Að vera í Vestmannaeyjum -fyrri hluti

Mér finnst gott að koma til Vestmannaeyja en mér finnst óskemmtilegt hversu oft Kári vill vera með mér hér í Eyjum. Vestmannaeyjar hafa upp á að bjóða mörg sérkenni og frábæra náttúru. Hér hitti ég líka gott fólk sem tekur mér opnum örmum og fer vel höndum um mig. Hins vegar er ég því miður svo óþroskaður að þegar veðurhamur setur á einhvern hátt fót í götu mína varðandi siglingar og veru mína á þessum stað, þá get ég farið í hálfgerða fýlu. Helst mundi ég vilja skrifa síðustu meiningu með svo litlum stöfum að það væri ekki hægt að lesa hana en ég kann ekki þá list hér á Bloggi.
 
Ég hef hins vegar aldrei orðið sjóveikur á þessum siglingum þannig að ég ætti ekki kannski ekki að vera að kvarta. Best væri bara að hafa allan tíma sem finnst í heiminum og ákveða ferðir til Eyja bara þegar ég veit að núna er gott ferðaveður. Leggja svo af stað, fá mér stóra brauðsneið um borð, gott kaffi í stóran bolla og eins og hálfan sykurmola út í kaffið. Fara svo helst út á dekk einhvers staðar og muðla í mig brauði og kaffi og horfa á heiminn og velta fyrir mér þátttöku minni í jarðlífinu. Hafa þá líka skrifblokkina nærri ef mér skyldi finnast að nú hefði mér dottið í hug mikill vísdómur og skrifa niður. Síðan gæti ég fengið mér ábót af kaffi og kökubita með.
 
Gallinn við að sigla frá Bakka er bara sá að það er ekki tími til alls þessa. Að öðru leyti sé ég allt gott við siglingar frá Bakka hvernig svo sem það gengur með hafnarmálin þar. Áhyggjur af því og kostnaðinum við það get ég hins vegar með glöðu geði velt yfir á aðra. Þegar ég verð alvöru ellilífeyrisþegi, sem ég er jú alltaf að tala um, þá hlotnast mér allur þessi tími sem finnst í heiminum og ég tala líka oft um. Eftir það get ég valið ferðir til Eyja bara þegar sólin skín og hafið er skínandi slétt og bjart. Þá get ég líka gengið á Eldfell með kíki og kannað skygnið austur á bóginn til bernskustöðvanna.
 
 
Í gær gat ég smeygt mér inn á byggðasafnið til hennar Helgu Hallbergsdóttur. Hlutirnir koma mér oft á óvart og heimsóknin til Helgu kom mér mjög á óvart. Í fyrsta lagi er svo greinilegt að Helga sinnir þessu safni undir stjórn hjartalagsins og þá verður heimsóknin til hennar ekki einungis fróðleg, heldur meira andlega söguleg innsýn inn í það sem fyrir augun ber. Nú, við fórum gegnum safnið þannig að ég veit pínulítið um það magn sem þar er hægt að nálgast og hvernig áhrif það hefur þegar nálgunin á sér stað gegnum hjartað. Ég vil gjarnan koma þangað síðar með skrifblokk og penna og dvelja í ró og næði í heilan dag. Gott væri að hafa nesti með. Nú vil ég breyta "mundi gjarnan vilja" í ætla. Það eru mörg söfn sem gefa þennan möguleika en Helgu tókst bara að smita mig af þessu byggðasafni og það væri einfaldast fyrir mig að velja safnið hennar. Þakka þér fyrir móttökurnar Helga. Þú varst hinn lifandi tengiliður milli mín og safnsins og komst á sambandi milli mín og þess. Snilldarlega gert.
 
 
Í fyrradag fór hann Kristján hafnarvörður með mig um hafnarsvæðið og þegar við fórum framhjá heimakletti bað ég hann að stoppa á ákveðnum stað. Mér fannst ég sjá þarna andlit, dýr, fornynjur og vættir og ég get ekki betur séð en allt þetta hafi fylgt með á myndina.
 
 
Svo bauð Kristján mér í mat, fiskrétt sem hún Guðný kona hans hafði framreitt af mikilli snilld. Þau buðu líka honum Þórólfi sýslunga mínum og skólabróður í mat, þeim sem sem er lengst til vinstri og gætir heimilishundsins Lóu sem vildi gjarnan vera á hlaupum á hnjám fólks.
 
 
Ég flakka hér á milli daga og kem nú aftur til gærdagsins þegar það var Skóladagur i Barnaskólanum. Þar voru sýningar á öllu mögulegu og það voru miklar dýrindis veitingar. Ég hlakkaði mikið til veitinganna því að það var óttalegur nautnaseggur í mér í gær. Ég fór þangað með Valgerði og dótturdætrunum og við skoðuðum margt. Við komum meðal annars að þessum ungu mönnum þar sem þeir voru að kynnast eðlisfræðiundrum hjá raungreinakennara skólans.
 
Einn þessara drengja var einn á leið til skólans þegar okkur bar að. Hann spurði hvort við værum á leið þangað og hvort hann mætti vera okkur samferða. Mamma hans hefði verið svo lengi að koma sér af stað sagði hann og að nú væri hann alveg að pissa "í" sig þannig að honum lægi á. Hann fékk auðvitað að vera okkur samferða og hann náði í tíma á snyrtinguna og síðar sáum við að hann átti hinn besta dag þarna eins og við hin og svo margir aðrir.
 
 
Svo kom barnið upp í mér og ég komst í smásjá sem stækkaði þennan blýant 20 X. Það er afar hógvær stækkun þegar um smásjá er að ræða, en þarna gefur að líta hvernig blýanturinn er slitinn í oddinn eftir síðustu notkun og Jónatan tengdasonur tók líka eftir því hvar yddarinn hefði stoppað síðast þegar blýanturinn var yddaður. Það er margt að sjá ef hugmyndafluginu er sleppt lausu.
 
 
Mikið að gera, fólk að teikna, lita og spjalla saman. Skoða, sýna öðrum og skiptast á skemmtilegum athugasemdum.
 
 
Svo eru hér kræsingar sem voru ómótstæðilegar og ódýrar voru þær. Ég féll algerlega fyrir þessu og hvolfdi í mig af fyrsta brauðdiskinum. Svo tók ég á þann næsta en neyddi mig til að taka ekki meira. Þegar við yfirgáfum húsið var ég alsæll með þetta og feginn að hafa ekki hvolft í mig af meira stjórnleysi.
 
 
Hér er samferðafólk mitt í þessari skólaheimsókn. Valgerður og dætur hennar Erla og Guðdís. Augnatillit þeirra Valgerðar og Guðdísar gefur eiginlega til kynna að þær viti eitthvað sem við Erla vitum ekki. Það fer ekki milli mála að Valgerður er skyld henni móður minni, Valgerði á Kálfafelli. Jónatan tengdasonur var við störf þarna í skólanum en lenti samt ekki á mynd hjá mér.
 
 
Það er sem sagt margt hægt að taka sér fyrir hendur hér í Vestmannaeyjum. Það var margt annað sem talað var um að hægt væri að gera en hér hef ég sagt frá fáu. Ég fór líka í fjárhús og sá aðeins til suðburðarins sem hófst fyrr en til stóð. Hrútur slapp einhvers staðar yfir grindverk og ástaævintýri áttu sér stað í desembermyrkrinu sem ekki voru skipulögð. Ávöxtur þessara ástarævintýra urðu átta lömb sem nú eru þegar farin að vaxa úr grasi
 
Nú er ég að verða leiðinlegur innan um hóp af fólki, enda nóg komið. Á morgun, föstudag, yfirgef ég Vestmannaeyjar og held austur til bernskustöðvanna.

Eitt ár er liðið

Það er eitt ár frá því að það var hringt snemma morguns hingað á Sólvelli frá Háskólasjúkrahúsinu í Örebro. Það var sagt að það væri ekki allt með felldu varðandi Valdísi sem þá var innskrifuð þar. Nokkrum mínútum síðar lauk Valdís ferðalaginu sínu. Hún var farin heim. Sársaukinn kemur fram við að skrifa þessar línur en þegar ég var að velja myndirnar í þetta blogg, sem ég gerði þegar í fyrradag, þá fannst líka gleði.
 
KiddaVillasysturnar frá Hrísey. Brynhildur, Árný og Valdís.
 
 
30. desember 1961, Valdís og Guðjón búin að vera hjá Séra Árelíusi.
 
 
Á stéttinni heima hjá Rósu og Kidda Villa í Hrísey 1970. Vilhjálmur Kristinn, Guðjón, Valgerður, Valdís og Rósa.
 
 
Í Svärdsjö 1994 þegar Kristinn Jónatansson kom í heimsókn. Hann varð 11 ára hjá Rósu og Pétri í Stokkhólmi og kom svo þaðan einn með lest daginn eftir. Hann vildi komast sem fyrst til ömmu og afa. Þá var amma óörugg en síðan stolt þegar hún sá hann stíga út úr lestinni með ferðatöskuna sína.
 
