Liðin tíð, fyrsti hluti

Ég hafði ekki bloggað lengi en í gær skrifadi ég nokkrar línur um liðna tíð. Þessar nokkrar línur vöktu upp ótrúlega margar minningar til viðbótar, minningar sem lengi hafa hvílt í kyrrð undir slæðunni sem verndar okkur frá því að hafa allt of margt uppi í einu. En svo kemur eitthvad upp í umræðunni, í fréttunum, eitthvad sem ég aðhefst, eitthvad sem vekur upp eina minningu sem vekur upp aðra minningu. Sólargeislar varpa skugga og minna á sólargeisla fyrir mörgum áratugum. Fugl flýgur hjá og minnir á fugl sem flaug af hreiðri á bernskuárunum þegar fugahreiður voru svo ótrúlega forvitnileg og spennandi. Slæðan opnast tímabundið og sleppir minningunum fram
 
Atburðarásin í gær var einmitt af slíkum toga og heil fljót minninga leystust úr læðingi. Árið var 1995. Svartnesi hafði verið lokað og við Valdís stóðum á vegamótum og nýjar ákvarðanir varð að taka. Ég tók mína ákvörðun býsna snemma og í eigin heimi og þegar Valdís spurði hvort við flyttum ekki til baka eins og flestir Íslendinganna gerðu, þá brást ég mjög ákveðið við og taldi það af og frá. Eftir á að hyggja svaradi ég spurningu hennar of ákveðið og án samstarfsvilja. En svo varð það; vid fluttum ekki til baka. Síðar þegar fólk hittist og þessi mál bar á góma, þá svaraði Valdís því til að það hefði ekki verið nein lausn að flýja til baka með skottið á milli fótanna. Hún tók sig til og byrjaði að læra sænsku af meiri alvöru en fyrr og komst inn á sænskan vinnumarkað. Nýr áfangi í lífi hennar hófst.
 
Í mánuði áður en Svartnesi var lokað var vitað hvað mundi ske. Ég hafði verið hlaðinn þungum áhyggjum vegna framtíðarinnar, Valdís einnig, en daginn sem því var lokað þá tók ég mína ákvörðun, algerlega upp á eigin spýtur; ég skyldi berjast áfram. Síðan beið ég eftir að heyra hvað Valdís hugsaði. Við vorum hér í þessu landi og þetta med Svartnes hafði bara verið aðgöngumiðinn að einhverju nýju. Þegar ég hafði tekið mína ákvörðun voru allar áhyggjur mínar að baki. Valdís hafði sínar áhyggjur nokkuð lengur og þar hefði ég getað brugðist öðru vísi við og stutt hana betur. Ég er viss um það í dag að árið 1995 var ég ekki í stakk búinn til að taka öðruvísi á því en ég gerði.
 
Sumarið 1995 vorum við frjáls eins og fuglinn alveg frá miðjum júní og fram á haust. Þó fylgdumst við með einni íslensku fjölskyldunni af annarri flytja frá Svärdsjö og Falun. Sá þáttur var að dapurlegur og það mesta við lokun Svartnes var dapurlegt -mjög sorglegt. Litli notalegi, friðsæli og fallegi bærinn Svärdsjö varð þrúgandi. Því ákváðum við að flytja til Falun. Átján mánuðurnir sem við bjuggum í Falun voru einhverjir bestu eða þeir bestu í ífi okkar, jafnvel þó að ég ynni í Vornesi í 240 kílómetra fjarlægð hluta af þeim tíma.
 
Að flytja frá Falun í ársbyrjun 1997 var sársaukafullt og enn í dag, átján árum seinna, eru Dalirnir mér perla í tilverunni og Svärdsjö hefur aftur orðið litli notalegi, friðsæli og fallegi bærinn sem hann var áður en endalokin sóttu Svartnes heim.
 
  Frá Svartnesi

Húsin í Sörmlandsskógunum

Í morgun um níu leytið sat ég efst uppi í aðal byggingunni í Vornesi og skrifaði inn tvö stutt samtöl sem ég hafði haft kvöldið innan. Þegar því var lokið hafði ég lokið vinnu sem byrjaði fyrir hádegi daginn áður. Ég horfði út um glugga sem snýr mót vestri þó að mér finnist endilega að sá gluggi snúi móti austri. Þrátt fyrir að hafa reynt í "fjölda ára" hef ég aldrei getað breytt þessari áttavilliu  í kollinum á mér. Þegar ég hugsaði þetta "í fjölda ára", þá upplifði ég fyrstu ferð mína til Vornes og skrifaði um það á sænsku.
 
