Heimsókn á Sólvelli

Það var mikið líf á Sólvöllum um og eftir síðustu helgi þegar Hannes og fjölskylda voru í heimsókn. Það var margt fyrir hann að kynnast og margt að aðhafast sem hann getur ekki gert heima hjá sér. Þetta stundaði hann líka vel frá morgni til kvölds að frádregnum miðdegisblundinum. Myndavélar voru á lofti og hér eru nokkrar myndanna sem teknar voru af lífinu í sveitinni.


Amma keypti sláttuvél handa Hannesi í fyrra en þá var hann eiginlega of lítill til að hjálpa ömmu sinni við sláttinn. Hann var hins vegar duglegri við að hjálpa afa að hreinsa grjót af svæðum þar sem Peter gröfumaður var búinn að rusla til. Þá skoðaði hann litla steina nákvæmlega, smakkaði jafnvel aðeins á þeim og kastaði þeim svo þangað sem honum fannst að þeir ættu að vera. Við vorum ekki alltaf alveg sammála um það hvert hann mætti kasta þeim en við rukum þó ekki í hár saman út af svoleiðis smámunum. Núna þótti Hannesi sem sláttuvélin væri mikið meira við hans hæfi, alveg sérstaklega þegar einhver gat hugsað sér að keyra hjólbörurnar við hliðina á honum við sláttinn.


Inn á milli voru smá hlé og hér gaf hann sér tíma til að heimsækja dýragarðinn hennar ömmu. Þarna heldur hann í eyrað á gylltu dádýri. Það er sama dádýr og það sem gerði afa bilt við eitt sinn um nótt áður en baðherbergið var tilbúið. Afi fór þá út að skógarjaðrinum til að bera á tré og var með vasaljós sem hann vingsaði til og varð þá allt í einu var við gyllt dádýr rétt við hliðina á sér. En svo mundi hann í hálfgerðum svefnrofum eftir því að þetta dádýr tilheyrði dýragarðinum hennar ömmu og þá var allt í lagi.


Hannesi þótti mjög gaman að fara í skógarferðir. Einn daginn tók hann mest eftir trjákrónum hátt uppi. Annan dag tók hann mest eftir maurum sem áttu tvær ferðaleiðir yfir slóðina okkar og þá setti hann hendur á hné sér, beygði sig niður, og virti þessi athafnasömu smádýr fyrir sér. Þegar maurarnir tóku að leggja leið sína upp stígvélin hans var tími til kominn að halda áfram. Á myndinni er Hannes að sýna mömmu sinni stíga sem hann rataði orðið um sjálfur.


"Amma, ætlarðu ekki að sleppa mér inn, ég er orðinn svangur eftir slátt og skógarferð." Og amma sleppti honum inn.


Svo fékk hann brauðsneið hjá ömmu sinni og ávaxtasafa að drekka með.


Þá var komið að því að hjálpa afa að mæla parkett.


Svo fór mamma upp á loft til að sækja föt og þá var nú Hannes aldeilis ákveðinn í því að fara þangað líka. Hann var ekki í neinum vafa um það hvernig ætti að fara upp stiga og lagði galvaskur af stað. Hann fékk vernd við þessa stigaferð en fannst kannski sem það væri alveg óþarfi.


Hins vegar þegar hann var kominn upp til mönmmu sinnar og leit við var eins og honum brygði ögn. Seinna þegar komið verður handrið á loftskörina og Hannes verður orðinn stærri er eins víst að hann fari þarna upp til að leika sér. Þá þarf líka afi að vera búinn að hanna stiga sem hægt verður að draga fram og niður af loftinu á lipran hátt. Það verkefni er á framtíðaráætlun.

Nú er Hannes farinn heim með mömmu og pabba og það er hljóðlátara á Sólvöllum. Hann mun örugglega ekki gleyma þessari heimsókn á næstunni og hann mun skilja það næst þegar hann verður spurður hvort hann vilji koma í heimsókn til ömmu og afa.

Ég hef verið alveg hrikalega . . . . . .

Ég hef ekki bloggað í nokkra daga og ástæðan er að nokkru leyti að internet hefur ekki virkað hjá okkur nema þá helst að við gátum sent og tekið ámóti e-pósti. Ég verð að viðurkenna að mér fannst það töluverð fötlun að geta ekki farið inn á netið og það var svo komið að við gátum eiginlega ekki fylgst með atburðum í Grímsvötnum. Ég varð svolítið hissa á því hvað mig vantaði mikið. Atburðirnir í Grímsvötnum áttu að vísu aukinn þátt í þessum söknuði.

Ég hef verið alveg hrikalega latur í dag. Þetta er fyrsti dagurinn í langan tíma þar sem ég hef ekki haft neitt á dagskránni annað en að vera Valdísi eitthvað til aðstoðar vegna gestakomu. Það var nefnilega hlutverk hennar að þessu sinni að taka á móti konunum fjórum sem eru með henni í klúbbnum sem hittist einu sinni í mánuði til að borða saman hádegisverð. Nú var margt tilbúið og næstum því tilbúið hér heima hjá okkur, meðal annars nýtt eldhús. Þær voru forvitnar konurnar um það hvernig eiginlega liti út hjá okkur að þessu sinni. Þær vissu nefnilega að það hefðu orðið miklar breytingar. Svo tókst þetta svona líka ljómandi vel hjá Valdísi og allir voru ánægðir, ef til vill ætti ég að segja að allar voru ánægðar, en ég fékk þó að borða með þeim.

