Vatns-kráin

Ég talaði um það í kaffihléi í Vornesi í morgun að ég hefði verið að heimsækja staði við Hjälmaren og ætlaði að halda því eitthvað áfram. Og eins og ég sagði í blogginu í gær talaði ég um það í morgun að ég væri að hugsa um að heimsækja Fiskeboda í dag, en ég mundi kannski hætta full seint að vinna til að það tækist. Þá bentu þau mér á að það væri mjög fínn staður við Hjälmaren sem væri mikið meira í leiðinni fyrir mig og þessi staður héti Sjökrogen. Ég ákvað þá að heimsækja Sjökrogen í dag og láta Fiskeboda bíða.
 
Ég skrapp fram á bryggju við Sjökrogen og tók mynd af veitingsastaðnum. Þetta var nú ekki alveg það sem ég átti von á en þó óneitanlega ósköp huggulegt.
 
Svo athugaði ég hvaða góðgæti ég gæti fengið þarna og þá eitthvað sem kæmi í staðinn fyrir kvöldmat. Þessi rækju/krabbabrauðsneið varð fyrir valinu. Víst var þessi brauðsneið alveg ágæt en hún var þó í þeim verðflokki sem ekki passar þegar ég er einn á ferð. Hún var tveimur og hálfum sinnum dýrari en brauðsneiðin sem ég fékk á Hjälmargården í gær, og ef svo dýrt er keypt þá þarf að vera selskapur við borðhaldið þannig að það sé hægt að sitja lengi, lengi og njóta þess að vera á staðnum. Þá má verðið alveg vera hærra. En alla vega; við þessar aðstæður snerti verðið nýskupúkan í mér.
  
Auðvitað var ósköp huggulegt þarna eins og ég sagði áðan og fólki virtist líða ósköp vel þar sem það sat yfir einhverju góðgæti og hafði góðan félagsskap.
  
Í raun og veru var ég meira að huga að fallegum stöðum með þessum heimsóknum á strendur Hjälmaren en að fínum veitingahúsum. En þar sem ég sat með brauðsneiðina mína og leit út fyrir handriðið sem var við hliðina á stólnum mínum, þá blasti við mér óendanlegt dýpi. Allur himingeimurinn var þarna niðri og þar að auki var hann hálfskýjaður. Víst var það fallegt. Ég hef alltaf verið veikur fyrir þessum speglimyndum þar sem himingeimurinn speglast svona vel í dýpinu. Ég hef líka alltaf verið hrifinn af sepgilmyndunum í minni stöðuvötnum þegar skógurinn speglast í dýpinu við ströndina hinu meginn.
 
Skógi vaxnar eyjar í Hjälmaren. Þessar eyjar eru ekki svo langt austan við Örebro.
 
Þetta er svo sem ekki ósnoturt en þessi mynd er tekin stutt frá Sjökrogen. Hins vegar er ég alveg með það á hreinu að það er mikið meiri náttúrufegurð við Fiskeboda sem er 60 km austar. Ég má til með að koma þar við á næstunni og taka myndir til að sanna það. Annars er þetta með Sjökrogen og Fiskeboda kannski bara þrátefli í mér, þrátefli sem byggist á því að ég er búinn að vinna æði stíft í fimm daga og er þreyttur og slitinn.
 
Hins vegar er það ekkert þrátefli í mér að skógurinn sem ég er búinn að horfa á öðru hvoru síðasta klukkutímann hérna austan við gluggann minn, hann er fallegri og gróskumeiri en nokkru sinni fyrr. Það er eitt og annað að sjá í Svíþjóð og það var meiningin með þessum bloggum mínum að sýna fram á það.

Aftur í heimsókn við Hjälmaren

Í gær birti ég blogg með myndum frá þorpinu Hampetorp við Hjälmaren. Á leið heim frá vinnu í dag heimsótti ég Hjälmargården sem er í öðru þorpi við Hjälmaren, þorp sem heitir Leppe. Þennan stað eiga fríkirkjurnar í mið Svíþjóð og reka þar meðal annars mikið æskulýðsstarf. Það voru hundruð tjalda þarna á öllum grasflötum í dag og iðandi af fólki um allt. Mikil ró var yfir öllu og enginn lögregla sjáanleg. Við Valdís komum þarna með margan Íslendinginn til að borða hádegisverð og það hefur alltaf verið sama sagan að það hefur alltaf verið ró yfir öllu á þessum stað. Nokkrum sinnum höfum við sem vinnum í Vornesi borðað jólaborð á Hjälmargården.
 
 
Það er stór veitingasalur á þessum stað, í húsinu á efstu myndinni, og svo er þar lítið, gamalt en vel hirt hús sem heitir Kaffistofan. Ég fékk mér væna brauðsneið á Kaffistofunni og settist svo út í sumardaginn með brauð mitt og kaffibolla. Kaffi var það í þetta skiptið og hálfan sykurmola setti ég út í kaffið til að gera síðdegið notalegra. Útsýni hafði ég þarna frá borðinu austur yfir Hjälmaren til eyja og annesja sem þar eru. Svo borðaði ég mína brauðsneið í ró og næði, naut blíðviðrisins og horfði á fjölda manns sem var á stjái um allt.
 
 
Hér er séð norður yfir Hjälmaren frá Hjälmargården og niður á vatnsbakkanum var hljómsveit að koma fyrir græjum sínum. Það á greinilega að vera ball þarna í kvöld. Helst sýndist mér að það ætti að verða barnaball. Það má eiginlega segja að það er mikið fallegra á þessum stað en myndavélin kemst yfir að sýna.
 
 
Frá Leppe hélt ég vestur á bóginn til Dimbobaden. Þar er bílastæði þar sem margur Íslendingurinn hefur stoppað með okkur til að horfa yfir Hjälmaren og það var frá því bílastæði sem ég tók þessa mynd í dag í heiðursskini við alla þá sem þar hafa komið með okkur. Sá elsti sem ég man eftir var Sigmann Tryggvason frá Hrísey. Það hefur verið sumarið 1997 eða 1998 sem við vorum þar með honum og Lilju Sigurðardóttur konu hans og Margréti dóttur þeirra. Ég nefni þetta fólk sérstaklega vegna þess að Sigmann var þá kominn á hán aldur og þegar ég horfði á hann ganga þarna um fannst mér sem það væri eiginlega ekki alveg raunverulegt. En vissulega var það raunverulegt.
  
Hér er svo komið í Krekklingesókn í Lekebergshreppi. Hér er Hjälmaren löngu að baki og tekið við mjúköldótt landslag sem sumir kalla draumalandslagið. Það er mikið mjöl sem er að vaxa á akrinum á þessari mynd og á ökrunum bæði hægra og vinstra megin við það sem sést á myndinni. Einnig á ökrunum sem voru aftan við mig þar sem ég stóð. 
Enn hef ég nálgast Sólvelli og mjúköldótta landslagið heldur áfram og enn vex mjöl á ökrunum.
 
 
Langa, rauða húsið hægra megin á myndinni er hlaðan hans Mikka bónda á Suðurbæ. Lengra til vinstri upp á hallanum eru Sóvlellir.
 
Það einhvern veginn þannig að Sólvellir eru alltaf bestir og gott að koma heim. Sjónarhornið er ekki nýtt á blogginu mínu en myndina tók ég við heimkomuna áðan þannig að hún er ný. Ég setti töskuna mína inn í forstofuna um leið og ég kom heim og hélt svo í athugunarferð um eignina, setti út eina eggjarauðu handa broddgeltinum og fékk mér aðra. Til öryggis, ef ég skyldi komast svo snemma frá Vornesi á morgun að ég geti heimsótt Fiskeboda við Hjälmaren, þá er ég búinn að setja myndavélina aftur í töskuna mína. En nú þarf ég að vera fljótur að bursta og pissa og svo er ég búinn að semja um það við Óla L að koma snemma til að vagga mér í ró. Ég vil vera úthvíldur og hress í Vornesi á morgun. Svo verð ég heima í fjóra daga.

