Áfanginn mikli

Áfanginn mikli
Það var fyrir tveimur árum og tveimur mánuðum, eða í janúar 2006, sem við Valdís fórum út í Sólvallaskóginn í snjó og verulegu frosti, íklædd margföldum vetrarfötum, með keðjusög og byrjuðum að fella stór grenitré í tvær viðbyggingar við litla Sólvallahúsið. Gamla Sólvallahúsið er 40 fermetrar en viðbyggingarnar samanlagt eru 33 fermetrar. Önnur þessi viðbygging var þverbygging á gamla húsið og hin var lenging. Í þverbyggingunni skyldi verða baðherbergi og forstofa en í lengingunni stórt svefnherbergi. Nú, sem sagt tveimur árum og tveimur mánuðum síðar, kláraðist baðherbergið og forstofan. Hvílíkur áfangi! Á myndinni er þrjátíu ára gömul dúkka látin sitja á klósettinu þar sem við Valdís vorum ekki tilbúin til að láta taka af okkur mynd á klósettinu. Rörin eru að vísu ómáluð eins og sjá má en það verður dundverkefni næstu viku að fullklára það.

Suðvestanvert í Örebro er gríðarmikið verslunarhverfi sem heitir Marieberg. Þar er byggingarvöruverslunarkeðjan Bauhaus að byggja mikið verslunarhúsnæði. Við Valdís förum oft þar framhjá og höfum því fylgst vel með framkvæmdunum. Háir steinstólpar voru reistir með nokkru millibili og það var eins og fjöldi þessara steinstólpa mundi engin takmörk hafa. Húsið varð bara lengra og lengra. Að lokum virtist þó þessu stólpaverki lokið enda var ekki meira pláss á lóðinni, þeir voru bara komnir að næstu götu og ekkert meira með það. Þessi steinstólpabil voru 30 og við giskuðum á að hvert bil væri 5 metrar og þar af leiðandi væri húsið 150 metra langt. Eitt sinn um helgi þegar við áttum leið þarna framhjá ákvað ég að slá nú máli á eitt bilið og lagði því bílnum á tveggja sentimetra þykka járnplötu sem lá yfir skurð við húshliðina. Ég hafði tveggja metra tommustokkinn í hendinni og skálmaði að húsinu. Bíll sem kom á eftir okkur stoppaði fyrir aftan okkar bíl og undrandi maður fylgdist með gerðum mínum. Þarna komst ég að því að hvert bil var mun lengra en við höfðum reiknað með, eða 6,35 metrar. Húsið var því 190 metra langt og samkvæmt bilatölunni var það 82,5 metra breitt. Niðurstaðan er því að húsið er rúmlega 1,5 hektarar að stærð og ég giska á að það sé 10 m hátt. Ekki er ég hér að ímynda mér að þetta sé heimsins stærsta hús, langt í frá, en mikið svakalega er það mikið stærra en Sólvallabyggingarnar. Samt er það sem við höfum verið að gera á Sólvöllum svo mikið stærra í okkar huga en Bauhausbyggingin í Marieberg. Bauhausbyggingin er bara hjóm í þeim samanburði.

Í tilefni af að þessum áfanga var náð komu þau Rósa og Pétur í heimsókn og þau urðu fyrst til að gista á Sólvöllum með fullbúnu baðherbergi. Kamarferðunum er lokið. Kamarferð um miðja nótt í mismiklu frosti er engin skemmtiferð. Dádýr gelta, næsta ótrúlegt, og gelta með ennþá hvellara hljóði en hundar. Á nóttunni koma þau nær íbúðarhúsum og stundum mjög nærri. Mínar pissiferðir á nóttunni lágu ekki á kamarinn, heldur út í skóg. Ég fór þá á nærbuxunum og í stígvélum nr 46. Það er svo auðvelt að renna fótunum niður í þau. Getið þið ímyndað ykkur hvernig grútsyfjaður maður lítur út, pissandi út í skógi, ber niður að mitti, á stuttum nærbuxum og stígvélum nr 46? Kannski getið þið ímyndað ykkur það, en getið þið þá ímyndað ykkur hvernig hann lítur út þegar dádýr geltir á nokkurra metra færi og manninum verður svo skelfilega illt við að hann nánast hoppar upp úr stígvélunum? Þetta hefur margoft komið fyrir mig. Mér hefur líka orðið hressilega illt við þegar froskur hoppar rétt við fætur mér við sömu aðstæður. Framvegis mun ég njóta þess að fara á klósettið á nóttunni og losna þar með við að hálf togna á lærvöðvum í þessum skelfingarhoppum mínum. Og haldið þið að það verði ekki munur fyrir Valdísi að setjast á volgt klósettið í staðinn fyrir frosna kamarsetuna?