Á sama tíma og Fljótshverfingar og fleiri Skaftfellingar ásamt mörgum landsmönnum reyna að draga andann léttar og eru byrjaðir að þrífa til í kringum sig, þá gekk ég út í skóginn hjá okkur í 20 stiga hita og sól til að vökva lítil tré sem við höfðum fært til í þeirri iðjagrænu náttúru sem við lifum í hér. Þetta gerði ég svona rétt á milli mála í dag. Ég stóð við gráa plasttunnu og jós í garðkönnu þegar spætan byrjaði allt í einu að tromma í tré beint yfir höfði mér. Ég leit upp en var hreint ómögulegt að koma auga á þennan litla fugl sem getur trommað alveg ótrúlega hátt með aðferð sem ég skil bara alls ekki. Fyrir nokkrum dögum sá ég spætu hlaupa niður birkitré hér rétt bakvið húsið og það var auðséð að hún fann hellings fæðu í berkinum sem mér var alveg ómögulet að koma auga á. Hún flaug svo burtu með nefið fullt af fæðu sem börnin hennar hafa væntanlega átt að gæða sér á.

Þetta átti sér stað einhverjum degi eftir að hrossagaukurinn yfirgaf hreiðrið við leikskólann á Klaustri og stuttu eftir að mikið af fuglum hlýtur að hafa yfirgefið hreiður sín í Fljótshverfinu. Eftir öllu að dæma, eins og það kemur okkur fyrir sjónir, hlýtur að hafa verið mikið meira öskufall þar. Við vorum orðin hissa á því að allar fréttir miðuðust við Klaustur en kannski var það vegna þess að það var hreinlega ófært austur í Fljótshverfi. Við höfum verið mikið með hugann þarna á mínum bernskuslóðum. Hann finnski Markku, en við erum oft í sambandi, sagði í dag að hann hefði mikið meiri samúð með Íslendingum þegar erfiðleikar sæktu þá heim eftir að hann hefði kynnst mér.

Við höfðum heimsókn í nokkra daga þar sem Hannes Guðjón nafni minn var hér á ferð með fjölskyldu sinni. Það eitt krefst sérstaks bloggs en að ég byrja á þessu bloggi bara til að koma mér í blogggang aftur. Áðan kenndi ég interneti um að ég hefði ekki bloggað í heila viku en það var fleira sem lá að baki. Það var líka of mikið að gera. Ég hef unnið all nokkuð í Vornesi upp á síðkastið og svo lögðum við mikið kapp á að ljúka ákveðnum hlutum hér heima fyrir heimsókn Rósu og fjölskyldu og svo kvennanna í dag. Það var líka hreinlega of mikið að gera. Ég ætla að birta hér nokkrar myndir.


Hér stendur Valdís við kjötkatlana í umhverfi sem hún er vel sátt við. Þetta er ekki alveg tilbúið. Það vantar til dæmis flísar á veggina yfir bekknum, það er eftir að setja sökkulinn framan á fæturna undir skápunum og smávegis meira er eftir. En vel nothæft er það samt.


Já, það er mikið sem hefur breytst í þessu húsi okkar á Sólvöllum. Þessi mynd er tekin í gamla hlutanum og það sem hefur átt sér stað innan húss í þeim hluta hússins hefur allt átt sér stað eftir áramót. Gamla gólfið var látið fjúka út á lóð og helmingurinn af því lenti í eldiviðargeymslunni hjá Anders smið og hinn helmingurinn í eldiviðargeymslunni okkar. Svo þegar gólfið var tilbúið undir parkett horfðum við á loftið og svo horfðum við ennþá meira á loftið. Svo fauk það út á lóð líka. Svo fengu útveggirnir sjö sm styrkingu, viðbótar einangrun og nýjar veggjaplötur. Það eina af því gamla sem sést í húsinu eftir þetta er loftið yfir eldhúsinu. Það var þó lakkaður viður en er núna hvítmálað. Þetta mundu þau sem seldu okkur húsið þekkja en heldur ekkert meira. Þau líta inn einstaka sinnum. Þessi hluti fékk nýjan panel utanhúss og nýja glugga í fyrrasumar.


Þarna eru kátar stelpur í góðu yfirlæti í dag og eru að spekúlera eitthvað mikilvægt. Eins og sjá má vantar áfellur og gerefti á gluggana.


Og þarna stilltu þær sér svolítð upp svo að haninn í hópnum gæti tekið mynd af þeim. Það má sjá að baki þeim að það vantar þar tvær hurðir. Aðra þeirra, hurðina fram í forstofu keyptum við fyrir nokkrum mánuðum. Þegar við keyptum hana vorum við ekki ákveðin í að framkvæma það innanhúss sem nú er búið að framkvæma. Hurðin er því ennþá geymd í byggingarvöruverslunni en hún var þó borguð í lok janúar. Heyrðu! það eru eftir jarðarber á diskinum.

