Indæll síðsumardagur á Sólvöllum

Það kom fólk í heimsókn til mín í morgun sem var afar gaman að fá í heimsókn. Það hafði öðru hvoru borið á góma að þau kæmu en svo varð aldrei neitt meira með það. Það kom málinu á hreyfingu að ég bakaði rabarbarabæ um daginn og talaði um það á feisbókinni. Maðurinn lengst til vinstri, Ove (borðið fram úve) sá það og spurði hvort ég gæti ekki komið með rabarbarapæ í vinnuna, auðvitað í gríni. Ég sagði honum þegar við hittumst síðar í vinnunni að það væri einfaldast að þeir mótorhjólafélagarnir, hann og Håkan, kæmu og fengju rabarbarapæ heima hjá mér. Þá loksins varð af þessari heimsókn.
 
Við Ove hittumst fyrsta árið mitt í Vornesi. Síðar kom hann sem lærlingur í Vornes og svo varð hann ráðgjafi. Ég varð yfirmaður hans og núna er hann yfirmaður minn. Ég sýndi þessu fólki inn á Bjarg og þá auðvitað inn á baðið þar. Tvisvar sinnum þegar ég var að velja innréttingu á baðið, handlaugarskáp í annað skiptið og sturtuhurðir í hitt skiptið, þá hafði hann samband við mig meðan ég var inni í versluninni og spurði mig í bæði skiptin hvort ég gæti unnið kvöld. Það var til þess að ég valdi dýrari og vandaðri innréttingar en ella í bæði skiptin. Ég er mjög ánægður með það í dag.
 
Hún Inger sem situr í miðjunni er hjúkrunarfræðingur sem vann á sjúkrahúsi í Södermanland. Þegar hún varð ellilífeyrisþegi fyrir fáeinum árum fór hún að vinna við afleysingar í Vornesi. Hún sýndi mjög fljótt mikla færni í umgengni við alkohólistana og ég hef lært margt af þessari konu.
 
Lengst til vinstri er Håkan, maður Inger. Hann hefur unnið í áratugi í Vornesi og þar áður var hann til dæmis friðargæsluliði Sameinuðu þjóðanna á Kýpur. Nú er hann ellilífeyrisþegi sem kemur oft í Vornes til að annast margt í viðhaldsgeiranum sem hefur dregist á langinn að laga. Þá er hann röskur. Hann hefur sýslað við margt meðfram vinnunni í Vornesi og hefur reynslu af mörgu. Hann hefur kennt mér margt sem ég hafði enga reynslu af frá Íslandi, til dæmis að meðhöndla eldivið. Þegar þau voru búin að fá sér af því sem ég bar á borð hallaði Håkan sér makindalega upp að veggnum og spurði: Guðjón, siturðu oft hérna á morgnana og horfir inn í skóginn. Já, ég sagðist oft gera það og það væru afar góðar stundir. Ég skil þig vel sagði Håkan -og svo gerðu þau öll.
 
Ég var spurður í dag hvað ég hefði boðið þeim upp á. Ég get vel sagt frá því. Þau fengu heimabakað rúgbrauð bakað eftir íslenskri uppskrift, hangikjöt, heimagert illiblómasaft, heimabakað rabarbarapæ, heimabakaða eplaköku, þeyttan rjóma og kaffi. Svo eru þau fyrstu Svíarnir auk einnar vinkonu Rósu og Péturs sem borða hjá mér harðfisk af góðri lyst og þá lá við að andlitið dytti alveg af mér. Þessar veitingar voru nýstárlegar fyrir þau öll.
 
Þetta fólk er vinir mínir.
 
Glaðlegt fólk sem er komið i hlífðarfötin sín og með hjálmana í hönd. Inger og Håkan eiga sumarbústað við all stórt vatn í Södermanland og útsýnið hjá þeim er alveg frábært að mínu mati, eins og allra best verður á kosið. Svo koma þau hingað í nýtt umhverfi og þá finnst þeim útsýnið hjá mér svo ótrúlega fallegt.
 
Ég segi oft að það sé nú meiri dellan þessi mótorhjóladella. Svo kemur það oft fyrir þegar ég er í návígi við mótorhjól eins og til dæmis þarna í morgun að ég hugsa sem svo að það væri nú gaman að prufa. En ég segi engum frá því.
 
 
*          *          *
 
 
Snákur á stærð við þennan var á veginum hér við Sólvelli um daginn en hann fór svo hratt að mér tókst ekki að ná mynd af honum. Þessi varð á vegi mínum í Vornesi í hádegisgönguferðinni í gær og hann komst ekki undan. Ætli þessi sé ekki upp undir meter á lengd en hann er gildari en snákurinn nágranni minn. Við vorum þrír kallar á gangi þarna í gær og snákurinn var afar hræddur við okkur. Hann lagði mikinn kraft í að komast fljótt undan.
 
Ég skil ekki hvers vegna ég hafði sjónvarpið á og það var verið að lýsa fótbolta. Ég var að slökkva á því og það varð allt annað lif. Það er orðið dimmt og stuttu fyrir dimmumótin var dádýr á beit á túninu vestan við Sólvelli. Það er nú meira hvað þessi dýr eru falleg og þegar þau stökkva yfir girðingu eru þau hreint alveg ótrúlega fim og létt á sér. Ég er ekki alveg jafn léttur á mér núna. Ég viðraði ullarfeldina mína í dag og mikið verður gott að leggja sig í þá eftir burstun og pissun.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0