Sólskinsmorgunninn brást en morgunn er það samt

Ég sagði í bloggi í gærkvöldi að ég ætlaði að draga frá austurglugganum og horfa á sólina sigra skýjafarið, horfa á daginn verða til. Ég dró seinna frá austurglugganum en ég hafði reiknað með vegna þess að vindurinn gnauðaði í loftventlinum vestan á húsinu og sólin varð skýjunum ekki yfirsterkari eins og ég hafði vonað. Samt er dagurinn genginn í garð og klukkan nálgast átta að morgni. Mér sýnist að hitinn sé um sjö stig og vindurinn á þessu svæði er samkvæmt veðurstofunni 12 metrar í hviðunum. Gróður mjakast mjög hægt fram á við. Skógarsóleyjunum sem ég tala svo oft um fjölgar hægt og sígandi, en ef ég man rétt á skógarbotninn að vera nánast hvítur af þeim á þessum tíma. -Ef- spáin stenst fær Valgerður kannski að sjá það áður en hún fer héðan á laugardagsmorguninn.
 
Ég horfi á nokkrar bjarkir vagga í vindinum hér utan við. Þær eru naktar eina sex til átta metra upp eftir stofninum vegna þess að konan sem átti húsið á undan okkur var orðin of roskin til að geta annast skóginn. Nú eru margir afkomendur þessara bjarka orðnir tveggja til fjögurra metra háir og ég sé gegnum gluggann þær bjarkir sem eiga að víkja á þessu ári. Meiningin var að því verki væri lokið en því er bara ekki lokið og er því eitt af framtíðarverkefnunum næstu mánaða. Þegar þær víkja fara afkomendurnir að vaxa hraðar.
 
Það eru líka margar aðrar tegundir sem þarna eru að komast á fermingaraldurinn og síðar þegar þau tré fara að skaða hvert annað verður að velja þá einstaklinga sem gera það best og eru best staðsettir og láta hina víkja. Þá verður til vel hirtur skógur. Á næstu fjórum árum verður væntanlega mikil breyting á skóginum og ég vonast til að geta verið með um það. Ég hef samt ekkert loforð um það, en draumur okkar Valdísar var að halda upp á sjötíu og fimm ára afmælin okkar undir fallegum krónum í vel hirta skóginum á Sólvöllum.
 
Nú er Valgerður komin á stjá og þá er ekki annað að gera en að ganga til morgunverðar og komast svo í gang með athafnir dagsins. Það er af nógu að taka.

Enn einn dagur á Sólvöllum

Það er afar hljótt á Sólvöllum á þessari stundu. Klukkan er rúmlega tíu að kvöldi þegar ég sest við tölvuna og byrja á þessu bloggi. Í morgun þurftum við að erinda inn í miðbæ Örebro, það er að segja ég, Valgerður, og Rósa og fjölskylda. Síðan fengum við okkur hressingu á skemmtilega staðsettum veitingastað. Þar höfðum við gott útsýni yfir þann eril sem er í gangi á venjulegum degi í hjarta miðbæjarins. Eftir það fórum við með Rósu og fjölskyldu á járnbrautarstöðina. Þau voru að leggja af stað heim.
 
Þar sem við Valgerður stóðum á brautarpallinum og horfðum á þau ganga frá sér í sæti á efri hæð í vagni vinkaði Hannes okkur mikið og lengi með bros á vör. Nokkru eftir að þau lögðu af stað fengum við sms frá Rósu þar sem hún sagði að Hannes hefði hrópað um leið og hann vinkaði: Ég sakna ykkar! Mikið var það fallega gert af honum. Valgerður var lífleg við hann en ég get ekki sagt það sama um mig, því miður, en samt saknaði hann okkar, ekki bara hennar. Það yljaði svo sannarlega að hann erfði það ekki við mig þó að ég hefði ekki verið tilbúinn að ærslast svo mikið með honum undir dvöl hans hér í tíu daga.
 
Nú erum við sem sagt orðin tvö hér á Sólvöllum, ég og Valgerður. Á laugardaginn kemur fer hún svo heim á leið og þá byrja ég að æfa það líf sem ég kem til með að lifa hér framvegis. Fyrir einhverjum mánuðum spurði Valdís mig hvort ég mundi halda áfram að búa á Sólvöllum ef hún  dæi. Ég sagðist fastlega gera ráð fyrir því að ég héldi áfram þeirri uppbyggingu sem við hefðum byrjað á í sameiningu -ef svo færi, þó að ég reiknaði alls ekki með því að hún væri á förum. Svo horfði ég á hana eins og ég hafði gert svo oft áður og gerði oft síðar og hugsaði að þessi kona væri alls ekki á förum. Nú sit ég hér einn og Valgerður er komin út á Bjarg til að hvíla sig.
 
Á morgun byrja ég að skipuleggja framtíarverkefni mín hér. Ég hef ekki fundið mig almennilega í að gera það undanfarið. Ég veit hvað mitt fyrsta verk verður eftir morgunverðinn á morgun, og ég veit líka að ég mun að því loknu fara inn til Örebro til að erinda. Valgerður ætlar að fara með og hitta vinkonu sem hún hefur eignast hér og vera með henni síðdegis. Ég veit að þegar ég verð kominn í gang með mitt, þá verð ég kominn í gang.
 
Ég þarf líka að kaupa fuglamat sem gleymdist að kaupa í dag. Enn er enginn vorhiti og fuglarnir eru sólgnir í tólgarboltana. Snemma í morgun var ég að velta fyrir mér þessu mjög svo síðbúna vori. Svo minntist ég fréttar sem ég las í gær um stórhríð á Norðurlandi og 30 til 40 metra á sekúndu sem áttu að berja á húsum á Suðurlandi síðastliðna nótt. Við að hugsa um þá frétt fannst mér veðrið hér bara býsna gott.
 
Nú ætla ég að hætta þessu meðan ég veit hvað ég heiti, bursta og pissa og ganga svo til hvílu og biðja bænirnar mínar. Ég þarf að draga gardínurnar frá austurglugganum snemma í fyrramálið í þeirri von að sólinn komist í gegnum skýjaflákana til að skína gegnum skóginn. Slíkir morgnar eru fallegir morgnar og þess virði að sitja og bara horfa á daginn verða til.

Að sleppa deginum inn

Klukkan er hálf átta nú í morgunsárið þegar ég dreg frá austurglugganum til að hleypa nýjum degi inn í svefnherbergið. Lífið tifar áfram á sinn hljóðláta en ófrávíkjanlega hátt. Tvær klukkur tifa nálægt mér, önnur segjandi tikk og hin takk. Aðra klukkuna þarf ég að leggja til hliðar og helst þyrfti ég að setja hljóðdeifi á hina. Þá yrði kyrrðin fullkomin utan suðið í eyrum mér. Sólin berst við skýjafláka í austri. Annað veifið skín hún sterkt inn um gluggann á móti mér en inn á milli hverfur hún og gráminn hylur hana. Vorið berst fyrir tilveru sinni. Um sama leyti í fyrra var ég trúlega á leið út í skóg til að fylgjast með fallegu beykilaufunum fæðast í þúsundatali á ótal greinum, en núna eru brumin bara hálf þrútin og það virðist verða bið á fyrstu fæðingunum.
 
Í Kyrrð dagsins í dag segir að "Fallega endurgjalda smáblóm jarðar auganu sem horfir". Þau eru ekki mörg smáblómin sem hafa sigrast á veðrinu og stungið upp kollnum, en þó eru krókusarnir komnir upp vítt og breitt kringum húsið. Einn bellis sá ég líka í fyrradag. Þegar þessi orði úr bókinni minntu mig á að líta út um gluggann og líta niður á skógarbotninn sá ég ekki betur en skógarsóleyjarnar séu að byrja að stinga upp kollinum líka. Ég heyri að einhver er kominn á stjá í húsinu og því er best að ég komi mér líka af stað og gái að því hvað þessi morgun komi til með að bjóða upp á.
 
*  *  *
 
 
Nú er að líða að miðnætti og dagurinn bauð alla vega upp á það að borða hádegismatinn úti. Þarna vinstra megin við borðið sitja þau Kristinn dóttursonur og hans norska kona, Johanne. Valgerður bendir á léttreyktan lambshrygg sem var á borðum hjá okkur. Léttreyktur lambshryggur er fyrir okkur meira sem jólamatur en nú borðuðum við hann býsna langt frá uppruna sínum undir berum himni. Nokkrum mínútum eftir að við höfðum lokið við matinn dró fyrir sólu og það varð hrollkalt. Þá drógum við okkur inn og kveiktum upp í kamínunni.
 
 
 
Síðdegis eftir að Kristinn og Johanne voru lögð af stað til Noregs komu óvæntir gestir. Þannig á það að vera að fólk geti bara komið út í sveit og fengið sér kaffibolla með heimafólki. Það gerðu þau líka í dag Auður og Þórir. Það gerðum við líka í Hrísey áður en sjónvarpið tók völdin og áður en fimmtudagurinn varð einnig að sjónvarpsdegi. Það var góður siður.
 
 
Svo talaði ég um skógarsóleyjar í morgun. Við vorum að rölta hér í skógarjaðrinum í dag og þá var ekki hægt að komast hjá því að sjá að skógarsóleyjarnar eru farnar að brosa svo fallega móti köldu vorinu. Ég á úlpu, húfur, peysur og vetlinga en skógarsóleyjarnar hafa ekkert af þessu. Samt brosa þær.
 
Klukkan er komin yfir miðnætti og ég er eins og óþægur krakki að sitja ennþá uppi. Óli er sestur að í höfðinu á mér og ég veit varla hvað ég heiti eða er að skrifa. Ég ætla að hlýða kalli hans.

Nokkur augnablik úr ævi hennar Valdísar

 
Haustið 1960 kom hún Suður til að vinna á Hrafnistu og síðar þetta haust hittumst við í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll.
 
 
30. desember 1961 gifti séra Árelíus okkur heima hjá sér. Meiningin var að giftast á gamársdag en Árelíus hafði eitthvað annað fyrir stafni þann dag þannig að sá 30. varð fyrir valinu.
 
 
 Frumburðurinn Valgerður fæddist þann 8. febrúar 1963.
 
 
Með Kristni dóttursyni í Sólvallagötu 3 sumarið 1988
 
 
Í Örebro 1998. Valdís gleðst með dætrum Valgerðar, Erlu og Guðdísi.
 
 
 Í vestmannaeyjum vorið 2011 þegar Erla barnabarn fermdist.
 
 
Kaffistund um miðjan júlí á síðasta ári.
 
 
Að borða hamborgara í Örebro með Hannesi Guðjóni, í blíðviðri einn ágústdag 2012, en í miðri erfiðri krabbameinsmeðferð.
 
 
Að nýlokinni krabbameinsmeðferð við fallegt stöðuvatn norðan við Örebro.
 
 
 Aðfangadagur 2012
 
 
Með Hannesi Guðjóni haustið 2012
 
 
Þann 13. apríl 2013, afmæli Guðjóns. Minna en þremur sólarhringum síðar lauk ferð fjallkonunnar minnar eftir sambúð og hjónaband í fimmtíu og tvö og hálft ár.
 
