Sólvallastelpurnar

Dagurinn í dag er einn af þessum dögum sem maður bara óskar sér að aldrei taki enda. Samt taka þessir dagar enda og dagurinn í dag er nánast liðinn þegar ég er að skrifa þessar línur. Veðrið hefur verið alveg nákvæmlega passlega heitt fyrir Íslendinga og landið hefur á einhvern hátt skartað sínu allra fegursta. Við ferðuðumst svolítið í dag og byrjuðum á að aka veg sem liggur eftir ísaldarhrygg á fleiri kílómetra svæði. Af hryggnum er svo útsýni til beggja átta yfir iðjagræn akurlönd og minni og stærri og skógarlundi sem svo endar í lágum ásum í all nokkurri fjarlægð. Á vissum stöðum var þéttur laufskógur á báðar hendur á þessum ísaldarhrygg þar sem aðeins sást beint fram. Svo opnaðist útsýnið á ný með nýjum sjónarhornum, öðrum sveitabæjum og akurlöndum sem skörtuðu gulu, bláu og þó aðallega grænu. Sumir kalla landslagið í þessu héraði draumlínulandslagið og þetta hérað er héraðið sem við búum í.

Í kaffi í Askersund
Við fórum til lítils hafnarbæjar sem stendur við allra nyrsta hluta vatnsins Vänern. Þessi fallegi hafnarbær heitir Askersund. Árný og Anna Björg fundu fyrir notalegu viðmóti þessa bæjar jafn skjótt og við stigum út úr bílnum. Á myndinni erum við stödd á lítilli kaffistofu þar sem boðið er upp á sæti inn á milli gamalla húsa meðal gróðurs og rennandi vatns í pínu ítilli tjörn. Auðvitað er kaffið aldrei nema gott á svona indælum stað og brauð og kökur vilja bókstaflega renna ljúflega niður svo að það má virkilega passa sig. Alla vega ég verð að viðurkenna að mig langaði að fara inn aftur og kaupa ennþá stærri ostaköku sem skreytt var með jarðarberjum. Ég sé að ég hef verið óréttlátur við Önnu Björgu að láta hana sitja svona beint á móti sólinni þegar ég tók myndina.

Áð á göngu um Askersund
Eftir kaffi og gönguferð var áning á þessum bekk og þá varð auðvitað að taka heimildarmynd af því. Ég held bara að þeim hafi liðið ágætlega þarna á bekknum enda var það meiningin með ferðinni.

Svona lítur út í Askersund ásamt mikið, mikið meiru
Hér gefur að líta eitt af mörgum, mörgum sjónarhornum í Askersund. Bátar, bátar, bátar voru þarna hvert sem litið var.


Hollustuvörur keyptar í coop
Á leiðinni til baka var komið við í Coop verslunni í Marieberg. Þar ætluðu þær konur að kaupa allra hollasta matinn sem á boðstólum var. Ég sniglaðist álengdar í kringum þær og reyndi að láta sem minnst á því bera að ég er lélegur innkaupamaður og hef ekki vit á vöruframboði.

Einhver verður hraustur af þessum varningi
Einhver verður hraustur af þessu og ef ekki, af hverju verður maður hraustur þá?

Klukkan hálf níu að kvöldi laugardags 26. júní í 19 stiga hita
Klukkan var orðin hálf níu þegar ég tók þessa mynd i 19 stiga hita. Þá var þegar búið að borða hluta af hollustuinnkaupunum. Sólin var auðvitað orðin lágt á lofti og myndin eftir því en samt get ég ekki annað en birt hana til að sýna hvernig kvöldið var -og er enn klukkan að ganga ellefu. Svo eru þær allar með prjónana á lofti stelpurnar og jafnvel með íslenskt ullarband á prjónunum. Í baksýn er malarhaugur sem er til vitnis um að það eru framkvæmdir í gangi á Sólvöllum

Góðir gestir

Dvölin í Uppsölum, sem ég hef nú bloggað um í tveimur síðustu bloggum, varð ekki til bara vegna þess að við Valdís ákváðum að vera ferðamenn þar. Það voru Flugleiðir sem gerðu okkur að ferðamönnum þar. Það hlýtur að vera stór saga út af fyrir sig hvernig brottför Flugleiða frá Keflavík getur frestast í níu tíma án skæðra hermdarverka og í sumarblíðu. Þá sögu kann ég hins vegar ekki. Við ætluðum að líta yfir íbúðina hjá Rósu og fjölskyldu í gær og ganga þar frá einu og öðru og fara svo til Arlanda og taka á móti gestunum okkar. En svo varð þessi gríðarlega frestun á brottför frá Keflavík og ákvarðanir teknar þar um í mörgum áföngum. Hins vegar var hreint ágætt að skoða sig um þarna en tilefnið var hreint ekki svo sniðugt. Það hlýtur að hafa verið bæði þreytandi og ergjandi fyrir alla farþega sem biðu. Í staðinn fyrir 21,20 í gærkvöldi lenti svo Flugleiðavélin á Arlandaflugvelli klukkan 6,15 í morgun. Við Valdís gátum lagt okkur eftir skrúðgarðaskoðunina og sofið dágóða stund og var ekki svo mikil vorkun.


Fagnaðarfundir á Arlanda
Svona getur það litið út á Arlanda. Anna Björg til Vinstri og til hægri Árný Björk mágkona mín að heilsa Valdísi. Endanlega voru gestirnir komnir fram. Flestir gengu afar heimsmannalega beina leið í gegnum salinn og litu hvorki til hægri eða vinstri. Þarna var hreint ekki struntað áfram. Þær heilsuðu af innileik.

Á bryggjunni í Marefred, Mälaren í baksýn
Þarna erum við komin til Mariefred á leið til byggðanna milli Örebro og Fjugesta. Þær eru ekki bara fjallkonur þessar stelpur, þær eru líka hálfgerðar sædrottningar, aldar upp við gutlandi kvikur í fjöru og stundum berjandi úthafsöldu. Við Valdís gerðum með þær eins og flesta sem við sækjum til Arlanda, að koma við í Mariefred og rölta svolítið um bryggjurnar þar, og síðan að aka fram og til baka yfir háu brúna hjá Strengnesi (Strängnäs). Bakvið þær sjáum við Mälaren og háa brúin við Strengnes liggur yfir eitt af mörgum sundum Mälaren. Frá henni er frábært útsýni til hægri og vinstri.

Komnar á samkomu á fyrsta degi
Þarna eru þær Anna Björg og Árný Björk komnar á Jónsmessuhátíðahöld skammt frá Sólvöllum stuttu eftir komuna til Sólvalla. Núna standa þessi hátíðahöld yfir sem hér eru kölluð miðsumarhátíð. Það safnast saman mikill fjöldi fólks vítt og breytt um Svíþjóð svipað og um verslunarmannahelgina á Íslandi. En þessi hátíðahöld byggjast upp af mikið meiri hefðum á margan hátt, svo sem í mat, dönsum, söng og klæðaburði.

Miðsumarkvöld
Hér situr skarinn og hlustar og nokkrir Íslendingar eru þátttakendur. Slétt flöt og skógur að baki er einkennandi við Krekklingesókn. Margir kalla landslagið hér draumlínulandslagið.

Meira miðsumarkvöld
Hér er hins vegar skarinn risinn  á fætur og nú skal dansa kringum maístöngina sem búið er að reisa þarna. Maístöngin er skreytt blómum, hún ber þarna í skóginn og er lítið áberandi. Allt frá smábörnum upp til langömmu og langafa tóku þátt í dansinum.

Svo koma dagarnir að líða einn af öðrum og við munum reyna að gera þá sem eftirminnilegasta. Nú er verið að horfa á miðsumardagskrá í sjónvarpi og borða jarðarber dreyptum með svolitlum rjóma.

