Samtíningur úr sveitinni

Þær eru sveiflukendar árstsíðirnar nú orðið. Það er eins og sumir einstaklingar átti sig ekki þá því lengur hvenær er vetur gengur í garð og hvenær er mál að leggja sig.
 

Þessi lind sem er rétt sunnan við Sólvallahúsið var að þrotum komin af þurrki seinni hluta síðastliðins sumars, laufin voru að mestu fallin og mér sýndist sem lindin yrði ekki eldri. Svo komu haustrigningarnar, óvenju drjúgar, og hún fékk nóg að drekka og viti menn; hún laufgaðist á ný og ég sá ekki betur en að hún hefði líka farið að vaxa. Nú skrifaði ég ekki niður hvenær hún að lokum felldi laufin og gekk inn í vetrarsvefninn en það hlýtur að hafa verið eins og um miðjan nóvember, ef ekki seinna. Það verður gaman að sjá að vori hvernig lindin kemur undan vetri eftir ýmis frávik í veðráttu síðasta árs.
 
 
Ég talaði um vetrarsvefn lindarinnar og ég meinti það eins og ég skrifaði það. Ég fékk bók í jólagjöf frá Rósu dóttur minni um jólin 2016, bók sem ég get ímyndað mér að mundi heita "Leyndardómar skógarins" á íslensku. Það eru afar merkileg áhrif sem ég hef upplifað við lestur þessarar bókar og ég get tekið undir orð manns sem skrifaði umsögn um hana, en hann sagði "að hann gengi öðru vísi hugsandi um skóginn eftir lesturinn". Ég geri það líka. Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um það annað en að segja að lesturinn hefur haft mjög góð áhrif á mig.
 
 
Það var alls ekki löngu eftir að lindin felldi laufin sín að ég gekk með myndavélina bakvið húsið og undir útiljós sem er á þvottahúsgaflinum móti skóginum. Ljósið kviknaði sjálfvirkt og þá blasti meðal annars við mér þessi eik. Með snjó á greinum og í sterku ljósinu líktust greinarnar einna helst miklum fjölda hreindýrahorna fannst mér.
 
Það eru tveir fuglahólkar á eikinni. Sá neðri á víst að vera fyrir músarindil eða einhvern álíka fugl. Ég setti upp þrjá slíka hólka í skóginum í fyrra en fékk enga ábúendur í þá. Efri hólkurinn getur verið fyrir fugla af ýmsu tagi. Sá fékk ábúendur á fyrsta degi ef ég man rétt eins og flestir þeirra tólf annarra hólka sem ég setti upp í fyrravor. Það er sjálfsagt hluti þessara fugla sem eru nú eru daglegir gestir í matarbúri smáfuglanna sem stendur á staur skammt vestan við íbúðarhúsið.
 
 
Þetta beykitré er eins og önnur ung beykitré og fellir ekki laufið þó að vetrarsvefninn standi yfir. Lauf þessara trjáa eru vissulega búin að fá haustlitina en þau hafa ekki fallið ennþá. Það mun ekki ske fyrr en ný lauf fara að vaxa að vori. Sama er að segja um sumar kvæmi af eik. Þetta er fallegt frávik hjá skógarflórunni.
 
 
Það er svo sem ekki hægt að segja annað en að veturinn er snyrtilegur en þó ekki nema að það snjói. Þessa mynd tók ég fyrir nokkru dögum um hábjartan daginn en eiginlega er eins og það sé ekki alveg bjart. Það hefur verið þannig margan daginn upp á síðkastið, það hefur verið lágskýjað og ekki alveg bjart. Svo er bláberjabekkurinn lengst til vinstri á myndinni. Hann var orðinn dálítið mosagróinn þannig að ég þvoði hann með háþrýstidælunni  í fyrrasumar. Þá varð hann svo fínn að síðan er hægt að setjast í hann og hugleiða mál sem þarfnast úrlausnar eða bara til að láta hugann reika.
 
 
Þegar spætan kemur í matarbúr fuglanna flýja þeir sem eru ögn hógværari. Spætan er ekki í vafa um það hvað hún vill og hún tekur það ef það bara er mögulegt. Önnur spæta er í aðflugi þannig að það er einfaldast fyrir hina hógværu að láta sig hverfa.
 
 
Síðasta blogg fjallaði um verkin í sveitinni og þá var það mikið um eldivið. Ég á eftir einn dag við viðarkljúfinn og þá er þeim áfanga lokið. Svo þarf ég að fella fleiri tré og byrja upp á nýtt við kljúfinn. Þegar ég stend þar úti er ég dúðaður í mikið af fötum og þá lít ég alls ekki svo snyrtilega út og er þar að auki einkennilegur í laginu. Ég tók á mig svolítið betri fatnað þegar við fórum í rútuferð vestur í Vermland í haust, til Karlsstað. Það mesta af fötunum keypti ég í Vestmannaeyjum í haust utan jakkan sem ég fékk hjá Jónatan tengdasysi, en hann passaði ekki í þennan jakka. Heppinn var ég þar.
 
Í Karlstað komum á vatnslitamyndasýningu og ég stoppaði við myndina sem er til hægri og velti fyrir mér hvort hun væri ekki frá Íslandi. Svo fékk ég að heyra að listamaðurinn, Lars Lerin, hefði verið mikið í norður Noregi og í Síberíu. Þar með afskrifaði ég að fyrirmyndin væri íslensk, enda var byggingarstíllinn ekki alveg íslenskur en náttúran gat svo vel verið íslensk.
 
Það var umræða um Feisbók og Instagram í sjónvarpi í kvöld og alla þá hamingju sem reynt væri að sýna þar á myndum. Sérfræðingur var kallaður til til að ræða þetta og hún sagði að hamingjan væri reyndar ekki svo mikil sem reynt væri að sýna á myndunum. Mér þótti vænt um að heyra það því að stundum fer ég í fýlu, stundum er ég leiður og ég á það til að bölva hátt ef ég rek hausinn í hvasst horn. En oftast er ég ánægður og það er það sem ég segi mest frá. Núna er ég ekkert af þessu því að það er orðið mjög áliðið og ég er þreyttur. Ég er svo þreyttur að fyrir nokkrum mínútum sofnaði ég og olnboginn rann út af borðinu. Mér brá hressilega og það fyrsta sem ég hugsaði var hvar í ósköpunum ég væri staddur. En ég var bara hér, heima hjá mér, og tíndi saman nokkur atriði til að láta vita um mig.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0