 
 
Útförin hennar fór fram í dag í kirkjunni þar sem hún hafði svo oft sungið með Kórianderkórnum sínum. Hafi ég átt von á vel heppnaðri útför þá get ég sagt að sá hátíðleiki og fegurð sem var yfir þessari útför var ofar öllum væntingum. Það hreif alla kirkjugesti. Hann Nisse vann verk sitt á framúrskarandi hátt. Mikið var ég honum þakklátur. Kórianderkórinn söng svo fallega, þar á meðal Amazing grace og Gabriellas sång, en hvort tveggja hafði Valdís valið sjálf.
 
Hafðu það gott kórinn frá Fjugesta kom og var viðstaddur útförina. Eftir útförina var erfidrykkja og báðir kórarnir sungu eitthvað sem Valdísi hafði þótt vænt um. Þetta kórafólk var upp undir 30 manns og það var auðvelt að greina að þessu fólki upp til hópa hafði þótt afar vænt um hana. Það fannst mikill söknuður og mörg voru hlýlegu orðin sem féllu um hana í kirkjunni í dag. Það var undir útförinni sem ég endanlega varð þess tilfinningalega fullviss að við Valdís mundum aldrei hittast meira í þessu jarðlífi og að ég aldrei meira gæti spurt hana eins eða neins. Athöfnin í dag var fyrir mig mikil þáttaskil og viss sátt við aðstæðurnar.
 
Kirkjugestirnir voru upp undir sjötíu. Hópur fólks tók að sér að baka og undirbúa erfidrykkju og flestir voru það Íslendingar. Mikið er ég þeim þakklátur fyrir ásamt öllum öðrum þeim sem hafa vikið góðu að okkur á Sólvöllum undanfarna daga.
 
Svo heldur lífið áfram hjá okkur sem lifum þar sem það streymir fram af ómótstæðilegum krafti, meiri krafti en þeim sem býr í öllum fljótum heimsins þó að þau væru sameinuð. Við komumst ekki undan því. Ég heyrði í þriggja og hálfs árs barnabarni mínu leika sér frammi í stofu í morgunsárið. Ég vona að mér beri gæfa til að reynast honum vel sem lífsreyndur afi, honum og mörgum öðrum sem eru mér samferða á þessu stórfljóti heimsins sem tíminn og lífið eru.
 
Ég veit um fólk sem svo gjarnan vill vita hvernig útförin gekk fyrir sig í dag. Þess vegna finnst mér að mér beri skylda til að fara nokkrum orðum um þetta. Vissum kveðjum tókst ekki að koma á framfæri sem ætlað var og ég eiginlega kenni því um að það voru svo margir sem vildu láta aðeins til sína taka við erfidrykkjuna. Dagskráin hreinlega varð of stór og visst tal sem presturinn ætlaði að halda varð ekki af. Þetta segir sína sögu um Valdísi og þá virðingu sem fólk vildi sýna henni.
 
 
Séð yfir stærstan hluta safnaðarheimilisins þar sem erfidrykkjan stóð yfir. Hafðu það gott kórinn er lengst burtu að undirbúa sig að syngja til heiðurs Valdísi.
 
 

Næði til að vera til

Við þurfum næði til að láta okkur dreyma,
næði til að rifja upp og minnast,
næði til að nálgast hið óendanlega.
Næði til að vera til.
 
Svo sagði kona að nafni Gladys Taber sem var uppi frá 1899 til 1980. Ég var að fara yfir alla síðustu vikuna í bókinni Kyrrð dagsins og þetta stóð á síðunni þann 17. apríl. Hver einasta lína í þessu gekk inn í hugarheim minn og það var sem þessi orð væru að láta mig vita að þetta væri akkúrat svona, nákvæmlega eins og mér finnst og hefur fundist lengi, lengi. Hafi ég ekki tíma til að láta mig dreyma finnst mér sem eitthvað óheilsusamt sé í gangi. Ég á auðvelt með að sitja og horfa á skýin færast yfir himinhvolfið, sólina setjast bak við Kilsbergen, eða fylgjast með laufverkinu klæða skógana á vorin og njóta þessa alls. Og margar eru stundirnar sem ekkert meira þarf.
 
Síðustu dagana hefur mig dreymt um líf sem hefur fylgt mér í meira en hálfa öld, lifandi manneskju sem óhagganlega var kvödd á braut. Draumarnir um þessar minningar klæða þær í blómum prýddar engjar, skógi klætt landslag sem virðist ná út í hið óendanlega, snævi þakta jörð þar sem jólaljós blika í augum. Minningadraumarnir lokka fram það besta og fallegasta og raða því haganlega í þann skatt sem er mér verðmætastur þessa stundina. Skattinn sem á að vera mér auður þangað til ég verð líka kvaddur á braut.
 
Í augnablikinu er of margt í gangi til að geta sinnt þessu með öllu hjartanu, en ég svík sjálfan mig og þá manneskju sem fylgdi mér í meira en hálfa öld ef ég gef mér ekki næði til að vera til. Eitthvað á þá leið og með mörgu öðru las ég mig í gegnum vísdómsorð Gladys Taber. Hún gaf út 59 bækur og öll þau orð og allar þær hugsanmir sem fylla svo margar bækur virðast vera í ætt við hið óendanlega sem hún talar um í vísdómsorðunum.
 
Og svo hefur sorgin komið af fullum þunga undan hinni þunnu slæðu sem venjulega hylur hana. Vissar stundir dregur sorgin sig til baka. En eitt orð, ein minning, minning um svipbrigði andlitsins sem áður fylgdi mér dregur fram sorgina á ný, eða minningar um drauma sem ekki urðu að veruleika. Lífið er að móta mig og að lokum mun ég hitta þann sem þessi mótun vinnur við að lokka fram. Ég vona að sú vinna takist vel. Það væri það besta sem hægt væri að gera til minningar um konuna mína.
 
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil svo ég sofi rótt.
                                                                                           Sveinbjörn Egilsson

Pönnukökudagur

Þetta er búinn að vera afar kyrrlátur laugardagsmorgun. Klukkan er átta, sólin er að nálgast hæstu trjátoppana austan við húsið og miðað við það ætti að vera þokkalega hlýtt. En hins vegar er héla á jörð þar sem sólin nær ekki niður. Hvernig sem ég horfi á skóginn get ég ekki merkt að nokkur minnsta trjágrein bærist í morgunkyrrðinni, hvorki á barrtrjám eða á nöktum lauftrjánum. Fyrsta hljóðið sem ég heyrði í morgun var þetta ótrúlega fíngerða og þægilega trommuhljóð spætunnar. Fyrir stuttu heyrði ég svo kyrrlátt kurrið í skógardúfu sem virtist vera nálægt loftventlinum austan á húsinu. Síðan þagnaði hún en spætan heldur áfram öðru hvoru til að láta vita að hún er á næstu grösum. Kannski spætan sé einmana vegna þess að engin spætukona hafi hrifist af hljóðinu.
 
Klukkan er rúmlega átta og þegar ég heyri að fólk fer á stjá í húsinu dríf ég mig í að elda hafragrautinn. Það verða bæði aprikósur og rúsínur í honum í dag. Rósa er trú hafragrautnum mínum og ég má ekki gera hana þreytta á honum með einhæfni. Svo veit ég að það finnst banani í eldhúsinu sem hægt er að brytja útí grautinn. Þá verður afi stór og sterkur. Þetta dugir samt ekki til að hæna Hannes að hafragrautnum. En það koma timar og koma ráð og mér þykir ekki ólíklegt að hann muni komast að því að það sé best að taka þátt í þessu grautaráti með kallinum.
 
Sólin heldur áfram himnaferð sinni og er nú svo hátt á lofti og laus við skóginn að ég verð að lækka gardinuna til að geta séð á tölvuskjáinn. Hrímið á grasinu er byrjað að blotna upp, kóngulóarvefur glitrar milli tveggja lína í snúrunni og hann er álíka kyrr í morgunblíðunni og trjágreinarnar. Nú er mál að byrja að taka þátt í þessum nýja degi.
 
 
*
 
Það hefur verið mikið umleikis á sveitasetrinu í dag og þetta er virkilega lífleg mynd. Matjurtahornið var gert tilbúið til að planta páskasáningunni hennar Rósu og fleiru sem þar á að vera. Hins vegar verður ekki svo miklu plantað í dag vegna þess að veðrið er ekki nógu gott ennþá.
 
 
Þarna eru þær að meðhöndla páskasáninguna og Hannes lítur eftir.
 
 
Meðan hitt fókið vann við matjurtabeðin lá ég á hnjánum og slipaði gólf undir parkett. Síðan fékk ég hjálp tveggja manna við að leggja parkett á gólfið í gestaherberginu.
 
 
Það er misjafnt hvað fólk aðhefst. Meðan Valgerður sýslar með farsímann og tekur mynd af frænda sínum ryksugar Hannes hugsanlegt ryk úr falsinu.!
 
 
Svo hjálpuðumst við strákarnir að við að saga og það lítur út fyrir að afi sé að vanda sig.
 
Valdísi hefði líkað þetta annríki og ef hún hefði verið nálæg hefði hún bakað pönnukökur. En það voru pönnukökur eigi að síður því að Rósa tók til sinna ráða og bakaði þær. Við kláruðum helminginn af gólfinu og ætlum að ljúka því á morgun. Ég tel mig hafa verið all virkan í önnum dagsins enda er ég alveg óttalega þreyttur og slæptur. Ég býst við að aðstoðarmennirnir mínir verði með mér á morgun líka og gólfið i herberginu verði tilbúið um hádegisbilið. Svo hefst nýr þáttur í byggingunni seinni partinn á morgun og þá geng ég frá palli utan við herbergisdyrnar á Bjargi. Það gengur ekki að bera mikið af sandi inn á nýja prkettið.
 
Nú er mál að linni.

Að lægja vind með glaðlegri rödd sinni

Í fyrrinótt byrjaði vindbelgingur að guða á glugga og undir fótaferðina byrjaði að rigna og rigndi dálítið um stund. Síðan hélt vindurinn áfram allan daginn. Í nótt hélt vindbelgingurinn áfram að suða í loftventlinum vestan á herberginu mínu og það virtist vera grá tilvera sem var í félagi við þennan leiðinda gust. Rétt eftir klukkan átta í morgun heyrðist í Hannesi og það var auðheyrt að hann vaknaði vel hvíldur. Röddin boðaði það og vindurinn gaf sig á sömu stundu og gráminn hvarf líka úr loftinu. Ég dró frá austurglugganum til að hleypa deginum inn til mín og þetta með vindinn er alveg dag satt, hann gaf sig um leið og barnsrödd Hannesar barst um húsið. Eftir það skrifaði ég þessi orð.
 