Góðviðrisdagurinn 25. júní 2013

 
Það var fallegur morgun að vakna til í Vornesi í dag. Paradísarrunninn á baklóðinni þar er nú í sínum fegursta blóma og ég var reyndar með myndavélina með mér. Hinu meginn við þennan runna sátu nokkrir sjúklingar í náttfötum og slopp og reyndu að gera sitt besta úr morgninum. Slíkt hið sama gerði ég og var á rölti um hús, milli húsa og meðal fólks þangað minn tími var kominn til að fara heim um klukkan tíu. Þá renndi ég úr hlaði.
 
 
Ég ók rakleiðis til staðar sem heitir Hampetorp eina 20 km frá Vornesi. Þar er lítið höfn við Hjälmaren fyrir ferju og smábáta. Ferjan gengur út í byggða eyju spölkorn þar frá. Ég ákvað að líta þar við og gá að myndefni. Þarna er ég á leiðinni niður að bryggjunni sem er neðst í þessu snyrtilega þorpi.
 
 
Þetta er ekki beinlínis dæmigerð íslensk ferja. Eiginlega langaði mig að aka um borð og skreppa út í eyna, Vinön. Við Valdís fórum einu sinni þangað en þá á ís þar sem akstursleiðin var stikuð á ísnum og margir notfærðu sér það.
 
 
Austan megin við bryggjuna. Skógi vaxnar eyjar hingað og þangað, fólk að dorga og fólk á ferli.
 
 
Vestan við bryggjuna. Áfram skógi vaxnar eyjar og fjærst sér í ströndina norðan megin. Ef að er gáð sést hús næstum fyrir miðri mynd, lengst til vinstri á eyjunni sem næst er. Þessa mynd dró ég svolítið að þannig að fjarlægðír eru ekki alveg raunverulegar.
 
 
Á leiðinni frá ferjubryggjunni aftur upp í þorpið Hampetorp. Ég var að reyna að reikna það út í fyrra hvað ég væri búinn að fara oft gegnum þetta þorp og komst að því að það væri ekki minna en 3000 sinnum. Líklega oftar. Þarna átti ég eftir eina 55 km heim. Það er lengra fyrir mig í Vornes núna en þegar við bjuggum í Örebro.
 
 
Þegar ég kom svo heim var allt eins og vant er. Hlynirnir þarna biðu eftir mér. Nú er ég búinn að birta svo margar myndir frá Sólvöllum að ég hef held ég engin ný sjónarhorn til að birta myndir af.
 
 
Út í skógi fann ég þó þennan stað og var alveg viss um að ég hefði aldrei birt mynd af honum. Það var hljótt og gott að koma heim og spássera í kyrrðinni. Ég vistaði þessar myndir inn á bloggið í gær en mér vannst enginn tími til að setja við þær texta þá. Ég skrifa línurnar samt eins og ég hafi gert það í gær. Ég merki samt að ég ætlaði að segja allt aðra hluti um myndirnar í gær en það sem mér tókst að segja núna. Ég er ekki ánægður með þennan texta. Einhvern annan dag þegar ég hef unnið nótt mun ég koma við á einhverjum öðrum  stað og athuga hvað fyrir augun ber þar. Þann dag þarf ég kannski ekki að slá lóðina þegar ég kem heim.
 
Ég lét það nefnilega ganga fyrir að slá lóðina eftir að ég kom heim þar sem það var spáð rigningu og þá hefði lóðin orðið allt of loðin. Rigningin gekk eftir og sprettan lét ekki á sér standa. Það er búið að rigna all mikið í sólarhring og græni liturinn allt um kring er hreinn, ferskur og ég þori að fullyrða ánægður. Ánægðastur verð ég núna ef ég hraða mér í að bursta og pissa og koma mér svo í rúmið. Klukkan fimm í fyrramálið hringir svo klukkan en ég geri ráð fyrir að vakna einhverjum mínútum áður en hún hringir. Það er best þannig.
 

Vinarþel

Á morgun fer ég að vinna og í tilefni af því, og einnig þar sem það er há sumar, fór ég á stjá til að taka saman föt sem ég þarf að nota á næstunni. Það má reikna með að það verði vel heitt í húsum og því vantaði mig stutterma skyrtur. Ég gekk inn loftið á Bjargi og framhjá plastkössum með gegnsæju loki. Undir lokunum lágu ritvélablöð með útskýringum á innihaldi kassanna. Þegar ég kom að síðasta kassanum stóð á blaðinu skrifað með rithönd Valdísar, "sumarföt af Valdísi og Guðjóni, des 2012". Nokkur augnablik horfði ég hljóður á þetta blað og svo var ekki svo mikið annað að gera en að opna kassann og taka þaðan nokkrar stutterma skyrtur sem þar lágu snyrtilega frágengnar.
 
Á nokkrum umliðnum árum hefur Örebropresturinn Moni Höglund séð um margar sunnudagshelgistundir á sumrin í sjónvarpinu. Okkur Valdísi féll afar vel við þessa konu og þegar við vissum að hún sæi um helgistundir í sjónvarpi þótti okkur sérstaklega mikilvægt að fylgjast með. Fyrir fáeinum árum var ég viðstaddur giftingu ungs vinnufélaga míns. Valdís valdi að koma ekki vegna þess að hún þekkti engan, en þó var henni boðið að koma. Það var Moni sem gaf hjónin saman.
 
Eftir giftinguna var veisla í litlu félagsheimili sunnan við Örebro. Þar sem ég gekk þar þvert yfir gólfið í stóru holi framan við veislusalinn sá ég Moni þar á ferli og ég ákvað að heilsa henni og segja henni hversu oft við hefðum hlustað á hana í helgistundunum hennar. En það var hún sem fyrst breytti um stefnu og gekk rakleitt til mín og heilsaði. Svo sagði hún ákveðið að við hlytum að hafa hittst áður og hvar það gæti hafa verið. Ekki mundi ég eftir því að við hefðum hittst, nema þá að það hefði verið á fundi sem nokkrir Örebroarar sátu í Vornesi nokkrum árum áður. En ég sagðí henni frá því hversu vel við hefðum metið helgistundirnar hennar.
 
Hvað sem því leið þá var það Moni sem annaðist helgistundina í dag. Hún talaði mikið um vináttu og mikilvægi hennar og það var næsta merkilegt að heyra hvað hún gat komið inn á þetta efni frá ólíkum sjónarhornum. Hún talaði frá báti sem var á siglingu á Gauta skipaskurðinum sunnar í Svíþjóð, mitt í iðjagrænni náttúrunni. Þessa helgistund þarf ég að hlusta á aftur þar sem orð Moni settu í gang svo margar hugsanir að ég náði alls ekki að meðtaka allt sem hún sagði. Ég hef líklega aldrei áður áttað mig jafn vel á því hversu mikils virði bestu vinirnir eru þegar örlögin láta reyna á styrk minn.
 
 
*          *          *
 
 
Í Kyrrð dagsins í dag segir Seng-T 'San nokkur, kínverskur maður frá sjöundu öldinni, eftirfarandi: "Tómt hér, tómt þar, en óendanlegur alheimurinn er alltaf fyrir augum þér." Ég ætla að svo stöddu ekkert að leggja út frá þessu en mig langaði að vita meira um þennan mann þannig að ég aflaði mér lesefnis um hann. Þar var af miklu að taka en örstutt frásögn vakti athygli mína.
 
