Heimurinn heldur áfram að snúast

Ég vaknaði eldsnemma í gærmorgun og leið illa bæði líkamlega og hugarfarslega. Því var lítið annað að gera en sofna aftur og svo vaknaði ég rúmlega hálf átta. Ég var næstum hissa því að allt var svo notalegt. Ég þurfti ekki að hugsa um vinnu. Hefði ég átt að vinna dagvinnu væri ég komin langleiðina í Vornes og ætti ég að vinna kvöldið mundi ég fara eftir tvo tíma. En það var ekki svo. Það yrði heldur ekki vinna á morgun og ekki hinn og ekki hinn. Þvílíkur munaður. Ég sá samt ekki eftir annríkinu síðustu tvo mánuði. Þessir mánuðir höfðu gefið mér mikið og ég átti ríkulegar minningar. En ég var vissrar hvíldar þurfi.
 
Ég dró ullarfeldinn upp að höku og horfði upp í loftið. Ég segi oft frá ýmsu og meðal annars þessu með ullarfeldinn. Ullarrúmfötin eru mesti munaður sem við Valdís veittum okkur ef talað er um munað. Þau kostuðu líka heil mánaðarlaun. Þegar ég var búinn að fara einu sinni í það sem kallað er ullarferð, Valdís hafði farið í nokkrar, og hlusta á sölumann halda fyrirlestur um ullarvöruna sína, þá lét það afar vel í eyrum. Svo vel að ég yfirgaf Valdísi við hádegismatarborðið sem var á eftir fyrirlestrinum og keypti ullarsett handa hvoru okkar.
 
Hvað varstu að gera? spurði Valdís þegar við hittumst aftur. Ég sýndi henni kaupsamninginn. Ég á það skrifað annars staðar en man bara ekki viðbrögðin, en alla vega; hún varð gríðarlega undrandi. Þarna rættist draumur sem hún hélt að aldrei mundi rætast. Að kaupa svona dýr rúmföt trúði hún bara alls ekki að ég mundi nokkurn tíma gera. Ég er feginn að ég gerði svo.
 
Þegar heim kom úr ullarferðinni fór ég inn á Google og las mikið um ullarrúmföt. Sölumaðurinn virtist hafa farið nokkuð frjálslega með gat ég ímyndað mér. Ég hringdi til hans daginn eftir og hann virtist vera heima hjá sér með börnin sín í kringum sig. Hann tók mér vel og ég nefndi nokkur atriði sem mér fannst geta verið vafasöm. Við ræddum þetta svolitla stund og svo sagði hann að lokum: Það getur vel verið að ég hafi sagt eitthvað um þessa vöru sem er vafasamt að sé rétt, en eitt er ég alveg öruggur með; þú verður afar ánægður með það sem þú keyptir. Þar hafði hann hárrétt fyrir sér. Ég hef hitt hann einu sinni síðan og ég kann vel við manninn.
 
Mér fannst ég svo innilega frjáls og ánægður maður þarna í gærmorgun að ég var eiginlega hissa. Svo ákvað ég að fara að vinna við leikturninn hans Hannesar. Ég var líka búinn að ákveða tíma hjá honum sögunarMats, en ég ætlaði að kaupa af honum nokkrar spýtur. Ég þurfti líka að fylla í eyðublað til skattayfirvalda vegna eigna sem færðar höfðu verið frá Valdísi yfir á mig. Ég ákvað að gera það um helgina en fara heldur í turninn þennan föstudag. Ég leit samt á eyðublaðið sem var í níu liðum og komst að því að ég mundi aldrei klára þetta hjálparlaust og ég þurfti að skila því eftir helgi ásamt nokkrum ljósritum.
 
Hér með riðlaðist skipulag dagsins og rósemi morgunsins breyttist í ringulreið. Ég rýndi í þessa níu liði og orðalag og meiningar voru mér algerlega ofviða. Það leið á daginn. Eva Johansson hjá skattinum hafði skrifað undir bréfið og allt í einu sá ég að það var símanúmer undir nafni hennar. Ég hringdi og mild konurödd svaraði eftir fyrstu hringingu. Ég bar upp erindi mitt. Já heyrðu, sagði Eva. Þú þarft bara að skrifa nafnið þitt og heimilisfang efst á framhliðina. Það hafði ég þegar gert. Eva hélt áfram. Svo þarft þú bara að staðfesta það í níunda liðnum að þú hafir tekið við þessu og svo er þetta tilbúið.
 
Ég var þá þegar búinn að fylla í eyðublaðið allt sem ég þurfti. Svo hafði ég dregið fram helling af skjölum sem ég hélt að ég þyrfti að nota en þurfti þess alls ekki. Hefði ég bara hringt þremur tímum fyrr í þessa Evu. Það lá við að ég segði að mér þætti vænt um hana en ég lét nægja að þakka henni mjög vel fyrir að draga mig að landi. Ég pakkaði niður öllum skjölunum sem ég hafði dreift í kringum mig og fór svo til Fjugesta til að ljósrita. Eftir það fór ég til Mats og svo var dagurinn búinn.
 
 
Dagurinn hefur að miklu leyti verið eignaður turninum hans Hannesar. Það er bara komið nýtt þak á turninn! svolítið í austurlenskum stíl eða hvað? Alvöru blikksmiður hefði gengið betur frá þakköntunum uppi í toppinn en fólk kemur ekki til með að vera alltaf með augun þar uppi. Hins vegar var þakið svo hrátt eins og það var áður að það dró augu fólks þangað upp og það var alls ekki fínt.
 
Ég var langt kominn með að ganga frá þakkantinum vinstra meginn áður en Hannes fór heim í sumar. Þegar við spurðum hann hvort hann væri ánægður með þetta, þá spurði hann hvort hann gæti ekki fengið flagg líka. Næst þegar ég kom heim úr vinnu var ég með flagg með mér. Svo fékk Hannes að velja hvar það var sett upp.
 
Hvítt þakskegg á leikturninum og Pétur var búinn að mála með rauðu. Nú fellur turninn inn í Sólvallamyndina. Áður var hann meira eins og illa hirtur aðskotahlutur. Ég er ánægður með þetta og svo ætla ég að mála á morgun. Ljósastaurinn er hins vegar orðinn aðskotahlutur eins og hann lítur úr. Hann þarf að leggja að velli því að hlutverki hans er lokið.
 
Heimurinn hefði haldið áfram að snúast þó að ég hefði ekki skrifað allt þetta, en heimurinn heldur líka áfram að snúast þó að ég hafi gert það.

Indæll síðsumardagur á Sólvöllum

Það kom fólk í heimsókn til mín í morgun sem var afar gaman að fá í heimsókn. Það hafði öðru hvoru borið á góma að þau kæmu en svo varð aldrei neitt meira með það. Það kom málinu á hreyfingu að ég bakaði rabarbarabæ um daginn og talaði um það á feisbókinni. Maðurinn lengst til vinstri, Ove (borðið fram úve) sá það og spurði hvort ég gæti ekki komið með rabarbarapæ í vinnuna, auðvitað í gríni. Ég sagði honum þegar við hittumst síðar í vinnunni að það væri einfaldast að þeir mótorhjólafélagarnir, hann og Håkan, kæmu og fengju rabarbarapæ heima hjá mér. Þá loksins varð af þessari heimsókn.
 
Við Ove hittumst fyrsta árið mitt í Vornesi. Síðar kom hann sem lærlingur í Vornes og svo varð hann ráðgjafi. Ég varð yfirmaður hans og núna er hann yfirmaður minn. Ég sýndi þessu fólki inn á Bjarg og þá auðvitað inn á baðið þar. Tvisvar sinnum þegar ég var að velja innréttingu á baðið, handlaugarskáp í annað skiptið og sturtuhurðir í hitt skiptið, þá hafði hann samband við mig meðan ég var inni í versluninni og spurði mig í bæði skiptin hvort ég gæti unnið kvöld. Það var til þess að ég valdi dýrari og vandaðri innréttingar en ella í bæði skiptin. Ég er mjög ánægður með það í dag.
 
Hún Inger sem situr í miðjunni er hjúkrunarfræðingur sem vann á sjúkrahúsi í Södermanland. Þegar hún varð ellilífeyrisþegi fyrir fáeinum árum fór hún að vinna við afleysingar í Vornesi. Hún sýndi mjög fljótt mikla færni í umgengni við alkohólistana og ég hef lært margt af þessari konu.
 
Lengst til vinstri er Håkan, maður Inger. Hann hefur unnið í áratugi í Vornesi og þar áður var hann til dæmis friðargæsluliði Sameinuðu þjóðanna á Kýpur. Nú er hann ellilífeyrisþegi sem kemur oft í Vornes til að annast margt í viðhaldsgeiranum sem hefur dregist á langinn að laga. Þá er hann röskur. Hann hefur sýslað við margt meðfram vinnunni í Vornesi og hefur reynslu af mörgu. Hann hefur kennt mér margt sem ég hafði enga reynslu af frá Íslandi, til dæmis að meðhöndla eldivið. Þegar þau voru búin að fá sér af því sem ég bar á borð hallaði Håkan sér makindalega upp að veggnum og spurði: Guðjón, siturðu oft hérna á morgnana og horfir inn í skóginn. Já, ég sagðist oft gera það og það væru afar góðar stundir. Ég skil þig vel sagði Håkan -og svo gerðu þau öll.
 
Ég var spurður í dag hvað ég hefði boðið þeim upp á. Ég get vel sagt frá því. Þau fengu heimabakað rúgbrauð bakað eftir íslenskri uppskrift, hangikjöt, heimagert illiblómasaft, heimabakað rabarbarapæ, heimabakaða eplaköku, þeyttan rjóma og kaffi. Svo eru þau fyrstu Svíarnir auk einnar vinkonu Rósu og Péturs sem borða hjá mér harðfisk af góðri lyst og þá lá við að andlitið dytti alveg af mér. Þessar veitingar voru nýstárlegar fyrir þau öll.
 