 
Í nágrenni Falun sumarið 1996. Kristinn Jónatansson, Valdís, Valgerður og Jónatan. Á þessum myndum er Valdís líklega að lifa sín bestu ár.
 
 
Í Örebro 1998. Valdís með Erlu og Guðdísi og lífið virðist leika við hvern sinn fingur.
 
 
Á veitingastað við Hjälmaren 2007 þegar Guðjón varð 65 ára. Valgerður, Rósa, Valdís og Guðjón.
 
 
Valdís að lesa ritningarorð í Sörbykirkjunni í Örebro.
 
 
Þau eru ekki drukkin þarna kórfélagarnir Valdís og Torsten en myndin er tekin á glaðri stund eftir tónleika. Torsten er ættaður frá einu af nyrstu héruðum Svíþjóðar og þau voru góðir vinir. Í erfidrykkjunni eftir útför Valdísar minntist Torsten þess að þau hefðu bæði sungið einsöng við sömu tónleika eða messu, og í tilefni af því söng hann sama lag og hann hafði sungið við það ákveðna tækifæri.
 
 
Í ársbyrjun 2006 höfðum við Valdís verið eins og stórir fatabögglar að vinna við að fella tré í Sólvallaskóginum í miklum snjó og frosthörku. Þessi mynd er svo tekin um vorið þegar búið var að saga þessi tré niður í byggingarefni sem við notuðum svo í fyrstu útbygginguna á Sólvöllum. Við hjálpuðumst að við að ganga vandlega frá þessu byggingarefni, stot yfir að ætla að byggja úr viði úr okkar eigin skógi.
 
 
Áður voru bílar okkar mikið hreinir og glansandi. Þar hefur orðið afturför.
 
 
Þeim virðist ekki líða illa þarna ömmu og Hannesi. Alveg frábær mynd.
 
 
Meiningin var að það yrðu fleiri svona stundir í Sólvallaskóginum.
 
 
Eða svona stundir. Þessi mynd er tekin í eins dags hópferði við austurströndina.
 
 
Í kórstarfinu voru góðar stundir. Þessi mynd er tekin á tónleikum í Krekklingekirkju en Sólvellir eru í Krekklingesókn. Valdís er aftast aðeins vinstra megin. Þetta er ekki kórinn sem hún var félagi í lengst af í Örebro, þetta er "Hafðu það gott kórinn" í Fjugesta.
 
 
Það er festa í svipnum enda hefur þessi kubbur gefið mikinn yl þegar þar að kom.
 
 
Margir saman á blíðviðrisdegi á Sólvöllum sumarið 2012. Jónatan, Hannes Guðjón, Pétur, Valdís, Rósa og Valgerður.
 
Það var ekki auðvelt að velja þessar myndir úr miklum fjölda og nú finnst mér að ég hefði kannski átt að velja hina myndina -já eða hina. En nú er ég búinn að velja þessar og þannig verður það.
 
Sólin skín inn um austurgluggana á þessum morgni eins og alltaf áður á fallegum vormorgnum. Fuglarnir syngja og vinna líflega við sitt, blómtegundirnar birtast hver af annarri, grasið grænkar dag frá degi og skógurinn undirbýr sumarstarfið. Allt gengur eins og ekkert hafi skeð. Samt hefur mikið skeð.
 
Sumarið gengur brátt í garð í allri sinni dýrð og við fjölskyldumeðlimir sem sátum við borðið á þessum fallega sumardegi hér á Sólvöllum, ásamt öllum hinum, gerum okkar besta. Valdís í nýja heimalandinu en við hin hér á jörð. Eftir heimferð Valdísar finnst mér sem ég sé ennþá mikilvægari afi og skyldur mínar ennþá mikilvægari. Svo heldur tíminn áfram að líða móti hinu óþekkta. Það lifir á kerti skógarmegin við húsið og á öðru við stóru myndina af Valdísi. Hugurinn er tregur í augnablikinu en myndirnar tala glöðu máli og þannig er best að það verði áfram. Vormorguninn segir að svo skuli það vera.

Ég er svolítið undrandi

Ingvar var kórfélagi Valdísar. Hann er náttúrufræðingur að mennt og vann lengi hjá sýslunefndinni í Örebroléni á vatnasviði. Hann er aðeins yngri en ég og nú er hann ellilífeyrisegi. Hann er giftur Lenu sem kann ótrúlega fallegar sögur. Ásamt systkinum sínum á hann jörð og húsakost foreldra sinna upp í Dölum, nærri Siljan. Þar höfum við Valdís gist fáeinar nætur í tvö skipti. Ingvar er höfuðið yfir þessari eign og verður alltaf að vera driffjörin í öllu sem er gert þar. Þess vegna bað ég hann að koma með mér á Sólvelli áður en við keyptum.
 
Hafðu þá með nesti, sagði Ingvar, og stóla handa okkur. Ég gerði svo og svo fórum við á Sólvelli og drukkum heitt kaffi og borðuðum smurt brauð framan við húsið í all nokkrum snjó og frosti. Ingvar hélt því fram að ef manni liði vel með nestið sitt á nýjum stað, þá væri staðurinn góður. Og svo fór, okkur leið vel úti í vetrarveðráttunni með nestið enda keyptum við Valdís Sólvelli. Það eru tíu ár síðan.
 
Um vorið kom Ingvar aftur og vildi nú skoða sig um þegar allt var orðið snjólaust og grænt. Það er skurður bakvið Sólvelli eins og þeir kannast við sem hér hafa verið. Þennan skurð skyldi ég hreinsa á hverju ári ráðlagði Ingvar. Ég hefði ekki gert það allra fyrstu árun ef hann hefði ekki sagt þetta. En smám saman hefði ég áttað mig á því. Skurðurinn hefði orðið fljótur að fyllast af jarðvegi í öllu því lauffalli sem hér er. Síðar var frárennslið frá klóakhreinsiverkinu leitt í skurðinn þannig að það varð mjög mikilvægt að halda honum hreinum.
 
Í dag var þessi hreinsidagur hjá mér. Hin árlega frárennslisveisla er afstaðin. Þó að klóakið sé búið að fara í gegnum talsverðan útbúnað áður en það lendir í skurðinum er það snú samt klóak í huganum. Botninn í skurðinum liggur í vatni, er linur og gróður sækir mjög í hann. Þetta er engin veisla þó að ég orði það svona og ég er alltaf afar feginn þegar ég hef lokið þessu.
 
Það eru tíu ár síðan ég hreinsaði skurðinn fyrsta skipti. Á ákveðnum stað liggja stórir steinar að skurðinum báðu megin frá og þar á milli eru bara 25 til 30 sentimetrar og skurðurinn er kannski 70 sentimetra djúpur þar. Í botninum þar á milli hafa verið fastir hnullungar sem ég hef ekki vitað stærðina á og ég hef hreinlega ekki lagt í að taka þá. Svo veit ég ekki hvað skeði með mig í dag því að án eiginlega nokkurrar umhugsunar sótti ég bæði járnkallinn og hakann. Svo réðist ég á steinana og það kom fljótlega í ljós að það var hægt að bifa þeim.
 
Ég nuddaði þeim til úr öllum áttum, æði lengi, og smám saman kom þetta kraftmikla soghljóð þegar þeir byrjuðu að lyftast frá botni. Ég hafði ekki lyst á að taka þá með höndunum en náði með herkjum og titrandi örmum að lyfta þeim upp með malarskóflunni minni. Nú er skurðurinn betri en nokkru sinni fyrr og ég virðist vera í bera standi en nokkru sinni fyrr. Ég hef því eitthvað að gleðjast yfir í dag sem og flesta aðra daga.
 
Mér datt bara í hug að ykkur liði betur að vita þetta :) . Sjálfur er ég svolítið undrandi.
 
 
Eftir matinn setti ég á könnuna og sótti svo póstinn. Ég fékk svolítið skemmtilegan póst en það er of langt mál að segja frá því. En á leiðinni til baka frá póstkassanum horfði ég heim á Sólvelli og minntist þess sem mikils metinn maður og nágranni sagði við mig í gær þegar hann stoppaði hér á gönguferð sinni. "Þetta er alveg ótrúlega fallegur staður orðið og náttúran alveg frábær" varð honum að orði, mér sannarlega til ánægju. Og á leiðinni heim með póstinn í hendinni hugsaði ég að ég væri orðinn heimablindur. Hefði ég verið þarna að koma að Sólvönllum í fyrsta skipti, eins og Sólvellir eru í dag, og vitandi að ég væri að verða eigandi að þessum stað, þá hefði ég sennilegsa smá sturlast af gleði.
 
Þetta var meiri háttar upplifun og nú er kaffi

Það er ýmislegt í höfn um þessar mundir

Í gærmorgun fann ég fyrir einhverjum óróleika yfir því að ég yrði ekki búinn með það sem ég þyrfti að klára áður en ég færi til Íslands. Svo hvarf sá morgunóróleiki og mér gekk vel með mitt. Mér finnst sá tími kominn að Sólvellir fái á sig röð og reglu einkennin. Það er ekki hægt að segja að svo hafi verið síðustu ár. En aðeins meira um morgunóróleikann. Forðum tíð var morgunangist förunautur minn, en svo gafst hún upp á mér. Farið hefur fé betra.
 