Enn frá Uppsölum

Ég birti í gær nokkrar myndir frá Borgargarðinum í Uppsölum og langaði að birta fleiri en ég komst yfir það. Þær eru hins vegar nú þegar á blogginu en bara óbirtar. Ég er bara svo gefinn fyrir að segja eitthvað að ég á erfitt með að birta myndir án texta.

Guðjón að leika tré
Hér gerði ég tilraun til að leika hlyn en gerði mig bara barnalegan. Mér finnst það hins vegar allt í lagi að gera mig barnalegan -sérstaklega ef ég geri það sjálfur og að eigin frumkvæði.

Þetta hlýtur að vera flækjufótur sem Valdís felur sig á bakvið
Svo fór Valdís í feluleik en ég fann hana. Stuttu áður fór hún að skoða einhver blóm spölkorn í burtu meðan ég var að taka myndir og ég sá ekki til hennar þegar myndatökunni lauk. Þá var ég viss um að hún hefði falið sig bakvið tré en svo var þó ekki raunin. Það er gaman að vera innan um svona trjástofna sem vel er hægt að hverfa bakvið.

Skógareik
Hér er skógareik en það voru margar slíkar þarna í garðinum. Elgurinn beit toppana af óhemju mörgum skógareikum á Sólvöllum í vetur. Einhvern tíma í vor þegar ég var að vafra um skóginn fann ég upp á því að telja eikurnar sem voru einnar til tveggja mannhæða háar og elgurinn hafði ekki bitið ofan af. Þær reyndust vera að minnsta kosti 48 og þá sá ég að ég þyrfti ekki endilega að vera að ergja mig út af þeim sem urðu að elgsmat. Ég gat vel glatt mig vegna þeirra 48 sem eftir voru og óskaddaðar. Svo eru all nokkrar eikur sem eru mun stærri en þær fyrrnefndu. Það komast ekki fyrir endalausar eikur á 6000 fermetrum þegar þær verða á stærð við stóru Sólvallaeikina, en hún er nú heldur stærri en þessi Uppsalaeik sýnist mér.

Skulptur eða hvað?
Náttúrunnar listaverk eða hvað. Þegar ég var að taka þessa mynd gekk ungur maður framhjá og sagði að þetta yrði nú fín mynd. Það liggur nokkuð í því og við Valdís dvöldum aðeins hjá þessu magnaða listaverki. Þar með var tilganginum náð; að vekja athygli okkar og fá okkur og annað fólk til að staldra við.

Rooosalega eru hjólin mörg
Eftir dvölina í þessum Uppsalagarði fór ég beint á lestarstöðina til að taka þessa mynd. Þegar ég fór með lest frá Stokkhólmi og upp í Dali í febrúar 1994 fór jú lestin um Uppsali. Þá barði ég augum þetta reiðhjólastæði í fyrsta sinn. Fólk sem kemur og fer oft með lest um þessa lestarstöð geymir hjól sín þarna. Þarna í febrúar 1994 var það næstum álíka magnað fyrir mig að sjá allan þennan ótrúlega aragrúa hjóla eins og að ferðast um neðanjarðarlestarkerfið í Stokkhólmi. Þá voru minni eða engir runnar á svæðinu og hjólin sáust mikið betur.

Aðeins meira um neðanjarðarlestarkerfi. Það var í fyrsta skipti sem ég ferðaðist um neðanjarðarkerfi og það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég kom þangað niður var að segja; hvað gera þeir eiginlega við allt efnið sem fellur til við þessa gangnagerð. Rósu og Pétri fannst það ögn broslegar vangaveltur. All nokkrum árum síðar skrifaðist inn á Vornes fyrrverandi sprengimaður sem unnið hafði í göngunum. Ég lagði fyrir hann spurninguna. Grjótið var og er meðal annars mulið niður í efsta jöfnunarlag í götur og vegagerð, mulið niður í malbik og steypumöl. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað mér leið mikið betur við að vita þetta. Hann upplýsti mig einnig um það að það færi að verða hörgull á svona efni. Ég býst við að það mál sé leyst þar sem neðanjarðarlestarkerfið og önnur göng eru í stanlausri stækkun og endurnýjun.

Þar með lýkur myndaseríu minni frá Borgargarðinum í Uppsölum. Við erum komin með gesti og ég verð að kynna þá og segja eitthvað af þeim við fyrsta tækifæri.

Á hótel RósaPéturHannesG

Við erum nú í Uppsala og búum í íbúð Rósu og fjölskyldu. Við komum hingað korter yfir tólf í nótt og vorum hreinlega lengur á leiðinni en til stóð. Það er svona þegar ég ek á löglegum hraða að það tekur lengri tíma en sögurnar sem ég heyri hingað og þangað. En ég er löngu hættur að skammast mín fyrir að vera lengur. Svo skammast ég mín heldur ekkert fyrir að hafa aldrei valdið tjóni í umferð að öðru leyti en því að ég bakkaði á tré eitt sinn og fékk stimpil á afturstuðarann. Það var þegar ég ætlaði að sýna konum riddaraskap á mjóum vegi.

En nú er ekkert karlagrobb lengur. Við Valdís fórum út á göngu í dag og skoðuðum okkur um og tókum nokkrar myndir (reyndar margar). Við erum nefnilega að sækja gesti á Arlanda, hana Árnýju systur Valdísar og hana Önnu Björgu vinkonu hennar og nágranna okkar í Hrísey fyrir mörgum árum. Svo hefur fluginu seinkað um fleiri klukkutíma þannig að við höfum góðan tíma hér í Uppsölum. Flugið er núna sagt koma til Arlanda klukkan þrjú í nótt.

Hér dveljum við
Þetta er nú hurðin inn til Hótel RósaPéturHannesG. Aðal nafnið þarna er dálítið skrýtið, en það er nafn á fegrunarlækni sem leigir þeim tímabundið. Þau eru búin að ganga frá kaupum á íbúð í Stokkhólmi og þau flytja þangað í september. Svo höldum við áfram að skoða Uppsali.

Valdís svolítið úfin eftirmiðdegisblund
Við hliðina á aðalinnganginum inn í húsið þar sem þau búa í Uppsala rekur han Joel lítið veitingahús. Við vorum búin að leggja okkur fyrr um daginn til að undirbúa okkur undir næturferð á Arlanda og svo fórum við niður til Joels og fengum okkur að borða. Valdís kom svolítið úfin afkoddanum og það gerði ég líka en ég birti bara mynd af henni. Minn úfni haus var enn verri.

Stæðilegt beykitré og stæðileg kona
Svo fórum við út í mjög fallegan skrúðgarð þar sem við röltum líka um um jólin þegar ég var enn að æfa mig eftir mjaðmaaðgerðina í fyrrahaust. Það var enginn smá munur maður minn frá snjónum í vetur og í allt laufskrúðið núna. Þarna stendur Valdís upp við gamalt og magnað beykitré. Það vantar mikið á að við fáum að upplifa beykitrén á Sólvöllum í þessum gildleika. En svona er það. Við manneskjurnar verðum líka að vinna að því sem við fáum aldrei að sjá sjálf, annars verður ekki svo mikið fyrir komandi kynslóðir að sjá. Þeir sem byrjuðu á teiknivinnunni fyrir Uppsaladómkirkju á þrettándu öld vissu líka mæta vel að þeir fengju aldrei að sjá ávöxtinn af þessum verkum sínum. Það bugaði þá ekki og þess vegna höfum við þennan stórfenglega helgidóm í dag.

Beykin okkar eiga eftir mörg ár í þennan vöxt
Ég er svolítið beykisjúkur og þess vegna birti ég líka þessa mynd þó að hún sé nokkuð lík þeirri fyrri. Takið eftir beykitánum


Margir úti með nestiskörfurnar
Það voru margir úti í dag með nestiskörfurnar sínar og sóttu undir stórar trjákrónurnar til að fá svolítinn svala en samt að vera úti í góða veðrinu og í nágrenni við hið magnaða líf sem gömul tré sannarlega eru.

