Mikið fólk

Í dag var ég að saga þykkt einangrunarplast til að einangra með undir íbúðarhúsið. Ég sagaði það við austurglugga á miðju húsinu og svo mátaði ég utan við dyr norðarlega á sömu hlið. Hannes kom út í opinn gluggann þar sem ég sagaði plastið og talaði við mig á meðan. Svo þegar ég fór að máta plastið utan við dyrnar var hann mættur þar áður en ég kom þangað og þá lék hann ljón, eða vildi sýna vináttu. Svona gekk þetta lengi og alltaf hljóp hann á milli og þótti skemmtilegt að vera orðinn að ljóni þegar við hittumst þarna við dyrnar, ég að máta plastið eða ganga frá því og hann krjúpandi á gólfinu sem ljón -eða sem góður vinur sem vill vera nálægur.
 
Það fer að styttast dvölin hjá Stokkhólmsfjölskyldunni. Þessi mynd er ekki tekin heima, heldur þegar við fórum út að borða einn góðviðrisdaginn þegar búið var að vera annríki heima. Ég veit ekki alveg hvað Hannes er að leika á þessari mynd en ekki er það ljón. Kannski górilla sem honum þykir vænt um að einhver annar leiki þegar hann vill fara í eltingarleik.
 
Mér datt það í hug í dag að það er búið að koma talsvert af fólki á Sólvelli í sumar. Það var nú eitthvað sem kom upp í huga mér þegar ég var að hugsa um að brátt færu Rósa og fjölskylda heim. Tveir eru búnir að gista Bjarg og gefa því góða einkunn. Rósa og Pétur eru líka búin að nota Bjarg sem vinnustað þegar þau hafa þurft næði. Hlutverk Bjargs var einmitt þetta tvennt auk þess að vera geymsluhúsnæði fyrir allt mögulegt sem þarf að vera til í sveitinni. En aftur að heimsóknum á Sólvelli.
 
Þau Auður og Þórir hafa verið hér oft á ferð og voru mjög mikilvægir gestir snemma á vordögum þegar sem erfiðastir dagar voru hér á Sólvöllum. Eva, sem er til hægri, var líka mikilvægur gestur á þeim tíma en svo flutti hún frá Örebro og kom því ekki eins oft og skyldi. Ég hef verið þessu fólki svo þakklátur fyrir að halda sambandi við mig en sjálfur hef ég verið hversu lélegur sem helst við að endurgjalda heimsóknir þeirra. Tíunda reynsluspor AA samtakanna segir að við höldum áfram sjálfsrannsókn og viðurkennum umsvifalaust þegar við gerum eitthvað rangt. Ég viðurkenni hér með að ég á að vera betri vinur vina minna.
 
Þessi skólasystir mín og jafnaldra kom í skemmtilega heimsókn fyrir nokkrum vikum. Hún hefur komið hingað í þrjár eða fjórar heimsóknir á allra síðustu árum en ég hef enga heimsókn endurgoldið henni. Hún notar tækifærið til að koma þegar hún er hjá dóttur sinni í Västerås og það er 120 km akstur fyrir hana að koma í heimsókn þaðan. Lífið hefur ekkert borið hana á gullstól en samt á hún gleði til að gefa af og gleðja aðra. Hún Kristín skólasystir mín er trygglynd og ég er búinn að lofa henni að endurgjalda heimsóknir hennar. Ég vil ekki láta vináttu hennar renna út í sandinn af neinum trassaskap af minni hálfu.
 
Þær eru líka trygglyndar þessar vinkonur Valdísar sem sitja þarna með Rósu dóttur minni. Þær borðuðu hádegismat með Valdísi einu sinni í mánuði í mörg ár og þó að Valdís sé nú horfin úr hópnum vilja þær ekki yfirgefa að fullu staðinn sem áður var heimili hennar.
 
Þarna með Rósu og Pétri situr hún Binna mágkona mín og með henni komu Þorbjörg dóttir hennar og tengdasonurinn Tomas. Þau þrjú komu frá Vernamo einn af þessum afbragðs góðviðrisdögum sem við höfum haft svo marga í sumar. Á borðinu er rjóma/jarðarberjaterta bökuð af Rósu og Pétri. Hvað skyldi ég hafa bakað ef ég hefði verið einn heima. Jú, ég hefði örugglega bakað pönnukökur handa þessu tengdafólki mínu.
 
Það eru alls ekki allir sumargestir með hér og til dæmis ekki hún Annelie, hin sérstaka vinkona Valdísar. Annelie er fimmtug og þó að sá aldursmunur væri á þeim, henni og Valdísi, þá ríkti alveg einstök vinátta milli þeirra. Það var erfitt símtal að hringja til hennar snemma morguns og tilkynna henni andlát Valdísar. Viðbrögðin sýndu að það var engin hversdagsvinátta sem ríkti þar, það var vinátta eins og hún bara getur best orðið. Annelie vill halda tryggð við heimilið sem eitt sinn var heimili Valdísar. Henni er velkomið að gera það. Maður hennar er með litla trésmiðju og réttir fram hjálparhönd þegar ég þarf að fá eitthvað gert sem ég ræð ekki við með þeim tækjum sem ég hef yfir að ráða. Ég á enga góða mynd af Annelie og þess vegna vantar mynd af henni. Ég mun tala meira um sumar og vorgesti síðar.
 
*          *          *

Að lokum þetta: Það er búið að rigna í dag, heila átta millimetra. Það hefði svo gjarnan mátt rigna meira en samkvæmt spá sænsku veðurstofunnar á að rigna svo lítið á morgun að það mælist ekki. En ég geri þó frekar ráð fyrir að gróðrinum hafi munað aðeins um þessa átta millimetra í dag  og ekki síst vegna þess að það komu fimm mm í fyrradag.
 
Að svo búnu verður þetta blogg að stoppa hér, enda eins gott. Mín blogg verða gjarnan of löng. Sumargestirnir mínir allir eru gott fólk og ég vil hampa þeim svolítið í þakklætisskyni fyrir að vera það fólk sem þeir eru. Á þessu augnabliki ríkir angurværð innra með mér og ég finn fyrir þörf að stefna móti hinu góða. Hið gagnstæða við hið góða sem búið hefur eða býr í mér vil ég brenna til ösku og kasta því svo út í eilífðina og aldrei sleppa því til baka meir.
 
Guð
gef mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.

Dýrindis dagar

Það er svo mikil blíða að það er að verða of mikið. Eplatrén eru farin að gulna. Kannski var það klaufaskapur að sjá það ekki fyrir en þannig er það bara að ég sá það ekki fyrir. Hefði ég áttað mig á þessu hefði ég beðið Rósu og Pétur að vökva fyrir mig. Í dag var ég á leiðinni heim úr vinnu upp úr klukkan eitt í 28 stiga hita. Nokkru eftir að ég kom heim fór ég út með skóflu að grafa. Ástæðan fyrir að ég er að segja frá því er sú að ég er ánægður með að geta það. Þegar svitinn er kominn af stað er allt í lagi að vinna í svona hita. Og svo er það þetta sem ég talaði um í síðasta bloggi að það er til mikils að vinna. Stórverkin að verða búin og tími notalegheitanna framundan. Svo leit ég á eplatrén og sá að tvö þeirra eru farin að gulna. Nú er búið að bæta úr því og þessi tré eiga ekki að verða þyrst í nótt.
 
Viljið þið ekki koma og sjá sagði Pétur fyrr í kvöld, einmitt þegar Hannes var kominn inn í rúm og Óli lokbrá ætlaði að fara að taka hann að sér.
 
Þetta fyrir bæri kom svífandi frá suðvestri og kom beint yfir Sólvelli. Ég minntist loftbelgsferðar minnar fyrir nokkrum árum og hversu notalegt það var að svífa þarna uppi í algerri kyrrð utan hljóðið í gasloganum öðru hvoru. Að svífa með vindinum og þar með upplifa algert blæjalogn er mjög fín tilfinning. Ég fann til löngunar að gera þetta aftur. En svo er bara hvort það er það sem ég vil helst af öllu gera. Það kostar dálitla peninga og það er líka hægt að gera svo margt fyrir sömu fjárhæð. Ég er búinn að prufa þetta einu sinni og veit um hvað er að ræða. Mitt er valið.
 
Svo fór loftbelgurinn yfir Sólvelli og hvarf yfir skóginn til norðausturs. Það sem ég hef sagt um þennan loftbelg var bara inngangurinn að því sem skipti máli. Myndin fyrir neðan er aðalatriðið.
 