Hefðbundin frásögn segir að Seng-T 'San var með holdsveiki þegar hann hitti læriföður sinn. Lærifaðirinn niðurlægði Seng-T 'San með því að segja "Þú þjáist af holdsveiki. Hvað ætlar þú að öðlast af mér mér?" Seng-T 'San á að hafa svarað: "Jafnvel þó að líkami minn sé veikur er hjartalagið hjá veikri manneskju ekki öðru vísi en hjartalag þitt." Af hrifningu yfir þessu svari samþykkti lærifaðirinn Seng-T 'San sem lærling sinn. Síðar gerði hann Seng-T 'San að andlegum eftirmanni sínum.
 
Ég er enginn andlegur höfðingi eins og þarna er um að ræða, en á morgun þegar ég kem til vinnu minnar er gott fyrir mig að hugleiða þessi orð. Ég hef ekki verið á vinnustað mínum í mánuði. Það er því mikilvægt fyrir mig að muna eftirfarandi: Þó að mér verði ekki mætt hrokalaust af öllum sjúklingum sem ég kem til með að hitta, þá má reikna með að sá hinn sami eða þeir hinir sömu gráti innilega í hjarta sínu. Þegar tárin baða hjarta manneskjunnar er auðveldast að vinna hjarta hennar og þá falla varnarmúrarnir. Þegar ég set þessa hugsun í orð nákvæmlega á þessari stundu, þá hlakka ég til vinnunnar. Þannig hef ég reynt að vinna og þannig vil ég halda áfram að vinna á meðferðarheimilinu fyrir alkohóllista og fíkniefnaneytendur.

Umvafin júnínóttinni

Sumu er varla hægt að segja frá eins og til dæmis því að vera að skipta yfir á sumardekk þann 22. júní. Trassaskapur! Eða hvað? Já, víst má telja það trassaskap, en sannleikurinn er sá að vetrardekkin eru hljóðlátari og svo er bílinn sparneytnari á vetrardekkjunum. Samt gat ég ekki hugsað mér að kaupa ný sumardekk sem væru í sama gæðaflokki og vetrardekkin því að sparnaðurinn yrði ekki svo mikill að það réttlætti að henda dekkjum sem duga eitt sumar til. Svo er best að lokum að ljóstra því upp að vetrardekkin eru ónegld. Að vera á ónegldum vetrardekkjum geri ég af umhverfisástæðum og ég finn mig öruggan á þeim á vetrarvegum. Eitt og annað geri ég af umhverfisástæðum en trúlega mun ég aldrei komast að því hver ávinningurinn hafi í raun verið fyrir umhverfið. Ég vona samt að það verði ávinningur þegar upp er staðið af því að ég vil barnabörnunum mínum vel í framtíðinni.
 
Svíþjóð er að ná áttum eftir stórhátðíðarhöldin og ýmsir eru komnir til sinna heimkynna þó að það sé bara laugardagur. Það var líka hreyfing á fólki hér á Sólvöllum í dag þar sem skógarálfarnir mínir tveir komu í heimsókn. Ég tók þá ákvörðun í gær að þeim yrði boðið upp á rúgbrauð og pönnukökur og komst þá að því að eggin runnu út fyrir 16 dögum þannig að það var sjálfgert að fara inn í Marieberg í morgun til að kaupa egg. Það var eiginlega stórskrýtið að aka þar á bílaplönunum, plönum sem taka fleiri hundruð og jafnvel þúsund bíla og vera nánast einn. Fjórir eða sex bílar voru við kaupfélagið og bara einn og einn bíll við aðrar stórverslanir, enda voru þær lokaðar. Ég hef átt mjög góða helgi hér heima hjá mér og að fá álfana mína í heimsókn var jú alveg frábært.
 
Meðan ég er að skrifa horfi ég öðru hvoru út í skóginn. Það er eins og ég geti aldrei talað nóg um hann. Nú er að bregða birtu þar inni og þá er hægt að fara að tala um seiðmögnun. Það er alger helgidómur að hafa þetta þögla, hávaxna líf þarna að húsabaki. Mörg tré eru ótrúlega há en samt er vart hægt að greina að þau bærist núna í kvöldkyrrðinni. Hitamælirinn í bílnum stendur í 17 stiga hita og það er alskýjað og þurrt. Þannig er veðráttunni háttað á þessu kvöldi og ég er mjög ánægður með það.
 
Í kvöld ætla ég að fara að minnsta kosti klukkutíma fyrr að sofa en venjulega. Ástæðan er -ég veit ekki hvort ég hef sagt frá því leyndarmáli- en ástæðan er að ég ætla að fara að vinna á mánudaginn. Þá þarf ég að hvíla mig vel svo að ég geti orðið fullgildur launþegi en ekki nein hálfsofandi hengilmæna. Ég dreg ekki dul á það að ég verð elsti launþeginn í Vornesi. Ég talaði um það um daginn að mér fyndist ég ekki vera eins gamall og ég er og þá ætti ég auðvitað að geta unnið ennþá. Ég talaði líka um að ég væri heilsuhraustur og útskýrði það eitthvað nánar.
 
Ef ég úrskýri þetta aftur og bæti aðeins við það sem ég sagði um daginn, þá get ég sagt sem svo að þegar ég var ungur maður, þá var ég svo viss um að menn og konur á þeim aldri sem ég uppfylli núna væru afar vísar manneskjur, og núna finnst mér ég ekki vera eins vís maður og ég taldi að ég yrði. Kannast nokkur við þetta? Hitt er svo annað mál að margir sjúklinganna í Vornesi segja mig vísan mann. En ég verð nú að vinna ötullega að því að verða ennþá vísari. Þannig er það bara og ég hef alveg heilsu til þess.
 
Hvað heilsuna áhrærir talaði ég um að ég talaði ekki svo mikið um sjúkrahúsvistir og læknisheimsóknir vegna þess að ég hafi ekki þurft svo mikið á því að halda. Ég vil gjarnan umorða þetta svolítið og segja að ég nýt þess ekki að segja frá sjúkrahúsvistum mínum, læknisheimsóknum og ekki heldur lyfjanotkun. Hafi ég þörf fyrir að daðra við þessa hluti hef ég á tilfinningunni að ég kalli yfir mig sjúkdóma. Kannski er þetta léleg heimspeki en þannig hugsa ég nú samt. Hins vegar tel ég alltaf rétt að segja frá heilsu sinni eins og hún er.
 
Svo nokkrar myndir
 
Þarna eru skógarálfarnir mínir og þeir sem fylgjast með blogginu þekkja frá vinstri Þóri og Auði, álfana sem komu í dag. Þórir hefur líka verið heimilislæknir margra sem lesa bloggið. Álfkonan til hægri, hún Eva, er ekki eins oft á ferðinni enda á hún heima lengra í burtu. En hún gladdi Valdísi oft með heimsóknum sínum og alveg sérstaklega með síðustu heimsóknunum. Valdís mat það líka mikils þegar Þórir og Auður komu nánast beint úr lestinni til að heimsækja hana á sjúkrahúsið, en þá voru þau einmitt að koma til Örebro daginn sem þau fluttu hingað.
 
 
Þessa pumpu færði ég úr potti í dag og í þetta beð. Ég hafði hana nærri horninu til að það yrði hægt að láta sjálfa pumpuna eða pumpurnar liggja út á svæðinu utan við þegar hún verður mjög stór. Bjartsýni er góður förunautur.
 
 
Hér er bláberjarunni sem hefur alla tíð staðið sig vel og Hannes kemur til með að geta fengið sér all mörg ber af honum og öðrum runna til þegar á líður. Svo erum við búin að gróðursetja margs konar aðra bláberjarunna og þeir skila engu. Nú er mál að kasta þeim og fá fleiri af þessari tegund.
 
