Smá fréttir úr sveitinni

Ævintýrið í Jämtland er um garð gengið, við Susanne komum heim á þriðjudaginn var. Ég er heima en Susanne er í heimsóknum hjá ættingjum og vinum í Sörmland. Það var gott að koma heim og við erum ekki meira langferðafólk en svo að eftir um það bil 300 km ferðalag síðasta spölinn vorum við þreytt. En það var gott að koma heim, við þurftum ekkert að versla, allt var til taks. Rósa Pétur og Hannes Guðjón sem höfðu verið hér skiluðu þannig af sér. En hvað það var notalegt. Kærar þakkir fyrir það.
 
Ég var frekar fljótur að fara í stígvélin mín og fara eina umferð um eignina. Allt var kunnuglegt og skemmtilegt, allt leit vel út. Rósa og fjölskylda höfðu tekið höndum um mikið af berjum, gert sultur og fleira en samt voru ber eftir. Þu ber voru enn að vaxa. Svo borðuðum við og svo fór ég út aftur.
 
 
 
 
Þetta grasker hafði þrifist vel, er orðið 39 sm í þvermál og 22 sm þykkt. Það verður á eina og aðra súpuskáp þegar skammdegið leggst yfir. Það lítur öðru vísi út en ég hef séð áður. Ég er ekki viss hvaða sort þetta er, var ekki svo duglegur að ég skráði það þegar ég sáði. Ég verð að læra að skrá betur en ég hef gert, maður á góðum aldri á að geta lært svoleiðis.
 
 
 
 
Bláberjarunnarnir voru hættir að bera uppi grænjaxlana. Í dag var meðal annars uppbindidagur. Á þessum runna er langur tími í þroskuð bláber.
 
 
 
 
Mikill kostur við mörg kvæmi er að það eru bláber yfir fleiri vikur. Þessi eru ekki svo stór sem sum önnur, en þau eru góð samt.
 
 
 
 
Svo skrýtið sem það nú er þá gleymdi ég að líta á þessa berjarunna þangað til í gær, en þeir eru sunnan við Bjarg. Berin heita aronia og eiga að vera með því besta sem hægt er að næra sig á. Þau eiga að hægja á öldrun og þau eiga að auka ónæmi fyrir inflúensu og sitthvað fleira sem ég ekki man. Lætur vel fyrir suma. Þau eru stór þessi ber og greinarnar voru farnar að hanga niður í jörð. Því tíndi ég í dag 1,7 kíló. Það er fljótlegt að tína þau. þau vaxa í klösum og í hverjum klasa eru allt að tuttugu ber. Með svolítilli lipurð er hægt að fá öll berin af klasanum í lófann og þá er lófinn eiginlega fullur.
 
 
 
 
Aronia berin eru ekki alveg fullþroskuð, alla vega ekki í skugga, en ég tíndi þetta til að létta á greinunum og tíndi þau best þroskuðu. Í kvöld ætla ég að velja einhverja uppskrift af aronia sultu og það verður frumraun mín með þessi ber. Það verður gman en kannski dregst sjálf sultugerðin til morgundagsins.
 
Svona er nú í sveitinni og svo hef ég heimsótt og spjallað við beyki og bjarkir, eikur og hlyni, furur og greni og seljur og heggi ásamt einhverju fleiru. Allir virðast hafa það gott og komust af án mín í þessar tvær vikur sem við vorum að heiman.
 
 
 
 
Svo er það þannig að sum bláber eru vel þroskuð og þessi eru á stærð við minni vínber. Það er líka þannig að fólkið sem var hér meðan við vorum í burtu skildi eftir ís í frysti. Í kvöld þegar ég fer að taka þvi rólega er ég alveg ákveðinn í því að fá mér bláber og ís.
 
Gangi ykkur allt í haginn.

Í dag, fyrir einu ári síðan

Þessi frábæra mynd er frá fjallaveröldinni í vestra Jämtland og í miðpunkti er Lappakapellan á Kolåsen. Myndina tók Anna Romare Blyckert, Kolåsen.
 
 
 
 
Það er misjafnt hvað fólk segir um einkalíf sitt og fyrir suma er óhugsandi að segja frá því sem fyrir aðra er hversu auðvelt sem helst að tala um. Flest/margt fólk sem býr saman er gift. Það eru haldnar brúðkaupsveislur og í mörgum slíkum eru haldnar ræður. Við Susanne erum ekki gift en hér er ræðan okkar.
 
Fyrir einu og hálfu ári síðan vorum við Susanne i versluninni Guldfynd i Marieberg. Ég ætlaði að kaupa hring handa henni sem hú átti að fá þegar hún yrði 60 ára. Mér fannst einfaldast að  hún væri með, fengi að velja og stærðin væri frágengin. Þegar allt var tilbúið, borgað og hringurinn innpakkaður, var eins og eitthvað væri ógert. Hljóð röltum við um og sögðum ekki svo mikið. Við vissum bæði hvað það snerist um og að lokum sagði annað hvort okkar; "eigum við að kaupa hringana núna".
 
