En ég vil vera hér

Það var liðið vel fram yfir hádegi í dag, sunnudag, og Rósa var úti og var að ljúka við að líta eftir verkfærum og leikföngum Hannesar. Hannes og pabbi hans voru hins vegar inni í herberginu þar sem þau búa þegar þau eru hér. Pabbi Pétur sagði við Hannes að þeir yrðu að ganga frá í herberginu því að þau færu bráðum heim. Þá sagði Hannes með mikilli áhreslu: En ég vil vera hér. Það var auðvitað notalegt fyrir mig að heyra þetta en ég vissi jafnframt að þegar þau væru komin heim, þá þætti Hannesi best að vera þar.
 
Vikan var búin að silast áfram hjá mér. Mér fannst sem ég væri að byrja að merkja það að ég væri að verða gamall, alla vega eldri. Eða var ég bara latur? Eða var ég bara að vorkenna mér? Ég vildi afsanna þetta allt saman og hélt áfram við mitt eftir bestu getu. Svo kom föstudagseftirmiðdegi og fjölskyldan frá Stokkhólmi var á leiðinni. Ég hélt niður til Hallsberg til að sækja þau á járnbrautarstöðina. Ég hlakkaði til að fá heimsókn og mér fannst ég líka vera hressari en undanfarna daga.
 
Þegar þau stigu frá borði vildi Hannes koma í fang mitt, tók innilega utan um hálsinn á mér og ég fann að við vorum báðir með kvefskít og hósta. Þá fór ég að átta mig á því að ég var alls ekki búinn að ná mér eftir hálsbólgu og kvef frá því um síðustu helgi þegar ég var að vinna all stífa törn í Vornesi. Þegar við komum svo að Sólvöllum gekk Hannes rakleitt að dótaskápnum sínum og tíndi fram björgunarþyrlu og trukka ásamt fleiri græjum sem hann hefur sjálfur sett saman úr legókubbum.
 
Hann veit nákvæmlega hvar hlutina er að finna hér á bæ og gengur að þeim jafn skjótt og hann ber hér að garði. Eiginlega er þetta eina myndin sem ég tók um helgina og kenni ég um sinnuleysi mínu þar sem ég er ekki nógu hress. Ég er alls ekki veikur en heldur ekki vel hress. En ég veit núna hvað er á ferðinni; kvefskítur og óhreinindi í hálsi sem sækir mig mjög sjaldan heim.
 
Ég tók á móti þeim á föstudaginn með þorski úr norðaustur Atlantshafi og grænmetisávöxtum úr sólvellskri mold. Þau launuðu fyrir sig daginn eftir með bleikju úr norðaustur Atlantshafi ásamt sænskum kartöflum og tómötum sem þau meðhöndla af kunnáttu sem ég er ekki enn farinn að tileinka mér. Við spekúleruðum, gerðum að gamni okkar, borðuðum pönnukökur og sýsluðum eitt og annað.
 
Svo í dag dreif fleiri gesti að garði. Auður og Þórir komu ásamt íslenskum konum sem eru í helgarferð hjá þeim í Örebro, þeim Jónu og Sif. Einnig kom með þeim hún Elín Kristín, íslenska sem hefur búið í Svíþjóð í tuttugu og þrjú ár. Auður og Þórir eru Sólvöllum trygg og koma gjarnan hingað með fólk sem heimsækir þau. Ég virði þau virkilega fyrir þann góða sið. Ég reikna fastlega með að Íslendingum sem koma til Svíþjóðar þyki fróðlegt að sjá hvað landar þeirra aðhafast hér í þessu landi.
 
Það var hljótt þegar ég kom til baka eftir að hafa farið með helgargestina mína á járnbrautarstöðina í Hallsberg. Ég plokkaði fram þykk síldarflök og hitaði upp kartöfluréttinn frá í gær og borðaði einfaldan mat til að setja ofan á meira góðgæti sem var hér á borðum um miðjan dag. Ég kveikti á sjónvarpinu og horfði á fréttirnar og mann ekkert af þeim. Um tveimur timum seinna var ég orðinn þreyttur á kliðnum frá sjónvarpinu, slökkti á því og las yfir bloggið mitt.
 
Þetta er búin að vera mjög góð helgi og góð var kyrrðin eftir að ég slökkti á sjónhvarpinu.
 
 
 
Ps. Það var all ítarleg frétt í sænska sjónvarpinu í vikunni um gosið í Holuhrauni og stórkostlegar myndir fylgdu fréttinni. Mér þótti sænska sjónvarpsfólkinu takast ótrúlega vel til með hin erfiðu íslensku orð eins og til dæmis Vatnajökull, Holuhraun og Bárðarbunga.

Ég vaknaði upp og fór að hræra aftur

Ég var að leita að einhverju í ísskápnum mínum í morgun og velti allt í einu fyrir mér af hverju ákveðnar krukkur voru á þeim stað þar sem þær voru. Jú, alveg rétt, ég hafði fært þær síðast þegar ég bakaði pönnukökur til að koma pönnukökudiskinum með afgangspönnukökunum fyrir þar sem ég vildi hafa hann í ísskápnum.
 