Hér með birti ég þetta blogg og byrja svo á blogginu um heimsókn Stokkhólmsfjölskyldunnar. Ég vil þó segja að lokum að hið græna haf sem breiðir úr sér utan við gluggann sem ég sit við er alveg með ólíkindum

Stefnumót í Sólvallaskóginum

Í gærkvöldi var ég að til klukkan rúmlega ellefu til að vera tilbúinn að taka á móti málara og smið í morgun. Svo var ég kominn á stjá lítið fyrir klukkan sjö í morgun og allt gekk gríðarlega vel í dag og fyrst fór málarinn heim og síðan smiðurinn. Þá fórum við Valdís inn til Örebro til að kaupa plötu á eldhúsbekkinn og þá gekk ekki eins vel. Allt virtist snúa öfugt og ég ætla ekki að rekja það en við komum heim bekkplötulaus. Nokkru eftir að við komum heim ákvað ég að fara einn hring í skóginum og á göngunni þar áttaði ég mig á því að best væri að taka því rólega í kvöld og fara svo aðra ferð til Örebro á morgun og vera betur stemmdur. Meðan ég var í skóginum gekk Valdís frá hér heima við frumstæðar aðstæður.

Ég var með tommustokkinn í vasanum og gekk að fyrsta hlyninum sem varð á vegi mínum og hann hafði vaxið um 38 sm. Því næst gekk ég að því beykinu sem næst mér var og mældi vöxtinn á greininni sem fyrst hafnaði í hendi minni. Hún hafði vaxið 20,5 sm. Því næst gekk ég að litlu eikartré og toppurinn á því hafði vaxið um 14 sm. Það er 16. maí í dag og þetta er alveg makalaust. Þeir sögðu upp í Umeå fyrir fáeinum dögum að ákveðin birkitré þar sem fylgst er nákvæmlega með væru þremur vikum fyrr á ferðinni en var fyrir nokkrum árum.

Í fyrra var ég einu sinni sem oftar í gróðrarstöð inn í Örebro og hitti þar skrúðgarðameistara sem var hugguleg og viðmótsgóð kona. Hún ráðlagði mér mér að bera vel á beykitrén okkar svo að þau yrðu að virkilegum trjám á skömmum tíma. Og hvaða áburð á ég að nota spurði ég? Hænsnaskít sagði hún. En svo sagði hún að í raun væri það best að ég bara pissaði kringum beykitrén. Það var auðvitað ósköp einfalt og ég fór að ráðum hennar og beykitrén uxu vel í fyrra. Nú er komin ný vertíð og ferðir mínar í skóginn eru flestar stuttar og farnar í ákveðnum tilgangi. Hallærislegt dettur kannski einhverjum í hug og það getur mér svo sem fundist líka, en líklega er þó ekkert eðlilegra en að gera þetta.

Í gær dvaldí ég hjá einu beykitrjanna í áburðarskini og þegar ég var tilbúinn leit ég beint fram og sá elg örstutt fyrir framan mig. Við horfðum svolitla stund hvor á annann og svo skokkaði elgurinn burtu á sínu svífandi skokki sem er elgjum svo eðlilegt. Á hringferð minni í skóginum áðan stoppaði ég aftur hjá sama tré í sama tilgangi og hugsaði sem svo að kannski væri ég ekki einn núna heldur. Og viti menn! Nú voru elgirnir tveir en í aðeins meiri fjarlægð. Ég á eftir að stoppa einu sinni enn hjá þessu tré áður en áburðargjöfinni kringum það er fullnægt. Ef ég verð þar um svipað leyti annað kvöld, hvað ætli elgirnir verði margir þá?

Nú er virkilega kominn svefntími fyrir mig því að ég ætla að vera vel á mig kominn á morgun. Valdís á það svo sannarlega inni að það komi bekkplata á eldhúsbekkinn hið fyrsta. Við förum því í aðra verslunarferð upp úr hádegi og verðum þá vonandi plötunni ríkari. Ég ætla að reyna að vera svolítið fullorðinn maður á morgun því að ég er nú orðinn 69 ára.

Gæt þessa dags 2

Það er kannski ekki svo algengt að fólk vitni mikið í vinnuna sína og ég veit að hér í landi er nokkuð af fólki sem gerir það ekki vegna þess að þá finnst því sem það eigi ekkert líf utan vinnunnar. En nú er komið að því hjá mér að gefa skýringu á því hvers vegna ég vitna svo oft í vinnuna og Vornes og hver er ástæðan að hluta til að ég er enn að vinna þar. Mér, ellilífeyrisþeganum, þykir vænt um vinnuna mína og skammast mín ekki fyrir. Ef ég hefði ekki gegnum árin þrifist með vinnuna mína hefði mér heldur ekki liðið vel í einkalífinu.

Vinur minn og fyrrum vinnufélagi mitt í skógunum í Svartnesi í sænsku Dölunum, hann Gísli, elskar vinnuna sína. Hann er búinn að vinna við ráðgjöf í áratugi og vinnur enn. Það eru ekki hans orð, en ég veit að ef hann færi bara af skyldurækni í vinnuna og hundleiddist þar, þá mundi hann líka vera hundleiðinlegur heima. Ég hef ekki spurt hvort hann sé það en ég tel mig vita býsna vel að svo sé ekki. Ég spurði Gísla í tölvupósti um daginn hvort honum þætti vinnan skemmtileg. Ég vissi að honum þætti það en ég vildi fá hann til að segja það með sínum orðum. Ég hef hans leyfi til að nota orð hans.