 
Þessi tré og mörg önnur tré utan við gluggann minn eru nú umvafin af júnínóttinni og þar með segi ég góða nótt.

Kannski er ég bara stór skrýtinn

Ég fór í kvöldgöngu út í skóg í gærkvöldi og var vel vakandi yfir áhrifunum sem gangan mundi hafa. Áhrifnin voru þessi venjulegu, grænt, grænt og grænt og mikið fuglalíf, kyrrð og notalegheit. Það sem kom mér reyndar á óvart var hið milda ga-gú hljóð gauksins eða var það kannski bara a-ú. Ég reyndi að heyra hvort var en varð ekki viss. En þetta hljóð er einfaldlega hluti af kyrrðinni. En skrýtið. Ég hélt að ástarlífstími fuglanna væri um garð genginn undir lok júní eða er þessi ástartími gauksins lengri en annarra fugla? Ég fékk ekkert svar við þeim hugleiðingum annað en að þær gerðu þessi hljóð svolítið rómantísk. Einhver var að kalla á eða til elskunnar sinnar.
 
Burknahöfin eru sérstaklega heillandi í skóginum um þessar mundir. Þeir ná mér víða í mitti og upp á miðja síðu. Já, óneitanlega heillandi.
 
Í dag hefur það verið eins og aðra síðastliðna daga að ég hef verið óskipulagður. Málið er bara að mér fannst það allt í lagi í dag. Ég leit til ungu grannanna sunnan við. Þau voru búin að setja húsvagninn aftan í bílinn en þau voru ekki farin. Ég ætlaði að fara út og hreinsa til bakvið Bjarg þegar ég yrði einn á svæðinu. Þessi miðsumardagur er Svíum svo óskaplega mikilvægur að ég vildi ekki ganga fram af þeim með brambolti. Ég beið því með að fara út og leit á feisbókina, fyrirsagnir í blöðum og vappaði svolítið fram og til baka.
 
Svo fóru ungu grannarnir sunnan við að heiman og stuttu eftir að þau fóru varð ég var við bíl á veginum. Það voru grannarnir hinu megin sem hafa ekki verið hér í tvo daga. Þau óku inn á stíginn heima hjá sér og fóru óvenju langt inn á hann. Það boðaði að þau ætluðu að halda dagnn hátíðlegan hér og að þau fengju líka gesti. Sú varð líka raunin á og ég tók nýja ákvörðun. Ég nota daginn til að útrýma reyniviði. Síðan tók ég greinaklippur og klippti niður ótrúlegt magn af reyniviðarplöntum og þá tala ég um hundraðatal. Það var hljóðlátt verk en tiltektin sem ég ætlaði í hefði verið að tína mikið af grjóti upp í hjólbörur og það fer ekkert hljóðlega fram.
 
Ég hélt jafnframt uppteknum hætti og vappaði fram og til baka inn á milli, horfði á tré, hugaði að verkefnum framtíðarinnar sem lúta að því að hlú að skóginum. Ég fór inn og leit á feisbókina, leit í blöð og fékk mér te. Í einni af þessum ferðum mínum inn tók ég færeyskan lax út úr frystinum og lagði á disk. Svo vatt ég mér út úr dyrunum og áleiðs móti skóginum. Nú ætlaði ég í eina gönguferðina enn. Þá gekk ég framhjá luktinni hennar Valdísar sem stendur við rósirnar hennar. Ég kveiki á kerti í kvöld hugsaði ég, en það logaði á kerti í þessari lukt svo gott sem allan tímann frá andláti hennar þangað til við fórum til Íslands. Um leið og þessi hugsun greip mig setti það í gang einhverja bækistöð í tilfinningalífi mínu. Svo hélt ég áfram hugsandi um það að táradalurinn væri ótæmandi.
 
Eftir ein fimmtíu skref kom ég að tegund hlyns sem bara er til sem plöntur hér á Sólvöllum. Ein þeirra er þó sýnu stærst og hún er bakvið Bjarg, tæplega mannhæðar há. Þegar ég kom að henni blöstu við mér fallegir blómaklasar sem prýða þessa plöntu, mikið seinna en á örum tegundum hlyns hér í skóginum. Við það að horfa á þessi undur fallegu blóm fékk það huga minn til að hvarfla að öðru en sorg og trega. Þau eru ótrúlega falleg og eru búin að vera það í marga daga.
 
Ef þessi hreinleiki lyftir ekki upp huganum, hvað þá?
 
Eftir að ég kom til baka úr skóginum hélt ég áfram slag mínum við reyniviðinn vel fram á eftirmiðdaginn, eiginlega fram undir kvöld. Svo vökvaði ég grænmeti, dreif mig í sturtu og hóf matargerð. Laxinn frá Færeyjum leit girnilega út.
 
Maturinn tilbúinn í ofninn. Mundi einhver vilja borða þetta með mér? Tvær tegundir af tómötum, paprika, timjan og kóriander. Undir eru 250 grömm af færeyskum laxi. Trúlega hefði ég átt að setja timjan og kóriander undir tómatsneiðarnar og paprikuna. Svo hellti ég náttúrlega matargerðarrjóma yfir allt saman.
 
Salatið úr grænmetisræktinni hennar Rósu er líka gott, með bara öllu! Svo ef avakadó er haft með öllu saman eins og ég geri stundum verð ég stór og sterkur -kannski loksins fullorðinn líka.
 
Svo getur maturinn líka litið svona út. Það er rauðspretta undir rauðmetinu, rauðspretta sem var kvöldmatur í fyrradag. Allt er þetta hollt nammi.
 
Kvöldhúm hefur lagst yfir Sólvelli og sveitirnar i kring og mikil kyrrð er ráðandi. Gaukurinn er líka hljóður. Hann heldur líklega utan um elskuna sína núna. Þó að það sé einhver veisla hjá nágrönnunum norðan við er ósköp hljóðlátt hjá þeim. Það var rétt af mér að sýna þeim nærgætni í dag á þessum stóra hátíðisdegi þeirra.
 
Ég hef velt því fyrir mér hvers vegna mér líkar svo vel að vera einn um þessar mundir. Það er kannski ekki bara að ég sé stór skrýtinn. Það er búið að vera mikið umleikis undanfarnar vikur og mikil samtöl við alla mögulega og mikil samvera með fólki. Ég er svo sem ekki áhyggjufullur af sjálfum mér. Ég get líka sagt að ef einhver rólyndis manneskja hefði bankað upp á hjá mér þegar ég byrjaði að borða kvöldmatinn og spurt hvort ég vildi félagsskap við borðhaldið, þá hefði ég örugglega sótt annan disk með glöðu geði. Lífið fer þrátt fyrir allt góðum höndum um mig.
 
Um sex leytið kveikti ég á kertinu í luktinni hennar Valdísar. Það mun loga í nokkra daga. Ég hef bloggað mikið um Valdísi og margt kringum þann lokaferil allan. Það er væntanlega mál að linni. Það er þó eitt sem ég á eftir að blogga um en ég vil þó ekki ljóstra því upp hvað það fjallar um, annað en að það fjallar um trú. Áður en ég birti það blogg, sem ég veit ekki hvenær verður, mun ég fyrst birta aftur blogg sem ég birti í fyrra, bara til að fá samhengi í hlutina.
 
Fyrr í vikunni bloggaði ég um félagslega þáttinn og í kvöld talsvert um mat. Ég vona þar með að fólk sjái að ég spjara mig.