 
Nú er hins vegar komið kvöld. Dagur er liðinn á Sólvöllum með ýmis konar sýsli hér heima og við Pétur fórum inn í Marieberg og keyptum parkett og nokkra moldarpoka. Þær systur fóru síðan með töluvert af rusli í endurvinnslu í Fjugesta. Þetta hvort tveggja var gert til að hægt væri að vera heima og halda áfram að sýsla alla helgina án þess að þurfa að vera að flakka hingað og þangað. Ekkert fólk var á ferðinni í dag en í gær var hins vegar slæðingur af fólki, þessu fína fólki sem alltaf færir gott með sér. Við vitum líka að það kemur gott fólk um helgina og þá er gott að geta verið í rólegheitum heima. Margir hafa rétt út hendina á einn og annan hátt, bæði nágrannar og vinir í Örebro.
 
Rósa var með smávegis grænmetisrækt hér í fyrra og ætlar að auka það í ár. Hún sáði fræjum um páska og Valgerður kom með fræ frá Íslandi. Þær hafa verið að skipuleggja eitthvað um þetta en ég verð til aðstoðar með eitthvað verklegt kannski, en annars er þetta á þeirra snærum. Mig grunar að þær setji í gang á morgun með einhvern undirbúning úti. Ég ímynda mér að við Pétur byrjum að leggja parkett á gólfið á Bjargi á morgun og ljúkum því kannski á sunnudag. Síðan er herbergið þar nothæft fyrir þá sem komu hingað "til að hjálpa" eins og Valdís skipulagði í vetur. Víst vildi ég að það yrði fyrr, en nú er bara að taka því að það varð ekki en ég er nærri því að standa við samninginn.
 
Dagurinn hélt áfram að vera grár eins og ég talaði um í morgun en létti þó heldur þegar leið á kvöldið. Það er kviknað í Kilsbergen sagði Pétur upp úr klukkan átta. Og það var eins og það væri eldur um tíma þar í skóginum á há fjallinu. Síðan lagðist löng rönd af rauðu ljósi yfir fjöllin í vestri, frá norðri til suðurs, undir skýjafaldi og lýsti þannig um stund. Það var held ég fallegasti tími þessa dags. Nú um níu leytið er röndin enn lifandi af ljósi en að öðru leyti er kvöldrökkrið búið að taka völdin. Hannes og mamma hans eru inn í rúmi og hann virðist ekki vera alveg tilbúinn til hvíldar og vill ræða málefni við mömmu sína. Við sjáum til hvort hann lægir vind á morgun líka með glaðlegri barnsrödd sinni. Dagurinn verður að teljast viðunandi.
 
Um helgina er spáð all góðu veðri og ef miðað er við síðustu vikur þá verður það mjög gott.

Sumu verður ekki hægt að gleyma

Það er búið að berast svo mikið af samúðarkveðjum og kveðjum til okkar á Sólvöllum í Krekklingesókn í Svíþjóð að það er ekki hægt að svara hverri kveðju fyrir sig. Þær hafa borist á blogginu mínu, á feisbókinni, símleiðis og sem skilaboð frá fólki. Ég er svo mjög þakklátur fyrir þessar kveðjur og þakka fyrir þær allar hér og nú.
 
Þessar kveðjur hafa ekki bara verið stuðningur í sorginni. Þær hafa líka verið sönnun þess að Valdís var kona sem fólki þótti vænt um og fólk virti og það er það sem mér þykir lang vænst um af öllu í dag.
 
Við hér á Sólvöllum erum dóttirin Valgerður frá Vestmannaeyjum, dóttirin Rósa frá Stokkhólmi, Pétur tengdasonur og barnabarnið Hannes Guðjón. Valgerður var hér þegar Valdís dó. Strax eftir að við höfðum verið upphringd frá sjúkrahúsinu í Örebro og sagt að Valdísi hefði versnað hringdi Valgerður til Rósu og lét hana vita. Hún ætlaði að koma strax. Þegar við komum á sjúkrahúsið og fengum að vita að þessu væri lokið, hringdi Valgerður aftur til hennar og lét hana vita af því. Þá var Rósa að stíga um borð í lestina. Að vita af henni einni þar í tvo tíma var mikið sársaukafullt í öllum þeim sársauka sem þessi morgun bar í skauti sér.
 
Fyrstu þrír dagarnir án Valdísar eru liðnir. Að líta yfir í stólinn til hennar og gá hvernig hún hafi það er ekki fyrir hendi lengur. Að skreppa inn frá útiverkum til að fylgjast með og spjalla svolítð þarf ekki lengur, að hringja til hennar og spyrja hvort allt sé í lagi gerist ekki lengur þörf. Að bíða eftir að hún hringi frá sjúkrahúsinu eða hringja til hennar þangað heyrir sögunni til. Það er mikið sem heyrir sögunni til, nú þegar eftir þessa þrjá fyrstu daga.
 
Ég sé hluti og hugsa að þarna er eitthvað sem ég hefði þurft að spyrja Valdísi um, eða spyrja betur út í myndina sem ég horfi á. Einhver segir eitthvað og ég átta mig á því að þar er eitthvað sem ég hefði þurft að spyrja hana eftir og ég leita að hlut og hefði þurft að vera búinn að spyrja Valdísi hvar hann geti verið að finna. Ég hlusta ekki lengur eftir andardrættinum í rúminu við hlið mér eða velti ekki lengur fyrir mér hvernig hún hafi sofið í nótt, hvort henni líði illa.
 
Í staðinn fyrir þetta vorum við á útfararstofu í dag. Hann Nisse fyrrverandi prestur í kirkjunni sem við sóttum meðan við bjuggum í Örebro var með okkur. Valdís og hann voru vinir. Hann kom hingað á Sólvelli í heimsókn í nóvember og þegar þau sátu móti hvort öðru við matarborðið og drukku kaffi spurði Valdís ákveðið. Nisse, viltu jarða mig ef ég dey úr þessu? Nisse lofaði því og í dag hófst sá undirbúningur fyrir alvöru. Útförin fer fram föstudaginn 26. apríl klukkan tvö. Síðan verður minningarguðsþjónusta í Reykjavík fyrri hluta júní. Eftir það förum við með öskuna til Hríseyjar því að Valdís vill komast heim aftur á þennan hátt. Þetta er allt að óskum Valdísar.
 
Ég hef velt fyrir mér hvað hefði verið hægt að gera öðru vísi, glímt við sjálfsásökun, en samt leituðum við til færasta fólks sem við höfðum aðgang að. Ég hefði viljað vera betri maður gegnum lífið og margt fleira hefur komið upp í hugann. Ég er þó að byrja að sjá meira fyrir mér hið jákvæða i lífi okkar. Hún María krabbameislæknir Valdísar og yfirlæknir á sjúkrahúsinu í Örebro sagði við okkur Rósu og Valgerði fáeinum tímum eftir að Valdís dó að það væri sér heiður að hafa verið læknir hennar. Valdís hefði verið einstök kona, vís og þakklát. Við erum svo sannarlega sammála þessu og það var mikil virðing og reisn yfir síðustu stundum hennar í lífinu. Síðustu símtölum hennar við okkur kvöldið áður en hún dó munum við aldrei gleyma.

Ferðalok

Ég sagði í blogginu mínu í gær að Valdís hefði hringt til mín af sjúkrahúsinu undir kvöldið og sagt mér að hún væri búin að hringja bæði í Rósu og Valgerði. Svo endaði hún sem sagt á því að tala við mig og var þá ánægð með að hafa komið þessu í verk. Það voru ekki svo mörg orð, en það var svo notalegt að heyra hvað hún var þó hress. Hún ætlaði að fara að leggja sig fljótlega. Samt hringdi hún til mín aftur síðar til að segja frá heimsókn sem gladdi hana svo mjög. Svo ætlaði hún örugglega að fara að sofa.
 
Og hún fór að sofa og virtist sofa elilega lengst af, en svo vaknaði hún ekki meir. Ferðalaginu var lokið.
 
Þetta var ekki það sem fólk bjóst við, hvorki við hér heima eða heilsugæslufólkið á sjúkrahúsinu. Þess vegna fórum við heim í gærkvöldi. En þegar heilsugæslufólkið sá að hverju stefndi hringdu þau til okkur klukkan rúmlega sex í morgun. Þegar við Valgerður komum þangað var Valdís öll. Fjallkonan mín hafði lokið ferð sinni og ný ferð á okkur ókunnum slóðum var hafin.
 
Þegar ég var að sofna í gærkvöldi var mér hugsað til síðustu símtala hennar. Nokkuð var það einkennilegt hversu hress hún var og vildi bara segja nokkur orð. Svo sofnaði ég en svaf órólega.
 
Hún hafði lokið skyldu sinni við nánustu fjölskyldu sína sem hún hafði lifað fyrir, þjónað og elskað. Ég held að hún hafi vitað að þetta voru síðustu símtölin hennar. Það er mikið sem ég get þakkað þessari konu og ég hef aldrei séð það jafn vel og í dag.
 
Síðustu daga og vikur hef ég lært ótrúlega mikið af henni og ég á líka eftir að vinna úr mörgu sem ég hef heyrt og séð í fari hennar og athöfnum á þessum tíma. Þegar ég hafði lokið við að einangra húsið Bjarg gekk ég í að setja upp glugga- og dyragerefti utanhúss. Þegar því var fullkomlega lokið gekk ég inn til Valdísar og sagði henni að við þyrftum að ræða saman því að nú væru þáttaskil. Og svo gerðum við. Ég spurði hana hvort við ættum að taka hlé við þessa byggingu og reyna að gera eitthvað annað fyrir okkur.
 
Hún sat hugsi um stund og svo sagði hún að hún yrði mögulega lélegri í vor og sumar. Ef svo fer, sagði hún ennfremur, þá veit ég um fólk sem vill koma og hjálpa. Við verðum að hafa húsnæði fyrir það. Þetta var svo rökrétt hugsað og sett fram að svo yfirveguðu ráði. Það voru mörg þessi tilfelli þar sem yfirvegun og rökhyggja réðu orðum hennar. Síðasta ákvörðun hennar varðandi Bjarg var að velja litinn á veggina í gestaherberginu þar. Veggirnir eru full málaðir en hún gat aldrei komið þangað til að skoða.
 
Mér fannst ég þurfa að ljúka bloggi mínu um Valdísi sem ég hef haldið úti all lengi, setja lokaorðin. Ég vildi ekki gera þetta að sorgarbloggi þar sem ég hefði þá drukknað í tárum mínum, en Valdísar er sárt saknað nú þegar. Hins vegar byggist stærsta sorgin ekki á því að hafa misst, heldur á því að hún fékk ekki að taka þátt í því sumri sem við vorum búin að skipuleggja. Hún átti það svo sannarlega inni að fá að vera með.

