Lífið myndar ekki rökrétt mynstur

Um hádegi í dag, gamlársdag, fór ég inn í Marieberg til að kaupa vænan norskan lax í kvöldmatinn -hátíðamatinn. Þegar ég var kominn svo sem hálfa leið mundi ég eftir því að ég hafði ekki slökkt á kertinu sem logaði við stóru myndina af Valdísi en ég treysti því bara að einhver mundi gæta ljóssins. Þegar ég var kominn langleiðina mundi ég eftir þvi að ég hafði ekki tekið með tossalistann með þeim sex atriðum sem ég ætlaði að kaupa. Hvernig fer nú þessi ferð hugsaði ég. Svo fór ég inn í kaupfélagið og tíndi saman þessi sex atriði eins og ekkert hefði í skorist. Síðan bætti ég við fáeinum atriðum sem ekki voru á tossalistanum þó að ég segi oft að það sé dyggð að kaupa aldrei meira en það sem stendur á honum.
 
*          *          *
 
"Lífið myndar ekki rökrétt mynstur. Það er tilviljanakennt og fullt af dásemdum sem ég reyni að fanga þegar þær fljúga hjá því hver veit hvort nokkur þeirra kemur nokkru sinni aftur?"
Dame Margot Fonteyn (1919-1991)
 
Þegar ég las þessi orði í morgun á feisbókinni og líka í almanakinu Kyrrð dagsins hér heima, þá datt mér í hug ákveðið símtal frá í september 1993. Það var þegar Ingólfur Margeirsson hringdi norður til Hríseyjar og spurði mig hvort við mundum vilja flytja til Svíþjóðar og ég færi að vinna þar. Mér fannst það vitlausara en allt annað en fann samt hvernig eitthvað sagði innra með mér að þetta tilboð fengi ég bara einu sinni í lífinu. Mig langaði.
 
Svo kom Valdís innan ganginn og í átt að stofunni og þegar hún gekk framhjá mér þar sem ég sat við símann sagði ég hvað Ingólfur hefði talað um. Og þá sagði þessi norðlenska kona, ein KiddaVillasystranna; já, því ekki það. Dómurinn var kveðinn upp og tilboðið var þar með samþykkt. Stundum ganga hlutirnir hratt fyrir sig og þetta var algerlega í samræmi við vísdómsorðin hér fyrir ofan þó að dagurinn skipti ekki máli í því sambandi. Við fengum að reyna margt nýtt í framhaldi þessarar ákvörðunar og við tókum ástfóstri við þetta land, þá ekki síður Valdís.
 
Í öðru almanaki sem heitir Vegur til farsældar og mér var gefið í sumar stendur fyrir daginn í dag: "Ég stend á tímamótum, nýtt ár er að hefjast. Guð hjálpi mér til að vera góður, sanngjarn og vitur í öllum mínum gjörðum."
 
Ég að vísu bið um þetta á hverjum morgni ásamt því að ég nefni ákveðið fólk sem mér er annt um eða á bágt og bið því velfarnaðar. Auðvitað voru þessi orð sett á síðasta dag ársins af ásetningi býst ég við og þó að þessi hugsun sé mér ekki ný fannst mér gott að staldra við og horfa á línurnar og hugleiða þær. Nýtt ár er að byrja fyrir mér sem og öðrum og það byrjar öðruvísi hjá mér en öll önnur ár í meira en hálfa öld. Ég ætla mér að taka þessu nýja ári beinn í baki og í þeim anda sem standa í Vegi til farsældar.
 
 *          *          *
 
Hér hnaut ég inn á allt annað efni en það sem ég byrjaði á -og þó. En þegar ég var kominn langleiðina heim aftur eftir kaupfélagsferðina datt mér aftur í hug kertið sem logaði við stóru myndina. Svo í framhaldi af því datt mér í hug síðasta samtalið við Valdísi þegar hún hringdi heim af sjúkrahúsinu til að segja mér að hún hefði fengið óvænta heimsókn eftir símtalið þar á undan. Ég sagði þá við hana að hún ætti nú að fá að sofa með súrefnisgrímuna en ekki bara með slöngu upp að nefinu, hún ætti að nefna það við hjúkrunarfólkið. "Já pabbi" sagði hún og það eru næstum síðustu orðin sem hún talaði til mín. Undir morguninn fór hún heim til óþekkta landsins sem ekki sleppir fólki til baka aftur.
 
Síðan kom ég heim með pokann úr kaupfélaginu og djúpa sorg í hjarta mínu. Vindáttirnar breytast snöggt á þessum síðustu mánuðum.
 
Nótt eina fyrir meira en ári þegar ég lagði mig meira fram en nokkru sinni áður við að biðja fyrir heilsu Valdísar hafði ég flett upp á ákveðnum stað í Nýja testamentinu. Ég leitaði aðstoðar þar. Síðar þá sömu nótt, með lokuð augu, stakk ég nögl á þumalfingri hægri handar á Biblíuna og opnaði hana þar þar sem nöglin stakkst inn á milli síðna. Mér til undrunar og nokkurs kvíða sá ég að þar stóð meðal annars eftirfarandi og þýðingin frá sænsku er mín:
 
"Barnið mitt, láttu tárin renna þegar einhver hefur dáið, gráttu hávært vegna þíns mikla skaða. Sýndu hinni látnu þann heiður sem hún á rétt á og vertu ekki sparsamur með útför hennar."  -og síðar segir-  ". . . sorg í hjartanu brýtur niður styrk þinn."  -og enn segir-  "Láttu ekki sorgina fá vald yfir hjarta þínu, ýttu henni til hliðar . . . Gleymdu þessu ekki, því að það finnst engin leið til baka; þú hjálpar ekki hinum látna en skaðar sjálfan þig."
 
Ég reyni að lifa eftir þessum orðum úr Jesús Syraks vísdómsorðum sem komu svo óvænt til mín nótt eina á síðasta ári. Samt kemur sorgin óvænt eins og regn frá heiðskýrum himni en ég vil ekki láta hana gera sér bústað í hjarta mínu. Hún er þar samt en er ekki daglega lífið.
 
Mér ber skylda til að lifa áfram og ég er afi. Það er ekki allt of mikið til af öfum og ömmum og mér ber að gera mitt besta til að finnast fyrir þá sem vilja vera barnabörnin mín.
 
Mér sýnist að daginn hafi þegar lengt um svo sem þrettán mínútur og eftir nokkra daga byrjar birtan að verða áþreifanlegri. Ég vil vera maður birtunnar og taka þátt í vorkomunni með öllum þeim gleðiefnum sem hún býður upp á. Ég vil byrja að ganga um í skóginum í apríl til að þreifa á endum beykitrjánna til að fygljast með fæðingu fyrstu laufblaðanna. Ég vil ganga um með Hannesi hér í sveitinni og leita að broddgöltum, sniglum, maurum, ungum og nýgræðingi og rannsaka þetta allt með honum og ég vil lifa í nægjanlegri gleði til að geta gert það.
 
Ekki veit ég hvernig þetta hefur tekist hjá mér, en ætlunin var að þetta blogg væri gleðiboðskapur mitt í alvörunni. Ég þyrfti að geyma það hjá mér í nokkra daga til að yfirfara síðar. En þetta er skrifað nú á gamlárskvöldi og ég læt það út ganga nú þegar áður en nýtt ár gegnur í garð.

Kannast nokkur við þetta?

Fyrir mörgum árum, ég geri mér ekki grein fyrir hvort það voru síðustu árin okkar Valdísar á Íslandi eða á fyrstu árum okkar hér í Svíþjóð, að við horfðum á mynd í sjónvarpi, mynd sem ég hef aldrei getað gleymt. Ég hef líka notfært mér þessa mynd mikið og ég kem að því síðar.
 
Eins og ég man myndina þá nefni ég hér fáein brot úr henni:
 
Fólk vann við hjálparstörf suður í Afríku, í stóru hvítu tjaldi að því er mig minnir. Þar var miðaldra læknir, miðaldra eða rúmlega það, og nokkuð yngri kona sem líklega var hjúkrunarkona við þetta hjálparstarf. Það varð samband milli þessara tveggja, fallegt samband sem ekki hafði neinar viltar senur sem hafðar voru til sýnis á tjaldinu. Smám saman byrjaði læknirinn að hafa áhyggjur af þessu sambandi, hann fékk samviskubit og hvers vegna man ég ekki, en ég trúi að það var aldursmunurinn sem það fjallaði um.
 
Samviskubitið varð honum að lokum ofviða og morgun einn kom hann ekki til vinnunnar í tjaldinu. Konan fékk af þessu þungar áhyggjur en vonaði að læknirinn kæmi til baka. Dögum og vikum saman beið hún en hann kom ekki. Hún hugleiddi samtöl þeirra og reyndi að komast að einhverju sem gæti hjálpað henni við að finna manninn. Hann hafði talað um klaustur nokkuð norður í Evrópu, í frönsku ölpunum hef ég sagt, og hjá þessu klaustri var hús nokkuð sem var sérstaklega gert fyrir íhugun og athuganir.
 
Að lokum gafst konan upp á biðinni, lagði land undir fót og hélt norður til Evrópu. Hún þreifaði sig áfram með þolinmæði og fyrirspurnum og að lokum stóð hún í brekku einni og horfði upp til gamals klausturs. Nærri þessu klaustri var líka minna hús sem hún horfði á og var hún nú viss um að hún væri kominn að þessum stað sem hann hafi talað um. Rólega gekk hún að húsinu og opnaði hljóðlega útihurðina sem var nærri einu horni þess.
 
Þegar hún sá inn sá hún að húsið var eitt herbergi og hún sá einnig hvar vinurinn sat við borð í gagnstæðu horni þessa herbergis. Þar sat hann innan um bækur, blöð og skriffæri. Þegar hann varð hennar var stóð hún enn í dyrunum og horfði inn til hans. Hann sneri sér í stólnum og horfði á móti. Um stund voru þau kyrr í þessum stellingum, en að lokum gekk hún hægt inn gólfið í átt til hans og stoppaði nálægt skrifborðinu. Hann reis upp og þau horfðust í augu án þess að segja orð.
 
Eftir að hafa staðið þannig um stund tóku þau hlýlega hvort utan um annað og föðmuðust fallega og lengi.
 
Hann læsti ekki fingrunum djúpt inn í rasskinnar hennar og hún sleit ekki af honum skyrtuna með krampakenndum hreyfingum, nei, þau héldu bara áfram að faðmast fallega og lengi. Þannig endaði myndin.
 
 
 
Þessi mynd hafði mikil áhrif á mig og ég sem sagt man hana enn svo mörgum árum seinna. Ég hef líka notað þessa lýsingu í lok ákveðins fyrirlestrar í tugi ef ekki hundruð skipta. Trúlega hef ég breytt söguþræðinum eitthvað með tímanum. Ég verð það hrærður í hvert einasta skipti sem ég segi frá þessu í fyrirlestrunum að ég þarf að passa mig að komast ekki við -stoppa stundum nokkur augnablik til að ráða við mig. Þessi fyrirlestur fjallar um samskipti kynjana, kannski undarlegt -en satt.
 
Sama fyrirlestur byrja ég með að lýsa hinu gagnstæða þar sem maður og kona hittast á bar. Síðan fara þau heim til hans og í þeirri mynd er klónum læst djúpt í rasskinnar, föt eru rifin og slengt í eldhúsvask, gólf sófa og yfir matardiska. Síðan hefjast grófar samfarir (ég kann ekki við að nota ljótara orðið) sem eiga sér stað á vaskabekknum, út um öll gólf og mottur og það er öskrað og urrað og hvæst. Og þannig er haldið áfram lengi lengi, lengur en nokkur möguleiki er á.
 
Á milli þessara lýsinga hef ég um fjörutíu mínútur til að tala um annað. Að tala um mannlegan þroska og það fallega.
 
En af hverju í ósköpunum er nú Guðjón frá Kálfafelli að skrifa þetta inn á bloggsíðuna sína. Jú, svarið er einfalt. Ég er að leita að þessari mynd og þá meina ég að sjálfsögðu fallegu myndina um fallegasta faðmlagið. Ég veit að það er til fólk sem er næstum sérfræðingar í gömlum myndum og ef einhver slíkur skyldi slysast til að lesa þetta, þá yrði ég glaður að heyra frá honum eða henni. Eða ef einhver les þetta sem veit um einhvern svona sérfræðing, að biðja hann þá að kíkja á þetta.
 