Mörg falleg sjónarhorn
Það eru mörg sjónarhorn að finna í þessum garði sem er á bökkum Fyrisárinnar.





Þarna þurfum við endilega að borða. Þeir hljóta að hafa fisk.
Þarna sjáum við fljótandi veitingahús á Fyrisánni. Það hlýtur að vera gott um fisk í þessu veitingahúsi. Við verðum að prufa það við tækifæri. Við erum og léleg við að nýta okkur allt það sem þetta land hefur upp á að bjóða.

Íslandsfoss með meiru
Hér sjáum við upp eftir Fyrisánni móti Íslandafossi og Íslandsbrúnni. Rósa og fjölskylda búa í húsinu fyrir miðri mynd á horninu efst til vinstri. Þeirra svalir eru handan við hornið og sjást ekki á myndinni.

Nú er klukkan rúmlega tíu að kvöldi og við ætlum að leggja okkur aðeins fyrir ferðina til Arlanda. Þess vegna hef ég sett þetta inn af meiri hraða en mér er tamt og ég finn að ég hef ekki unnið þetta blogg af nægjanlegri alúð. Ég birti það samt.

Byrjunarframkvæmdir á Sólvöllum

Einhvern tíma í vor bloggaði ég um öll mín blogg varðandi byggingarframkvæmdir á Sólvöllum, þessa fáeinu tugi fermetra sem við höfum byggt og erum að byggja við. Ég held að ég hafi sagt að ég skrifaði meira um byggingarframkvæmdir okkar hér á Sólvöllum en skrifað er allt í allt um byggingu tónlistarhnús í Reykjavík. Að ég vel þarna tónlistarhúsið kemur auðvitað til af því að það er ansi stórt hús. Ég hef alls ekki séð skrif um tónlistarhúsið nýlega utan að það hefur verið talað um fjármögnunarvandræði. Já, en hvað um fjármögnun á Sólvöllum? Ég kem kannski að því síðar.

Nú höfum við beðið all lengi eftir framkvæmdaaðilum sem munu koma við sögu hér á Sólvöllum í ár. Svo tilkynntu þeir að allt yrði sett á fullt á miðvikudaginn var. En þá urðum við að afþakka komu þeirra þar sem ég, ellilífeyrisþeginn, hafði ekki tíma til að vera viðstaddur þennan dag vegna anna. Ég var búinn að lofa vinnu og AA maðurinn getur ekki svikið það sem hann er búinn að lofa. Það er bara alls ekki í samræmi við prógrammið. Ég hélt að þeir mundu þá gefa skít í verkefnið hér þangað til hreinlega einhvern tíma eða einhvern tíma. En viti menn! Tveimur dögum seinna stilltu þeir upp tækjum sínum hér á lóðina og svo héldu þeir upp á helgina. Í morgun, mánudag, þegar ég kom heim úr vinnu í Vornesi voru tækin komin á fulla ferð.

Ó hvað þetta verður fínt
Þegar þessi mynd var tekin var Peter í gröfunni en hinn tuttuguogeins árs gamli Jónas lagði drenrör og tók á móti perlumöl niður í grunninn. Annars segir Peter að Jonas sé ekki minni gröfumaður en hann er sjálfur. Þeir þurftu ekki að eyða mörgum orðum í það sem þeir gerðu, þeir vissu greinilega hvað þeir voru að gera þessir strákar. Hitinn var yfir 20 stig.

Svo þarf að borga fyrir veisluna
Vibrator, skurðgrafa, sendiferðabíll, vörubíll og tveir menn voru hér að verki í dag. Þriðji maðurinn, byggingarmeistarinn, var aðeins skamma stund. Valdís bauð þeim upp á mat og kaffi og ég reyndi að sniglast eitthvað í kringum þá. En veislan kostar eitthvað og ég gaf það í skin áðan að ég mundi kannski tala eitthvað um peninga -en alls ekki um skort á peningum. Hann Anders Borg fjármálaráðherra veit að ég er ellilífeyrisþegi sem vinn all mikið. Sem verðlaun fyrir að vinna all mikið þarf ég ekki að borga svo mikinn skatt af vinnunni. Hann veit að þá munum við byggja og gera hluti sem veitir öðrum vinnu.

Og aftur í verðlaun fyrir að byggja fáum við það sem kallað er ROT frádrátt. Það þýðir að við Valdís getum hvort fyrir sig fengið 50 000 sænskar krónur til baka af skattinum sem við greiðum til að borga vinnulaun þeirra sem koma til að vinna hjá okkur. Svona er nú Anders Borg sniðugur og hann vissi að við Valdís mundum bíta á agnið og byggja. Svo borga þessir strákar skatt af vinnulaununum og ennfremur söluskatt af einkaneyslunni og þeir nota meira af peningum af því að þeir fá að vinna á Sólvöllum. Að sjálfsögðu fáum við ekki meira til baka af skattinum en það sem við borgum en vegna þess að ég vinn kemst ég upp í 50 000. Ég ætti líklega að borga Vadlísi laun fyrir að annast mig. Þá mundi hún borga meiri skatt og fá meiri frádrátt.

En kannski hefði ég getað notað hjólbörurnar mínar
Svo eru auðvitað umhverfismálin í hávegum höfð á Sólvöllum. Fyrst grafan var hér og það var tími afgangs fór Peter í það að jafna bakvið húsið meðan Jonas náði í meiri perlumöl. Peter notaði hluta af því sem kom upp úr grunninum til að fylla upp ójafna og leiðinlega lægð sem var þarna. Við héldum að við yrðum að sitja uppi með nokkra stóra steina sem hefðu þá staðið upp úr lóðinni en Peter sagði bara að ef við vildum losna við þá, þá mundum við losna við þá. Ég sem er búinn að flytja efni fram og til baka á hjólbörum, fleiri hundruð ferðir, jafnvel yfir þúsund ferðir, einnig Pétur tengdasonur. Ég hugsaði þegar ég sá þennan á að giska 250 kílóa stein fara svona léttilega í burtu að hvernig hefði farið um hann á hjólbörunum.

Peter veit greinilega hvað hann er að gera
Tveir trjástubbar með stórum rótarflækjum voru líka fastir þarna í óræktinni. Peter reif þá upp með klónnni eins og steinana og henti í haug með þeim. Svo þegar hann kemur til frekari framkvæmda á Sólvöllum eftir fáeinar vikur ætlar hann að fjarlægja grjótið og stuppana. Árans munur er nú á þessum vinnubrögðum miðað við hjólbörutæknina.

Hvernig hefði nú þetta komist upp í hjólbörurnar mínar
Á tímabili var ég farinn að halda að hann hefði ekki skilið hvernig við vildum hafa þetta en ég lét á engu bera. Ég hef nefnilega reynslu af því frá sjálfri Hrísey að góðir tækjamenn vita upp á hár hvað þeir eru að gera, jafnvel þó að vinnubrögðin geti lítið óskiljanlega út. Svoleiðis var það til dæmis þegar hann Unnsteinn lagfærði Syðstabæjarhólinn með litlu jarðýtunni hreppsins. Við gengum þar um áður en hann byrjaði og töluðum um hvernig hægt yrði að láta hólinn líta út. Ekkert botnaði ég svo í því hvernig hann flutti moldina og aldagamla öskuhauginn sitt á hvað en allt í einu small allt saman og varð svo ótrúlega fallegt.

Jahérnanahér, margar hjólbörur komnar á sinn stað á hálftíma
Þannig nefnilega endaði þetta líka hjá Peter. Það er svo fínt hérna á bakvið húsið og á miðvikudag verður sáð grasfræi og valtað yfir með nýja valtaranum. Mikið verður gaman að sjá þegar þetta verður grænt. Það er stór gaman að framkvæma fyrir verðlaun frá Anders Borg skuliði bara vita. Á myndinn er Peter að fjarlægja stein sem mér datt ekki í hug að þessi litla grafa mundi ráða við.

