Skrýtnari maður en þetta er kannski vandfundinn

Hér í sveitinni runnu saman morgunverður og hádegisverður í dag, svo rólegt var það og ég hef ekki orðið var við einn einasta bíl fara framhjá þegar ég byrja að skrifa þetta klukkan fimm síðdegis. Eftir morgun/hádegisverð fórum við í gönguferð það sem við köllum að fara hringinn. Það er tæplega þriggja kílómetra langur hringur hér innan byggðarinnar. Undir lok þessarar gönguferðar hugsaði ég um áætlun sem ég ætla mér að gera áður en nýtt ár gengur í garð. Það er áætlun um það sem ég vil hafa fyrir stafni undir mánuðunum fram á vorið. Svona áætlun geri ég oft en þó fyrir styttri tíma en þetta. Það forðar stressi og eykur það sem ég kemst yfir án þess þó að leggja of mikið á mig.
 
Þegar heim var komið  ákvað ég að fara í rólega yfirlitsferð hér úti til að safna að mér punktum í áætlunina. Svo þegar ég var búinn að ganga kringum húsin brá ég mér út í skóg og gekk þar einn og hálfan hring. Það er langt síðan nú að ég hef farið í svona yfirlitsferð í skóginum. Birtu var farið að bregða en ekki um of sem gerði það að verkum að það var ofur góð og róandi stund sem ég var þarna í skóginum.
 
Ég fann að þessi yfirlitsferð var mikið notalegri en ég átti von á og mikið notalegri en á sama tíma í fyrra. Ég hugsaði hvers vegna en var fljótur að koma fram til að það var vegna þess að í fyrrasumar gerði ég stór átak í skóginum þegar ég grisjaði mjög mikið. Það tók fleiri vikur. Það var á röngum árstíma en það var jafn áríðandi samt sem áður. Ég hafði ekki gert þetta í ein tvö til þrjú ár og það var hreina myrkviðið að byrja. Svo þegar ég var byrjaður gat ég varla hætt. Nú naut ég þess að hafa gert svo. Ég þarf að vinna í skóginum í vetur en það verða bara þægilegir smámunir miðað við árið sem er að líða. Þegar ég kom heim úr skóginum var eftirmiðdagskaffi sem Susanne hafði borið fram.
 
Ég er alltaf öðru hvoru spurður hvað ég geri með dagana hér á Sólvöllum. Áður lét ég þetta fara svolítið í taugarnar á mér en nú orðið er mér alveg nákvæmlega sama. Þegar nágrannaparið neðst í brekkunni fer á þjóðdansaæfingu, en þau eru líka ellilífeyrisþegar, er ég kannski að koma inn frá því að kljúfa við. Mér líður vel þegar ég er að kljúfa við. Þar get ég látið hugan svífa yfir lönd og höf og langt út í himingeiminn og svo hef ég gaman af að stafla viðnum þannig að framhliðin sé alveg slétt. Svo get ég skroppið inn í kaffi og fengið mér hrökkbrauð með osti. Það er gott.
 
Þegar annað fólk fer á golfvöllinn fer ég kannski út í skóg og hlúi að einhverju eða grisja á einhverjum ákveðnum stað. Svo lít ég yfir verkið og er ánægður. Þegar enn annað fólk fer í veiðitúr fer ég kannski út og hreinsa illgresi. Það er alveg ótrúlega leiðinlegt að byrja en þegar ég er kominn af stað verð ég óstöðvandi. Þannig get ég haldið áfram að telja upp. Ég er einfari en Susanne kvartar ekki undan einfaranum í mér. Þetta býr í henni líka. Valdís kvartaði ekki heldur undan einfaranum í mér en eftir á að hyggja hef ég oft velt því fyrir mér hvort ég hafi misboðið henni með þessu.
 
Þegar ég nú lít yfir árið höfum við líka gert alveg helling af skemmtilegum hlutum. Við höfum farið í heimsóknir og við höfum farið á tónleika og revíu. Við höfum farið með fólki út að borða eða á kaffihús. Svo höfum við líka farið ein út að borða og ein á kaffihús og svo hef ég farið í þriggja vikna Íslandsferð. Einfararnir á Sólvöllum eru því ekki alveg mosagrónir.
 
Þannig er nú það. Þegar ég gekk út eftir okkar sameiginlegu gönguferð og leit yfir svæðið hrönnuðust upp verkefnin á verkáætluninni minni. Svo ætla ég að taka þau nauðsynlegustu á verkefnalistann og önnur fá að bíða fram á næsta sumar eða til næsta árs. Það skal verða hóf á hlutunum. Þegar ég kom út í skóginn rak ég fyrst af öllu augun í tvo laufhauga með svo sem tíu metra millibili.
 
Mitt í þessum laufhaugum eru tvær gryfjur sem eru svo sem einn meter að þvermáli og yfir hálfur metri á dýpt. Þær eru fylltar með góðri mold og svo er á að giska átta fermetra svæði kringum þær þakið með fet þykku lagi af laufi. Í vor ætla ég að setja eina hengibjörk í hvora holu þar sem þær eiga að hafa það gott í góðum jarðvegi. Lauflagið í kring á að vera til jarðvegsmyndunar lengra fram og til að halda raka í jarðveginum hjá þessum nýju íbúum skógarins. Næsta ár ætla ég að bæta á lauflagið. Nokkra metra frá hvorri holu er haugur af grjóti, grjóti sem ég velti burtu þegar ég gróf holurnar. Það var sem og margt annað sem ég hef gert hér að ég hálf kveið fyrir greftinum en þegar ég var byrjaður var hann skemmtilegur. Skrýtnari maður en þetta er kannski vandfundinn.
 