Þetta fólk er vinir mínir.
 
Glaðlegt fólk sem er komið i hlífðarfötin sín og með hjálmana í hönd. Inger og Håkan eiga sumarbústað við all stórt vatn í Södermanland og útsýnið hjá þeim er alveg frábært að mínu mati, eins og allra best verður á kosið. Svo koma þau hingað í nýtt umhverfi og þá finnst þeim útsýnið hjá mér svo ótrúlega fallegt.
 
Ég segi oft að það sé nú meiri dellan þessi mótorhjóladella. Svo kemur það oft fyrir þegar ég er í návígi við mótorhjól eins og til dæmis þarna í morgun að ég hugsa sem svo að það væri nú gaman að prufa. En ég segi engum frá því.
 
 
*          *          *
 
 
Snákur á stærð við þennan var á veginum hér við Sólvelli um daginn en hann fór svo hratt að mér tókst ekki að ná mynd af honum. Þessi varð á vegi mínum í Vornesi í hádegisgönguferðinni í gær og hann komst ekki undan. Ætli þessi sé ekki upp undir meter á lengd en hann er gildari en snákurinn nágranni minn. Við vorum þrír kallar á gangi þarna í gær og snákurinn var afar hræddur við okkur. Hann lagði mikinn kraft í að komast fljótt undan.
 
Ég skil ekki hvers vegna ég hafði sjónvarpið á og það var verið að lýsa fótbolta. Ég var að slökkva á því og það varð allt annað lif. Það er orðið dimmt og stuttu fyrir dimmumótin var dádýr á beit á túninu vestan við Sólvelli. Það er nú meira hvað þessi dýr eru falleg og þegar þau stökkva yfir girðingu eru þau hreint alveg ótrúlega fim og létt á sér. Ég er ekki alveg jafn léttur á mér núna. Ég viðraði ullarfeldina mína í dag og mikið verður gott að leggja sig í þá eftir burstun og pissun.

Hér er bloggið sem ég skrifaði í morgun

Í gær komm ég heim úr vinnu um um hádegisbil. Það voru þáttaskil hjá mér. Sumarleifaafleysingatímabili mínu var lokið með fullri vinnu í tvo mánuði. Framundan verður vinna á strjálningi ef að líkum lætur.
 
Ég var ringlaður eftir að ég kom heim í gær. Það var eins og ég fyndi að nú gæti ég sleppt öllu lausu, væri frjálsari maður. Svo ákvað ég ótrúlega fáránlegan hlut. Eftir kaffi og ristaða brauðsneið fór ég til Fjugesta og keypti sex kíló af grasfræi af tveimur tegundum og fékk lánaða sáningarvél. Síðan hraðaði ég mér heim og sáði öllu þessu grasfræi í malarbornu heimkeyrsluna að bílskúrnum á Bjargi og einnig í malarborna bílastæðið. Áður en ég fór hafði ég jafnað þetta eftir þörfum með garðhrífu. Þarna sáði ég helmingi meira grasfræi en gefið er upp en ég ætlaði líka að gera þessa sáningu ríkulega. Hlaðvarpinn á Sólvöllum á að vera grasi gróinn og fallegur.
 
Þegar ég vaknaði í morgun áttaði ég mig á að ég hafði ekki verið svo sniðugur í gær að hafa þetta svona. Ég hefði átt að gera eins og mér datt í hug áður en ég lagði af stað heim frá Vornesi að koma við á Goda rum í Kumla og halda upp á daginn. Fá mér góðan hádegisverð og borða í ró og næði vitandi að enginn erill beið mín heima. Fá mér stóra súkkulaðiköku, kladdköku, með kaffinu, og reyna að borða hana hægt og í ró og næði. Fara síðan heim og ganga hér um og eiga notalegt síðdegi.
 
Það var ekki fyrr en í morgun sem ég áttaði mig á því að ég hafði farið fram í hálfgerðu offorsi sem alls ekki var svo nauðsynlegt. Ég ákvað því að taka morguninn mjög rólega og fara í gegnum það sem ég hafði verið að upplifa undanfarið annað en að sá grasrfæi með látum.
 
Ég minntist gærdagsins meðan heimsóknartíminn í Vornesi stóð yfir. Eins og venjulega var ég á rölti svolítið um allt og heilsaði fólki og tók ýmsa tali. Ég var utandyra þegar kallað var á mig með nafni; Guðjón! viltu ekki koma og heilsa upp á eitt af smábörnunum mínum. Það var konan hans Kalla en hún var hjá honum í heimsókn. Ég hafði séð hana áður en aldrei tekið hana tali. Núna vildi hún sýna mér eitt af smábörnunum sínum.
 
Þetta smábarn var hundur á stærð við fjögurra mánaða gamlan gallovey kálf nema bara þynnri á kviðinn. Hundurinn gekk vinalega að mér og þefaði. Gríðarlega stórt trýnið var rétt undir bringsbölunum á mér þegar þessi vinalega tík teygði fram hausinn og hrærði með nösunum í skyrtunni minni til að kanna hver ég væri. Þegar ég klappaði heinni á kollinn lyfti ég hendinni í stað þess að teygja mig niður á hundshausinn. Nei, ekkert smábarn eða stofustáss fyrir mig en allt í lagi í nokkur andartök meðan eigandinn hélt í tauminn.
 
Svo kom Kalli. Hann hafði verið að sýna tólf ára gömlum syni sínum eplatré þar sem eplin lágu nánast í haugum á jörðinni. Það voru epli af því tré sem ég notaði í eplapæ og eplaköku hérna um daginn. Kalli og sonurinn eru myndarlegir menn, herðabreiðir, vel vaxnir og beinir í baki. Ég rétti úr mér og heilsaði syninum. Kalli hefur oft talað um hann. Ég nota það mikið að tala um börnin til að komast að hjarta fólks. Það er þakklátt umræðuefni og vekur upp tilfinningar. Kalli sagði mér seinna í gær að honum þætti svo erfitt að hann gæti ekki talað við soninn sem virkilega fullþroskaður pabbi. Honum fyndist hann ekki duga til þess. Hann vissi hins vegar ekki hvað syninum þætti um samræður þeirra.
 
Ég mætti Nönnu þar sem hún var með sex ára dótturinni Ídu og foreldrum sínum. Ég sá á Nönnu að hún beið eftir því hvort ég mundi koma og tala við dótturina. Auðvitað gerði ég það. Dóttirin hélt í hönd mömmu sinnar, hallaði sér upp að mjöðm hennar og horfði feimin á mig. Fyrir henni hét ég skrýtnu nafni og svo talaði ég einkennilega. Hún sagði samt nafnið sitt og mamman var svo stolt af henni litlu Ídu sinni. Afinn og amman sem sátu í sófa rétt hjá voru líka stolt af barnabarninu. Allir brostu yfir þessum stutta fundi okkar, líka mamman, en ég vissi að baki brosi hennar fannst líka mikil sorg vegna svo margs sem á undan var gengið.
 
Svo mætti ég Ara með syni sínum, fjögurra ára eða svo. Við töluðum saman. Mér finnst Ari svo oft barnalegur en þegar hann sagði að níu ára gamla dóttir sín hefði ekki viljað koma vegn þess að henni þótti svo leiðinlegt að pabbi hennar væri á svona stað eins og Vornesi, þá hvarf barnaskapurinn af andliti hans og sorgin læddist fram gegnum augun.
 
Jóna og börnin hennar tvö voru á gangi úti við og hún leiddi þau bæði. Fyrir mér voru það engar vangaveltur að þessa fjölskyldu skyldi ég tala við. Annað hefði verið ískuldi af minni hálfu. Það var þarna sem sársaukinn var mestur meðal þessara foreldra sem ég hef talað um. Jóna er í háskóla að læra um framleiðslu á náttúrulegu gasi og um annað sem viðvíkur mikilvægum, vistvænum fræðum. Hún er afar meðvituð um að framtíð barnanna hennar veltur svo mikið á því sem við mannfólkið aðhöfumst í dag. Hún er líka sterkt meðvituð um það að hún vill svo innilega verða trygg og betri mamma.
 
Þessir foreldrar sem ég hef nefnt hér eru öll rúmlega þrítug, Kalli lítið eldri, og þau eiga það öll sameiginlegt að vera að vinna sig í gegnum mikinn sársauka vegna foreldrahlutverksins. Þau eiga það líka öll sameiginlegt að vilja svo innilega verða aðrar og betri manneskjur í því hlutverki. Ég óska þessum systkinum mínum ásamt öllum öðrum systkinum sem ég eyddi helginni með í Vornesi innilega velfarnaðar á göngu sinni inn í nýjan og berti heim. Heimurinn er í mikilli þörf fyrir gott fólk í dag.
 
Morgunhugleiðingum mínum með hnakkan upp á dýnunni sem er við höfðalagið mitt er hér með lokið. Líka þessari stund við tölvuna. Morgunverðurinn er framundan og nú fyrst er eins og sumarafleysingum mínum sé formlega lokið.
 
Enn einn morgun hef ég haft kyrrlátan skóginn utan við svefnherbergisgluggann minn. Svo sannarlega fullkomlega kyrran. Ég kem til með að sakna þessa mikla laufhafs þegar vetur gengur í garð. Að öðru leyti er ég býsna ríkur maður.
 
 
Ég fór á göngu um Sólvallaskóginn eftir morgunverðinn. Einmitt þá fór að rigna hressilega og ég reyndi að komast heim á hálfgerðum hlaupum.