Það sem var aðalatriðið var þetta. Hannes átti auðvitað að fá að sjá loftbelginn og þá var sængin vafin utan um hann og svo settust þeir feðgar í stól úti. Mikið falleg mynd og ég fékk að taka nokkrar áður en Hannes fór að mótmæla. Hann virtist snortinn af kvöldkyrrðinni en ég er ekki viss um það hvort hann trúði mér almennilega þegar ég sagði honum að ég hefði eitt sinn farið í loftbelgsferð til að upplifa eitthvað nýtt og til að sjá landið frá nýju sjónarhorni. Þarna sátu þeir feðgar um stund og værðin yfir honum nafna mínum var býsna mikið önnur en fyrr um daginn þegar ég var að grafa holu bakvið hús og Rósa og Pétur að flytja til mín perlumöl í hjólbörum.

Athafnir

Hér eru þrjár myndir frá því í fyrradag sem eru tileinkaðar Hannesi Guðjóni. Hér er mikil kallauppstilling. Þetta reyndar er ekki uppstilling, þetta var bara tilviljun, en konan á bænum er ekki með í þessum hópi. Hún er á bakvið myndavélina. Ég hef sagt það áður að það er minna tekið af myndum af henni en af köllunum sem hér eru eða fara hér um. Hannes er auðvitað kalla megin og hann hélt sig mikið í námunda við Anders smið þennan dag. Þarna höfum við tekið eitthvað andartaks hlé og Hannes tekur þátt í því, enda var hann að vinna með okkur.
 
Hér er eins og það sé mikil ferð á mönnum. Hannes er nálægt Anders og væntir líklega einhvers verkefnis hjá honum. Alla vega bendir svipurinn til þess að hann vænti einhvers.
 
En hér er Hannes kominn til afa síns og nafna og nú er minn maður i gangi með skófluna sína og mokar jarðvegi að papparörinu sem stuttu síðar var steypt í. Þessar myndir verða að duga að þessu sinni, en það er líka til góð mynd af því þar sem Hannes er að stinga steypustyrktarjárni ofan í steypuna í einu rörinu. Það þótti honum mikið gaman.
 
 
*          *          *
 
 
Ég var að tala um það hér um daginn að setja sökkul undir gamla húsið. Hér er einn áfangi í þeirri þróun og þarna er ég búinn að einangra undir húsið og einnig á jörðina kringum það. Það á ekki að verða greið leið fyrir frost að komast undir þetta hús. Ekki heldur fyrir hita þegar hver hlýi sumardagurinn rekur annan. Að hafa þá svalt undir húsinu jafnar hitann í því og gerir næturnar svo notalegar.
 
Hér er ég svo búinn að klæða sökkulinn og endanlegt útlit er komið. Um helgina fer ég að vinna í Vornesi og þá ætla Rósa og Pétur að jafna þetta svæði með möl. Þau byrjuðu á því í dag þegar ég var hættur að liggja á jörðinni við húsið. Í næstu viku kemur svo Anders og hann ætlar að byggja verönd á steypustöplana, en við hér köllum þá plinta. Þá hverfur það sem ég hef verið að gera en þessi staður við húsið var góður fyrir mig að æfa mig á áður en ég fer í sökklana sem verða mest áberandi.
 
 
*          *          *
 
 
 
Vissulega á ég mér aðra drauma en að hamast stanslaust eins og ungt fólk sem er að byggja sitt fyrsta hús. Sænsku Dalirnir eru alltaf nærri hjarta mínu. Ef allt hefði gengið að óskum ætluðum við Valdís að heimsækja Dalina í sumar. Sú áætlun gengur ekki eftir enda er ég ekki viss um að við höfum í raun trúað á það heldur, en ég hugsa mér að fara samt -einhvern tíma þegar haustlitirnir verða búnir að taka völdin. Ég fann á netinu þessa mynd frá Rättvik við vatnið Siljan. Þarna er minnst sagt afar fallegt og þar sem við byrjuðum Svíþjóðarveru okkar upp í Dölum, finnst mér gjarnan sem þetta svæði eigi mikið tilkall til mín og ég til þess. Þegar ég er að vinna eitthvað sem höfðar ekki til þess besta í mér get ég oft dreift huganum inn í draumalandið og minnst þess að í haust heimsæki ég Dalina. Umræðu um aðrar ferðir slæ ég á frest að sinni.

Stór dagur

Það er nú meira hvað alltaf er verið að aðhafast eitthvað hér á Sólvöllum. Það sem var verið að vinna við í dag átti að framkvæmast í maí samkvæmt áætlun sem var í gangi í mars. Svo varð nú ekki en í dag hófst þetta verk fyrir alvöru sem hafði þó verið í undirbúningi nokkra síðustu dagana.
 
Smiðurinn Anders kom klukkan sjö í morgun og það áður en ég var búinn að borða hafragrautinn minn. Hann kom til að hjálpa við að steypa stöpla undir verönd sem á að koma við tvo veggi, eiginlega þrjá. Satt best að segja var það þannig að Anders hafði verið ráðinn til að vinna verkið alveg upp á eigin spýtur en svo urðu breytingar hér á Sólvöllum sem gerðu það að verkum að plönin breyttust. Á myndinni er Anders að velta vöngum yfir einhverju en Hannes er önnum kafinn við að moka grófri möl með rekunni sinni.
 
Hér er það hins vegar Hannes sem er að velta vöngum yfir einhverju, kannski er Anders að hugsa ennþá en eftir líkamsstellingu minni að dæma er ég að reyna að taka mig yfir rauðu snúruna sem Anders er búinn að strengja milli stöplana. Kannski er ég þarna að æfa hástökk aldraðra. Ég veit ekki almennilega.
 
Nú nennir Hannes ekki lengur að vera alltaf að velta einhverju fyrir sér. Hann er kominn á ærlegt strik við moksturinn. Finnst líklega að við hin þurfum að fara að koma okkur almennilega að verki. Að vísu er Rósa með myndavélina þannig að hún er í verki og tók margar skemmtilegar myndir af athöfnum okkar í dag.
 
Og þegar Hannes er búinn að koma öllum almennilega í gang virðist hann vera orðinn nokkuð áhyggjulaus og er farinn að slappa af. Gröfumaðurinn Maritn gróf þessar holur að hluta um næst síðustu helgi. Síðan hef ég verið að dýpka þær og laga og grafa fleiri, gjarnan liggjandi á hnjánum. Ég vandi mig á þann ósið áður en ég fékk nýja mjaðmaliðinn um árið og ég hef einhvern veginn ekki nennt að venja mig af því aftur.
 
Anders var búinn að segja mér í síma að hann ætlaði að klára að stilla upp mótunum fyrir stöplana og steypa í þau á einum degi. Þetta voru 24 stöplar og mér fannst það ótrúlegt en vissi jafnframt að þegar Anders gefur upp tíma, þá stenst það alltaf. Svo var allt búið um hádegi. Það eru viss verk þar sem Anders er eigninlega ómissandi. Hann er góður verkstjóri og mikill verkmaður. Við viss verk finnst mér hann vera full fljótur en ég verð samt glaður þegar ég borga reikningana frá honum að þeir skuli ekki vera hærri en þeir eru. Það eru mörg verkin sem ég gæti vel unnið sjálfur, en þegar það finnst maður sem er mikið, mikið fljótari að ljúka þeim en ég, þá er í mörgum tilfellum fáránlegt að fá hann ekki til að vinna þau. Svo var með þetta verk og eftir einhverja daga kemur Anders aftur til að smíða pallana á stöplana og svo verður hægt að dansa kringum hálfa Sólvallahúsið.
 
Svo þegar Anders var farinn komst allt í sinn gamla farveg þar sem ég fór hóflega hratt að vanda. Rósa og Pétur gengu í að laga til og koma skipulagi á hlutina eftir þessa snörpu vinnuskorpu. Á myndinni er ég að leggja einangrun að húsvegg gamla hússins í því skyni að útbúa sökkul undir þann hluta. Ég hef oft talað um þennan sökkul og ég held að ég fari ekki nánar út í að útskýra það, það yrði bara þvæla. En það mun breyta húsinu mikið. Einn stöplanna sem steyptir voru í dag sést þarna við hendina á mér og þrír sjást aftan við bossann á mér. Ég varð að byrja með einangrunina á þessum stað til að geta haldið áfram með veröndina. Síðar geri ég svona kringum allt gamla húsið. Eftir það verður það sem nýtt.
 