Og hér pípti klukkan

Ég kannski vatt mér ekki beinlínis fram úr rúminu í morgun en eftir smá vafstur hér inn í svefnherberginu og skrif í tölvu gekk ég röskum skrefum fram í eldhús, fékk mér eitt stórt vatnsglas að drekka, og setti svo hrærivélina á eldhúsbekkinn. Því næst leit ég inn í mjölskápinn -en viti menn; það voru bara til tveir bollar af rúgmjöli. Rúgbrauðsbakstrinum var því frestað fram yfir næstu búðarferð. Ef til vill verður sú ferð í dag.
 
Þetta með baksturinn þarna í morgun var bara algert rugl. Það vantaði ekki bara rúgmjöl, það vantaði líka súrmjólk, jafnvel heilhveiti og jafnvel natron. Og búðarferðinni er nú lokið og ég er búinn að kaupa allt sem til þarf og meira en það. Eiginlega finnst mér það svolítið sniðugt þegar Guðjón frá Kálfafelli fer út í búð og kaupir bikarbonat, það er að segja natron. En svona er það, mér fer fram með degi hverjum.
 
Ég man ekki hvort ég sagði í gær að ég ætlaði að vera duglegur í dag. Hafi ég sagt það einhvers staðar, þá hef ég ekki verið það. Ég hef hringlað all nokkuð fram og til baka, ögn skipulagslaus, og á svolítið erfitt með að stilla mig inn á líf ellilífeyrisþegans, það er að segja að þurfa ekki að afkasta miklu. En ég hef komið ýmsu í verk og framkvæmt nokkuð sem var kannski ekki fyrir einn að framkvæma. En það tókst og mér þótti vænt um að þurfa ekki að kjalla út neitt björgunarlið til að aðstoða mig. Svo hef ég lesið blaðagreinar og leitað uppi ýmsan fróðleik á Google.

Svo fór ég í innkaupaferð og hún tók mjög mikið lengri tíma en ég ætlaði. Það er Jónsmessuhelgi sem hér er kölluð miðsumar (midsommar) og sú helgi er Svíum afar mikilvæg. Eins og verslunarmannahelgi og hálafgerður þjóðhátiðardagur með meiru og mikið um hefðir, fiðluleik og þjóðdansa víða um land. Því voru verslanir beinlínis fullar þegar ég kom í kaupfélagið og alls ekki hægt að versla í neinu snatri. Ég ætlaði að fara út þegar ég kæmi heim og halda verkum mínum áfram um stund. En svo seint kom ég til baka að ég sneri mér beint að matargerðinni og nú bíð ég eftir að klukkan pípi sem þýðir að maturinn er til. Í ofninum er nefnilega þorskflak úr Barentshafi ásamt tómat, plómutómötum, papriku, lauk og rjómaskvettu. Mikið hollur og góður matur.
 
Og hér pípti klukkan.
 
Já, það var mikið hollur og góður matur. Ég talaði um það áðan að ég ætti svolítið erfitt með að aðlaga mig ellilífeyrisþegalífinu. Í fyrsta lagi finnst mér alveg fáránlegt að segja að ég sé sjötíu og eins árs. Ég finn mig alls ekki svo gamlan. Ég er enginn afkastamaður en nokkuð seigur við það sem ég tek mér fyrir hendur. Ég hef hestaheilsu, alla vega til þeirra verka sem ég ætla mér. Ég er afar þakklátur fyrir þessa heilsu, tala lítið um krankleika, lyf, læknisheimsóknir og sjúkrahúsvistir. Reyndar get ég sagt að ég er ekki bara þakklátur, ég er líka pínulítið stoltur af heilsu minni.
 
Þegar ég settist við tölvuna fyrir rúmum klukkutíma fann ég fyrir því að mig langaði til að skrifa fallega. Einfaldlega að skrifa fallega. Nú hef ég skrifað um allt og ekki neitt og þetta fallega er ekki komið. Þannig fór um þann drauminn. Ég ætla nú að birta þennan samtíning minn og svo ætla ég í gönguferð út í Sólvallaskóginn. Ég ætla að athuga hvort eitthvað virkilega fallegt grípur huga minn þar. Ég ætla að vera heima um helgina þó að Svíar telji það nánast skyldu að fara á mannamót og taka þátt í hátíðahöldum. Ég læt ekki mikið á mér bera í dag því að ég vil ekki hitta fólk sem spyr mig hvað ég ætli að gera um helgina. Það gæti farið að bjóða mér heim. En ég vil velja þetta sjálfur; að vera heima og geta látið hugann reika. Ég vil alla vega ekki deila helginni með hverjum sem er. Vissulega finnst fólk sem ég mundi svo gjarnan vilja vera með. Ég vil velja leiðina til íhugunar um þessa helgi og þá get ég ekki kastað mér út í hvað sem er.

Gott fólk

Ég var á fundi í Fjugesta áðan. Á þessum fundi voru fimm menn og konur sem sögðu sannleikann um líf sitt. Þeir sem koma á þessa fundi, eru heiðarlegir og segja sannleikann, þeim vegnar vel. Er þetta ekki einfalt? Jú, það er einfalt. En það finnst eitt skilyrði sem verður að uppfylla til að þetta komi að gagni. Viljinn verður að koma frá hjarta hvers og eins, það er að segja; það kemur engum að gagni nema hver og einn vilji það sjálfur. Það er til setning sem hljóðar svo: Enginn getur hætt drykkjuskap nema vilja það sjálfur.
 
Þannig er nú það.
 
Í fyrrakvöld ákvað ég að bretta upp ermarnar að morgni og vera duglegur hér úti. Svo kom þessi morgun, það er að segja í gærmorgun, og þegar ég vaknaði fann ég á mér að ég mundi ekki bretta upp ermarnar af þeim krafti sem ég hafði ákveðið kvöldið áður. Ég vildi samt ekki viðurkenna það fyrir sjálfum mér og lauk við að taka upp úr ferðatöskunum. Svo eldaði ég hafragrautinn og þegar ég var að blanda hvönninni sem ég fékk hjá honum Bjarna Thór í Hrísey út í grautinn þá hringdi dyrabjallan. Það glaðnaði yfir hjarta mínu þar sem ég sá fram á gestakomu og þá þyrfti ég ekki að fara alveg strax út að vinna. Gaman, gaman.
 
Inn stigu hjón, þau sem seldu okkur Sólvelli. Þau koma einu sinni til tvisvar á ári í heimsókn. Þeim þykir ennþá vænt um þennan stað og þau vilja gjarnan fylgjast með hér og það er þeim svo velkomið. Svo borðaði ég grautinn en þau drukku fläderblomsaft sem ég átti í ísskápnum og það urðu líflegar umræður um allt mögulegt. Mér líkaði þetta vel því að ég fékk þar með fullgilda afsökun fyrir því að fara ekki strax út til að flytja til eldivið og eldiviðarskýli áður en hann Martin gröfumaður kemur til að laga til kringum Sólvelli. En svo kom að því að þessi hjón færu og stundin nálgaðist þegar ég mundi verða að leggjast á fjóra fætur til að tína eldiviðinn upp í hjólbörur bakvið Bjarg.
 
En lánið lék við mig. Þegar gestirnir voru í þann veginn að rísa á fætur klingdi aftur í dyrabjöllunni. Ég gekk fram og leit út. Jú, þarna var hún komin hún Eva. Eva er íslensk sómakona sem á marga kunningja í Örebro en nú býr hún sjálf í héraði norðan við Stokkhólm. Hún var á ferð í Örebro og notaði tækifærið til að heimsækja kunningja og vini svona eins og gengur. Hjónin fóru og við Eva settumst út í sumarblíðuna með tebollana okkar. Svo var komið hádegi og Eva fór.
 