Laugardagskvöld á Sólvöllum

Ég sá þessa mynd hér um daginn vegna þess að það var umræða um vatnsflóð ef til eldgoss kæmi í Bárðarbungu. Ég horfði á myndina og minntist ferðar árið 1962. Við vorum nokkrir sem komum frá Reykjavík til að vinna við hlöðu og fjósbyggingu í Aðaldal. Eina helgi í júní brugðum við okkur í ferðalag og fórum fyrir Tjörnes, gegnum Kelduhverfi, í Þistilfjörð og upp að Dettifossi.
 
Þegar við höfðum farið gegnum Húsavík og héldum áleiðis út á Tjörnes mættum við norðaustan belgingi og slyddu. Þá var Tjörnesið ekki aðlaðandi, ekki heldur ekki Kelduhverfi þó að þar væri öllu skárra veður. Það má segja að ferðina upp að Dettifossi hefðum við svo farið í skítaveðri og ef ég man rétt stoppuðum við ekki sérlega lengi við Dettifoss, en við höfðum þó alla vega komið þangað og séð hvílíkum krafti þessi ölfugi foss bjó yfir.
 
Eftir þessa ferð var Tjörnesið í augum mér sem staður á hjara veraldar, kaldranalegur og ófýsilegur til að vistast á. Nokkrum árum seinna fór ég með skólabörn úr Hrísey í ferðalag um sömu slóðir. Þá skein sól mjög glatt á Tjörnesi, í Kelduhverfi og í Þistilfirði og það voru hlýindi í lofti. Eftir þá ferð var Tjörnesið ásamt örðum sveitum sem við heimsóttum í þeirri ferð með fallegri og vistlegri byggðarlögum sem ég hafði augum litið og svo má segja að það sé enn í dag.
 
*         *         *
 
 
Ég kom heim nokkru eftir hádegi í dag til að hvílast heima í eina átján klukkutíma. Ég var ákveðinn í því að ég skyldi bara rölta um kring og slappa af og búa mig þannig undir að vinna seinni hluta helgarinnar frá hádegi á morgun. Ég heimsótti brómberjariunnana mína og viti menn; fyrstu berin eru að verða svört, sjáið til vinstri á myndinni. Nú þarf einhver að fara að lesa sig til um hvernig á að fara með brómber og hvernig er best að gera gott úr þeim.
 
Ég fann fyrir sigurtilfinningu og mér fannst sem ég hefði unnið svolitið til verðlauna þegar ég sá þetta. Þessir runnar voru afmælisgjöf frá vinnufélögum fyrir rúmlega tveimur árum. Ég gróf fyrir þeim sunnan við Sólvallahúsið sumarið 2012 og gekk mjög vel frá þeim. Málið var bara það að þeir voru á algerlega vonlausum stað, ég tók þá upp vorið eftir og setti í all stórar körfur og geymdi þannig næstum heilt sumar. Síðla sumars í fyrra gróf Rósa fyrir þeim norðan við húsið og aftur var gengið mjög vel frá þeim og þeir fengu þil til að styðja sig við. Nú skila þeir ávöxtum í hlutfalli við alúðina sem þeim hefur verið sýnd.
 
 
Mér tókst ekki vel til með þessa mynd. Kannan er of framarlega á graskerinu þannig að viðmiðunin er ekki rétt. Graslkerið er í raun stærra og það kæmi mér ekki á óvart að það væri yfir sex kíló. Það er mikill og góður matur í því.
 
Hér með er ég búinn að gera eitthvað meira úr þessu síðdegi og kvöldi hér heima en bara að hanga og vera latur. Þetta blogg var gott innlegg til gera laugardagskvöldið notalegt.

Ég fann hvernig hreint og svalt loft streymdi um andlit mitt

Klukkan er einhverja mínútu yfir átta að morgni þessa miðvikudags. Nákvæmlega klukkan átta reisti ég mig upp úr rúminu. Ég vaknaði klukkan hálf sjö eftir sjö tíma ótruflaðan svefn og fann mig svo notalega vel úthvíldan. Eftir að ég kom heim í gærkvöldi renndi ég huganum yfir síðustu dagana. Ég hugsaði líka út í komandi daga. Meiningin var að ég ynni dagvinnu fram á föstudagskvöld og svo væri afleysingum mínum lokið á þessu sumri. Svo breyttist það á mánudaginn var og nú er ég í fríi í tvo daga þar til á föstudagsförmiðdag. Svo vinn ég löngu helgina.
 
Í gær kom svo dagskrárstjórinn til mín og spurði hvort ég gæti unnið þrjá dagvinnudaga í næstu viku. Ég varð fyrst alveg hljóður og svo lofaði ég að vinna einn  dag. Dagvinnudagarnir eru erfiðari. Þá þarf ég að aka bíl svo mikið fyrir vinnu í átta og hálfan tíma. Ef ég vinn kvöld eða helgi, þá ek ég jafn langt fyrir tuttugu tíma. En nú er bara gott að vera heima. Það var líka gott að vera heima í gærkvöld.
 
Ég þurfti að hreinsa hugann eftir síðustu daga. Það er misjafnt hvað aldraðir gera. Sumir helga sig golfi, aðrir spila brids, enn aðrir ferðast og dansa en ég helga mestu af tíma mínum til að nálgast fólk og hlú að sveitabænum mínum. Ég get farið í vinnuna mína og starfað þar svolítið eins og vélmenni án þess að verða fyrir áhrifum þess sem skeður í kringum mig. En ef ég held fyrirlestur eða leiði grúppu og nota þá aðferð, þá helga ég mig ekki því að nálgast fólk. Þá er ég bara innan um fólk til að fá borgað fyrir það. Þegar ég nálgast hjörtu þeirra, þá er ég með þeim.
 
Ég er með fólkinu sem er að mæta örlögum sínum og ég verð fyrir áhrifum af því. Sumir eru að horfast í augu við eigin gerðir, sumir eru að horfast í augu við að aldrei hafa verið börn, heldur foreldrar foreldra sinna. Sumir eru að horfast í augu við að hafa fengið að þola nokkuð af öðrum sem enginn skal þurfa að þola. Sumir eru að horfast í augu við þetta allt en stærsti hlutinn er að horfast í augu við eigin gerðir undir oki þess sem við köllum sjúkdóm. Alkohólismi og fíkniefnaneysla er skelfilegur sjúkdómur sem leiðir til þjáninga, sorgar og oft til dauða.
 
Að ég á mínum aldri helga svo mikið af tíma mínum með þessu fólki í staðinn fyrir að leika golf, spila brids og dansa, það er kannski ekki klókt. Kannski er ég bara óttalegur bjáni. Ef svo er, þá finnst mörgum að ég sé óttalega góður bjáni, mér líka. Svo fæ ég líka vel borgað fyrir að vera þessi bjáni og svo er ég svo mikill bjáni að enn svo lengi gef ég Sólvöllum þessa peninga að stærstum hluta.
 
Ég fylgist all náið með atburðunum í Vatnajökli og gerði það eftir að ég kom heim í gær. Mér er ekki sama um það hvernig framvindan verður. Sú framvinda er afar óráðin. Ég leit líka í vatnsmælinn minn og sá þar sjö millimetra eftir daginn. Seinna horfði ég á regn streyma niður og það hækkaði ört í mælinum. Hér eru samt engin skýföll eða flóð. Sólvellir eru þlíka þannig í sveit settir að hér geta ekki orðið vatnsflóð. Ég kveikti upp í kamínunni og það logaði svo undur fallega í henni. Ég talaði við Pál bróður á skype og hann horfði líka á hvað loginn var lifandi og ég hefði gjarnan viljað að hann hefði fundið fyrir ylnum með mér.
 
Ég horfði á hvernig all grænt hefur verið að taka við sér eftir regn síðustu daga, hvernig allt það fallega græna hefur orðið enn þá fallegra. Hvernig síðustu gróðursetningarnar mínar eru farnar að taka við sér og breiða faðminn móti umheiminum. Skógardúfurnar ræddu sín á milli á sínu róandi tungumáli. Ég las um það fyrir nokkru að skógardúfurnar segi hu-hu. Mér finnst þær segja grú-grú en það er kannski bara af því að ég er svo laglaus.
 
Þegar ég var búinn að fara mína hefðbundnu baðferð klukkan hálf sjö í morgun lagði ég mig aftur og lét hnakkann hvíla á dýnukantinum sem ég nota fyrir höfðagafl. Ég vildi láta hugann reika. Til að losna við Vornes og vinnuna lét ég hugann reika til fólksins þar, fólksins sem hefur verið að fella tár vegna svo margs. Ég sá fyrir mér andlit. Ég minntist orða úr bókinni Heimsljós. Á bænum Fótarfæti undir Fótarfæti voru aldraðir niðursetningar. Ólafur Kárason ljósvíkingur var bara barn þar, en hann var líka niðursetningur.
 
Svo kom einhver inn í svefnskálann þar sem niðursetningarnir sváfu ásamt ýmsu öðru fólki. Sá sem inn kom hrekkti einn af öldruðu niðursetningunum og hann  fór að gráta. Þá sagði Ólafur Kárason ljósvíkingur: Það er svo erfitt að sjá gamalt fólk gráta. Það fólk sem ég sé gráta er að gráta sig til nýs og betra lífs. Þar með vék ég þessum þætti hversdagsleikans til hliðar og hugrenningarnar héldu áfram.
 