En það var sitthvað í gangi hér á löngum vinnudegi. Hádegismatarvinkonur Valdísar komu í heimsókn samkvæmt tveggja vikna gömlu samkomulagi. Það var samt ekki vel skipulagt að bæði þær og Anders skyldu vera hér sama daginn. Þær voru yfir sig ánægðar yfir að fá að koma og léku á als oddi. Ein þeirra er meira að segja nýkomin með kærasta og allt hennar fas er gerbreytt. Það var létt yfir henni og hún komin með hárið í þetta líka fína tagl. Rósa annaðist þessa móttöu og bakaði Valdísarpönnukökur. Ég tók mér hins vegar svolitla stund með þeim til að skoða myndir sem þeim leiddist hreint ekki.
 
Þegar kvöldaði bauð ég gestum mínum og aðstoðarfólki í mat á Brändåsen. Þau eru svo miklir kokkar hér heima að ég verð öðru hvoru að grípa inn í með einhverjum úrræðum til að halda virðingu minni. Þarna eru Hannes og mamma hans í mjög athyglisverðum samræðum og ég sé að hann nafni minn talar með öllu andlitinu.
 
Leiðn frá Sólvöllum til Brändåsen er mjög falleg og kvöldið gefur ferðinni og öllu umhverfi sinn sérstaka blæ. Eikur, hlynir og lindar virðast haf það gott þarna á gamla jökulásnum sem myndaðist væntanlega á síðari hluta ísaldarinnar fyrir um tíuþúsund árum. Svo liðast vegurinn eftir há ásnum endilöngum.
 
Þau hafa ekki verið að fæðast í gær þessi tré og þau hafa verið vitni að mörgu gegnum áratugina eða jafnvel aldirnar. Vinnustrit, örlög, sorgir, ástir og ævintýr manna og kvenna eru greypt í árshringina þeirra. Það er hins vegar ekki svo mikið skráð í minningabankann minn á þessari stundu. Hann Óli lokbrá er búinn að vera að sveima hér inni og honum hefur tekist að ná miklu valdi yfir mér og hann er búinn að loka minningabankanum og hæfileikanum til að koma orðum á blað. Ég á því bara um einn kost að velja og það er að fara að leggja mig og óska mér fallegra drauma að lokinni kvöldbæninni ef mér þá tekst að koma henni á framfæri.
 
Ég vil svo gjarnan að verkin á Sólvöllum fari að minnka og í staðinn get ég vel hugsað mér að sitja meira við tövuna á tímum sem Óli er ekki að narta í mig og skrifa þá læsilegri blogg eða gera eitthvað annað sem ekki tilheyrir bara hreinu púli. Verkin eru líka að minnka og eftir að verandirnar verða tilbúnar nálgast það meira að það séu bara smá hlutir að vinna að og svo venjulegt viðhald og að sjálfsögðu umhyggja varðandi skóginn. En þó að ég tali um púl, þá er það alls ekki af hinu illa. Mikið af því sem ég kalla púl hér í þessu bloggi hafa verið verkefni sem voru samt sem áður skemmtileg og alveg sérstaklega þegar þeim var lokið. Það er gaman að ganga aðeins til baka og horfa á tilbúið verk og vera ánægður með árangurinn.
 
Ps. Þetta blogg skrifaði ég að mestu í gær og þá hálf sofandi. Nú er ég búinn að bæta og laga með afar fallegt útsýni fyrir framan mig.

Af Brodda og ýmsu öðru

 
Hún Karin vinkona Rósu og Péturs kom í heimsókn til þeirra í gær. Hún auðvitað gisti í gestaherberginu á Bjargi og gaf því úrvalseinkunn. Karin er fróð um alls konar matjurtir, berjarunna og margt fleira. Hún deildi út þessari vitneskju sinni meðal okkar og hún fór einnig með Rósu í berjatínslu í gær. Smá stund voru þær og komu heim með svo mikið að við kláruðum það ekki sem eftirrétt. Eftirrétturinn var íslenskt skyr sem er orðin vinsæl fæðutegund hér og út í skyrið blönduðum við bláberjunum sem voru líka svolítið blönduð með viltum jarðarberjum. Nammi gott var það.
 
Síðdegis í dag fór svo Rósa með Karin á járnbrautarstöðina í Hallsberg. Hannes fór með og nú fær hann að sitja í bílastólnum sínum í framsætinu og þykir ekki leiðinlegt. Hann vildi að vísu ekki horfa á mig þegar ég tók myndina þannig að við fáum ekki að sjá á honum ánægjusvipinn.
 
Ég baukaði við að loka undir húsið, þetta verk sem ég hef oft talað um áður. Það er óþægilegt skítverk sem hefur legið lengi á mér en nú er það hafið. Þegar því verður lokið liggur mér við að segja að eftir það geti ég gengið dags daglega á sunnudagafötunum hér á Sólvöllum. En Pétur sýslaði við annað. Í fyrradag réðist hann í að fjarlægja einhver hundruð greina sem fylgdu birkitrjánum fimm sem felld voru um helgina.
 
Þetta er heilmikið verk og í dag hélt Pétur því áfram og dró líka einhver býsn af greinum út í skóg. Það eru margs konar störf sem þarf að inna af hendi í sveitinni, líka þó að ekki væri verið að bauka við byggingarvinnu.
 
Rósa fór i litla kartöflugarðinn og sótti þessar fínu kartöflur í kvöldmatinn. Hún setti líka niður aðra umferð af kartöflum um helgina ef mögulegt væri að fá aðra uppskeru áður en haustið gengur í garð. Það er alla vega tilraunarinnar virði.
 
Svo er það þetta með broddgaltartilraunina. Hún virkar svo vel að nú eru broddgeltir hér á vappi, ekki bara einstaka sinnum, heldur heldur fram og til baka nánast allan eftirmiðdaginn í dag. Þeir eru bara svo velkomnir greyin og skemmtilegir eru þeir. Karin sýndi þeim líka stóran áhuga meðan hún var hérna. Broddgeltir eru síðdegis- og kvölddýr.
 
Svo er það ekki bara einn broddgöltur. Þeir hafa mikið verið tveir á ferðinni í einu í dag.
 
Óli L smeygði sér inn til mín svo lítið bar á en þó að það færi lítið fyrir komu hans finn ég heldur betur fyrir henni. Ég er orðinn grútsyfjaður. Ég ætla að hlýða honum og þegar ég verð búinn að birta þetta skal ég bursta og pissa og leggja mig svo á koddann. Ég reikna ekki með að ég geti lesið, það verður mér um megn.

Framhald frá síðasta bloggi

Ég birti þessar myndir í fyrsta lagi fyrir þá sem hafa verið hér og eru kunnugir á Sólvöllum, fyrir þá sem vilja vita hvernig framvindan er. En svo er líka öllum hinum svo sannarlega velkomið að skoða þær ef áhugi er fyrir hendi. Ég vistaði þær inn á bloggið í gærkvöldi en gat ekki skrifað texta því að ég var svo grútsyfjaður og sofnaði einum tvisvar sinnum meðan ég var að vista þær. Ég veit ekki hvað ég vara að hugsa með texta en nú tek ég nýja stefnu.
 
Það er jú ekkert gaman að byggja hús og láta líta lengi svona út við framhliðina. Það er þekkt að það getur komið upp í vana og ef þannig fer geta liðið mörg ár áður en maður vaknar frá þessum vana og gerir eitthvað í málinu. Það sér í enda á einangrunarplasti við húshornið. Svona plasti er raðað kringum allt húsið og það er sterkt og þolir að það verði keyrt út á það þegar allt er frágengið. Ég hef ekki hugmynd um hvort þessi byggingarmáti er notaður á Íslandi líka. Svo var ekki það best ég veit meðan ég bjó þar.
 
Og svo er framhliðin frágengin, haugarnir farnir, en það sér í liggjandi eikarstofna hinu megin við innkeyrsluna. Eitthvað af þessari eik fer í eldivið en svo ætla ég líka að fá hann sögunarMats til að saga eitthvað af henni í borðvið. Ég vil gjarnan eiga nokkur eikarborð úr Sólvallaskógi.
 
Við suðurstafninn, þann sem snýr að ungu nágrönnunum, var útlitið óyndislegt og útilokað að slá þar með neinu tæki. Við hornið fjær sér í aðra af eikunum tveimur sem felldar voru um helgina þegar Martin gröfumaður kom til að ganga frá.
 