Þannig er hún Valdís

Þegar ég ætlaði að vekja Valdísi í morgun til að undirbúa hana til að fara á sjúkrahúsið í röntgen, þá sá ég að ekki var allt með felldu. Ég fékk ekki samband. Þá var ekkert annað að gera en hringja á sjúkrabíl. Smám saman fengum við Valgerður samband við hana og þegar sjúkrabíllinn kom vorum við farin að tala saman. Hún fékk hjálp með súrefni og öndun og innan skamms sagði hún að hún væri svo hress að hún þyrfti ekki að fara með sjúkraliðunum á sjúkrahús. Hún meinti það og ég skildi hana, þetta var hennar tilfinning fyrir ástandinu, en ástandið var háalvarlegt. Eftir samkomulag okkar á milli fór hún þó.
 
Ég hef oft hugsað um það hvernig það verði, ef eða þegar ég þurfi að hringja á sjúkrabíl fyrir Valdísi. Nú er það gert og það var ákaflega sorglegt. Valgerður fór með sjúkrabílnum og ég fór á bílnum okkar þegar ég var búinn að taka svolítið til eftir þær aðgerðir sem hér fóru fram með snörum handtökum sjúkraliðanna á stuttum tíma. Svo tíndi ég saman svolítið sem ég vissi að hún þyrfti á að halda og hélt af stað.
 
Ég notaði orðalagið "það var ákaflega sorglegt" og "ástandið var háalvarlegt". En Valdís hættir ekki að koma mér á óvart, ekki enn eftir 53 ár. Við Valgerður sátum hjá henni á móttökudeild í dag og ræddum ýmislegt og við vorum að ráðleggja henni í sambandi við súrefnisgræjurnar sem hún hefur í nefinu. Þá varð henni að orði: Valgerður, þegar ég flutti fimmtíu og eins árs til Svíþjóðar, þá minnti mamma mig á að muna eftir að nota húfu og trefil.
 
Hún hringdi akkúrat í þessum skrifuðum orðum til að segja mér frá því að hún hefði fengið kærkomna heimsókn á sjúkrahúsið, og þá álpaðist ég til að minnast á sama atriði. Þá sagði hún afar rólega; "já pabbi". Þessum viðbrögðum fylgir bæði jafnaðargeð og fyndið hugarfar. Þegar við Valgerður yfirgáfum hana síðdegis vildi hún fá að vera í friði og hreinlega að geta slappað af. Hún sagði að það væri best að við bara færum heim. En svo fékk hún óvænta heimsókn og henni þótti vænt um það vegna þess að henni þykir svo vænt um fólkið sem kom.
 
Hún hringdi líka fyrr í kvöld og þá var hún líka búin að hringja í Valgerði og Rósu. Að lokum sagði hún, eiginlega hin hressasta, að nú væri hún búin að hringja til þeirra sem hún hefði þurft að hringja til og nú gæti hún farið að sofa. Mér finnst að þó að ég hafi sagt að ástandið hafi verið háalvarlegt og sorglegt, þá hélt hún áfram að lifa lífinu. Þannig er hún Valdís.

Að ná markmiðinu

Valgerður kom út í dag þegar ég var eitthvað að bagsa hér utan við. Hún teygði út hendurnar og sagði að það væri eitthvað nýtt í loftinu. Og þannig var það.
 
Það var ekki það sem er hér á myndinni sem hún fann fyrir, myndin heyrir vetrinum til og hreinlega fær ekki að koma aftur fyrr en á vetri komanda. Víst var nokkuð hlýrra í dag en það var alskýjað og grámollulegt veður þannig að vor var ekki svo ofarlega í huganum. Hlýindi og sól, það er eitthvað sem tilheyrir vori og sumri. Mikið hlakka ég til slíkra daga.
 
Þegar ég horfi á þessa vetrarmynd finnst mér sem það sé ekki viðeigandi að birta hana núna. En sannleikurinn er sá að það er ekki svo mikið að taka myndir af einmitt núna. Grámollulegt sagði ég og jörð er blaut, svo blaut að það nálgast að maður blotni í fæturna við að fara út á snúru. Að ganga út á Bjarg er ekkert næstum. Að ganga þangað kostar blauta fætur nema verið sé í stígvélum. Ég hins vegar hef ekki nennt því, því að mér leiðst að skipta stógvél-skó, skó-stígvél til að geta farið fram og til baka til að vinna þar. Já, ég hef ekki fundið fyrir þörf fyrir myndatöku þessa dagana, ekki nema þá innanhúss.
 
"Sá er mestur auður að lifa glaður við lítil efni, því aldrei er skortur þar sem hugurinn hefur nóg." Þessi vísdómsorð voru í Kyrrð dagsins í gær og ég hef horft mikið á þau bæði í gær og í dag. Ég mundi svo gjarnan vilja vera dyggur þessum vísdómsorðum en ég veit ekki hvort ég get sagt að svo sé. Ég á nú eftir að kíkja á þau og láta þau virkja huga minn nokkrum sinnum áður en ég hverf til einhverra annarra vísdómsorða. Sá sem sagði þetta er sagður vera Lúkretíus sem var uppi á síðsutu öld fyrir Krist. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fundið um hann á hann að hafa verið mjög vel menntaður. Það er svo gaman að lesa um það að einhver hafi verið vel menntaður sem lifði fyrir meira en 2000 árum miðað við alla þekkingu sem finnst að læra í dag. En slíkt fólk hefur margt sagt eitthvað eða fundið eitthvað út sem er í fullu gildi enn í dag.
 
Þreytan hefur verið gestur Sólvalla í dag. Á morgun förum við öll á sjúkrahúsið í Örebro þar sem Valdís á að fara í sneiðmyndatöku. Svo er bara að sleppa ekki voninni og gleyma ekki bæninni. Mótlætið gerir okkur mildari gagnvart lífinu -og þó. Við höfum val. Það er líka hægt að falla í hendur biturðarinnar og reiðinnar, en þá brennur hjartað upp og eftir verður vansæll líkami án innihalds. Manneskja sem hefur misst af markmiði lífsins -því að verða þroskaðri og betri eftir því sem árin líða.
 
Guð, gefðu mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.

Góð var rjómatertan og gott var allt hitt

Ég er orðinn afar syfjaður og ef eitthvað vit væri í mér ætti ég að fara að sofa. En sannleikurinn er sá að ég hef bloggað eftir marga daga sem hafa haft minna umleikis en dagurinn í dag. Valgerður dóttir okkar kom á brautarstöðina í Hallsberg rétt fyrir hádegi og þegar ég kom auga á hana þarna á brautarpallinum fannst mér fyrst sem Valgerður á Kálfafelli, amma hennar, væri þarna komin á sínum yngri árum. Það var dálítið sterkt að sjá þetta og það þeytti huganum ein sextíu ár aftur í tímann þar til við mættumst og heilsuðumst.
 
Ég þurfti í kaupfélagið í Hallsberg og kaupa ein fjögur atriði sem ég hafði á tossamiða. Mót ásetningi mínum urðu atriðin líklega þrisvar sinnum fleiri en það sem ég hafði skrifað upp þannig að ég gaf fljótlega skít í miðann. Svo var Valgerður með mér og ég fann að hún keypti af allt annarri þekkingu og hugsun en ég. Gróft sagt vil ég geta gengið að hlutunum á allöngu færi, þrifið upp og sett í innkaupakörfuna. Valgerður kannaði hins vegar hlutina og valdi gaumgæfilega úr úrvalinu. Ég á ýmislegt eftir ólært.
 
 
Ég keypti rjómatertu en þegar ég ætlaði að kaupa smurbrauðstertu líka sagði Valgerður að hún mundi útbúa smurbrauð sjálf og þess vegna fór hún eina aukaferð um búðina og keypti það sem til þurfti. Svo varð það og þegar við komum heim að Sólvöllum byrjaði hún á veislubrauði strax eftir að hún var búin að fá einn súpudisk. Gamli, í þessu tilfelli ég, átti nefnilega sjötíu og eins árs afmæli í dag. Við áttum von á tveimur gestum og áður en þeir komu náði ég þessari mynd af þeim mæðgum. Mynd sem tekin var af okkur öllum við boðrið var ekki nothæf.
 
 
Ég náði líka mynd af veisluborðinu áður en fólk settist og örugglega hefur margur haldið upp á sjötíu og eins árs afmæli á lakari kjörumm en því sem við sjáum þarna á matarborðinu.
 
 
Svo varð ég afbrýðissamur og vildi fá mynd af mér líka. Þess vegna fór ég í fataskápinn og sótti mér bindi og svo tók Valgerður við myndavélinni. Ég reyndi að vera myndarlegur en sé núna að bindið var kannski ekki alveg nógu vel valið. En þegar ég horfi á myndina finnst mér bara sem við gömlu tökum okkur vel út. Kertið á kertastjakanum þarna í glugganum vinstra megin segir að ég hafi ekki verið allt of smekklegur í mínum tiltektum undanfarið.
 
Nú fara vorveður að bjóða okkur velkomin út því að þrátt fyrir allt, þá mun einnig vora í ár. Þá verður Valdís að notfæra sér það og fara að vinna að eigin sigrum í bataferlinu. Þó að einhverjir dagar hafi verið verri en dagurinn á undan, þá hefur samt sem áður bataferlið verið jákvætt. Línan í línuritinu hefir klifrað upp á við en hún hefur gert það með rykkjum og bakslagi á milli. Í heild hefur línan stigið upp á við.
 
Ég held að ég hafi aldrei áður bloggað svo syfjaður og ég er núna. Það verður fróðlegt að lesa þetta blogg yfir á morgun og reka augun  ambögurnar.  Og að lokum, góð var rjómatertan og gott var allt hitt. Þakka þér fyrir hjálpina Valgerður mín.

Ég vil svo gjarnan læra

Eftir dálítið rysjótta nótt þurftum við að hafa hraðan á því að við ætluðum að vera all snemma á heilsugæslunni í Fjugesta til að láta taka blóðpróf. Ellilífeyrisþegarnir sem vilja unna sér morgunverðartíma að eigin vild, stuttan eða langan, oftast langan og alveg sérstaklega í morgun, þurftu nú að brjóta flestar morgunverðarvenjur og svo bara að fara af stað. Ekki gaf þetta góða raun og það var liðið langt fram á eftirmiðdaginn þegar dagurinn var orðinn nokkuð ásættanlegur. Ég keypti lottómiða handa Valdisi og hún skóf fram 30 krónur. Þá mundi hún allt í einu eftir því að það var til miði með vinningi. Já, alveg rétt, þarna í glugganum yfir matarborðinu og þar voru 90 krónur. Svo reyndi ég að segja eitthvað sniðugt um þetta sem við munum alls ekki lengur hvað var, og þá brosti Valdís og það var alveg örugglega í fyrsta skipti á síðustu tveimur dögum. Síðan varð dagurinn viðunanlegur.
 
Málarinn kom tvisvar sinnum á Bjarg í dag og málaði veggina tvær umferðir en loftinu lauk hann í gær. Þar með var verkinu lokið. Ég gaf honum upp perónunúmer og fasteignanúmer til að hann gæti sent reikning. Þegar við hittumst fyrst á mánudaginn var sagði hann að þetta mundi taka hámark 30 tíma. Meðan ég var að skrifa upplýsingarnar fyrir hann reiknaði hann út tímana og þá hafði hann lokið verkinu á 17,5 tímum. Hann gerði að vísu heldur minna en við töluðum um í upphafi en víst varð ég glaður. Hann er duglegur þessi náungi og verkið er mjög vel unnið.
 