Ég fann hvernig hreint og svalt loft streymdi inn um loftventlana og lék um andlit mitt ofan við ullarvoðina. Ég heyrði kyrrðina bara eins og hún getur best látið utan að skógardúfurnar höfðu á ný tekið upp samræður kvöldsins áður. Þær sögðu grú-grú. Þær sögðu við mig að þær hefðu það gott og að allt væri eins og það ætti að vera hjá okkur hér á Sólvöllum. Mér fannst gott að heyra það. Skógardúfurnar eru góðir sambýlingar, þær boða bara gott með grú-grúinu sínu og þær eru ögn ósýnilegir boðberar þess að kyrrlátt lífið ríkir hér allt um kring.
 
Enn ein mynd, ennþá af því sama, myndin af því sem ég er búinn að hafa fyrir augunum þann klukkutíma sem ég hef verið að skrifa þetta. Það er kominn síðsumarblær á skóginn. Þeir sem þekkja það sem er niður í horninu til vinstri geta væntanlega fengið verðlaun þegar líður að kvöldi -rabarbarapæ með vanillusósu.

Kaffisopi og kökubiti við Hjälmaren

Ég hefði átt að koma heim úr vinnunni upp úr klukkan eitt í gærdag en ég kom heim um klukkan fimm trúi ég. Það er orðið mun fleira fólk innskrifað í Vornesi nú en var hér á árum áður þegar núverandi starfsmannafjöldi var ákveðinn. Svo fjölgar sjúklingunum en ekki starfsfólkinu. Ég fer ekki í Vornes til að vera þar, ég fer þangað til að gera það sem þarf að gera. Eftir að hún kom konan sem tók við af mér í gær hafði ég alvarlegt viðtal við sjúkling. Þannig getur teygst á tímanum en meðferðin verður líka að virka. Ég get ekki bara ypt öxlum og hugsað að þetta fær sá að taka höndum um sem kemur. Þá er ég lélegur. Svo er sjaldan í þessu starfi hægt að vera viss um hvað er alveg örugglega hárrétt og hvað ekki.
 
Því var alveg sérstaklega gott að koma heim í gær eftir að hafa viðrað hugsanirnar á leiðinni. Ég var búinn að vita lengi hvernig næsta vika lítur út á vinnuskemanu mínu, síðasta vikan í sumartörninni, og ég var vel tilbúinn að takast á við þá viku. Síðan get ég bara breitt út faðminn og boðið öllum tíma í heiminum að koma til mín og umlykja mig. Ég er tilbúinn að vera með.
 
Brómberin höfðu dökknað frá því fáeinum dögum áður sem gaf von um að þau nái að fullþroskast, nokkur bláber voru tilbúin að fara á diskinn minn, fáein jarðarber einnig og síðustu gróðursetningarnar mínar litu vel út. Það er mikilvægt að þær nái að ganga frá sér fyrir haustið. Allt var í góðu lagi. Ég var svolítið tómur í höfðinu en það var allt í lagi því að ég var kominn heim til mín á Sólvelli. Svo leið kvöldið fljótt. Ég renndi huganum yfir liðna viku og það var eins og hún hefði horfið í venju fremur mikið annríki. Þá tók ég upp nýja símann minn og leit á nýjustu myndirnar þar. Já! einmitt! þar gat ég rifjað upp ýmislegt sem vikan hafði boðið upp á. Ég sá myndir sem ég ákvað fyrr í vikunni að nota.
 
Þegar ég var á leiðinni heim um hádegi á fimmtudaginn var lá leið mín gegnum Hampetorp eins og næstum alltaf áður í þau nokkur þúsund skipti sem ég hef farið heim frá Vornesi. Við ákveðin vegamót sá ég fjórar konur bíða eftir að ég færi hjá svo að þær gætu haldið áfram ferð sinni. Mér fannst þær eitthvað svo kunnuglegar en ég var á kafi í hugsunum mínum og velti því ekkert meira fyrir mér. Svo hringdi síminn í brjóstvasa mínum.
 
Ghita var í símanum og spurði hvort ég virkilega hefði ekki þekkt þær. Ég hálf skammaðist mín. Þetta voru konurnar sem Valdís borðaði með í hverjum mánuði í mörg ár og þar af mjög oft hér heima. Þegar ég sótti Valdísi heim til þeirra var mér líka svo oft boðið að koma inn því að þær vildu endilega bjóða mér upp á eitthvað líka.
 
Þær voru með nestið sitt á leiðinni til að hafa smá kaffistund saman á borði við strönd Hjälmaren. Viltu koma með og fá kaffi með okkur spurði Ghita. Auðvitað vildi ég það. Svo sneri ég við og fór til við móts við þær þar sem ég fékk að vita hvar borðið væri. Svo fór ég á bíl, þær vildu ganga en ég fékk þó að taka nestið þeirra.
 
Kaarina, Inger, Ghita og Margareta sem er að hella kaffinu. Margareta á heima í Hampetorp og var því gestgjafinn í þetta skipti. Þessar konur hafa ekki sloppið áfallalaust gegnum lífið og þær urðu mikið sorgmæddar þegar Valdís kvaddi hópinn. Þær skrifuðu fallega grein um hana í Örebroblaðið. Ég talaði um það við þær þarna við borðið að eftir næstu viku væri ég tilbúinn að bjóða þeim heim og vera dagstund á Sólvöllum. Það var eins og að fyrir þeim væri það ákveðinn hluti af lífinu. Ég skil það alveg. Svo ætla þær að stinga upp á degi. Þær hafa líka gaman af að hitta Rósu og fjölskyldu og því hef ég í huga að bjóða þeim að koma þegar þau eru stödd hér. Þessar konur eiga það skilið að ég reynist þeim vel. Þær reyndust Valdísi vel.
 
Við vorum stödd á fallegum stað við Hjälmaren. Hátt sef óx í fjöruborðinu og fjöldi skógi vaxinna eyja var úti fyrir í mismikilli fjarlægð. Á bryggju nærri borðinu birtist allt í einu stór snákur sem tók sig þvert yfir bryggjuna og flúði svo í vatnið. Hann virtist vera dauðskelkaður í nærveru okkar. Ekki var kannski alveg laust við að einhver í hópnum óróaði sig vegna nærveru snáksins. Svo þegar við vorum búin að drekka kaffi og borða af brauðinu sem hún Margareta bauð upp á, þá gat himinninn ekki lengur haldið í sér. Það fór að rigna og við tókum saman í flýti og héldum af stað til baka.
 
Nokkra faðma frá borðinu þar sem við höfðum setið er baðstofa og áfast við baðstofuna er þetta viðarskýli. Þarna fórum við inn, ég og þessar fjórar vinkonur Valdísar. Hvað svo sem um útlitið þarna inni er að segja, þá vorum við í skjóli. Skúrin gekk fljótt yfir og við héldum áfram, ég heim og þær heim til Margareta.
 
Ég hafði hlakkað til að koma sem fyrst heim, en ég var ánægður með þetta þar sem þessar konur sem hafa fengið að borga hærri toll til lífsins en margur annar, þær virtust vera ánægðar með að hafa hitt mig þarna þessa stund. Verðmætamat fólks er misjafnt og sumir sjá ríkuleg verðmæti í því smáa sem öðrum kannski þykir ekki svo mikið til um. Það er fallegt víða við Hjälmaren og sú fegurð getur gert kaffisopa og kökubita gómsætari en ella.
 
 
Það er hæglát rigning. Nú ætla eg að birta þetta og svo ætla ég í hóflega fínar buxur og stígvél. Svo ætla ég út og skoða og spekúlera. Og endilega ætla ég að fara einn hring um skóginn og þar ætla ég að spekúlera líka. Þegar ég kem til baka inn ætla ég að halda áfram að spekúlera enn um stund. Verðmætamat mitt segir að þetta sé all nokkuð. Svo fer ég í vinnu á morgun, mánudaginn í síðustu viku sumartarnarinnar á þessu ári.
 

Einn magnaður morgun á Sólvöllum

Ég veit að ég sofnaði um klukkan hálf tólf í gærkvöldi. Eitthvað rumskaði ég eftir miðnættið en ekki meira en að ég man það óljóst. Svo vaknaði ég klukkan sex, pissaði og halaði niður. Svo gekk ég inn og drakk eitt glas af vatni úr grænu, hrjúfu glasi sem Valdís keypti fyrir meira en fjörutíu árum. Ég lagði mig aftur vitandi að ég var einn í húsinu, kyrrðin var ótakmörkuð þangað til ruslabíllinn kom upp úr klukkan sex. Þá mundi ég eftir því að ruslatunnan mín stóð heima við geymsluna norðan við og þar með mundi hún ekki verða tæmd að þessu sinni. Ég hafði gleymt að fara með hana út að götu. Það gerir ekki svo mikið til því að mitt rusl er ekki svo fyrirferðarmikið og allt sem rotnar fer í moltukerið út í skógi.
 
Þegar ég dró ullarvoðina upp að höku datt mér hug munurinn á aðstæðum fólks í lífinu. Hér lá ég eins og malandi köttur og hafði það hversu gott sem helst. En í gær, áður en ég sofnaði í stólnum yfir níu fréttunum, hafði mér tekist að sjá þær hörmungar sem fótum troða tilvist þess hluta mannkyns sem er svo óheppið að hafa fæðst í vissum heimshlutum. Ég fann fyrir miklu þakklæti en vissulega hafði ég ekki gert neitt til að hafa það svo mikið betra en þjáða fólkið. Ég var bara svo heppinn að hafa fengið að fæðast í þeim heimshluta sem ég hafði fæðst í. Það var ekki ég sem stýrði því. Svo velti ég mér á vinstri hliðina, hliðina sem ég hrýt ekki á.
 