Svo varð þetta árangurinn. Já, býsna ánægjulegt verð ég að segja. Á röndina við vegginn ætla ég að setja 17 sm breiðar gangstéttarhellur. Þá verður auðvelt að slá að húsinu og halda snytrilegu. Það verður verkefni næsta vors eða sumars.
 
Andlitið er búið að fá fast form nema hvað gróðurinn vantar ennþá. Dökka röndin við húsið er það sem ég er búinn að sá í. Í gær blés frá vestri, úr þeirri einu átt sem blásið getur á Sólvöllum. Það var hlýr golukaldi en nóg til þess að það var ekki hægt að sá grasfræi. Í nótt svaf hún á Bjargi hún Karin, vinkona Rósu og Péturs. Ég heyri að hún er nú komin hér inn til þeirra og þar með eru allir komnir á stjá nema Hannes. Ég er grautarhausinn og skal elda hafragraut með rúsínum og apríkósum handa þeim sem vilja. Síðan bíður enn einn mikill góðviðrisdagur með ýmsum verkefnum. Bloggstund er því lokið að þessu sinni.

Til móts við efri árin

Martin kom í gær eins og ég talaði um í fyrradag. Hann kom til að laga kringum Bjarg sagði ég en það var fleira á verkefnalistanum. Nokkur 20 metra há birkitré hérna bakvið húsið voru miklir langskankar. Það er að segja að krónan á þeim byrjaði ekki fyrr en mjög langt uppi. Þannig verða tré gjarnan í illa hirtum skógi. Þegar Martin kom hér um daginn sýndi ég honum þessi tré og spurði hann hvort hann gæti hjálpað mér við að ná þeim niður án þess að þau brytu mikið og brömluðu kringum sig. Hann hélt það nú.
 
Martin vildi byrja á þessu með trén og svo gerðum við. Á myndinni er hann að koma með eitt þeirra út úr skóginum, reyndar það síðasta. Hann spurði hvort það væru fleiri tré að taka niður og þegar ég sagði svo ekki vera sagði hann að hann vildi gjarnan halda þessu áfram því að þetta væri svo gaman. Ég skildi hann alveg. Hann hélt þeim standandi í jafnvægi meðan hann var að koma út úr skóginum og það hefur sjálfsagt verið eins og að iðka jafnvægisíþrótt. En fleiri tré fékk hann ekki að taka og svo hófst vinnan við Bjarg.
 
Svona var þar á bakvið, ótútlegt og illa hirt. Tréð þarna út við hornið er eik sem er búin að vera mörg ár að vaxa -áratugi. Eikur vaxa ekki hratt. Hinu megin við hornið er líka eik sem ekki fæddist í gær. Jafnöldrur gæti ég trúað að þær væru -eða hafi verið
 
Svona leit það út eftir að Martin hafði verið þarna á ferð með tæki sín og verkvit. Hann er lipur tækjamaður og maður með gott verkvit. Það er gott að spyrja hann ráða.
 
Ég að vísu spurði hann ekki ráða hvað magnið af möl varðar í planið þarna bakvið húsið. Ég held að hann hafi nú talið að ég væri full ónýskur á efnið en ég vildi bara hafa þetta vel úr garði gert. Á planinu bakvið Bjarg á að kljúfa við, hafa viðarskýli, geyma það sem ekki er hægt að setja í hús og svo ætla ég að smíða lipran kassa yfir vélsögina mína og hafa hana þarna.
 
Pétur hefur svitnað við að klippa og saga greinar af trjánumm sem voru felld í gær, einnig að bera greinar út í skóg. Hann var líka til hjálpar við fráganginn kringum Bjarg eftir þörfum. Það var mjög kynskipt verkaskipting hér í gær og frameftir í dag. Það féll nefnilega í hlut Rósu að sjá okkur karlpeningnum fyrir mat og miklu vatni að drekka. Það var ekki til umræðu, það bara varð þannig. Martin var hér framundir hádegi í dag og ég að mestu með honum. Svo hef ég verið að undirbúa sáningu og byrja að sá.
 
Þegar maður á heima á "sveitabæ" þarf að ýmsu að hyggja og nú er að verða fullbyggt á Sólvöllum. Það er fullt af minni verkefnum út þetta ár og eitthvað lengur en umfang þeirra fer nú minnkandi. Að einu ári liðnu verða það bara einföld viðhaldsverkefni sem gott verður fyrir gamlan og skrýtinn kall að annast til að halda sér lengur í formi. Svo verður skógurinn alltaf til staðar til að hlú að og veita félagsskap. Skógurinn má ekki verða illa hirtur aftur eins og hann var þegar við eignuðumst Sólvelli 2003. Það er um að gera að hafa dálítið að sinna annars verða efri árin léleg og ég hrörlegur og skorpinn. Ég tel mig vel undir þetta búinn.

Að búa í Krekklingedalnum

Þegar Rósa og fjölskylda komu þann 1. júlí var ég með færeyskan lax grillaðan í ofni handa þeim. Og hvað svo? Jú, síðan hef ég ekki komið nálægt matargerð utan að elda hafragraut á morgnana, hafragraut með rúsínum og aprikósum. Svo er ég nokkuð duglegur við að ganga snyrtilega frá.
 
Nú er ég vel meðvitaður um að svona létt er ekki hægt að sleppa frá ábyrgðinni til lengdar. Því bauð ég fólkinu í kvöldmat á Brändåsen í kvöld. Það er staður sem þjónar sama hlutverki og til dæmis Staðarskáli en að Staðarskála ólöstuðum er Brändåsen mjög góður staður heim að sækja. Fjölbreytnin er ekki svo mikil en staðurinn er bara svo ótrúlega notalegur.
 
Ferðirnar fram og til baka voru líka alveg frábærilega fallegar og í síðdegissólinni var það hrein unun að aka rólega eftir endilöngum Krekklingedalnum sem stundum er kallaður matarkistan.
 
Krekklingedalurinn er akurlönd, akurlönd og ennþá meiri akurlönd hvert sem litið er og allur gróður sem sést á myndunum er korn af ýmsu tagi, einnig repja, að frátöldum skóginum.
 
Mér fannst að vísu erfitt að sjá það þegar við eignuðumst Sólvelli að Krekklingedalurinn væri dalur. En hann er þó dalur sem hefur lága ása á báðar hliðar. Hæsti staðurinn á ásunum sem mynda dalinn er þar sem Sólvellir standa. Við höfum því útsýni sem margir mundu vilja hafa og ég er mikið stoltur af Sólvöllum eins og oft hefur komið fram.
 
Þegar við komum heim eftir notalega máltíð á Brändåsen var nýi fjölskyldumeðlimurinn, Broddi, mættur til matar síns, fyrr en nokkru sinni fyrr. Það þýðir að hann er farinn að líta á matargjafir okkar sem sjálfsagðan hlut. Á myndinni er Broddi að fela sig og virðist halda að þarna sé hann ósýnilegur. Við höfum rætt um það hvers vegna Broddi er alltaf einn og höfum komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé kannski "hún Brodda" og sé ef til vill ófrísk. Ef svo er, er ábyrgð okkar mikil. Þá verðum við að forðast að styggja Broddu og fjölskyldu vegna þess að ef of mikil styggð kemur að fjölskyldunni getur farið svo að hún éti unga sína í ofurstressi. Það væri mikið leiðinlegt og ef rétt er, er það á allra fyrsta skeiði unganna sem það getur skeð. Við vonum það besta.
 
Nú er ég búinn að bursta og pissa og er á leið í rúmið þar sem hann Martin gröfumaður ætlar að koma klukkan sjö í fyrramálið. Það er mikið spennandi verk sem hann kemur til að framkvma og ég hlakka mikið til. Það er að laga til kringum Bjarg og nú þegar eru fimm bílhlöss af ýmsu efni á lóðinni sem nota á í þetta. Það er mikill ljóður á fallegum stað ef hann er ekki vel úr garði gerður og léttur að halda snyrtilegum. Eftir morgundaginn hef ég enga afsökun ef hér lítur ekki vel út.
 