Burðugur eða hvað?
Annars hefði líka verið hægt að framkvæma þetta með hjólböruaðferðinni og vera að því í tvö ár. Þið sjáið nú hvað hann er hress og spengilegur ungi maðurinn þarna með hjólbörurnar.

Þó að þetta sé skrifað með spaug í huga er allt satt sem fram kemur með ROT frádrátt og fleira. Ef við værum að byggja nýtt hús frá grunni fengjum við frádráttinn ekki. En viðbygging, bílskúr, viðhald og fleira fellur undir hann. Þeir sem byggja stærra og ríkulegar eru trúlega taldir hafa efni á því hvort sem er.

Laugardagskvöld á Sólvöllum

Þegar ég kom heim úr vinnunni í dag stóð lítil skurðgrafa eina sjö metra sunnan við húsið og sysðst á lóðinni stóð vörubíll, ég giska á tíu til fimmtán tonn. Það var eins og eitthvað ætti að fara að ske. Mér var svo sem ekkert ókunnugt um að þessi tæki væru hér, en gröfueigasndinn kom með þetta á föstudaginn, í gær, þegar ég var farinn í vinnuna og svo ætlar hann að byrja á mánudaginn. Á mánudaginn kemur smiðurinn líka. Ég kem heim úr vinnunni um níu leytið og þá verður samráðsfundur. Síðan hefjast byggingarframkvæmdir á fullu.

Ég finn alveg að fyrir mitt leyti ég er að verða hugarfarslega tilbúinn fyrir þetta. Ég hef alls ekki verið það ef ég segi alveg satt frá. Ég hef fundið alla mögulega agnúa á að byrja og að ég þurfi að vera búinn með þetta og hitt áður en verkið fer af stað. Samt hef ég verið svolítið óánægður með að þeir komi ekki og byrji þessir kallar. Nú legg ég bara spilin á borðið og segi satt og rétt frá; ég var svolítið huglaus. Núna vona ég bara að þetta gangi hratt og borga svo reikninginn og eftir það höldum við smá veislu með til dæmis jarðaberjum og rjóma.

Ég heyri í sjónvarpinu að það er enn verið að tala um prinsessugiftingu og mannfagnaði því tengda. Valdís er meiri konungssinni enn ég en sjálfur er ég svona miðlungs konungssinni. Ég horfði á sjálfa giftinguna og óneitanlega var sú athöfn ósköp snotur. Biskupinn sem gaf þau saman er sá sami og gaf okkur Valdísi oblátuna í Uppsaladómkirkju á jóladag þannig að við eigum það sameiginlegt með prinsessunni að hafa notið þjónustu sama biskups.

Það hefur verið talað um það að kostnaður við giftinguna nemi um 330 miljónum íslenskra króna. Það hefur oft verið talað um þetta hér og í morgun las ég það í íslensku blaði. Það er blöskrast yfir þessum kostnaði. Það er minna sagt frá því að áður áætlaðar tekjur af giftingunni voru 33 miljarðar íslenskra króna. Þessar tekjur áttu að koma inn frá erlendum ferða- og fréttamönnum ásamt sölu mikils magns af minjagripum. Einnig var reiknað með að mikið af sænskum peningum færi á hreyfingu sem skapaði verslun og atvinnu. Nú er talið að þessar tekjur hafi verið mjög ofáætlaðar en þó að þær verði bara 10 % af áætluninni nemur upphæðin samt sem áður 3,3 miljörðum íslenskra króna. Það ætti þvi að verða hægt að borga nótuna án lántöku. Ég er stundum hissa á fréttaflutningi en ætti að láta mér standa á skít sama.

Aftur að okkar málefnum. Ég hlakka til að leggja af stað heim úr vinnunni á mánudagsmorguninn. Þar með verð ég kominn í tveggja vikna frí og á þeim tíma vonum við að mikið komist í verk í sambandi við viðbygginguna á Sólvöllum. Eftir viðbyggingu viljum við Valdís fara að komast í meiri ró. Við viljum til dæmis fara að gera ferðadrauma okkar að veruleika og það eru ýmis önnur hugðarefni sem við getum hugsað okkur að sinna. Samt verður þetta ár annríkisár. Á fimmtudag í næstu viku koma systir Valdísar og gamall Hríseyingur vinkona hennar í heimsókn. Það verður því eitt og annað sem lyftir hversdagsleikanum hjá okkur á næstunni.

Nú er það vinna

Þessa dagana er það vinna í Vornesi sem gengur fyrir en svo verður heil mikið frí eftir það. Það er bara af skyldurækni sem ég sest niður núna og skrifa nokkrar fátæklegar línur. Rökkrið er að setjast yfir og mál að ég leggi mig með þessum föstu liðum sem því fylgja. Ég kom heim skömmu fyrir hádegi, sofnaði smá stund í stólnum og fór svo út og bjástraði aðeins við grjót sem var mér til ama til að fá svolitla líkamlega áreynslu á móti hinni áreynslunni. Eftir ferð til Örebro og svolítið lambakjöt hjá Valdísi var það sturta og svo svolítill blundur í stólnum aftur. Eftir þetta ríka líf ætla ég sem sagt að ganga á vit Óla Lokbrá og koma brosandi í vinnuna aftur skömmu fyrir hádegi á morgun. Við vonum að þjóðhátíðardagurinn hafi verið góður og þar með er andagift mín útrunnin.

Duglegur ferðamaður nafni

Það er búinn að vera fallegur dagur á Sólvöllum í dag, þægilegt veður með logni, sól og líklega um 20 stiga hita. Öllum gróðri virðist líða vel, laufblöð og stilkar eru full af safa og trjákrónurnar eins og leggja út blöðin til að taka á móti sem mestri sól. Hér standa yfir verk sem þarf að ljúka áður en smiðir og gröfumenn ríða í hlað. Þeir ætluðu að koma á morgun en ég bara kemst ekki hjá því að vinna á morgun en á fimmtudag mega þeir koma. Ég vil vera við fyrsta daginn sem þeir verða hér. Annars á ég að halda fyrirlestur í vinnunni á morgun sem heitir traust og ég ætti þá kannski að æfa traust mitt til byggingarmanna líka. Annars treysti ég þeim alveg en það er bara eðlilegt að hafa samráð þegar framkvæmdirnar byrja.

Fjölskyldan í Uppsölum er nú komin á íslenska grund. Rósa hafði svolitlar áhyggjur af því að Hannes Guðjón yrði órór í flugvlélinni. Amma hans komst að góðri niðurstöðu í því máli. Hún sagði að hann væri allt of forvitinn til að hafa tíma til að gráta í flugvél. Ég var henni fullkomlega sammála þegar hún sagði þetta þó að orðið forvitinn væri kannski ekki alveg það sem við meintum. Áhugasamur um það sem er að ske í kringum hann væri kannski réttara orðalag. Hann er að uppgötva margt í kringum sig drengurinn.

Svo sendi Rósa símamynd af honum á Arlanda þar sem hann sat á töskuvagni og skoðaði sig greinilega um. Það var auðséð á honum á þeirri mynd að hann mundi ekki hafa tíma til að gráta í flugvélinni á leið til Íslands. Hann virtist á fullu við að uppgötva heiminn. Svo fréttum við eftir að þau lentu í Keflavík að hann nafni minn hefði verið mikið duglegur ferðamaður. Nú er hann trúlega að kynnast frændfólki sínu á Íslandi.

Sólin er farin að snerta trjátoppana í norðvestri og brátt kyssir hún Kilsbergen. Hún lýsir upp trjástofnana utan við gluggann minn og lengra út í skógi sé ég einstaka ljósan flekk þar sem hún nær að smeygja geislum sínum milli trjákrónanna. Nú fer ég að leggja mig þar sem ég ætla að koma vel sofinn til vinnunnar á morgun. Ég óska Óla Lokbrá velkominn ef hann vildi vera svo góður að vera félagi minn í nótt.