Já, svo gekk mér vel með mitt sagði ég og það var eins og ég næði svolítið í skottið á mér í gær og ekki síður í dag. Í morgun tók ég til, akkúrat það sem mig hefur langað svo lengi að byrja á. Svo flutti ég til sjö hjólbörur af mold, bara af þráa til að ég gæti með sanni sagt við sjálfan mig að dagana fram að Íslandsferð á laugardaginn kemur verði það bara tiltekt og að koma hlutunum í röð og reglu. Þess vegna hef ég átt afbragðs afmælisdag í dag.
 
Bull er þetta í manninum er kannski hægt að láta sér detta í hug, aleinn, og segist hafa átt góðan afmælisdag. Það fyrsta er nú að afmælisdagurinn minn er ekki svo stórt fyrir mér. Í öðru lagi er áfangalok stórt atriði fyrir mig. Ég segi oft að það að geta gengið fáein skref til baka og litið yfir áfangann og vera ánægður, það er munaður. Svo voru hlutir sem ég þurfti að ganga frá hugarfarslega og það var eins og dagurinn í dag væri réttur dagur til þess. Hvers vegna veit ég ekki en ég hef haft gott næði til þess í dag.
 
Svo hélt ég reyndar upp á daginn. Ég prufaði sultuna/marmelaðið sem ég gerði í gær. Ég hélt fyrst að ég hefði eyðilagt það með of miklu engifer en svo er ekki. Annað hvort neita ég svo sterklega að viðurkenna þetta með engiferið eða þá að bragðið hefur jafnað sig á fyrsta sólarhringnum. Ég trúi á það síðarnefnda.
 
Ég fór líka "út að borða" kvöldmat um klukkan fjögur í dag. Ég borðaði auðvitað hjá manninum sem veit að ég vel gjarnan fisk og kjúkling. Ég þekki hann ekkert utan það að ég hef borðað þó nokkrum sinnum hjá honum á síðustu árum. Samt veit hann þetta. Aldrei slíku vant var hann ekki við kassann núna, hann stóð við eldhúsbekkinn og var að búa til mat. Það var fullt af fólki þarna, sem sagt margir í afmælisveislunni minni. Ég átti samt litlar samræður við gestina í veislunni minni.
 
Maturinn var góður og ég léttur í lund og ánægður með sjálfan mig. Svo fór ég í innkaup, mettur vel, og þá er minni hætta á að ég kaupi einhverja vitleysu. Svo fór ég í IKEA til að leita að smáhlut, smáhlut sem er ekki samkvæmt IKEA staðlinum. En ég fékk svo ótrúlega lipra og vingjarnlega hjálp samtals þriggja kvenna í þessari IKEA verslunarferð minni -og afbrigðilegi hluturinn kostaði 19 krónur. Ég sagði þeim líka að þær væru frábærar. Þær tóku því með þökkum og fallegar voru þær þegar þær brostu. Það er mikið gaman að geta sagt svona og þegar það er augljóslega vel meint, verður það svo fínt fyrir alla sem það snertir.
 
Ég er búinn að fá ósköpin öll af afmæliskveðjum í dag. Ég er ekkert barn lengur, alla vega ekki í árum talið, en ég skal alveg viðurkenna að mér finnst notalegt að fá þessar kveðjur sem flestar hafa komið á feisbók, einnig sem skilaboð og jafnvel sem e-póstur. Til og með hefur verið hringt í mig.
 
Ég er þakklátur fyrir allar þessar kveðjur, takk kærlega fyrir mig.
 
Það er mál fyrir mig að bursta og pissa og koma mér undir ullarfeldinn. Ég ætlaði að hengja hann út á snúru í dag en það var of hvasst til þess. Það blés heila 10 metra á sekúndu skuliði vita. Að svo búnu; takk fyrir daginn og góða nótt.

Hann Kjell var vinnufélagi minn og vinur og hann var líka afi ungs manns

Um það bil einum og hálfum tíma seinna en til stóð í morgun var ég úti í bílageymslunni og skipti um buxur. Á leiðinni þangað út sá ég fyrstu sóleyjar vorsins hér á Sólvöllum, en krókusarnir hafa verið til gleði í vikur og eins bellisarnir sem virðast vagga höfðinu eftir gangi sólar. Skógarsóleyjarnar eru byrjaðar að leggja sína hvítu slæðu yfir skógarbotninn.
 
Ég fór úr þokkalegum buxum og í drulluganllann. Ég fór líka í hálf molduga sokka sem ég skildi þar eftir í gærkvöldi. Ég var áður farinn að geyma óhrein stígvélin þarna úti en núna var það í fyrsta skipti sem ég geymdi öll óhreinu fötin þar.
 
Í gærkvöldi fór ég á nærbuxunum inn og berfættur var ég í skónum. Þegar ég var að draga óhreinu fötin á mig í þessu nýja húsi í morgun hugsaði ég að þarna hefði ég náð langþráðum áfanga, að fara ekki með óhreinu fötin inn í þvottahús, fara úr þeim þar og leggja út í horn. Mottan á gólfinu þar ber þessa virkilega merki. Að hugsa út í þennan áfanga var svo gaman. Svo þegar annar fóturinn kom niður í stígvélið þar sem ég stóð óstöðugur á hinum fætinum fann ég að það var mold í stígvélinu. Jú, haltra aðeins lengur, losa stígvélið og fara í það aftur.
 
Að ég fór svo seint út byggðist á því að mér varð hugsað til móður tuttugu og átta ára manns sem lét lífið fyrir nokkrum dögum. Ég hafði ekki lengur netfangið hennar, hún var komin með nýja fb síðu sem ég fann ekki og símanúmerinu hennar tapaði ég þegar ég tók farsímann hennar Valdísar í notkun um daginn. Svo sendi ég skilaboð á fb til manns sem núna er staddur eina átta hundruð kílómetra norður í landi og spurði hann. Einhverri mínútu síðar var ég búinn að fá leiðbeiningar til baka. Tæknin hjálpar snarlega þó að það séu fjarlægðir.
 
Hann Kjell vinnufélagi minn og vinur, og afi þessa tuttugu og átta ára manns, var svo stoltur af honum dóttursyni sínum og hann lýsti eins og sólin þegar hann sagði frá veiðiferðum þeirra meðfram Umeåánni. Augun urðu dreymandi þegar hann talaði um þetta. Svo varð Kjell mikið veikur og var lengi veikur. Svo dó hann og nú eru liðin fáein ár síðan. Kjell var þó nokkrum árum yngri en ég. Ég hitti dótturson hans á stað sem ég má ekki segja frá. Ég sá í honum það sem afi hans hafði sagt mér frá; kurteisi, góðmennsku og almennt fróðan ungan mann. Hann var samvinnuþýður og vildi vel en fáeinum dögum eftir að ég hitti hann fór hann á eftir afa til heimalandsins. Kannski sitja þeir á árbakka einmitt núna og tala um að þeim hafi alltaf þótt svo vænt hvor um annan.
 
Svo skrifaði ég mömmunni nokkrar línur. Meðan faðir hennar glímdi við veikindi sín hafði hún oft samband við mig. Ég veit að Kjell talaði vel um mig við dætur sínar. Ég sagði henni í línunum áðan frá þeim fáu stundum sem við sonur hennar áttum saman fyrir fáeinum vikum og ég sagði henni frá þeim fínu eiginleigkum sem ég hafði orðið var við hjá hinum tuttugu og átta ára gamla manni. Að skrifa svona skilaboð getur fengið sjötíu og tveggja ára mann að gráta.
 
Þannig er lífið og verður ekki umflúið. Ég skrapp inn um hádegisbil til að skrifa þessar línur sem brutust um í huga mér og létu mig ekki í friði. Nú fer ég út aftur til að hræra í mold og hænsnaskít og finna suðvestan blæinn leika um mig. Ég get ekkert annað en gert það besta við mitt líf og ég tel mig skyldugan til þess. Ég veit að ég kem til með að hitta fleira ungt fólk sem á við það sama vandamál að stríða og dóttursonur hans Kjells vinar míns. Þá vil ég eiga kraftinn og góðu lífssýnina sem til þarf ef ég á að gera gagn meðal þessa fólks sem er sjálft búið að missa lífslogann og getur ekki staðið beint í baki og tekist á við sjálft lífið.
 
Svo heldur mitt líf áfram, ég fer nú út og sleppi þessum hugleiðingum til skógar með suðvestan golunni.
 
*          *          *
 
Ég hélt áfram með jarðaberjabeðið í dag og útbjó ramma utan um það eins og hún Pernilla í Skrúðgarðagróðri hafði ráðlagt mér. Ég rak niður sex hæla eftir að ég hafði fyllt gryfjuna af góðum jarðvegi og slatta af hænsnaskít. Síðan var ég byrjaður að skrúfa hliðarnar á hælana þegar mér varð allt í einu á að hugsa hvort það væri virkilega allt í lagi að nota fúavarið efni svo nálægt matvælaframleiðslu. Maður í byggingarvöruverslun sagði mér í fyrra að þetta fúavarða efni væri orðið allt öðruvísi meðhöndlað en áður og með mikið saklausari efnum. En ég varð allt í einu mjög efins. Ég lagði frá mér verkfærin og gekk inn.
 