Að ég skrifa um fyrirlesturinn í þessu sambandi geri ég til að segja frá því hvers vegna mig langar að finna þessa mynd. Fólk verður afar hljótt undir þessum fyrirlestri og ósjaldan hefur fólk gengið fram til mín á eftir og spurt hvort ég geti ekki með nokkru móti munað hvað myndin heitir. Það eru frekar konur sem gera það.
 
Það er til mikið af fólki sem langar til að finna það fallega í lífinu.

Þetta er aldeilis ótrúlegt

Í gær, laugardag, var ég mættur í Vornes skömmu fyrir hádegismat. Þegar ég er að vinna borða ég þar, þar sem mér finnst það sjálfsagður hlutur til að minnka matargerð mína hér heima handa mér einum. Þegar ég var að enda við hádegismatinn í gær og var að drekka kaffibolla í matsal starfsfólks, þá hringdi skæpið á fartölvunni sem ég hafði með mér. Það voru Páll bróðir minn og hún Guðrún mágkona mín sem ætluðu að skæpa við Sólvallabóndann. En allt í lagi, þau náðu til mín í Vornesi líka.
 
Þarna fór ég allt í einu að tala þar sem ég sat einn í matsal starfsfólksins og hún Lena í eldhúsinu varð vör við það. Ég held að henni hafi ekkert litist á blikuna ef ég væri að röfla þarna við sjálfan mig. En hún komst að því að ég var að tala við tölvuna og þá kom hún nær til að gá að því hvað væri eiginlega að gerast. Svo leit hún á tölvuskjáinn og sá þar fólk og hún sá líka að það fór saman hreyfing og tal. Þá sagði Lena: Aldeilis er þetta ótrúlegt. Lena er einhverju ári yngri en ég og hún á tölvu, en hún skæpar ekki. Nú er hún búin að sjá hvernig það gengur fyrir sig.
 
Nú var það svo að Páll bróðir minn og hún Guðrún mágkona mín komu í heimsókn til okkar Valdísar í Falun árið 1996, það er að segja þau sem töluðu við mig á skæp í gær. Við fórum þá í ferðalag niður til Örebro og austur um Södermanland með viðkomu í Vornesi. Þá var ég að vinna á fyrsta árinu mínu þar. Ég hafði talað um að við framáfólk í Vornesi að við mundum koma við þar og ég hafði lagt drög að því að við fengjum kaffi. Því var vel tekið og eldhúskonurnar bökuðu þykka og gómsæta eplaköku í tilefni af þessu. Svo komum við í Vornes samkvæmt áætlun og okkur var tekið eins og kóngum og drottningum.
 
Nú eru ár og dagar síðan, en ég tók upp á því í gær meðan við töluðum saman að ganga um með tölvuna þannig að þau gætu séð sig um í matsalnum þar sem þau höfðu komið fyrir svo löngu. Hér drukkuð þið kaffið sagði ég, og þá sögðust þau bæði þekkja borðið þar sem við höfðum setið og borðað svellþykka eplakökmuna með vanillusósu ofan á. Og hér gefur svo að sjá þetta borð.
 
Það er borðið þarna undir glugganum. Borðið er að vísu nýtt en uppstillingin er sú sama og stólarnir eru þeir sömu. Þessir stólar eru sannir stólar, smíðaðir til að endast. Í hitteðfyrra þegar þeir fylltu 50 ár voru þeir sendir til verksmiðjunnar sem framleiddi þá og þeir voru pússaðir upp og sprautaðir upp á nýtt. Í dag eru þeir sem nýir.
 
Þegar þau sáu þetta á skæp í gær, mágkona mín og bróðir, þá leyndi mágkona mín því ekki að hún gladdist yfir að sjá þetta aftur á þennan hátt. Við Kálfafellsbræður erum hins vegar ekki svo mikið fyrir að tjá snögg tilfinningaviðbrögð að við tókum því nokkuð með ró að gleðjast með mágkonu minni sem er ættuð úr Dölunum. En við glöddumst nú samt.
 
*          *          *
 
Hér snúast hlutirnir svo um nokkuð allt annað. Hér eru fjórar myndir frá höfuðstöðvum Mammons í Marieberg.

Ég kom þarna við á leið heim úr vinnu á annan í jólum. Og hvað haldið þið; jólaútsölurnar voru hafnar og margir vildu sökkva upp í stóru ausunni. Margir virtust líka bara vera að skemmta sér og í Galleríunni í Marieberg eru á annað hundrað verslanir og margir veitingastaðir. Allir veitingastaðirnir voru fullir af fólki, svo fullir að Sólvallakallinn hætti við að fá sér kaffi þar og fór þess í staðinn heim og bakaði sér pönnukökur.
 
 
 
Margir sem hafa komið til okkar þekkja bílastæðin í Marieberg. Þetta er til suðausturs frá Galleríunni.
 
Þetta er til suðvesturs.
 
Og þetta er til norðurs móti Bauhaus. Bauhaus hefur sitt bílastæði sem ekki sést á þessari mynd. Ég hef nú aldrei séð aðra eins ös þarna enda er ég bara lítill kall. Áður en ég fór heim í pönnukökugerðina keypti ég mér tvo lítra af mjólk og rjómapela. Svo var ég ánægður með innkaupin mín þann daginn.
 
Þess má geta að margir koma langa vegu að til að versla í Marieberg. Þar er ekki bara þessi stóra gallería, heldur mörg önnur stórverslunarhús. Þar er hægt að tæma hin stærstu peningaveski, safna skuldum á mikið af kortum og kaupa endalausa hamingju.

Boðberi hins góða

Ég fór allt of seint að sofa í fyrrakvöld og ég var alls ekki tilbúinn að fara í vinnuna þegar ég þurfti þess í gærmorgun. Svo fór ég. Ég segi í Vornesi að hvít lýgi sé líka lygi og sé ég spurður þar hvernig ég hafi það, þá get ég ekki logið því að ég sé alveg himinlifandi ef ég er það ekki. Sú regla var líka í gildi í gær. En ég gerði mitt besta og mér tókst fremur vel til þó að ég fyndi fyrir þreytunni allan daginn.
 
Í nott svaf ég í ráðgjafaherberginu á sjúkradeildinni og þar er býsna veikt fólk núna. Þau voru á rölti á klukkutíma fresti fram undir rmorgun og ég varð alltaf var við þau og ég átti von á að þau hringdu í mig sem þau gerðu þó ekki. Samt hvíldist ég ótrúlega vel. Klukkan sex fór ég á stúfana til að opna dyrnar sem ég læsti í gærkvöldi. Þegar ég kom frá ákveðnu húsi að aðalbyggingunni stóð Bensi þar á miðju hlaðinu og beið þess að ég opnaði. Hann langaði að komast að gömlu dagblöðunum þar sem engin blöð komu út í morgun.
 
Bensi er mikill gæðamaður á miðjum aldri og við hittumst fyrst fyrir þrettán árum. Síðan hittumst við fyrir fjórum árum og svo aftur nú. Ég hef í öll skiptin fundið gæðamanninn í honum. Hann er sem sagt ótrúlega góður kall, vill hjálpa, er kurteis og kemur ætíð fram við fólk á ljúfmannlegan hátt. Hann vill bara vel. En hann á við þann erfiðleika að etja að sjúkdómurinn alkohólismi tekur stundum völdin yfir skynsemi hans og þá geta átt sér stað hlutir sem eru utan hans getu að takast á við.
 
Þegar ég var búinn að sinna mínu um tíma gekk ég gegnum dagstofuna þar sem Bensi sat og las gömlu blöðin. Ég spurði hann hvort hann hefði komist að einhverju athyglisverðu og hann svaraði eitthvað á þá leið að það væri eins og hann fyndi bara vondar fréttir í gömlu blöðunum á þessum morgni. Hann sagði að það væri svo órtúleg mikil illska til í heiminum og margt fólk ylli alveg voðalegum þjáningum. Hann hafði verið að lesa fréttir um stríð þar sem olíutunnum er varpað niður úr þyrlum yfir saklausa íbúa og svo springju olíutunnurnar og gamlir naglar, stálboltar og járndrasl æddi gegnum kviðarhol fólks, gegnum brjóstkassa, eyðilegði andlit og bryti sundur fætur.
 
Þarna sat Bensi og nuddaði með vísifingri undir neðri vörinni og horfði í næsta vegg en samt horfði hann út í bláinn. Svo fara börn alveg í tætlur sagði hann. Ef allir mundu kynnast 12-spora kerfinu og tækist að lifa eftir því, þá mundi heimurinn líta öðru vísi út hélt hann áfram.
 
Já, þannig er það að 12-spora kerfið hvetur til heiðarleika, manngæsku og margs og margs sem prýða mundi góðan heim að lifa í. Ég sagði Bensa frá manni að nafni Morgan Scott Peck sem einmitt hefði skrifað um þetta og að hann hefði sagt að 12-spora kerfið gæti bjargað mannkyninu. Maður þessi var lærður geðlæknir og hafði meðal annars á höndum störf hjá bandaríska hernum. Hann skrifaði líka bækur. Bensa þótti þetta miklar fréttir, ég settist á sófagafl og við ræddum saman um stund.
 
Hversu mörgum væri ekki hægt að hjálpa með þeim kröftum og fjármunum sem beitt væri gegn fólki til að skaða það. Um stund vorum við Bensi í sitt hvorum heiminum. Hann sagði mér frá einhverju sem ég heyrði ekki en ég sá fyrir mér andlit sem hrópar til Guðs á hverjum degi til að komast frá sjúkdómnum sem Benski er að berjast við núna. Ég sá líka fyrir mér andlit sem hrópar bænir sínar til hins óþekkta vegna annars alvarlegs sjúkdóms og ég sá fyrir mér mann sem liggur á sjúkrahúsi og hefur verið rændur mættinum í hálfum líkama sínum.
 
Svo hittumst við Bensi aftur í þessari umræðu og urðum sammála um að okkur bæri að virkja það besta í okkur sjálfum. Þannig gætum við best hjálpað heiminum til að verða betri, með því að láta hið ósýnilega en góða vinna meðal fólksins í kringum okkur. Ég minntist mannsins sem á kvöldfundinum seint í gærkvöldi þakkaði mér fyrir að hafa komið að vinna því að ég hefði tekið eitthvað gott með mér sem hefði setst að í honum. Ég horfði á Bensa og sá í honum boðbera hins góða. Ég vona að honum takist vel til. Og ekki bara honum, heldur öllum hinum líka, en ég sá borðberann í honum svo ljóslifandi.
 
Allt í einu var heimurinn orðinn góður á margan hátt og fallegur líka. Við Bensi urðum betri menn af viðræðum okkar í morgun. Þannig er lífið. Það hefur verið fullt af vangaveltum hjá mér í dag, nokkuð tregablandið með köflum, en jákvætt. Þegar ég settist niður til að skrifa þetta bað ég Lay Low og Ragga Bjarna að syngja Þannig týnist tíminn. Þau gerðu það og ekki minna en þrisvar sinnum.
 
Nú líður að kvöldmat á Sólvöllum og svo ætla ég að sofa mjög lengi í nótt. Ég vil fara vel úthvíldur í Vornes til að vinna aðfaranótt sunnudags svo að ég verði ennþá betri boðberi hins góða.

Jólabloggið 2013

Það eru öðru vísi jól á Sólvöllum núna og verða aldrei söm og áður. Í dag þegar ég byrja á þessu bloggi eru sextán dagar til jóla og reyndar setti ég upp jólaljós í dag en það hef ég aldrei gert áður alveg að eigin frumkvæði. Ég hef alltaf haft stjórnanda við það, eða alla vega hafa verið mikil samráð um þann þátt jólahaldsins. Valdís hugsaði mikið um fólk og einn þáttur hennar í því var að senda mikið af jólakortum. Hún tók í það mikinn tíma og annaðist það af mikilli alúð. Ég ætla ekki að reyna að gera það af jafn mikilli eljusemi og hef komið því á framfæri áður að ég mun aðeins senda örfá kort til þeirra sem ég veit að hafa engin samskipti gegnum tölvu.
 
Í þessu bloggi eiga að felast örlítil ágrip frá árinu sem er að líða og þau ágrip byrja ekki fyrr en farið er að líða nokkuð á árið. Eftir heimkomuna að lokinni Íslandsferð með öskuna eftir Valdísi byrjaði lífið að mótast hér við þessar nýju að stæður. Eftir að Valdís hætti að vinna fyrir all mörgum árum urðu skörp verkaskipti með okkur. Valdís sá um matinn og mest af þrifum og ég hélt áfram uppbyggingu á Sólvöllum og hætti aldrei alveg að vinna í Vornesi. Það sem ég kunni í matargerð fyrir mörgum árum var rokið út í veður og vind og ég fékk að byrja frá byrjun.
 