Gleðin og sorgin

Sjáðu fuglinn í opinu sagði Valdís núna undir kvöldið í gær og benti á fuglahólk í tré skammt austan við húsið. Það var rétt, það var lítið höfuð í opinu á fuglahólknum. Við vissum að það var hreiður þarna en hingað til höfum við bara séð foreldrana fljúga ótt og títt út og inn um þetta litla op. Væntanlega með mat inn, og út til að sækja mat. Og svo ótrúlegt sem það er þá hitta þeir alltaf á þetta pínulitla op og hreinlega fljúga inn á fullri ferð.

Undir kvöldið var eitthvað öðru vísi. Lítið höfuð var í opinu og skimaði greinilega í kringum sig á veröldina utan við. Fuglarnir tveir sem við teljum að hafi séð um veiðar og aðflutning komu að opinu og það var eins og þeir spjölluðu við þann sem skimaði út og svo fóru þeir aftur og biðu álengdar. Að lokum kom hann alla leið út, sá með höfuðið í opinu, og flaug með það sama. Það var greinilegt að þetta var ungi sem hafði ekki full tök á fluginu en honum tókst þó að setjast á nálæga grein. Samstundis og hann var floginn kom annað höfuð í opið og það sama endurtók sig. Sá með litla höfuðið í opinu var hikandi eins og sá fyrri, en að lokum flaug hannn líka.

Eitthvað virtist stjórna því að þeir komu þarna einn á eftir öðrum, einmitt á þeirri stundu, eins og það var þó búið að bera í þá í gær. Stundin var runnin upp -fyrir þá alla. Það var ys og þys á nálægum trjágreinum og það var heil mikið um að vera, það virtist ríkja gleði. Það var hátið. Eins og þegar barn er skýrt, eða barnið verður eins árs, eða þegar barnið allt í einu segir mamma, eða þegar barnið brosir í fyrsta sinn. Er það ekki stórkostlegt þegar lífið brýst út í þessu fallega brosi. Foreldrarnir verða glaðir og segja sínum nánustu frá sem einnig verða glaðir. Barnið skynjar þessa gleði og verður örlátara á brosið. Brosið er barnsins önnur fæðing segir hinn áttræði Martin Lönnebo fyrrverandi biskup.

En það er óútreiknanlegt þetta líf. Eftir svo mörg falleg bros frá barninu sínu knúði sorgin dyra hjá Pétri og Rósu, sorgin sem er andstaða brosins. Stjúpmóðir Péturs dó skyndilega fyrir viku og það var áfall, ekki síst þar sem enginn átti von á því þegar stundin kom. En þar var ekki staðar numið. Sex dögum síðar, í gær, dó einnig faðir Péturs. Þá varð það einum of mikið. Sorgin varð að ennþá meiri sorg en eitt sinn brostu þau þó bæði móti heiminum og glöddu sína nánustu, þessi maður og þessi kona. Við Valdís fundum fyrir djúpri sorg þegar við skynjuðum sorg Péturs og Rósu. Blessaður er sá sem þorir að taka lykil táranna í hönd sína segir Martin Lönnebo einnig. 

Í dag eru Pétur og Rósa á leið til Íslands með sinn litla Hannes Guðjón. Þá flýgur hann í fyrsta sinn eins og fuglarnir í gær. Hann mun hitta ný skyldmenni og fleira fólk og brosa fyrir marga þó að hann muni ekki fá að brosa fyrir afa og ömmu í Reykjavík. En þau voru búin að frétta af brosinu hans og þau skiptu um myndir af honum á skápnum eftir því sem hann varð eldri og nýjar myndir bárust þeim. En Hannes Guðjón á samt sem áður ömmu í Reykjavík og ég efa ekki að hann muni brosa fallega fyrir hana. Þá veit ég að hún verður mikið glöð.

Síðan mun sorgin mildast, ganga yfir segjum við, en sorgin er ævinlega álengdar. Við bara lifum ekki í sorg. Hver skyldi geta orðið fullorðinn sem ekki þekkir sorgina? Brosið er á endanum sterkara en sorgin og gleðin er sterkari en treginn. Í sjónvarpi nú í kvöld var faðir brúðar spurður hvað honum þætti. Hann svaraði afar litlu og sýndi enga svipbreytingu, eins og honum þætti ekki svo mikið til koma, og svo leit hann á konu sína. Hún svaraði innilega með breiðu brosi að þau væru bæði svo glöð yfir brúðkaupi dótturinnar. Ég varð líka afar glaður þegar ég sá Hannes Guðjón brosa í fyrsta sinn. Mér fannst meira að segja að ég væri svolítið sérstakur að sjá þessa litlu lífveru brosa á örmum mér. Sama var með ömmu hans sem sá hann sex vikum á undan mér. Þá sagði hún mér frá brosinu hans.

Svo kemur Hannes Guðjón fljúgandi yfir stóra hafið frá Íslandi með pabba og mömmu og þá verður hann búinn að fljúga voða mikið eins og ungarnir sem yfirgáfu hreiðrið í gær. Þá verða amma og afi í Svíþjóð glöð að sjá hann aftur. Svo heldur fjölbreytt lífið áfram og sólin mun koma upp í austri á hverjum morgni eins og hún hefur gert svo lengi og hver vill ekki verða betri manneskja af að lifa lífi sínu?

Íslendingar út um allt

Ég talaði um það í bloggi um daginn að ég mundi síðar blogga um Íslendinga sem heimsóttu Rósu á doktorsdaginn hennar. Svo þegar ég fór að leita að myndum af þessu fólki fann ég ekki svo margar. Mér datt aðeins í huga að taka myndir af öllum Íslendingunum saman en það var þá eins og ég væri verið að mynda íslenska klíku í samsætinu. Ég geri nú samt mat úr þeim myndum sem til eru.

Siggi Palli og Fanney Erla
Á þessari mynd gefur að líta fulltrúa Danmerkur og Noregs sem mættu á doktorsvörnin sem báðir eru íslenskir. Nær er Sigurður Páll Sigurðsson ættaður frá Reykjavík, Siggi Palli, ljósmyndari í Kaupmannahöfn. Hann var með Rósu í menntaskóla og vinskapurinn þaðan hefur aldrei brostið. Um sigga Palla má segja að Guðrún Ágústsdóttir, kona Svavars Gestssonar, gætti hans þegar hann var lítill. Einnig að pabbi hans var lengi skipstjóri á rannsóknarskipinu Bjarna Sæmundssyni. Þegar Rósa var skiptinemi í Hollandi eftir menntaskólann var Siggi palli á Ítalíu að læra ljósmyndun. Rósa fór í heimsókn til hans til Ítalíu og ferðaðist með lest. Ef ég man rétt var það hálfgerð ævintýraferð en ég man þá frásögn ekki til að segja frá henni. Hún gerði eins og hún hafði lofað foreldrunum, hún hringdi frá Sigga Palla til Hríseyjar til að láta vita þegar hún hafði komið fram. Þá var blind stórhríð í Hrísey og ég sagði Rósu í gríni að veðrið mundi nú ekki ná til þeirra fyrr en morguninn eftir. Þau höfðu svo hlegið mikið að þessu það sem eftir var dags. Þegar þau litu út morguninn eftir var kominn snjór á Ítalíu.

Konan vinstara við Sigga Palla er Fanney Erla Antonsdóttir frá Hrísey. Ég segi meira um hana með næstu mynd, en þarna á myndinni er hún að teikna mynd af Rósu og Jónathan andmælanda frá Bandaríkjunum. Hún teiknaði nokkrar fínar myndir af þeim meðan á vörninni stóð.