Það er búin að vera slydda í dag en ekkert festi þó á jörð. Hins vegar varð jörðin blaut og tærnar fundu smám saman fyrir því að skórnir eru orðnir slitnir í tána af því að skríða á steingólfi við smíðar. Þar smaug bleytan fyrst inn og síðan færðist hún eftir fætinum alla leið aftur á hæl. Það var bót í máli að fólk gat ekki opnað munninn í sjónvarpi án þess að tala um að það séu hlýindi á leiðinni sem byrji á morgun og svo verði ennþá hlýrra hinn daginn. Það er ekkert annað en að trúa þessu og hlakka til. Kannski getum við fengið okkur kaffi úti við og gott með því þegar líður á morgundaginn. Það væri gott að geta boðið Valgerði velkomna að Sólvöllum á þann hátt á morgun, en hún kemur um hádegisbilið.
 
Dónalegar ferðir mínar út í skóg hafa verið margar síðustu fjóra dagana. Ég er nefnilega farinn að pissa á beykitrén. Ég hefði þurft að vera byrjaður á þessu fyrir löngu en hugurinn hefur bara ekki dugað til þess. Sumum blöskrar svona tal en þegar ég segi að það hafi verið viðfeldin og falleg kona á garðyrkjustöð sem ráðlagði mér að gera þetta, að vísu í háfum hljóðum, þá blöskrar fólki ekki lengur. Þetta er nefnilega óbrigðul áburðaraðferð. "Hvernig þú getur látið" sagði hún Mimmi vinnufélagi minn í hitteðfyrra þegar ég sagði frá þessu á morgunfundi starfsfólks. Þá var líka að byrja nýr yfirmaður og kannski roðnaði Mimmi fyrir mína hönd þess vegna. En þegar ég sagði frá því að kona hefði ráðlagt mér aðferðina, þá hætti Mimmi að roðna málið skapaði umræðu sem ég tók ekki frekari þátt í, en hafði hins vegar mjög gaman af.
 
Já, seinni hluti þessa dags hefur verið góður. Valdís hefur hvílt sig eftir órólegan morgun og smávegir sýslaði hún líka eftir hvíldina. Síðan horfði hún á danskeppni í sjónvarpi. Ég hef næstum lokið við að smíða tvo sólbekki og palla utan við báðar dyrnar á Bjargi. Það var við pallasmíðina sem ég blotnaði í fæturna. Ekki má bera skítinn inn í nýmálað fína herbergið þannig að pallanna var þörf. Ég fékk góðar fréttir hjá málaranum sem fyrr er getið og reyndar horfði ég líka á hluta af danskeppninni með Valdísi. Með þumalfingurinn í miðjum lófanum er sagt um lélega smiði en ég get sagt að ég hafi staur í báðum fótum þegar það kemur að dansi. En ekki kom það í veg fyrir að ég næði sjötugs aldri og bráðum rúmlega það.
 
Í fyrramálið koma strákar sem ætla að hjálpa mér að fella nokkur tré, en þau verða að falla á mjög ákveðna staði til að skemma ekki annan trjágróður. Því vil ég ekki gera þetta einn og þá læt ég þeim bara eftir að gera þetta án minna afskipta. Þeir fá við í eldinn í staðinn. Ég hlakka til góðviðrisdagsins 13. apríl og um leið og ég sæki Valgerði til Hallsberg ætla ég að koma við í kaupfélaginu og kaupa eitthvað þokkalegt frá bakaríinu, annað hvort dýsæta rjómatertu eða brauðtertu. Sá á kvölina sem á völina.
 
Í fornindverskum söguljóðum má lesa eftirfarandi: "Hávær orð falla með glymjanda í tómið. Réttu orðin, jafnvel lágvær, geta lýst heiminum."
 
Það vil ég svo gjarnan læra.

Angalangur

Valdís fékk heimsókn hingað á Sólvelli í dag. Það kom hjúkrunarfræðingur frá lungnadeild sjúkrahússins í Örebro til að kanna aðstæður og til að sjá hvernig Valdísi reiddi af. Hann gaf henni góða einkunn og sagði að útlit hennar væri mikið betra en það var meðan hún var á sjúkrahúsinu. Hann útskýrði eitt og annað eins og til dæmis að það væri ekki lífshættulegt að verða móður þó að það væri ekki endilega notalegt, að það gæti tekið líkamann hálft til eitt ár að eyða blóðtappa úr lungum og margt fleira, flest uppörvandi, hafði hann að segja. Þegar ég sagði að við mundum nú ekki dansa meira sagði hann að ég skyldi fara rólega í að fullyrða það. Svo þótti honum nýbakað rúgbrauð afbragðs gott.
 
Hann er skemmtilegur þessi kall, Tony. Kannski er hann um sextugt. Valdís var búin að segja mér frá honum á sjúkrahúsinu áður en ég sá hann og sagði að hann væri líkur sjóara. Svo kom að því að ég fékk að hitta hann og þegar hann gekk inn á stofuna til Valdísar fannst mér sem Stebbi grenó gengi inn á stofuna. Stebbi grenó var útgerðarmaður á Dalvík og mikið ef hann var ekki ættaður frá Grenivík. Tony hjúkrunarfræðingur kann að umgangast fólk sem á í erfiðleikum og hefur margt gott að segja.
 
*
 
Nú að allt öðru efni
 
Sá sem getur sagt mér hvað þetta er getur fengið nýbakað rúgbrauð ef hann eða hún kemur að Sólvöllum. Litla rúgbrauðsgerðin á Sólvöllum hefur stækkað við sig og tekur nú ekki minna en tvær uppskriftir í einu. Það er jafn mikið að þvo eftir tvær og eina og það er sami hitinn á bakarofninum hvort heldur það eru ein eða tvær uppskriftir sem eru í ofninum yfir nóttina.
 
 
Þessi litla snjótutla þarna er það síðasta af snjónum framan við aðalinnganginn hjá okkur. Valdís fylgdist með snjónum þarna á hverjum degi og gaf mér oft skýrslu. Nú hverfur snjórinn framan við stéttina í dag sagði hún í gærmorgun og það gekk eftir. Hins vegar er snjór ennþá bakvið húsið og meira að segja á því þaki sem gefur mesta forsælu. Svo er víða grjótharður snjór inn í skógi. En hvaða fréttir eru þetta svo sem þegar snjódýptin norðan við Sólvallagötuna í Hrísey var 2,5 til 3 metrar um páska og svo skilst mér að það hafi snjóað eftir það. En hvað um það, við erum alveg sátt við að hafa ekki djúpa skafla hér, það er að segja; við höfum aldrei skafla.
 
 
Þetta er maðurinn sem sagði við mig um daginn að ég liti "ósvífið" frískelga út. Að hann kíkti inn fyrr í vikunni varð til þess að hann fór að mála út á Bjargi. Svo þegar hann var byrjaður varð ég alveg ringlaður og vissi fyrst ekkert hvað ég ætti eiginlega að gera. Öll min vinnuplön hreinlega hrundu. Það leystist svo af sjálfu sér og ég varð ekki verkefnalaus, mikið langt í frá. Svo verð ég að viðurkenna að hann gerir þetta af mikið meiri fagmennsku en mér hefði nokkru sinni tekist. Og fljótur er hann. Ég fann fyrir miklum létti þegar ég þurfti ekki að gera þetta.
 
 
Angalangur datt mér í hug þegar ég sá þessa mynd áðan. Hún minnti mig líka á málara einn í Hrísey sem líka var ótrúlega duglegur við að ná upp í loft þó að hann stæði á sléttu gólfinu.
 
Nú er ég farinn að geyspa löngum geyspum og þá er ekki að vænta mikils andríkis við skriftir. Það er mál að ég leggi mig og ég þarf að vakna nokkuð snemma í fyrramálið þar sem við Valdís þurfum að skreppa til Fjugesta. Ég hlakka til hlýnandi daga og tíðra ferða út í skóg til að fylgjast með brumum sem nú fara að verða þrýstnari með degi hverjum. Að lokum springa úr og mynda þetta óumræðilega haf af grænsku sem ætlar að hreinsa andrúmsloftið og framleiða súrefni á degi hverjum langt fram áhaust.

Að elska hana Jannicke

Konan mín var óróleg í nótt varð ég var við. Eftir svo góðan dag sem hún hafði í gær varð ég svolítið svekktur vegna þess að ég átti mér þann draum í gær að nú yrði hún hressari tvo daga í röð. Það yrðu þáttaskilin sem við bæði biðum eftir. En svo varð nóttin svona.
 
Svo kom morgun og morgunverður og ég fylgdist með og vonaðist eftir breytingu sem ég varð ekki var við. Valdís ætlaði til fótsnyrtis inn í Örebro strax eftir hádegið og þegar hún byrjaði að skipuleggja eitthvað varðandi þá ferð, þá áttaði ég mig. Það er nefnilega svo að þessi fótsnyrtistofa er við all fjölfarna götu og það er ekki hægt að komast alveg að innganginum á bíl og það er ekki heldur hægt að stoppa lengi framan við húsið. Það verður að ganga yfir 50 metra, heldur upp í móti, og fyrir þá sem eru með súrefnisvél hangandi á öxlinni getur sú vegalengd verið skelfilega löng. Enginn gengur með súrefnisvél á öxlinni nema eitthvað talsvert sé að og súrefnisvélin getur ekki bjargað hverju sem er.
 
Þetta var í  fyrsta skiptið sem Valdís yfir höfuð fór út af heimilinu eftir tveggja vikna sjúkrahúslegu og í fyrsta skipti sem hún fór með þessi tæki hangandi á öxlinni. Hún kom heim með þau á öxlinni en nú var hún að fara. Mér fannst ljóst að óróleiki næturinnar byggðist á þessu. Ég lái henni ekki. Ferðin á stofuna gekk að óskum. Ég lagði bílnum í hasti eftir að Valdís yfirgaf hann og flýtti mér svo á stofuna til að kanna stöðuna. Þar sat hún dálítið föl en virtist í nokkuð góðu ástandi. Ég fór til að gera inn kaup og fleira og þegar ég var rétt búinn með það hringdi Valdís og sagðist líka vera tilbúin. Allt passaði saman. Ég sit á bekk hérna úti og sé þegar þú kemur sagði hún og var hin rólegasta að heyra. Jahá, nú þótti mér týra.
 
Þegar Valdís var kominn inn í bílinn og ég búinn að keyra fyrir fyrsta hornið varð henni að orði að hún væri mikið fljótari að kasta mæðinni núna en bara fyrir fáeinum dögum. Já, var það ekki, hún betri annan daginn í röð, loksins. Ég veit ekki hvort hún er alveg sammála því sem ég segi hér. Hún á enn sem komið er svolítið erfitt með að treysta því að kominn sé skriður á batann.
 