Að öllu gamni slepptu þá er þetta svo stór áfangi að ég verð nánast hrærður þegar ég núna skrifa um það. Það er ekki af ríkidæmi sem við búum í haginn fyrir okkur á Sólvöllum. Það er eigin vinna sem gerir okkur það kleift. Þá verður líka þakklætið meira og væntumþykjan innilegri.

Meira um Sólvelli og heimsókn Rósu og Péturs hér neðar og einhvern næstu daga kemur enn meira um okkar kæru Sólvelli.
GB

Eldiviður

Eldiviður
Það var ýmislegt að fást við á Sólvöllum undir heimsókn Rósu og Péturs. Nokkrum reyniviðartrjám var til dæmis rutt úr vegi, reyniviðartrjám sem stóðu í vegi fyrir verðandi stæðilegum eikum. Við tökum eikurnar framyfir reynivið og þessir bútar sem Rósa tínir í hjólbörurnar verða góður eldiviður eftir minst eitt og hálft ár. Svo fórum við lengra inn í skóginn og felldum alls konar tré þar sem var allt of þröngt á þingi. Binna systir Valdísar sendi systur sinni tvö páskaegg. Rósa og Pétur brutu þau og plokkuðu fram málshættina. Í öðru egginu hljóðaði málshátturinn svona: Ekki er svo fögur eik að hún fölni ekki um síðir, og í hinu egginu: Eigi fellur tré við fyrsta högg.
GB

Tiltekt

Tiltekt
Það er ekki nóg að fella tré, það verður að plokka saman hrísið líka. Föstudagurinn langi fór í smá dund á Sólvöllum og spjall og áætlanir. Í gær var svo mjög góður útivistardagur og Valdís sá um það inn á milli að enginn yrði svangur. Hún meira að segja bakaði pönnukökur.
GB

Aldeilis venjulegur dagur

Fimmtudagurinn 13. mars og það er alskýjað, fremur þungbúið, logn, þurrt og þriggja til fjögurra stiga hiti. Klukkan er rúmlega sjö og við erum að fara í sveitina. Sem sagt aldeilis venjulegur dagur fyrir utan það að í dag kemur pípulagningamaðurinn á Sólvelli. Ég hef verið hljóður um Sólvelli undanfarið og verð nokkra daga til viðbótar. Hér nokkuð sunnan við gluggann heima í Suðurbæjarenginu í Örebro sé ég runna sem er farinn að springa út. Hann er vanur að vera snemma á ferðinni þessi runni en að þessu sinni er hann alveg sérstaklega snemma á ferðinni.
Hafið góðan dag.
GB