Valgerður dóttir mín var hér þegar Valdís dó og um það bil þrjár vikur eftir það og leiðbeindi mér með margt við matargerðina. Málið var hins vegar að þá var ég var ekki byrjaður sjálfur að láta á reyna við eldhúsbekkinn þannig að ég skildi kannski ekki allt sem hún sagði mér eða sýndi. Ég var líka með hugann reikandi um alla heima og geima. En svo hefur eitt og annað af húsmæðrakennslu hennar síast inn og jafnvel man ég stundum hluti sem ég hef hugsað að ég þurfi að prufa við tækifæri.
 
Aðrir þættir í heimilishaldi voru mér ekkert ókunnir. Að þvo þvott og strauja fötin mín lærði ég heima hjá mömmu og svo áfram í Skógum þar sem hver varð að bjarga sér. Að skúra gólf er ég vanur við en seinvirkur er ég við skúringar. Eftir tveggja til þriggja vikna einveru á Sólvöllum og aðlögun mína að nýju lífi komu Rósa og fjölskylda og voru hér í fimm vikur. Þau tóku yfir eldhúsbekkinn og sögðu mér að hafa engar áhyggjur af því og ég hélt mínu áfram hér úti við, til dæmis við að aðstoða smið við að byggja stóra verönd og sjálfur eyddi ég mörgum vikum við að byggja einangraðan grunn undir gamla hlutann af Sólvallahúsinu. Einnig við að gera lóðina klára kringum nýja húsið sem byggt var í fyrra og Valdís gaf nafnið Bjarg.
 
Meðan Rósa og fjölskylda voru hér voru einnig felld fimm stór birkitré sem stóðu skammt að baki íbúðarhúsinu. Þar á eftir kom heitasti hluti sumarsins og sveittur en eljusamur tók Pétur þessi tré að sér, hreinsaði af þeim allar greinar og brytjaði í hæfilega búta. Svo gekk hann frá þessu öllu þar til allt var orðið hreint. Þannig var það þennan tíma. Við unnum öll af mikilli þolinmæði að svo mörgu hér heima og Hannes Guðjón hafði líka sína reku og tók þátt í framkvæmdum með öðrum köllum þegar mest var í gangi. Hann hjálpaði mér líka að klippa steypustyrktarjárn og var almennt mjög vinnufús og þegar hann fékk sem mest að gera var vinátta hans líka best og einlægust.
 
Þegar ég er að koma einhverju áfram á ég erfitt með að taka til eftir mig. Mér verður á að fresta því og fresta því aftur og er óánægður með það því að ég vil að það líti vel út í kringum mig. Þessir sumargestir mínir tóku af mér margt ómakið í þessu og ég veit í dag að ef þau hefðu ekki verið hér og gert svo mikið sem þau gerðu, þá liti ekki eins vel út á Sólvöllum og það gerir í dag. Eða að öðrum kosti væri ég alls ekki búinn að gera það sem ég er búinn að gera af öðru.
 
Mín hugmynd áður en ég byrjaði að skrifa þetta jólablogg, sem líka á að vera jólabréf til þeirra sem ekki hafa aðgang að netinu, að nefna helst engin nöfn. Þá er alltaf hætta á að það verði óréttlæti í þakklætinu sem ég ber til svo margra þó að það sé alls ekki meiningin. En þessa fjölskyldu varð ég þó að nefna sérstaklega, enda eru þau mín nálægasta fjölskylda landfræðilega þannig að það leiðir að hluta til af sjálfu sér að þau komi mest við sögu.
 
Ég er mjög heimakær maður. Ferðir mínar um heiminn get ég reiknað á hluta af fingrum annarrar handar. Mínar ferðir eru hér innanlands og svo milli Svíþjóðar og Íslands og til baka aftur. Ég er líka vinafár. Stórfjölskylda mín eru dætur mínar tvær með fjölskyldum þeirra, systkini mín fimm með fjölskyldum og svo systur Valdísar. Ég lít á þetta fólk sem stórfjölskyldu mína. Svo eru vinirnir fáir -en góðir vinir. Svo þekki ég fullt af frábæru úrvalsfólki. Ég hef hugleitt það síðustu dagana að það er mikilvægt að eiga nána vini sem ekki eru í fjölskyldunni en ég er ekki duglegur við að rækta þá vináttu. Skólasystir mín frá Skógaárunum frá því fyrir meira en hálfri öld birtist allt í einu hér. Nú tilheyrir hún góðra vina hópnum.
 
Ég ætlaði ekki að nefna fólk en núna er hún nefnd, hún heitir Kristín. Hún fór með mér í fyrstu ferðina sem ég hef farið nánast um árabil, fjögurra daga ferð upp í sænsku Dalina. Vinátta hennar hefur fengið mig til að endurmeta verðmæti vináttu. Ég nefnilega finn að ég get vel hafnað í því að einangrast sem karlfauskur hér heima á Sólvöllum með óæskilegum afleiðingum. Ég tek undir orð prestsins Nisse sem heimsótti mig fyrir nokkrum dögum að þegar okkar nánustu falla frá, þá verðum við sem eftir lifum að finna okkur nýjan farveg. Ég er búinn að panta sæti á jólaborði í gömlu kirkjunni okkar Valdísar. Ég nenni því ekki en mér ber að haga mér skynsamlega.
 
Ísland er rómað fyrir náttúrufegurð og ég bý í alldeilis ótrúlega fallegu landi. Ég þarf ekki að fara langt til að það sé mér mikið og gott ferðalag. Fyrir mig er ferðalag í næstu sýslu ferðalag sem ég nýt. Ég er nokkuð nægjusamur og lít á nægjusemi sem eina af mörgum góðum dyggðum. Ég á alla möguleika á góðu lífi í nýjum farvegi og það er á mína ábyrgð að ég einangri mig ekki í einsemd með óæskilegum afleiðingum. Ég á börn og barnabörn ásamt öðrum í stórfjölskyldunni minni og mér ber skylda til að horfa fram á við og taka ábyrgð á því að ég er í fyrsta lagi faðir og afi og svo bróðir, mágur og frændi í þessari fjölskyldu. Svo vil ég líka vera góður vinur vina minna.
 
Að lokum: Ég var aldrei alveg viss um, og er ekki enn, hvort ég hefði þakkað nægjanlega fyrir alla þá miklu og mikilvægu aðstoð sem ég og dæturnar ásamt fjölskyldum nutum eftir fráfall Valdísar. Ég vil því gera það einu sinni enn. Þið sem hjálpuðuð okkur hér í Örebro, flest Íslendingar, mikið þakklæti til ykkar allra fyrir alla á vinnu sem þið lögðuð af mörkum og öll vingjarnleg orð sem þið létuð falla um Valdísi og í okkar garð. Alveg það sama til ykkar allra sem aðstoðuðuð við minningarathöfnina í Reykjavík. Ég veit að þið létuð í té svo mikla vinnu og sýnduð hlýhug, nærgætni og skilning. Þið tilheyrðuð stórfjölskyldunni flest ef ekki öll.
 
Svo er komið að Hrísey. Þvílíkar móttökur sem við fengum. Og öll sú ósérhlífna vinna sem þið lögðuð af hendi. Ég þakka ykkur svo innilega fyrir þetta allt. Valdís komst heim að lokum eftir ferð sína til ókunns lands sem varð henni svo ástsælt og hugleikið. Fyrir hana var það að komast heim að lokum að hafna í hríseyskri mold. Allt var fyrirfram ákveðið af hennar hálfu utan minningarathöfnin í Reykjavík. Hefði hún verið spurð eftir því sjálf hvort við ættum ekki að gera það líka hefði hún líklega svarað því til að það væri allt of mikil fyrirhöfn út af sér. En það var ekki of mikil fyrirhöfn, það var einungis það sem hún átti inni hjá okkur. Ég er ekki í vafa um að hún hefur verið ánægð með þessi síðustu spor á leiðinni heim til fyrirheitnu moldarinnar. Líkaminn fer þangað en andinn, hið ósýnilega, á sér annað heimaland sem við fáum ekki að vita um fyrr en daginn sem við verðum líka kvödd heim.

 Og þið hin sem sýnduð í verki hlýhug á einn og annan hátt, þið fáið jafn miklar þakkir fyrir það.

Þessar síðustu línur voru þungar að skrifa en síðan heldur lífið áfram í nýjum farvegi móti hinni óþekktu framtíð þar sem ég stend í brúnni hvað mitt eigið lif varðar. Það er ég sem er ábyrgur fyrir því að gera það að góðu lífi þangað til ég verð kallaður heim.

 

Það er síðla kvölds, skammdegismyrkur úti og mikil kyrrð á Sólvöllum þegar ég er að ljúka þessum skrifum. Hérna fyrir framan mig þar sem ég sit og skrifa er skógurinn sem ég dáist svo mikið að. Ég sé hann ekki fyrir myrku skammdeginu, en samt sem áður er nokkuð bjart yfir huga mínum núna þegar ég hef lokið við að skrifa jólabloggið sem einnig verður jólabréf.

 

                Gleðileg jól og farsælt nýtt ár öll þið sem lesið þetta.

                                                                           Þess óskar Guðjón frá Kálfafelli.

 

Jólaferð Guðjóns afa til Stokkhólms 2013

 Margar myndir - lítið tal. Tæknisafnið í Stokkhólmi.
 
Við vorum á Tæknisafninu í Stokkhólmi í dag. Þar er um auðugan garð að gresja og eitt af þúsundum atriða þar var að æfa sig á alvöru skurðgröfu. Hannes Guðjón settist í skurðgrafarastólinn og gróf um stund.
 
Svo settist mamma hans í stólinn og Hannes kenndi henni að vinna á skurðgröfu. Eldri nemur -ungur temur. Ég reyndar prufaði líka en þá allt í einu dreif að svo mikið af börnum sem vildu spreyta sig að ég sá mér ekki annað fært en gefa eftir stólinn en hefði gjarnan viljað spreyta mig svolítið lengur.
 
Það hefur verið hjólað lengi á jörðinni og hjólhestrnir margvíslegir.
 
Á stóru safni verður margur svangur og það er jafn gott að rækjusneiðarnar eru vel við vöxt. Ég var búinn að borða þriðjunginn af sneiðinni þegar ég tók myndina.
 
Og spaghettíið með tómatsósu, nammi namm namm.
 
Á Tæknisafninu í Stokkhólmi er sérstök deild fyrir hluta af uppfinningum kvenna eins og hér kemur fram á sýningarlýsingunni hæð 3. Við Guðdís dótturdóttir mín vorum þarna á ferðinni fyrir nokkrum árum og þá heimsóttum við auðvitað sýningarsal kvennanna.
 
Þar kemur meðal annars fram að þessi kona, Marie Curie, er eini Nóbelsverðlaunahafinn sem hefur fengið verðlaun fyrir bæði eðlis- og efnafræði. Það verður varla gengið þarna um salinn án þess að veita þessu athygli. Hún var uppi frá 1867 til 1934 og við að lesa þennan stutta texta undraðist ég á því hvernig í veröldinni tókst henni að upgötva það sem hun uppgötvaði með tækni þess tíma. Ég þarf víst ekki að skilja það, henni tókst það samt.
 
 
 
 Margar myndir - lítið tal. Íslendingar í Stokkhólmi.
 
Á Celsiusgatan 3 í Stokkhólmi tveimur dögum fyrir jól. Stúlkan Kristín Þórhallsdóttir, þá skurðlæknirinn Þórhallur, Elísabet málvísindamaður og karlinnn hennar Ingvaldur forritari, Pétur málvísindamaður og sjálfur ég, Guðjón alkakall. Hann nafni minn  Hannes Guðjón snýr hnakkanum í myndavélina. Þetta var góður desemberdagur.
 
Ég verð auðveldlega svolítið öfundsjúkur þegar fólk bara sest niður án þess að hafa skipulagt neitt og svo tekur einn gítarinn og svo bara syngur fólk. Einfaldlega fer að syngja. Svo var það í þetta skipti. Pétur bara var eitthvað að föndra við gítarinn og svo fóru þessi þrjú að syngja. Það er Valgerður kona Þórhalls sem er lengst til vinstri og dóttirin Krístín í miðjunni.
 
Afi gamli með Ágúst Þórhallsson á háhesti og Vala mamma skellihlær.
 
Hannes Guðjón vildi líka vera með um háhestinn.
 
