Samtíningur úr sveitinni

Þær eru sveiflukendar árstsíðirnar nú orðið. Það er eins og sumir einstaklingar átti sig ekki þá því lengur hvenær er vetur gengur í garð og hvenær er mál að leggja sig.
 

Þessi lind sem er rétt sunnan við Sólvallahúsið var að þrotum komin af þurrki seinni hluta síðastliðins sumars, laufin voru að mestu fallin og mér sýndist sem lindin yrði ekki eldri. Svo komu haustrigningarnar, óvenju drjúgar, og hún fékk nóg að drekka og viti menn; hún laufgaðist á ný og ég sá ekki betur en að hún hefði líka farið að vaxa. Nú skrifaði ég ekki niður hvenær hún að lokum felldi laufin og gekk inn í vetrarsvefninn en það hlýtur að hafa verið eins og um miðjan nóvember, ef ekki seinna. Það verður gaman að sjá að vori hvernig lindin kemur undan vetri eftir ýmis frávik í veðráttu síðasta árs.
 
 
Ég talaði um vetrarsvefn lindarinnar og ég meinti það eins og ég skrifaði það. Ég fékk bók í jólagjöf frá Rósu dóttur minni um jólin 2016, bók sem ég get ímyndað mér að mundi heita "Leyndardómar skógarins" á íslensku. Það eru afar merkileg áhrif sem ég hef upplifað við lestur þessarar bókar og ég get tekið undir orð manns sem skrifaði umsögn um hana, en hann sagði "að hann gengi öðru vísi hugsandi um skóginn eftir lesturinn". Ég geri það líka. Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um það annað en að segja að lesturinn hefur haft mjög góð áhrif á mig.
 
 
Það var alls ekki löngu eftir að lindin felldi laufin sín að ég gekk með myndavélina bakvið húsið og undir útiljós sem er á þvottahúsgaflinum móti skóginum. Ljósið kviknaði sjálfvirkt og þá blasti meðal annars við mér þessi eik. Með snjó á greinum og í sterku ljósinu líktust greinarnar einna helst miklum fjölda hreindýrahorna fannst mér.
 
Það eru tveir fuglahólkar á eikinni. Sá neðri á víst að vera fyrir músarindil eða einhvern álíka fugl. Ég setti upp þrjá slíka hólka í skóginum í fyrra en fékk enga ábúendur í þá. Efri hólkurinn getur verið fyrir fugla af ýmsu tagi. Sá fékk ábúendur á fyrsta degi ef ég man rétt eins og flestir þeirra tólf annarra hólka sem ég setti upp í fyrravor. Það er sjálfsagt hluti þessara fugla sem eru nú eru daglegir gestir í matarbúri smáfuglanna sem stendur á staur skammt vestan við íbúðarhúsið.
 
 
Þetta beykitré er eins og önnur ung beykitré og fellir ekki laufið þó að vetrarsvefninn standi yfir. Lauf þessara trjáa eru vissulega búin að fá haustlitina en þau hafa ekki fallið ennþá. Það mun ekki ske fyrr en ný lauf fara að vaxa að vori. Sama er að segja um sumar kvæmi af eik. Þetta er fallegt frávik hjá skógarflórunni.
 
 
Það er svo sem ekki hægt að segja annað en að veturinn er snyrtilegur en þó ekki nema að það snjói. Þessa mynd tók ég fyrir nokkru dögum um hábjartan daginn en eiginlega er eins og það sé ekki alveg bjart. Það hefur verið þannig margan daginn upp á síðkastið, það hefur verið lágskýjað og ekki alveg bjart. Svo er bláberjabekkurinn lengst til vinstri á myndinni. Hann var orðinn dálítið mosagróinn þannig að ég þvoði hann með háþrýstidælunni  í fyrrasumar. Þá varð hann svo fínn að síðan er hægt að setjast í hann og hugleiða mál sem þarfnast úrlausnar eða bara til að láta hugann reika.
 
 
Þegar spætan kemur í matarbúr fuglanna flýja þeir sem eru ögn hógværari. Spætan er ekki í vafa um það hvað hún vill og hún tekur það ef það bara er mögulegt. Önnur spæta er í aðflugi þannig að það er einfaldast fyrir hina hógværu að láta sig hverfa.
 