Að vísu þarf að fara hlýjum höndum um þetta allt saman þegar Martin verður búinn með sitt. Það þarf að raka til mold og jafna, valta og raka til og jafna aftur og því verður að halda áfram þar til svæðið verður tilbúið til sáningar, slétt og vel út garði gert. Svo þarf að vökva vel þangað til grasfræið kemur upp og auðvitað eitthvað lengur. Þetta verður svolítið að skapa nýtt landslag og það er mannbætandi að fást við slíkt ef það er gert af umhyggju.

Bliðviðrisdagur

Klukkan var að verða hálf ellefu og það var farið að bregða birtu. Þá fannst mér sem ég mætti til með að fara út og ganga svolitið um kring og svo gerði ég. Það var fullkomlega kyrrt og enginn var á ferð utan kona nokkur sem gekk hljóðlega hjá með hundinn hans pabba síns til að leyfa honm að pissa.
 
Broddi var búinn með matinn sinn og Hannes var búinn að koma út og skoða hann. Í kvöld kom Broddi mikið fyrr en kvöldin áður en samt var Hannes nýkominn í rúmið. En hann fékk teppið yfir sig og svo gekk hann svolítið kringum Brodda og virti þetta hljóðláta dýr fyrir sér. "Maður má nú ekki klappa honum á broddana" sagði Hannes og vildi ekki koma of nærri. Samt er það þannig með þetta dýr sem hefur ekki breytst í miljónir ára að það dregur að sér og fær fólk til að þykja vænt um sig.
 
Bakvið Hannes stendur Martin gröfumaður sem var á þessu augnabliki að koma með mold sem á að nota kringum Bjarg. Hann ætlar að koma á laugardaginn og grafa niður drenlögnina þar, ganga endanlega frá plani bakvið húsið og almennt að gera fínt umhverfis það. Martin fannst þetta með Brodda nefnilega svolítið spennandi líka.
 
*          *          *
 
Það var hér sem ég stein sofnaði framan við tölvuna og þegar ég var sofnaður komu ekki fleiri orð á skjáinn. Svo vaknaði ég hálf hissa og átti ekki um annað að velja en að slökkva á tölvunni. Þá var ég þó búinn að vista þessar myndir inn á bloggið og nú morguninn eftir er ég ekki alveg viss um hvað ég hugsaði mér með þær í gær. Það verður gaman fyrir mig að sjá hvað kemur út úr því.
 
Hannes bað um að fara í skógarferð. Við lögðum af stað með hvor sínar hjólbörur, tómar báðar, en með hjólbörur hafði þessi ferð auðvitað meira gildi. Rósa fylgdi eftir með myndavélina. Svo eftir eina fjörutíu metra í skóginum fannst Hannesi maurarnir vera orðnir of nærgöngulir og líkaði ferðin ekki lengur. Þá stakk mamma hans upp á því að hann færi upp í hjólbörurnar hjá mér og svo gerði hann. Hann spáði í margt og mikið þarna í hjólbörunum og fannst skrýtið að einstaka maur kom upp í hjólbörurnar til hans. "Afi, afi, hérna" sagði hann þá, og afi auðvitað hjálpaði honum úr hættunni og kastaði maurunum fyrir borð.
 
Svo vildi Hannes samt sem áður koma niður á jörðina og gera sínar athuganir þar. Það er spurning hvað við erum að skoða þarna en líklega er það mjög afgerandi mauraslóð þar sem ótrúlegur fjöldi maura er á fullri ferð fram og til baka yfir gönguslóðina. Börn taka meira eftir því sem er að ske á jörðu niðri. Við "fullorðna" fólkið viljum horfa hærra og erum gjörn á að gapa meira yfir hlutum sem eru víðs fjarri og ofar okkar skilningi og látum ljós okkar skína þar. Það er spurning hvort gerir meira gagn.
 
Þegar maður er einu sinni búinn að virða fyrir sér lifandi mauraþúfu er auðvelt að gera sér grein fyrir því að það er iðandi fjöldi af maurum á þessari mynd sem Rósa tók í athugunarferð okkar í gær. Neðst og aðeins hægra megin við miðja myndina er grannur greinarendi af greni. Án kranabíla, vörubíla og dráttarvagna hefur maurunum tekist að koma þessum greinarenda langt upp í hauginn sinn. Hvernig þeir framkvæmdu það er mér stór spurning.
 
Hvað ég ætlaði mér með þessa mynd í gær er mér spurning. En eitt veit ég, að meðan ég var úti við Bjarg í gær að undirbúa komu Martins, þá bakaði Rósa pönnukökur. Hvort lyktin barst til nágrannanna veit ég ekki og býst heldur ekki við því, en hins vegar birtist þessi fjögurra manna fjölskylda alveg á réttu augnabliki til að fá sér síðdegiskaffi með okkur. Hannes og jafnaldra hans, Siw, fóru í leikturninn að leika sér og létu okkur eftir það mesta af pönnukökunum. Sólin og einstök veðurblíðan léku við okkur einn daginn enn. Pétur opnaði sólhlífina til að veita svolítinn svala við síðdegiskaffið og svo var glatt á hjalla. Alma, sem er þarna við hliðina á Stínu mömmu sinni, er mjög hrifin af pönnukökum. Hún lærði að borða þær hjá Valdísi og hún er líka viljug að borða þær hjá okkur hinum sem nú bökum pönnukökur á Sólvöllum.
 
Lífið heldur áfram en þessi orð um pönnukökurnar vöktu tregannn til lífs á ný.

Verðmæti

Það hefur verið heil mikið annríki á Sólvöllum undanfarið, kannski full mikið. Ég get fyllst af því að sum verkefni verði að klárast bara núna ef mögulegt er. En þá er það bara það sem ég skapa mér með ákafa mínum. Svo hef ég verið að vinna töluvert í Vornesi og kannski gengst ég upp í því að ég virka ennþá í meðferðarvinnunni og ég held bara ekki síður en fyrir ellilífeyrisaldur. Jú, ég þori nú að segja betur að sumu leyti.
 
En ég verð þó að segja að ég hef gefið mér dálítinn tíma fyrir fólk. En kannski ekki nægan tíma fyrir þá sem búa með mér hér á Sólvöllum um þessar mundir, en þegar fólk hefur komið í heimsókn erum við þó öll saman með gestunum.
 
Þessi vingjarnlega kona kom í heimsókn á sunnudaginn var eftir að ég kom heim úr vinnu í Vornesi. Hún heitir Kristín Guðmundsdóttir og er ein af Skógaskólaliðinu sem skrifaðist út árið 1959. Því liði tilheyri ég líka. Ég hef fyrir því öruggar heimildir að árgangurinn okkar var talinn mjög góður og ég er líka sannfærður um að svo var. Stór hluti af þessum hópi var saman á heimavistarskólanum í þrjá vetur og þá verður auðvitað mjög náinn kunningsskapur með fólkinu. Svo voru aðrir sem ekki voru öll árin með okkur en skrifuðust út sama vor, en þeir hinir sömu sameinuðust liðinu samt á þennan innilega hátt að það er ekki hægt að gera sér grein fyrir því að þau hafi ekki verið hluti af liðinu öll þrjú árin.
 
Það hefur hreinlega verið fjölskyldustemming í þessum hópi þegar við höfum hittst á fimm ára fresti. Ég hef sjaldnar verið þátttakandi í þeim mætingum en margir hinna, hef haft lag á því að búa langt í burtu, og stundum hefur liðið fjöldi ára milli þess að ég hafi séð suma. En á örskotsstundu er samt eins og við höfum verið saman fyrir stuttu síðan. Það er virkilega gaman að þessu og það eru mikil verðmæti í því fólgin að eiga þennan hóp að. Ég minnist þess að einn kennaranna í Skógum sagði að þessi skólaár yrðu mjög verðmætur hluti af lífinu þegar fram liðu stundir og hann hafði rétt fyrir sér.
 
Dóttir Kristínar er læknir í Västerås sem er eina 120 km austan við Sólvelli. Hún dvelur oft hjá þessari dóttur sinni og hefur verið dugleg við að líta við á Sólvöllum. Valdís og hún urðu góðir kunningjar. Ég hef ekki verið jafn duglegur við að líta við hjá þeim i Västerås. Þakka þér fyrir trygglyndið og vináttu þína Kiddý mín.
 
Á mánudaginn var kom svo þetta fólk á Sólvelli. Þarna er Þorbjörg systurdóttir Valdísar, svo mamma hennar Brynhildur og að lokum Tomas, sænskur maður Þorbjargar. Þorbjörg og Tomas eiga heima í Vernamo í Smálöndum og þar hefur Brynhildur verið í heimsókn síðustu vikurnar. Svo komu þau hingað í heimsókn á mánudaginn var og stoppuðu í nokkra klukkutíma.
 