Kona heitir Gunvor og vann með mér í Vornesi í ein 13 ár. Hún sendi mér skilaboð í gær um að systir hennar væri að fara til Íslands og spurði mig hvað hún þyrfti að vera vel birg af fötum. Í svari mínu til hennar sagði ég henni frá veikindum Valdísar. Hún sendi mér línur í dag þar sem hún sagði að fimmtugur sonur sinn hefði greinst með krabbamein fyrir einu og hálfu ári og það væri ekki hægt að lækna það en það væri hægt að halda því niðri með lyfjum.
 
Hann hefði fengið blóðtappa í bæði lungu eftir meðferðina og fleira var svo líkt með sjúkrasögu Valdísar að ég varð hissa. Nú á föstudaginn var byrjaði þessi maður að vinna aftur eftir eins og hálfs árs veikindi. Öll lýsing hennar á veikindum sonar síns var svo lík því sem verið hefur hjá Valdísi að ég varð hissa. Jahérna, það er sko ekki öll von úti. Ég ætla að spyrja Gunvor nánar út í þetta.
 
*

Tvo síðastliðna vetur var mjög kalt, mikið kaldara en veturinn sem nú er að líða, en kuldinn stóð alls ekki eins lengi og núna. Annan hvorn þennan vetur beið ég dögum saman eftir veðurspánni og vonaði svo innilega að núna færi að koma hlýindaspá. Svo kom þessi hlýindaspá bara allt í einu eins og þruma úr heiðskýru lofti. Það var hún Jannicke veðurfræðingur sem var með veðrið í sjónvarpi það kvöld og ég man svo vel að þegar hún hafði lokið spánni sagði ég að ég elskaði þessa konu fyrir þessa fallegu spá.
 
Núna hefur verið gert ráð fyrir hlýnandi veðri í nokkra daga en engin virkileg hlýindaspá komið fyrr en nú í kvöld. Og hver var ekki með veðurspána í sjónvarpinu í kvöld? Auðvitað hún Jannicke. Aftur þótti mér vænt um hana því hún spáir 15 til 20 stiga hita í næstu viku. Valgerður kemur hingað á laugardaginn þannig að landið kemur til með að taka vel á móti henni.

Með óafmánlega mynd í hugskotinu

Ég sagði frá því í gær að við ætluðum að horfa á myndina Sigla himinfley. Þetta er engin mynd sem getur safnað að sér gullbikurum eða öðrum verðlaunum á heimsvísu. En það er kannski þess vegna sem hún hafði svo ósköp góð áhrif á okkur í gærkvöldi og skilaði okkur á friðsælan hátt til hvíldar í bólunum okkar. Það má mikið vera ef ekki Óli vinur svefnsins var undir áhrifum af myndinni líka, svo friðsæll sem hann var þegar hann fékk okkur til að sofa svo vel og lengi.
 
Ég hafði gaman af því þegar Einar skipstjóri sótti Gamla mátulega fullan út í eyjuna og þeir ræddu um áfengi og sungu Vestmannaeyjasöngva á leiðinni í land. Gamli sagði að svo margar flöskur væru fullar af sorg og maður vissi aldrei hvaða flöskur það væru. En svo sagði hann að allar hans flöskur hefðu verið fullar af söng og gleði og um leið og hann sagði það var allt hans andlit fullt af allri þeirri sorg sem ein manneskja getur borið.
 
Og hvers vegna í ósköpunum gat ég haft gaman að því? Jú, ég hef svo ótal sinnum notað einmitt þetta atriði í fyrirlestrum á meðferðarheimilinu. Og alkhólistarnir sem samstundis þekkja sjálfa sig í þessu með sorgina verða fyrir sterkum áhrifum og skilja það að alkohólistinn gerir bæði meðvitað og ómeðvitað allt sem hann getur til að þurfa ekki að koma í snertingu við þessa sorg, sorgina sem er fólgin í því að hafa mistekist að lifa lífinu sem þeim var gefið. Það eina sem að lokum getur hjálpað þeim er að upplifa ennþá meiri sorg og hörð svipuhögg afleiðinganna. Síðan getur nýtt líf byrjað. Sorg gamla var að vísu mest tengd skipsflaki í fjörunni sunnar á heimaey þar sem sjómennirnir synir hans höfðu farist, en að allar hans flöskur hefðu verið gleðinnar flöskur var erfitt að sjá. Sigla himinfley gaf mér sem sagt inlegg í ákveðna fyrirlestra.
 
*
 
Þegar við lögðum okkur í gærkvöldi fékk Valdís hóstakast og það var eins og það væri þarfur hósti. Svo tók svefninn við. Í morgun fékk hún kröftugt hóstakast sem stóð stutt yfir. Stuttu síðar sagði hún að það hefði losnað um eitthvað úr brjóstinu. Síðan var hún ný manneskja. Meðferðin hlaut loksins að vera að verka. Valdís er ennþá við mun betri heilsu en til dæmis í gær. Samt er ekki hægt að tala um neina ágætis heilsu. Alls ekki. Hún er búin að fá tvær heimsóknir í dag, all langar heimsóknir, og það er kannski nánast full mikið fyrir hana. En ef það verður líka framför á morgun, ja -þá verð ég langt frá allri lífsins sorg.
 
Þegar það var ljóst í morgun að dagurinn í dag yrði betri dagur fór ég að sækja blaðið. Ég sá að fuglarnir höfðu verið duglegir við að éta matinn sem við hengdum upp í trjágreinar í gær. Gaman. Valdís batt matarboltana í grænt garn en ég hengdi þá upp. Svo dáðist ég að veðrinu, leit á móti sólinni í suðaustri, næstum þreifaði á logninu og svo leit ég í suðvestur. Vindmyllurnar þrjár sem sjást héðan í suðvestri í all nokkurra kílómetra fjarlægð stóðu kyrrar, eða svo kyrrar að það þurfti að horfa lengi á þær til að sjá örhæga hreyfingu. Þá er logn.
 
Þegar horft er á átt að þessum vindmyllum ber eina skógi vaxna hæð yfir aðra í all nokkurri fjarlægð og það er útsýni sem er ómótstæðilegt. Ég minntist margra svona sjónarhorna upp í Dölum. Þar sást þó mikið lengri vegalengdir, allt upp í 60 kíómetra, og þar tók við ein hæðin af annarri og einn ásinn af öðrum, allt skógi vaxið. Sem sagt allt grænt af lífi og víða vötn inn á milli. Sveitabæir og akurlönd hið næsta en sjást svo ekki þegar fjarlægðin eykst. Þar er hægt að finna sérstaka útsýnisstaði til að geta notið þessa og ég fékk næstum ómótstæðilega löngun til að fara þarna upp eftir og geta eytt degi í að heimsækja þessa staði sem ég veit um. Nakin fjöll og fyrnindi geta verið afar falleg en lægri fjöll, ásar, hæðir og hólar þar sem hár skógur þekur allt frá láglendinu á milli og upp yfir alla fjallatoppa, það gerir mig ástfanginn af landinu.
 
Ég fann að betra ástand heima jók á þessa löngun og mín stutta morgunganga eftir blaðinu var fyllt af notalegu lífi. Fyrsta eiginlega vorveðrinu á þessu vori er spáð á afmælisdaginn minn. Það verður notalegur dagur hugsaði ég og ég minntist líka orða málarans sem kom inn á Bjarg í gær. Hann spurði hvað ég væri gamall og ég svaraði. Þá horfði hann undrandi á mig og sagði: Þú lítur "ósvífið" frísklega út. Það væri betur að því væri jafnar skipt á milli okkar Valdísar. En kannski förum við samt sem áður í ferð upp í Dali í sumar til að sjá yfir Siljan frá stað sem við þekkjum bæði til, eða á einhvern af útsýnisstöðunum sem á góðviðrisdegi skilja eftir óafmánlega mynd í hugskotinu.

Að lyfta huganum

Það er bloggfrí kvöd. Laxness sagði í einhverjum samtalsþætti fyrir löngu þegar honum fannst að umræðan væri komin út í einhverja vitleysu, að nú væri kannski kominn tími til að lyfta henni á hærra plan. En það sem við ætlum að gera hér í kvöld er að lyfta huganum á hærra plan, við erum í þörf fyrir það. Til að koma því í kring ætlum við að horfa á Sigla himinfley, ekkert lakara en það.
 
Svo aðeins um veðrið áður en bloggfríið byrjar: Það er afar fallegt veður en núna sígur hitamælirinn móti frostmarki og svo verður eitthvað frost í nótt. Fyrsta frostlausa sólarhringnum sem er spáð er þann 13. apríl, enginn minni sólarhringur en svo. Ég á það skilið að það verði frostlaust þann dag. Fljótlega upp úr því er svo spáð þokkalegum hita. Við bíðum eftir svoleiðis veðri hér á bæ til að geta farið út og setið notalega í góðum stól eða við borð með kökubita og kaffi eða jafnvel bara ís. Það kemur líka til með að lyfta huganum á hærra plan.
 
Brosið okkar er ekki alveg út undir eyru í dag. Þess vagna er ég að tala um þetta með að lyfta huganum. Það er dagamunur á þessum bæ og þegar hugurinn liggur lágt er eins og hann muni alltaf liggja lágt. Þar er mikilvægt að grípa inn í og gera sitt besta til að ná brosinu svolítið út á kinn. Að tala um út undir eyru er kannski að taka nokkuð vel í. Við höfum mikið með þetta að gera sjálf og nú er brostið á bloggfrí. Gangi ykkur allt í haginn.
 
 

Það var þungt en svo lýsti af degi

Það var þungt þegar Valdís vaknaði í morgun. Mér leist ekkert á. Hún sat lengi á rúmstokknum áður en hún reisti sig upp og ég sá vel að það voru átök fyrir hana að fara fram á bað. Ég setti morgunverðinn hennar á borðið og annað það sem hún þurfti á að halda, og þegar hún kom af baðinu settist hún við matarborðið og svo bara sat hún þar og var móð. Svo hóstaði hún og hóstaði aftur. Það var eins og það væri að leiða til einhvers og að lokum losnaði eitthvað. Ég sá útundan mér að hún varð allt önnur og eftir litla stund sagði hún að það hefði losnað einhver köggull og allt hefði breytst. Hvílíkur léttir. Hún var farin að tala um kvef og það leist mér ekkert á í því ástandi sem nú er.
 
Ég spurði hana hvað hún vildi á eftir morgunkorninu. Ef það væri til rúgbrauð, svaraði hún, og ef það væri til hangikjöt ofan á það. Það var til bæði rúgbrauð og hangikjötsbiti og hún fékk ósk sína uppfyllta. Svo byrjaði sjónvarpsmessan sem var frá kirkju lengst sunnan úr Smálöndum. Notaleg messa og falleg þó að ég muni ósköp lítið af henni. Það er heldur ekki málið að muna messuna, heldur áhrifin af henni meðan á henni stendur. Valdís var alls ekki sama manneskja og hún var fyrst í morgun, hún var svo mikið líflegri.
 