Svo hugsaði ég allt í einu: ætli ég hafi sofnað? Nei varla. Ég leit á klukkuna sem hangir yfir dyrunum inn í herbergið mitt og hún var hálf níu. Jú, ég hlaut að hafa sofnað þar sem rétt áðan var klukkan bara rúmlega sex. Ég fór fram, aðhafðist það sama og fyrr um morguninn, drakk vatn úr sama græna glasinu og lagði mig aftur. Þá vissi ég að nágrannakallarnir sem fara í morgungönguna klukkan átta voru staddir á að giska í miðbænum í Nalaví.
 
Það er nær óhugsandi að ég fari á fætur án þess að biðja morgunbænina mína og þá þakka ég líka fyrir þær gjafir sem mér hafa hlotnast. Bænin varð slitrótt þar sem hugsanirnar frá klukkan sex stigu fram. Ullarvoðina hafði ég aftur dregið upp að höku og leið afar vel. Í gær þegar ég horfði ég á sjónvarpið áður en ég sofnaði í stólnum hafði ég séð fólk ganga í brennheitum sandi, hungrað og þyrst og eflaust með blæðandi sár á fótunum. Það voru skelfingu lostnir menn og konur og grátandi börn, þau sem enn höfði kraft til að gráta. Í sömu frétt sá ég grátandi börn sem hölluðu sér upp að deyjandi mæðrum sínum. Svo beið ísköld nóttin eftir brennheitan daginn. Þar var ekkert klósett að pissa í eða hala niður úr, ekkert vatn í krana eða grænt glas með minningar til að drekka úr.
 
Ég minntist gönguferðar sem ég fór að morgni til með börnin mín upp á ey þegar við bjuggum á Bjargi í Hrísey. Ég leiddi Rósu og Kristinn heitinn og líklega hefur Valgerður leitt Rósu líka. Valdís var heima þar sem allir áttu að fá eitthvað gott að borða eftir gönguferðina. Við vorum öll ánægð og börnin léku á als oddi, sögðu frá og töluðu um það sem fyrir augun bar. Svo allt í einu steig Kristinn niður í hrímaðan poll milli þúfna og varð blautur í fótinn. Þar með hélt ég að gönguferðin væri eyðilögð þar sem honum yrði kalt á fætinum. En nei. Meðan á gönguferðinni stóð sagði hann hvað eftir annað frá því hvernig það var að stíga í pollinn. Hann sagði frá hljóðnu sem hafði heyrst þegar ísinn brotnaði, hvernig sprungurnar litu út í ísnum og hvað honum hafði orðið illt við.
 
Í eyðimörkinni í gær hafði enginn poll til að stíga í. Kannski eins gott þar sem mannfjöldi hefði troðist undir við þann poll og margir látið lífið. Þannig er misræmið í þessum heimi. Ég heyrði sagt um daginn að ástandið væri afleiðngar af tilveru nokkurra manna sem tækist að draga með sér hvort sem heldur er þjóðir eða þjóðarbrot og þessum mönnum tækist að eitra hugi fylgjenda sinna. Svo tækist þeim að framfylgja voðaverkum sínum og skapa þjáningar sem ekki er hægt að lifa af. Svo lá ég ennþá í rúminu mínu og klukkan var að ganga tíu að morgni. Ég hafði það hversu gott sem helst en hugur minn var á mikilli ferð. Ég kem til með að fá óvenju mikið útborgað um og undir næstu mánaðamót og ég hét mér því að láta meira af hendi rakna en þær föstu greiðslur sem ég læt af hendi til þeirra sem með þjáningu berjast við að halda lífi. Lítið góðverk en smá viðleitni.
 
Ég fann mig hafa óvenju mikla ástæðu til að þakka fyrir þær gjafir sem mér hafa hlotnast og svo ákvað ég að fara út á litlu veröndina utan við svefnherbergisgluggann minn. Svo gerði ég, tók dýnu af nagla á húsveggnum og lagði í notalegan stól og settist. Þegar Rósa og fjölskylda flutti í íbúð sem ekki hafði svalir fékk ég þennan stól frá þeim sem núna stendur á veröndinn minni. Til öryggis hafði ég myndavélina með mér.
 
Trén þarna lengst uppi og lengst úti eru mjög há. Þau eru alla vega miklum mun hærri en þær bjarkir sem hafa verið felldar næst húsinu og eru sautjan til tuttugu metrar. Þau vögguðu í austlægum vindi, laufverkið skrjáfaði, greinar vinkuðu hér og þar, sólin varpaði breytilegu ljósi á þetta græna haf og niður á veröndinni hjá mér var logn og yndisleg tilvera.
 
Garðkannan stendur full af vatni við brómberjarunnana en nú er vætutíð. Í verslun inn í Marieberg finnst nóg af efni sem ég þarf að kaupa til að geta sett meiri stuðning við runnana. En það skeður ekki nema ég geri það. Yfir rabarbaranum þar til hægri við brómberjarunnana standa tveir litlir hlynir sem taka næringu frá honum. Ég þarf að taka þá en ég tími því ekki. Inni á bakvið eikarstofninn til hægri við rabarbarann sá ég grein vinka mér í vindinum. Sú grein er hluti af beykitré sem ég gróðursetti árið 2007. Ég þekki þetta. Síðan vinkaði mér önnur grein. Hún er á hlyninum sem er bakvið litla malarsvæðið þar sem mig langar að setja borð með sætum eða hreinlega góða stóla til að sitja á þegar sólin skín sem sterkust. Mér finnst ég líka þurfa að taka þennan hlyn en ég tími því ekki. Sólin skein nokkur augnablik á vissa flekki, síðan á aðra og það er bara ekki hægt að ná svona á mynd. Það verður að upplifa það.
 
Það myndaðist skuggi á einum stað og sólin lýsti á aðra og fann sér líka smá glugga til að komast alla leið niður á grasið. Hægra meginn við litla birkitréð fyrir miðri mynd sér inn á stíg sem ég gerði fyrir nokkrum árum með því að grisja tré og flytja mold í ótölulegum fjölda af hjólbörum. Það er völundarhús af stígum þarna skammt undan. Suma morgna er bara best að sitja í stólnum á veröndinni og aðra morgna er svo gott að rölta um þessa stíga.
 
Skýin eru núna farin að svífa frá suðri í stórum og litlum flákum, birtan er afar breytileg og það er hætt við að það muni rigna all hressilega innan tíðar. Ég hef ekki setið svo mjög lengi við tölvuna að þessu sinni enda var hugurinn búinn að vera á fleygiferð áður en ég byrjaði að skrifa.
 
Það var hringt frá Vornesi um miðjan dag í gær og ég beðinn að vinna annað kvöld. Ég hafði hlakkað mikið til að vera heima í fjóra sólarhringa í viðbót en ég bara gat ekki sagt nei. Rúmlega einn þessara sólarhringa fer því í Vornes. Kannski það sé hluti ástæðunnar til þess að ég hef svo mikið að þakka fyrir í morgunbæninni minni. Ég hef það alla vega afar, afar gott samt. Og ég þarf að muna eftir að láta aukalega af hendi rakna það sem ég hef lofað um mánaðamótin til þeirra sem fá að líða meira en ég mundi lifa af.

Sumir dagar eru betri en aðrir dagar


Hannes Guðjón, Rósa, Jónatan tengdasonur og Valgerður.
 
Það var rétt fyrir 1990 sem Jónatan tengdasonur var framleiðslustjóri í Glit sem var staðsett upp á Höfða í Reykjavík og framleiddi leirmuni. Þá var hann meðal annars að þróa einhverja litunaraðferð á framleiðsluna, nokkuð sem ég kann ekki að segja frá. Síðan eru ár og dagar og Jónatan mun hafa leitað nokkuð að svona hlutum svona rétt til að eiga til minningar um þennan kapítula í lífi sínu. Ég kann ekki að segja frá því hvernig það hefur gengið.
 
Laxå eða Laxá er lítill bær rúmlega tuttugu kílómetra sunnan við Sólvelli. Þar er verslun sem heitir Linne og Lump og við höfum verslað þar nokkuð Rósa og Pétur og ég. Ég hef keypt þar notuð tekkhúsgögn sem voru vinsæl um 1960. Meðan Valgerður og Jónatan voru hér skruppu þau öll þarna suðureftir en ég var heima til að sýsla við mitt.
 
Mér skilst að Jónatan hafi verið á rölti um verslunina án þess að vænta þess að nokkuð sérstakt væri í uppsiglingu. En þó var það svo að það var nokkuð óvænt í uppsiglingu. Þessi skál blasti allt í einu við honum og þessi skál var einmitt eitt af því sem hann vildi svo gjarnan finna. Hún er einn af þeim hlutum sem framleiddir voru meðan litaþróunarverkefnið stóð yfir og það eru hvítu deplarnir innan á hliðum skálarinnar sem verið var að þróa. Eftir því sem Jónatan sagði þegar hann sýndi mér skálina þá var það erfiðleikum bundið í byrjun að fá þessa depla jafna yfir allan flötinn.
 

Svo þegar Jónatan hvolfdi skálinni kom í ljós framleiðslumerki Glits þannig að þessi skál er eins ekta og hugsast getur. Hér í Svíþjóð eru sjónvarpsþættir þar sem fólk kemur með gamla hluti til að sýna sérfræðingum, fá að heyra eitthvað um sögu þeirra og vita hvers virði þeir eru. Þessir sérfræðingar eru alveg sérstaklega hrifnir af því þegar svona merki eru á hlutunum og það getur haft áhrif á það hvers virði þeir eru.
 
En sem sagt; Jónatan tengdasonur kom í verslun í litlum bæ lengst út á landi í Svíþjóð og fann þar hlut sem hann hafði unnið við að þróa fyrir meira en 25 árum.
 

