Leyndardómar vetrarnæturnar

Mitt síðasta blogg endaði á þessum orðum: "Þegar myrkt var orðið setti ég á mig ennislampann og hélt ótrauður áfram."
 
Það hefur ekki verið algengt gegnum árin að ég hafi verið með ljós út í skógi en víst hefur það komið fyrir. En allt í einu þegar ég var að flytja heim viðinn af 25 metra háu öspinni sem ég felldi um helgi fyrir stuttu, með gamla ennislampanum minn uppi, þá var ég mitt í og með í hinu svo eðlilega sofandi lífi skógarins. Friðurinn var fullkominn og vetrarnóttin var eins eðlileg á þessari stundu og vordagurinn er eðlilegur þegar skógurinn slær út í lauf. Þó að það væri sofið í skóginum voru þar engin svefnhljóð, það var meiri friður en svo. Mér fannst nánast sem ég væri samofinn hluti af þessu öllu. En hvað það var notalegt.
 
Ennisljósið mitt er gamalt, fremur dauft og lýsir aðeins stutta vegalengd, og það var einmitt þess vegna sem mér tókst að skynja þetta.
 
Stuttu eftir þetta kvöld mitt í skóginum vorum við Susanne á tónleikum í Katrinehólms kirkju. Það var gamalkunn hljómsveit frá Katrineholm sem lék og í fyrsta lagi írsk lög. Djákni, kona á miðjum aldri, hélt stutt ávarp áður en tónleikarnir byrjuðu. Þar sem lögin voru flest írsk talaði hún um Kelta og ævagömul viðhorf þeirra, til dæmis til náttúrunnar og að allt líf er samofið. Einmitt þegar hún talaði um þetta fannst mér sem hún talaði um upplifun mína í skóginum.
 
Við Susanne fórum í fjögurra vikna ferðalag upp í Norrlnad í fyrrasumar. Við eignuðumst þar margar fínar og eftirminnilegar upplifanir sem við erum ennþá að tala um. Upplifanirnar eru líka allt um kring hér heima, í skóginum, á veröndinni þegar morgunsólin vermir andlitið, eða þegar kvöldsólin setst sem í eldhafi yfir Kilsbergen. En ég þarf bara að taka eftir þessu þó að það sé heima hjá mér. Það kæmi mér ekki á óvart þó að við mannfólkið þurfum í framtíðinni, kannski náinni framtið, að venja okkur við að njóta af því sem er nær en af því sem er fjær. Það er engin svartsýni en kannski góður möguleiki til að lifa verðugu og góðu lífi.
 
Það eru áratugir síðan ég heyrði gert grín að manni sem bauð góðan daginn og kastaði kveðju á fólk í strætó í Reykjavík. Hann var sagður skrítinn og það var hlegið að þessu. Sé ég á gangi á götu í Örebro og mæti óvart augnaráði fólks heilsa ég oft. Kveðjunni er nánast alltaf tekið með gleði. En ég veit að ég er líka skrítinn.
 
Á laugardagssíðdegi fyrir stuttu kom ég í byggingarvöruverslunina K-RAUTA í Örebro til að leita að termóstati fyrir rafmagnsofna. Það var aðeins eina manneskju að sjá í þessari stóru verslun þegar ég leit inn og ég gekk að ungri konu við kassann og sagði henni erindi mitt. Já, sagði hún, hann Adam ætti að get hjálpað þér með þetta. Svo kallaði hún hátalara og bað Adam að koma að upplýsingadiski í miðri versluninni. Ég gekk þangað en ekki kom Adam. Konan við kassann veitti því athygli og kallaði aftur á Adam. Svo kom hann og spurði hvað hann gæti gert fyrir mig. Ég bar upp erindið.
 
Þau áttu það sameiginlegt Adam og unga konan að þau voru bæði sérstaklega vingjarnleg og hjálpleg og það gladdi mig. Ég sagði Adam það og hann virtist gleðjast yfir að heyra það. Þegar við Adam vorum búnir að gera það sem gera þurfti gekk ég aftur að kassanum og borgaði eitthvað sem ég hafði tekið. Síðan sagði ég konunni við kassan að það hefði verið svo ánægjulegt að koma og njóta vingjarnlegheitanna og hjálpseminnar sem ég hafði mætt hjá þeim. Hún virtist svolítið hissa en sagði svo; "en þú ert svo fínn líka". Svo vorum við öll glöð og ég hélt heim á leið til skógarjaðarins þar sem vetrarnóttin ríkir og var ánægður með búðarferðina mína.
 
Það er föstudagsmorgun og ég er einn heima. Ég sit með tölvuna við matarborðið og beint fyrir framan mig er gluggi og þar fyrir utan eru höfuðstöðvar fuglanna þar sem venjulega er af nógum mat að taka. Þeir koma og fara, þeir hlaupa stundum beint upp örmjóa toppa á sírenunum sem eru þar í vetrardvala. Þeir geta margt fuglarnir sem ég ekki get.
RSS 2.0