Það var sunnudagssíðdegi í desember 1995 sem ég kom í fyrsta skipti til Vornes til að vera þar í viku. Þá bjuggum við Valdís í Falun. Það var myrkur og það var kalt og ég fann fyrir býsna miklu óöryggi. Danska konan Jette Knudsen sem þá vann í Vornesi og vann einmitt þessa helgi, hún útbjó tvær brauðsneiðar og hitaði kaffi og bauð mér upp á þessar veitingar. Þetta varpaði hlýju á fyrstu komu mína til Vornes.
 
Það var myrkur þá og það var kalt, en í dag var sólríkur vordagur. Ég horfði í morgun út um gluggann móti vestri og í norðvestri hvíldi snjóflekkur undir skógarjaðri. Hugsanir komu og fóru og ég fann fyrir sterkum trega. Ég mundi fljótlega halda heim á leið en fyrst ætlaði ég að taka þátt í morgunkaffi með öðru starfsfólki. Danska konan Jette útbjó ekki brauðsneiðarnar með þessu morgunkaffi en ég minntist hlýlegrar móttöku hennar fyrrgreindan sunnudag fyrir nítján árum og þremur mánuðum. Þetta minni kemur oft upp enda var það mikilvægur áfangi á vegi mínum.
 
Þessi staður, Vornes, hefur verið vinnustaður minn og skapaði okkur Valdísi afkomu til fjölda ára, hefur verið mikilvægasti skóli lífs míns, hefur gert mér kleift að kynnast ótrúlega mörgum manngerðum sem ég minnist með hlýhug, gleði og líka með sorg. Vornes hefur oft verið í umræðunni af minni hálfu og satt best að segja ekki að ástæðulausu.
 
Alveg er merkilegt hvað þessi sólríki morgun og snjóskafl við skógarjaðar kallaði fram margar minningar og vakti upp sterkan trega til hins liðna.
 
 
Í morgun sat ég við glugga sem ekki sést á safninum á hæstu byggingunni, stafninum til hægri, sem einmitt vísar móti vestri en mér finnst alltaf móti austri. Eftir að þessi mynd var tekin hafa verið settar nýjar þakpönnur á þökin og allir gluggar eru nýir. Það hefur verið gert mjög vel við þessi mikilvægu hús í Sörmlandsskógunum utan við Vingåker eftir að ég kom þangað í fyrsta skipti í desember 1995.

Þegar helgin lendir í miðri viku

Stundum lendir helgin í miðri viku og hefur gert lengi á mínu heimili. Vinna hefur valdið því. Núna byrjaði helgin á miðvikudagskvöldið um miðnætti. Þá kom Susanne með lest frá Västerås. Síðan á hún að vinna um helgina, svo sleitulaust að mér finnst erfitt bara að hugsa um það. Helgin endaði svo í dag klukkan 13,29 þegar hún tók lestina frá Kumla til Västerås. Núna á föstudagskvöldi finnst mér sem hin raunverulega helgi sé á enda og það sé kominn mánudagur.
 
Ég var alveg viss um að lestin færi frá Kumla klukkan 13,39 þannig að við vorum virkilega á síðustu mínútunni. Susanne ók bílnum. Jafnvel þó að ég sé með typpið þykir mér hversu þægilegt sem helst að láta hana sitja undir stýri. Hún er líka afar öruggur bílstjóri. Trúlega var það líka svo að ef það hefði ekki verið býsna ákveðin kona sem sat undir stýri, þá hefði hún hugsanelga misst af lestinni.
 

Þegar hún gekk inn í lestina sneri ég mér snarlega við og hugsaði mér að ganga svolítið frá til að sjá betur hvar hún sæti. Ég gekk ákvðnum skrefum, sló enninu af krafti í hornið á hörðum, svörtum plastkassa sem var fastur á staur, gleraugun flugu af mér og mér fannst sem blóðið flæddi og ég varð ringlaður eitt augnablik. Áður en ég plokkaði upp gleraugun lagði ég lófann á ennið til að athuga. Það rann ekkert blóð lengra en út í kúluna sem myndaðist hratt ofan við vinstra auga. Svo tók ég upp gleraugun og setti þau á nefið.