Rétt þegar Eva var farin hringdi síminn. Það var mikil vinkona Valdísar sem var á línunni og hún vildi bara vita hvernig það hefði gengið á Íslandi. Svo töluðum við saman all nokkurn tíma og hún fékk skýrslu um það hvernig allt hefði gengið fyrir sig með minningarathöfn í Reykjavík og athöfn í Hrísey.
 
Svo er það nú málið hvers vegna ég er að gefa þessa skýrslu um heimsóknir og félagsskap þann sem ég hef hér á Sólvöllum. Inn í það vil ég líka taka fundinn sem ég sat í kvöld. Jú, ef það eru einhverjir ættingja og vina á Íslandi sem velta því fyrir sér hvernig mín félagslega staða er hér, þá er þetta svolítið svar við því. Fólkið sem kom og vinkona Valdísar sem hringdi bentu mér á að þau fyndust ef ég þyrfti á fólki að halda. Svo hafa fleiri boðið upp á og ég mun ekki verða í vandræðum á næstunni ef ég tel mig þurfa félagsskap. Það er mikið til af góðu fólki. Í dag hringdi líka skólasystir mín frá Skógum sem býr meira og minna í Svíþjóð. Hún hefur heimsótt okkur hingað og henni og Valdísi var ágætlega til vina.
 
En út fór ég seinni partinn í gær, glaður og þakklátur fyrir heimsóknir og athygli. Ég bardúsaði við viðinn og færði til tvö viðarskýli í gær og í dag. Svo á ég eftir að færa eitt í viðbót. Mér liggur ekki lífið á þar sem Martin kemur ekki fyrr en á sunnudag, en þá ætlum við að ræða saman um verkefnið og áætla magn af drenrörum, möl og mold. Svo kemur hann seinna til að vinna það. En að byrja í tíma forðar mér frá því að lenda í tímaþröng. Það er nefnilega eitt af því sem ég hef unnið við að fá inn hjá fólki í Vornesi, að draga ekki til síðustu stundar. Það gerir okkur stressuð. Ekki hefur mér alltaf tekist þetta sjálfum en alla vega svo oft að ég sé mér er fært að breiða út boðskapinn.
 
Klukkan er rúmlega tíu að kvöldi og það er búið að rigna 5 mm síðustu tímana og enn er rigning. Hitinn er siginn úr 24 stigum niður í 17 og ég get rétt ímyndað mér hversu þakklátur gróðurinn er fyrir þessa vætu, þetta græna haf bæði á láði og í lofti liggur mér við að segja, gras, mosi, lyng og blóm og allur þessi endalausi aragrúi laufblaða sem eru í óða önn að vinna mannkyninu lífsnauðsynlegt súrefni. Þetta fallega græna haf sem ég er fullkomlega ástfanginn af. Það verður gaman að líta út á morgun.

Þessi frábæri staður

Ég var eftirvæntingafullur vegna heimkomunnar síðustu dagana og ekki minnst á leiðinni heim. Þegar ég fór að heiman síðasta daginn í maí gat ég ímyndað mér að sumarið væri komið að þremur fjórðu eða svo. Þegar ég var svo að aka síðustu kólómetrana heim að Sólvöllum í dag sá ég vel að sumarið var komið að fullu. Og þegar ég kom inn gegnum hliðið á grjótveggnum sem er á lóðamörkunum vestan við húsið sá ég Sólvelli í meiri skrúða en nokkru sinni fyrr. Það var enginn vafi.
 
Á slíkum stórum augnablikum verð ég hrærður. Ég tala oft um að vera hrærður. Einhvern tíma held ég að það hafi verið sagt að það væri "kellingalegt". Hins vegar held ég að það hafi verið útskýring okkar karlmanna á því að það væri ekki karlmannlegt að vera með tilfinningavellu. En sannleikurinn er bara sá að þegar ég kom á bílnum inn um hliðið og þegar ég var kominn út úr bílnum og horfði á umhverfið hér heima -þá var ég hrærður.
 
Hvílíkur ríkidómur að hafa skóginn fyrir granna hér á Sólvöllum. Áður en við eignuðumst Sólvelli hafði ég mótað með mér draum um það hvernig umhverfi frístundahúss okkar Valdísar ætti að líta út. Sá draumur finnst líka niðurskrifaður á blaði. Þar segir að vegurinn þangað heim eigi að vera bugðóttur, að skógur eigi að vera gróskumikill og hóflega viltur að baki húsinu og jafnvel að hluta fyrir enda þess en að frá framhliðinni eigi að vera víðáttumikið útsýni. Frá framhliðinni á að halla niður í móti góðan spöl og niður á jafnsléttunni þar fyrir neðan á að vera stöðuvatn. Það má segja að nokkurn veginn allt í þessari lýsingu standist utan að síðasti vegarspottinn heim að húsinu er beinn og stöðuvatnið vantar inn í myndina.
 
Þar sem ég stóð hjá bílnum og virti þetta fyrir mér ákvað ég að fara í gönguferð um fremsta hluta skógarins áður en ég færi inn með matvörurnar sem ég hafði keypt á leiðinni heim. Ég heimsótti nokkra einstaklinga í þessum skógi, snerti þá, rannsakaði vöxt og virti þá nákvæmlega fyrir mér. Svo áttaði ég mig á því hversu vel skógarálfarnir mínir höfðu hlúð að Sólvöllum meðan ég var á Íslandi. Skógarálfarnir heita Auður og Þórir. Og það var ekki nóg með að þau hefðu hirt allt svo ótrúlega vel, þau höfðu líka skrifað dagbók fyrir hvern dag sem þau dvöldu hér. Það gladdi mig mjög að þeim virðist hafa liðið mjög vel þann tíma sem þau voru hér.
 
Ekki er ég viss um það hvernig tíminn leið en allt í einu var komið að því að fara á 17. juní fagnaðinn sem stofnað var til á heimili einu í Örebro. Ég pakkaði aðeins að hluta upp úr töskunum, setti marvörurnar í ísskápinn, fór í sturtu og mætti hálftíma seinna í fagnaðinn en til stóð. Það voru all nokkrir saman komnir þarna en ég hafði ekki hitt nema fáa af þeim.
 
Nokkrir þjóðháttíðargestanna. Dugnaðarforkurinn hún Rósa Ólafsdóttir situr þarna fyrir endanum, en það er hún sem á heima þarna og var driffjöður að þessu kvöldi. Hann Guðni, maður sem ekki sést á myndinni, hafði slegið hugmyndinni upp á fb og svo vildi eiginlega hvorugt þeirra, Rósa eða Guðni, taka á sig æruna. En þau fá bæði plús í kantinn frá mér fyrir framtakið og sérstaklega Rósa fyrir að lána heimili sitt. Á myndinni er allt Íslendingar nema mennirnir sem eru lengst til vinstri og hann fyrir endanum við hliðina á Rósu. Ég hef hengt mikinn alvörusvip á andlitið á mér samkvæmt þessari mynd. Ég þarf eiginlega að fá mér nýjan svip svo að ljós mitt fari líka að lýsa.
 
Hér með er komið kvöld á Sólvöllum með viðeigandi rútínum. Á morgun verð ég svo að klára að taka upp úr töskum og koma skipulagi á heimilið. Það var skipulag á því þegar ég kom heim en ég sprengdi það í dag þegar ég var að búa mig í veisluna í Örebro.

Um borð í flugvélinni Laka

Um borð í Laka

Fyrrum fannst mér gaman að vera á flugvelli og bíða brottfarar. Það virðist vera liðin tíð. Að vera á Keflavíkurflugvelli í dag og bíða brottfarar var með öllu óáhugavert, ruglingslegt og nánast leiðinlegt. Þegar ég fékk mér tvo flatkökubita og eina væna ostaköku med góðum kaffibolla, þá upplifði ég bestu stundina á flugvellinum. Eftir það nálgaðist brottför.