Það er ekki ég sem bakaði jarðarberjatertuna sem er þarna á borðinu. Nei, alls ekki. Það voru nefnilega Rósa og Pétur sem bökuðu hana og nú eru þau setst við sitt hvorn endann á borðinu. Þau voru gestgjafarnir og þau voru það líka þegar hún Kristín kom, hún sem er á fyrstu myndinni.
 
Svo er þarna enn annað fólk sem kom í vikunni, Auður og Þórir. Ástæðan til að ég nota þessa mynd er ungi ákveðni maðurinn sem er þarna á ferðinni. Mér fannst ég bara mega til með að nota hana þar sem hann er svo algerlega önnum kafinn við einhver málefni sem ég átta mig ekki á.
 
Nú hefur hann snúið við ungi maðurinn og reyndar voru það fleiri sem samkvæmt beiðni minni sneru sér við til að horfa í myndavélina.
 
Þetta eru svo Pétur og Rósa, alvörugestgjafarnir á Sólvöllum um þessar mundir. Og lax var það í kvöldmatinn þegar ég kom heim úr vinnu einn daginn í vikunni. Grænmetið í skálinni sem Rósa heldur á þarna er komið úr grænmetisræktinni hennar við skógarjaðarinn. Bakvið þau eru hins vegar kryddjurtirnar.
 
Þessir strákar eru að hjálpast að við að gefa honum Brodda fyrr í vikunni. Broddi er ekki gestur á Sólvöllum,  hann er ábúandi. Hann hefur hins vegar ekki deilt lífinu svo mikið með okkur. Broddi er kvölddýr og er oft ekki á ferðinni fyrr en eftir að birtu fer að bregða. Það er þekkt að það er hægt að hæna þessi dýr að sér með því að gefa þeim mat og Hannes á bók þar sem góð ráð eru gefin við þá matargjöf. Egg og avakadó eru ofarlega á listanum í bókinni, en í þessu tilfelli sem myndin er af er það egg og kattamatur sem við bjóðum upp á. Svo þegar matarborðið er tilbúið rennum við því undir stólinn til að hlífa því fyrir rigningu.
 
Þegar Broddi kom í gærkvöldi var Hannes ekki sofnaður en hann var háttaður og kominn í rúmið. Hann var því sóttur til að hann gæti áttað sig á því hvaða þýðingu matargjöfin hefði. Vafinn inn í teppi og fylltur áhuga og gleði kom hann svo með mér út til að kynnast hinum hljóðláta ábúanda á Sólvöllum. Fyrst ætlaði Broddi að láta sig hverfa inn í skóg en við gengum í veg fyrir hann. Þegar það er gert staðnæmast broddgeltir oft og sjá til hvað setur. Það gerði Broddi þarna í gærkvöldi og þegar við vorum búnir að ræða um hann og við hann um stund gáfum við honum frelsi og stuttu síðar sneri hann sér að matnum aftur. Rósa var nálæg með myndavélina.
 
Á þennan hátt geri ég ráð fyrir því að Broddi verði gæfur. Honum verður útbúinn bústaður í skógarjaðrinum nálægt þessum stað og það verða birtar myndir af því síðar.
 
Svo er gott að enda þessa myndasyrpu með mynd af bláberjartínslu. Þá var ég enn ekki kominn heim úr vinnunni en góðfúslega fékk ég þessa mynd frá Rósu. Mikið er ég feginn að stórborgarbarninu líður vel á Sólvöllum, svo nærri svo mörgu góðu sem örugglega á eftir að setja góð spor í hann sem einstakling í hinu stóra samfélagi framtíðarinnar. Megi allt gott vaka yfir honum.

Ég veit ekki hvað ég skal segja

Ég fór í vinnu upp úr hálf tíu í fyrradag og kom heim um hádegi í gær. Ég hef gert þetta mörg hundruð sinnum áður en ég man ekki eftir því að hafa orðið svo rosalega þreyttur sem ég varð eftir að ég kom heim í dag. Kannski átti ég bara að leggja mig en ég gerði það ekki. Ég fann svo mikla brennandi þörf fyrir að byrja á verki sem ég er búinn að hugsa um í fáein ár, en það er lokafrágangur á sökklunum undir elsta hluta íbúðarhússins. Að ég vildi endilega byrja þarna í gær byggðist að nokkru á því að í gær fékk ég endanlega hugmynd um hvernig ég skyldi framkvæma þetta.
 
Ég fór í bláu "skriðbuxurnar" mínar, tók mér tommustokk í hönd, máta sem ég útbjó, trébýjant og einn járnvinkil. Síðan lagðist ég á jörðina, "á skriðbuxunum" og horfandi upp undir útvegginn byrjaði ég að sannreyna hugmyndina sem ég hafði fengið. Mýfluga með hátíðnihljóði kom samstundis á vetvang og snerist kringum andlitið á mér. Mér fannst hún geta lent í augunum en ég var svo sem ekki hræddur um að hún stingi mig til óbóta. En þetta með augun var ónotalegt og svo er hljóðið í þeim er einstaklega óyndislegt.
 
Ég byrjaði að slá til hennar en hún var fim og hélt greinilega að ég væri að leika mér við hana. Að lokum tókst mér að greiða henni náðarhöggið og hún lá kyrr í sandflekk sem var þarna við vegginn. Svo hélt ég mínum spekúleringum áfram og innan tíðar hófst hátíðnihljóðið á ný. Annað hvort var mýflugan gengin aftur eða þá að það höfðu leynst tvær mýflugur á Sólvöllum þennan dag. Það var ekki erfitt að giska á hvort heldur var.
 
Ég er að skrifa þetta á föstudagsmorgni. Ég lagði mig seinna í gær en ég hafði hugsað mér en ég er hreinlega þannig og veit ekki hvort það er nokkur ástæða til að fást um það. Ekki var ég lengi að ganga til fundar við Óla L og þegar ég var kominn þangað var ég þar án minnstu truflana í draumalandinu í sjö og hálfan tíma. Það var greinilega góður tími því að lífið leit allt öðru vísi út þegar ég vaknaði.
 
Í fyrsta lagi var ég vel úthvíldur og fann fyrir þessum afslappaða, hógværa púlsi mínum sem var trúlega kringum 54, eða eins og hjá góðum íþróttamanni. Eftir rólegheit á koddanum og hugleiðingar um lífið tók ég mig fram úr rúminu og dró frá austurglugganum. Skógurinn var endurnærður eftir rigningu gærdagsins og það var hægur andvari sem hreyfði við laufverkinu og gerði það fallegra en nokkru sinni fyrr. Einkennilegt hvað þetta "fallegra en nokkru sinni fyrr" getur komið dag eftir dag og ár eftir ár. Það er mikill ríkidómur að svo geti verið.

Rósa er búin að hengja út á snúruna þvottinn sem ég ætlaði að vera búinn að hengja upp áður en aðrir kæmu á stjá. Tipplandi fótatak Hannesar barst mér framan úr stofu fyrr en ég reiknaði með og þegar ég heyrði hann spyrja eftir afa stóðst ég ekki mátið og opnaði hurðina þangað fram. Það var glaðlegt og fallegt andlit sem birtist mér í dyragættinni og það fannst bara einn möguleiki; að elska þessa smávöxnu mannveru.
 
Það er kominn minn tími til að elda hafragraut. Eftir rólegan morgunverð ætla ég að halda áfram við fráganginn á sökklunum sem ég talaði um hér fyrir ofan. Þar mun ég njóta sólar fram yfir hádegi og ásamt öðru heimilisfólki hér mun ég þar njóta samvista við einstaka flugu, mikið af bjöllum, og fjöldan allan af fjölfætlum af misjöfnum lengdum sem hlykkjóttar taka sig ótrúlega hratt fyrir. Þær eru ekkert sérataklega sólgnar að komast upp í buxnaskálmar og það er ég mjög sáttur við. Náttúran er ekki bara iðandi laufverk, hún er ótrúlega fjölbreytt og lifið alveg makalaust ef að er gáð. Ég finn alltaf fyrir sársauka þegar ég sting sundur ánamaðka.
 
Að lokum vissi ég hvað ég skyldi segja.
 
