Áfanginn mikli

Áfanginn mikli
Það var fyrir tveimur árum og tveimur mánuðum, eða í janúar 2006, sem við Valdís fórum út í Sólvallaskóginn í snjó og verulegu frosti, íklædd margföldum vetrarfötum, með keðjusög og byrjuðum að fella stór grenitré í tvær viðbyggingar við litla Sólvallahúsið. Gamla Sólvallahúsið er 40 fermetrar en viðbyggingarnar samanlagt eru 33 fermetrar. Önnur þessi viðbygging var þverbygging á gamla húsið og hin var lenging. Í þverbyggingunni skyldi verða baðherbergi og forstofa en í lengingunni stórt svefnherbergi. Nú, sem sagt tveimur árum og tveimur mánuðum síðar, kláraðist baðherbergið og forstofan. Hvílíkur áfangi! Á myndinni er þrjátíu ára gömul dúkka látin sitja á klósettinu þar sem við Valdís vorum ekki tilbúin til að láta taka af okkur mynd á klósettinu. Rörin eru að vísu ómáluð eins og sjá má en það verður dundverkefni næstu viku að fullklára það.

Suðvestanvert í Örebro er gríðarmikið verslunarhverfi sem heitir Marieberg. Þar er byggingarvöruverslunarkeðjan Bauhaus að byggja mikið verslunarhúsnæði. Við Valdís förum oft þar framhjá og höfum því fylgst vel með framkvæmdunum. Háir steinstólpar voru reistir með nokkru millibili og það var eins og fjöldi þessara steinstólpa mundi engin takmörk hafa. Húsið varð bara lengra og lengra. Að lokum virtist þó þessu stólpaverki lokið enda var ekki meira pláss á lóðinni, þeir voru bara komnir að næstu götu og ekkert meira með það. Þessi steinstólpabil voru 30 og við giskuðum á að hvert bil væri 5 metrar og þar af leiðandi væri húsið 150 metra langt. Eitt sinn um helgi þegar við áttum leið þarna framhjá ákvað ég að slá nú máli á eitt bilið og lagði því bílnum á tveggja sentimetra þykka járnplötu sem lá yfir skurð við húshliðina. Ég hafði tveggja metra tommustokkinn í hendinni og skálmaði að húsinu. Bíll sem kom á eftir okkur stoppaði fyrir aftan okkar bíl og undrandi maður fylgdist með gerðum mínum. Þarna komst ég að því að hvert bil var mun lengra en við höfðum reiknað með, eða 6,35 metrar. Húsið var því 190 metra langt og samkvæmt bilatölunni var það 82,5 metra breitt. Niðurstaðan er því að húsið er rúmlega 1,5 hektarar að stærð og ég giska á að það sé 10 m hátt. Ekki er ég hér að ímynda mér að þetta sé heimsins stærsta hús, langt í frá, en mikið svakalega er það mikið stærra en Sólvallabyggingarnar. Samt er það sem við höfum verið að gera á Sólvöllum svo mikið stærra í okkar huga en Bauhausbyggingin í Marieberg. Bauhausbyggingin er bara hjóm í þeim samanburði.

Í tilefni af að þessum áfanga var náð komu þau Rósa og Pétur í heimsókn og þau urðu fyrst til að gista á Sólvöllum með fullbúnu baðherbergi. Kamarferðunum er lokið. Kamarferð um miðja nótt í mismiklu frosti er engin skemmtiferð. Dádýr gelta, næsta ótrúlegt, og gelta með ennþá hvellara hljóði en hundar. Á nóttunni koma þau nær íbúðarhúsum og stundum mjög nærri. Mínar pissiferðir á nóttunni lágu ekki á kamarinn, heldur út í skóg. Ég fór þá á nærbuxunum og í stígvélum nr 46. Það er svo auðvelt að renna fótunum niður í þau. Getið þið ímyndað ykkur hvernig grútsyfjaður maður lítur út, pissandi út í skógi, ber niður að mitti, á stuttum nærbuxum og stígvélum nr 46? Kannski getið þið ímyndað ykkur það, en getið þið þá ímyndað ykkur hvernig hann lítur út þegar dádýr geltir á nokkurra metra færi og manninum verður svo skelfilega illt við að hann nánast hoppar upp úr stígvélunum? Þetta hefur margoft komið fyrir mig. Mér hefur líka orðið hressilega illt við þegar froskur hoppar rétt við fætur mér við sömu aðstæður. Framvegis mun ég njóta þess að fara á klósettið á nóttunni og losna þar með við að hálf togna á lærvöðvum í þessum skelfingarhoppum mínum. Og haldið þið að það verði ekki munur fyrir Valdísi að setjast á volgt klósettið í staðinn fyrir frosna kamarsetuna?

Að öllu gamni slepptu þá er þetta svo stór áfangi að ég verð nánast hrærður þegar ég núna skrifa um það. Það er ekki af ríkidæmi sem við búum í haginn fyrir okkur á Sólvöllum. Það er eigin vinna sem gerir okkur það kleift. Þá verður líka þakklætið meira og væntumþykjan innilegri.

Meira um Sólvelli og heimsókn Rósu og Péturs hér neðar og einhvern næstu daga kemur enn meira um okkar kæru Sólvelli.
GB


Kommentarer
Rosa

Ef ég má velja þá vil ég frekar pissa í e-type en í bauhaus...

kveðja,

r

2008-03-23 @ 22:09:08
Guðjón

Auðvitað Rósa og hvað ég er sammála þér enda var ég eiginlega að gera lítið úr Bauhaus.
GB

2008-03-23 @ 22:24:01
URL: http://www.gudjon.blogg.net
Auja

Hæ hæ, til hamingju með þennan "lúxus" áfanga. Spennandi hvenær næsti klárast, verður það fyrir júlí-ágúst nk.
Hér hafa verið góðir páskar, ættingjar og vinir í heimsókn, borðað,drukkið,líkamsrækt,borðað og svo frv. Styttist í Skánarferðina okkar 23.apríl.
Njótið tímanna í "stugunni"

Kv Auja

2008-03-25 @ 11:11:39
Rósa J

Innilega til hamingju með þennan áfanga.
Nú bíðum við spennt eftir nýjasta fjölskyldumeðliminum sem er á áætlun eftir viku. Stóru systkinin eru þó orðin þreytt á að bíða og þegar við kúrðum saman í rúminu í morgun þá spurðu þau bæði:
"Mamma, geturðu ekki fengið hríðir í dag?"
En það kemur víst ekki eftir pöntun.

kveðja, Rósa.

2008-03-27 @ 10:34:31
Guðjón

Takk, takk bæði Rósa og Auja. Mér tókst ekki að svara fyrr þar sem bloggið far í fýlu og vildi ekki hlíða mér.

Kveðja, Guðjón

2008-03-28 @ 16:56:19
URL: http://www.gudjon.blogg.net
Anonym

test

2008-04-06 @ 17:50:08
Guðjón

Þetta er líka test

2008-04-06 @ 21:23:29
URL: http://www.gudjon.blogg.net
Brynja

Þetta er ekkert test, mikið lifandi skelfing er gaman að þið séuð komin með klósett.
Ég gat ekki annað en hlegið upphátt af lýsingum þínum Guðjón í allto fstór um gúmmístígvélum við þvaglát.
Til hamingju með klósettáfangann, ég hlakka mikið til að fá að nota þarfaþingið en meira hlakka ég þó til að hitta ykkur hjónin sem verður vonandi í sumar.

2008-05-04 @ 22:37:13
URL: http://brynjalilla.blogspot.com


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0