Gísli sagði meðal annars eftirfarandi í tölvupósti: Ég hef mest yndi af ráðgjöfinni af öllu því sem ég geri. Sem dagskrárstjóri lendi ég í vinnu sem mér finnst ekkert sérstaklega skemmtileg, en ef ég fæ tækifæri til að vinna með sjúklingum lifna ég allur við. Þetta var ástæðan til að ég fór að vinna með þetta. Það er ekkert sem jafnast á við að taka við ráðviltum alkohólista og fara með honum í þetta ferðalag sem við köllum BATA. Sjá augu hans opnast smám saman og vonina vakna til að sjá að það finnst líf án áfengis. Enda, ef vel tekst til, þá eigum við þetta fólk það sem eftir er ævinnar. Hvað er meira gaman og gefandi en að geta rétt öðrum hjálparhönd. Við erum forréttindafólk.

Satt best að segja finnst mér að ég þekki mig í öllu því sem Gísli segir þarna. Ég hef líka frétt af manni sem var búinn að vinna einhver ár sem ráðgjafi en fór svo að lesa sálarfræði. Að loknu því námi gat hann ekki hugsað sér annað en að koma til alkohólistanna aftur. Honum fannst bara svo gaman að vinna með þá.

Finnskættaði presturinn Harry Månsus fór til sviss til að læra guðfræði vegna þess að hann átti sér þann draum að kenna Svíum guðfræði. Eitthvað varð til þess að Månsus hætti sem guðfræðikennari, alla vega um tíma, og hann fór að vinna á meðferðarheimili fyrir alkoholista. Þar uppgötvaði hann að það fundust mikið meiri andlegheit í Svíþjóð en hann hafði talið, og annað; þessi vinna styrkti trú hans. Månsus hefur líka skrifað nokkrar bækur um andlegheit og það mesta sem ég veit um hann hef ég eftir lestur þessara bóka.

Ég vil svo frá eigin brjósti segja að það er mikil lífsreynsla að kynnast fólki á ólíkum aldri, menn og konur, sem allt í einu eftir niðurlægingu neyslunnar tekur þá ákvörðun að breyta lífi sínu og verða betri manneskjur. Við þessar aðstæður kemur margt óvænt fram í fari þeirra og þetta fólk segir mjög oft athyglisverða, óvænta og fallega hluti og ég kalla þessar setningar gullkorn. Flest gullkornin sem ég hef heyrt á meðferðarheimilunum verð ég að hafa fyrir sjálfan mig.

Fyrir mörgum árum var nær fertugur maður frá suður Svíþjóð í meðferð í Vornesi. Sonur hans sjö ára kom í heimsókn til hans um helgi þegar ég vann og sátu þeir feðgar móti hvor öðrum við borð í matsalnum. Sonurinn var prúðbúinn og með bindi. Ég gekk eftir matsalnum og nálgaðist borð þeirra og ég sá á öllu að pabbinn var búinn að segja syninum frá mér. Þegar ég kom á móts við borðið þar sem þeir sátu gekk sonurinn ákveðið fram á gólfið, stillti sér þar upp, rétti fram hendina til að heilsa og hneigði sig djúpt. Sjö ára barn hefur aldrei þori ég að fullyrða heilsað mér með slíkri lotningu sem þessi drengur gerði. Það var engin uppgerð, hann vildi ljúflega gera þetta.

Eitt sinn skrifaði ég út mann á mínum aldri vegna þess að hann viðurkenndi alls ekki að hann hefði áfengisvandamál. Þar með hafði hann ekkert að gera í Vornesi. Síðar sama dag hringdi yfirmaður hans í vinnunni til mín til að tala um þetta. Það var kona og hún sagði að maðurinn væri búinn að koma og tala við sig. Hún sagðist líka skilja að ég hefði sent hann heim þar sem hann bara sæi alls ekki vandamálið, hún vissi það vel. Hins vegar sagði hún mér frá því að maðurinn hefði sagt henni að það hefði unnið þarna maður sem hann hefði ákveðið að taka sér til fyrirmyndar í einu og öllu því að það væri eftirsóknarvert að vera eins og hann. En, sagði svo maðurinn, í morgun kom þessi maður til mín og skrifaði mig út.

Úff! og hvað sagði ég þá? Það er ekkert sérstakt að segja annað en að ég gerði rétt. Hins vegar verð ég að viðurkenna að þegar ég lagði tólið á var ég ekki alveg ósnortinn eftir samtalið.

Það er mikil mannrækt ef fólki tekst að lifa eftir 12 spora kerfinu. Eitt sinn fyrir mörgum árum kom fyrrverandi rektor framhaldsskóla í Svíþjóð í Vornes, þá all löngu orðinn ellilífeyrisþegi. Bakkus hafði sigrað hann. Hann kom með konu sinni og dóttur til að fá upplýsingar um það hvað meðferðin gengi út á. Þegar ég var búinn fara í gegnum það hvað meðferðin gengi út á og útskýra sporin 12 var hann orðinn merkjanlega snortinn og viðkvæmur. Hann rétti út hendina móti mér og sagði: Ef ég hefði gert það sem þú gerðir þegar ég var á þínum aldri, þá væri ég kannski eins og þú ert í dag. Þá var komið að mér að vera viðkvæmur en því hampaði ég ekki.