Google varð fyrir valinu og ég skrifaði þar "tryckimpregnerad virke". Fyrirsagnirnar sem birtust á skjánum voru nægar einar sér til að taka frá mér allan mátt. Ég sem hef verið svo hress og vinnuglaður að það hefur valdið sjálfum mér nokkurri furðu, ég varð allt í einu gersamlega úrvinda af þreytu og öll vinnugleði bara gufaði upp, langt langt út í himingeiminn. Já, mér féllust hendur all lengi. Lýsingarnar á þessu voru næstum eins skelfilegar og lýsingarnar á refaeitri fyrir 60 árum. Það var ekki um annað að gera en að rífa upp hælana og fresta gróðursetningu um óákveðinn tíma, fram yfir Íslandsferð.
 
Smám saman tókst mér að safna mér saman aftur og ég ákvað að klára rammann, kaupa ómengað efni þegar ég kem úr Íslandsferðinni og fúaverja með svokölluðu Roslagsmahony (rúslagsmahoný). Eftir það að taka hitt allt saman burtu og skipta um. Þetta verð ég að standa við.
 
Ef allar upplýsingar eru réttar er ég ekki hissa þó að það vaxi ofnæmi og almennur vesaldómur í heimi hér því að þetta efni er út um allar trissur og meðal annars í veröndinni á Sólvöllum, hjá sjálfum Guðjóni. Nýjustu upplýsingar sem ég fann um þetta eru frá 2010. Mér varð svo mikið um að ég fann ekkert annað. Ef nú einhverjir sérfræðingar lesa þetta eða fólk sem er dulegt við að finna upplýsingar um allt mögulegt og sjá eitthvað allt annað en það sem ég sá, að láta mig gjarnan vita.
 
Þessa umgjörð kem ég sem sagt til með að rífa burtu og setja vistvænt efni í staðinn. Það verður eftir Íslandsferð. Á morgun ætla ég að jafna með gróðrarmold kringum rammann  og jafna út halla sem er á landinu þarna. Þá mun þetta líta betur út. Svo sái ég í þetta grasfræi og eftir það geri ég ráð fyrir að ég endurheimti endanlega gleði mína. Að skipta þessu út verður barnaleikur vegna þess að þá verð ég orðinn sjötíu og tveggja ára.
 
Það logar ljós skógarmegin við húsið. Á morgun ætla ég að kveikja á kerti við hliðina á stóru myndinni af Valdísi. Svo ætla ég að skreppa inn í Marieberg í litla innkaupaferð og um leið ætla ég að borða mat hjá veitingamanninum sem veit að ég vel gjarnan fisk og kjúkling. Svo ætla ég að smakka sultuna/marmelaðið sem ég sauð í kvöld eftir eigin uppskrift. Ég ætla líka að horfa á sjónvarpsmessuna með það fyrir augum að ég verði pínulítið betri maður af.

Maður verður bara þreyttur :) sagði Björn

Hann Björn Jóhannsson skólabróðir minn frá Skógum sagði í innleggi á feisbókinni í dag að hann yrði bara þreyttur af því að fylgjast með mér, en svo hafði hann broskall á eftir setningunni. En ég væri ekkert hissa þó að einhverjum þætti ég ganga langt í hamagangi. Ég fór út í morgun og gróf í tvo tíma í því sem ég get virkilega kallað urð og grjót. Þá var ég aðeins að hugsa um það að ég hefði væntanlega getað fengið einhvern til að koma með traktorsgröfu til að grafa fyrir mig. Einn maður hefði jafnvel komið og gert þetta fyrir ekki neitt en þá hefði viðkvæm grasrótin á lóðinni skemmst og hlutirnir hefðu alls ekki orðið eins og ég vil hafa þá. Já, og eitt og annað fleira var til fyrirstöðu fannst mér.
 
Ég hef gripið í það undanfarið að þýða mjög stuttan texta á íslensku, texta sem mér þykir afar góður og texti sem er alveg sérstaklega mikið umhugsunarverður. Textinn er örstuttur en ef ég ætla að þýða hann til að birta hann, þá verð ég að vanda mig -og- ég verð að vera viss um að ég skilji hann sjálfur. Ég hef tekið eina og eina setningu úr þessum texta út með mér, út í holuna sem ég hef verið að grafa, og þar hef ég farið í gegnum það hvort ég skilji hann örugglega.
 
Skítugur og með ögn af möl í öðru stígvélinu, eða jafnvel báðum, hef ég komist að niðurstöðu um skilning minn á textanum og ég hef einmitt fundið íslensku orðinn sem ég vil nota til að mála upp meiningu og mikilvægi þessa texta. Svo hef ég farið inn og skrifað hálfa eða heila línu sem ég hef verið orðinn ánægður með og ekki þorað að treysta því að ég mundi muna þessi orð ef ég færi ekki samstundis inn til að skrifa þau niður. Þessi hola sem ég hef verið að glíma við núna hefur verið fín hugleiðsluhola eins og margar aðrar holur hér á Sólvöllum.
 
Þannig getur tíminn liðið í urð og grjóti og mér finnst það ekki slæmt. Hefði hann Mikki á Suðurbæ komið með gömlu heimilisgröfuna sína er eins víst að ég væri ekki búinn að skrifa þau vísu orð sem mér raunverulega finnst ég hafi skrifað.
 
Svo tók ég snögga ákvörðun í morgun. Ég ákvað að fara í ferðalag og taka tvo kalla með mér. Svo hringdi ég til þeirra og þeir vildu koma með. Ég ákvað tíma og þeir samþykktu og svo fór ég út og gróf þangaði til jarðaberjaholan var tilbúin. Síðan skolaði ég af mér óhreinindunum, fór inn til Örebro og tók upp hina kallana og svo ókum við út úr bænum. Við skeggræddum, sögðum frá, spurðum hver annan og áttum almennt mjög góðar samræður á leiðinni suður til Laxå, en þangað fórum við líka fyrir fáeinum vikum en komum þá að lokuðum dyrum.
 
 
Þetta var áfangastaðurinn, verslunin Linne & lump í Laxå, verslun sem selur notuð húsgögn og ýmislegt fleira. Núna var opið og við kallarnir þrír vorum komnir af bæ. Ég fór til að sækja smá hluti sem Rósa var búin að kaupa á þessum stað og voru geymdir þarna fyrir hana. Einnig til að líta á ýmislegt sem ég hafði áhuga fyrir sjálfur. Þegar ég var rétt kominn inn úr dyrunum og búinn að bjóða góðan daginn spurði konan sem stendur þarna við afgreiðsluborðið hvort ég væri að sækja vörurnar fyrir dótturina. Jú, svo var það og þau byrjuðu að pakka niður. Sumir eru miklir mannþekkjarar.
 
 
Guðjón Björnsson, Tryggvi Þór Aðalsteinsson og Hans Hellsson. Á meðan skoðuðum við kallarnir, eins og mér fellur vel að segja, mjög margt vel boðlegt þarna inni. Húsgögnin eru mjög mikið frá því um 1960 eða svo, mikið af tekki og mikið sem minnti mig á húsgagangerðina þegar ég vann í Trésmiðjunni Meið um og upp úr 1960. Svo auðvitað notuðum við tækifærið og hvíldum okkur og konan sem stóð við afgreiðsluborðið á efri myndinni var alveg til í að taka af okkur mynd.
 
 
Ég var mjög hrifinn af þessum skáp og mig vantar einn slíkan. Ég keypti mér matrborð þarna um daginn og skápurinn er alveg í stíl við matrborðið. Hann mundi líka losa mig við bækur af stað þar sem þær eiga alls ekki heima. Ég fór þarna til að sækja vörurnar fyrir Rósu og líka til að leita að svona skáp. Ég fór ekki til að athuga hvort það væri ekki eitthvað á boðstólum sem ég gæti keypt, ég fór til að leita að ákveðnum hlut. Ég verð nú að ákveða mig fljótt því að þessi skápur verður ekki á boðstólum hversu lengi sem helst.
 
 
Þegar við vorum búnir að fá nóg af verunni í Linne & lump fórum við til Hollendingsins í bakaríinu þar sem við komum líka við í síðustu Laxåferð. Við fengum okkur kaffi og vel með því. Hollendingurinn þekkti okkur aftur og tók vel á móti okkur. Hann tók líka mynd af okkur og mér finnst nú bara að við séum hinir reffilegustu kallar. Þarna erum við með gott kaffi, rækjusneiðar og annað góðgæti.
 