 
Síðasta blogg fjallaði um verkin í sveitinni og þá var það mikið um eldivið. Ég á eftir einn dag við viðarkljúfinn og þá er þeim áfanga lokið. Svo þarf ég að fella fleiri tré og byrja upp á nýtt við kljúfinn. Þegar ég stend þar úti er ég dúðaður í mikið af fötum og þá lít ég alls ekki svo snyrtilega út og er þar að auki einkennilegur í laginu. Ég tók á mig svolítið betri fatnað þegar við fórum í rútuferð vestur í Vermland í haust, til Karlsstað. Það mesta af fötunum keypti ég í Vestmannaeyjum í haust utan jakkan sem ég fékk hjá Jónatan tengdasysi, en hann passaði ekki í þennan jakka. Heppinn var ég þar.
 
Í Karlstað komum á vatnslitamyndasýningu og ég stoppaði við myndina sem er til hægri og velti fyrir mér hvort hun væri ekki frá Íslandi. Svo fékk ég að heyra að listamaðurinn, Lars Lerin, hefði verið mikið í norður Noregi og í Síberíu. Þar með afskrifaði ég að fyrirmyndin væri íslensk, enda var byggingarstíllinn ekki alveg íslenskur en náttúran gat svo vel verið íslensk.
 
Það var umræða um Feisbók og Instagram í sjónvarpi í kvöld og alla þá hamingju sem reynt væri að sýna þar á myndum. Sérfræðingur var kallaður til til að ræða þetta og hún sagði að hamingjan væri reyndar ekki svo mikil sem reynt væri að sýna á myndunum. Mér þótti vænt um að heyra það því að stundum fer ég í fýlu, stundum er ég leiður og ég á það til að bölva hátt ef ég rek hausinn í hvasst horn. En oftast er ég ánægður og það er það sem ég segi mest frá. Núna er ég ekkert af þessu því að það er orðið mjög áliðið og ég er þreyttur. Ég er svo þreyttur að fyrir nokkrum mínútum sofnaði ég og olnboginn rann út af borðinu. Mér brá hressilega og það fyrsta sem ég hugsaði var hvar í ósköpunum ég væri staddur. En ég var bara hér, heima hjá mér, og tíndi saman nokkur atriði til að láta vita um mig.

Um verkin í sveitinni

Hér er tilraun til að blanda samann jarðneskum veruleika og svolitlum andlegum spekúleringum.
 
 
Ég talaði við Ísland aldeilis nýlega og þá var mér sagt að ég ætti að skrifa meira svo að fólk gæti séð hvað ég hefði fyrir stafni. Í næst síðasta bloggi talaði ég um að gera áætlun fyrir nýja árið og svo talaði ég um eldivið, en ég er einmitt þar núna. Ég er að kljúfa við til upphitunar. Ég talaði líka um það í næst síðasta bloggi að þegar ég er að kljúfa við geti ég látið hugan svífa yfir lönd og höf og langt út í himingeiminn. En það sem ég talaði ekki um í því bloggi var að ég þarf ekki endilega að láta hugan leita út á við, það er ekki verra að láta hann leita inn á við. Ég er nokkuð vel sáttur við mínar innri lendur og er ekki smeykur við að dvelja þar.
 
 
Þetta sem við sjáum á myndinni hef ég fyrir framan mig þegar ég er að kljúfa eldivið. Ég læt hugann gjarnan leita inn á við þegar ég er í ró og næði við þessa vinnu mína. Viðarkljúfurinn er afar hljóður og hann truflar ekki. Áður en ég byrjaði að skrifa þetta nú á mánudagskvöldi hlustaði ég á messu í sjónvarpinu, messu frá því um síðustu helgi fyrir jól. Ég sá svolítið af þessari messu þá og heyrði en var upptekinn við annað, eins og til dæmis að setja upp jólaljós og því vildi ég sjá hana aftur. Hún var hógvær þessi messa og látlaus og enginn stal senunni frá neinum öðrum. Allt var gert í svo mikilli einlægni að ég varð snortinn. Prestur talaði um daglega framkomu okkar og hvernig við til dæmis mættum nágrannanum í hversdagslífinu. Ég skildi að ég gæti vandað mig betur í öllu sem ég hugsa, segi og aðhefst. Biskup nokkur talaði um kyrrðina, kærleikann, óttann -og að þrá. Hann gekk meira inn á við. Þetta hefur áhrif á bloggið sem ég er að skrifa akkúrat núna og það var meiningin.
 
