Bílaleikur

Í gær fór ég til Ford verkstæðisins til að sækja bílinn í viðgerð. Ég bloggaði um það fyrir nokkru hvernig ég hefði fengið skrámur á bílinn á tveimur stöðum og komst ekki hjá því að láta laga það. Nýskur var ég vegna þessa en vissi líka að ef ég safna áverkum á bílinn sem ekki eru lagfærðir og svo fer að ryðga út frá þessum áverkum, þá verður hann ekki mikils virði í endursölu að einhverjum tíma liðnum. Ég fékk lánsbíl frá verkstæðinu á meðan og tryggingarnar áttu að borga 75 % af leigunni á þeim bíl. Eins og ég sagði fyrir nokkru í bloggi komu þessir áverkar á bílin í tveimur tilfellum og ef tryggingarnar áttu að borga hvort tveggja var um tvær sjálfsábyrgðir að ræða. Ég ákvað því að borga minni aðgerðina sjálfur en tryggingarnar borguðu þá kostnaðarsamari.

Klukkan um ellefu í gærmorgun var hringt og tilkynnt að bíllinn okkar væri tilbúinn og ég fór með hraði á lánsbílnum til að sækja okkar ágæta bíl. Nokkur orð um þennan lánsbíl. Hann er Ford Fókus eins og okkar en hann er ekki c-max eins og okkar. C-max er mikið meiri bíll þar sem hann er hærri og afar góður fyrir ellilífeyrisþega að setjast inn í. Takið eftir orðalaginu "setjast inn í", ekki niður í. Þegar ég hafði skilað okkar c-max á verkstæðið fyrr i vikunni og fór svo heim á lánsbílnum, þá settist ég niður í bílinn. Oj, hvað púkó. Svo fannst mér að ég sæti á malbikinu, teygði hendurnar upp á stýrið og álkuna upp á við til að sjá fram á veginn. Þegar heim var komið opnaði ég hurðina, tók taki með báðum höndum ofan á hurðarkarminn og dró mig upp úr lágkúrunni. Þegar ég hafði rétt úr mér strauk ég með vinstri hendi yfir rassinn til að athuga hvort malbikið hefði skrapað gat á buxurnar mínar. Síðan athugaði ég hvort hægt væri að hækka eitthvað sætið í þessum blessaða Fókur ekki c-max og það gekk og gerði hlutina ögn skárri.

En nú var ég kominn á verkstæðið og ég dró upp bankakortið sem við notum fyrir bílinn og gerði mig líklegan til að borga. Kom þar að verkstæðisformaðurinn með blað í hendi og lagði fyrir framan gjaldkerann og hvíslaði að henni: taktu ekkert fyrir lánsbílinn. Þá gladdist nýskupúkinn í mér og ég þóttist ekkert hafa heyrt. Þarna sparaði hann mér helminginn af viðgerðinni sem ég borgaði sjálfur. Góður strákur. Hann heitir Mikael bara svo að þið vitið það. Þegar ég svo settist inn í okkar góða c-max og ók af stað tók ég eftir því að hann var ennþá betri bíll en ég hafði gert mér grein fyrir nokkru sinni áður. Ánægjan vegna þessa góða bíls gerði það að verkum að sjálfsábyrgðin varð hugarfarslega lægri og verður svo þangað til ég millifæri greiðslu inn á bílabankakortið eftir um það bil mánuð. Bílamynd neðar.


Ford Fókusinn til vinstri og fyrri bíll, Renó Klío til hægri. Valdís stendur hjá nýja bílnum að skiptunum loknum vorið 2007 og bílasalinn, Niklas, hjá þeim gamla. Nýi bíllinn er stærri en sá gamli og Valdís er stærri en bílasalinn og mér fannst ég vera rosa stór bakvið myndavélina eftir þessi bílakaup.

