Vinarþel

Á morgun fer ég að vinna og í tilefni af því, og einnig þar sem það er há sumar, fór ég á stjá til að taka saman föt sem ég þarf að nota á næstunni. Það má reikna með að það verði vel heitt í húsum og því vantaði mig stutterma skyrtur. Ég gekk inn loftið á Bjargi og framhjá plastkössum með gegnsæju loki. Undir lokunum lágu ritvélablöð með útskýringum á innihaldi kassanna. Þegar ég kom að síðasta kassanum stóð á blaðinu skrifað með rithönd Valdísar, "sumarföt af Valdísi og Guðjóni, des 2012". Nokkur augnablik horfði ég hljóður á þetta blað og svo var ekki svo mikið annað að gera en að opna kassann og taka þaðan nokkrar stutterma skyrtur sem þar lágu snyrtilega frágengnar.
 
Á nokkrum umliðnum árum hefur Örebropresturinn Moni Höglund séð um margar sunnudagshelgistundir á sumrin í sjónvarpinu. Okkur Valdísi féll afar vel við þessa konu og þegar við vissum að hún sæi um helgistundir í sjónvarpi þótti okkur sérstaklega mikilvægt að fylgjast með. Fyrir fáeinum árum var ég viðstaddur giftingu ungs vinnufélaga míns. Valdís valdi að koma ekki vegna þess að hún þekkti engan, en þó var henni boðið að koma. Það var Moni sem gaf hjónin saman.
 
Eftir giftinguna var veisla í litlu félagsheimili sunnan við Örebro. Þar sem ég gekk þar þvert yfir gólfið í stóru holi framan við veislusalinn sá ég Moni þar á ferli og ég ákvað að heilsa henni og segja henni hversu oft við hefðum hlustað á hana í helgistundunum hennar. En það var hún sem fyrst breytti um stefnu og gekk rakleitt til mín og heilsaði. Svo sagði hún ákveðið að við hlytum að hafa hittst áður og hvar það gæti hafa verið. Ekki mundi ég eftir því að við hefðum hittst, nema þá að það hefði verið á fundi sem nokkrir Örebroarar sátu í Vornesi nokkrum árum áður. En ég sagðí henni frá því hversu vel við hefðum metið helgistundirnar hennar.
 
Hvað sem því leið þá var það Moni sem annaðist helgistundina í dag. Hún talaði mikið um vináttu og mikilvægi hennar og það var næsta merkilegt að heyra hvað hún gat komið inn á þetta efni frá ólíkum sjónarhornum. Hún talaði frá báti sem var á siglingu á Gauta skipaskurðinum sunnar í Svíþjóð, mitt í iðjagrænni náttúrunni. Þessa helgistund þarf ég að hlusta á aftur þar sem orð Moni settu í gang svo margar hugsanir að ég náði alls ekki að meðtaka allt sem hún sagði. Ég hef líklega aldrei áður áttað mig jafn vel á því hversu mikils virði bestu vinirnir eru þegar örlögin láta reyna á styrk minn.
 
 
*          *          *
 
 
Í Kyrrð dagsins í dag segir Seng-T 'San nokkur, kínverskur maður frá sjöundu öldinni, eftirfarandi: "Tómt hér, tómt þar, en óendanlegur alheimurinn er alltaf fyrir augum þér." Ég ætla að svo stöddu ekkert að leggja út frá þessu en mig langaði að vita meira um þennan mann þannig að ég aflaði mér lesefnis um hann. Þar var af miklu að taka en örstutt frásögn vakti athygli mína.
 
Hefðbundin frásögn segir að Seng-T 'San var með holdsveiki þegar hann hitti læriföður sinn. Lærifaðirinn niðurlægði Seng-T 'San með því að segja "Þú þjáist af holdsveiki. Hvað ætlar þú að öðlast af mér mér?" Seng-T 'San á að hafa svarað: "Jafnvel þó að líkami minn sé veikur er hjartalagið hjá veikri manneskju ekki öðru vísi en hjartalag þitt." Af hrifningu yfir þessu svari samþykkti lærifaðirinn Seng-T 'San sem lærling sinn. Síðar gerði hann Seng-T 'San að andlegum eftirmanni sínum.
 
Ég er enginn andlegur höfðingi eins og þarna er um að ræða, en á morgun þegar ég kem til vinnu minnar er gott fyrir mig að hugleiða þessi orð. Ég hef ekki verið á vinnustað mínum í mánuði. Það er því mikilvægt fyrir mig að muna eftirfarandi: Þó að mér verði ekki mætt hrokalaust af öllum sjúklingum sem ég kem til með að hitta, þá má reikna með að sá hinn sami eða þeir hinir sömu gráti innilega í hjarta sínu. Þegar tárin baða hjarta manneskjunnar er auðveldast að vinna hjarta hennar og þá falla varnarmúrarnir. Þegar ég set þessa hugsun í orð nákvæmlega á þessari stundu, þá hlakka ég til vinnunnar. Þannig hef ég reynt að vinna og þannig vil ég halda áfram að vinna á meðferðarheimilinu fyrir alkohóllista og fíkniefnaneytendur.


Kommentarer
Rósa

Gangi þér vel í vinnunni á morgun, pabbi minn. Keyrðu varlega.

Kveðja,

R

Svar: Takk fyrir það og varlega skal ég reyna að fara um vegina. Það er nú kannski það sem er mest áríðandi fyrir mig í þessu sambandi.
Gudjon

2013-06-24 @ 00:15:57
Dísa nágranni

Það er mannbætandi að lesa það sem þú skrifar. Gangi þér vel. Kærar kveðjur . Ottó og Dísa

Svar: Það er gott að heyra Dísa mín, þakka þér fyrir og með bestu kveðju ykkar.
Gudjon

2013-06-27 @ 14:17:29


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0