Fanney Antonsdóttir
Hér sjáum við Fanneyju mun betur. Hún er hönnuður, teiknari og eigin atvinnurekandi. Lengi vel átti hún heima í Kaupmannahöfn en nú býr hún með fjölskyldu sinni í Ósló. Þar með eru komnar skýringar á því hvers vegna ég sagði að þau hafi verið fulltrúar Danmerkur og Noregs. Þær eru jafn gamlar, Fanney og Rósa, hittust á jólaböllunum í Hrísey og mættu í afmælli hjá hvor annarri. Svo voru þær auðvitað skólafélagar í grunnskóla. Þeirra vinátta hefur heldur aldrei slitnað. Ég hafði gaman af að heyra Fanneyju segja mér frá því hvernig ég kom henni fyrir sjónir þegar hún var barn í Hrísey. Það var líka gaman að hitta hana þarna, stelpuna sem kom svo oft heim til okkar í Hrísey en er nú fullorðin kona með fjölskyldu út í heimi.


Þessa mynd notaði ég í bloggið nýlega af þeim Elísabetu Eir Cortes málvísindamanni og Pétri Helgasyni eiginmanni Rósu, málvísindamanni og doktor í hljóðfræði. Elísabet er kennari í málvísindum og kennir stundum í Uppsölum þar sem Pétur vinnur. Hún er sérstakur heimilisvinur Rósu og fjölskyldu. Elísabet kom í samkvæmið hjá Rósu ásamt Ingvaldi manni sínum og dótturinni Emblu. Enga mynd á ég af Ingvaldi, en hann er forritari, en í gömlu myndaalbúmi fann ég mynd af Emblu. Ég held að ég hafi rétt fyrir mér þegar ég segi að þetta var í fyrsta skipti sem ég hitti Ingvald.

Pétur er lektor við háskólann í Uppsölum. Hann hitti Rósu um borð í Sæfara sumarið sem hún vann þar. Ég sá hann í fyrsta skipti í Hvammi í Hrísey þar sem hann spilaði á gítar og söng fyrir þær Svandísi Svavarsdóttur og Rósu. Ekki datt mér í hug þá að hann yrði eiginmaður Rósu og faðir barnabarnsins míns og nafna.

Embla
Hér er mynd af henni Emblu Ingvaldsdóttur. Þessi unga stúlka er afar hlý í viðmóti og þægileg og á ekki erfitt með að umgangast eldra fólk eins og okkur Valdísi. Það kæmi mér heldur ekki á óvart að hann Hannes Guðjón nafni minn mundi hænast að henni. Hún einhvern veginn býður upp á það.

Doktorsmamma og doktor
Hér er svo hún Valdís, fiskimannsdóttirin frá Hrísey sem skrapp út í lönd og er ekki kominn til baka. Hún er hér að ræða við hann Yngve prófessor og handleiðarann hennar Rósu. Ég hef ekki spurt Valdísi hvað þau voru að ræða þarna en það virðist fara vel á með þeim.

Amma og drengur
Hér er önnur mynd af Valdísi og litlum dreng. Amma tók að sér að annast hann þá þrjá tíma sem doktorsvörnin stóð yfir og það tókst henni með ágætum. Þau voru á gangi tveimur hæðum ofar í skólanum. Pétur pabbi kom svolitla stund til að veita honum öryggi en kom svo með hann inn í salinn akkúrat þegar fólk var að klappa fyrir góðri frammistöðu mömmu hans. Það er að sjá á þeim á myndinni að þau hafi tekið hlutverk sín af fullri alvöru.

Drengur að syngja fyrir afa sinn
Ég bara get ekki látið vera að birta enn eina mynd af okkur nöfnunum. Ég get ekki betur séð en hann nafni minn hafi þarna verið að syngja fyrir mig, enda vissi hann að afi var mjög veikur fyrir a-a-a-a laginu hans.

Andmælandi og doktor, með öðrum tveir doktorar
Svo að lokum er hér mynd af þessum höfuðpersónum dagsins, Jónathan og dr Rósu. Ég er búinn að birta þessa mynd áður en ég get ekki lokið þessu án þess að birta þessa mynd aftur þó að Jónathan andmælandi tilheyri ekki Íslendingahópnum.

Hér með lýkur kynningu af nokkrum Íslendingum sem eru dreifðir svolítið út um allt.

Ekki ári eldri en þrítugur

Ég var í versluninni Clas Ohlson í Uppsölum í síðustu viku að kaupa smánagla og eitthvað fleira smá. Þegar ég var búinn að borga gekk ég að rúllustiga og horfði upp eftir stiganum alveg upp á næstu hæð. Við það að horfa þetta upp í móti fékk ég einhvern sting í hálsinn. Ég hef oft fundið á síðustu árum að ég á ekki eins auðvelt með að líta við, til dæmis þegar ég ek bíl og þarf að fylgjast með umferð sem kemur frá vinstri við gatnamót.

Svo var ég kominn upp á næstu hæð og var eitthvað að velta þessu fyrir mér að ég væri að eldast og ýmsir hlutir væru ekki eins auðveldir og á árum áður. Svo þurfti ég að velta fyrir mér út um hvaða dyr ég ætti að fara því að færi ég út um aðrar dyr en ég kom inn um kæmi ég út úr húsinu í annarri götu. Þá yrði ekki eins greið leið að fara til baka. Ég var búinn að koma oft inn í þetta hús en hef alltaf þurft að velta svolítið fyrir mér hvaða útgang ég eigi að nota. Kannski var það aldurinn líka. Svona voru vangaveltur mínar þarna, gamall eða hvað. En þetta hefur komið fyrir mig oft áður, svona heilabrot, en niðurstaðan hefur alltaf orðið sú að ég sé fjári hress og ekki eldri en það.

Dæmi: fyrir tíu dögum keyrði ég mörgum hjólbörum af blautri mold 35 metra út í skóg. Þar jafnaði ég úr moldinni og valtaði yfir með 70 kg þungum valtara. Svo jafnaði ég aftur, sótti mold og bætti í lægðir og valtaði á ný. Enn einu sinni jafnaði ég og valtaði einu sinni enn. Svo sáði ég grasfræi og bar á áburð, sótti nokkrar hjólbörur af mold í viðbót og stráði yfir grasfræið og valtaði síðustu umferð. Jafnframt því að flytja moldina út í skóginn fór ég með nokkrar hjólbörur af grjóti eina 100 metra út úr skóginum og út að vegi. Það síðasta gerði ég með nokkrum flýti þar sem dagur var að kvöldi kominn. Þegar þessu öllu var lokið horfði ég yfir verkið sem var virkilega snyrtilega unnið og var ánægður. En -ég var ekki ánægður með eitt; ég var orðinn dauðþreyttur. Eftir smá vangaveltur komst ég reyndar að því að þrítugur eða fertugur maður mundi líka hafa orðið dauðþreyttur. Ég hafði nefnilega flutt 29 hjólbörur af mold út í skóginn og grjótið til baka að auki. Þá varð ég ánægður aftur.

Ég gekk rösklega þarna suður eftir Kungsengsgatan (Kungsängsgatan) og hugsaði til orða Jorma vinnufélaga míns sem er fáeinum árum yngri en ég. Ég hef nokkrum sinnum heyrt hann segja að hann hafi byrjað á einhverju útiverkefni heima hjá sér og hann ætli að verða svo fljótur að vinna það. En svo hafi hann komist að því að hann geti bara alls ekki verið eins fljótur og hann var áður fyrr. Ég þekki mig reyndar í þessum orðum Jorma en alls ekki eins afgerandi og hann lýsir því.