Nú skrifa ég þetta undir mynd af viðarstafla. Mynd og texti passar kannski ekki alveg saman eða hvað? En vinnan við viðarstaflan er hljóðlát. Fyrir einum tveimur árum sagði nágranni minn við mig að ég skyldi lána viðarkljúfinn hans því að þá gæti ég lokið þessu á nokkrum klukkutímum. Ég lánaði hann aldrei því að þá hefði ég líka þurft að lána traktorinn hans og  þá hefði þetta bara orðið ógnar hraði og hávaði. Ég hefði orðið stressaður og ringlaður í kollinum og ekki notið verksins.
 
 
Þegar ég stend við viðarkljúfinn hef ég þetta hins vegar fyrir aftan mig. Ég hef nú þegar klofið um það bil helminginn af þessu. Það er gott að hafa góða viðargeymslu. Viður sem rignir úti og sólbrennur þess á milli verður ekki góður viður. Ekki heldur viður sem liggur á jörðinni undir segli eða ábreiðu. En viður í vel loftræstu húsi verður góður viður. Hún Fanney Antonsdóttir frá Hrísey gaf mér fyrir nokkrum árum bók um eldivið, alveg frábæra bók. Ég gerði samt ekki eins og bókin segir því að samkvæmt henni á ég á ekki að geyma óklofinn við lengi. Það er samt betra en að láta veður og vinda skemma hann. Nú hef ég lofað sjálfum mér að gera svona aldrei aftur. Áætlunin mín segir að ég gangi frá þessum viði og lagi vel til í geymslunni fyrir lok mánaðarins. Síðan þarf ég að fella ein tíu til tólf stór tré, hreinlega til að grisja. Ég þarf ekki á öllum þeim viði að halda og ég vil ekki taka svo langan tíma í þessa vinnu þannig að ég ætla að gefa tveimur nágrönnum mínum hluta af þessum trjám. Í fyrra felldi ég 36 tré, þau sem ég er að kljúfa núna, en þau voru mikið minni en þau sem ég ætla að taka í vetur.
 
Fyrir miðri þessari mynd lengst frá er svartur ferkantaður reitur. Þar á að koma gluggi. Spæturnar hafa svo gert götin á veggpappann. Kannski eru þær að minna mig á að það sé kominn tími til að setja gluggann í vegginn í stað þess að láta hann standa upp við vegg í geymslunni eins og hann gerir núna ásamt öðrum glugga sem líka á að vera á þessu húsi.
 
 
Það hefur verið ógnar mikill reyniviður í Sólvallaskóginum en nú er ég að veraða búinn að losa mig við hann. Fyrir mér er reyniviður sem illgresi. Hann veður yfir og skemmir annan trjávöxt af mikilli hörku. Samt er reyniviður mjög fínn þar sem hann passar og þar sem slegið er umhverfis hann. Mest af þeim trjám sem ég felldi í fyrra var reyniviður og svo þegar engin reyniviðartré verða eftir í skóginum til að framleiða ber, verður leikurinn léttari. Ég hreinsaði líka burtu eitthvað töluvert á annað þúsund reyniviðarplöntur í fyrra. Slagnum við reyniviðinn er ekki lokið en ég skal ekki gefa mig ef skaparinn gefur mér tíma og heilsu. Ég lofa.
 
Kuppurinn hér fyrir ofan er nefnilega reyniviðarkuppur sem ég var að kljúfa í gær. Mikið af reyniviði er erfitt að kljúfa og þessi kuppur segir allt sem segja þarf um það.
 
 
Það endar með því að exin verður að vera með til að ná kubbunum í sundur. Allur annar viður sem ég fæ úr skóginum er þjáll að eiga við.
 
 
Viðarkljúfur að verki. Þetta þyrfti að vera hreyfimynd en ég ræð ekki við það einsamall þar sem báðar hendur verða að vera á tækinu þegar það er í hreyfingu. Það er mikið öryggisatriði.
 