Kallinn orðinn elliær

Það er auðvitað einfalt að viðurkenna það að þegar ég er búinn að vera rúman sólarhring í Vornesi, að þá er alveg frábært fyrir mig að halda út í sænska sumarið, frjáls eins og fuglinn, og gera það sem mér sýnist. Ég heimsótti fólk á leiðinni heim, tvær fjölskyldur. Ég ætlaði að heimsækja fleira fólk, fólk sem ekki var heima. Ég á von á að golfvellirnir hafi dregið suma til sín í dag með golfkylfurnar sínar og það sem því tilheyrir. Veðrið býður ennþá upp á það. Ég þori ekki að prufa golfið. Ég má ekki við því að smitast af golfáhuga. Þá mundi það fljótlega verða golfdella og mikið yrði ég leiðinlegur talandi um golf alla daga. Nóg er nú fyrir.
 
Svo kom ég heim í sælureitinn. Það hafði rignt sex millimetra í nótt og þakklátur var ég fyrir það þó að það hefði mátt vera sex sinnum meira. Ég byrjaði á því að rölta um með garðkönnurnar til að gefa gróðrinum mínum smá ábót á úrkomuna. Ég týndi ber í eftirrétt handa mér og ég hugaði að heilsufari í skóginum. Því mesta virtist líða vel þrátt fyrir þurrkana. Gróðurinn hlýtur að geta sett sig í einhverjar þurrkstellingar sem kemur í veg fyrir að til dæmis tré þorni upp. Annars væri mikið búið að fara illa. Hann Arnold bóndi segir að þetta sé þurrasta sumarið síðan 1975 en þó sé sá munur á að þetta sumar sé búið að vera hlýrra. Gras er að vísu gulnað á vissum svæðum en það er þó mesta furða.
 
Svo fór ég inn í matargerð.
 
Zucchini með síldinni, það hljómar kannski ekki matreiðslumannslega en ég veit að hvort tveggja er gott fyrir kroppinn eftir vinnuúthald. Zucchinið er úr matjurtagarði Rósu og afar vistvænt ræktað. Það er gott með pipar og steikt í smjöri. Einfalt. Svo borðaði ég zucchini og síld en þó meira af zucchini.
 
Ég er ekki enn farinn að borða berin. Eftir matinn fór ég fyrst út og vökvaði meira, spekúleraði og talað svo við vingjarnlegan gróður. Það lítur út fyrir að það verði nokkrir svona skammtar af jarðarberjum næstu daga eða jafnvel vikur. Sama með bláberin. Þegar ég verð búinn að blogga ætla ég að borða þetta með slettu af ís. Kannski hita ég lögg af kaffi.
 
Ég tók ekki mynd af jarðarberjaplöntunum en hér eru bláber næstum á stærð við sykurmola. Þau get ég tínt eftir einn eða tvo daga.

Þessi verða líklega góð um næstu helgi. Ég verð að eiga ís um næstu helgi líka og kaffi til að renna á könnuna.
 
Ef það verður sæmileg sól á næstu dögum, helst á næstu vikum, þá verða líka brómber. Ég þekki lítið til brómberja en veit þó að það þurfa að vera mikil sólarsumur ef það eiga að verða brómber. Vinnufélagar mínir gáfu mér tvo runna þegar ég varð sjötugur en það er eitt af mörgu sem ég er statt og stöðugt að segja frá.
 
Svo fer títuberjatíminn að ganga í garð. Títuberin vaxa best á svæðum þar sem skógur hefur verið felldur og hann Ingemar nágranni er búinn að sýna mér bestu títuberjasvæðin. Þá verður búskapur í frystinum get ég lofað. Það vex mikið af vítamínum og mínerölum og antíoxidöntum á Sólvöllum og nágrenni. Elli kerling hlýtur að eiga  erfitt með að komast að fólki á svona svæðum.
 
Já, alveg rétt. Ég tíndi niður síðustu eplin áðan. Svo þarf ég að fá uppskrift að deigi til að hafa í eplapæið. Reyndar duga eplin ekki þannig að ég ætla að nota rabarbara í pæið líka. Þá líklega heitir það blandpæ. Ávextirnir skulu alla vega vera frá Sólvöllum og best ef haframjölið verður af ökrunum í Krekklingedalnum.
 
En nú er ég held ég að verða elliær í skrifum mínum. Það er tími kominn á eftirréttinn en ég held að ég sleppi kaffinu. Gangi ykkur allt í haginn.

Mörg orð um lítið efni

Ef allir athafna- og framkvæmdamenn mundu lýsa í skrifuðu máli öllu sem þeir afreka um dagana á sama hátt og í jafn mörgum orðum og ég lýsi því litilræði sem ég kemst yfir, þá yrði brátt ekkert pláss á jörðinni fyrir nokkuð annað. Þetta hefur oft komið upp í huga mér og ég hef stundum séð fyrir mér andlit fólks sem hefur aðhafst gríðar mikið en ekkert skrifað um það. Svo sit ég hér og skrifa um það sem varla sést
 
Ég hef ekki verið frekur á sætin í farþegaþotunum sem flytja fólk til allra landa heimsins og ég hef ekki á þann hátt skilið eftir mig mikinn koltvísýring í háloftunum. Ég er svo fátækur á þessu sviði að það er nánast einungis til og frá Íslandi sem ég hef ferðast milli landa á síðustu tuttugu og fimm árum. Ég hef því lítið séð af heiminum. Ég tel mig hins vegar sjá það mesta heima hjá mér, bæði stórt og smátt. Samt þekki ég bara örfáa fugla og fleira gæti ég talð upp sem ég þekki ekki í kringum mig. En ég hins vegar sé það.
 
Sólvellir hafa fengið nánast allan frítíma minn í mörg ár. Þar sem mér hefur ekki legið svo óttalega mikið á hef ég látið eftir mér að byggja það mesta sjálfur. Ég get leyft mér að segja, trúi ég, að ég hafi líka gert það mesta sjálfur af svo mörgu öðru sem hefur verið gert hér. Því finnst mért að ég eigi þennan stað. Hann er eiginlega svolítð af hjarta mínu -af lífi mínu. Hann hefur, eins og ég sagði, fengið að eiga frítíma minn, peningana mína líka, mikið af hugsunum minum og hér hef ég upplifað marga ánægjustundina með öðrum, bæði áður en ég varð einn og líka eftir að ég varð einn. Oft hef ég líka verið ánægður aleinn.
 
Vissulega hef ég fengið hjálp. Árný mágkona mín og Gústi svili minn hafa verið hér og málað panel og klofið eldivið. Valgerður dóttir mín og Jónatan hafa verið hér og hjálpað til, klofið við og kennt mér að matreiða. Kristinn dóttursonur hefur hjálpað mér og deilt með mér hugmyndum um það hvernig hægt sé að gera eitt og annað á Sólvöllum. Mest hafa þau þó hjálpað mér Rósa dóttir mín og hann Pétur, enda eru þau nálægust. Þau hafa líka séð ástæðu til að eyða hér mestu af sumarfríum sínum í mörg ár vegna þess að þeim líður vel hér.
 
Hjálp þeirra hefur verið fólgin í því að vinna að mörgu þegar þau hafa verið hérna en kannski hefur stærsta hjálp þeirra fólgist í því að standa með mér í öllu sem ég hef gert hérna. Þau hafa líka hvatt mig og sagt mér að ég sé ekki að gera neina vitleysu. Mestur hluti kvöldmatarins í kvöld kom úr matjurtagarðinum hennar Rósu. Ég hef fengið marga delluna gegnum árin. Til dæmis að púla við lóðina okkar í Hrísey, all langt tímabil fór í inniblómadellu, í ljósmyndun og fleiri voru dellurnar mínar. Pétur tengdasonur sagði fyrir nokkrum árum að besta dellan sem ég hefði fengið væri Sólvellir. Þá umsögn þótti mér mikið vænt um.
 
Mér þótti gaman að því þegar Valdís var að sýna fólki hvað við hefðum verið að gera hér, segja frá því hvernig eitthvað hefði verið áður og hvernig það hefði gengið að framkvæma hlutina. Hún var með í mörgu, meira að segja að hjálpa til við að fella tré út í skógi sem við byggðum svo úr.
 
Það eru rúm sjö ár síðan ég hætti að vinna og varð ellilífeyrisþegi. Svo hætti ég ekki að vinna. En ég hef fengið að vera með um margt á þeim tíma. Á þeim tíma hef ég fylgst með mörgu flakkandi, litlausu og skelfdu augnaráðinu breytast í að verða fallegt, verða öruggt með sig og mæta augnaráði annarra án þess að hvika. Ég hef á þessum tíma fengið að heyra margar fallegar sögur um það þegar börn fara að nálgast foreldra sína á ný, treysta á nærveru þeirra og þora að gleðjast með mömmu eða pabba eða hreinlega hvort tveggja. Þetta með börnin er nú það fallegasta sem talað er um í meðferðinni.
 
Ég hef í þessari vinnu minni eftir að ég varð ellilífeyrisþegi hitt marga sem eru þakklátir og nota mörg tækifærin til að koma því á framfæri. Mitt líf á ekki að ganga út á það að fólk sé mér þakklátt en það segir þó að eitthvað jákvætt hefur áunnist. Ég verð að viðurkenna það að allar þessar jákvæðu upplifanir hafa gert ellilífeyrisárin mín vermætari og fyllt þau með fegurð og mikilli lífsmeiningu.
 