Það var mikið af fólki á ferð í götunni og ég var að draga uppi tvær konur sem gátu verið um þrítugt. Ég ætlaði að smeygja mér vinstra megin fram úr þeim en þá varð einhver karfa fyrir mér svo að ég rakst á aðra konuna. Ég leit við og sagði -fyrirgefðu- og fékk til baka svo ótrúlega fallegt bros. Það var hreint ekki hægt annað en taka eftir þessu fallega brosi og ég hugsaði með mér að svona ætti maður að gera til að fá falleg bros í Uppsölum. Á þessu augnabliki var ég ekki ári eldri en þrítugur.

Að syngja fyrir heiminn með henni ömmu sinni

Undir stofugluggunum heima hjá Rósu og Pétri í Uppsala eru rammar með fíngerðu en stæltu neti fyrir framan ofnana. Hannes Guðjón var búinn að uppgötva að það var hægt að losa netið í römmunum og það var voða gaman að brasa við það, en þá var líka hætta á því að hann klemmdi sig og meiddi á hvössum köntunum á netinu. Ég tók að mér að festa netið rækilega í rammana til að koma í veg fyrir óhapp.

Hannesi þykir mjög gaman að horfa á þegar verið er að gera eitthvað og kemur á mikilli ferð þegar hann verður þess var að eitthvað er í gangi. Hann horfði því á af miklum áhuga þegar ég var að festa netin og þá sat hann á hnjám ömmu sinnar og sneri að henni. Hún tók í hendur hans og söng fyrir hann og þau reru sér svolítið fram og til baka með söngnum. Svo fór hann að syngja líka. A-a-a-a-a aa a-a-a-a aa a og hann horfði á ömmu sína og leit öðru hvoru til mín. Og svo hélt hann áfram að syngja a-a-a-a-a-a a aaa a. Það var enginn prakkarasvipur á honum, ekkert sprell, engin krafa um neitt, hann vildi bara syngja a-a-a-a-a. Það voru lítil tónbrigði en það var einfaldlega fallegt. Þessa stundina var eins og það væri bara til sakleysi í þessum heimi.

Hann var svo ótrúlega góður, hlýr og vingjarnlegur þarna að það var ekki hægt annað en verða snortinn. Hvað langar mann svo til við svona aðstæður, svo fullkomlega góðar og hlýjar? Jú, að geta hlúð að þessu góða og fallega, að hjálpa litlu barni að rækta það góða í hjarta sínu, að sjálfur verða góður. Heimurinn þarf svo mikið á því að halda. Og svo hélt hann áfram að syngja og öðru hvoru sveiflaði hann höndum sínum og ömmu sinnar sitt til hvorrar hliðar í takt við sitt fallega a-a-a-a.

Á svona stundum má ekki bregða út af því sem verið er að gera og að taka mynd var fráleitt. Það hefði verið til að brjóta niður það fallega sem listamaðurinn var að gefa heiminum á þessari stundu og svoleiðis gerir maður bara ekki. Þakka þér fyrir fallega sönginn þinn Hannes minn.

Skoða, skoða, það er verið að ryksuga
Pabbi að ryksuga! skoða! skoða! Amma, hjálpa mér þangað, fljótt!

Málefni rædd
Faðir og sonur ræðast við, ámokstursvélin í gangi og dótakassinn við hendina. Í baksýn eru rammarnir með netinu sem gat verið varasamt.

Að syngja á Hótel Amaranda
Eftir morgunverð á Hótel Amaranda í Stokkhólmi, morguninn eftir doktorsdaginn, fóru afi og drengur á gönguferð um afgreiðsluna. Svo fór drengur að syngja sitt a-a-a-a-a og mér sýnist á myndinni að afi sé farinn að syngja a-a-a-a-a líka.

Doktor Rósa

Hún hafði gaman af að hoppa í pollinum á Austurveginum í Hrísey, þessum stóra sem um tíma var móti Njálshúsinu, og þá var hún á rauðu stígvélunum sínum og við áttum heima á Bjargi. Hún hristi líka hliðgrindina hjá afa sínum og ömmu í Hrísey þegar mamma og pabbi voru að fara eitthvað og hún átti að vera þar í pössun. Hún ætlaði sannarlega að fara með okkur. Þegar hún var tólf ára vorum við á leið Suður á Fólksvagninum og vorum búin að fara fyrir Hvalfjörðinn. Svo kom Kollafjörðurinn og hún hélt að hann yrði jafn djúpur og Hvalfjörðurinn. Þá sagði hún að það yrði nú að tala um þetta við þingmennina.


Þegar við komum inn í sal 2D í Kungliga Tekniska högskolan (KTH) í Stokkhólmi á föstudaginn var, 4. júní, blasti nafnið hennar við okkur á dúknum þarna. Það var ekki alveg án tilfinninga að sjá það og áðurnefndar minningar æddu fram. Í salnum voru líklega hátt í 30 manns og það voru einhverjar mínútur í það að Rósa Guðjónsdóttir frá Hrísey verði doktorsritgerðina sína um samskipti manns og tölvu með mannfræðilegu ívafi.

Andmælandi Jonathan Grundin
Frá Bandaríkjunum hafði komið maður, Jonathan Grudin að nafni, og hann var andmælandi við þessa doktorsvörn. Hann er þarna ný byrjaður á sínu 60 mínútna langa kynningarerindi um ritgerðina. Þessi langskeggjaði, tágranni maður sem vinnur hjá Microsoft var léttur í máli og skemmtilegur á að hlýða þó að ég skildi sáralítið af því sem hann sagði. Jonathan hafði einnig verið háskólakennari í nokkur ár.

Andmælandi og doktorsnemi
Það virtist fara vel á með Jonathan andmælanda og Rósu doktorsnema meðan vörnin stóð yfir. Þarna hefur hann lokið kynningarerindi sínu og eftir það spurði hann Rósu margra spurninga sem hún varð að svara í áheyrn viðstaddra. Þegar ég tók þessa mynd var hún að svara spurningum úr sal og meðan hún svaraði þeim kinkaði Jonathan kolli næstum án afláts og hló oft. Ég heyrði á fólki þegar við vorum á leið út úr salnum að vörninni lokinni að Rósa kynni að vera skemmtileg í annars alvarlegum svörum sínum.

Klukkan hálf átta kvöldið fyrir þennan stóra dag undirrituðu Rósa og Pétur kaupsamning að rúmlega 100 fermetra íbúð í Stokkhólmi sem þau fá afhenta um miðjan september. Það voru tveir stórir dagar þarna hvor á eftir öðrum.

Næst á myndinni eru fulltrúar Danmerkur og Noregs, hvort tveggja Íslendingar
Ég var klaufi að taka ekki mynd yfir allan salinn en hér gefur þó að líta fulltrúa Danmerkur og Noregs við þessa doktorsvörn (sagt svolítið í gamni), en þau eru bæði Íslendingar. Ég blogga um þau síðar ásamt fleiri Íslendingum en verð þó að segja að konan sem er að teikna þarna hinu megin við karlmanninn er Fanney Erla Antonsdóttir frá Hrísey.

Mamma, ég er hérna og hjálpa þér
En mamma! ég er hérna! Það er allt í lagi elsku mamma mín því að ég er með þér! Þegar ég sá þessa mynd fannst mér sem Hannes væri að segja eitthvað svona við mömmu sína þar sem hann hallar sér fram og horfir á hana. Amma var lengst af med Hannes medan vörnin stóð yfir, síðan afi um stund en svo varð hann það órólegur að pabbi var fenginn til að koma. Þetta var skrýtinn dagur fyrir unga drenginn en duglegur var hann. Til hægri á myndinni er Ingigerður vinkona Rósu að bíða eftir eiginhandaráritun á ritgerðina. Þessi mynd er tekin fáeinum mínútum eftir að viðstöddum var tilkynnt að Rósa hefði staðist prófið og væri orðin doktor.