Búinn að gera hreint fyrir mínum dyrum -gaman, gaman

Áður en ég fór í vinnuna í gær var ég ákveðinn í því hvað ég ætlaði að gera eftir að ég kæmi heim í dag. Ég ætlaði að borga reikningana. Ég var búinn að hafa á tilfinningunni að það hefðu hlaðist upp reikningar í þvílíku magni að slíkt hefði bara aldrei skeð áður. Það var því ekkert tilhlökkunarefni að plokka þessi gluggaumslög ofan úr ákveðnu horni í ákveðnum eldhússkáp þar sem ógreiddir reikningar hafa alltaf verið geymdir frá því að við fluttum hingað í íbúðina í byrjun febrúar 1999. Og það var eins og mig grunaði að þeir voru skuggalega margir. Svo lagði ég reikningana í röð og reglu við hliðina á tölvunni og byrjaði að ganga frá greiðslum. Eftir hvern frágenginn reikning gat ég séð hvernig heildarhpphæðin hækkaði jafnt og þétt í ákveðnum ramma þarna hægra meginn á skjánum. Ég sá líka hvernig fjöldi frágengina reikninga óx í sama ramma. Að lokum var ég tilbúinn og viti menn; upphæðin var svo sem þriðjungi lægri en ég átti von á. Maður má nú verða glaður á sextugasta og sjöunda aldursári. Það var líka annað gleðjandi sem ég sá þegar ég fór inn í bankann til að ganga frá greiðslunum. Útborgunin sem ég fæ frá Vornesi þann 27. janúar verður 15 % hærri en ég átti von á.

Ég vann frá hádegi í gær til hádegis í dag í Vornesi. Það eru býsna margir vinnutímar fyrir svona vinnutörn en vinnan var skemmtileg og það fór vel um mig. Ég fer aftur um hádegi á morgun og vinn fram á mánudagsmorgun og það verður aðeins styttri vinnutörn. Ég skal nú upplýsa að ég sef um fimm tíma, frá því um miðnætti og fram undir morgun, þegar ég vinn svona um helgar og með síma á náttborðinu svo sjúklingarnir geti náð mér ef á þarf að halda. Ég kem nú til með að fara ögn viljugri á morgun vegna þess hve jákvætt þetta varð með fjárhaginn í dag. Og það er kreppa.

Ég hef í sjálfu sér enga ástæðu til að vera að segja frá þessu og allra síst kannski á mínum aldri. Og þó. Heimurinn liti líklega öðru vísi út ef við gengjum minna með samanbitnar varir. Fólk segir oft frá svona löguðu á morgunfundum starfsfólks í Vornesi og það sáir einhverju góðu að gera það. Nú er enginn morgunfundur um helgar þar sem það er bara einn starfsmaður og þá get ég eins vel látið það fara út á bloggið.

Valdís er kvefuð og það ganga kvefpestir núna í þessu landi. Mér hefði þótt betra að hún hefði getað valið tíma þegar ég er ekki að vinna. Mér er illa viða að láta hana vera eina lasna heima en hún er dugleg fiskimannsdóttirin frá Hrísey svo að þetta getur gengið þess vegna.

Rafvirkinn kom

Ég talaði um það um daginn að rafvirkinn hefði ekki haft tíma til að koma frá því um miðjan desember, þannig liti kreppan út í Lekebergshreppi. Svo seinni partinn í gær hringdi ég í hann til að reyna að fá fram einhverja dagssetningu svo að ég gæti skipulagt vinnu á Sólvöllum út frá því. Þá hafði hann svo mikið að gera að hann gat ekki tala við mig og bað um að fá að hringja síðar. Mér datt ekki í hug að ég heyrði meira í honum þann daginn. En viti menn; allt í einu hringdi rafvirkinn og sagðist vera að koma í fyrramálið. Þvílíkur hraði allt í einu og ég þurfti að taka til og gera klárt. En það var ekkert um annað að ræða og ég setti í gang við undirbúninginn. Svo koma kall í morgun og úðaði veggjadósum í verðandi svefnherbergi og lagði tugi metra af rafmagnsslöngum á milli þeirra.

Ég hef sagt það áður að húsið sem auglýst var sem einföld stuga (stuga þýðir smáhýsi, lítið íbúðarhús og mjög gjarnan sumarbústaður) árið 2003 er engin einföld stuga lengur. Það má sjá á þessum vegg, austurveggnum í svefnherberginu, veggnum sem snýr að skóginum. Rafvirkinn, Anders, vill vel og hann  sagði mér að hagræða og festa rafmagnsslöngunum eins og það passaði best fyrir smíðavinnuna og festa dósirnar betur. Hann kannski kíkti inn einhvern daginn og liti á það. Þar sparar hann okkur nokkrar krónur. Nú er bara að fara að kaupa viðbótar einangrun og veggjaplötur og svo hefst nýr áfangi á Sólvöllum. Um helgina vinn ég í Vornesi það mikið að það nálgast viku vinnu. Nú finnst mér sem ég meigi varla vera að því þar sem smíðarnar bíða mín. En það verður nú samt gott að fá vinnulaun upp í reikninginn frá honum Anders.

Hvar er kreppan?