Síðan keyptum við hringa sem kallast trúlofunarhringar. Ég er ekki svo viss um að við hugsuðum nákvæmleg um trúlofunarhringa en það voru hringar sem áttu að hafa mikla þýðingu. Við höfðum undirbúið að fara í fjögurra vikna ferð upp til Norrland og við ákváðum að setja upp þessa hringa undir Norrlandsferðinni. Það myndum við gera þegar við kæmum til einhvers staðar þar sem það mundi vera eins og alveg sjálfsagt að gera það.
 
Fjórum mánuðum seinna fórum við upp til Norrland og hringirnir voru með í farangrinum. Fyrstu þrjár vikurnar kom aldrei upp hugsunin um að hér væri rétti staðurinn. Næst síðustu helgina fórum við frá fjallahéruðunum í norðvestra Jämtland niður til Kolåsen sem er í fjallahéruðunum í vestra Jämtland, kær staður þar sem við höfðum verið nokkrum sinnum  áður.
 
 
 
 
 
 
Nú byrjuðu hringarnir að óska eftir aðgerðum. Við ákváðum að fara til Lappakapellunnar, taka hringina með og heimsækja Hugleiðslustaðinn sem er til hægri bakvið kapelluna, niðri í lægð í landið aðeins bakvið kirkjugarðinn.
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Frá þessum svo kyrrláta stað er svo einstaklega fallegt útsýni gegnum V í skóginum sem trúlega er skapað af manna höndum milli grenitrjánna. Og þar er bekkur og sitji maður á bekknum hefur maður einmitt þetta dásamlega útsýni sem okkur tekst ekki almennilega að fanga með myndavélunum okkar. Bekkinn köllum við hugleiðslubekkinn.
 
Þat tókum við upp hringina og settum þá á hvors annars hendur og í dag er eitt ár síðan. Þar með kem ég að hinni miklu þýðingu hringanna sem ég nefndi í byrjun. Hringarnir þýða; að ég lýg ekki að þér, ég plata þig ekki, ég fer ekki bakvið þig með nokkuð, ég er ekki vondur við þig, ég röflar ekki í návist þinni, ég hrekki þig ekki, ég geri ekki óréttlátar kröfur til þín. Ég svík þig ekki og ég hæðist ekki að þér. Og fleira sem við hreinlega gerum ekki móti hvort öðru er innifalið í því samkomulagi sem hringarnir staðfesta. Hringarnir eru tákn, þeir tákna að hið góða eigi að hafa völdin í lífi okkar.
 
En -meira að segja ég- "hef mina bresti". Á vissum sviðum höfum við ólíkar skokðanir, við erum ekki sammála, og það getur leyst úr læðingi þunga tóninn eða orð sem ekki skulu hafa verið sögð. Sem betur fer er til í móðurmálum okkar frábært orð sem heilar ef það er notað með hjartað í bakgrunninum -það er orðið fyrirgefðu. Að geta lagt sig á hnéð og beðið um fyrirgefningu er heilandi, alveg sérstaklega fyrir þann sem gerir það.
 
Líf manneskju er skóli lífsins. Það er mikið að læra af lífshlaupinu og ég vil meina að ég hafi lært heil mikið -en aldrei nægjanlega. Mikið af því sem ég hef þó lært mundi ég í dag vilja að ég hefði lært mikið fyrr en ég gerði. En ég gerði það ekki og það fæ ég að lifa með.
 
 
 
 
 
 
Svo sátum við um stund á bekknum sem við köllum hugleiðslubekkinn og í fyrstu vorum við hljóð. Hin mikla ábyrgð sem hringirnir innsigluðu tókum við ekki með neinni  léttúð, við meðtókum það í fullri alvöru. Við höfðum það hvergi skrifað, við lásum það ekki upp fyrir hvort annað, það einfaldlega fannst innra með okkur.
 
Þegar ég lít á myndina af mér hér fyrir ofan sé ég að ég er svolítið hallandi í andlitinu og gleraugun halla í samræmi við það. En sem betur fer reyndi ég ekki að vera nokkur annar en ég er á myndinni. Minn innri maður er svipaður, ég er svolítið skakkur þar líka. Ég er ekki bestur í neinu og mér finnst það ekki svo mikilvægt en ég vil duga -ég vil duga vel.
 
Susanne, sem á myndinni situr við hlið mína, starir ekki á mína síðri hliðar, hvorki í því ytra eða innra, en hún getur bent mér á þegar ég sýni þær. Móti mér, bara eins og ég er, er hún ótrúlega fín mnneskja. Endalaust þakklæti fyrir það Susanne. "Víst höfum við það gott", segir hún oft og svo komum við til með að hafa það svo lengi sem við erum trú heitunum sem hringarnir innsigla.

