerås þó að hún hafi alla vega ekki á seinni árum fundist hún vera raunverulegur Västeråsingur. Hún vildi svo gjarnan eiga íbúð í Katrineholm og ég var því mjög fylgjandi. Ég vildi að hún hefði búststað að flytja í ef aðstæður krefðust þess allt í einu. Ég fylgdi henni nokkrum sinnum til Katrineholm á síðasta ári til að skoða ólíka möguleika.
 
En þá skeði nokkuð. Ég uppgötvaði að þessi 22 þúsund íbúa bær var orðinn virkilega fallegur bær og hafði upp á margt að bjóða, meðal annars mjög fallegar og blómlegar nágrannasveitir. Svo er svo sannarlega á Sólvöllum líka en bara á allt annan hátt. Og viti menn! Dag einn kom Susanne heim úr vinnunni og sagði að það væri lítil, alveg glæný íbúð til sölu í Katrineholm. Það er skemmst frá því að segja að á myndinni fyrir ofan er verið að ganga frá kaupum hennar á þessari íbúð, en það átti sér stað í septemberlok á síðasta ári.
 
Nú, aðra helgina í júlí, erum við í þessari íbúð hennar í Katrineholm. Það er laugardagur og í dag fórum við í gönguferð um miðbæinn og nágrenni og tókum nokkrar myndir sem ég birti hér.
 
 
 
 
Það hefur staðið yfir mikil vinna við að endurbyggja höfuðgötuna gegnum Katrineholm móti byggðunum norðan við. Á myndinni sér yfir gömul gatnamót sem eru orðin að stóru torgi og það verður gaman að sjá hvð endanlega verður á þessu torgi. Hingað og þangað hefur verið stillt upp stólum og borðum, ekki lveg í kunnuglegum stíl og á skemmtilega óvæntum stöðum. Við máttum til með að prófa.
 
 
 
 
Margar fallegar fallegar blómaskreytingar.
 
 
 
 
Á mörgum stígum vex skógurinn yfir höfuðið og hinu megin birtist svo opið fallegt svæði
 
 
 
 
Vatnið er notað á margan hátt.
 
 
 
 
Og meira vatn.
 
 
 
 
Á leið undir járnbrautarstöðina.
 
 
 
 
Undir þessum linditrjám verður Guðjón ósköp lítill og eikurnar sem ég er svo soltur af á Sólvöllum verða litlar líka. En ekki hlæja linditré, eikurnar vaxa duglega. Þvílíkt laufhaf sem er á þessum trjám hlýtur að gera mikið gagn sem lofthreinsistöðvar.
 
Að fara hingað og breyta um umhverfi er mér gagnlegt. Í huga mér líki ég því oft við að "endurraða gögnum" eins og sagt var um tölvur í gamla daga. Það er margt nýtt í höfði mér þegar ég kem til baka.
RSS 2.0