Að vernda útsýnið

Að vernda útsýnið
Hér gefur að lita mikilvægan hluta af útsýninu á Sólvöllum. Á miðri mynd er svolítil opnun milli nágrannaskóga sem er mikilvægur gluggi að útsýninu til Kilsbergen. Næst á myndinni er gamalt tún sem er slegið einu sinni á sumri einungis til að halda túninu í hirðingu og koma í veg fyrir að það verði skógi vaxið. Heyrir undir nokkuð sem kallast opið landslag. Í miðju þessa túns, aðeins til hægri á myndinni, er grjóthaugur og í grjóthaugnum vex þyrping af reyniviði sem var farinn að byrgja fyrir útsýnið. Þessi reyniviður var varla sýnilegur þegar við keyptum Sólvelli fyrir fjórum árum. Við höfðum við samband við hjón í Örebro sem eiga þetta tún (sú eign er saga út af fyrir sig) og fengum leyfi til að fella reyniviðinn. Seint í fyrrahaust fórum við því á vetvang með sögina og felldum reyniviðinn og þá opnaðist útsýnið svo mikið að það varð stórbreyting. Þá kom auðvitað í ljós að nokkur birkitré sem uxu þétt saman og eru lengra frá höfðu líka stækkað helling á fjórum árum og voru hindrun í þessu útsýni. Við ákváðum því að tala við hann Arnold bónda sem á svæðið þar sem þessi birkitré eru og semja við hann um að fá að taka þau. Fyrir nokkrum vikum var Arnold að grisja í þéttum birkiskógi sem er þarna sjáanlegur hægra megin á myndinni. Ég rölti til hans og spurði hvort ég mætti ekki fella þessi birkitré til þess að halda við hinu fallega útsýni frá Sólvöllum. Arnold tók þessu gætilega eins og hann gerir alltaf. Við gengum á staðinn og þar gaf hann leyfi til að ég felldi trén og hann hirti þau svo með því sem hann var að grisja. Þá spurði ég hvort ég mætti ekki líka taka háa runnakennda þyrpingu sem var lengra niður á sléttunni en þar setti Arnold stopp. Hann hélt reyndar fyrst að ég væri að sníkja í eldinn en skildi síðar að svo var ekki. En svo dróst að ég felldi birkið. Í gær fór ég á Sólvelli til að smíða. Þegar ég fór framhjá býli Arnolds sá ég að hann var byrjaður að sækja viðinn inn í skóginn. Þar með breyttist smíðaáætlun dagsins í skógarhögg.

Meðan ég var að vinna við birkitrén kom Arnold til að eiga svolitla spjallstund. Við töluðum um skóg og skógarvinnu og um ýmsar trjátegundir. Þú, sagði Arnold rólega, hlúðu að eikunum í skóginum hjá þér. Það er ekki svo mikið af eikum hér í nágrenninu að það væri gaman að þú gæfir þeim kost á að verða að trjám. Þetta var nú við mitt hæfi, að maður eins og Arnold talaði um skóginn minn og eikurnar mínar. Mér fannst ég vera orðinn virkilegur skógarbóndi eins og Arnold og Mikki og væri með í umræðunni. Reyndar svona í laumi finnst okkur Valdísi að við séum smá skógarbændur.

Á lóðamörkunum á Sólvöllum er stór eik sem vitað er að er rétt um 100 ára gömul. Hún er því hálfgerð ungeik ennþá en þær verða gjarnan 400 ára og eldri. Í Sólvallaskóginum eru einar 12 eikur sem eru 5 til 15 metra háar og eru því ennþá meiri ungeikur. Um allan skóginn er svo urmull af minni eikarplöntum sem keppa við margar aðrar plöntutegundir um að ná sem best til sólarinnar. Jú, það er rétt hjá Arnold að það er mikið af eik á Sólvöllum. En þessi 12 tré sem eru 5 til 15 metra há voru hálf eða alveg kaffærð þegar við tókum við Sólvöllum og þá í fyrsta lagi af greni, ösp og reyniviði. Fyrstu tvö árin felldum við alveg óhemju mörg reyniviðartré til að frelsa eikur. Nú eru þær að launa fyrir þá aðgerð með sífellt stækkandi laufkrónum. Eitt sinn þegar Arnold kom til okkar í kaffi barst þetta með reyniviðinn í tal. Þá sagði Arnold að reyniviður væri bara bölvað skítatré. Það gekk alls ekki að fáu upp plöntur af reynivið sem stóð við gamla bæinn á Kálfafelli en hér kemur hann upp í mikið ríkari mæli en menn kæra sig um.

Eik, beyki, hlynur, lind og fleiri tré eru kölluð eðallauftré. Eik vex hægt en hlynur all hratt. Þar sem við Valdís erum á sjötugs aldri kaupum við stór tré ef við kaupum tré. Fyrsta sumarið á Sólvöllum keyptum við lind sem átti að verða dekurtré. Þegar við vorum búin að gróðursetja hana hugsuðum við sem svo að við fengjum ekki að sjá hana verða að stóru tré en hins vegar gætu barnabörnin okkar komið til Sólvalla á efri árum með barnabörnin sín til að sýna þeim þessa fallegu lind sem langalangamma þeirra og langalangafi hefðu gróðursett fyrir fjölda mörgum árum. En það tókst ekki vel til með þessa lind og hún hefur einhvern veginn orðið fyrir ýmsum áföllum og tíminn kemur til með að sýna hvort hún verður að virkilega fallegu eðallauftré.
GB
RSS 2.0