Athafnir

Hér eru þrjár myndir frá því í fyrradag sem eru tileinkaðar Hannesi Guðjóni. Hér er mikil kallauppstilling. Þetta reyndar er ekki uppstilling, þetta var bara tilviljun, en konan á bænum er ekki með í þessum hópi. Hún er á bakvið myndavélina. Ég hef sagt það áður að það er minna tekið af myndum af henni en af köllunum sem hér eru eða fara hér um. Hannes er auðvitað kalla megin og hann hélt sig mikið í námunda við Anders smið þennan dag. Þarna höfum við tekið eitthvað andartaks hlé og Hannes tekur þátt í því, enda var hann að vinna með okkur.
 
Hér er eins og það sé mikil ferð á mönnum. Hannes er nálægt Anders og væntir líklega einhvers verkefnis hjá honum. Alla vega bendir svipurinn til þess að hann vænti einhvers.
 
En hér er Hannes kominn til afa síns og nafna og nú er minn maður i gangi með skófluna sína og mokar jarðvegi að papparörinu sem stuttu síðar var steypt í. Þessar myndir verða að duga að þessu sinni, en það er líka til góð mynd af því þar sem Hannes er að stinga steypustyrktarjárni ofan í steypuna í einu rörinu. Það þótti honum mikið gaman.
 
 
*          *          *
 
 
Ég var að tala um það hér um daginn að setja sökkul undir gamla húsið. Hér er einn áfangi í þeirri þróun og þarna er ég búinn að einangra undir húsið og einnig á jörðina kringum það. Það á ekki að verða greið leið fyrir frost að komast undir þetta hús. Ekki heldur fyrir hita þegar hver hlýi sumardagurinn rekur annan. Að hafa þá svalt undir húsinu jafnar hitann í því og gerir næturnar svo notalegar.
 
Hér er ég svo búinn að klæða sökkulinn og endanlegt útlit er komið. Um helgina fer ég að vinna í Vornesi og þá ætla Rósa og Pétur að jafna þetta svæði með möl. Þau byrjuðu á því í dag þegar ég var hættur að liggja á jörðinni við húsið. Í næstu viku kemur svo Anders og hann ætlar að byggja verönd á steypustöplana, en við hér köllum þá plinta. Þá hverfur það sem ég hef verið að gera en þessi staður við húsið var góður fyrir mig að æfa mig á áður en ég fer í sökklana sem verða mest áberandi.
 
 
*          *          *
 
 
 
Vissulega á ég mér aðra drauma en að hamast stanslaust eins og ungt fólk sem er að byggja sitt fyrsta hús. Sænsku Dalirnir eru alltaf nærri hjarta mínu. Ef allt hefði gengið að óskum ætluðum við Valdís að heimsækja Dalina í sumar. Sú áætlun gengur ekki eftir enda er ég ekki viss um að við höfum í raun trúað á það heldur, en ég hugsa mér að fara samt -einhvern tíma þegar haustlitirnir verða búnir að taka völdin. Ég fann á netinu þessa mynd frá Rättvik við vatnið Siljan. Þarna er minnst sagt afar fallegt og þar sem við byrjuðum Svíþjóðarveru okkar upp í Dölum, finnst mér gjarnan sem þetta svæði eigi mikið tilkall til mín og ég til þess. Þegar ég er að vinna eitthvað sem höfðar ekki til þess besta í mér get ég oft dreift huganum inn í draumalandið og minnst þess að í haust heimsæki ég Dalina. Umræðu um aðrar ferðir slæ ég á frest að sinni.


Kommentarer
Björkin.

Held bara að sá ingsti hafi mestann áhugan á fræmkvæmdinni.Miðað við andlitssvipinn.Frábær og sætur.Þið náttúrlega líka hahahah.Dalirnir heilla,fastir í huganum síðan við fórum þangað.Knússs til ykkar. Hér er þoka sést rétt á milli húsa.

Svar: Já, hann hefur mikinn áhuga og vill endilega fá að gera eitthvað eins og þeir sem stærri eru.
Gudjon

2013-07-26 @ 12:45:56


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0