 
Þannig er nú það. Ég er einn heima þar sem Susanne er í tuttugu og fjögurra ára afmæli sonar síns í Eskilstuna. Ég valdi að vera heima og halda áfram með mitt. Þegar ég er kominn í vinnugalla sem dugir til að halda á mér hita og er kominn í vinnuvetlingana og með húfuna á höfuðið segi ég oft að ég sé eins og heysekkur. Susanne þverneitar því hins vegar að ég sé eins og heysekkur. Ef ég væri kominn í fína veislu í Róm, París eða New York myndi ég trúlega ekki vita hvaða hnífapör ég ætti að byrja á að nota eða eða hvernig ég ætti að leggja þau á diskinn þegar ég væri búinn að borða af honum. Spurning hvort ég vissi almennilega hvernig ég ætti að nota servíettuna. Kannski mundi ég ekki heldur vita hvað ég ætti að segja. En mér þykir vænt um allt hér og mér líður vel með það sem ég hef. Þannig er nú það.

Minn gamli nágranni Ottó Þorgilsson

Þegar við Valdís fluttum til Hríseyjar var ég rúmlega tvítugur maður. Þá var mikið af minni mótorbátum í eynni og margar trillur. Ég fór mér mjög varlega í byrjun innan um þetta fólk sem hafði lifað lífi sem var mér mjög framandi og í mínum augum voru sjómennirnir hreinar hetjur. Níunda apríl veðrið 1963 var þá nýlega afstaðið og var heldur betur í fersku minni fyrir marga á Eyjafjarðarsvæðinu sem þá þreyttu mikla raun við að bjarga sér í land og margir komust heldur ekki í land. Ottó Þorgilsson var einn þeirra sem barðist við þetta veður og náði landi. Það eru ár og dagar síðan og Ottó fór í sína hinstu heimferð að kvöldi jóladags síðastliðinn.
 
Síðdegis daginn eftir settist ég við tölvuna og rúllaði niður skjáinn og um leið og ég sá ljóst hár Ottós birtast á skjánum vissi ég það, ég hefði ekki einu sinni þurft að lesa skilaboðin hennar Dísu, Ottó var dáinn. Það var ekkert sem kom mér á óvart þar sem ég vissi að þessi stund nálgaðist, en þar sem ég sat við tölvuna og horfði á andlit hans fann ég fyrir djúpri sorg. Það eru svo ótvíræð vegamót þegar menn deyja. Þeir sem eftir lifa halda áfram eftir veginum en hinir fara aðra leið og við hin sjáum þá aldrei meir.
 
Það var í byrjun sjöunda áratugarins sem við Valdís bjuggum með Valgerði litla í Kelahúsinu við Austurveginn í Hrísey. Í næsta húsi sunnan við bjó sjómaðurinn Simmi með henni Gunnhildi sinni en í þar næsta húsi bjuggu Ottó og Dísa. Ég þekkti þessa menn alls ekki neitt. Ég hafði bara séð þá ganga framhjá og jafnvel aldrei talað við þá. Þeir voru sjómenn á minni mótorbátunum í eynni. Það var mikill snjór og allar götur í Hrísey voru ófærar og það stóð ekki til að ryðja þær að sinni. Alveg óvænt varð olíutankurinn við Kelahúsið tómur og hann reyndist lekur. Kuldi byrjaði að sverfa að. Í örvæntingu minni spurði ég sjálfan mig hvað ég gæti gert. Axel, sem annaðist olíusöluna í eynni, hafði sett olíu á tunnu fyrir mig og stóran sleða hafði ég fengið lánaðan en mér var engan veginn fært að draga tunnuna heim einsamall.
 
Ég bankaði að lokum upp á hjá Simma og Ottó og bað um hjálp. Það var svo sannarlega sjálfsagt og við drógum heim tunnuna og stilltum henni upp við tankinn. Þegar þeir síðan gengu heim á leið sneri Ottó sér við og sagði; ef það er eitthvað, bankaðu þá bara upp á góurinn. Þessi orð hans man ég svo vel enn í dag og ég man álíka vel hvað ég var þakklátur fyrir þessi orð. Það var eins og ég yrði meiri Hríseyngur eftir að hann sagði þetta.
 