Að vera ástfanginn

Græn héruð hafa alltaf heillað mig, alveg síðan ég var barn. Að skokka inn með Djúpá í Kálfafellslandi fyrir sjötíu árum var guðdómlegur ævintýraheimur, á grasflekkjum innan um hraunstrýtur klæddar grámosa og svarta hraunkanta með litlum skútum undir. Allt þetta setti hugmyndaflugið á fljúgandi ferð sem svo aftur gerði kroppinn svo fisléttan að þreyta og mæði voru bara orð sem höfðu enga þýðingu. Þessa tilveru var alldeilis dásamlegt að heimsækja.
 
Hið græna og grasi vaxna var hins vegar búsæld, undirstaða þess að geta lifað, undirstaða þess að geta heimsótt ævintýraheiminn, undirstaða alls. Svo er ég langt í burtu í öðru landi sem er fyrir gamlan Fljótshverfing aldeilis ótrúlega grænt. En svæðið inn með Djúpá og fleiri svæði í Kálfafellsheiði lifa með mér svo sterkt að ég get fundið mig vera þar bara hvenær sem ég vil þegar lífið er hljóðlátt og mér tekst að gera tilveruna einfalda. Það er órjúfanlegur kærleikur.
 
 
 
 
 
 
Og nú í öðru vísi tilveru. Við erum í fjórða sinn komin upp í Norrland Susanne og ég. Við erum full af órjúfanlegum kærleika til þessa landshluta, kærleika sem ég hef oft áður reynt að útskýra í bloggunum mínum. Það verður aldrei útskýrt, það verður að upplifa.
 
Við borðuðum eitt sinn morgunverð á farfuglaheimili í Norrland, í Jokkmokk sem er 865 km nánast beint norðan við Örebro, í beina línu, en bílferðin þangað eru 1166 km. Við sátum á viðarklæddri verönd við farfuglaheimilið, sex km norðan við heimskautsbaug, og glansandi og safaríkar laufkrónur afmörkuðu þessa verönd. Það var hlýr júlidagur þar sem stuttermaskyrtan var mátulega hý. Ég gekk inn til að fá mér meira á diskinn. Inni í sjálfum matsalnum sat meðal annars par, næstum á mínum aldri, og bara sí svona mættist augnaráð okkar.
 
Mæti maður augnaráði upp í Jokkmokk, þá heilsast fólk að sjálfsögðu. Litlu seinna vissu þau að ég hafði komið til Svíþjóðar 1994 og einnig hvað ég hafði unnið við. Ég vissi hins vegar að þau bjuggu í Stokkhólmi og að konan var sálfræðingur en maðurinn var arkitekt. Við vissum líka um áhugamál hvers annars.
 
Tíminn leið hratt og ég ímyndaði mér að Susanne væri orðin hissa á hvað ég aðhefðist þarna inni í matsalnum. En þegar ég kom út til hennar aftur var hún í líflegu samtali við annað par þar sem konan var sænsk en maðurinn frá Austurríki. Þá vissi hún þegar að þau voru fjallgöngufólk af holdi og blóði, trú Lapplandi, og einnig þá vissu þau þegar að ég kom frá Íslandi. Svo héldum við áfram að tala saman þar til við höfðum öll lokið við að borða morgunverð okkar.
 
Þetta er reynsla okkar af Lappland og Norrland yfir höfuð, hvort heldur við tölum um Kolåsen eða Jokkmokk og allt þar á milli.
 
 
 
Kirkjan á myndinni, eða Lappkapellet á Kolåsen, er þungamiðja þessarar myndar. Fjallahótelið Kolåsen er til hægri við myndina, en einmitt þar erum við núna við landamæri óbyggðanna. Mynd: Anna Romare Blyckert, Kolåsen. Textann neðan skrifaði ég fyrst og hann getur átt við svo marga staði en myndina fann ég síðar og hún féll svo vel að textanum.
 
 
Við sitjum á brekkubrún eða fjallsbrún og höfum útsýni langar leiðir, yfir fell og hnjúka, stöðuvötn og dali, og við sjáum einnig há fjöll. Hæstu fjallatopparnir eru gróðurlausir en að öðru leyti er allt grænt utan stöðuvötnin, grænt þar til blái liturinn tekur yfir í fjarlægð. Það er logn, kyrrðin er fullkomin, ekkert truflar. Guð er nálægur. Nei, hann er ekki nálgur, hann er með, hann er í öllu. Þannig stund má aldrei taka enda hún en gerir það samt. Eftir stendur minning og það er minningin sem aldrei tekur enda. Hún fylgir með og er alltaf tiltæk þegar hennar er þörf.
 
Nú er einhver mikið ástfanginn af Norrland og einmitt þá má ekkert meira segja því að lífið er fullkomið.
RSS 2.0