Það líður að jólum

Já, það líður að jólum og ég er búinn að hugsa mikið um það hvernig jólavenjurnar á Sólvöllum eiga að vera í framtíðinni. Valdís hafði sínar sterku jólahefðir. Hún sendi 80 jólakort og hún sendi mikinn fjölda smá gjafa til þeirra sem henni þótti vænst um og voru henni nánastir og þeir voru margir. Valdís var þannig kona. Að annast þetta voru hennar tómstundir frá því snemma vetrar og fram undir miðjan desember.
 
Seinni partinn í vetur og vor hugsaði ég sem svo að það væri ekkert annað fyrir mig að gera en að halda þessu áfram. Nú hefur þessi hugsun þróast í mér og ég er búinn að uppgötva að ég get ekki orðið Valdís þegar hún er dáin. Það verða að mótast nýjar hefðir á Sólvöllum hvað þetta varðar. Mér liggur samt við að segja að ég á erfitt með að segja það en ég ætla ekki að senda neinum jólakort sem ég veit að geta fylgst með mér gegnum tölvuna, hvort sem það eru náskyldir eða fjarskyldir, nánari vinir eða fjarlægari vinir.
 
Minn háttur á að hafa samband við fólk er annar en Valdísar var. Ég nota feisbókina meira en hún gerði og ég blogga líka. Ég sé ekki betur en að jólakortasendingar og gjafir til fullorðins fólks sé hreinlega að bera í bakkafullan lækinn miðað við þá samskiptamöguleika sem eru á boðstólum í dag. Það var það ekki fyrir Valdísi, hennar jólahefðir hvað þetta varðar voru líka góðar en það voru hennar hefðir. Ég mun birta jólablogg í svipuðum dúr og jólabréfið var forðum og kort og útprentun af jólablogginu mun ég senda þeim sem ekki hafa aðgang að netinu.
 
Svo þætti mér vænt um að fólk mætti mér á sama hátt, fólk þarf ekki að senda mér jólakort eða jólagjafir. Á Sólvöllum finnst allt til alls og hér er friður og hér er skjól og hér er gott að vera. Netið og kannski einstka stutt símtal, það hljómar vel í mínum eyrum.
 
Þá eru þau orð sögð.
 
 


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0