Um miðjan desember hringdi ég í rafvirkjan til að segja honum að nú væri svefnherbergið tilbúið fyrir hann að ganga frá lögnum. Þessi maður sem alltaf hefur komið á augabragði þegar ég hef hringt sagði nú að hann gæti bara alls ekki komið fyrir jól. Það yrði alla vega svo pressað að það væri ekki gott fyrir neinn. Nú, það var ekkert með það og öll eigin vinna á Sólvöllum var skipulögð upp á nýtt með hliðsjón af þessu. Svo liðu jólin og áramótin og við fórum að kljúfa við sem var líka nauðsynlegt að gera og þó fyrr hefði verið. Í gær hringdi ég svo í rafvirkjan aftur og ég þurfti ekki einu sinni að segja hver ég væri því að hann var svo fljótur að segja að hann gæti ekki ennþá sagt um það hvenær hann gæti komið. Á mánudaginn ætlar hann þó að hringja til að reyna að finna mögulegan dag. Já, hvar er kreppan? Við Ingemar, ellilífeyrisþegarnir frá Vornesi, erum komnir í meira en hálfa vinnu aftur á okkar gamla vinnustað. Mikið erum við heppnir að vera búnir að fá svolítið uppihald. Jú, víst hefur mörgum verið sagt upp og margir óttast uppsögn en það er eins og hjólin snúist eigi að síður.

Í morgun var 11,5 stiga frost. og svo hefur verið 8 stiga frost í dag. Mé sýndist óráðlegt að eyða eldsneyti í að fara á Sólvelli til að kljúfa við. Ég er ekki viss um að það sé svo gott að kljúfa við í frosti. Það á líka að vera hlýrra næstu daga og það verður nú búið að ganga frá öllum við áður en rafvirkjinn kemur sem er jú mikilvægt. Þegar hann verður búinn að ganga frá slöngunum og veggjadósunum sínum hefst lokaáfanginn við svefnherbergissmíðina. Rosalega verður það gaman. Engin kreppa þar heldur.

Það er næstum að ég hafi ekki kunnað við mig í dag þar sem það var skipulagt að vinna við viðinn. Valdís stakk upp á því að ég læsi og víst eru það farnar að safnast upp bækur sem bíða þess að ég lesi þær. En ég þori ekki að leggjast í lestur ennþá. Ég er hræddur um að þá verði það bara vinna í Vornesi og svo bókalestur á milli. Ég þekki svoleiðis atburðarás frá Hrísey og svo er ég fljótur að aðlagast því að það sé í lagi að hlutirnir séu ekki tilbúnir. Svo verður bara erfitt að komast í gang aftur. Bækurnar bíða mín þolinmóðar. Við fórum svolítið á stúfana um hádegisbilið til að líta inn í byggingarvöruverslanir.


Vegna kuldans í morgun var ekki um annað að ræða en fara í þokkalega peysu. Peysan á myndinni fyrir neðan ver fyrir miklum kulda, mikið meiri kulda en hér var í morgun.

Þessa peysu fékk ég í jólagjöf frá Valgerði fyrir all nokkrum árum. Við erum ekki viss um hvenær en kannski Valgerður geti upplýst það í athugasemdum hér fyrir neðan. En hvað aldrinum viðvíkur þá er peysan falleg og skýlir vel.


Svo barst peysan hér fyrir neðan í tal í dag (peysudagur).

Þessa peysu prjónaði Valdís þegar við bjuggum á Bjargi í Hrísey. Hún prjónaði svona peysur handa allri fjölskyldunni nema sjálfri sér. Rósa var heldur ekki fædd og hún eignaðist aldrei svona peysu. Eitt get ég fullyrt; þessi peysa er búin að halda á mér afskaplega mörgum hitaeiningum. Ekki vissi ég þegar Valdís tók myndirnar að ég hefði reynt að spenna fram bringuna (mont). Látið ykkur ekki detta í hug að ég sé kominn með ellilífeyrisþegamaga eins og einn vinnufélaga minna í Vornesi sagði í haust, sá vinnufélaginn sem á í mestum erfiðleikum með magann sinn.

Lýkur hér spjalli um kreppu, peysur og ellilífeyrisþegamaga.

Að hafa vasaklútinn með

Í gær var ég að vinna í Vornesi og eftir vinnu fórum við Ingimar til Eskilstuna að heimsækja hann Kjell. Ég hef minnst á Ingemar áður en hann er búinn að vera vinnufélagi minn síðan í ársbyrjun 1996. Hann er ári yngri en ég og varð ellilífeyrisþegi ári seinna en ég. Svo vinnum við báðir heil mikið og teljum okkur mikið betri ráðgjafa en við vorum þegar við hættum. Það var gott fyrir okkur að fá hlé frá starfinu og koma svo til baka í hlutastarfi af endurnýjuðum krafti og með nokkuð aðra sýn á þessa vinnu. Okkur gengur báðum betur núna og við höfum meira gaman af því að hitta fólk sem er að gera róttæka breytingu á lífi sínu. Við gerum minni kröfu til okkar sjálfra og það er eitt af því sem gerir starfið léttara og veldur því líka að við erum þægilegri og meira traustvekjandi fyrir sjúklingana. Svo ef eitthvað karp er á vinnustaðnum förum við bara eitthvað annað og tölum við sjúklingana, um veðrið eða eitthvað ennþá skemmtilegra.