Það varð auðvitað að taka mynd af gestgjöfunum Rósu og Pétri og Þórhallur og Vala fengu að vera með.
Þá voru Elísabet, eða Dúdda, og Ingvaldur farin. Það er Þórhallur sem ræktar bíflugur og og mér heyrist á öllu að Vala kunni þeirri tómstundaiðju vel. Það verður líklega að skrifast á reikning Þórhalls að ég er búinn að skrá mig á býflugnaræktarnámskeið í Örebro í mars næstkomandi. Það var mjög skemmtilegt samfélag heim að sækja í sumar, býflugnasamfélagið þeirra.
 
Þegar enginn sér til getum við nafni minn tekið upp á ýmsu.
 
Það er að sjá að Hannes Guðjón sé til í að feta í fórspor Helga afa sem var bakari og eigandi Björnsbakarís í áratugi. Pétur pabbi vann þar líka á sumrin í mörg ár. Hér er nefnilega öll fjölskyldan að Celsiusgatan 3 í Stokkhólmi að baka gráfíkjutertu eftir uppskrift Valdísar ömmu. Svo var þessi terta meðal annars borðuð af Íslendingunum sem hittust í Celsiusgötunni tveimur dögum fyrir jól.
 
Jólaferðin til Stokkhólms er góð þrátt fyrir allt. Það er Þorláksmessukvöld og síðdegis á morgun sný ég til baka til heimahaganna. Á jóladag fer ég í Vornes eins og ég hef fyrr sagt til að vera sólarhring með systkinum mínum þar.

Ég gleymdi að fara í jólaklippinguna

Ég fór nokkuð tímanlega á stjá í gærmorgun til að lenda ekki í neinni tímaþröng með Stokkhólmsferðina seinna um daginn. Ég hafði nokkra tíma til stefnu, en það var líka margt sem ég gjarnan vildi komast yfir áður en ég færi af stað. Ég var afar seinn að koma mér í rúmið kvöldið áður og um klukkan eitt um nóttina sá ég skilaboð á feisbókinni um að hún Lilja móðursystir hennar Valdísar hefði fengið frá mér jólabréfið. Hún var ein þeirra fáu sem ég sendi það póstleiðis -í ófrímerktu umslagi. Þetta með frímerkin var ekki með vilja gert. Þau voru í vasa mínum þegar ég setti bréfin í póst. En alla vega, Lilja hafði fengið bréfið og var búin að lesa það og var glöð. Þá varð ég líka glaður. Ég veit ekkert um afdrif hinna bréfanna sjö en vil svo gjarnan vita.
 
Þegar það var orðið bjart leit ég út um þvottahúsgluggann á leið minni fram á bað til að fara í sturtu. Þá sá ég fyrir alvöru hvaða stórvirki tiltektin mín undanfarið hafði verið. Þvílíkur munur. Ég varð undrandi yfir hversu lengi ég hafði látið þetta vera svona eins og það var. Og viðarstæðurnar! Þvílíkt magn af eldiviði sem nú var í góðu vari. Svo kom ég fram í baðherbergið og leit á mitt beyglaða andlit í speglinum. Úff! og svo sá ég að ég hafði gleymt jólaklippingunni. Fjárinn!
 
Ég gekk til baka og leit aftur út um þvottahúsgluggann og á svæðið sem ég rakaði og hreinsaði endanlega upp í myrkri kvöldið áður með aðstoð af ljóskastara  og vasaljósi. Þar sá ég viðarskýlin full af við sem ég kem til með að nota það sem eftir lifir vetrar og langt fram á næsta vetur. Jú, það var þess virði að vera óklipptur. Að svo búnu fór ég í sturtu og það réttist heldur úr beyglunum. Síðan dreif að gesti, ég ruglaðíst í ríminu og gleymdi rúgbrauðinu og fleiru sem að vísu var smávægilegt.
 
*          *          *
 
Ég hálf dormaði í lestinni alla leiðna. Ég sendi tvö sms til Íslands en átti efitt með að skrifa þau því að ég var svo syfjaður. Lestin var fimm vagnar á tveimur hæðum og allt virtist yfirfullt. Þvílík fólksmergð fyrir sveitamanninn. Ég sat þar til flestir voru komnir frá borði og þá var bankað hressilega í rúðuna sem næst mér var. Hann nafni minn var mættir til að lóðsa mig heim og biðja pabba og mömmu að halda á annrarri töskunni minni. Brátt vorum við í heimahúsi á ný.
 
Stokkhólmsborg var svipuð sjálfri sér, fólkið einnig, og það var gott fyrir mig að vera kominn innan um mitt fólk. Kvöldið leið að miðnætti á andartaki. Þegar Hannes var háttaður vildi hann fara í feluleik með afa. Það var gerður bindandi samningur, hvor okkar mátti fela sig einu sinni. Hann reyndi að framlengja en skildi strax að samningur var samningur.
 
Eftir að kyrrt varð í húsinu ætlaði ég að skrifa aðeins en Óli Lokbrá stöðvaði það með gæsku sinni og heppinn var ég. Svo svaf ég möglunarlaust í átta tíma. Þá heyrði ég ungan mann segja: hvar er afi? og hver á ekki að vera vaknaður um klukkan átta ef ekki afi. Ég var ekki í sveitinni lengur, ég var í stórbvorg þar sem lífið ólgar í hverjum krók og kima. En ég lét mér ekki nægja það og þess vegna fór ég í partý.
 
Við fórum öll fjögur í þetta partý og gnagan þangað stóð ekki nema eins og eina mínútu. Hannes fór fyrir þar og hringdi dyrabjöllunni. Óskar leiksólafélagi hans opnaði fyrir okkur og dyrnar voru ekki fyrr opnar en lífið var í fullum gangi. Svo kom meira fólk og meiri börn og ennþá meira fólk og ennþá fleiri börn og það vare eins og gestakomunni ætlaði aldrei að linna. Afi úr sveitinni var kominn í annan heim.
 
Þegsr ég, afi í sveitinni, taldi liðinn það langan tíma að það væri ekki dónalegt að fara, þá reis ég úr sæti mínu og bar það fyrst undir Rósu hvort það væri ekki í lagi að ég yfirgæfi leiksvæðið. Jú, það varð niðurstaðan. Þegar ég þakkaði fyrir mig og veifaði til nærstaddra verð ég að segja að ég var vel kvaddur af öllum. En ég er búinn að komast að nokkru þennan eftirmiðdag. Ég væri ekki góður starfsmaður á leikskóla eða uppalandi smábarna. Mér þótti vænt um að vera vel kvaddur af þessu ókunna fólki.

Sólvallaskýrsla

Eiginlega er jólahreingerningunni lokið á Sólvöllum. Hún fór í fyrsta lagi fram úti við og ég get lofað því að það var mikil hreingerning. Því sem ég hef verið að gera úti við er ekkert lokið, en það verður ekki gert meira fyrir jól. Því segi ég að jólahreingerningunni sé "eiginlega" lokið. Allur eldiviður er kominn í skjól utan mjög kræklóttar greinar sem liggja bakvið Bjarg og tveir fjögurra metra langir eikarstofnar sem liggja framan við Bjarg, en þó á snyrtilegum stað.
 
Hins vegar er það ekki merki um hirðusemi að þeir skuli liggja þar ennþá. En, þannig er það bara að skipulagningu á Sólvallasvæðinu er ekki lokið en er hins vegar vel á veg komin. Eftir hálft ár reikna ég með að ég verði ánægður með staðinn. Það verður ekki vinna í hálft ár en því lýkur samt ekki fyrr en komið verður fram í júní eða svo -ímynda ég mér. Ég mun líka sýsla við margt annað á þeim tíma og þá segi ég sýsla. Það er mikill munur á að vera að hamast við að byggja og framkvæma annars vegar og að sýsla hinsvegar. Það verður nauðsynlegt fyrir mig sem ellilífeyrisþega að hafa mínar sýslur. Ef ekki fer ég mikið fyrr að mygla.
 
Þetta er ekki snoturt, eða hvað? Og eiginlega var það verra daginn áður en ég tók myndina, með hálf rifna bláa ábreiðuna yfir viðarstaflanum sem Jónatan tengdasonur og síðar Gústi mágur hlóðu upp 2012 eins og ég hef sagt áður. Þeir unnu verk sitt vel en þessi staður var ekki til frambúðar og eldiviður á aldrei að vera undir yfirbreiðslu, hann á að vera undir þaki.
 
En þetta er allt annað. Steinninn þarna fyrir miðri mynd verður væntanlega umvafinn bláberjalyngi um mitt næsta sumar, ekki slæmt það. Það voru margar hjólbörur og gríðar margir kubbar sem leyndust í haugnum sem er horfinn og kominn undir þak og ég er mikið ánægður.
 
Það eru mikið stærri svona steinar bakvið Bjarg. Valdísi fannst það réttlæta að húsið yrði nefnt Bjarg. Það voru að sjálfsögðu áhrif frá Bjargi í Hrísey sem fékk hana til að vilja þetta nafn. Það var líka nauðsynlegt að láta húsið heita eitthvað. Öðrum kosti hefði það verið kallað nýja húsið eða bílskúrinn. En Bjarg er einfaldlega fínt hús og að kalla það bílskúrinn hefði auðvitað verið mesta hneysa.
 
Nú líður viðnum vel, meðal annars í þessu skýli sem þarna er ennþá bara hálf fullt.
 
Þarna er svo viður frá fimm birkitrjám sem voru fellt í sumar og Pétur annaðist af kostgæfni. Að þær voru felldar að sumri til átt sínar ástæður sem ég sleppi að útskýra. Það eru fjórar stæður þarna inni og það mun gefa yl á Sólvelli í margar, margar vikur. Væntanlega í Stokkhólmi líka þegar þar að kemur. Þennan við þarf svo að taka út úr húsinu að vori og kljúfa. Um leið þarf ég að gera húsinu svolítið til góða og svo á hann að fara inn í það aftur. Aukaverk en svo verður það að vera. Viðurinn er alla vega á góðum stað núna en í morgun var hann úti, fórnarlamb, regns, snjóa og vinda.
 
*          *          *
 
Upp úr hádegi á morgun fer ég svo til Stokkhólms til fundar við Hannes Guðjón og fjölskyldu. Það verður tilbreyting frá sveitalífinu og ég hef alltaf gaman að Stokkhómsferðum og ég þarf ekkert svo merkilegt að gera þar. Ég hef til dæmis gaman af því að fara á kaffihús og leika heldri borgara svolitla stund. Svo hef ég líka gaman af að fara í feluleik með honum nafna mínum, að borða með fjölskyldu hans í nýja borðkróknum þeirra. Og svo að hitta væntanlega svolítið af gestum sem koma til þeirra. Svo fer ég heim á aðfangadag.
 
Á Þorláksmessu sleppi ég svo jólablogginu mínu út á netið. Það er dálítil langt en það verður að hafa það. Ekki hef ég frétt af því hvort eitthvað að ófrímerktu jólabréfunum mínum hafa komist á leiðarenda til þeirra sem ekki hafa internet. Það væri gaman að frétta af því máli. En nú þarf ég að ganga frá farangri mínum og reyna að gleyma engu. Nú hef ég enga aðstoð við að muna en líklega kem ég til með að bjarga mér samt sem áður. Ég tek bara góðan tíma í það.
 

Eitthvað var svo nærri og ég rétti út hendina

Að færa eldivið úr illa vörðum haug og inn í skýli eins og ég hef gert í dag, raða honum upp, strjúka kubbana öðru hvoru þannig að það fari betur um þá, það var hljóðlátt verk. Vestan golan hjalaði kringum mig og skógurinn sendi mér lágraddað suð frá vindinum og rökkrið settist að. Þessar aðstæður sköpuðu kyrrð í huga mér, kyrrð sem þó ólgaði af hljóðlátum myndum, orðum og atburðum sem birtu enn aðrar myndir, önnur orð og aðra atburði. Þannig leið síðdegið frá daufri dagsbirtu inn í skammdegismyrkrið. Tíminn var allt frá því að vera ljúfur og ríkur til þess að vera ljúfsár og tregablandinn.
 
Eitthvað var svo nærri og ég rétti úr hendina en það var ekkert sem tók á móti. Vinnuljósið lýsti fyrir aftan mig og ég sá skuggann af höfði mínu og herðum á viðarstæðunni fyrir framan mig og skugginn af handarhreyfingum mínumm dansaði eftir endunum á birkikubbunum, greni, aski, ösp og á nokkrum seljuendum einnig. Svo voru hjólbörurnar tómar einu sinni enn og ég fór til baka að haugnum til að sækja einar til. Ég var ekki alveg nærstaddur, heldur einhvers staðar í leit að nærveru, var eins og maður sem heldur að hann sé vakandi þó að hann sé sofandi inn í draumalandinu.
 