Það er frábært að fá kveðju frá fólki sem var í Vornesi fyrir kannski 15 árum eða fólki sem var í Svartnesi fyrir 17 árum. Það sannar það sem Gísli sagði að við getum átt þetta fólk alla ævi, það er að segja að við hittum hjartað í því. Þeir eru líka ófáir fyrrverandi Svartnessjúklingar sem ég hef hitt löngu eftir Svartnes og þegar þeir nefna nafn Gísla hlýnar rödd þeirra. Gísli er maður sem ekki gleymist segja þeir. Að fá kveðju frá heilli fjölskyldu er nú það lang besta. Margur sjúklingurinn í Vornesi hefur grátið sáran af sorg, samviskubiti, skömm og sektarkennd gagnvart fjölskyldunni og öll fjölskyldan hefur grátið af sömu ástæðu vegna alkohólistans. Það eru mörg pörnin sem hafa fengið mömmu eða pabba til baka vegna þess að Vornes fannst þegar á því þurfti að halda.

Svartnes og Vornes hafa verið mér mikil lífsreynsla og mótað persónuleika minn mikið. Ég held að ég muni koma til með að finnast fyrir Vornes eitthvað áfram og kannski stuðla að því með útréttri hendi að nokkur börn fái til baka bæði mömmur og pabba. Og án efa mun ég mun ég halda áfram að nefna Vornes í blogginu mínu. Það er þá eins gott að ég haldi áfram að rækta garðinn minn. Við erum forréttindafólk sagði Gísli.

               Gæt þessa dags
               því hann er lífið
               lífið sjálft

Valdís meðal bjarkanna sinna

Ég bara gaaat ekki látið þetta bíða.


Ég var búinn að vingla þarna á lóðinni og horfa á þessar bjarkir og velta fyrir mér hvað þær hefðu stækkað gríðarlega mikið frá því að við komum á Sólvelli. Svo bað ég Valdísi að koma og standa þarna undir þeim svo að það væri eitthvað að miða við. Valdís er ekkert smælki en hún er samt ekki ýkja stór í þessum samanburði. Það var sterkt sólskin þegar ég tók myndirnar þannig að ég réði ekki alveg við birtuna. Ég hefði kannski átt að bíða til morguns en þá er spáð rigningu og ég er barnalegur í augnablikinu og get ekki beðið. Öll þessi blaðgræna er til mikillar ánægju.


Ég náði ekki toppunum með á hinni myndinni þannig að ég færði mig fram á veg og þá náðist mynd alveg upp á töpp. Við eum svolítið stolt af mörgum trjám á Sólvöllum.


Í gær gekk ég yfir til grannanna sunnan við til að forvitnast hvernig byggingarframkvæmdirnar gengju hjá þeim. Á leiðinni til baka sá ég þessar bjarkir í nýju ljósi úr þeirri átt. Útsýnið frá þeim í átt heim til okkar er alveg frábært. Að vísu er lóðin hjá okkur að nokkru eins og byggingarsvæði ennþá. Aftan við bílinn eru til dæmis þrír haugar af ólíkum efnum og þessir haugar verða þarna eitthvað enn um sinn. Valdís hélt áfram tiltekt í dag, sáði grasfræi og vökvaði. Hún tók því heldur rólegar en í gær þegar hún fór alveg hamförum. Þetta er allt að koma.

Gæt þessa dags 1

Ég hef verið trassi  -lengi-  og ekki sinnt hlutum sem er mikilvægt að sinna. Ég hef hagað mér eins og ég hafi loforð frá Guði almáttugum um að ég hafi ein þrjátíu ár eftir af lífi mínu. En ég hef ekki þetta loforð. Líf mitt, og okkar Valdísar, hefur nú í nokkur ár gengið út á að byggja upp hið veraldlega. Við búum í landi sem býr yfir ótrúlegri veðursæld og er guðdómlega fallegt og við gefum okkur ekki tíma til að skoða þetta fallega sköpunarverk. Fyrir nokkrum árum las ég mikið meira af úrvals bókum, ég lagði oft leið mína í Nikolaikirkjuna í Örebro og sat þar í kyrrðinni meðan lífið brussði fyrir utan eða ég fór gjarnan á einhvern kyrrlátan stað undir berum himni og sat þar og bara horfði í einhverja átt og var til.

En eins og ég sagði áðan gengur lífið næstum eingöngu út á það veraldlega um þessar mundir, að koma upp þaki yfir höfuðið og skapa þær aðstæður sem fólk telur sæmandi. Andlega hliðin hefur setið á hakanum og ég hef hugsað svo að ég snúi mér að henni þegar við erum tilbúin með það veraldlega. Satt best að segja verður ekki aftur snúið með það úr þessu og ekki annað að gera en að vona að sá sem öllu ræður gefi okkur þann tíma sem við þurfum til ljúka byggingarvafstri okkar og tíma til að sinna lífinu sjálfu eftir það.