*          *          *
 
Ég var að gróðursetja kirsuberjatré í dag, framhald á vinnunni sem ég byrjaði á í gær. Ég ætlaði að láta það ganga fyrir öðrum störfum að klára leikturninn hans Hannesar en þegar lifandi ávaxtatré er komið heim að húsvegg, þá er ekki um svo margt að velja. Næsta verkefni verður því að vera turninn. Ég þurfti að taka mér smá hvlild í dag og sló þá upp á Google "að rækta kirsuberjatré". Hjá nokkru sem heitir "odla.nu" fann ég texta þar sem það stóð að það að fá sér kirsuberjatré væri afar góð fjárfesting. Því væri mikilvægt að vanda vel til gróðursetningarinnar. Það var sniðugt að sjá því að ég hef ekki vandað mig eins við neina gróðursetningu á Sólvöllum og þessa. Ætli það sé ekki búið að fara um eitt og hálft dagsverk í það að gróðursetja þetta eina tré.
 
Enga holu fyrir eitt tré eða einn runna hef ég grafið svo stóra sem þessa og enga holu hef ég fyllt aftur með jafn góðum jarðvegi og þessa. Meira að segja 45 lítrar af hænsnaskít fóru í hana, nokkuð sem ræturnar komast ekki í fyrr en eftir einhver ár.
 
Þessa hálfbræður fékk ég upp úr holunni þar sem plómutréð hafði staðið og meira en þrjár hjólbörur af minna grjóti. Þeim minni, þeim röndótta, lyfti ég með naumindum en hinn var mér fullkomlega ofviða. Ég kann ráð við því. Ég segi hálfbræður vegna þess að þeir eru svo gersamlega ólíkir þessir steinar. Samt lágu þeir hlið við hlið.
 
Tréð er vel frágengið en verkinu er ekki lokið. Ég verð einhverja klukkutíma að taka til eftir mig en það fær að bíða þar til eftir sólarhringinn sem ég fer til að vinna á morgun.
 
Svona líta Gårdebo kirsuberin út, einmitt það sem ég var að gróðursetja.
 
Svona getur plómutrjástofn litið út að innan.
 
Það fór líka svo núna eins og svo oft áður að ég gat ekki neitað mér um að tala helling um það pínulitla, tala um það sem ég hef verið að gera í dag. Gangi ykkur allt í haginn.

Að gróðursetja kirsuberjatré

Í blogginu fyrir neðan skrifaði ég um ólíkar athafnir okkar Bernts. Að skrifa um það sem ég er að gera segir bara hálfa söguna. Myndir segja hinn helminginn.
 
Þarna gefur að líta kirsuberjatréð sem ég fékk í dag. Það er nú bara þannig að þetta tré er komið og þá verð ég að vera ábyrgur fyrir því að fara vel með það.
 
 
Næst til hægri er nýtt plómutré sem á að taka við hlutverki gamla plómutrésins sem stendur lengra frá við hliðina á hjólbörunum. Hann Arnold bóndi ætlaði að lána honum Jónasi syni sínum dráttarvél og það var meiningin að Jónas velti gamla trénu og svo ætlaði ég að grafa fyrir nýja kirsuberjatrénu á sama stað. En Jónas er ekki heima og kirsuberjatréð er komið. Hvað gera bændur þá?
 
 
Mér datt ekki í hug að gefast upp og gróf hálfs meters djúpan skurð í kringum gamla plómutréð. Síðan lét ég renna vatn í skurðinn og á kökuna kringum tréð, minnkaði kökuna með haka og skóflu og byrjaði að mjaka trénu til hliðanna, róa því fram og til baka. Þetta skotgekk ekki og að endingu varð ég svangur og þreyttur og fór inn að borða.
 
 
Svona getur hráefnið í kvöldmat á Sólvöllum litið út. Zucchiniafbrigði sem ég man ekki hvað heitir.
 
 
Og svona lítur það út niðurskorið. En kannski þekkja þetta allir þannig að ég þarf ekki að vera að sýna það. En alla vega, ég steikti helling af því og borðaði með síld.
 
Síðan fór ég út á ný og nú var farið að bregða birtu. Fílefldur gekk ég í skrokk á trénu, ók því til hliðanna, bleytti jarðveginn og plokkaði mold af rótunum, aftur, acftur og aftur. Svo varð dimmt en veðrið var alveg indælt. Þráinn í mér jókst eftir því sem kvöldhúmið lagðist yfir byggðina og ég fann að mér miðaði. Eitthvað var að gefa sig.
 
 
Tréð lagðist á hliðina og málið var leyst. Á morgun geng ég á vetvang með keðjusögina og brytja tréð niður og eftirleikurinn verður léttur. Hefði ég hins vegar byrjað á að saga tréð niður við rót hefði ég ekki fengið upp rótina án erfiðleika. Svona er það oft á Sólvöllum. Þolinmæðin þrautir vinnur allar. Nú er svo sannarlega kominn hvíldartími. Það verður gaman að ganga til verka á morgun.
 

Ólíkar athafnir manna

Hann Bernt var mikill vinur hans Kjell vinar míns sem lést fyrir nokkrum árum. Meðan Kjell var á lífi hittumst við Bernt einungis í ein tvö eða þrju skipti. En eftir andlát Kjell höfum við orðið góðkunningjar. Bernt á sumarhús eina þúsund kílómetra norður í landi og ég á myndir sem ég fékk frá Kjell þar sem þeir félagar ásamt fleirum eru að vinna við byggingu þessa sumarhúss.
 
Við Bernt fylgjumst talsvert með hvor öðrum á feisbókinni og því veit ég nokkuð hvað hann aðhefst þarna norðurfrá núna. Suma daga leggur hann fiskinet í stöðuvatn sem er skammt frá bústaðnum og eldsnemma morguninn eftir fer hann til að vitja um netin. Síðan gerir hann að fiski og ef hann hefur ekki tekið netinn upp þegar hann vitjaði um um morguninn fer hann aftur eldsnemma morguninn eftir til að vitja um á ný og svo hefst ný aðgerð.
 
Suma daga fer hann í langar gönguferðir með bakpoka og sefur þá gjarnan við frumlegar aðstæður. Aðra daga ekur hann langar, langar leiðir til að taka þátt í hreindýraslátrun og stuttu síðar er hann kominn út á vatnið á ný með netin sín. Hann virðist vart stoppa og ég skil hann ekki af hverju hann sest ekki einstaka sinnum í góðan stól og horfir á skýjafarið eða fuglana sem hrærast í kringum hann. Hann hefur hvatt mig til að koma í heimsókn en ég er ögn smeykur við að hann mundi gera alveg útaf við mig í öllu annríkinu sem hann mundi telja að mér mundi þykja svo skemmtilegt. En ég segi bara; gleymdu því að mér mundi þykja gaman að því að fara í hreindýraslátrun.
 
Ef hann Bernt sæi til mín mundi hann verða ekki minna hissa á athöfnum mínum hér á Sólvöllum. Áður en ég fór til Íslands um 20. apríl var ég búinn að gróðursetja tvo sólberjarunna, tvo rifsberjarunna og tvo stikilsberjarunna. En mér fannst það ekki nóg þannig að ég bætti við tveimur hindberjarunnum og fjórum stórum amerískum bláberjarunnum. Svo fór ég til Íslands í sigurvímu vegna þess að ég þyrfti ekki að gróðursetja meira af berjarunnum á Sólvöllum.
 
Eftir heimkomuna frá Íslandi leit ég inn hjá fólki í Fjugesta og fékk þar mjög gott illiblómasaft. Meðan ég var að drekka saftið varð mér litið út um glugga og sá þá að þar var stærðar svæði í garðinum hjá þeim nánast hvítt af illiblómum. Ég fékk að taka í tvær stórar uppskriftir og úr því fékk ég níu lítra af illiblómasafti. Þá varð ég auðvitað að fá mér illirunna og með honum keypti ég þrjá aðra runna af ólíkum tegundum, en þessir runnar eiga það allir sameiginlegt að bera mikið af hvítum blómum. Ég gróðursetti þá austan við íbúðarhúsið. Svo komst ég að því að það væri ekki nóg að eiga einn illirunna þannig að ég keypti einn til viðbótar og gróðursetti sunnan við Bjarg.
 
Um daginn horfði ég á plómutréð sem ekki hefur borið ávöxt í nokkur ár. Það er orðið gamalt og greinar þess eru að deyja hver á fætur annarri. Þá var Rósa nýbúin að kaupa kirsuber og því fannst mér best að yngja upp þetta gamla plómutré og setja þar kirsuberjarunna í staðinn. Hann var pantaður fyrir mig og kom í dag þannig að ég tók hann á leiðinni heim úr vinnu um hádegisbilið. Þegar ég var búinn að slappa svolítið af eftir vinnuna hófst vinna við að fá burtu gamla plómutréð og undirbúa gróðursetningu á kirsuberjatrénu. Mitt í þessu öllu er ég í mikilli vinnu.
 
Athafnir manna eru ólíkar. Hvernig ætti hann Bernt að geta skilið þetta vinnu- og gróðursetningaæði mitt?

Breyttir tímar, af hesti og á fjórhjól

Ekki var það nú svona á Kálfafelli forðum tíð. Þar voru hins vegar hestar og ég var ekki hestamaður, gerði alla hesta staða og lata ef ég var einn á ferð á hesti. Ég vildi heldur ganga milli bæja, líkaði það vel. Þetta fjórhjól er á næsta bæ og Hannes Guðjón má koma þangað og æfa. Það er ekki hægt að segja að honum leiðist það en hins vegar er það ekkert daglegt brauð heldur. En hann er fljótur að ná tökum á þessu og afi getur ekki gert að því að dást að því hversu leikið barnið verður á örstuttum tíma.
 
 
Um daginn fórum við nokkrar bæjarleiðir vestur á bóginn að heimsækja vini Rósu og Péturs, til staðar sem heitir Hasselfors. Hannes Guðjón var fljótur að kynnast stúlkunum þar og gekk í það með þeim að vökva kartöflur. Innan skamms var litla hornið með kartöflunum orðið fljótandi í vatni og eigandinn beindi athafnaþörf barnanna að öðrum þörfum verkefnum og svo hélt líffullt starf þeirra áfram.
 