Ps. Þetta með púlsinn hef ég ekki fengið af íþróttamannsferli mínum. Mikið gekk ég og hljóp í gamla daga og kannski skilaði það einhverju, en mér hefur einfaldlega verið gefin góð heilsa verð ég bara að segja og mikið er ég þakklátur fyrir það.

Að láta kyrrðina umvefja sig

Á tíunda tímanum á morgun ek ég úr hlaði áleiðis til Vornes. Ég geri mér vonir um að verða þar að liði þó að mér finnist núna í augnablikinu að það muni ekki verða. En það er svo skrýtið að þegar ég kem á þennan undarlega stað, þá skeður eitthvað. Eftir öll ár í Vornesi er eitthvað sjálfvirkt í mér sem fer í gang þegar ég ek þar inn gegnum trjágöngin og svo verður allt einhvern veginn öðru vísi en það var til dæmis kvöldið áður, eða um morguninn áður en ég lagði af stað. Er það ekki kamelljónið sem breytir um lit eftir umhverfinu? Ætli það sé ekki mögulegt að fólk breyti um hluta af eiginleikum sínum með tilliti til þeirra staða þar sem það er statt. Ég kem til með að duga til vinnunnar minnar í Vornesi á morgun eins og flesta daga þar á mörgum liðnum árum.
 
Annars veit ég ekki hvers vegna í ósköpunum ég fór inn á bloggið og valdi "Að skrifa" og byrjaði svo að skrifa. Mér væri nær að fara að leggja mig og vakna svo betur úthvíldur í fyrramálið. En þar sem ég nú skrifa þetta er Óli kominn í nágrennið, jafnvel inn í herbergið til mín, og þá er erfitt að standast hann. Það er ýmislegt sem er erfitt að standast. Til dæmis þegar Hannes kom til mín út á Bjarg í dag, tók í hendina á mér og sagði, "afi komdu". Svo fylgdumst við að inn haldandi hönd í hönd og svo leiddi hann mig að borði þar sem hann var að setja saman lest úr legókubbunum sem hann fékk í dag. Það er langt síðan, en í dag hef ég byggt úr legókubbum. Samt kláraði ég það sem ég ætlaði mér að gera út á Bjargi.
 
Út á Bjargi var ég að undirbúa baðgólfið fyrir flotun. Það er von á að fólk gisti á Bjargi í sumar og þá er best að það hafi baðið til afnota. Ekki neita ég því heldur að það er alltaf gaman að ljúka áfanga. Rósa lauk líka áfanga í dag. Hún tók inn þann rabbarbara sem sem hefur vaxið í sumar á hnausunum sem ég keypti í fyrra. Svo sauð hún sultu Þar sem ég nú sit hér inni í herberginu mínu og blogga, þá sitja Rósa og Pétur frammi í eldhúsi og vinna á sínar tölvur. Það er algerlega hljótt og ég tel mig vita að það fari vel um okkur öll.
 
Þar með ætla ég að láta skynsemina ráða, leggja mig og láta kyrrðina umvefja mig.

Hannes Guðjón á Sólvöllum

 
Sumarið 2011 var hann Hannes Guðjón nafni minn hér í heimsókn, aðeins tæplega tveggja ára gamall. Þá var hann mikill áhugamaður um allt sem hrærðist á jörðu niðri og maurarnir sem voru á fullu í slóðinni sem við gengum út í skógi tóku hug hans sterkum tökum. Ég er ekki viss um hvor okkar ókyrrðist meira þegar maurarnir tóku að skríða upp eftir fótum okkar en það kom ekki í veg fyrir að það væru farnar fleiri athugunarferðir.
 
Þegar Hannes hins vegar var tæplega eins árs gamall hreinsuðum við steina úr sári sem kom þegar skurðgrafa hafði grafið fyrir nýjum rafmagnskapli heim á Sólvelli. Þá kom jarðfræðingurinn upp í honum. Hann tók gjarnan steinana sem ég tíndi upp í fötu, skoðaði þá á allar síður, sýndi mér, ræddi um þá og talaði mikið sem ég skildi kannski ekki alveg, en það var á hans heimspekimáli sem hann ræddi þessa hluti. Svo henti hann steinunum aftur á jörðina og tók svo til athugunar næsta stein úr fötunni. Hann flýtti ekki fyrir mér en einlægum áhuga hans var erfitt að vísa á bug.
 
Í gær, þremur árum síðar, kom Hannes Guðjón með fjölskyldu sinni til að eiga sumarfrísdaga hjá afa sínum og nafna hér á Sólvöllum. Það er ekki svo langt síðan við hittumst en samt vildi hann vera í faðmi mömmu áður en hann heilsaði mér. Svo gekk hann til mín þar sem ég sat á hækjum mér, hallaði sér upp að mér, og síðan hljóp hann að leikturninum sínum og kleif upp í hann.
 
Það liggur klifurbraut upp í turninn frá annarri hlið og þar fór hann fyrst upp. Síðan renndi hann sér niður rennibrautina en þótti síðan meiri áskorun í því að fara upp hála rennibrautina aftur í staðinn fyrir klifurbrautina. Það gat hann ekki gert á skónum sínum þannig að hann klæddi sig úr þeim, síðan úr sokkunum, setti sokkana snyrtilega í skóna og lagðí þá til hliðar eins og sjá má. Það var engin spurning að sokkarnir skyldu niður í skóna og að gengið væri frá skónum. Afi var hrifinn af þessari röð og reglu á hlutunum.
 
Uppi í turninum höfðu verið geymd tól og tæki. Eftir nokkrar ferðir upp rennibrautina renndi hann þessum tækjum sínum niður hana. Sum þeirra þörfnuðust viðgerðar og hann tók til við það. Skórnir tóku jafnframt að þeytast til og frá en það kom ekki í veg fyrir að hann hafði gengið snyrtilega frá þeim í upphafi. Síðan urðum við svöng og það var borðaður kvöldmatur. Á eftir borðaði Hannes pönnukökur hjá afa.
 
Eftir erilsaman dag verða duglegir menn óhreinir. Þarna var kominn svefngalsi í Hannes og hann ætlaði að fela sig fyrir myndavélinni en tókst ekki. Nokkru síðar var hann sofnaður.
 
Ég vistaði þessar myndir inn á bloggið í gærkvöldi, all nokkru eftir að Hannes sofnaði, en þá var orðið áliðið og ég alveg óskaplega syfjaður. Ég bara gat ekki skrifað texta við þær svo að ég ákvað að byrja morguninn snemma og skrifa þá. Þetta snemma svaf ég dyggilega af mér og þegar ég var svo að skrifa texta við fyrstu myndina heyrði ég kallað frammi: Hvar er afi! Þá var klukkan orðin níu og afi nýlega vaknaður. Standið á honum afa að sofa svona lengi. Engin fyrirmynd í háttarlagi hans.
 
En nú er mál fyrir hafragraut með banana, rúsínum og apríkósum og hvönn frá Hrísey. Það er mikið gott samsull en svoleiðis vill Hannes ekki borða með mér en mamma hans gerir það í staðinn. Líklega sleppir hún þó hvönninni frá Hrísey en það er aldrei að vita. Grautargerðin hefur alltaf verið mín sérgrein og nú er mál að taka til starfa.
 

Að lifa lífinu og dreyma græna drauma

Það var spurning í morgun hvort ég hálf skammaðist mín. Það var orðið vel áliðið í gærkvöldi þegar ég var að monta mig af því á blogginu mínu hvað ég væri búinn að koma miklu í verk. Svo ætlaði ég aldrei að komast af stað þennan blíðviðrisdag sem nú er hálfnaður en samt biðu mín ótal verkefni. Og þegar ég hugsaði ótal verkefni komst ég að þeirri frábæru niðurstöðu að búa til lista yfir verkefni nánustu framtíðar hér á Sólvöllum. Að skrifa niður í belg og biðu að byrja með og ganga svo í það síðar að raða niður i forgangsröð.
 
Svo sneri ég mér að því að ganga frá ýmsu hér innanhúss, hengja út ullarfeldina mína og enn eina þvottavél líka, taka mat út úr frysti handa fólkinu sem ætlar að koma til mín í dag og svo framvegis. Ekkert gerði ég af dugnaði heldur dundaði ég við þetta. Svo þegar ég var búinn að hengja út á snúruna tóku tær mínar stefnu út í skóg og hinn hlutinn af mér fylgdi á eftir. Ég staldraði við á mörgum stöðum, horfði upp eftir trjám, sá að sums staðar þurftu ákveðin tré að víkja fyrir öðrum og sums staðar var ég ekki viss um það hver ætti að víkja fyrir hverjum.
 