Ég sat fyrir mörgum árum með presti á kaffihúsi í Brickebacken í Örebro, en hann kom oft á meðferðarheimili þessi prestur til að hlusta á fólk sem vildi tala um erfið mál. Ég sagði við hann að það væru oft andlegar stundir þar sem alkohólistar sem virkilega vildu breyta lífi sínu sætu saman og töluðu heiðarlega frá hjartanu. Þá sagði hann setningu sem ég hefði svo gjarnan viljað hafa heyrt mikið fyrr eða fundið upp á sjálfur: Þar sem manneskjur eru opinskáar og heiðarlegar, þar finnast andlegheitin. Það er að vísu einfaldara að segja þetta á sænsku: Där det finns öppenhet och ärlighet, där finns också andlighet.

Síðan hann sagði þetta hef ég mjög oft notað orð hans yfir það sem ég hafði reynt að segja með mikið fleiri orðum ótal sinnum áður. Svo einfalt er það með andlegheitin. Þetta gildir ekki bara fyrir alkohólista á meðferðarheimili. Þetta gildir fyrir allt fólk. Þar sem einhver byrjar að tala úr dýpstu fylgsnum hjarta síns gerir einhver annar það líka og þar svífur að lokum friður um sali og það er eins og andrúmsloftið staldri við og samkenndin ráði ríkjum.

Ef ég les setningu sem hefur djúp áhrif á mig og ég gef mér tíma til að hugleiða meininguna eru það andlegheit fyrir mig. Það er í dag mikið af bókum í umferð sem eru fullar af spakmælum, til dæmis spakmæli fyrir hvern dag ársins. Útgefendur hafa áttað sig á því að það er markaður fyrir þessar bækur. Ekki hafa þeir skapað andlega leit fólks, en þeir hafa áttað sig á því hvert vatnið leitar um þessar mundir. Ein bók með texta fyrir hvern dag heitir Tuttugu og fjögurra stunda bókin, gefin út á íslensku 1986. Hún tilheyrir því gömlum bókum í þessu samhengi. Í formála hennar er sagt að hún sé ætluð félögum í AA, það er að segja fólki sem lifir samkvæmt 12 spora kerfinu. Það var því engin tilviljun að ég sat mikið með þessa bók inn á Vogi í janúar árið 1991 og þar las ég gjarnan með tárvotum augum vísdómsorð á síðu allra fremst í bókinni. Ég vildi endilega fá meðferðarfélaga mína til að lesa þessi vísdómsorð og skynja hið djúpa innihald þeirra -og- það var ekkert vandamál að fá þar fylgjendur í trúnni. Þeir sem ekki áttu peninga skrifuðu hreinlega upp úr bókinni minni.

                    Gæt þessa dags
                    því að hann er lífið
                    lífið sjálft

                    og í honum býr
                    allur veruleikinn
                    og sannleikur tilverunnar
                    unaður vaxtar og grósku
                    dýrð hinna skapandi verka
                    ljómi máttarins.

                    Því að gærdagurinn er draumur
                    og morgundagurinn hugboð
                    en þessi dagur í dag
                    sé honum vel varið
                    umbreytir hverjum gærdegi
                    í verðmæta minningu
                    og hverjum morgundegi
                    í vonarbjarma.

                    Gæt þú því vel
                    þessa dags.

                                              (úr Sanskrít)

Undir þessum línum stendur ekkert nafn, en þar stendur í staðinn; "Úr Sanskrít", sem segir að vísdómsorðin eru alls ekki ný af nálinni. Þessi boðskapur; að takist mér að gæta dagsins í dag, komi ég í framtíðinni til með að eiga góðar minningar um gærdaginn og hlakka til morgundagsins, var mikill fagnaðarboðskapur fyrir fjörutíu og átta ára mann sem sat sveittur í lófum í sjúkrahússlopp inn á Vogi.

Ég hef hugleitt mikið undanfarið vinnu mína í Vornesi og hvers virði hún hefur verið fyrir mig gegnum árin, hvort hún hefur mótað mig mikið eða lítið. Takist mér ekki þokkalega að lifa mínu lífi samkvæmt því sem ég túlka í vinnunni í Vornesi, verða sjúklingarnir þar fyrstir til að átta sig á að þessi maður er ekki virðingarinnar verður þar sem hann lifi ekki samkvæmt kenningu sinni. Þeir finna margt á sér sem í dag eru í þeirri stöðu sem ég var í sjálfur árið 1991. Þankabrot mín um þetta verða fleiri á næstunni.

               Gæt þessa dags
               því að hann er lífið


Nikolaikirkjan í Örebro. Ég tók myndina frá Wikipedia en veit ekki hver ljósmyndarinn er. Ég vona bara að hann fyrirgefi mér að hafa notað hana. Myndin er tekin í júlí 2010

Vorverk

Við Lennart nágranni, ellilífeyrisþegi og smiður spígsporuðum hér úti til klukkan að ganga níu og dáðumst að veðrinu, vorinu og öllum gróðrinum. Það lá næstum krakkalega vel á okkur og andagiftin okkar stráði orðunum óspart yfir byggðarlagið. Lennart vildi ekki þiggja kaffi því að þau hjónin ætluðu að hita kaffi heima og drekka það úti í guðsgrænni náttúrunni. Svo gekk hann með léttum skrefum heimá leið. Þá var hitinn 22 gráður.