 
Og sjáum nú til, þetta er nefnilega Hollendingurinn. Það var ekkert vandamál að fá að taka af honum mynd. Ég spurði hann hvað hefði dregið hann til Svíþjóðar og það var einföld skýring á því. Hann var búinn að koma fimmtíu sinnum til Svíþjóðar og þá fannst honum tími til kominn að flytja þangað. Núna er hann að læra sænsku í skóla. Þetta minnti mig á mín fyrstu misseri þi þessu landi.
 
Nú er það komið fram svo óyggjandi sé að ég geri fleira en að grafa í urð og grjóti. Ég er búinn að fara í ferðalag í dag. Þegar ég kom heim fór ég umsvifalaust í drullugallann og dreif mig út. Nú er ég búinn að flytja allt grjót frá síðustu holunni minni og er búinn að fylla hana aftur að einum þriðja. Já, það getur enginn sagt að lífið hjá mér sé einhæft -eða hvað?
 
*          *          *
 
 
Þessi mynd er tekin í gær, 10. apríl, og er tekin þegar fyrstu sænsku jarðarberin voru seld á þessu vori. Það var í Stokkhólmi og það voru skólabörn sem fengu að njóta góðgætisins.
 
 
 
Þegar jarðarberjaílátin á Sólvöllum fara að líta svona út, þá mun ég ekki velta mér upp úr því að ég hafi orðið skítugur undir nöglunum við að grafa í urð og grjóti.

Trygglyndi

 
Þær eru trygglyndar gömlu vinkonurnar hennar Valdísar. Ég sendi einni þeirra skilaboð á feisbókinni um daginn og spurði hvort þær vildu ekki fara að kíkja hingað á Sólvelli og það stóð ekki á því. Þær voru hér svo örfáum dögum seinna. Ein þeirra gat ekki komið og þá hljóp önnur í skarðið, sú sem er í miðjunni vinstra megin. Svo höfðu þær einkabílstjóra, hann Robban sem er maður Ghita, en þau sitja hægra megin við borðið. Vinstra megin eru þær Kaarina, Margareta og Inger.
 
Ég bar ekki hnallþórurnar fyrir fólkið, en pönnukur ásamt sultu og rjóma voru í anda Valdísar. Rúgbrauðið einnig sem er þarna í hvarfi framan við Robban ásamt faglega steiktu nautakjöti, svo ég tali ekki um prestostinn sem er afbragðs góður. Þetta með nautakjötið leysti ég þannig að ég fór inn á Google og fann þar uppskrift frá kaupfélaginu. Best var það þegar það kom heitt út úr ofninum seint í gærkvöldi og var svo búið að liggja í álfólí í hálftíma. Svo stalst ég til að smakka. Namm namm hvað það var gott, mikið betra en í dag. Þetta með álfólí, það var ekki í kaupðfélagsuppskriftinni, það lærði ég hjá honum Þóri.
 
 
Eftir skoðun á síðustu athöfnum mínum hér á Sólvöllum hélt fólkið heim á leið. Það var jú margt sem ég var búinn að koma í verk síðan konurnar komu síðast. Það hefur margt átt sér stað á vegferð þeirra. Tvær þeirra voru sendar frá stríðshrjáðu Finnlandi á sínum tíma í öryggið í Svíþjóð og þær eru hér enn í dag. Þær ganga ekki heilar til skógar en við Robban getum virkilega þakkað fyrir það sem við höfum.
 
*          *          *
 
 
Ég tók forskot á sæluna og fékk  lánaða mynd sem tilheyrir júlí á almanakinu frá Rósu og Pétri. Þar eru þau að leika sér frændsystkinin Hannes Guðjón og Erla Jónatansdóttir í Vestmannaeyjum. Þessi blómarós átti afmæli þann 7. apríl, varð þá 17 ára. Ég veit ekki við hvaða tækifæri þessi mynd var tekin en kannski kemur það fram þegar ég birti þetta blogg.
 
 
Ég veit hins vegar að þessi mynd var tekin af henni þegar hún var fermd. Eitthvað fyrsta árið sem við Valdís áttum heima í Örebro dvaldi Valgerður hjá okkur með þær systur, Erlu og Guðdísi. Þær voru búnar að ærslast kringum mig einhvern dagpart og svo var tekin mynd þar sem ég sat með þær á sitt hvoru hné. Á þeirri mynd er ég ekki í jafn góðu formi og á þessari mynd. Ég virðist hafa verið orðinn afar þreyttur þá, því að það er eins og andlitið á mér sé sigið all langt niður eftir höfðinu. Ég vona að þær systur fari að koma í heimsókn á Sólvelli og ég veit að þær munu ekki framar þreyta afa sinn á sama hátt og þær gerðu þá. Það er langt síðan ég fór að öfunda börn fyrir þá nánast óþrjótandi orku sem þau hafa. Ég mundi koma mörgu í verk á stuttum tíma ef ég byggi yfir öðrum eins krafti.
 
*          *          *
 
 
Mamma kom í heimsókn til okkar 1994 og lenti þá í eihverjum mestu sumarhitum sem komið hafa í þessu landi. Við fórum oft út að keyra og skoða okkur um. Eitt sinn vorum við í hálfgerðum óbyggðum ofan við Svärdsjö í Dölunum þar sem við Valdís áttum þá heima. Við ókum gegnum vel hirtan skóg þar sem beinir og snyrtilegir stofnar uxu upp úr stórgrýttu landi, hreinlega upp úr urð, skógur sem var orðinn æði gamall. Landið var eins og ég sagði stórgrýtt og virtist algerlega snautt af jarðvegi. Þá sagði mamma alvarleg á svip; það er alveg merkilegt að svo fallegur skógur geti vaxið á svo grýttu og hrjóstrugu landi. Ég verð að segja að ég var sammála og þetta vekur oft undrun mína enn í dag.
 
En það land var mikið stórgrýttara en landið sem ég er að grafa í þarna, finnst mér nóg um samt. Ég frétti í gær eða fyrradag að rifsrunnarnir mínir mundu ekki gefa af sér ber fyrr en eftir tvö eða þrjú ár. Til að bæta það upp keypti ég tólf jarðarberjaplöntur, en þær nefnilega eru með berjum þegar á fyrsta ári. En þá fékk ég að sjálfsögðu meiri vinnu sem skurðgröfuleikari. Holan er ekki langt komin á myndinni sem er frá í gær, en samt er ég þegar búinn að fara með einar hjólbörur af grjóti, umfram það sem liggur þarna við holuna, í ákveðna uppfyllingu bakvið Bjarg. En nú er ég langt kominn með þessa holu og það verður gaman að gróðursetja jarðarberjaplönturnar á morgun. Ég mun ekki sakna grjótvinnunnar þegar þetta verður búið. Annars er þessi gröftur bara hressandi fyrir mig.
 
 

Að gera Sólvelli að yndislegum stað þar sem ljúft verður að vera

Ég sagði í gær að ég hlakkaði til að fara til hans Ingemars i Skrúðgarðagróðri til að kaupa nokkrar sortir af berjarunnum. Þegar ég vaknaði í morgun bar ég ennþá þessa tilhlökkun í brjósti mér. Ég snaraði mér á fætur þegar ég hafði lokið nokkurn veginn hefðbundnum morgunsiðum mínum, las innkaupalistann, drakk slatta af vatni og heitt vatn með hænsnateningi í, og þar með gat ég barið mér á brjóst og haldið af stað. Ég fékk að geyma kerruna á bílastæðinu hjá Skrúðgarðagróðri meðan ég fór niður í Tybble til hans Tony sem klipti mig aldeilis afbragðs vel. Ég finn það svo vel að það eykur sjálfstraust mitt að Tony klippir alltaf runnagróðurinn sem leitar út úr eyrunum og löngu sveru hárin sem taka yfirhöndina á augabrúnunum. Ég hef enga trú á að það sé hægt að rækta ber á þessum óvelkomnu hárum og því best að vera af með þau.
 
Kogödsel stendur þarna á einum pokanum. Það þýðir kúaáburður sem fyrir mér er kúaskítur. Ég gæti líka fengið að taka skít hjá einhverjum bónda, hefur verið boðið upp á það, en ég skal bara viðurkenna að ég vel lúxusinn framyfir ferð í fjós eða hesthús. Mér finnst að einn sem er 72 ára geti alveg leyft sér slíkt.
 
 
Nei, sá er orðinn myndarlegur sagði Ingemar þegar ég kom til baka frá rakaranum. Það var lítið annað að gera en að taka ofan hattinn við svona hrós og segja takk takk. Síðan fór ég með hjólbörur út að berjarunnunum og ætlaði að sýna að ég færi létt með að velja nokkra slíka potta. En það fór á annan veg. Ég horfði bara alveg ruglaður á úrvalið og gafst upp á nokkrum sekúndum. Pernilla sá þetta og kom og hjálpaði mér af mikilli lipurð og fræddi mig mikið um leið. Ég er ekki óþekktur þarna, hef verið viðskiptavinur í Skrúðgarðagróðri síðan 1999, og þó að ég sé enginn gildur kaupandi finn ég oft að ég fæ að njóta þess að sýna Skrúðgarðagróðri tryggð. Pernilla virtist leggja sig í lima við að velja góða einstaklinga handa mér og ég reyndi í staðinn að vera sem skemmtilegastur. Svo voru komnir tólf runnar af sex tegundum á hjólbörurnar.
 