En nú sný ég mér aftur að honum Kjell. Á föstudaginn var var hann ekki upp á marga fiska. Mér fannst næstum að það væri best að láta nú Kjell lönd og leið og láta skaparanum einum í té að annast endalokin. Samt gerði ég það nú ekki og þess vegna fórum við Ingemar saman til að vera stoð og stytta ef mögulegt væri. Þegar inn á gjörgæsluna var komið þvoðum við okkur um hendurnar úr einhverju spírituslyktandi efni, svo sterkt lyktandi að ég sagði við Ingemar að ég vonaði að við yrðum ekki fullir af þessum þvotti. Svo hengdum við upp jakkana okkar og sáum svo álengdar hvar Kjell sat uppi í sínu mjög svo vélvædda rúmi. Og viti menn, hann bara tyfti hendinni og vinkaði til okkar, ný rakaður og skýr til augnanna var hann. Síðan lék allt í lyndi og við gerðum að gamni okkar, vorum svolitlir rugludallar, gerðum grín að sjálfum okkur og við Ingemar vorum alveg stein hissa á þessum Kjell, hvað hann gat verið hress og skýr í kollinum. En líka, eins og svo oft á síðustu tveimur árum, vakti þessi heimsókn til Kjells þakklæti fyrir það sem við sjálfir höfum.

Svo í dag gleymdi ég öllu þakklæti. Ég hringdi í tryggingafélagið sem bíllinn er tryggður hjá og tilkynnti um skaða sem ég hef bloggað um áður. Skaðinn er hægra meginn á afturstuðara og undir hurðum hægra meginn. Það versta er að þessir skaðar áttu sér stað við tvö tilfelli og það vissi verkstæðisformaðurinn þar sem gert verður við bílinn. Þegar ég var að lýsa skaðanum fyrir ósköp kurteisri konu hjá tryggingarfélaginu í morgun flaug mér í hug að segja að þetta væri einn og sami skaðinn og þá hefði sama sjálfsábyrgð gilt fyrir hvort tveggja. En ég bara fékk mig ekki til þess. Tólf spora prógrammið ráðleggur hámarks heiðarleika. Veijó verkstæðisformaður var líka búinn að segja að skaðinn undir hurðunum yrði mjög ódýr í viðgerð, eða um 700 krónur. Það er langt undir sjálfsábyrgð. Svo þökkuðum við hvort öðru fyrir samtalið, ég og tryggingakonan, og ég var svo ánægður með hversu þægileg hún var. Svo kom kling hljóðið frá tölvunni og staðfestingin frá tryggingafélaginu var komin. Ég las staðfestinguna og allt þakklæti var þegar á bak og burt og tryggingakonan hafði þegar öll kurl komu til grafar ekkert verið þægileg í viðmóti. Sjálfsábyrgðin sem í desember hafði verið 3500 kr var nú komin upp í 4350 kr. Bölvaður asni ég hafði verið að segja ekki að þetta væri einn og sami skaðinn.

Svo lagði ég af stað til Sólvalla og kom við á verkstæðinu í Marieberg á leiðinni og ætlaði að tala við Veijó. En Veijó var ekki við svo að ég pantaði tíma hjá staðgengli hans sem líka vissi að þetta voru tveir skaðar. Allt gekk þægilega fyrir sig og tíminn var ákveðinn 27. janúar. Svo spjölluðum við aðeins, ég þakkaði fyrir hjálpina og gekk svo rakleiðis yfir í bílasöluna sem er í sama húsi. Þar sá ég Nikulás (Nicklas) sem seldi okkur bílinn og við spjölluðum um stund. Talið barst að fjölskyldunni hans og hann sagði meðal annars að alltaf þegar hann kæmi heim væri einhver heima og það mat hann mikils. Aðspurður sagði hann að börnin hans væru ellefu, átta og þriggja ára og það væri svo gaman þegar tvö þau elstu væru að æfa hljóðfæraleik. Hún sem er átta ára er svo dugleg á fiðlu sagði hann. Reyndar segja þeir í skólanum að eftir þriggja mánaða æfingu sé hún svipuð og flestir eru eftir tvö ár sagði hann einnig. Ég sá að hann var svo sannarlega hamingjusamur yfir þessu og það mátti hann vera. Því spurði ég hann hvernig það mundi verða fyrir hann að vera í Glóben eftir nokkur ár, óþolinmóður horfa inn á stóra sviðið og sjá svo dóttur sína ganga þar fram með fiðluna sína ásamt skólahljómsveitinni sinni. Það var eins og Nikulási yrði um þessa spurningu og svo sagði hann að þá yrði hann að hafa með sér vasaklút og hann þurrkaði sér undir öðru auganu. Svo hélt ég áfram til Sólvalla og var búinn að gleyma þessu með sjálfsábyrgðina.