 
Í miklum hlýindunum undanfarið hefur vatnið verið eftirsótt. Það lítur út fyrir það á þessari mynd að það sé bæði notalegt og gaman að láta úðarann sprauta yfir sig vatni.
 
 
Andlitsdrættir drengsins gáfu til kynna þegar Johan var að sturta mölinni heima hjá afa að hugmyndaflugið væri á fljúgandi ferð. Svo fór Johan með bílinn út á veginn aftur og dró stóra skúffu af aftanívagninum inn á vörubílspallinn. Svo kom hann aftur til baka og sturtaði einu hlassi af mold annars staðar á lóðina. Hann var nú meiri galdramaðurinn þessi Johan og gaman að fylgjast með honum. Reyndar hefur afi líka gaman að því að horfa á svona tilfæringar.
 
 
En fjórhjólaævintýrinu var ekki lokið við fyrstu myndina. Pétur tók þessar myndir utan þá fyrstu. Hér náði hann mynd af vökulu augnaráðinu Hannesar þar sem hann horfir fram á veginn og metur allt í smáatriðum sem varðar áframhald ferðarinnar. Ég verð nú að viðurkenna þó að ég hafi verið sendur á hesti á milli bæja fyrir sextíu árum að ég hef gaman að því að fylgjast með þessum akstri og sjá ótrúlega örar framfarirnar.
 
Á morgun vinn ég dag í Vornesi og það er síðasti dagur Stokkhólmsfjölskyldunnar að þessu sinni. Þau ætla í sundlaugarferð á morgun þar sem það er spáð vel yfir 30 stiga hita. Á þriðjudag halda þau svo heim á leið og gamli verður aftur einn í kotinu. Hversdagsleikinn tekur við og það verð aftur ég sem stend við eldavélina og eldhúsbekkinn. Ég mun halda áfram að spjara mig en hljóðir verða dagarnir á næstunni. Ég er mikið feginn að Sólvellir eru til staðar fyrir hann nafna minn. Hann er farinn að læra margt sem tilheyrir sveitinni. Áðan fór öll fjölskyldan út í skóg og Hannes tíndi stór bláber af runna, boðraði sjálfur og gaf okkur líka úr litlum lófa sínum. Þannig lauk samverunni þennan daginn.

Hugrenningar

Vissir atburðir vekja upp hugsanir sem annars hefðu ekki látið á sér kræla og ég upplifði einn slíkan í gær. Ég hitti þá líka fólk sem ég hafði ekki hitt áður en fólk sem vissi um mig og ég heyrði margt nýtt og áhugavert. Það er einn og hálfur sólarhringur síðan og ég var þá þegar farinn að skrifa þetta blogg í huganum. Það verður fróðlegt fyrir mig að sjá hvort það verður jafn auðvelt fyrir mig að koma saman sögu núna og það var fyrir mig þegar leið að hádegi í gær.
 
Upp í Dölum er mikið um víðáttumikla og djúpa skóga. Það var þar sem við Hans í Örebro hittumst í fyrsta skipti 1994. Hann hlýtur að hafa átt svolítið erfitt með að skilja mig á þeim tíma en það viðurkenndi hann aldrei síðar. Hann var raunsæismaður og vildi hafa rökrétt svör við því mesta. Því spurði hann mig eftir mörgu sem ég átti erfitt með að svara og að lokum komst ég í þrot. Ég man vel eftir því augnabliki og svo sagði ég setningu sem bara kom sí svona upp í huga mér. Þegar ég heyrði sjálfan mig segja þessa setningu fannst mér að ég hefði sagt það vitlausasta sem hægt var að segja við þær aðstæður.
 
Rúmlega tveimur árum síðar var ég að vinna í Vornesi og einn vinnufélaga minna, Carl Gústaf sem þá bjó í Örebro, sagði að hann hitti stundum mann sem þekkti mig og talaði gjarnan um mig. Hann sagði líka að þessi maður myndi eftir setningu sem ég hefði beint til hans þegar við hittumst upp í Dölum, setningu sem hann mundi aldrei gleyma. Það sem ég hefði sagt við hann hefði líka gengið eftir. Ég áttaði mig á að Carl Gústaf var þarna að tala um Hans.
 
Síðar flutti ég til Örebro og við Hans hittumst og milli okkar myndaðist góð vinátta. Hann nefndi oft þetta sem ég hafði sagt við hann upp í Dölum og þó að mér hefði fundist það óttalega vitlaust fannst honum það ekki. "Maður getur nú sagt að það sem þú sagðir, það stóðst, svo merkilegt sem það nú er", sagði Hans Stundum. Hann kom all oft á Sólvelli og fékk eitthvað góðgæti hjá Valdísi. Við hittumst líka oft á öðrum hvorum kaffistaðnum í Kremaren í miðbænum í Örebro og fengum okkur kaffibolla og rækjusneið. Hans bjó á 16. hæð í því sama húsi, Kremaren, með makalaust útsýni móti Hjälmaren.
 
Við töluðum um geimvísindi þar sem Hans var vel fróður, um viðhald á bílum þar sem hann var alger ofjarl minn og um margt og margt fleira. Við töluðum líka um hvað það væri að vera einmana. Hans var oft einmana en meðal vina var hann hrókur alls fagnaðar. Hann var lágvaxinn sem gerði hann oft feiminn en hann var myndarlegur kall. Við töluðum um trúmál og ég sagði honum frá fallegri bæn sem ég hafði séð einhvers staðar. "Þessi bæn er eftir hann Linus afabróður minn sem var prestur", sagði hans þá.
 
Hann kom ekki á Sólvelli nema ég hringdi til hans og hreinlega sagði að nú skyldi hann koma. Hann var alltaf mikið þakklátur fyrir það og hann var mikið þakklátur fyrir þau skipti sem ég hringdi til hans frá kaffistöðunum í Kremaren og spurði hann hvort hann vildi ekki skreppa niður og fá sér kaffibolla og rækjusneið með mér. Hans var mein illa við hraðatakmarkanir á vegum og sagði að þær kæmu frá skrifstofublókum sem sætu dag inn og dag út á skrifstofum. Þetta stangaðist svo undarlega á við annað í fari hans.
 
Ég var við útför þessa manns í gær. Þegar ég frétti að hann væri veikur á sjúkrahúsi vonaði ég að þessi síðasti spölur í lífi hans mundi ganga hæglátlega yfir. En Hans fékk að heygja all harða baráttu. Það gerði mig sorgmæddan að horfa upp á það. Mér fannst hann ekki eiga það skilið. Á sjúkrahúsinu hitti ég systkini hans sem hann hafði svo oft talað um og það sýndi sig að þau höfðu oft heyrt talað um Íslendinginn. "Ég er þér svo þakklátur fyrir að koma til mín", sagði hann þegar ég kvaddi hann eftir nokkurra klukkutíma dvöl hjá honum á sjúkrahúsinu á laugardegi. "Þú ert vinur minn", sagði hann ennfremur.
 
Ég er ekki viss um að hann hafi vitað af heimsókn minni daginn eftir, en alla vega, þegar ég laut niður til hans og talaði til hans varð allt rólegt í nokkur augnablik. Svo harðnaði baráttan aftur.
 
Þegar ég tók þessa mynd af Hans seinni hluta vetrar lofaði ég honum að nota hana ekki ef hún yrði léleg. Þegar ég svo sendi honum myndina var hann ánægður með hana. Ég hef ekki notað hana fyrr en núna. Svipuð mynd stóð í ramma á kistunni hans í gær og ég var feginn að sjá þá mynd og við það tækifæri. Hún einhvern veginn staðfesti fyrir mér að baráttunni var vissulega lokið og það ríkti friður hjá þessum manni. Bæði á þessari mynd og á myndinni á kistunni má greina trega bakvið augnaráðið þessa manns.
 
Ég skil tregann þinn Hans.
 
Þar sem ég sat í krikjunni ásamt tuttuogníu skyldmennum hans og einum fyrrverandi skólabróður, þá var ég vel meðvitaður um að hann hafði kennt mér mikið á tuttugu ára sameiginlegri vegferð okkar. Það er þess vegna sem ég skrifa þetta, þetta er ekki minningargrein. Í kaffinu eftir útförina sat nokkuð eldri kona við hlið mér. Ég sagði henni og fleirum sem nálægir voru frá bæninni eftir hann Linus afabróður hans Hans. Þá sagði eldri konan við hlið mér; "já, þessi bæn er eftir hann Linus pabba minn".
 
 
Í vor þurfti ég niður til Laxá sem er góðan spöl sunnan við Örebro og ég fékk með mér þá Tryggva Þór Aðalsteinsson og Hans. Hans þótti vænt um svona smá tilbreytingar í lífinu. Vissulega er niðurstaðan af því sem ég hef verið að skrifa núna og það sem ég hugleiddi við útförina í gær sú að ég hefði getað gefið þessum manni nokkuð meiri tíma. En ég er líka ánægður með að ég gaf honum alla vega eitthvað af tíma mínum. Ég er líka ánægður með að eiga þessa mynd af okkur köllunum þremur.
 
Það eru nokkur tilfelli hér í landi þar sem ég hef verið kominn í þrot og ég hef sagt nokkuð sem hefur hljómað
aldeilis fáránlega í mínum eigin eyrum. En viti menn; ég hef síðar fengið að heyra að það sem ég sagði hafði afgerandi þýðingu fyrir þá sem ég talaði til. Það sem ég sagði við Hans upp í Dölum árið 1994 verður leyndarmálið okkar.
RSS 2.0