Einmitt þegar ég var að beygja með hjólbörurnar að haugnum flakkaði ljós við hlið mér. Guðjón! Guðjón! hefurðu séð langahærðan svartan kött? Það var kona úr einu af húsunum hér á svæðinu sem var úti með vasaljós og leitaði að kettinum sínum sem hvarf á laugardaginn var, fyrir þremur sólarhringum.
 
Ég vaknaði til einhverrar tilveru sem augnabliki áður var víðs fjarri. Köttur! Mér fellur ekki við ketti sem fá að éta heima hjá sér og fara svo út til að drepa fuglana mína. Ég á að vísu ekki fuglana en hver getur átt kött frekar en ég fugla. En, nei, ég hafði ekki séð neinn kött nýlega, sem satt var, ekki einu sinni köttinn sem ég hef lengi haft grunaðan um að fæla frá mér fasanan sem virðist vilja setjast að hjá mér á hverju vori. Hugleiðingar mínar trufluðust, það var eins og eitthvað hefði brotnað og það snerist um kött.
 
*
 
Það má segja að vísa sem hann Björn skólabróðir minn í árgangi 1959 birti á feisbókinni og ég sá í morgun hafi verið hluti af því að gefa tóninn í dag. Hann sér bæði söknuðinn og bjarta hugsun í sömu vísu. Það er best þannig.
 
                                                Söknuður mikill nú sækir að mér
                                                magnar það sár í döpru hjarta.
                                                Minning um ást í örmum þér
                                                enga veit ég hugsun jafn bjarta.
 
Við á þessum aldri búum við breyttar aðstæður sum hver, og á vissum stundum hvarflar hugurinn inn á farvegi tregans. Á örðum stundum inn á ljósari brautir minninganna og stundum er hugurinn einfaldlega bundinn við daginn í dag, stundina sem er að líða. Og stundum verð ég ungur í anda, reyndar býsna oft, og flýg á vængjum bjartra framtíðardrauma. Þá er ég ekki sjötíu og eins og hálfs árs, nei, þá hef ég engan aldur og þá hlýt ég að vera ungur. Það er nú lang best að vera þetta allt saman, þá er lífið í réttu formi.
 
Þegar kattarómyndin vakti mig úr hugleiðingum mínum í dag hætti ég við að setja í hjólbörurnar, gekk inn og ætlaði að fá mér kaffi. En í staðinn settist ég við tölvuna og skrifaði fram að vísunni hans Björns. Að því búnu gekk ég út á ný og hélt áfram bauki mínu með viðinn. Mér fannst lífið gott og ég valdi líka að halda mig þeim meginn og ég hlakkaði til að fara sæmilega tímanlega inn og útbúa mér mat. Ég prufaði nokkuð nýtt í matargerð minni í dag og það nýja sem ég prufaði var bragðsterkara en ég átti von á. Samt var maðurinn góður enda var það mín matargerð.
 
Nú er ég búinn að gera það sem ég hef ekki gert lengi, ég er búinn að hita mér kaffi síðla kvölds og nú verður kvöldkaffi og konfektmoli sem ég hef fengið sendan frá Íslandi. Jólakonfekt.

Allt mögulegt

 
Ég hugsa að Valdís hafi ekki handleikið neitt af sínu jólaskrauti af jafn mikilli umhyggju og þessa gylltu muni sem hanga á gardínustönginni. Það gekk ekki annað en setja þá upp þó það ekki snerist jafnvel ekki um neitt annað en að bera virðingu fyrir jólavenjum hennar. Og þegar ég var búinn að því var ég auðvitað ánægður sjálfur.
 
Svo var íslenska jólasveinafjölskyldan, auðvitað að meðtöldum Grýlu, Leppalúða og jólakettinum, pakkað í sama kassa. Það var bara augljóst að þau skyldu upp úr kassanum líka. Ég veit líka að ef tvær stúlkur sem hafa verið nágrannar mínir skyldu líta inn, þá mundi það verða svolítið ævintýri að virða þessi skrýtnu fyrirbæri fyrir sér. Þar á ég við Siw og Ölmu sem voru góðir vinir Valdísar.
 
 
*          *          *
 
 
Ég fór í innkaupaferð í kaupfélagið í gær eins og ég hef þegar sagt frá. Þegar ég gekk framhjá einum rekkanum sá ég gráfíkjur sem voru svo girnilegar og vel stillt upp að ég keypti einn poka þó að það væri ekki á tossamiðanum mínum. Ég fann hvernig munnvatnið streymdi um munninn og þegar ég var búinn að borga stakk ég gráfíkjupokanum í vasa minn en allt annað setti ég í pokana mína. Þegar bíllinn var kominn í gang gat ég ekki beðið lengur. Ég tók upp gráfíkjurnar, sleit gat á pokann og tók eina gráfíkju og stakk henni upp í mig. Hún bókstaflega fyllti munninn. Stærðin á henni fannst mér staðfesta að hún væri ekki vistvænt ræktuð. Svo reyndi ég að vinna á stærð hennar meðan ég var að koma mér út á hraðbrautina.
 
En á myndinni hér fyrir ofan er það granatepli sem ég hef tæmt með sleifarlaginu. Ég borða mikið af granateplum eftir að ég lærði almennilega að tæma þau. En af hverju að blanda saman gráfíkjum og granatepli? Jú, vegna þess að granateplin eru líka orðin svo gríðarlega stór og þau geta ekki heldur verið vistvænt ræktuð. Ég reyni að kaupa vistvænt ræktað eftir því sem mögulegt er. Það er heldur dýrara en eftir að ég byrjaði á þessu finnst mér það vistvæna vera sjálfsagður hlutur ef mögulegt er að finna það. Stundum sleppi ég líka að kaupa ef það er ekki til.
 
Svo er granateplið afar gott í tyrknesku jógúrtinni með svolítilli rjómaslettu til að mýkja eftirréttinn. Að því er ég best veit eru þau mjög holl fyrir menn á miðjum aldri :)
 
 
*          *          *
 
 
Hér er nokkuð sem ég ætlaði alls ekki að sýna en svo er ég þannig að ég get ekki haldið vatni yfir neinu. Viðarhaugurninn sem greina má undir seglinu er fyrst hlaðinn af honum Jónatan tengdasysi mínum og hann byrjaði á að kljúfa þennan við vorið 2012. Það var ekki til nein almennileg geymsla fyrir hann því að Jónatan var búinn að fylla allar aðrar geymslur. Því staflaði hann viðnum á einnota vörubretti. Ég var að byggja og fann mig ekki hafa neinn tíma meðan einhver annar vildi sinna þessu. Síðar um sumarið fór hann Gústi mágur í að kljúfa þann við sem eftir var og hann lauk við hverja spýtuflís sen fannst hér á Sólvölum og hélt áfram að stafla þar sem Jónatan hætti. Haugurinn var jafn hár og þar sem hann er hæstur undir seglinu og náði alveg að trénu.
 
Í dag er engin byggingarvinna svo árðiðandi að ég hafi ástæðu til að láta þennan við vera lengur í óreiðu. Það er ekki gott að geyma við undir segli, það lærði ég fyrir löngu síðan. Ég er feginn að vera kominn þangað að ég geti rólegur farið í svona verkefni. Ég hef ekki getað það frama að þessu þar sem mér hefur fundist annað verða að ganga fyrir. Hreinlega verða að ganga fyrir. Svo er það oft matsatriði hveð verður að ganga fyrir, stundum sálrænt atriði.
 
Það er að bjarga verðmætum að ganga vel frá viðnum sínum. Það er líka mikil tiltekt í því og þegar ég verð búinn að þessu verða Sólvellir fallegri staður sem ber vitni um hirðusemi. Það er dyggð. Það er skylda min að ganga vel um hér, annars er ég slóði og ekki verður staðarins.
 
Valgerður og Jónatan, Árný og Gústi og Rósa og Pétur ásamt Hannesi Guðjóni eru eiginlega eina fólkið trúi ég sem áttar sig almennilega á því hvað ég er að tala um í sambandi við þessa tiltekt mína.
 
 

Sæll og glaður hélt ég svo heim á leið

Ég hef sagt frá því að ég verði ekki örlátur á jólakortin í ár, að ég ætli að nota netið þeim mun meira því að til einhvers er blogg, feisbók og allt þetta. En svo er til fólk sem ekki hefur aðgang að netinu og þess vegna sendi ég átta bréf til fólks á Íslandi. Í þeim er nokkuð sem ég kalla jólabréfið ásamt jólakorti sem er málað af fólki sem er handalaust og málar því ýmist með munni eða fótum. Ég vandaði vel til þessara fáu sendinga, braut saman snyrtilega, reyndi að skrifa nokkuð rétt og í sem beinustum línum. Síðan límdi ég bláa miðann á umslögin og setti þau í plastpoka.
 
Svo hélt ég í kaupfélagið í Marieberg til að kaupa matvörur og auðvitað frímerki á bréfin átta sem öll voru tvöföld að þyngd. Frímerkin keypti ég rétt innan við innganginn í kaupfélagið, setti þau í jakkavasa minn og hélt svo áfram að matvælunum. Að lokum var ég tilbúinn þar og mér fannst mér liggja svolitið á að komast í ákveðinn póstkassa sem er aðeins norðan við miðbæinn í Örebro. Þegar þangað kom tók ég hrein og snotur bréfin upp úr plastpokanum og las á þau einu sinni enn til að vera viss um að ég hefði skrifað Ísland á þau öll. Svo lét ég þau falla niður í póstkassann.
 
Að því búnu hélt ég sæll og glaður heim á leið, ánægður með að vera búinn að koma vel fram við fólk sem var um og yfir nírætt og líka fólk sem hefur engan aðgang að internet. Þegar heim var komið gekk ég skipulega frá því sem ég hafði keypt og snerist kringum eitt og annað sem gera þurfti.
 
En allt í einu! Ég tók aldrei frímerkin upp úr jakkavasa mínum! Bréfin mín átta voru komin saman við þúsundir annarra bréfa sem fara á mikilli ferð landshornanna á milli á leið sinni til viðeigandi póstmiðstöðva og á þeim voru engin frímerki. Úff! þvílík hneisa!
 
Samstundis og sænska póstþjónustan opnaði í morgun var ég í sambandi við mann þar. Hann tók erindi mínu vel og skildi að mér þætti þetta leiðinlegt, alveg sérstaklega ef móttakendur yrðu látnir borga fyrir að taka við bréfum frá mér. Hann sagði að þau gætu komist í gegn þrátt fyrir allt, að móttakandi yrði látinn borga eða að þau lentu í einhverri gríðar stórri geymslu 1200 km norður í landi. Að móttakandi yrði látinn borga var mér næstum ofviða.
 
Þegar íslenska póstþjónustan opnaði hringdi ég þangað og vildi allt gera til að svona bréf yrðu stoppuð til að -sérstaklega aldraðir móttakendur- þyrftu ekki að leysa þau út. Þar svaraði mér kona sem fyrst virtist þykja sem ég væri einum og einfaldur. Svo fórum við bara að spjalla saman og að lokum sagði hún mér að ég væri líklega bara mannlegur og bréfin mundu líklegast komast til skila þrátt fyrir allt. Hún sagði mér líka að það væri ekki til í póstlegu samstarfi milli Íslands og Svíþjóðar að viðtakandi væri látinn borga. Sjúkk! hvað mér leið mikið betur.
 
Nú var mér farið að þykja verulega vænt um konuna á Íslandi. Þegar það kom svo fram að hún sæti norður á Akureyri í vetrarsnjó og fallegu veðri voru nánast komin jól hjá mér. Hún hafði aldrei komið til Hríseyjar en lofaði því að þangað skyldi hún koma að lokum. Að samtali okkar loknu hefði ég helst viljað taka aðeins utan um hana í kveðjuskyni.
 
Svona lítur jólaundirbúningurinn út á Sólvöllum í Krekklingesókn.

Heimurinn er fullur af góðu fólki.

Það er nú orðið meira vesenið á mér. Á þriðjudaginn var ók ég 60 km vegalengd til að fara á jólahlaðborð með miklum, miklum mat. Í gær var ég í matarboði hjá Auði og Þóri. Í dag fór ég á tónleika sem enduðu með jólahlaðborði, líka með miklum mat. Þessir tónleikar voru í kirkjunni sem tilheyrði okkur Valdísi áður og tilheyrir mér svo sem ennþá, enda voru það margir sem tóku vel á móti mér þar.
 