Þegar ég kom heim undir kvöldið angaði matarlyktin út úr dyrum. Haldið þið ekki að Valdís hafi verið búin að finna hálfar gular baunir í Alíbaba búðinni og hún hafði soðið saltkjöt og baunir. Hún er líka búin að taka niður allt jólaskraut og pakka niður í mikilli röð og reglu og gera klárt að ganga að því fyrir næstu jól. Valdís er mikil jólaskrautsmanneskja og yfir hátíðarnar er íbúðin eins og listaverk. Núna er mun tómlegra en dagarnir eru líka orðnir lengri. Dagurinn í dag er 50 mínútum lengri en sá styttsti og á sunnudag verður klukkutímanum náð.

Þarfir hlutir

Það var ekki létt ákvörðun að yfirgefa smíðarnar á Sólvöllum og fara að hlú að viðarbirgðunum þar. En svo fór það þó í fyrradag að ég tók keðjusögina, bætti á keðjuolíu og bensíni og liðkaði til keðjuna sem hafði setta sig fasta í hálf þornaðri olíu og harpis. Síðan dró ég fjórum sinnum í spottann og sögin byrjaði að mala. Á lóðinni lágu, snyrtilega upp raðaðar, sneiðar úr mjög stórri björk sem við felldum í fyrra. Þessar sneiðar kölluðum við okkar á milli kótiletturnar. Kótiletturnar voru upp í 70 sm í þvermál og það var mér algerlega ofviða að lyfta þeim upp á viðarkljúfinn. Því var þeim raðað svona snyrtilega upp og svo átti sólin að þurrka þær, sem hún og gerði, þangað til ég færi að ráða við þær. En áður en ég reyndi að fara að ráða við þær gerði fyrstu síðsumarrigninguna og það var svo sem allt í lagi, en málið var bara að það hætti ekkert að rigna nánast í fleiri mánuði og kótiletturnar urðu aftur jafn þungar og þær voru af nýfallinni björkinni. Svo fór að lokum að við skömmuðumst okkur fyrir þann trassaskap sem þessi óunni viður á lóðinni vitnaði um. En sem sagt, miðvikudaginn 7. janúar hófst vinnan við að ráða bót á þessu. Í gær vorum við bæði á Sólvöllum og það snerist allt um við. Við umstöfluðum viði úr skýlum úti inn í það sem við köllum viðargeymsluna og síðan verður viðnum út kótilettunum raðað inn í þessi skýli. Þar mun hann ekki mygla þar sem það viðrar vel um hann úti undir þaki. Hver kótilettan af annarri var söguð niður í tvo til þrjá hluta og nú er nokkurra stiga hit og spáð í einhverja daga áfram og það eru hægir suðvestan vindar . Það er gott veður fyrir við.

Á þessari mynd sést keðjusögin renna mjúklega gegnum eina af minni kótilettunum. Með því að skerpa keðjuna nokkrum sinnum vannst verkið vel. Grófur börkurinn var nefnilega ríkur af einhverjum efnum sem jafnvel neistaði af og bitið entist ekki svo ýkja lengi.


Valdís vill vera nærverandi þegar ég vinn með keðjusögina sem hún og var í gær. Hins vegar sagði ég ekki frá því hvað ég gerði í fyrradag fyrr en ég kom heim og þá var of seint að fást um það. Það var þá sem ég sagaði flesta af stærstu kótilettunum.

En hún stóð ekki bara og horfði á. Hún vann hörðum höndum. Nú eru öll möguleg pláss notuð fyrir við og á myndinni er hún að tína við í einn IKEA poka af nokkrum sem síðan fá að dúsa í verkfærageymslunni þangað til við tökum viðinn inn til kyndingar. Svona poka notum við líka þegar við flytjum við til Rósu og Péturs. Þeir eru góðir til margs IKEA pokarnir.