Síðan fór ég út á Bjarg að brasa við að innrétta hús, en þar vara ég líka búinn að vera snemma í morgun. Svo rann bíll í hlað. Sko til, oft fólk á Sólvöllum. Mikið gaman. Reyndar var það ekki alveg óvænt og rúgbrauðið var þegar niðursneitt á diski. Auður og Þórir voru komin.
 
 
Aufúsugestir sem fluttu til Örebro frá Akureyri á tíma þar sem það er sérstaklega mikilvægt fyrir okkur Valdísi að næra lífskraftinn, auðvitað sérstaklega Valdísi. Þórir heimsækir okkur ekki sem læknirinn okkar en það er eitthvað við þessi hjón sem gerir það að verkum að heimsóknir þeirra eru sérstaklega kærkomnar og þau skilja eftir sig glaðari Sólvelli.
 
 
Auður sýndi Valdísi myndir sem hún hafði á snertiskjánum og Valdís sótti í sig Ásmegin. Hún yngdist eftir því sem leið á daginn. Ég vona að hún hósti upp einhverju sem hún þarf að losna við á morgun líka. Þá er meðferðin við blóðtöppunum að skila árangri með nauðsynlegu hreinsunarstarfi. Stór þáttur í framförunum er fólk sem styrkir með nærveru sinni. Við þökkum ykkur fyrir himsóknina Auður og Þórir. Það líður ekki á löngu þar til það verðum við sem förum og heimsækjum fólk.
 
*
 
Þessir túlípanar sem hún Annelie gaf Valdísi í fyrradag voru ekki merkilegir ásyndum þegar hún kom með þá. En þeir eru aldeilis orðnir fallegir og sérkennilegir núna. Þessa mynd tók ég í morgun þegar Valdís var vel komin í gang. Ég man ekki eftir að hafa séð túlípana með kögur fyrr en núna.
 
*
 
Hvernig er það, segir fólk á Íslandi snertiskjár eð kannski bara iPad?
 
Svo annað mikilvægt. Ég hef ekki drukkið kaffi í 21 dag og mér líkar það vel. Víst skýtur hugsuninni upp öðru hvoru að nú sé kominn tími fyrir kaffi en það flýgur hratt framhjá eins og fugl sem flýgur fyrir glugga. Mér líður vel í mínu kaffileysi og te fer batnandi með degi hverjum. Aðallega grænt te. Kroppurinn nýtur þess að hafa losnað við kaffið.

Bloggfrí eða ekki

Ég ætlaði eiginlega að taka bloggfrí í kvöld en komst svo að þeirri niðurstöðu að ef ég þegði alveg mundi það vekja grunsemdir um alvarlegt ástand á Sólvöllum. Dagurinn minn í dag var miðlungsdagur samkvæmt því sem ég lýsti í blogginu mínu í gærkvöldi. Ég verð bara að sætta mig við það að það sem ég hafði ákveðið fyrir helgi að yrði tilbúið í kvöld verður ekki tilbúið fyrr en annað kvöld. Það er afskaplega einfalt og svo ekkert meira með það.
 
Dagur Valdísar í dag hefur verið dagur þreytunnar. Ég veit ekki hvaða skilning ég á að leggja í það en reyni þó að komast að bestu mögulegu niðurstöðu; að hún hafi þurft á því að halda. Smiður einn í héraðinu heimsótti okkur í morgun og um hádegisbilið fór ég í matvörubúð í Fjugesta. Að öðru leyti var ég úti á Bjargi að innrétta og átti tíðar ferðir inn í bæ til Valdísar. Það er allt í lagi sagði hún, ég er bara þreytt en mér líður vel. Ég reyndi að gera það besta úr því svari en var þó með hugann við þetta allan daginn. Nú leggur hún kapal í snertiskjánum. Hún var á leiðinni á stefnumót við Óla vin sinn en hafði viðkomu hjá kaplinum í leiðinni.
 
Ég stakk upp á því við hana að við færum inn í Marieberg á morgun og fengjum okkur tebolla og góða köku eða brauðsneið og sýndum okkur í leiðinni og sæjum aðra. Hún gaf ekkert svar að svo stöddu og vildi setja málið í nefnd. Við höfum æði oft gert þetta í vetur og það er alltaf eins og það sé svoítil tillbreyting í því. Við Sólvallafólk erum í þörf fyrir það um þessar mundir. Þó að hér hafi verið fólk á ferðinni alla daga síðan Valdís kom af sjúkrahúsinu er líka gott að fara aðeins út og viðra sig. Að hafa hvort tveggja er líklega best.
 
Kapallinn gekk upp hjá Valdísi og hún er komin til Óla vinar síns. Það er afar hljótt núna hér heima utan að tækið sem sér valdisi fyrir súrefni malar lágt frammi í forstofu og segir án afláts: þjúbb-faaa, þjúbb-faaa, þjúbb-faaa. Á borðinu við hlið mér er bókin Kyrrð dagsins og í dag stendur skrifað: "Eftirlætistónverk mitt er það sem við heyrum alltaf þegar við erum þögul." Sá sem sagði þetta hét John Cage og var tónskáld. Athyglisverð orð sögð af tónskáldi. Það er mikið talað um þögn og einveru í þessari bók. En þó að við skulum ekki öllum stundum vera í einveru og algerri kyrrð, þá eru þeir í sátt við sjálfan sig og lífið sem geta gert það. Samhljóm kallaði Laxness það í Heimsljósi.

Sitt af hverju

Stundum gengur allt svo reip rennandi vel þegar eitthvað á að gera eins og ég geri flesta daga. Ég er sjaldan iðjulaus. Hamarinn er þá alltaf á réttum stað, tommustokkurinn og býanturinn fara alltaf beint í vasann, allt mælist rétt og allt tekst að saga nákvæmlega eins og til stendur og fleira í þessum dúr mætti telja. Og kannski það besta; allt er rétt hugsað út, árangurinn er frábær og það er óskaplega gaman. Þar af leiðir að allar hreyfingar eru léttar og lífskrafturinn ótrúlegur. Þannig gengur það oft.
 
Svo kemur fyrir að ekkert af þessu stenst. Hamarinn er alltaf týndur, tommustokkurinn og blýanturinn verða alltaf eftir þar sem síðast er mælt, efnið sem er tekið á lengd verður millimeter of langt eða sentimeter of stutt, það er erfitt að hugsa rétt, árangurinn er lélegur og það er ekkert gaman. Hreyfingarnar eru þunglammalegar og þreytan þjáir líkamann. Þetta var minn dagur í dag.
 
Svo eru dagar þar sem allt er einhvers staðar þarna mitt á milli og er vel ásættanlegt og þá daga er líka inn á milli býsna gaman.
 
Ég velti fyrir mér í dag hvað það væri sem ég gerði rangt og ylli þessu en komst ekki að neinni niðurstöðu. Stundum nálgaðist ég sjálsfvorkun og stundum var ég leiður. Stundum fann ég að reiðin vildi brjótast út og einu sinni langaði mig að skella hurð sem alltaf var við það að lokast eins og ég ætlaðist til, en á síðustu stundu hætti hún við, opnaðist, og sá örlitli vindur sem var á köflum í dag tók tak á hurðinni og skellti henni upp að vegg. Aumingja ég, sjötugur maðurinn. Þetta með reiðina; á Sólvöllum má ekki framkvæma neitt í reiði eða fúlmennsku. Það sæmir ekki góðum stað þar sem fólki á að líða vel.
 
Síðdegis var sem ég sæi fyrir mér mynd af konu sem var bæði blind og heyrnarlaus, ég legg áherslu á blind og heyrnarlaus, og hún sagi eftirfarandi: "Horfðu á móti ljósinu, þá sérðu ekki skuggann." Þrátt fyrir fötlun sína var hún rithöfundur og hún hét Helen Keller. Hún varð 88 ára gömul. Svo hélt ég að ég ætti bágt.

Ég taldi mig byrja daginn mjög vel í morgun. Þegar ég var að koma mér á stjá las ég texta dagsins í bókinni Kyrrð dagsins sem stendur á borði í svefnherberginu. Textinn er eftirfarandi: "Ég er að átta mig á því að það haldbesta í lífinu er það sem er einfalt og gott." Höfundur orðanna er Laura Ingalls Wilder sem var uppi frá 1867 til 1957. Mér fannst eitthvað kunnuglegt við nafnið og ég sló því upp á Google. Þar gat ég lesið um það að þessi kona varð fyrir ótrúlegu mótlæti í lífinu meðan hún var í foreldrahúsum. Síðan fluttist hún að heiman, giftist og um skeið hélt þrálátt mótlætið áfram að fylgja henni.
 
Eftir flutninga hingað og þangað eignaðist hún "húsið á sléttunni" og þar bjó hún í meira en 60 ár. Og þegar ég las þetta áttaði ég mig á að það var hún sem skrifaði Húsið á sléttunni sem varð sjónvapsþáttur árum saman. Ég skrifaði út grein um þessa konu og var heillaður af þeirri þrautsegju sem hún sýndi í því mótlæti sem féll henni í skaut. Það kom kona í heimsókn til Valdísar í dag og við sýndum henni þennan texta. Hún varð svo hugfangin af þessari sögu að hún fékk textann með sér heim.
 
Nú féll ég eiginlega út úr efninu, en eftir að hafa lesið um þessa konu fannst mér sem orð dagsins væru meira virði en ella. Ég kallaði þetta að byrja daginn vel.
 
Af Valdísi er það að segja að hún var líka fremur lág í dag. Ég held að henni hafi ekki liðið illa, en hún hefur verið þreytt og sofið eða hálf sofið töluvert mikið. Þegar ég ætlaði að fara að steikja ýsuna í kvöld stóð hún þétt við hlið mér. Ég leyfi mér þó að segja að ég steikti ýsuna, en undir öruggri leiðsögn hennar. All langan tíma eftir kvöldmatinn var hún án súrefnis og það virtist ganga vel. Að lokinni góðri hvíld í nótt í félagi við Öla lokbrá ætla ég mér að gera morgundaginn að betri degi en mér tókst með daginn í dag.

Sannar fjallkonur

Þegar leið á morguninn stigu hitamælarnir og um hádegi var bara orðið hlýtt. Jaðrarnir á snjóbreiðunum bráðnuðu hratt og á milli þeirra varð rennandi blautt, næstum stígvélafæri. Ég hélt mig inni á Bjargi, málaði fyrst og síðan smíðaði ég festingar fyrir gluggaáfellur. Bjarg á nefnilega að verða tilbúið til ábúðar mjög fljótlega. Út um gluggana sá ég blíðviðrið en þegar ég fór mínar ferðir inn í bæ til Valdísar fann ég að gönguskórnir mínir voru alls engin stígvél. Ég varð blautur um tærnar. Það hefði svo sem ekkert verið skemmtilegt að vinna úti.
 