Það er nú meira hvað fólk getur gert marga hluti vel og fallega. Ég gleðst svo sannarlega yfir því hversu margir hafa betri söngrödd en ég og ég dáist að því hversu margir geta gengi fram og leikið á margs konar hljóðfæri. Ég dáðist að söngstjóranum, hvernig hún söng í hljóði fyrir framan börn sem voru með í vissum atriðum. Hún lokkaði þau áfram, eins og dró þau nær sér, og fékk þau til að syngja nokkurn veginn óhikað. Svo hikuðu þau ekki við að klóra sér ef þau klæjaði í stóru tána eða á olnboganum. Þau björguðu sér.
 
Svo er alltaf verið með helgileiki á jólatónleikum og mér finnst þeir svo sem sjaldnast takast svo vel. Samt var það eiginlega sniðugt að sjá eitt atriði sem fékk á sig svolítið óvæntar sveiflur í dag. Offursti Heródesar sem fór fyrir hersveitinni sem átt að taka öll börn af lífi sem voru innan við tveggja ára aldur hafði langt laf niður úr skikkju sinni sem dróst langt á eftir honum. Einn hermanna hans steig í lafið á leiðinni út aftur og þá varð svolítið erfitt fyrir offurstann að ganga. Hann þreif því dálítið kröftuglega í lafið og þeytti því fram með hliðinni á sér og þá steig hann í það sjálfur. Þá gerði hann það einfalt og tók lafið í fang sér og sleppti öllum hégóma. Svo gekk hann greiðlega út.
 
Það var auðvitað ekki samkvæmt reglunum en hvað gerir maður ekki til að forðast að detta á kirkjugólfið innan um 120 manns. Annars á að sleppa svona atriðum á jólatónleikum. Það á ekki að tala um það innnan um börn að taka börn af lífi. Þetta voru því bara makleg málagjöld. Eða hvað?
 
Ég hitti hann Björn hjúkrunarfræðing sem var kórfélagi og vinur Valdísar. Hann var í kaffi hjá landshöfðingjanum í Örebroléni um daginn. Þórir og Auður lentu líka af algerri tilviljun í þessu kaffi. Svo sagðist Björn hafa tekið eftir málfari borðfélaga sinna og þegar að var gáð voru þetta Íslendigarnir Auður og Þórir. Þau og Björn þekktu sama fólk, það er að segja Guðjón og Evu Þórðardóttur. Og öll höfðu þau líka þekkt Valdísi. Heimurinn er lítill sögðu Auður og Þórir í gær þegar ég borðaði hjá þeim og heimurinn er lítill sagði Björn líka yfir jólahlaðborðinu áðan. Öll voru þau líka sammála um að það hefði verið svo gaman að hittast af þessari tilviljun hjá landshöfðingjanum.
 
Björn nefndi við mig að Valdís hefði látið sér annt um fólk. Hefði einhver verið lasinn eða átt bágt á einhvern hátt, þá hefði hún alltaf viljað vita hvernig fólki hefði gengið að ná sér. Hún spurði hvernig fólk hefði það og hún sá fólk og það þótti mörgum vænt um sagði Björn. Góð og hlýleg ummæli það. Mér finnst Björn vera nákvæmlega svona maður líka.
 
Ég virti fyrir mér gömlu kórfélaga Valdísar. Þau hafa svo sem ekki orðið yngri á síðustu árum sem ég hef svo sjaldan séð þau. Náttúrufræðinginn Ingvar langar að koma á Sólvelli. Ég hringi til hans eftir áramót og við sjáum til. Ég fæ gjarnan að gista í foreldrahúsum hans upp í Dölum en í dag eru þessi hús afdrep borgarfólks sem vill hafa athvarf í sveitakyrrð og fallegri náttúru. Eva Norman sagðist enn muna að ég hefði sagt hana öruggan bílstjóra. Ég fór eitt og annað með kórfólkið áður fyrr og hún vildi gjarnan keyra bílinn minn. Valdís sat þá aftur í með kórkonum og ég sat í makindum í farþegastólnum og fann mig öruggan undir stjórn Evu.
 
Magnus og Kerstin voru þarna. Magnús er tæknifræðingur og var í vinnuferðum á Íslandi meðan Heimaeyjargosið stóð yfir. Kerstin var búin að fara í tvær mjaðmaaðgerðir áður en ég fór í mína. Bodil tannlæknir líka, en hennar mjaðmaaðgerðir voru erfiðar þó að hún hafi náð sér að lokum. Nú er hún að fara á kunnar slóðir suður í Afríku til að gera við tennur fátæks fólks eins og hún hefur svo oft gert áður.
 
Svona var nú það. Ég ætlaði ekki að nenna þessu en ég er feginn að hafa farið og merkt að ég á marga góða kunningja. Nokkur heilsuðu upp á mig vegna þess að þau þekktu Valdísi og þekktu mig í sjón. Það er eins og ég hef áður sagt; heimurinn er fullur af góðu fólki.

Engin kyrrstaða á Sólvöllum

Það er engin kyrrstaða á Sólvöllum í dag. Núna milli sex og sjö að kvöldi blæs óvenju mikið -miðað við Sólvallavind alla vega. Það eiga að vera 19 til 20 metrar á sekúndu í hviðunum núna og það er alls ekki daglegt brauð. En svona getur það farið þegar veturnir eru hlýir. Þegar stormarnir voru í suður Svíþjóð um daginn, þá blés ekki svona mikið. En svo er hreyfing á fleiri sviðum. Ekki mundi framkvæmdafólk telja það til tíðinda en ég geri það. Það miðar áfram á Bjargi. Ekki mun ég geta farið í jólabaðið þar en fljótlega eftir að nýtt ár gengur í garð verður gestaherbergið þar boðlegt hvaða forseta sem er.
 
Svona leit út þar stuttu fyrir hádegi áður en ég tók til vegna heimsóknar sem ég átti von á seinni partinn. Ekki beinlínis þrifalegt með verkfæri út um allt og sparslryk liggjandi yfir öllu.
 
Svo komu þessir ungu menn á staðinn, nákvæmlega þeir sem ég átti von á. Röskir, vinalegir ungir menn, 25 og 26 ára. Það voru engar vöflur á þeim, þeir báru inn dúk og áhöld og annar þeirra lagði dúkinn á herbergisgólfið og byrjaði að mæla og skera til meðan hinn ryksugaði það sem ég hafði ryksugað áður en þeir komu. En vel skyldi vanda til verksins og þeir vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera.
 
Emil og Nicklas voru alveg til í eina mynd. Það var líka eins og þeir vissu að þeir fengju eitthvað á Sólvöllum. Ég held næstum að það sé orðinn nokkur hópur manna sem veit það að vinna á Sólvöllum þýðir að fá eitthvað sem er ekki alveg hefðbundið. Þegar dúkurinn var kominn á gólfið en hornin ósoðin komu þeir inn og fengu auðvitað rúgbrauð með smjöri og osti og það þótti þeim gott. Þeir vildu gjarnan koma síðar og vinna eitthvað meira og fá svona veitingar aftur. Svo fengu þeir sér saltkex með osti og persimónusultu. Þeir voru forvitnir varðandi þessa sultu þannig að ég sýndi þeim ávöxtinn og nú vita þeir að þessi ávöxtur er á boðstólum í verslunum. Sjálfur fann ég persimónur fyrst í verslun fyrir svo sem fimm til sex vikum.
 
Þeir spurðu hvort ég hefði bakað brauðið. Ó já. En gerðir þú sultuna? Ó já. Ég hefði líka getað látið þá alveg vera og látið þeim eftir að sötra hálf kalt kaffi úr hitabrúsa út í bíl eða sitjandi á rúmkantinum út á Bjargi. En mér finnst að samfélag okkar mannanna sé mikið betra ef við umgöngumst hvert annað vingjarnlega. Svo gerðum við í dag, ég og þessir strákar. Þeir vita að rúgbrauðið var mitt og sultan líka. Ég veit í staðinn að Emil á tvö börn og býr i Laddugårdsängen, Nicklas á eitt barn og býr í Kumla. Við höfðum allir svolítið gaman að þessum kynnum þó að þeir gætu verið barnabarnabörnin mín. Já, alveg rétt. Þeir spurðu mig líka hvað ég væri gamall.
 
Rúmum tveimur tímum eftir að þeir komu var þetta árangurinn. Ég var inni í bæ þegar þeir voru að bera tæki og tól út í bíl og svo allt í einu stóðu þeir utan við forstofuhurðina og horfðu bara á mig og sögðust vera búnir. Það var ekkert fararsnið á þeim þannig að ég spurðu hvort þeir vildu meira kaffi. Já takk! En þá nennti ég ekki að bera brauðið aftur á borð þannig að þeir fengu sinn hvorn brauðhleifinn með sér heim. Ég er ekkert að gera grín að þessum strákum. Þeir voru mjög duglegir og mjög vandvirkir og vissu greinilega að það yrði tekið vel á móti þeim. Þeir voru skemmtilega áhugasamir um myndir og fólk og tilurð mína í Svíþjóð. Ég tók líka vel á móti þeim og sem endurgjald fyrir það var það bara skemmtilegt og hressandi fyrir mig að fá þá hingað til að vinna þetta verk.
 
*          *          *
 
Svolítið fleira um Sólvelli. Um dimmumótin í gær fór ég út með myndavélina til að taka myndir af jólaljósunum mínum. Þessi jólaljós og skipulag þeirra er frá Valdísi komið. Serían sem er upp í þakskegginu yfir útihurðinni er um það bil 40 ára og átti áður heima í Sólvallagöru 3 í Hrísey.
 
 
 
 
 
Þannig lítur það út. Vindurinn sem ég talaði um í byrjun gnauðar ennþá en er líklega heldur farinn að ganga niður. Í kvöld ætla ég að sýsla svolítið við póst sem ég þarf að koma frá mér. Líklega verður það eitthvað í þá áttina líka á morgun og kannski aðeins vinna úti á Bjargi. Það er allt í góðu með kallinn á Sólvöllum.
 
Ps. Síðast og ekki síst; ég er boðinn í hangikjöt inn í Örebro annað  kvöld.

Jólabaksturinn

Ég bakaði þrettán fernur af rúgbrauði á sunnudaginn var og svo hringdi einhver. Ég gaf einhverja skýrslu um það hvað ég hefði fyrir stafni og sagði að ég hefði verðið búinn að setja þetta í ofn um hálf tíu um morguninn og þar með væri jólabakstri mínum lokið. Bæði gaman og alvara.
 
Meðan ég var að bardúsa í brauðinu datt mér í hug þessi 6 ára stúlka sem heitir Katrín. Ég vissi að henni þætti rúgbrauð gott og þess vegna var ég búinn að gefa fjölskyldu hennar eina tvo brauðhleifa. Svo var ís eftir matinn á sunnudagskvöldi heima hjá henni og þá sagði sú litla að hún vildi frekar rúgbrauð. Svo borðaði hún mikið rúgbrauð frá kallinum á Sólvöllum í staðinn fyrir ís. Og Sólvallakallnum þótti heldur betur gaman að frátta af því að hún kunni að meta brauðið frá honum.
 
Hins vegar fékk ég heimsókn af fyrrverandi vinnufélaga í gær. Ég bauð honum upp á kaffi og auðvitað nýbakað rúgbrauð. Svo horfði ég á hann fá sér fyrsta bitann af brauðinu og svo sagði hann að þetta væri allt  lagi. Hrifning hans var augljóslega minni en Katrínar. Það gladdi mig ekkert en mér var líka alveg sama.
 
Þegar hann Hannes dóttursonur minn hljóp eins hratt og hann gat á móti mér á járnbrautarstöðinni í Stokkhólmi og kataði sér í fang mér, þá gladdi hann mig sannarlega. Þegar hann spurði foreldra sína þegar hann vaknaði morgun einn hvort afi væri kominn, þá gladdi mig líka að heyra það og þá hefði ég auðvitað helst viljað vera kominn. En það var enginn afi kominn.
 