Þar með hélt ég inn að kassanum þar sem Ingemar tók á móti mér. Við bættum nú við ýmis konar moldargóðgæti og svo var allt slegið inn í kassann. Hann leit á mig eins og pínulítið hikandi og sagði; áttarðu þig á að þetta kostar 1750 krónur. Já, ég sagðist gera það, og að ég hefði verið alveg viðbúinn að þetta yrðu allt að 2000 krónur. Svo borgaði ég og allir voru ánægðir.
 
 
Pokinn sem það stendur 15 á inniheldur það sem kallað er Hönsgödsel eða hænsnaáburður, sem fyrir mér er hænsnaskítur. Hann er að vísu kornaður eins og smágerður fóðurbætir og er auðvitað ósköp þrifalegur og meðfærilegur. Runninn næst okkur er amerískt bláber og sá næsti með laufinu er bróðir þyrnirunnans. Bróðirinn hefur enga þyrna en svo keypti ég líka plöntu með þyrnum og þá meina ég svo sannarlega með þyrnum. Ég gróðursetti þá bræðurna svolítið afsíðis þar sem það er lítið hætta á að fólk rífi sig á þyrnunum. Þessir tveir runnar sem á sænsku heita krusber tilheyra rifsættinni eins og mikið annað sem ég keypti í dag.
 
 
Jæja, lítið mál er orðið að löngum texta. Útgjöldin voru 1750 krónur, eða kannski álíka mikið og þriðjungur af því að fara niður til Grikklands og vera þar í viku. En ég er mjög ánægður með þetta val. Ég fékk líka símtal í dag og ég verð að segja að vera mín úti undir heiðum himni hér á Sólvöllum meðal athafnasamra fugla, með óhreinindi undir nöglum og skrikandi lítillega í leirnum, var afskaplega mikið heilnæmara en það sem sumir velja að aðhafast. Ekki er það ókeypis heldur. Um stund var ég bara sorgmæddur. Eftir dágóða stund tókst mér að leggja það til hliðar og naut þess að koma innkaupum dagsins á sinn stað til frambúðar, kannski til áratuga.
 
Ég komst að því að jarðvegurinn sem fór í holurnar í dag vegur álíka mikið og það sem ég hef verið að grafa upp undanfarið. Að vísu gat ég látið það falla niður í stað þess að moka því upp, en ég er líka búinn að ganga frá því á einum degi sem ég gróf upp á þremur dagpörtum.
 
Á morgun fer ég í Vornes. Þangað er boðið fyrrverandi starfsfólki og þó að ég sé enn í vinnu er mér boðið sem svo gömlum starfsmanni. Ég mun hitta fólk sem ég hef aldrei hitt áður, það er fólk sem vann þar á nundan mér meðan Vornes samsvaraði stað sem var kannski eins og Gunnarsholt var forðum.
 
Þetta er búinn að vera góður og nytsamur dagur og ég er ánægður með hafa valið að fara í þetta vorverk sem brátt er á enda. Svo taka við önnur vorverk en einn góðan veðurdag mun ég sitja á veröndinni, horfa yfir Sólvallasvæðið og njóta þess að hafa gert hvert valið á fætur öðru sem hefur fært mig nær því marki að gera Sólvelli að einum yndislegum stað þar sem ljúft verður að vera sem og hingað til.
 
Nú verða svolítil verðlaun, granatepli í skyri.

Best að standa við það sem ég segi

Það er sunnudagur. Í gærkvöld bloggaði ég en var ekki ánægður með það. Svo var ég að fara lauslega yfir áður en ég birti það -og viti menn, allt í einu hvarf hver einasti bókstafur af skjánum en eftir stóðu myndirnar. Það hefur líklega verið best að svo fór, að einhver tæki í taumana og henti vitleysunni. Svo var ekkert meira með það en ég get líka sagt frá því að oft hleypur í mig þrái og þegar ég finn að ég er ekki í bloggstemmingu, þá er ég viss með að láta alls ekki undan. Ég læt mig þá hafa það, skrifa samt og birti svo steypuna.
 
En að ég bloggaði yfir höfuð í gær kom til af því að ég fékk enn eina staðfestinguna á því að ég hef svo mikið að gera með það sjálfur hvernig mér vegnar. Ég kom heim eftir hádegi í gær eftir vinnu í meira en sólarhring. Á leiðinni heim fann ég hvernig þreytan lagðist yfir mig af miklum þunga. Þessi sólahringur hafði líka verið venju fremur erfiður meðal mjög veiks fólks. Þegar heim kom byrjaði ég á því að setjast í mjúkan stól og halla mér aftur á bak og þá fannst mér sem ég væri gersamlega búinn, ég gæti ekki gert neitt meira í dag. En þá tók ég ákvörðun.
 
Ég hrærði hálfa uppskrift af pönnukökum og bakaði svo þrjár pönnukökur. Ég lét nægja að horfa á þær og njóta ilmsins af þeim. Síðan fór ég í drullugallann. Ég var búinn að segja í bloggi á föstudaginn var að ég mundi grafa eina holu fyrir berjarunnum eftir að ég kæmi heim úr vinnunni á laugardag. Svo sagði ég sjúklingunum í Vornesi að ég ætlaði að grafa tvær. Spurning hvort það voru mannalæti.
 
Ég var alls ekkert mikið fyrir mann að sjá er ég viss um þegar ég dróst út úr dyrunum, aðfram kominn maðurinn eins og mér fannst. Svo byrjaði ég að grafa. Ég fann ferskt útiloftið flæða ofan í lungun og með haka og járnkall í höndunum milli þess sem ég mokaði komst púlsinn á ferð. Verkinu miðaði. Ég mundi eftir því hversu vel pönnukökurnar ilmuðu örstuttu áður og ég ætlaði að grafa eina holu og fá mér svo mat með volgar pönnukökur í eftirrétt. Síðan ætlaði ég að hafa það huggulegt.
 
Lífið varð svo gott, veðrið gat ekki verið betra, verkinu miðað vel og ég sá fyrir mér rifsberjarunna með bæði rauðum og svörtum berjum. Ég sá fyrir mér potta á eldavél og sultugerð í gangi, krukkur fyllast, ristaða brauðsneið með osti og nýrri sultu og glænýtt kaffi með. Mikið er stundum gott að vera til. Ég fann fyrir svita undir höndunum, hakinn varð bara léttari og skóflan lét betur í hendi. Svo fór ég niður í holuna því að hún var orðin svo djúp.
 
Guðjón, af hverju ertu alltaf að byggja var þá sagt þétt við hlið mér. Það var barnsrödd. Siw, fimm ára nágrannastúlka, var komin í heimsókn. Bíddu aðeins, sagði hún. Svo hljóp hún heim og kom strax til baka með rekuna sína. Svo mokuðum við bæði. Aftur bað hún mig að bíða og hljóp heim á ný. Nú kom hún með hjólbörurnar sínar og svo mokuðum við líka í hennar hjólbörur. Svo fórum við bæði með hjólbörur út í skóg til að setja mölina sem upp kom í slóðina þar sem hún er ójöfnust. Þegar við komum til baka úr skóginum tók Siw rekuna sína og setti í hjólbörurnar. Svo sagði hún bless og hélt heim á leið. Ég þakkaði henni fyrir hjálpina.
 
Ég var liðugri í hreyfingum en ég hafði verið lengi, verkfærin léku ótrúlega vel í hendi og það var svo gaman að grafa. Svo var holan allt í einu búin. Eitt tonn af möl og grjóti var nú komið á sína staði þar sem það kom að gagni og hola var fullgrafin fyrir rifsberjarunna. Ég fór inn, bakaði nokkrar pönnukökur, fékk mér að borða og hafði svo pönnukökur í eftirrétt. Eftir það var aðeins eitt sem kom til greina og það var að grafa aðra holu eins og ég hafði sagt sjúklingunum í Vornesi. Ég segi þeim aftur, aftur og aftur að það meigi ekki skrökva. Þá má ég ekki gera það heldur.
 
Það er komið sunnudagskvöld og öllum holugreftri sem átti að ljúka annað kvöld er nú þegar lokið og gott betur. Á morgun fer ég til hans Ingemars í Skrúðgarðagróðri og kaupi sex rifsberjarunna af ólíkum tegundum. Rauð rifsber, svört rifsber og þyrniber sem líka eru af rifsberjaættinni. Ég þarf líka að kaupa tvo hindberjarunna, tvo bláberjarunna og berjalyng sem ég man ekki hvað heitir.  Og ég þarf að kaupa hænsnaskít, alparósarmold og plöntunarmold, að öðru leyti á ég hálft bílhlass af góðri mold frá því í fyrra.
 