Ég var með þrælvönu ferðafólki, Rósu og Pétri, og það var næstum að Hannes Guðjón skákaði mér í heimsmennsku. Hefði ég verið einn hefði ég bjargað mér áfram en nú var ég það ekki og mitt hlutverk varð því mikið að elta. Mér fannst Keflavíkurflugvöllur mjög mikið flóknari en Arlanda. Meðan við vorum í Keflavík renndi ég huganum til baka og komst að því að ég hef ekki verið á öðrum flugvöllum en Arlanda og Keflavík síðan 1994, en það ár heimsótti ég Osló og Kaupmannahöfn að auki. Jú og reyndar Bergen líka í fyrra. Samkvæmt þessu verð ég að teljast reynslilítill ferðamaður. Kannski ætti ég ekki að bera slíkar staðreyndir á borð á almannafæri en ég  læt mér í léttu rúmi liggja.

Í minni 16 daga Íslandsferð hefur margt borið á góma og margt hefur hent sem ég hef séð sem efni í blogg. Þó man ég sáralítið af því þar sem ég sit nú um borð í þotunni og er kominn austur af Íslandi í rúmlega 11 km hæð. Annað er þess efnis að ég mun einungis blogga um það einsamall í kyrrðinni á Sólvöllum með útsýni inn í hljóðlátan Sólvallaskóginn. Í myndavélinni eru margar myndir sem munu minna mig á það mesta sem mér þykir mikilvægt eftir þessa Íslandsferð. Þar er að finna dagbók ferðarinnar. Þó verð ég að segja að erindi þessarar Íslandsferðar er ofarlega í huga mér flestum stundum.

Nú er þeim erindagerðum lokið og eiginlega getur það kallast önnur kaflaskiptin í lífi mínu á stuttum tíma. Nýr kafli tekur nú við þar sem ég mun forma líf mitt að nýjum aðstæðum. Ástæðan til þess veldur mér trega en verkefnið er eiginlega forvitnilegt, ég vil ekki segja spennandi, en það er alla vega undir mér komið hvernig mér mun reiða af framvegis.

Áðan neyddist ég til að fara á klósettið aftast í vélinni. Ég þurfti að semja við flugfreyju um að bakka med söluvagninn sinn um fjórar sætaraðir. Meðan ég beið eftir að hún lyki við að afgreiða tvo farþega sem voru að kaupa smáflöskur af sterku áfengi reikaði hugur minn til baka í tíma, til þeirra ára þegar augu mín stóðu á stilkum þangað til þessi söluvagn kom að sætaröðinni minni. Núna horfði ég á þessi viðskipti og fannst þau tákna tómleika.

Heppinn ég í dag að vera ekki á því tímabili lífs míns. Þá væri ég ófrjáls maður og það er undir mér komið að halda mig á landssvædi hins frjálsa manns. Þegar ég skrifaðist út af Sogni í mars 1991 fékk ég pening hengdan um hálsinn, pening sem var hengdur í mjóan borða með íslensku fánalitunum. Við það tækifæri átti ég að lesa upphátt það sem stóð á annarri hlið þessa penings og ég las þar með hrærðum huga orðin:  "Ég er ábyrgur". Þennan pening á ég og varðveiti vel. Ég er svo sannarlega ábyrgur fyrir því að skapa mér viðunanlega framtíð.

Þegar ég byrjaði að skrifa þetta blogg yfir Suðausturlandi vissi ég ekki hvað var framundan í þessum línum. Núna yfir fjalllendinu vestan við Osló veit ég það. Ég veit ekki alltaf hvert ferð er heitið þó að það sé aðeins ég sem er ábyrgur. Ég sit mitt inn í flugvélinni og get ekki einu sinni horft niður á skýin. Samt hef ég verið á mínu eigin ferðalagi mitt í þessari ferð heim til Svíþjóðar. Ég átti um það að velja að horfa fram fyrir mig, kannski blunda aðeins, og láta tímann líða hjá. Ég á erfitt með að festa hugann við lestur þegar ég sit í flugvél. En að skrifa það sem kemur upp í hugann leiðir til einhvers. Það er eins og hugleiðingarnar taki óvæntar stefnur og það verði þar að auki fáist einhver niðurstaða Ég hlakka til að koma heim og hugleiða framtíð mína. Ég á heldur ekki ekki annarra kosta völ. Nú veit ég hvert þetta bloggferðalag leiddi mig.

Í lest
 
Þad er kominn nýr dagur og ég sit í lest á leiðinni frá Stokkhólmi til Örebro. Ég gisti hjá Rósu og fjölskyldi í nótt. Þessir hlýlegu og vinalegu sænsku skógar sem þekja meira en helming landsins þjóta hjá. Þeir eru nú í sínu safaríkasta og fegursta skrúði. Víst hendir það að mér getur fundist skógarnir taki frá mér útsýni en það er ekki oft. Héðan úr lestinni sé ég líka byggðir, akurlönd, hæðir, sund og stöðuvötn, síðan loka skógarnir á utsýnið aftur. Svo endurtekur þetta sig aftur og aftur og þegar öllu er á botninn hvolft er fjölbreytileikinn mikill.

Ég hef valið að búa í þessu landi sem ég fékk fyrst að reyna árið 1994. Ég hef valið það umfram íslensku víddirnar. Íslensku víddirnar eru hluti af mér og þær eru góðar heim að sækja ásamt fólkinu sem býr þar. Nú er ég á leið heim úr einni slíkri heimsókn og ég finn tregann iða innra með mér þegar ég er að setja saman síðustu orð þessa bloggs. Ég fann líka fyrir því í flugvélinni á leiðinni yfir hafið i gær.

Í gær var mér boðið að taka þátt í smá 17. júní fagnaði sem íslendingur í Örebro boðar til heima hjá sér í kvöld. Eftir göngu um Sólvallaskóginn og margs konar aðrar kannanir heima á Sólvöllum þegar ég kem heim, mun ég taka mig þangað og hitta landa mína. Á morgun tek ég síðan til við margs konar verkefni heima vitandi það að það er til fullt af fólki sem býður mig velkominn, bæði hér heima og einnig í landi víddanna. Ég velkomna líka þetta fólk heim til mín. Stórfjölskyldan í heild er býsna stór ef að er gáð.

Líklega birti ég líka þetta blogg þegar ég kem heim.

Ríkidómar lífsins

Síðdegis í fyrradag, föstudaginn 7. júní, vorum við mætt á Árskógsströnd ég og dæturnar ásamt fjölskyldum. Ég horfði yfir til Hríseyjar, þessarar eyjar sem hafði fóstrað mig í 30 ár. Þarna kúrði hún hljóðlát út á miðjum fIrðinum með heilt haf af minningum eftir að hafa lifað þar stóran hluta ævi minnar. Ferjan lagði að bryggjunni á Árskógsströnd þar sem fólk mætti í rólegheitum, kunnugir og ókunnugir. Gamlir grannar réttu fram hendur sínar, bæði til að heilsa og til að hjálpa okkur með farangur um borð. Vinarþel lagði sig yfir tilveruna þegar þarna á bryggjunni og í ferjunni og ég fann mig velkominn.
 
Að stíga á land í Hrísey var ekkert óvenjulegt fyrir mig. Ég sá fyrir mér ótal mörg tilfelli þar sem ég hafði komið með hraði niður á bryggjuna á síðasta augnabliki til að ná ferjunni til að fara í land. En ennþá betur sá ég fólkið sem var statt þarna ýmissa erinda, sumir að fara sinna eigin ferða og sumir til að greiða götu okkar sem vorum að koma í heimsókn til eyjarinnar. Það var enginn þjótandi um þarna á síðustu stundu. Það ríkti samhljómur í öllum athöfnum þó að bílarnir væru fleiri en forðum. Fólk dreifðist í ýmsar áttir, sumir fótgangandi og aðrir á bílum, líklega einhver á hjóli. Farangur okkar var tíndur inn í tvo bíla af okkur sem vorum að koma þarna saman og af hjálpsömum höndum sem voru um leið að segja að við værum velkomin.
 