*          *         *
 
Ég var á jólahlaðborði með Vornesstarfsliði fyrr í kvöld. Mikill var maturinn þar og margar sortir. Ég komst einu sinni ekki yfir allar síldar- og fisksortirnar og komst því aldrei að kjötréttunum en ég fékk nóg samt. Það er liðin tíð að ég borði yfir mig en það er auðvelt að gera það á svona kvöldum. Svo var úr gríðarlega mörgu góðgætinu að velja með kaffinu á eftir. Ég fékk mér svo mikið sem ég þorði og þótti gott. Svo fór ég mettur og ánægður heim. Þegar ég nálgaðist Sólvelli var ég farinn að hugsa um að það yrði gott að borða eins og einn ís þegar ég kæmi heim -eða vænan súkkulaðibita. Það er hægt að detta í það á margan hátt en það varð hvorki ís eða súkkulaði þegar heim kom þannig að ég datt ekki í það.
 
Þarna erum við tveir ellilífeyrisþegar sem erum búnir að vinna lengi saman, eða eins og hátt í átján ár. Sá til vinstri heitir Ingimar og er ársmódel 1943 og er gamall friðargæslumaður hjá Sameinuðu þjóðunum og gamall fallhlífahermaður. Í dag er hann svo lofthræddur að hann getur helst ekki stillt af loftnetsgreiðu uppi á húsþaki einbýlishúss. Ég mundi ekki segja frá þessu nema af því að honum finnst þetta sjálfum svo hlægilegt og konunni hans finnst það ennþá hlægilegra. Ég til hægri er ársmódel 1942 eins og gömlu Villis jepparnir ef ég man rétt. Ég hef aldrei hoppað í fallhlíf en ég hef ferðast með svifflugu og loftbelg og tel mig öruggari á þeim miðum. Mig hefur langað í fallhlífarstökkið en aldrei orðið af eða kannski ekki þorað. Ég held að ég sé bestur á jörðu niðri en ég get líka unnið upp á þaki.
 
Ég get ímyndað mér að það hafi verið yfir hundrað manns við jólaborðið, fólk frá ýmsum fyrirtækjum, en ég var einn með bindi. Ég reiknaði líka með því og gerði þetta svolítið af ögrun. Vinnufélögum mínum þótti það býsna broslegt að sjá elsta starfsmann Vorness koma með jólasveinabindi. Ég var líka á tónleikum um daginn og ég giska á að þar hafi verið um eða yfir þúsund manns og ég var einn með bindi. Ég var líka með það nokkuð á hreinu þegar ég setti upp bindið að svo yrði það.
 
Það eru breyttir tímar og kannski ekki ástæða til að streitast á móti. Hins vegar er mér stundum spurn hvers vegna þessir breyttu tímar færi ekki fleira gott með sér en raun ber vitni. Margt hefur orðið betra en virðing fyrir góðum siðum og verðmætamat hafa kannski ekki þróast til jafns við margt annað og að hrifsa til sín virðist oft meira metið en hið fagra í tilverunni. Ég ætla ekki að velta mér upp úr því en ég veit að þróunin fram á við eykur möguleikana á að láta gott af sér leiða. Það verður nú ofan á að lokum. Bindi skipta ekki öllu máli í þessu sambandi.
 
Nú gæti ég alveg þegið ís.

Það dundi eitthvað þarna úti eins og það væri að koma þota

Um klukkan sjö í morgun undirbjó ég fótaferð. Ég lagðist á bakið með hnakkan upp á mjúka kantinum við höfðagaflinn hjá mér og lét hugann reika. Allt í einu dundi eitthvað úti. Það var eins og það væri stór þota að nálgast í aðflugi að Örebroflugvelli. En fljótlega skildi ég hvað var á ferðinni. Það var hann Mikki bóndi á stóru dráttarvélinni sinni með snjóplóginn í fullri vinnslu. Það fóru ónot um mig og ég hugsaði að mikið heldur vildi ég hafa myrkur en snjó sem ég þyrfti að brasa við morgun eftir morgun, jafnvel í vikur.
 
Þegar ég fór svo á fætur vildi ég fyrst ekki líta út og sjá allan snjóinn. Þegar ég var búinn að kveikja upp leit ég út og sá þá að það voru kannski tveir sentimetrar sem hefðu komið frá því í gær. Mikki mokaði ekki í gær þannig að hann tók þessa litlu snjókomu eftir tvo daga í einni ferð. Kannski alls ekki nauðsynlegt en kannski betra fyrir framhaldið ef það snjóar meira.
 
Þetta með kvíðann fyrir snjónum er svolítið mótsagnakennt hjá mér. Ég veit að það er mikil þörf á frosti og áður en það kemur mikið frost er nauðsynlegt að fá snjó. Á Þann hátt heldur náttúran sér í eina sex mánuði á ári í þúsunda ára gömlum farvegi sem er hluti af því að þetta land er svo fallegt sem það er, og þá á ég við hinn frábæra sumartíma. Ég fer að ganga um skóginn í apríl til að fylgjast með brumhnöppum og þar á eftir fara fyrstu laufin að láta bæra á sér. Svo flæðir fram hver tegundin af annarri, beyki, birki, hlynur en þó fyrst af öllu seljan. Síðar eik, álmur og fleira og fleira.
 
Þetta laufflæði heldur svo áfram alveg fram í júní og síðan taka sumarmánuðirnir við þar sem breytingin er ekki svo mikil, allt er bara ein töfrandi dýrð. Eitthvað það fallegsasta sem ég sá svo af þessum töfrandi árstíma tíma í ár voru haustlitirnir upp í Dölum, við Siljan, á eyjunum í Runn, í Falun, Svärdsjö, Svartnäs, ein lokkandi dýrð sem lyftir huganum í hæðir. Svo ligg ég morgun einn latur í rúminu mínu og vona að það komi enginn snjór því að þá þurfi ég að fara að eyða tíma í snjómokstur hér heima. Þá mundi ég kannski fá snjó ofan í skóna mína, eða stígvélin, og ég verða blautur og kannski kaldur á stórutánni. Sveiattan Guðjón. Án vetrarins mundi allt hitt spillast.
 
Ég get ekki annað en endað þetta með nokkrum myndur sem einmitt eru úr Dölunum.
 
Ein lokkandi dýrð sem lyftir huganum í hæðir. Við Runn nærri Falun.
 
 
Og áfram ein lokkandi dýrð sem lyftir huganum í hæðir. Við Siljan
 
 
Og enn við Siljan, séð móti vestri að Noregi
 

Og nú bíður mín vinna út á Bjargi. Í gærkvöld mundi ég allt í einu eftir því að ég þurfti að kaupa loftlista á baðið. Þeir eru komnir í hús. Ég er ennþá minnugur orðanna hans Nisse prests þegar hann kom í fyrradag: "Hann sagði það vera mikinn auð að eiga svona frábæran stað að koma heim til og búa á."
 
Mikið var ég honum þakklátur fyrir að segja þetta og er enn. Stundum þarf ég á staðfestingum að halda, staðfestingum um að ég sé ekki að vaða í villu.

Það líður að jólum

Já, það líður að jólum og ég er búinn að hugsa mikið um það hvernig jólavenjurnar á Sólvöllum eiga að vera í framtíðinni. Valdís hafði sínar sterku jólahefðir. Hún sendi 80 jólakort og hún sendi mikinn fjölda smá gjafa til þeirra sem henni þótti vænst um og voru henni nánastir og þeir voru margir. Valdís var þannig kona. Að annast þetta voru hennar tómstundir frá því snemma vetrar og fram undir miðjan desember.
 
Seinni partinn í vetur og vor hugsaði ég sem svo að það væri ekkert annað fyrir mig að gera en að halda þessu áfram. Nú hefur þessi hugsun þróast í mér og ég er búinn að uppgötva að ég get ekki orðið Valdís þegar hún er dáin. Það verða að mótast nýjar hefðir á Sólvöllum hvað þetta varðar. Mér liggur samt við að segja að ég á erfitt með að segja það en ég ætla ekki að senda neinum jólakort sem ég veit að geta fylgst með mér gegnum tölvuna, hvort sem það eru náskyldir eða fjarskyldir, nánari vinir eða fjarlægari vinir.
 
Minn háttur á að hafa samband við fólk er annar en Valdísar var. Ég nota feisbókina meira en hún gerði og ég blogga líka. Ég sé ekki betur en að jólakortasendingar og gjafir til fullorðins fólks sé hreinlega að bera í bakkafullan lækinn miðað við þá samskiptamöguleika sem eru á boðstólum í dag. Það var það ekki fyrir Valdísi, hennar jólahefðir hvað þetta varðar voru líka góðar en það voru hennar hefðir. Ég mun birta jólablogg í svipuðum dúr og jólabréfið var forðum og kort og útprentun af jólablogginu mun ég senda þeim sem ekki hafa aðgang að netinu.
 
Svo þætti mér vænt um að fólk mætti mér á sama hátt, fólk þarf ekki að senda mér jólakort eða jólagjafir. Á Sólvöllum finnst allt til alls og hér er friður og hér er skjól og hér er gott að vera. Netið og kannski einstka stutt símtal, það hljómar vel í mínum eyrum.
 
Þá eru þau orð sögð.
 
 

Svo fullkomlega óvæntur gestur

Um átta leytið í morgun var ég á hreyfingu hér heima, skrifaði aðeins á tölvuna, kveikti upp í kamínunni, leit á fáeinar fyrirsagnir og lagði mig aftur til að hugsa málin. Svo allt í einu þaut ég upp, fór í nærbol og hringdi í Anders smið til að fá hjálp hans við að ná í ákveðinn blikksmið. Ekki gekk það þannig að ég ætlaði að senda Anders sms til að fá frekari aðstoð. Þá hringdi dyrabjallan.
 
Ég leit niður á nærbuxurnar mínar og hugsaði að ég léti mig hafa það, gekk fram í forstofu og leit út um glugga við hliðina á útihurðinni. Þegar ég sá gestinn opnaði ég þó að á nærbuxunum væri. Við heilsuðumst mjög glaðlega þó að við föðmuðumst ekki beinlínis og ég fann fyrir gleðistreng í brjóstinu yfir þessari mjög svo óvæntu heimsókn. Allar heimsóknir til mín eru góðar en sumar eru óneitanlega dýrmætari en aðrar. Þegar ég talaði um það að mér líkaði vel að vera svona til fara á morgnana þegar ég gæt látið það eftir mér sagði gesturinn hlæjandi að hann gerði nákvæmlega það sama. Hann sagðist líka taka hljóðið af sjónvarpinu þegar hann lítur á textavarpið þannig að við virðumst eiga eitt og annað sameiginlegt.
 
 
 
 
Það var við þennan mann sem Valdís sagði seint á síðasta ári: Nisse, viltu jarða mig? Og hann gerði það.
 
 
Það var Nisse sem hringdi dyrabjöllunni í morgun og ég vogaði opna fyrir honum þó að ég væri á nærbuxunum. Hann vildi vita hvernig mér gengi, hvernig ég stæði mig við nýjar aðstæður, hvernig ég liti út og hvernig það liti út í kringum mig. Svo settist þessi vinalegi maður við matarborðið og ég klæddi mig. Meðan kaffið varð til í kaffivélinni sauð ég hafragrautinn minn með öllu tilheyrandi, rúsínum og apríkósum og svo hrærði ég einni matskeið af hvönn saman við. Ég sleppti bananum í þetta skiptið þar sem hann var í poka niður í kjallara.
 
Þá var líka kaffið tilbúið og ég skar niður rúgbrauð og setti á borðið ásamt smjöri og osti. Smjörið var ærlegt kúasmjör sem ég skar í ögn minni bita svo að það yrði fljótt mýkra. Svo byrjuðum við báðir að borða, Nisse rúgbrauðið og ég hafragrautinn. Báðir notuðum við rjóma, hann í kaffið og ég út í mjólkina á grautinn. Borðhaldið var eins óþvingað borðhald og það getur best orðið og umræðurnar fullkomlega ekta. Ekki hversdagslegar en fullkomlega ekta.
 
Við töluðum um sorg og við töluðum um vináttu. Nisse er vinur. Hann gerir hlutina einfalda og hann er kannski álíka gamaldags og ég. Hann leit út í skóginn þegar ég sagði að mig langaði að eignast skóg út fyrir minn skóg til að geta séð til þess að Sólvallaskógurinn yrði gamall skógur. Gamall skógur eftir hundrað ár með umgjörð sem enginn annar fengi að snerta. Þá brosti hann við og sagðist hafa verið að kaupa skóg til að vernda hann frá því að verða felldur, bara til að þeir fimm hektarar sem hann keypti gæti orðið gamall skógur sem enginn fengi að snerta.
 