Ef ég hefði trúað því í gær að ég væri svona þreyttur eins og ég hélt að ég væri, þá ætti ég svo mikið eftir að gera núna að ég gæti þess vegna misst móðinn og tekið ákvörðun um að gróðursetja ekki fyrr en eftir Íslandsferðina. Þá hefði uppskera ársins væntanlega ekki orðið svo mikil og ég hefði orðið fúll yfir að hafa farið of oft í vinnuna. En þess í stað sit ég hér glaður og blogga og hlakka svo sannarlega til að gera innkaupin á morgun. Og þar sem ég þarf ekki að grafa neina holu á morgun ætla ég til hans Tony rakara og láta hann gera mig fínan um höfuðið. Það verður enginn ljótur kall sem Örebrúararnir fá að berja augum eftir að ég hef verið hjá honum á morgun.
 
Ég gerði gott val í gær og svo átti ég líka eftir tvær pönnukökur áðan til að hafa í eftirrétt eftir kvöldmatinn.
 
 
Svona líta ærlegar holur út á Sólvöllum. Einn meter í þvermál og hálfs meters djúpar. Það þýðir um eitt tonn af jarðvegi sem kemur upp úr holunni. Hún Elísabet nágranni minn norðan við kom til mín í dag til að athuga hvað ég væri eiginlega að gera. Þegar hún kom að fyrstu holunni hálf hrópaði hún "oj". Ég sagðist vilja gera þetta almennilega þar sem ég ætlaði ekki að grafa þessar holur nema einu sinni. Svo fórum við inn á Bjarg til að skoða og hún fór svo ánægð heim. Hún hefur nefnilega lengi haft áhuga fyrir að sjá hvað ég hef verið að gera á Bjargi.
 
 
Hún Stína nágranni sunnan við, mamma hennar Siw, spurði mig einu sinni hvort ég vissi af hverju væri mest í Krekklingesókn. Nei, ég vissi ekki. Það eru steinar sagði hún. Ég segi stundum að ef ég styðji mig við stunguspaðann, þá hrökkvi undan honum steinn. Kannski aðeins ýkt skal ég viðurkenna. En þó að það sé afar grýtt hér, þá er jörðin gjöful.
 
 
Hindberin vilja gjarnan svolítið súran jarðveg og þess vegna er þeirra hola í skógarjaðrinum. Hér er ég búinn að hálf fylla holuna aftur af gjöfulli mold. Björkin upp í vinstra horninu á að víkja fyrir matjurta og berjarækt. Hægra megin sér í viðarskýli sem Jónatsan tengdasonur smíðaði fyrir tæplega tveimur árum. Það hefur nú þjónað tilgangi sínum þarna og verður fært innan tíðar.
 
 
Já, hvers vegna ætli ég hafi grafið við bláberjabekkinn í dag. Jú, þar eiga að koma amerískir bláberjarunnar í viðbót við alla hina bláberjarunnana. Grannir bláberjarunnarnir sjást vart á þessari mynd, en bíðið bara við þangaði til þið fáið að sjá myndirnar af þeim laufguðum og með hnígandi greinar, hlaðnar stórum, stórum bláberjum. Mikið verða þau góð í íslenska skyrinu sem Svíarnir selja mér í kaupfélaginu sínu.
 
 
Þessi mynd er frá því í hitteðfyrra þegar Hannes var að tína ber af einmitt amerískum bláberjarunna.

Kannski er ég óttalegur kjáni en lífið er samt mikilvægt

Já kannski er ég óttalegur kjáni. Snemma í morgun þegar staðarhaldarinn í Vornesi mætti í vinnuna spurði hann mig hvort ég gæti unnið milli föstudags og laugardags. Það þýðir vinna frá klukkan ellefu á morgun, föstudag, og fram til hádegis á laugardag. Mér hálf hraus hugur við en sagði svo já. Svo kom dagskrárstjórinn og þegar hann heyrði þetta sagði hann við mig að ég léti ofnota mig. Einum og hálfum tíma síðar kom hann til mín og spurði hvort ég gæti komið klukkutíma fyrr á morgun til að taka fyrirlestur áður en helgarafleysingin byrjaði. Þá lét ég hann ofnota mig ennþá meira og sagðist skyldi gera það.
 
Þar með verður ekki af heimsókn minni til yfirbýflugnadrottningarinnar nágranna míns sem ég ætlaði að heimsækja eftir hádegi á morgun og sjá býflugnabúskapinn hennar. Ég kem þá ekki heldur til með að grafa fyrir svo mörgum berjarunnum um helgina eins og ég hafði hugsað mér.
 
Já, ég sagði í bloggi um daginn að ég þyrfti að fara að byrja á útiverkunum. En þegar ég kom fram daginn eftir skein sólin svo fallega gegnum greina og barrverk í austri. En það var líka annað sem hún gerði. Hún skein á skítugar gluggarúðurnar móti austri og flekkirnir beinlínis öskruðu á rúðunum. Þegar kvöldaði skein hún líka á gluggarúðurnar vestan megin þar sem hún var farin að draga sig niður móti Kilsbergen. Að vísu eru það útiverk að þvo gluggana að utan en ef ég þvæ þá bara að utan kemur sólin til með að lýsa upp skítinn innan á rúðunum þangað til hann hefur verið þrifinn líka. Það er sem sagt ekki flóknara en svo að ég er óttalega upptekinn maður :-)
 
Og fyrst ég er byrjaður að tala um skít þá er það líka svo skrýtið að rykið sem ég þreif svo samviskusamlega innan húss fyrir jól er komið aftur. Ekki veit ég hvernig, en það er komið. Gólfin eru hins vegar í lagi -alla vega í dag. Það er þannig með þrifin að þegar ég byrja verður vandvirknin full mikil og tíminn sem fer í það of langur. En það getur varla talist löstur eða hvað? Það er eins og ég þurfi verkstjóra við sum verk til að þau verði unnin.
 
En það er spurning hvers vegna ég er þá að láta hafa mig í vinnu. Já, en þannig er það að þegar við héldum morgunfund í morgun í Vornesi var ég lang elstur. En ég var ekki bara það. Ég var líka minnst þreyttur og slitinn utan hjúkrunarfræðingsins og staðarhaldarans. Dagskrárstjórinn er búinn að vera veikur heima í nokkra daga, annars hefði hann líklega verið minna slitinn en ég. Vinnan virðist því ekki fara illa með mig.
 
Svo er annað mál sem er hrikalega alvarlegt. Fólk sem við hittum og ekki tekst að nýta sér meðferðina deyr allt of oft. Undanfarið, á óhugnanlega stuttum tíma, hafa þrír menn milli tvítugs og tuttugu og átta ára dáið -dáið í sjúkdómnum. Sá sem var tuttugu og átta ára er einhver notalegasti maður sem ég hef hitt. Kurteis, almennt fróður maður, viðræðugóður, hógvær og tillitssamur. Hvað meira getur prýtt ungan mann? Hann var líka sonur sænks manns sem var afburðagóður vinur minn, en sá er látinn líka en úr öðrum sjúkdómi. En það dugði ekki til. Sumir komast ekki undan. Mig setti hljóðan. Svo ók ég heim og var þungt hugsi þrátt fyrir afburða fallegan vordag.
 
Ég hugsaði til annars fólks sem ég þekki til og fólks sem mér þykir vænt um sem ræður ekki við sjúkdóminn alkohólisma og hefur fallið aftur niður í svartnættisgljúfrið. Það er líka sorglegt og ennþá sorglegra vegna þess að þetta fólk á börn og aðra aðstandendur sem elska þá þrátt fyrir allt. Fólk þarf ekki að deyja til að þetta verði sorglegt. Ég veit að ég get gert gagn og ég bara get ekki annað en haldið því áfram. Svo er ég minna þreyttur en unga fólkið. Ég kem oft inn á þetta, ég veit varla hvers vegna en það skiptir bara ekki máli.
 
En nú ætla ég að opinbera nokkuð. Þrátt fyrir þessa vinnu er ég búinn að grafa eina holu í dag, holu sem ég ætla að gróðursetja þrjá berjarunna í eftir helgina. Kannski gref ég aðra holu eftir vinnu á laugardaginn og kannski gref ég þriðju holuna eftir messu á sunnudaginn. Svo get ég grafið eina holu á mánudaginn áður en ég fer inn í garðyrkjustöðina Skrúðgarðagróður til að kaupa heilan helling af berjarunnum. Svo get ég haft gróðursetningarhátíð á þriðjudag. Það er ekki spurning að þá verða pönnukökur handa Sólvallamér.
 
Sumir þessara berjarunna skila berjum þegar í haust, aðrir ekki fyrr en á næsta ári. Svo er eins víst að hann Ivar nágranni bjóði henni Rósu að tína ber hjá sér í haust eins og hann gerði í fyrra. Stokkhólmsfólkið er nefnilega afar áhugasamt um þetta og er fyrir mig mikil driffjöður í að drífa þetta áfram. Kannski vill koma fjölskylda frá Íslandi til að sýsla við þetta líka. Ólafur Ólafsson fyrrverandi landlæknir kom árlega með konu sinni til Uppsala til að hjálpa móður hennar við berjatínslu og sultugerð á haustin. Þetta með ber og sultugerð getur orðið að verðugri hefð hér á Sólvöllum og ég á möguleika á að verða þátttakandi í því í nokkur ár og kannski all nokkur ár.
 