Það var meiningin að fara í sænsku tryggingastofnunina í dag vegna umsóknar um íslenska ellilífeyrinn minn og einnig á sýsluskrifstofuna vegna usmóknar um sænskt ökuskýrteini. En nokkuð tímanlega í morgun ákváðum við tveir vinnufélagar, ég og Ove, að heimsækja þriðja vinnufélagann, Kjell, sem er búinn að vera veikur í tvö ár. Í apríl í hitteðfyrra var hann skorinn upp við magakrabbameini en eftir þá aðgerð komu upp margs konar miklir erfiðleikar. Í byrjun desember var hann svo skorinn upp af öðrum ástæðum tengdum maganum en þá komu líka upp fylgikvillar. Ég hef bloggað um þennan mannáður. Svo komum við Ove inn á stofuna til hans á gjörgæslunni í Eskilstuna um tvö leytið í dag. Já, og hvað segir maður svo? Til dæmis að mér ber að vera fullur af þakklæti fyrir það sem ég hef. Eftir tæpan klukkutíma ákváðum við Ove að fara á kaffiteríu sjúkrahússins til að gefa Kjell kost á að hvíla sig aðeins, og eins til að við sjálfir endurnærðumst aðeins fyrir frekari selskap með honum. Á leiðinni á kaffiteríuna mættum við kunningja okkar á sextugs aldri. Hann sagðist ekki vera þar að gamni sínu. Hann hafði verið skorinn upp við sama sjúkdómi og Kjell, magakrabbameini, fyrir nokkrum vikum og var nú í áframhaldandi meðferð. Það jaðraði við að áhuginn fyrir kaffiteríunni drægist saman í hnút í maga okkar. En eftir svolitlar samræður við þennan mann réttum við úr kryppunni og drifum okkur í kaffi.

Það voru þarfir hlutir að heimsækja vin okkar Kjell og þarfir hlutir að gefa hinum manninum líka svolítinn tíma. Að það væru þarfir hlutir að fara að koma viðnum í skjól varð eins og aukaatriði.

Á næstunni kem ég til með að vinna all mikið í Vornesi en á þriðjudag verðum við þó aftur á Sólvöllum ef allt gengur eftir og þá verður viðurinn aftur mikilvægur. Á miðvikudaginn verð ég svo aftur í vinnu fram að hádegi og geri þá ráð fyrir að heimsækja Kjell aftur með öðrum vinnufélaga eftir hádegi.

Í kvöld, í þann mund sem Óli lokbrá tekur höndum um mig, ætla ég að þakka fyrir það sem ég hef.

Ungur eða gamall

Í gær byrjaði ég að líta á umsókn um íslenskan ellilífeyri. Ég held að þetta séu ein sjö blöð sem ég fékk send heim frá sænsku tryggingastofnunni, en þar í gegn verður umsóknin að fara. Ég get ekki sagt að ég hafi verið upprýmdur af fögnuði þegar ég byrjaði að svara öllum þeim spurningum sem þar eru settar fyrir mig. Sumar spurninganna skil ég ekki og sumum get ég ekki svarað nema fyrst leita upplýsinga. Til að fá upplýsingar við einni spurninganna hringdi ég til Björgvins Pálssonar í Hrísey. Það var fróðlegt að tala við Björgvin. Hann er tólf árum eldri en ég og vinnur fullan vinnudag. Ég sagði honum að það hefði rekið á eftir mér að hætta fullri vinnu í Vornesi hversu langt er að keyra þangað. En hvað haldið þið að kallinn hafi þá sagt mér? Jú, hann tekur ferju frá Hrísey klukkan sjö á morgnana og keyrir svo frá Árskógssandi inn að Hrafnagili í Eyjafirði og heim á einhvern bæ ofan við Hrafnagil. Þar vinnur hann svo við smíðar fram á kvöld og hvort hann vinnur fram til klukkan sjö eða kemur heim klukkan sjö, það er ég ekki viss um.  En hvort heldur sem er, þá er hans vinnudagur lengri en minn þegar ég vinn dagvinnu í Vornesi og mig grunar að ferðirnar til og frá vinnu séu álíka langar og mínar. Þar með er Björgvin algerlega búinn að máta mig og ég bara tek ofan fyrir honum.

