Bloggfrí eða ekki

Ég ætlaði eiginlega að taka bloggfrí í kvöld en komst svo að þeirri niðurstöðu að ef ég þegði alveg mundi það vekja grunsemdir um alvarlegt ástand á Sólvöllum. Dagurinn minn í dag var miðlungsdagur samkvæmt því sem ég lýsti í blogginu mínu í gærkvöldi. Ég verð bara að sætta mig við það að það sem ég hafði ákveðið fyrir helgi að yrði tilbúið í kvöld verður ekki tilbúið fyrr en annað kvöld. Það er afskaplega einfalt og svo ekkert meira með það.
 
Dagur Valdísar í dag hefur verið dagur þreytunnar. Ég veit ekki hvaða skilning ég á að leggja í það en reyni þó að komast að bestu mögulegu niðurstöðu; að hún hafi þurft á því að halda. Smiður einn í héraðinu heimsótti okkur í morgun og um hádegisbilið fór ég í matvörubúð í Fjugesta. Að öðru leyti var ég úti á Bjargi að innrétta og átti tíðar ferðir inn í bæ til Valdísar. Það er allt í lagi sagði hún, ég er bara þreytt en mér líður vel. Ég reyndi að gera það besta úr því svari en var þó með hugann við þetta allan daginn. Nú leggur hún kapal í snertiskjánum. Hún var á leiðinni á stefnumót við Óla vin sinn en hafði viðkomu hjá kaplinum í leiðinni.
 
Ég stakk upp á því við hana að við færum inn í Marieberg á morgun og fengjum okkur tebolla og góða köku eða brauðsneið og sýndum okkur í leiðinni og sæjum aðra. Hún gaf ekkert svar að svo stöddu og vildi setja málið í nefnd. Við höfum æði oft gert þetta í vetur og það er alltaf eins og það sé svoítil tillbreyting í því. Við Sólvallafólk erum í þörf fyrir það um þessar mundir. Þó að hér hafi verið fólk á ferðinni alla daga síðan Valdís kom af sjúkrahúsinu er líka gott að fara aðeins út og viðra sig. Að hafa hvort tveggja er líklega best.
 
Kapallinn gekk upp hjá Valdísi og hún er komin til Óla vinar síns. Það er afar hljótt núna hér heima utan að tækið sem sér valdisi fyrir súrefni malar lágt frammi í forstofu og segir án afláts: þjúbb-faaa, þjúbb-faaa, þjúbb-faaa. Á borðinu við hlið mér er bókin Kyrrð dagsins og í dag stendur skrifað: "Eftirlætistónverk mitt er það sem við heyrum alltaf þegar við erum þögul." Sá sem sagði þetta hét John Cage og var tónskáld. Athyglisverð orð sögð af tónskáldi. Það er mikið talað um þögn og einveru í þessari bók. En þó að við skulum ekki öllum stundum vera í einveru og algerri kyrrð, þá eru þeir í sátt við sjálfan sig og lífið sem geta gert það. Samhljóm kallaði Laxness það í Heimsljósi.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0