Svo allt í einu var eins og ég kæmi heim aftur eftir fjarveru. Draumar mínir þarna í öllu græna hafinu höfðu numið mig á braut og þar virtist ég hafa dvalið um stund. Svo þegar ég var kominn til baka aftur þótti mér sem grænir draumar væru einungis mikið góðir draumar. Ég þurfti ekki að hafa áhyggjur af skuldbréfaeign minni þar sem ég á engin, ég þurfti ekki að hafa áhyggjur af óreiðu af neinu tagi, ég var ekki í ósætti við nokkra manneskju, ég kveið ekki fyrir morgundeginum og hafði ekki samviskubit vegna gærdagsins. Því var bara svo gott að dreyma græna drauma og svífa um á vængjum þeirra, bara vera til um stund og lifa á stund augnabliksins eins og okkur raunar öllum ber að ástunda sem mest.
 
Bara ef lífið almennt væri svo einfalt. Þeir sem hafa áhyggjur af skuldabréfaeign sinni, þeir sem eru í ósátt við náungann eða nágrannaþjóðina, berjast við að ná undir sig sem mestu af hráefnum heimsins því að þeir þurfa að græða meira, þeir sem hafa áhyggjur af morgundeginum og eru bitrir út í gærdaginn og sérstaklega þeir sem eru dauðhræddir við lífið og tilveruna, þeir berast á banaspjótum og fella mann og annan. Þess vegna eru til stríð. Í grænu draumunum mínum úti í Sólvallaskóginum í morgun var ekkert af þessu fyrir hendi og þar fundust engin stríð. Hins vegar er von á gestum og hann nafni minn hefur kíkinn sinn með sér þar sem hann ætlar að sjá og rannsaka öll dýr sem hrærast kringum Sólvelli.
 
Áðan settist ég niður við tölvuna til að skrifa niður tvo minnispunkta fyrir hugsanlegt blogg seinna í dag. En svo hófust nýir draumar. Nú dreymdi mig að ég væri heimspekingur og að orð mín væru svo mikilvæg að ég mætti ekki hætta að skrifa fyrr en ég væri búinn að bjarga heiminum. Nú er ég vaknaður aftur og listinn sem ég talaði um áðan þarf að verða til. Ef eitthvað truflar mig eru það verkefnin sem ég hef ekki alveg reiður á. Þegar ég verð búinn að skipuleggja þau get ég látið mig dryma græna drauma eða látið mig dreyma við að sjá orðin fæðast á skjánum fyrir framan mig. Samtímis get ég litið út í ferskan skóginn sem bærist undur mjúklega í hægum sumarandvaranum. Það byggist í fyrsta lagi á sjálfum mér hversu vel ég get lifað lífinu, það er að segja svo lengi sem mér er úthlutað góðri heilsu.
 
Fólkið sem er að koma til mín er farið af stað frá Stokkhólmi og ég er þegar búinn að fá símsenda mynd af honum nafna mínum um borð í lestinni. Fólk hefur alltaf vikið góðu að mér, finnst mér alla vega á þessu augnabliki. Og nú undanfarið hefur fólk vikið ennþá meira góðu að mér. Ég á góða að og ég á alveg dásamlega vini. Það stóð einu sinni á deginum mínum í afmælisdagabók að ég ætti fáa vini en góða. Mér fannst löngum sem þessi orð væru ótrúlega sönn. Nú held ég að þau séu sannari en nokkru sinni fyrr. Mér þykir mikið vænt um fólk.
 
Nú þarf ég að undirbúa gestakomu.

Gusugangur

Þegar það var aðeins farið að bregða birtu mundi ég eftir því að ég ætlaði að gefa broddgeltinum eggjarauðu. Ég tók fram egg, braut og losaði á undirskál. Svo saug ég rauðuna upp í plastflösku, lagði flöskuna til hliðar og tók undirskálina til að losa hvítuna í vaskinn. En hvítan vildi ekki vera svo lengi á undirskálinni og fór í löngum boga út á eldhúsbekkinn. Fyrst dró ég það mesta í vaskinn með hendinni. Þá tók ég borðtusku, setti undir kranann og bleytti. Svo þegar ég ætlaði að vinda hana jós ég stórri vatnsgusu í annan boga út á eldhúsbekkinn. Með rósemi tókst mér þó koma þessu í lag og eggjarauðunni kom ég út í von um að broddi njóti hennar.
 
En þessu gat ég tekið með æðruleysi þar sem margt annað hefur gengið vel hjá mér í dag. Til dæmis það sem sést á myndinni fyrir neðan.
 
Við keyptum sams konar vegghengt klósett fyrir íbúðarhúsið árið 2006 og það sem sést á myndinni. Það kom í þremur pakkningum og var nokkurn veginn samansett og tilbúið til uppsetningar. Þetta klósett sem ég keypti á Bjarg kom í einum stórum kassa og í þeim kassa voru margar pakkningar og það var beinlínis óskiljanlegt hversu margir hlutir ultu út úr þessum pakkningum. Það var varla byrjað að setja það saman. Svo fylgdi teikning og hún var með öllu óskiljanleg. Mér féllust hendur og það drógst á langinn að ég fengi í mig kraft til að byrja.
 
Svo herti ég mig upp hér um daginn og tók einn hlutinn af öðrum í hendurnar og reyndi að komast að samkomulagi við teikninguna. Það gekk ekki. Þá reyndi ég að bera hlutina hvern við annan og þá allt í einu komst ég af stað. Svo tók þetta alls ekki svo langan tíma og nú er burðargrindin komin upp á vegg og frárennslið tengt. Þegar ég horfi á myndina get ég varla trúað því hvernig þetta leit út þegar ég tók það úr pakkningunum í upphafi.
 
 
Og inni á baðinu sjálfu er allt tilbúið til að sparsla og ganga frá veggnum. Svo má píparinn koma og vinna sitt verk. Ég hefði hins vegar alls ekki tímt að borga honum fyrir það sem ég er búinn að gera. Hann sagðist heldur ekki botna neitt í neinu þegar ég sýndi honum þetta um daginn, stuttu fyrir Íslandsferðina.
 
 
En meðan ég lauk við að setja saman og setja upp burðargrindina fyrir klósettið suðu svið inni í eldhúsi. Þegar ég var tilbúinn út á Bjargi voru sviðin líka fullsoðin. Svo bar ég matinn út í kvöldsólina og borðaði í ró og næði. Hefði einhver Svíi komið til mín meðan máltíðin stóð yfir, þá hefði sá hinn sami kastað upp geri ég frekar ráð fyrir. Ég reyndar skil það alveg. Maður verður örugglega að alast upp við sviðaát til að geta látið þau inn fyrir sínar varir.
 
 
Þetta hafði ég fyrir augunum meðan ég borðaði kvöldmatinn. Ekki sem verst þó að ég væri einn.
 
Ég held að ég hafi stór gott af hvannaafurðunum sem ég fékk hjá honum Bjarna Thór í Hrísey um daginn. Ég er ánægður með það sem ég hef komist yfir í dag. Ég er líka búinn að þvo, þurrka og strauja fernar buxur og þrjár skyrtur. Þar að auki er ég búinn að fara í innkaupaferð því að það koma gestir á morgun og sitthvað fleira hef ég komist yfir. Í morgun hefði mér ekki dottið í hug að þetta kláraðist. Já, ég hef nú trú á hvönninni.
 
Og í morgun horfði ég á sjónvarpsmessuna. Mér fannst hún Moni prestur kannski alveg eins góð og síðasta sunnudag. En ég sá nokkuð í messunni sem fangaði huga minn. Maður einn sat undir svo sem átta ára syni sínum í kirkjunni og þarna sungu þeir feðgar saman, innilega og af lífi og sál. Þannig var það ekki þegar ég fór með foreldrum mínum í kirkju á Kálfafelli fyrir meira en hálfri öld. Þannig var það heldur ekki þegar ég fór með mínum börnum í kirkju í Hrísey fyrir fjörutíu árum eða svo. Ég verð nú samt að segja að ég hefði svo gjarnan viljað að það hefði verið þannig. Það er frábær samvera hjá fjölskyldu þegar fólk getur gert þetta. Ég hef grun um að þetta muni hjálpa feðgunum oft á lífsleiðinni í samskiptum sína á milli.
RSS 2.0