Fyrr um daginn var hún Valdís kona mín á fullu við vorverk úti. Hún byrjaði að setja niður kartöflur, síðan sinnti hún rabarbaranum, tíndi upp grjót við innkeyrsluna, bar á alparósirnar og vökvaði þær og vökvaði sár eftir byggingarframkvæmdir. Hún virtist óstöðvandi og ég bara botnaði ekkert í þessu. Svo kallaði hún á mig í matinn. Ég sneið loftlista í loft sem er dálítið frábrugðið venjulegum loftum þannig að þetta var föndurvinna, málaði listana og aðstoðaði málarann sem byrjaði fyrir alvöru á málningarvinnunni. Svo tók ég myndir af Valdísi.


Garðholan er ekki stór en það er á áætlun þegar við verðum búin að taka nýja húsnæðið í notkun að gera þokkalegan kálgarð. Það verður góð rabarbarasultan sem verður ávöxturinn af þeim jarðabótum sem Valdís var að ljúka við þarna á myndinni.


Svo var hún allt í einu komin af stað með sláttuvélina og þurfti ekki einu sinni á aðstoð minni að halda við að koma henni í gang í fyrsta skipti á vorinu. Þau eru ekki máttleysisleg skrefin sem hún tekur þarna konan mín.


Hjá ungu nágrönnunum sunnan við hófust byggingarframkvæmdir í dag. Það er engin kyrrstaða í sveitinni.


Svo er það beykilaufið sem ég hef svo oft talað um. Ég verð að sýna myndir af því svo að fólk fari ekki að halda að þetta sé bara blaður í mér. Við sjáum þarna eitt og eitt gamalt laufblað, en síðasta lauf síðast árs fellur þegar nýtt lauf springur út. Ég segi að beykilaufin séu fallegustu laufblöð þeirra trjáa sem ég þekki til meðan þau eru í fæðingu.


Og þetta eru nokkrum dögum eldri laufblöð á sama tré og er á næstu mynd fyrir ofan.


Í gær, rétt áður en skyggði, sáum við Brodda fara stórum skrefum hér bakvið húsið. Eða kannski var það Brodda þar sem við vitum ekki hvort þetta var hann eða hún. Svo fór broddgölturinn undir alparós norðan við húsið og þar tókum við mynd af honum og það má gereina hann þarna á miðri myndinni. Ef við hefðum ekki séð til hans á ferðinni hefðum við aldrei vitað að hann huldi sig þarna undir alparósinni. Það er mikið af svona dýralífi alveg á næstu grösum við okkur sem við tökum ekki eftir nema vera með afar vel opin augu.

Meðan við Lennart töluðum saman hér úti trommaði spætan léttilega úti í skógi, skógardúfurnar kuruðu þar einnig og til allra átta sungu margs konar smáfuglar fyrir elskurnar sínar. Nú er kvöldkyrrðin og rökkrið gengin í garð og mál fyrir ellilífeyrisþegana að leggja sig með Óla Lokbrá sem leiðarljós. Á morgun tekur galvaskur ungur málari hús á okkur um sjöleytið og eftir það verður erfitt að hvíla í draumalandinu.

Síminn hringdi -það var Hannes

Við Valdís tölum oft um það að við þyrftum að taka dag og heimsækja Hannes. Svo bara dregst það að við heimsækjum hann. Þegar við segjum Hannes eigum við við alla fjölskylduna. Við búum það nálægt þeim að við eigum að geta haft nánari tengsl við þetta barnabarn en þau sem búa í meira en tvöþúsund kílómetra fjarlægð. Ég reikna líka með að við Valdís séum eins og aðrir afar og ömmur -að yngsta barnabarnið er einfaldlega yngst. Í gær hringdi Rósa og þá var öll fjölskyldan úti á gönguferð. Þau voru þá búin að vera á leikvelli og það hafði verið svo gaman. Ég heyrði í símanum að Hannes var þar nálægt og trallaði, söng og talaði mikið. Mamma hans sagði að hann væri mikið á ferðinni og þætti afskaplega gaman að hlaupa niður brekkur.


Á þessari mynd er hann ekki að hlaupa niður neina brekku, hann er á leikvellinum. Hann bara brosir sínu fallegasta brosi móti myndavélinni og svipurinn ber vott um að hann er meðal vina -þeirra sem hann treystir mest af öllum, mömmu og pabba. Hann hefur ekkert að óttast.


En maður er ekki á leikvellinum bara til að brosa móti myndavél, maður verður nú að klifra líka og æfa kroppinn sinn vel fyrir framtíðina. Og það er rosa gaman að klifra skulið þið vita, eða mér sýnist það á þessu andliti svo varla verður um villst.


Svo var það á leiðinni af leikvellinum sem Rósa hringdi til mín og ég heyrði Hannes tralla, syngja og tala þar álengdar. Viltu tala við afa? spurði mamma hans, og á myndinni sjáum við hvernig hann tók því. Ég heyrði í símanum hvernig hann hætti að tralla og syngja og nú talaði hann skipulega og sagði frá einhverju afar mikilvægu sem ég ekki skildi kannski svo vel, en ég var þess full viss að hann var að segja mér frá einhverju stóru.