Handleiðarinn hennar Rósu og íslensk kona, Elísabet Corters
Til vinstri á þessari mynd er Yngve Sundblad prófessor og Íslendingurinn Elísabet Eir Cortes hljóðfræðingur til hægri. Yngve var leiðbeinandi Rósu við ritgerðarvinnuna og hann stuðlaði að því að Jonathan kæmi frá Bandaríkjunum til að vera andmælandi. Myndin var tekin við íþróttasvæði þar sem fólk kom saman að vörninni lokinni og gæddi sér á mat og drykk og spjallaði mikið saman. Yngve og konan hans sátu all lengi við borðið hjá okkur Valdísi og -ja hvað skal ég segja? Hann talaði afar fallega um Rósu og dugnað hennar. Um það gæti ég skrifað langt blogg. Aðstoðarleiðbeinandi Rósu var maður að nafni Henrik Artman en ég hef því miður ekki mynd af honum, þeim þægilega manni.

Andmælandi og doktor, með öðrum tveir doktorar
Hér eru þau svo Jonathan andmælandi og doktor Rósa að spjalla saman í samkvæminu. Þau taka sig alveg prýðilega út þarna.


Hér eru svo að lokum Elísabet Eir hljóðfræðingur og doktor Pétur Helgason hljóðfræðingur og stoltur eiginmaður doktors Rósu. Þetta var stór dagur fyrir marga. Doktorsritgerð er gríðarleg vinna. Ég er búinn að vera vitni að því og hefur ekki alltaf staðið á sama.

Ég er gestur hjá Súlumbabíkonunni í Uppsölum

Í dag erum við búin að vinna við að endurheimta traust barnabarnsins Hannesar Guðjóns. Hann var svolítið var um sig þegar við komum hingað í gærkvöldi og fyrst í morgun. Svo sleppti hann takinu og varð allra ljúflingur. Við erum búnir að labba mikið saman hérna um íbúðina og rannsaka allt mögulegt. Þegar amma hans fór að ryksuga beindist athyglin að ryksugunni og hún var rannsökuð í bak og fyrir. Þegar pabbi hans setti saman lítinn leikfangabúkka beindist rannsóknin þangað og þegar mamma hans kom heim frá Stokkhólmi vildi hann ólmur í fang hennar til að athuga hvort nokkuð hefði breytst.

Ég fann vel fyrir því að Hannes Guðjón hefur þennan kraft sem ung börn hafa og er alveg ótrúlegur. En þar sem hann var einn komst ég sjálfur vel út úr deginum. Það var verra þegar þrjú börn komu ásamt fleira fólki í heimsókn til Sólvalla. Þá var núbúið að ganga frá frárennslinu og þá varð eftir meira en bílhlass af sandi, sem ég reyndar hafði beðið um, og það síðasta sem gröfumaðurinn gerði við sandhauginn var að keyra í hann með ámokstursvél og taka í skófluna. Því var toppurinn á haugnum sem hvöss egg og það var bara svolítill stíll á honum.

Börnin þrjú sem komu í heimsókn léku sér mikið í haugnum og komu svo hlaupandi inn. Þau komu upp á kné mér þar sem ég sat í hvítum djúpum stól, fóru upp á axlirnar og eitt þeirra lék sér að því að vega salt á hausnum á mér. Sandurinn settist að í hárinu, hrundi niður í brjóstvasann á skyrtunni, niður með skyrtukraganum að aftan og framan og alveg niður að belti. Svo hlupu börnin út á ný og héldu áfram að leika sér í haugnum. Ég fékk fleiri svona heimsóknir í stólinn og þegar heimsókninni lauk var stíllegi sandhaugurinn orðinna að svolítilli þúst og ég var nærri yfirliði af þreytu.

Á morgun verðum við Hannes kátir strákar og við öll auðvitað. Eftir hádegi förum við inn til Stokkhólms til að vera tilbúin fyrir stóra daginn hennar mömmu hans á föstudag.

Uppsaladómkirkja í grænu skrúði
Um jólaleytið birti ég myndir af Uppsaladómkirkju. Nú er öldin önnur og blaðgrænan hefur tekið völdin.

Uppsalahöll
Uppsalahöll er einnig umlukin blaðgrænunni. Báðar myndirnar eru teknar út um glugga hjá Uppsalafjölskyldunni okkar.

Barnabarn
Þar sem ég er nu búinn að kynna sumarið í Uppsölum með tveimur fyrstu myndunum er komið að fjölskyldumyndum. Helst vill hann nafni minn halda í fingur og labba þannig um alla íbúðina en ef ekki gefst kostur á öðru er hann snöggur að taka sig áfram á maganum.

Afi og drengur
Afi og drengur sitja fyrir.

Fullt að gera
Ég ætla þangað afi og ef þú fylgir mér ekki fer ég þetta sjálfur, gæti hann verið að hugsa þarna

Amma og drengur
Nú eru það amma og drengur sem stilla sér upp. En hvernig er það með pabba Pétur? hann er ekki með. Við verðum að bæta honum það upp síðar.

Rósa í Súlumbabí

Það er að renna upp stór dagur hjá henni Rósu Guðjónsdóttur því hún ver doktorsritgerð sína í félagsmannfræði á föstudaginn kemur, þann 4. júní. Ég veit að þetta hefur ekki verið hrist fram úr erminni og að Rósa er búin að vinna mikið við þessa ritgerð. Þegar þau voru hér á Sólvöllum í fyrrasumar stóð vinnan yfir og var alls ekki nýbyrjuð þá.

Vörnin fer fram í Kungliga Tekniska högskolan i Stokkhólmi eða Konunglega tækniháskólanum, en þar var Rósa ráðin sem doktorsnemi og vann við kennslu og margt fleira í nokkur ár. Jafnframt vann hún þar að undirbúningi ritgerðarinnar. Á sama tíma vann hún líka fullum fetum við fyrirtækið sitt, PinkPuffin, www.pinkpuffin.com . Þegar ég nú skrifa þetta sé ég að hún hefur ekki setið alveg auðum höndum gegnum árin. Svo bættist Hannes Guðjón inn í fjölskylduna og hann fékk sinn tíma, ég endurtek; hann fékk sinn tíma virkilega litli drengurinn.

Þegar Rósa var lítil ætlaði hún að verða mannfræðingur og fara til Súlumbabí. Hvað var nú Súlumbabí? Við Valdís reiknum með að það hafi verið ókunn lönd langt í burtu þar sem fólk lifði lífinu á þann hátt sem forvitnilegt væri að kynnast. Hvort hún hefur enn komið til Súlumbabí vitum við ekki en við höfum heyrt hana segja frá nótt í tjaldi niður í Afríku þar sem flóðhestarnir heyrðust tala saman álengdar með framandi hljóðum. Fólk sem lifir í slíku umhverfi þarf að einhverju leyti að lifa öðru vísi en við gerum til dæmis hér við skógarjaðarinn á Sólvöllum.

Í dag förum við Valdís til Uppsala, á fimmtudaginn með Rósu og fjölskyldu til Stokkhólms og á laugardaginn til Uppsala aftur. Til Uppsala ætlar hún þá að koma sem doktor. Á Google segir: "Viðfangsefni mannfræðinnar eru fjölbreytt, í rauninni allt sem viðkemur tegundinni Homo sapiens fyrr og síðar". Á seinni árum kom svo tölvan inn í líf mannsins og það er um þann þátt sem doktorsritgerðin snýst, annars er best fyrir mig að reyna ekki að fara nánar inn á efni hennar. Á Google segir ennfremur: Félagsmannfræði (eða menningarmannfræði) er undirgrein mannfræðinnar sem fæst við rannsóknir á félagsfræði mannsins, en er frábrugðin félagsfræði af því leyti að áhersla er lögð á menningu manna. Þeir sem leggja stund á greinina kallast félagsmannfræðingar".

Hér kemur svo hlekkur inn á sjálfa ritgerðina: Personas and Scenarios in Use


Hér er svo mynd af verðandi doktor, Rósu Guðjónsdóttur og ekkiennþádoktor, Hannesi G. Péturssyni.
RSS 2.0