Með hækkandi sól og brúklegum hita óx konunni minni ásmegin og ég gat ekki betur séð en það væru heilmiklar breytingar til batnaðar á fleiri sviðum. Það er að segja að hún varð minna móð, var örari í hreyfingum, varð meira lífleg í tali, tók sér eitthvað fyrir hendur eins og að fara í gegnum blöð sem höfðu safnast upp og ýmist lagði til hliðar eða henti. Ég heyrði líka á svefnhljóðum næturinnar að eitthvað var í gangi. Ég vaknaði, hlustaði, heyrði lítið- og var fljótur að sofna aftur. Það er góðs viti.
 
Svo leið að kvöldi, sól lækkaði á lofti og það kólnaði. En konan mín lét það ekki á sig fá og tilkynnti mér að nú færi hún í sturtu. Hún sagði það á þann hátt að mér fannst það vera hluti af bataferli. Ég sneri mér að matargerð og gerði það einfalt. Meðan kartöflurnar suðu gáði ég að íslensku krónunni og sá að hún hafði styrkst verulega móti þeirri sænsku í dag, einn daginn enn. Ég gladdist alveg sérstaklega yfir því þar sem ég hafði flutt peninga fyrir meira en viku síðan. Það hefur sennilega verið ólánsfé þar sem að eftir það fór íslenska krónan að styrkjast verulega. Ekkert smá, heldur verulega.
 
Það var skemmtilegur þáttur um vorið í sjónvarpi áðan. Ég horfði á hluta af honum og þar var mikið af myndum af fuglum og blómum og mikið talað um vorteikn. Eitt af vorteiknunum sem talað var um er blómið tussilagó sem er hóffífill. Og svo var orðið tussilagó notað svo ótrúlega oft gegnum allan þáttinn. Okkur fannst þetta spaugilegt blómanafn á árdögum okkar í Svíþjóð. Það var líka vor í Svartnesi þegar nokkrir Íslendingar ætluðu að grilla saman og einhver sagði; hvernig ætli maður segi grillkol á sænsku. Dimmrödduð sænsk kona sem vann í eldhúsinu heyrði þetta og skildi og sagði "grillkol". Svo einfalt var það. Grillkol er bæði sænska og íslenska.
 
Klukkan er rúmlega tíu og rétt áðan fór ég út og steig út í snjó stutt frá dyrunum. Það var komið frost við jörð. Það virðist ekkert vera að marka hitamælana okkar. Þeir sýna annað hvort allt of lítið eða mikið og ég held að mælirinn í bílnum sé sá eini sem eitthvað er að marka. Ég nenni hins vegar ekki alltaf að fara út í bíl til að athuga hitastigið. En þó að hitinn sé farinn niður fyrir frostmarkið heldur konan mín áfram að vera í bata. Eftir að hafa farið í sturtu sagði hún nokkuð sem hún hefur ekki sagt lengi. Hún sagði nefnilega; "mikið var þetta notalegt". Bara að heyra það var mikið notalegt fyrir mig. Svona eru sannar fjallkonur ættaðar frá Hrísey.

Tvö ein í bænum

 
Þessa mynd tók Rósa við heimkomu Valdísar í gær. Þegar ég sá myndina velti ég því aðeins fyrir mér á hvað hún væri að horfa. Hún horfði ekki á myndavélina og ekki á Rósu, en mig grunar stórlega að hún hafi horft á Hannes. Ég hreinlega ákveð það hér og nú og ef það ekki stenst, þá lætur hún mig örugglega vita þegar hún hefur lesið þetta. Mér sýnist ég líka sjá nokkuð á svipnum; að Hannes er henni mikils virði. Hann var búinn að heimsækja ömmu sína tvisvar sinnum á sjúkrahúsið og hann kunni ekki almennilega við að hitta hana þar. Hann skildi greinilega að það var ekki allt eins og það átti að vera. Annað sem mér finnst ég líka sjá í svipnum er þetta; hvernig finnst honum að sjá ömmu sína núna?
 
 
Eitthvað hafa Hannes og mamma hans verið búin að ræða saman meðan ég sótti Valdísi því að hann var búinn að teikna mynd og fá mömmu sína til að aðstoða sig við að skrifa; "velkomin heim".
 
Valdís er búin að vera þreytt í dag. Ég hefði gjarnan viljað að hún væri hressari, en mig grunar líka að sjúkrahúsvistin, þó að hún geti skapað öryggi, hafi verið erfið á þann hátt að fólk er vakið svo snemma og svo er á stórum pörtum dagsins óttalegur ófriður. Auðvitað er sá ófriður hluti af því að það er verið að hjálpa, en það hlýtur líka að valda þreytu. Einhver sagði að það væri full vinna að vera á sjúkrahúsi.
 
Í gær horfði Valdís á sófa í stofunni hér heima og sagði að hún vildi helst laga til í sófanum. Þá eiginlega ofbauð mér skylduræknin. Ég annaðist kvöldmatinn nú í kvöld. Það var kominn tími til eftir allar þær máltíðir sem Valdís er búin að bera á borð fyrir aðra að það sé nú borið á borð fyrir hana. Áðan bað hún mig að hjálpa sér með súrefnisslöngurnar, en sagði einnig að það væri erfitt að vera alltaf að biðja aðra að hjálpa sér. Það er sama sagan með það og með matinn, það er heldur betur kominn tími til.
 
Hannes og mamma hans fóru heim seinni partinn í dag. Pétur fór skömmu fyrir hádegi í gær. Við erum þakklát fyrir þá heimsókn. Rétt áður en við lögðum af stað héðan í dag á lestarstöðina horfði ég á Hannes og fannst ég ekki hafa verið honum nógu góður afi þessa daga sem þau voru hér. Svo nokkru eftir að lestin lagði af stað fékk ég sms frá Rósu með mynd af Hannesi þegar hann var að vinka mér. Ég hafði þá alla vega verið svo góður afi að hann lagði áherslu á að vinka mér. Ég bara sá það ekki vegna sólarsljóssins sem glampaði á lestarrúðunni, en ég hafði samt sem áður vinkað. Ég gerði það í von um  að hann sæi mig sem kom svo í ljós að hann hafði gert.
 
Það er orðið nokkuð áliðið og mál að hvílast. Við komm til með að leggja okkur í þeirri vissu að svefninn sé einhver besti læknirinn. Góða nótt.
 
Ps. Valdís er búin að lesa þetta yfir og gerir engin mótmæli.

Velkomin heim Valdís

 
Valdís kom til baka heim á Sólvelli um fjögur leytið í dag. Ég get rétt ímyndað mér að það hafi verið umskipti að koma heim frá þeirri verndun sem það er að hafa hjúkrunarfólk og sérfræðina innan seilingar og inn í venjulegt íbðúðarhús í Krekklingesókn. Hún settist í gamla stólinn sinn og tók að skoða póstinn. Það var það fyrsta sem hún tók sér fyrir hendur eftir heimkomuna.

 
 
Meðan ég var að sækja Valdísi sauð Rósa norðlenskt kofareykt hangikjöt. Það var nú það helsta sem hún óskaði sér til að halda upp á daginn. Hannesi leist ekki of vel á þennan undarlega matrétt en í staðinn borðaði hann slatta af kjúklingapylsum og sá ekki eftir hangikjötinu ofan í okkur.
 
Það er ekki svo mikið meira um þennan dag að segja, en ég geri ráð fyrir að Valdís hafi verið ærlega þreytt eftir það umstang sem það var að yfirgefa sjúkrahúsið. Hún sagðist að vísu ekki vera svo þreytt, en hún hlýtur að hafa verið það. Það var margt að fara yfir og margar ráðleggingar og lærdómur sem við þurftum að taka til okkar áður en við lögðum af stað heim. Fyrir mig var það ekki svo erfitt en fyrir Valdísi hlýtur það að hafa verið heilmikið erfiði. Hún er ekki orðin fullfrísk þó að það sé búið að skrifa hana út af sjúkrahúsinu. En nú er hún sofnuð og fær vonandi góðan svefn. Í svefninum felst mikil lækning og á morgun verður fyrst að marka hvernig það verður að vera komin heim. Svo gerum við okkar besta í sameiningu.
 
 
*
 
 
Vinnudagur á Sólvöllum byrjaði á flugvélasmíði. Að byggja flugvél eins og Hannes orðaði það. Svo æfðum við flug og afi reyndi að kenna barnabarninu að leika listir með heimasmíðaðri flugvél og jafnvel gaf afi svolítið tóninn sem tillögu að flugvélahljóði sem nota mætti fyrir heimasmíðaða flugvél.
 
 
Kannski var ekki frítt við að afi léki sér líka með þessa fínu flugvél.

Rannsóknir í Sólvallaskógi

Ég fór með Pétur á járnbrautarstöðina í Hallsberg í morgun. Þaðan fór ég að heimsækja Valdísi. Þegar ég kom þangað var Annelie vinkona hennar hjá henni. Þegar ég fór þaðan ætlaði Valdís að fá sér hádegisblundinn. Síðdegis fór Rósa til hennar og þegar hún kom þangað voru Auður og Þórir í heimsókn. Þegar kvöldaði hafði verið fólk í heimsókn næstum allan daginn.
 
Meðan Rósa var fjarverandi höfðum við hvorn annan, ég og hann nafni minn. Hann óskaði eftir skógarferð og það er langt síðan hann hefur verið þar á ferð. Hann mundi eftir mauraþúfunni stóru og virtist standa hálfgerður stuggur af henni, en samt vildi hann fara að henni og skóða hana þegar hún kom í sjónmál. Og viti menn; maurarnir eru að kvikna til lífs og all margir voru þegar komnir til starfa. Það verður nóg að gera þar fram eftir vori þar sem eitthvað dýr hefur traðkað á þessari risastóru mauraþúfu í vetur og það hlýtur að taka margar vikur fyrir þá að bæta allan þann skaða. Þetta rannsökuðum við all náið og héldum svo til annarra rannsókna þarna í skóginum.
 
Það eru all ólíkir hlutir sem við sjáum, hann sem er þriggja ára og ég sem er sjötíu ára. Hann sér margt fróðlegt í slóðinni en mín athygli virðist vera heldur ofar. Honum finnst skemmtilegt að rannsaka hversu langt vatnið skvettist ef hoppað er í poll en ég kræki fyrir pollinn en verð samt blautur í fæturna og hann ekki.
 
Klukkan níu hringdi Valdís til að segja góða nótt. Stuttu áður hafði súrefnismagn í blóði verið mælt og það aukist og var hærra en nokkru sinni síðan læknisheimsóknir og svo sjúkrahúsvist hófust fyrir rúmum hálfum mánuði. Það var afar ánægjuleg staðfesting á því að það eru góðir hlutir að ske hjá Valdísi.
 
Nú er ég orðinn alveg fyrna syfjaður en því miður er ég ekki búinn að bursta. Það er svo erfitt að bursta þegar ég er syfjaður en það er óumflýjanlegt. Mikið verður koddinn góður að leggjast á og ullarfeldurinn notalegur að draga upp undir eyru. Góða nótt.
 
Ps. Veðurfræðingur sagði nú undir kvöldið að það yrði væntanlega sprenging í veðráttu og vori nú um miðjan apríl. Mér þykir vænt um svona veðurfræðinga.
RSS 2.0