Samkvæmt útreikningum mínum er dagurinn í dag 23 mínútum lengri en vetrarsólstöðudagurinn. Það er kannski þess vegna sem ég er betri í mjöðminni en ég hef verið afar lengi, en sá bati var reyndar farinn að gera vart við sig fyrir nokkrum vikum. Ég hugsaði sem svo í morgun að dagurinn yrði góður prófsteinn á þennan bata minn. Ég var nefnilega að mála við þröngar aðstæður. Ég þurfti að skríða, liggja á bakinu og á hliðunum til að komast að og sjá hvað ég var að gera því að ég var að mála pláss sem var lágt til lofts. Og viti menn; ég fann ekki fyrir þessu. Þegar ég fór í sturtu áðan var svo auðvelt að standa á öðrum fæti og þvo á milli tánna á hinum. Þegar ég þurrkaði mér var sama að segja. Og þegar ég fór svo í sokkana gekk það eins og í sögu. Ég fer fljótlega að fara á ball með Valdísi.

En aftur að þessu með lengri daga. Það er búið að vera hörku frost en nú er mun hlýrra aftur. Það fer kannski að styttast í að við förum til Vingåker til að sækja beyki. Við þurfum að fá fjögur beykitré til viðbótar og hafa þau í stærra laginu. Þess eldri við verðum verðum við að hafa trén sem við sækjum stærri svo að við getum átt von á að sjá þau verða að trjám. Ég gekk svolítið um skóginn í dag og velti fyrir mér ýmsu sem þarf að gera þar. Ég sá fyrir mér þegar ég fann um fjögurra metra háan hlyn fyrir nokkrum árum sem var innilokaður milli lítils grenitrés og stórr aspa. Ég vildi frelsa hlyninn og því felldi ég grenitréð. Aspirnar var ég ekki tilbúinn að fella en þurfti að taka af þeim greinar sem sköðuðu hlyninn. Það gerði ég úr stiga en gallinn er sá að stigar vilja snúast á kringlóttum trjánum. Ég var einn og fór varlega en þetta gekk mjög vel og ég fór svolítið hærra til að taka fleiri greinar. Það gekk líka velog ég hækkaði stigann og fór ennþá hærra og var alveg hissa á hvað stiginn væri stöðugur. Ég var kominn í næst hæstu tröppu og teygði mig allt hvað af tók og hélt utanum tréð með annarri hendi og var nú alveg ákveðinn í að ég hætti þegar þessari grein væri náð. Þá snerist stiginn. Ég hent frá mér söginni og nú faðmaði ég tré bæði með höndum og fótum og fann fyrir hjartslætti. Svo fann ég að ég gat fikrað mig neðar með nokkuð góðu móti en svo fannst mér mál að stökkva. Ég sá eftir á að ég hefði átt að fikra mig neðar áður en ég stökk en ekki meira um það. En ég sá líka að ég gat gert þetta, að klifra niður tré. Mér datt þetta einmitt í hug í dag en ekki tók ég þó stigann til að fara upp í tré og prufa að klifra niður. Þá mundi nú Valdís spyrja hvort það væri ekki allt í lagi með mig.

Vetur

Í gær vorum við á leið heim frá Sólvöllum og þá komum við við á bensínstöð Statoil og keyptum vökva á rúðupissið. Ég las af miklum vísdómi upplýsingar á ólíkum brúsum og að lokum valdi ég 1,5 liters brúsa og ef ég blandaði til helminga mundi vökvinn þola 16 stiga frost. Svo blandaði ég með vatni til helminga og svo bætti ég svolítið meira vatni í þar sem ég fann á mér að það var ekkert 16 stiga frost í vændum. Að lokum giskaði ég á að vökvinn mundi þola 12-14 stig og leið vel með að vera forsjáll maður. Í morgun klukkan átta þegar ég kom fram var frostið 18 stig. Núna klukkan hálf ellefu er frostið 17 stig og ég þarf að bæta um betur á rúðupissinu.

Nú er kominn tími til að aka til Vornes og vinna fyrir einhverju nauðsynlegu. Sólin er byrjuð að senda geisla sína á Suðurbæjarskóginn og væntanlega mun hlýna eitthvað í dag en í fyrramálið má gera ráð fyrir svipuðu hitastigi og var hér kl átta.

Í ársbyrjun

Í dag, laugardag, vorum við seint á fótum en þó ekki seinna en svo að við náðum að horfa á viðtal við forseta Íslands á TV4. Einhvern tíma fyrir klukkan tíu byrjaði þetta viðtal en við vorum við því búin að það byrjaði fljótlega eftir klukkan níu. Hvað á ég svo að segja um þetta viðtal? Nú, það var allt í lagi með það en akkúrat á þessari stundu finn ég ekki fyrir neinni afgerandi stórhrifningu. Forsetinn kom vel á framfæri þeim ríkidómum Íslands sem liggja í vel menntuðu og þaulreyndu fólki hvað varðar virkjun vatnsafls og jarðhita og nefndi það sem útflutningsvöru.