Lífið er gríðarlega mikilvægt og frábært að vera þátttakandi í því. Ég skal nú reyna að greiða eitthvað upp í þátttökugjaldið og ég fer því í vinnu á morgun. Ég fæ vissulega laun fyrir það en ég mun heldur ekki verða sérhlífinn við starfið.
 
Þrátt fyrir annríkið -og einmitt vegna annríkisins- þá fór ég á Brändåsen og borðaði virkilegan kvöldmat. Steikt svínasíða var það (svipað og beikon) og raggmunk með. Raggmunk er eins og þykkar pönnukökur, gert úr hveiti, mjólk og miklu af kartölfum ásamt smá bragðbæti. Svo er þarna salat á diski. Ég reiknaði með að ég þyrfti að víkka út beltið um eitt gat þegar ég væri búinn að borða þetta en gleymdu því. Ég brenni þessu á örstuttum tíma.
 
 
Þetta er útsýnið frá gestaherberginu á Bjargi. Þess fá bara þeir að njóta sem koma þangað. Hinir fá ekkert af því.
 
 
 
Brändåsen er borið fram Brendosen, en ef ég skrifa það þannig, þá bara er það svo skuggalega vitlaust skrifað. Það er oft svona að ég er tvístígandi hvernig ég á að skrifa, að skrifa það samkvæmt sænskri stafsetningu eða íslenskum framburði. En eins og ég sagði er það þá svo hrikalega vitlaust skrifað.
 

2. apríl 2013

Það var 2. apríl 2013 sem Valdís kom heim til sín í síðasta skipti. Það hvarflaði yfir höfuð ekki að mér að nota þessa mynd eða minnast þess neitt sérstaklega í dag, ekki fyrr en þessi mynd birtist á skjánum hjá mér hvað eftir annað núna á síðustu dögum. Ég var ekki að leita að henni, hún bara birtist. Það var eins og það væru skilaboð.
 
Ég veit hvað hún horfði á þegar þessi mynd var tekin, það var Hannes Guðjón sem stóð í dyrunum heima, líklega frekar óöruggur vegna þess hvernig hlutirnir komu honum fyrir sjónir þá. Einum eða tveimur dögum fyrr hafði amma hans gefið honum leikfangaorgel að gjöf, orgel sem gefur tóna þó að það sé leikfang.
 
Það var margt í bígerð á Sólvölum þessa daga fyrir ári síðan. Það átti að gera það sem mögulegt var til að gera Valdísi sumarið léttara og bærilegt að upplifa. Engum duldist að þetta sumar yrði hugsanlega það síðasta fyrir hana. Tveimur vikum seinna gátum við lagt allar áætlanir á hilluna, þá hafði sá sem öllu ræður þegar gert henni lífið léttara.
 
Næstu daga eftir þessa heimkomu skeði svo margt sem var í síðasta skipti. Aprílmánuður á þessu ári hefur þegar byrjað með því að minna á sig á þann hátt að minningarnar um þessi síðustu skipti falla í slóð mína alveg án fyrirvara. Í morgun var ég á leið í vinnuna, á einum þessara fallegu vordaga þegar sólin bara leikur við lífið. Ég fann vel að lífið hafði ekki bara verið fullkomið gegnum áratugina, en að það voru bara bjartar stundir sem minntu á sig á þessum fallega vordegi. Ljúfir dagar, væntingar, uppfylltar væntingar, blóm, falleg kvöld, líflegar stundir og góð og hlý samvera. Börn sem komu í heiminn.
 
Svo hélt ferð mín áfram í vinnuna og sólin hélt áfram að senda geisla sína niður til mín og minna mig á að hún ber með sér minningarnar um góðu stundirnar. Klökkvinn var nálægur en miskunnsamur og það sem hrærðist í huga mér var að það væri svo mikilvægt að vera með, bara halda áfram að vera með og þroskast af lífinu eftir bestu getu. Heima logar ljós hjá rósunum hennar Valdísar og ég læt það halda áfram að loga frameftir mánuðinum.
 
 
 
 
Þessi mynd sýnir betri daga eins og kannski hálfu ári fyrir aprílmánuðinn þegar ferðalaginu luk. Hannes var mikill lífgjafi. Þegar amma var að koma heim frá geislameðferðarferðunum lagði hún sig oft í sófa í stofunni. Þá kom Hannes með lækningatöskuna sína og reyndi að hjálpa ömmu sinni. Það gerði hann vissulega, hann gerði stundirnar bjartari en það er svo oft sem ekki gengur að lækna og svo var það á Sólvöllum á sínum tíma, en sumum er meira lagið en öðrum að gera studnirnar bjartari
 
Hannes grípur ennþá orgelið frá ömmu og gefur nokkra tóna. Svo leggur hann það frá sér og heldur áfram að lifa sínu lífi í leikum sem hann sér sem sitt starf. Hann gerði sannarlega sitt besta til að hjálpa ömmu.

Frá graskeri til vegavinnu

Ég stóð við mitt í dag, ég sáði fyrir graskeri og kúrbít, kúrbít eða zucchini, sem ég hef gjarnan kallað skvass. Það eru sex plöntur í hvorum bakka sem standa þarna í sitt hvorum glugganum. Við þurfum alls ekki allar þessar plöntur því að ef þær kæmust allar álegg og skiluðu ávöxtum, þá mundi ég ekki þurfa svo mikið meira að borða það sem eftir lifir af ári. Það kemur mynd af graskeri neðar. Svo er mikið að finna um þetta á netinu og ég bendi á hlekkinn hérna fyrir neðan, skvass.
 
Á þessum hlekk er margt girnilegt og hollt að finna   Skvass
 
 
Þessi mynd er af kúrbítsblómi, býsna fallegt, en mikið af lífi er á brónublöðunum.
 
 
Sultu og saftgerð síðastliðið haust og á borðinu liggja þrír kúrbítar sem voru svo steiktir með mat þegar sultugerðinni lauk. Valdís steikti kúrbít gjarnan í raspi og þð var hinn allra besti matur.
 
 
Þarna er Pétur að byrja að gera að graskeri á eldhúsbekknum á Sólvöllum í fyrrahaust að viðstöddu áhugasömu og glöðu fólki. Þetta grasker var þó nokkuð stærra en löggiltur fótbolti og úr því komu 7,4 kíló af graskerskjöti.
 
 
Þann sama dag var svo graskerssúpa sem er falleg á diski eins og sjá má. Það er líka hægt að gera hana fallegri með því að strá einhverri kryddjurt yfir diskinn.
 
Það er hægt að aðhafast mikið góða hluti á Sólvöllum og það er mikil dyggð fólgin í því að hlú að því sem landið getur gefið af sér. Bláber má nefna og í skóginum vex mikið af berjum sem hægt er að gera mikinn mat úr. Ég hef hins vegar fram að þessu notað tíma minn í annað en nú er færi á að breyta því. Allur húsakostur og aðstaða er orðin þannig að nú get ég snúið mér að nýjum sviðum í lífinu.
 
 
Heyrðu, ekki mátti ég gleyma eplatrénu sem líka gaf af sér ávexti í fyrra og ég ætla rétt að vona að eplatrén gefi af sér meiri uppskeru á næsta ári. Eplatrén á Sólvöllum eru öll ung.
 
 
*          *          *
 
 
 
Ég hefði viljað hafa tvo daga í viðbót á Bjargi en það verður að bíða. Ég hef sagt að ég verði að snúa mér að gróðri jarðar á fimmtudaginn þegar ég kem heim úr vinnunni sem ég fer í fyrir hádegi á morgun, miðvikudag. En ég komst svo langt í dag að ég gat mátað plássið fyrir bílinn þar inni. Ég á eftir að taka meira til, henda og brytja í eldinn og setja upp fleiri skápa. Það stendur ennþá dót við veggina en það er ágætt pláss fyrir bílinn eigi að síður. Ef til vill geri ég ekki meira þarna fyrr en í haust. Það er dugnaður minn sem kemur til með að ráða því og hversu mikill tími fer í önnur verkefni sem ég vel mér að taka mér fyrir hendur næstu mánuðina.
 
 
Svo var það vegavinnan sem ég talaði um í gær. Honum brást ekki bogalistin heldur núna bílstjóranum þessum. Hann á virðingu mína að fullu.
 
 
Og ekki var vegurinn amalegur að stíga út á að verkinu loknu. Það lá við að ég tímdi ekki að setja spor í hann fyrsta kastið á eftir. Og nú er hann Mikki á Suðurbæ búinn að fara nokkrum sinnum yfir veginn með dreifarann sinn og rykbinda. Þetta er allt til fyrirmyndar.
 
Af ýmsum ástæðum fer ég enn einu sinni seinna að sofa en til stóð. Í kvöld voru fyrir því óvenju gildar ástæður. Það er orðinn tveggja tíma munur á klukkunni milli Svíþjóðar og Íslands. En nú segi ég góða nótt.
 
RSS 2.0