Alls staðar virtumst við hjartanlega velkomin og þegar við vorum komin burt frá mótorhljóði ferjunnar vorum við komin í hljóðlátan faðm eyjarinnar. Ég fór á stutta göngu þegar þarna um kvöldið. Ég kom fyrst af öllu við í kirkjugarðinum til að líta á gröfina sem hafði verið tekin fyrir ösku konunnar minnar. Snyrtimennskan sem kirkjugarðsvörðurinn hafði sýnt við verkið var svo augljós og það var svo áþreifanlegt að það hafði verið unnið af virðingu, tillitssemi og hjálpsemi gagnvart okkur.
 
Svo hélt stutt gönguferð áfram og nánast í hverju skrefi var ég á einn og annan hátt minntur á þrjátíu ára feril minn í Hrísey, athafnir mínar, og það lífshlaup flæddi nú um huga minn. Vinalegt fólk varð á vegi mínum. Lífið varð eins og létt ölvun af kvöldkyrrð og angan af birki og víðilaufum sem loks voru að lifna eftir snjóugan veturinn. Lífið hafði borið sigur úr bítum í baráttu sinni við vetur konung. Nokkru síðar lagði ég mig á koddann við opinn glugga með bjarta júnínóttina allt um kring. Kyrrð Hríseyjar var alger.
 
Nýr dagur gekk í garð og athafnir dagsins gengu eftir, ein af annarri, eftir vel skipulagt starf margra sem höfðu lagt hönd á plóginn. Allt var gert og hafði verið gert af hjálpsemi, góðvild og virðingu. Margir mættu til stuttrar athafnar í kirkjugarðinum. Heimafólk, hinir svonefndu farfuglar eyjarinnar, burtflutt fólk, aðkomufólk. Hlýjan og vináttan fylgdi hverju handabandi og augnatilliti. Presturinn vann sitt verk fallega. Hver verður ekki hrærður á slíkri stundu?
 
Það sama fylgdi inn til erfidrykkjunnar í Sæborg eftir athöfnina í kirkjugarðinum. Þar á bordum voru tilbúnar veitingar sem fjórar konur, miklir vinir eins og allir aðrir, höfðu útbúið. Hún sem bakaði pönnukökurnar á tíræðis aldri. Kirkjukórinn söng og svo margir hjálpuðu á einn og annan hátt. Stundin í Sæborg var frábær.
 
Í gærkvöldi vildi ég ekki fara að sofa. Ég var þá búinn að líta í kirkjugarðinn aftur og sama hlýja höndin hafði gengið frá öllu svo einstaklega snyrtilega. Ákveðnu ferli var þar með lokið. Á vissum stundum er lífið bara svo óendanlega verðmætt. Samt sofnaði ég í stólnum. Svo hrökk ég upp og vildi vaka alla nóttina. Svo sofnaði ég á ný. Þá var mér ráðlagt að fara að leggja mig. En allt í einu vaknaði ég og virtist hvíldur. Liðinn dagur blasti við mér og ég fann að mér þótti jafn vænt um ykkur öll og þann dag sem ég yfirgaf eyjuna fyrir 20 árum, heimafólk, farfuglar og gestir.
 
Nú er ég að vísu ekki að segja alveg satt. Ég fann svo vel að mér þótti vænna um ykkur en nokkru sinni fyrr. Ég þakka ykkur öll sem hjálpuðuð og ég þakka ykkur öll hin bara fyrir að ég fékk að vera einn af ykkur, í gær og öll hin árin líka. Það er stórkostlegt að fá að endurupplifa stóran hluta af æviskeiði sínu á einni dagstund og finna um leið kærleika til svo margra.

Landið þar sem gott er að vera til

 Ég hef gjarnan kallað hana fjallkonu og geri það enn, gjarnan með meiri þyngd í orðunum nú en áður. Frá og með í dag umvefur hríseysk mold fjallkonuna mína, það er að segja þann hluta hennar sem af moldu er kominn. En lífið heldur áfram var mér kennt sem barni. Ég hef líka lesið um það í bókum og líf mitt í rúm sjötíu ár hefur styrkt þá trú mína. Meistarinn frá Nasaret boðaði það. Öskunni sem var grafsett í kirkjugarðinum í Hrísey í dag er ekki hægt að eyða og í framtíðinni verður hún hluti af mold jarðarinnar. Hún er síðasti hluti þess líkama sem var bústaður hinnar lifandi fjallkonu. Enginn fær mig til að trúa því að það sé frekar hægt að gera það líf að engu sem í líkamanum bjó en líkamann sjálfan.
 
Og þó að líf fjallkonunnar minnar haldi áfram á óþekktum slóðum, þá er sorgin eftir hana þung. Vissar stundir draga sorgina fram meira en aðrar stundir, eins og til dæmis sú athöfn sem var hér í Hrísey í dag þegar askan eftir hana Valdísi var grafsett. Það var lokaþátturinn á síðasta ferðalaginu sem hófst í lítilli kirkju í Örebro þann 26. apríl með viðkomu í Dómkirkjunni í Reykjavík. Betur var ekki hægt að gera af virðingu fyrir þessari konu og í þakklætisskini fyrir rúmlega fimmtíu og tveggja ára samveru.
 
Ég smitaðist hér um daginn af innihaldi eins af söngvum Johnny Cash þar sem hann söng um hið óþekkta sem að lokum tekur við lífinu sem ekki er hægt að eyða frekar en öskunni sem eftir stendur. Þessi söngur var hluti af sjónvarpsguðsþjónustu sem ég fylgdist með skömmu eftir ferðaráfangann í kirkjunni í Örebro. Eftir þessa sjónvarpsmessu stóð ég upp, undir áhrifum sorgarinnar og söngsins, og skrifaði:
 
Svo heldur ferðalag okkar allra áfram mót landi hinna endalausu laufskóga, móti hinum lygnu höfum eilífðarinnar, eða móti blómum skrýddum engjum handan grafarinnar þar sem lífið á sér engan endi. Þar verður enginn framar sorgmæddur, veikur, gamall eða þreyttur. Þar verður gott að vera til.
 
Í þúsundir ára hafa menn og konur glímt við að klæða þessa hugsun í orð af sterkri löngun til að finna sínum nánustu stað í landinu þar sem gott er að vera til. Við málum myndir af þessu með orðum sóttum djúpt inn í hugarheiminn sem er hluti af lífinu sem aldrei verður hægt að gera að engu. Svo hefur alltaf verið gert og verður alltaf gert meðan hið jarðneska líf þrífst undir sólinni. Þegar hugsunin grípur mig um að Valdís fékk ekki tækifæri á að upplifa svo margt sem hið jarðneska líf býður upp á, þá grípur sorgin mig. Þá gleymi ég því að hún er komin til landsins þar sem gott er að vera til og hefur eflaust nú þegar fengið að upplifa mikið betri og fegurri ríkidóma en þá sem hið jarðneska líf gat boðið henni upp á.
 
Valdís mín. Þakka þér fyrir öll árin. Mér virðist ætlað að vera hér enn um sinn og lífið með þér er mér veganesti inn í framtíðina þar sem mér er ætlað að þroskast og vera til gagns fyrir samferðafólk mitt. Ábyrgð mín er stór og ég á mér þá einlægu ósk að standa undir henni.
 
 
Guð
gef mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.
RSS 2.0