Ég hef verið að vinna þrjá síðustu daga og ekki er það nein saga til næsta bæjar. Ég verð þó að viðurkenna að ég var dauðþreyttur eftir þessa þrjá daga og það skýrir seina fótaferð í morgun. Ég þarf að fara af stað fimm mínútur fyrir sjö á morgnana og keyra í rétt tæpan klukkutíma. Svo er vinna í níu tíma með hálftíma matarhléi og þar á eftir er klukkutíma akstur heim og þá er klukkan orðin sex. Svo er að lifa heima í nokkra klukkutíma og svo að fara full seint að sofa og svo að fara á fætur klukkan sex. Á sjöunda og áttunda áratugnum var alveg sjálfsagt að vinna til klukkan sjö á kvöldin og ef ekki var farið að vinna aftur eftir kvöldmat var heljar langt kvöld heima. Núna er þetta allt öðru vísi. Kvöldin virðast svo óskaplega stutt ef á að vinna daginn eftir. Á morgun, sunnudag, fer ég í vinnu um hádegi og kem heim nokkru fyrir hádegi á mánudag. Það fer betur með mig og þá er minni hætta á að ég verði syfjaður undir stýri.

Við skruppum stutta ferð á Sólvelli í dag til að sjá að allt væri í lagi þar. Á leiðinni þangað komum við við í bæjarhluta sem heitir Marieberg og þar eru bara verslanir. Þar voru komnar nokkrar verslanir áður en við komum til Örebro 1996. Síðan hafa bara bætst þar við verslanir allan tímann og þó með mestu hraði allra síðustu árin. Núna er þarna orðið þvílíkt verslunarsvæði að Mammon er alveg yfir sig hamingjusamur. Líklega er verslun Bauhaus stærst þarna, eitthvað yfir tveir hektarar að stærð. Það var mikið af útsölum þar sem kaupmenn ætla að fá sem mesta peninga af fólki og þar sem fólk ætlar sko að kaupa ódýra vöru af auðvaldinu. Það eru því tveir sterkir straumar sem mætast í Marieberg. Ecco skór voru á útsölu og skór sem ég handlék kostuðu 1150 sænskar krónur og samkvæmt gengi dagsins gerði það 17 940 íslenskar. Sagt var að skórnir hefðu áður verið á 1355 kr sænskar en þann sannleika kaupi ég mátulega dýru verði. Ég keypti enga skó og líður ágætlega með það. Ég veit að ég er gamaldags og talsvert leiðinlegur líka -alveg sérstaklega í verslunarferðum.

Að verða syfjaður undir stýri sagði ég áðan. Þegar ég var búinn að vinna mörg ár í Vornesi sagði ég einhvern tíma á morgunfundi starfsfólks "där jag satt under ratten". Þá sagði æðsti yfirmaður minn, hún Birgitta, að svona segði maður ekki í Svíþjóð. Það þætti hlægilegt að segja að sitja undir stýri og fólk sæi þá fyrir sér að maður sæti í einum hnút á gólfinu undir stýrinu. Hér segjum við að sitja bakvið stýrið sagði Birgitta. En sannleikurinn var sá að þegar hún sagði þetta fannst mér það líka stórhlægilegt að segja bakvið stýrið. Þá sá ég fyrir mér mann sem sæti í aftursætinu og teygði sig fram á við til að ná taki á stýrinu. Mér fannst það líka stór hlægilegt eitt sinn á bryggjunni á Árskógssandi þegar ég hafði verið að bera vörur úr aftursætinu í gamla, græna Volvónum um borð í ferjuna. Afturhurðin bílstjóramegin stóð því opin og þegar ég kom úr síðustu ferðinni niður í ferjuna og ætlaði að taka bílinn og keyra upp í bílageymslu. Ég slengdi ég mér inn um opna hurðina, settist í aftursætið og ætlaði að setja aðra hendina á stýrið og hina á startlykilinn. En það tókst ekki. Bílstjórasætið var fyrir mér. Þá sat ég í raun og veru bakvið stýrið. Þegar ég sagði svo ferjumönnum frá þessu á leiðinni yfir sundið hlógu þeir mikið og Bjössi Ögmunds harmaði að hafa ekki séð til mín þegar ég gerði þetta. Það tók mig mörg ár í Svíþjóð að komast að því að í þessu landi sitja menn bakvið stýrið. Birgitta var oft búin að heyra mig segja þetta þegar hún leiðrétti mig. Þrátt fyrir mínar sænsku málvillur hefur fólk yfirleitt skilið mig gegnum árin og ekki svo oft staðið í því að leiðrétta mig.
RSS 2.0