Mörgum árum seinna bankaði Ottó upp á, þá við Sólvallagötuna í Hrísey, og spurði hvort ég vildi koma með honum yfir að Skarfabríkinni vestan megin við sundið. Svo fórum við þangað á litla bátnum hans með utanborðsmótornum. Þá var hann hættur á sjó sem atvinnumaður. Svo fórum við upp að skarfabríkinni á litlu trillunni hans, Dísu, og ætluðum að bíða þar þar til skarfarnir myndu koma og setja sig á bríkina.
 
Allt í einu og alveg óvænt rauk hann upp með hvassan suðvestan vind, svo harðan að það hvítnaði samstundis í báru. Við verðum að fara strax heim sagði Ottó án alls asa og við lögðum þar með af stað. Ég sat fram í og horfði á Ottó stýra bátnum. Allt í einu sá ég hvar hann tók viðbragð, hægði á og stýrði bátnum snarlega móti bárunni, og svo fengum við hvítfryssandi sjó yfir okkur og urðum gegnvotir. Þarna sá ég góðan sjómann bregðast leiftursnggt og rétt við. Þegar heim var komið sagði hann mér að þarna hefði verið nauðsynlegt að bregðast rétt við, annars hefði getað farið illa.
 
Oft fór ég með Ottó umhverfis eyna á litlu trillunni hans, henni Dísu. Líklega var það í fyrstu ferðinni sem hann fór nokkurn spöl norður fyrir eyjarendann og stoppaði þar. Sjór var spegilsléttur en örhæg undiralda. Það var sem hann biði einhvers. Allt í einu kom viðbjóðslegur dökkur kollur upp úr sjónum nokkra faðma frá og mér fannst blóðið kólna í æðum mér. Þetta er Brúnka sagði Ottó stillilega. Svo færðist Brúnka í kaf aftur og þegar hún var að hverfa undir yfirborðið risu þarastrengirnir upp og kollurinn líktist einhverjum ógurlegum risa með loðið höfuð sem hefði stungið kollinum upp úr sjónum í nokkur augnablik. Hann var ekki að reyna að hrekkja mig, hann var bara að sýna mér Brúnku. Hann þekkti svæðið umhverfis Hrísey og Hríseyjarfjörurnar eins og fingur sína og vissi nákvæmlega hversu nærri hann mátti koma á hverju stað. Þetta var sjómaðurinn Ottó og það eru margar sögur sem koma upp í huga mér þegar ég skrifa þetta. Ég gæti skrifað mikið, mikið meira um þennan sjómann sem síðar varð verslunarmaður í fjölda ára en sjómaðurinn lifði alltaf í honum. Hann sagði ekki frá svo miklu en ég veit að þegar sem mjög ungur sjómaður lenti hann í atburðum á sjó sem hljóta að hafa mótað persónuleika hans mikið.
 
Ottó fór aldrei fram með offorsi. Hann fór ákveðið en stillilega fram, virtist alltaf vita hvað hann var að gera og stundum öfundaði ég hann af þessum eiginleika. Ég get rétt ímyndað mér hversu tryggur fjölskyldufaðir hann var og hann var einstaklega tryggur vinur. Við vorum vinir og mér hefur alltaf þótt vænt um hann síðan hann hjálpaði mér við að koma olíunni heim og han sagði; ef það er eitthvað, bankaðu þá bara upp á góurinn. Ég sakna þín Ottó, það er svo óumdeilanlegt að vegir okkar hafa gengið til ólíkra átta nú um sinn. Þakka þér fyrir svo margt sem við baukuðum saman og fyrir mörgu sjóferðirnar sem þú bauðst mér að taka þátt í. Og að lokum; þú áttir nokkurn þátt í að móta minn persónuleika því að ég fann góða fyrirmynd í þér. Ottó verður jarðsunginn frá Akureyrarkirkju í dag, fimmtudag, kl. 13,30. Farðu í friði vinur.
 
 
Sumarið 2012 komu Ottó og Dísa í heimsókn til okkar á Sólvelli. Hér eru þau að spássera í Sólvallaskógi.
 
 
Ottó kom ekki í heimsókn til Svíþjóðar bara til að dingla sér eins og hann sagði oft. Hann hjálpaði mér úti við með eldivið og fleira og hér er matarhlé.
 
 
Og hér erum við á ferðalagi á ferðalagi skammt norðan við Örebro. Bærinn Nora og Noravatnið í baksýn.
 
 
Við sund milli lands og eyjar í Vatninu Hjälmaren.
 
 
 
 
RSS 2.0