 

Síðan leitaði ég eftir Susanne og sá að lokum hvar hún sat og veifaði mér. Ég veifaði til baka og lét sem ekkert væri. Karlmaður kvartar ekki jafnvel þótt kúla sé að fæðast á enninu, kúla sem innan skamms verður blá. Lestin leið hljóðlega af stað og ég gekk af stað með hraði til að finna eitthvað kalt í bílnum til að halda við ennið á leiðinni heim. Ég ætlaði að minnka eins og hægt væri glóðaraugað sem ég mundi líklega fá nú í nótt.

 

Ég hafði ákveðið hérna um daginn hvaða mat ég ætlaði að hafa í aðal máltíðina um þessa mittívikunni helgi. Það var leyndarmál, Súsanne skyldi ekkert fá að vita fyrr en hún bara kæmi að tilbúnu borði með þægilega ilmandi lambakótilettum. Ég vildi matreiða kótiletturnar eins og þær hafa verið framreiddar á Íslandi í marga áratugi, kannski í heila öld eða meira. Þetta átti að verða spennandi. Það átti að verða skemmtilegt að sjá Susanne þegar hún berði augum þennan ókunnuga kjötrétt hjá Sólvallakallinum.


Ég var ekki svo viss um hvernig ég ætti að ganga til vega þannig að ég spurði á Feisbókinni hvernig steikja ætti lambakótilettur í raspi á hefðbundinn íslenskan hátt. Margar reyndar íslenskar húsmæður í áratugi svöruðu spurningunni og ég fékk mörg góð ráð. Helst vil ég smám saman prufa öll ráðin sem mér voru gefin. Varðandi leyndarmálið þá gat ég ekki haldið aftur af mér. Ég uppljóstraði það fyrir Susanne.

 

 
Má ég hjálpa þér, spurði hún, getum við gert þetta saman? Já já, víst gátum við gert það. Síðan matreiddum við lambakótilettur á gamlan, íslenskan hefðbundinn hátt. Raspið gerðum við úr hrökkbrauði því að mér finnst sænska raspið allt of fínt.
 
 
 
Ég veit að ég þarf ekki að sýna Íslendingum hvernig tilbúnar lambakótilettur steiktar í raspi líta út. Ætli það sé ekki bara mont að ég birti þessa mynd á íslenska blogginu. Ég notaði hana á sænska blogginu mínu fyrr í dag og það var svolítið annað mál. Ég keypti þessar kótilettur á matvörumarkaði í Kungsgatan í Örebro. Í dag pantaði ég svo fimm kílóa pakningu af íslenskum lambakótilettum hjá honum Guðbirni kaupmanni í Varberg sem kemur á frystibílnum sínum til Örebro um aðra helgi. Hann skal skila frystum íslenskum vörum ásamt páskaeggjum og fleira sælgæti til sælkera í léninu. Þá fæ ég líka kílóið 61 SKR ódýrara en kótiletturnar sem ég keypti á matvörumarkaðinum. En góðar voru þær samt, þar vil ég vera heiðarlegur og segja rétt frá
 
 
Aðal máltíðin um mittívikan helgina varð tilbúin að lokum, borin fram með grænum baunum og rauðkláli og með fituna útá, þá sem féll til við steikina í ofninum. Ég held að ég hafi þar með fylgt af nákvæmni gömlu, íslensku hefðinni.
 
Hættu nú að taka myndir, sagði Susanne, ertu virkilega ekki búinn að fá nóg af því að taka myndir? Þessi máltíð var reglulega góð, samvinnan við eldhúsbekkinn gekk vel og að borða saman var skemmtilegt. Mér hafði tekist að kaupa DVD disk með myndinni Jólaóratórían eftir Göran Tunström. Að horfa á Jólaóratórian var góður eftirréttur ásamt kaffibolla og suðusúkkulaðibita frá honum Guðbirni í Varberg. Við þurfum ekki langt til að gera dagana góða.
 
Vermlendingurinn Göran Tunström skrifaði meðal annars bók sem á sænsku heitir Skimmer. Sú saga gerist á Íslandi og hefur væntanlega verið þýdd á íslensku. Ég las hana á sænsku fyrir mörgum árum og líkaði vel eins og annað sem þessi rithöfundur skrifaði.
 
 
Kúlan á enninu hefur ekki orðið blá og eftir að ég kældi hana niður með GPS tækinu sem lá í bílnum, þá hefur hún dregist saman. Ég fæ líklega ekkert glóðarauga. Undir kvöldið grisjaði ég í skóginum og klippti til litlar eikur.
RSS 2.0