Hann sagði mér frá gömlum skógarlundi sem var svo fallega blandaður og óx á mýrlendi. Svo komu menn og felldu skóginn. Nisse spurði þá hvort það hefði verið svo nauðsynlegt að fella þennan skóg og þeir svöruðu því til að hann væri hættur að vaxa. Þeir mátu skóginn sem sagt aðeins til peninga. Það sem við Nisse vorum að tala um voru allt önnur verðmæti. Það voru verðmæti sem eru mikils metin af þeim sem sjá ekki hamingju lífsins einungis í peningum, heldur í þeim verðmætum sem dyggðir, gott hugarfar og tryggar sálir meta að verðleikum.
 
Gamlar bjarkir með skegg upp eftir allri krónunni eða gamalt greni sem hefur safnað mosaþekju á kroppinn sinn, það eru tré sem eru verðmætust í skóginum þar sem þau standa. Það eru tré með sál. Þegar þau eru felld geta þau vissulega orðið að verðmætu byggingarefni eða dagblaðapappír sem hafnar í ruslatunnunni sama dag og blöðin eru gefin út. En þau eru fyrst og fremst felld til að skapa einhverjum peninga sem hugsanlega verða jú hluti af því að byggja upp til dæmis sjúkrahus, en líka til að verða að seðlum sem svo oft brenna upp algerlega til einskis.
 
Mikið er ég glaður að sjá að þú spjarar þig sagði Nisse. Ég hef svo oft hugsað til þín. Já, ég hafði líka oft hugsað til þessa milda manns og velt því fyrir mér að senda honum bréfstúff eða kort þar sem ég mundi þakka honum einu sinni enn fyrir hjálpina í apríl síðastliðnum. En nú var hann hér og við sýndum hvor öðrum hlýhug. Guðjón, sagði hann, það er svo mikivægt að lifa lífinu áfram. Þegar aðrir falla frá verðum við sem eftir lifum að skapa okkur nýjan farveg í lífinu og lifa því á okkar hátt, án þess að falla í eymd og kör. Og þá sagði ég honum að ég væri líklega nægjanlega hræddur við að enda lífið sem hokinn, skrýtinn, skítugur og gamall einsetukall að mér mundi líklega takast að bjarga mér frá því.
 
Og Nisse sagði að það væri mikilvægt að syrgja en ekki endalaust eða velta sér upp úr sorginni. Hún mun alltaf koma til baka augnablik og augnablik en við meigum ekki lifa þar. Hann þakkaði mér líka fyrir að ég bað hann að koma í Vornes þegar vissir sjúklingar þurftu á því að halda að hitta prest. Hann sagði það hafa verið ákveðna reynslu í lífi sínu. Það var vinna sem Nisse leysti af hendi með svo mikilli prýði og ég er ekki viss um að nokkrum öðrum hafi tekist jafn vel að fylla tómarúmið hjá fólki sem þurfti á styrk að halda. Ég man hvað ég var stoltur af honum í þau skipti sem ég fékk hann til að koma í Vornes.
 
Honum fannst rúgbrauðið svo gott með ekta kúasmjöri og osti. Ég gaf honum rúgbrauð sem hann ætlar að taka með sér til Uppsala í kvöld og svo ætlar hann að gefa Ingrid sinni að smakka eitthvað sem hún hefur aldrei smakkað áður. Mér urðu bara á ein mistök undir þessari heimsókn; ég gleymdi að bjóða honum meira kaffi. Samt bað hann þess að lokum að allt illt léti mig í friði þann tíma sem mér verður gefið að lifa hér á jörð. Honum fór vel að gera það.
 
Við litum út á Bjarg, á herbergið þar og baðherbergið sem ég er að vinna við. Svo leit Nisse út um vesturgluggann í átt að Kilsbergen. Síðan sagði hann að ég skyldi ekki hika við að vinna áfram að þessu og ganga frá öllu eins og ég vildi hafa það. Hann sagði það vera mikinn auð að eiga svona frábæran stað að koma heim til og búa á. Hann sagði það reyndar með svo góðum orðum að mér er algerlega ókleift að túlka þau eins og þau voru sögð.
 
Ég ætlaði að fara að vinna út á Bjargi en ég er nú einu sinni ellilífeyrisþegi og mér fannst ég geta látið að eftir mér að skrifa eitt blogg fyrst. Blogg um prestinn Nils-Erik Åberg. Ég vildi skrifa meðan mörg orðanna ennþá voru mér fersk í minni. Það sem ég hef hér eftir Nisse er auðvitað ekki orðrétt en nokkurn veginn það sem hann sagði. Ég ætlaði að laga myndina til og minnka það sem sést á henni utanverðri en svo hætti ég við það. Svona lítur út heima hjá mér í dag.
 
Þegar Nisse að lokum gekk suður lóðina að bílnum sínum var ég mikið hrærður maður. Ég var allt í senn, ríkur, hrærður, glaður og þakklátur. Heimurinn er oft fallegur líka. Þakka þér fyrir að vera sá sem þú ert Nisse.

Að vera vel að því kominn

Ég læt farsímann minn ekki pípa á mig klukkan fimm í fyrramálið og upp úr klukkan átta þegar það verður orðið nokkurn veginn bjart reikna ég með að liggja á bakinu í rúminu mínu með hnakkann á mjúka kantinum sem er við höfðagaflinn. Ég reikna líka með að draga ullarfeldinn alveg upp að höku, hafa handleggina undir ullinni og horfa svo upp í loftið og láta hugann reika um stund. Mér finnst góður dagur þurfa að byrja á þennan rólega hátt en þó gjarnan fyrir klukkan átta. Í fyrramálið vil ég hins vegar verðlauna mig svolítið fyrir smá vinnutörn sem ég er búinn að taka þátt í.
 
"Mér finnst góður dagur þurfa að byrja . . ." sagði ég. Dagurinn í dag byrjaði klukkan fimm. Það var í nokkuð góu lagi núna þar sem ég lagði mig fyrir klukkan hálf tíu í gærkvöldi. Á leiðinni í vinnuna hugsaði ég út í fyrirlesturinn sem ég átti að hafa klukkan tíu til ellefu. Ég nefnilega fann hann ekki í möppunum mínum. Við í starfsliðinu höfðum morgunfundinn okkar klukkan átta samkvæmt venju. Eftir hann fór ég upp á næstu hæð og lánaði samtalsherbergi tveggja ráðgjafa sem ekki voru í vinnu í dag. Annar þessara ráðgjafa er kona, móðir þrettán ára stúlku sem stillti sér framan við járnbrautarlest hér í nágrenninu fyrir níu mánuðum og endað þar líf sitt.
 
Síðan hefur móðirin ekki verið í vinnu og ég hef notað þetta samtalsherbergi mikið þegar ég hef verið að vinna, vinnusímann hennar og lyklakippuna einnig. En sem sagt, ég settist þarna niður í morgun og ætlaði að útbúa fyrirlesturinn þar sem minn gamli var horfinn. Svo byrjaði ég að hugsa málið og skrifa á blað. Eftir nokkrar mínútur heyrði ég lyftu koma upp á hæðina og örstuttu síðar heyrði ég fótatak nálgast fyrir aftan mig. Ég leit við og sá þá að móðirin var þar komin. Hún ætlaði að prufa að vera í Vornesi í dag. Hún settist á stól við endann á skrifborðinu, ég lagði pennann á borðið og svo varð ekki af meiri undirbúningi.
 
Móðirin leit mun betur út núna en þegar við frá Vornesi heimsóttum hana í haust. Við komum þrjú til hennar til að athuga hvort við gætum eitthvað létt henni lífið og varð ekki mikið ágengt. Atburðurinn með þrettán ára stúlkuna hefur verið mikið ræddur í Svíþjóð alla mánuði síðan hann átti sér stað. Öfuguggi á miðjum aldri hafði náð sambandi við hana á fésbókinni og náði að þvinga hana til að sýna af sér myndir á netinu og hún orkaði ekki lengur. Hún stillti sér þess vegna fyrir framan lestina til að flýta ferðinni heim. Móðirin sem sat við endann á skrifborðinu deildi sorg sinni og sumar aðrar sorgir urðu bara litlar.
 
Það var komið að óundirbúna fyrirlestrinum og þá var ég beðinn að taka pólitískan fulltrúa frá austurströndinni með mér þar sem hún ætti að hlusta. Þannig er það stundum að þegar síst skyldi að þá þurfa einmitt svona hlutir að ske. Svo gengum við út í fyrirlestrarsalinn, pólitíski fulltrúinn og ég. Ég byrjaði á að skrifa nafnið mitt á töfluna með íslensku bókstöfunum og svo heilsaði ég. Ég var enn undir áhrifum samtalsins við móðurina, horfði yfir hópinn og hugsaði á þá leið að fyrir framan mig væru 23 alkohólistar og fíkniefnaneytendur sem höfðu margt á samviskunni, svo mikið að þau stóðu ekki undir því lengur og því voru þau komin til Vornes.
 
Ég vissi að flest þeirra sögðu frá því mesta af því versta sem hafði skeð í lífi þeirra og þau gerðu það til að létta byrðarnar. Öfugugginn neitaði öllu og ég reikna frekar með því að honum líði líka afar illa. En hann vill ekki segja sannleikann og heil þjóð getur ekki fyrirgefið honum. Það finnast margir ljótir hlutir í þessum heimi sem annars getur verið svo ótrúlega fallegur. Af hverju tekst okkur ekki betur? Svo hélt ég fyrirlesturinn og hann gekk lýsandi vel. Ég bað líka um það í morgunbæninni minni að mér mætti ganga vel í vinnunni í dag.
 
Síðar í dag hlustaði ég ásamt átta manna grúppu sjúklinga á ágrip úr ævi ungrar konu sem talaði af miklum heiðarleika. Ég hef hlustað á mörg ágrip af þessu tagi en í dag var það með því þyngra sem ég hef heyrt. Síðan reyndum við öll að stappa stálinu í þessa ungu konu og óska henni velfarnaðar. Dagurinn í dag var þungur dagur.
 
En í skammdegismyrkrinu greindi ég ljós þrátt fyrir allt. Ég finn að ég virka ennþá vel í þeirri vinnu sem er eina vinnan sem mér finnst mér hafa tekist vel upp með á æviferli mínum. Og ekki nóg með það; ég finn að ennþá er ég að taka framförum, kallinn á áttræðis aldri. Mér var sagt þegar ég var að leggja af stað heim að það yrði hringt fljótlega til mín aftur til að fá mig í vinnu. Ég mun alls ekki skorast undan því. Geti ég stuðlað eitthvað að því að eins árs dóttirin sem var tekin frá mömmunni nýlega geti fengið mömmu sína heilbrigða til baka, þá vil ég vera með um það. Geti foreldrar tvítuga mannsins fengið hann heilbrigðan heim fyrir jól, þá vil ég vera með um það líka. Þá verður heimurinn fallegri.
 
Ég er búinn að hreinsa úr hálfu granatepli og nú ætla ég að hræra því út í jógúrt og pínu rjóma. Svo ætla ég að haf það svolítið notalegt áður en ég fer að bursta og pissa. Mér finnst að ég sé venju fremur vel að því kominn.

Nú er það bara hörku vinna

Það er nú svo mikið að gera á Sólvöllum að það er ekki einu sinni tími til að blogga og þá er nú mikið sagt. Að vísu er þetta dálítið ýkt hjá mér, en fyrir mig er það heil mikið að láta klukkuna hringja 5 á morgnana og vera svo kominn heim um sex leytið. Það er líka talsvert mikið meira fyrir það að það er svo dimmt í báðum leiðum. Annars veit ég ekki hvers vegna ég er að segja þetta, kannski til að láta bera á mér.
 
Töfrakonan í Vingåker sagði þegar ég var hjá henni í síðustu viku að ég byggi yfir mikilli lífsorku og það var svo sem ekki aldeilis leiðinlegt að heyra það. Og sannleikurinn er sá að dagurinn í dag gekk svona líka stór vel í vinnunni og sama var á föstudaginn var og það er auðvitað gaman. Það skapar lífsorku að finna ennþá að ég virka eins og ég geri.
 
Í fyrramálið á klukkan að hringja 5 eins og í morgun. Svo get ég sofið fram að hádegi á miðvikudag. Að vísu geri ég hreint ekki ráð fyrir að gera það en notalegt er að vita að ég get gert það. Hófleg vinna hvetur til góðrar heilsu og hindrar synd sagði 80 ára læknirinn í Fjugesta í haust. Ég treysti kallinum því að hann leit svo hressilega út sjálfur. Það bjó í honum mikil lífsorka. Eftir morgundaginn hefst á ný mitt bauk hér á Sólvöllum.
 
Svo er ég alveg stein hættur þessum skrifum mínum og fer að bursta og pissa.
RSS 2.0