Nú hlakka ég til að fara í verslunina Skrúðgarðagróður í Örebro í mars og panta hengibjarkirnar og svo vona ég að þær verði komnar í byrjun apríl og þá verður gróðursetningarhátíð. Það er gaman að þessu bara svo að þið vitið. Þetta er aðeins ágrip af því sem ég nýt af að taka mér fyrir hendur.
 
Nú verð ég að gjöra svo vel að lesa þetta yfir og ákveða hvort ég birti það. Það sem ég hef skrifað nú er langt frá því að vera það sem ég hélt í byrjun.
 
Eigið margar góðar stundir á ókomnum tímum.

Að endingu frá Kálfafellsdvöl í september 2017

Þegar sem unglingur áttaði ég mig á því að Stefán bróðir hafði eiginleika sem vantaði alveg í mig. Hann þekkti fé á löngu færi, gat sagt hvar hann hefði séð sama fé árið áður eða eitthvað á þá leið og hann sá hvernig því leið.
 
 
Eins og þessi mynd ber með sér, mynd sem ég tók í september síðastliðnum, þá er hann árvökull og tekur vel eftir. Í bílferð í heiðinni sagði hann allt í einu að hann hefði séð fimm kindur sem ekki væru ennþá komnar í girðinguna með öðru fé. Það átti nefnilega að fara að rétta. Ég er átta árum yngri og hafði ekki séð neina. Svo verður að segja eins og er að Stefán er fjármaður, hann er góður við fé. Hann er kominn á eftirlaun en hann er samt á fullu við að aðstoða við fjárbúskap.
 
Svo var réttardagur á Kálfafelli og það var í fyrsta skipti sem ég sá réttað í húsi. Fallegt var féð og hvaða bóndi sem var mátti vera stoltur af svona fríðum hópi.
 
Móðurfólkið mitt kemur frá Seljalandi, nokkra kílómetra frá Kálfafelli. Þau voru 16 systkinin og þau eru öll farin heim og við sjáum þau aldrei meira. Að koma í heimsókn á Seljaland var ekki að koma á hvaða bæ sem var, en hluti systkinanna bjó þar alla sína ævi. En Seljaland fór ekki úr ættinni því að nú býr Snorri bróðir þar með henni Ragnheiði sinni. Snorri og Stefán eiga það sameiginlegt að hætta ekki að annast fallegt fé þó að þeir séu komnir á aldur og Snorri er með eigin fjárbúskap. Trúlega líður þeim best þannig.
 
 
Að horfa út um suðurgluggann frá matarborðinu, þar sér maður yfir stórt landssvæði sem varð til svo nýlega að ég reikna með að afar og ömmur langafa og langamma minna hafi upplifað það tímabil. Hér er ég að tala um eystri hluta Skaftáreldahrauns.
 
 
Austur með hlíðunum austan við Seljaland rennur Hlíðarvatnið. Stundum sást silungur í vatninu og þó að það væri ekki meira en að sjá gára fyrir silungi á hreyfingu í þessu kyrrláta vatnsrennsli -það var ævintýri.
 
Ragnheiður og Snorri, takk fyrir stóru tertuna sem ég fékk að borða svo mikið af þegar ég kom til ykkar í haust. Og útsýnið frá matarborðinu þar sem við borðuðum af tertunni, það er ekki alveg hversdagslegt. Seljaland er alveg einstakur staður skulið þið vita ábúendur.
 
Og Hafdís í austurbænum á Kálfafelli, þakka þér fyrir að gefa þér tíma og rölta um með mér og sýna mér nýja húsið sem þið Rúnar Þór eruð að byggja. Þegar þú af innlifun sagðir mér frá fyrirætlunum ykkar var virkilega skemmtilegt að hlusta á þig.
 
Heiða í vesturbænum, þakka þér líka fyrir að ganga um með mér og sýna mér hvað þið Björn Helgi hafið fyrir stafni og að sýna mér nýju gistihúsin ykkar tvö, þau sem þegar eru tilbúin. Og gaman er að sjá á netinu einkunnirnar sem þið fáið frá viðskiptavinum ykkar.
 
Lárus í efri bænum, þakka þér líka fyrir að koma til mín í heimsókn í sumarhúsið hennar Fríðu þar sem ég dvaldi í nokkra daga meðan meðan á Kálfafellsdvöl minni stóð, dvöl sem ég notaði til að viðhalda góðum minningum og tilfinningum mínum fyrir bernskuslóðum mínum. Þú ert fróður maður og viðræðugóður Lárus og drengur góður.
 
Hér með lýkur skrifum mínum um Kálfafell 2017 utan eina mynd sem ég læt fljóta með í lokin.
 
 
Ætli ég hafi ekki verið svo sem tólf ára þegar ég gekk við annan mann á svipuðum aldri eftir rákinni sem liggur þarna svolítið skáhallt eftir klettinum. Við fengum ekki lof fyrir tiltækið get ég fullyrt og þegar ég horfði á þetta í haust var ég mjög ákveðinn í að gera enga nýja tilraun. Mér hraus hugur við.
 
Þegar ég ók vestur á bóginn og þessari nokkurra daga heimsókn minni til bernskuslóðanna var lokið, fann eg fyrir sama trega og ég hef alltaf fundið fyrir þegar ég yfirgef Fljótshverfið.
RSS 2.0