Ferðahugleiðingar

Hugleiðingar sem ég skrifaði á sænsku fyrir þremur dögum síðan. 
 
 
"Í dag eru tíu ár síðan pabbi minn varð engill á himnum. Þakka þér fyrir pabbi hversu vel þú annaðist hana mömmu mína og takk fyrir að þú annaðist mig líka."
 
Það var fyrir tveimur árum þegar við Susanne byrjuðum að kynnast á leynilega hlutanum af Feisbókinni að ég vildi vita aðeins meira um þessa konu sem hafði tekist að heilla mig býsna mikið þá þegar. Ég skoðaði Feisbók færslurnar hennar fyrir næstu vikurnar þar á undan og þar las ég þessi reglulega fallegu orð. Fallega skrifað af henni þótti mér og það hafði óneitanlega áhrif á mig um það hver hún væri.
 
Fyrir nokkrum vikum vorum við Susanne í heimsókn hjá mömmu hennar í þjónustuíbúð sinni í Västerås. Þá hafði hún verið veik í fleiri áratugi og það var þess vegna sem Susanne sagði þetta "þakka þér fyrir pabbi hversu vel þú annaðist hana mömmu mína". Þegar Susanne var á táningsárunum skildu mamma hennar og pabbi og hún fylgdi pabba sínum. Það er langt síðan nú.
 
En þarna röltum um í litlu íbúðinni hennar mömmu hennar og lagfærðum hitt og þetta. Ég sá fiðrildi með ótrúlega stóra og fallega vængi við lítið opið gluggafag og var svolítið hissa á nálægð þess og að það skyldi ekki fara aftur út um opna gluggann sem var svo nærri. Svo hugsaði ég ekki meir um það.
 
Guðjón, komdu og sjáðu, sagði Susanne litlu seinna og benti á fiðrildið. "Ég held að pabbi sé hérna núna að sækja mömmu." Það væri best þannig hugsaði ég. Hún sem virtist þá ekki gera sér grein fyrir nærveru okkar þó að við værum þar. Hún er á himnum núna. Hún er dáin.
 
Einmitt þegar ég er að skrifa þetta erum við Susanne á leið til Västerås til að tæma litlu íbúðina hennar mömmu hennar. Það verður ekki mikið eftir. Kannski nokkrar myndir, ein bókahylla er hjá Susanne og nokkrir aðrir smáhlutir verða eftir. Líf hefur gengið móti endalokum sínum og mamma gerði sitt besta miðað við aðstæður og það sem skaparinn bauð henni upp á. Susanne er búinn að segja; þakka þér fyrir mamma.
 
Susanne fylgde föður sínum, Nisse, í nokkur ár áður en hún hélt einsömul á vit lífsins. Það er kannski þess vegna sem hún hefur erft meira frá honum. Hann elskaði að fiska í óbyggðunum þar sem hávaði fólksins náði ekki fram. Susanne hefur sýnt mér talsvert af vídeóupptökum frá slíkum ferðum. Hún fiskar ekki "en ég kann að fiska" segir hún. Hún elskar óbyggðirnar samt. Það er þar sem hún er mest heillandi kona og ég elska kyrrðina líka. Þakka þér fyrir Nisse að þú smitaðir Susanne af þessu. Hún nefnir nafn þitt oft og segir; pabbi sagði svo, pabbi gerði svo.
 
Susanne keyrir bílinn og hugsanir mínar svífa gegnum ár og yfir land og haf. Ég hef hugsað um líf margra einmitt undir ferðinni frá litla húsinu í Krekklingesókn og til Västerås. En nú erum við á leiðarenda og hluti af hugleiðingum mínum finnast í þessum skrifuðu línum. Nú skal vinna í íbúð Inger mömmu Susanne og eftir það verður ákveðinn kapituli á enda. Það eru margir sem eru á biðlista eftir svona íbúð og Inger hefur ekki þörf fyrir hana lengur.
 
 
 
 
 "Ég held að pabbi sé hérna núna að sækja mömmu." Svo sagði Susanne þá og þetta er einmitt mynd af því fiðrildi sem var í íbúð mömmu hennar þegar við vorum þar síðast í heimsókn.
 
 
 
Við erum komin til Örebro og Susanne er búin að vinna bróðurpartinn af kvöldvaktinni. Ég bíð hennar og er búinn að vera í heimsókn hjá eldra fólki í Örebro og sýsla ýmislegt fleira. Núna bíð ég hennar í íbúð á vinnustað hennar, sams konar ibúð og vistfólkið býr í, en þessari ibúð getur Susanne gist í þegar hún vinnur seint kvöld og byrjar snemma morguninn eftir. Hér er notalegt að vera og mikið ef þetta væri ekki alveg ágætt fyrir mig ef ég væri einstæður kall og ætlaði að flytja inn í stórstaðinn.
RSS 2.0