Er þetta ekki makalaust? Fyrstu tvær myndirnar voru teknar einhverjum mínútum áður en Rósa hringdi þarna í gær. Þessi síðasta var tekin meðan Hannes var að tala við mig í símann. Í gærkvöldi sáum við Valdís svo þessar myndir hér heima. Ég segi oft að Jón Sveinsson, Nonni, fór út með haustskipinu fyrir einum 130 árum. Með vorskipinu árið eftir fór bréfið heim þar sem Nonni sagði mömmu sinni frá því að hann hefði komist klakklaust til Kaupmannahafnar.

Vorið góða grænt og hlýtt

Veðurfræðingurinn Per sem var með spána í sjónvarpinu í kvöld, hann var góður. Hann spáði verulega hlýnandi eða langt yfir meðallagi miðað við árstíma. Síðan spáði han öðru sem var mjög mikilvægt; hann spáði rigningu eftir helgina.

Átjánda og tuttugasta apríl var ég að tala um að bjarkirnar væru sprungnar út en blöðin væri lítil ennþá, sama var þá með hegginn. Í dag, tveimur vikum seinna get ég kannski sagt sem svo að birkið sé 85 % laufgað, reyniviðurinn eins, eikin er laufguð um 20 %, álmurinn 20 %, hlynurinn 30 %, öspin 5 %, beykið 2 %, askurinn 0 % og svo eru einhverjar tegundir eftir sem ég ekki man í augnablikinu. Að nefna svona tölur er auðvitað bara út í bláinn, en meiningin er bara að segja að það á alveg gríðarlega mikið eftir að ske. Samt er þvílíkt mikið laufhaf þegar komið. Svona er Svíþjóð í dag.

Ég hef verið í vinnu í gær og í dag og verð á morgun líka, dagavinna en langir dagar. Alkohólistarnir eru fínir eins og venjulega. Þeir sem skrifast inn án þess að vera viljugir til að breyta lífi sínu, þeir hverfa venjulega fljótlega á einn og annan hátt. Því verður úrvalsfólk ráðandi á staðnum. Í dag fórum við ráðgjafarnir í bowlingsal og kepptum í bowling. Ég mundi kannski velja að segja að við lékum okkur í bowling. Ég var 18 árum eldri en sá næstelsti en ef við höldum þessu áfram má ungafólkið vara sig á ellilífeyrisþeganum komst ég að í dag. Kannski ætti ég að æfa í laumi og sigra svo í ráðgjafakeppni. Ég hef einu sinni prufað þetta áður, en það var upp í Falun árið 1995. Æ, mér fer ekki vel að monnta mig.

Við ætlum að halda áfram að njóta vorsins þó að það verði áframhald á byggingarvinnu enn um sinn. Það er að sjá að það verði mikið af bláberjum að baki húsinu og verða því væntanlega mörg kvöldin með bláber og Tyrkjajógúrt í eftirrétt. Því er haldið stíft fram hér í landi að bláber séu það hollasta sem náttúran bjóði upp á.

Nú er kominn háttatími fyrir ellilífeyrisþegann sem þarf að vakna snemma í fyrramálið. Góða nótt.

Það eru góðir tímar

Það var merkilegt að líta út í morgun -það var snjór. Ekki þó meira en svo að það var ekki hægt að segja að það væri almennilega hvítt. En fátt er svo með öllu illt að ei boði gott. Jörðin blotnaði og ekki var það verra að þaðvar að hreyta niður regndropum fram eftir degi. Og svo um hálf fimm leytið þegar við Valdís vorum að leggja af stað til Örebro var hvorki rigning eða haglél en einhvers staðar þar á milli og það var mikil úrkoma. Svo núna rétt fyrir dimmumótin fór ég út að kanna málin og bera á eitt beykitré og þá var ég ekki í vafa um að það hafði verið góð grasspretta í dag.

Nú er friðurinn úti -ég fer í vinnu á morgun og vinn í þrjá daga. Svo hef ég frí í átta daga. Málarinn sem ætlaði að byrja í dag byrjar ekki fyrr en á föstudag. Ulf heitir hann. En hann kom í heimsókn til að gera grein fyrir þessu. Þetta breytir áætluninni þannig að ég verð tilbúinn með meiri trésmíði en til stóð áður en hann byrjar. Kannski var það bara ágætt. Eldhúsið verður tilbúið samt sem áður þegar Valdís tekur á móti vinkonum sínum í mat í seinni hluta mánaðarins. Þá verður hún drottning í sínu nýja eldhúsi.

Ef ég þyrfti ekki að fara að leggja mig mundi ég láta gamminn geysa svolítið lengur. Ég tek ekki áhættuna á að ég verði hress á morgun ef ég fer seint að sofa, ég þekki sjálfan mig það vel. Ég gæti sofnað við aksturinn, yrði beyglaðri í andliti þegar ég kæmi á vinnustað og yrði ekki sannfærandi í því sem ég segði. Ég veit svo að það er spáð hlýindum um helgina og þá verður ábyggilega hægt að heyra gras og skóga vaxa. Það eru góðir tímar
RSS 2.0