En það er langt síðan hugsaði ég. Rosalega er langt síðan ég bakaði pönnukökur. Ég baka mér pönnukökur í kvöld hugsaði ég og ég fann ilminn af þeim, fann hvernig það er að rúlla upp volgri pönnuköku og fann þetta indæla mjúka bragð sem hefur gert bragðlaukana glaða í sjötíu ár. Já, ég ákvað að baka mér pönnukökur í kvöld. Ég skyldi borða góðan hádegisverð, svolítið seint, og svo skyldi ég hafa pönnukökur í kvöldmat. Lífið varð bara gott.
 
Annars er lífið bara gott. Víst kem ég stundum inn í þá stemmingu, kannski dálítið oft, að ég óskaði mér þess að aðstæðurnar væru öðru vísi en þær eru. En það eru bara vissar aðstæður eins og þær eru og sumu af því verður ekki breytt og svo er spurning hvort það sé rétt að breyta öðru. Hafragrauturinn var byrjaður að sjóða í pottinum, ég lækkaði strauminn og hrærði hægt í grautnum og var annars hugar.
 
Ég var alveg með það á hreinu hvað ég ætlaði að fara að gera eftir rólegan morgunverð. Ég var harðánægður með það sem ég ætlaði að fara að gera og það besta var að ég hafði byrjað á því í gærkvöldi. Það er svo gott að vera kominn af stað með suma hluti. Það er bara að byrja og þá hverfa hindranir úr vegi. Ég er alveg að verða kominn á það stig hér heima á Sólvöllum að allt sé eins og það á að vera. Svo get ég haft það notalegt og snúið mér að mörgum smáatriðum sem ég á eftir en sem ég tek ekki eftir nema öðru hvoru. Aðkomufólk sér það alls ekki. Svo get ég líka leikið mér frjálslegar en ég geri í dag.
 
Það eru rúmlega tvö og hálft ár þangað til ég verð sjötíu og fimm ára og ef ég fæ að vera með um það, sem ég vil svo gjarnan, þá get ég verið ánægður með það sem ég hef tekið mér fyrir hendur hér á Sólvöllum. Hvert ár eftir það verður svo bara ríkidómur og bónus fyrir það sem ég hef gert. Engin krafa er falin í neinu, bara að vera þakklátur og sáttur við aðstæðurnar eins og þær eru. Konan sem var á Sólvöllum áður en við Valdís keyptum var hér á hverju ári frá maí og fram í september í rúmlega fjörutíu ár. Mörg síðustu árin var hún ein, án bíls og síma.
 
Þá voru höggormar undir húsinu og hún náði til þeirra, dró þá fram og DRAP þá. Síðasta sumarið sitt hér var hún áttatíu og fjögurra ára. Hún var áttatíu og fjögurra ára. Ja hérna. Ég var ekki alveg heima þegar hér var komið og grauturinn var farinn að festast við botninn  í skaftpottinum. Sleifin var kyrr í hendi mér. Ég hafði dottið út, vaknaði upp og fór að hræra aftur.
 
 
 
Það er komið kvöld og ég er búinn að baka pönnukökur, pínulitla uppskrift af pönnukökum. Svo borðaði ég pönnkökur í þvílíku magni að mér dettur ekki íhug að segja frá því. Eitthvað verð ég að hafa út af fyrir mig. En það var algjör hátíð. Ég fór í sturtu fyrst og í sunnudagafötin. Svolítið var ég lágur í dag, en þegar þessi pönnukökuhátíð gekk í garð, þá bara kom sólin upp þó að kvöld væri komið. Stundum þarf svo lítið. Ég hefði átt að kveikja á kerti líka.
 
Ég baukaði bakvið Bjarg í dag. Þar hef ég lagt margt frá mér alveg frá því síðastliðnum vetri. Og ég hef ekki bara lagt frá mér, ég hef hreinlega kastað hlutum þangað, hlutum sem ég hef ekki gefið mér neinn tíma til að ganga frá. Þannig á ekki að vera á Sólvöllum eins og ég hef oft komið inn á áður. Á Sólvöllum á umhyggja að ríkja á öllum sviðum. Þá get ég svo sannarlega haldið stórhátíð sumarið sem ég verð sjötíu og fimm ára. Ég þarf ekki að drepa neina höggorma því að ég sé þá aldrei, sé bara snáka hér. Það komast heldur ekki nein dýr undir húsið lengur. Ég mundi líka draga það við mig að drepa höggorm. Ég hefði gert það fyrsta árið mitt hér en þá var ég heldur ekki nema hálffullorðinn maður. Núna er ég fullorðnari.
 
Hér með ætla ég að horfa á þátt í sjónvarpinu, ekkert sem ég geri daglega, en í dag voru pönnukökur á Sólvöllum og ég læt einn sjónvarpsþátt fylgja með í kaupunum. Svo ætla ég að ljúka verkefninu bakvið Bjarg á morgun og svo get ég gengið nokkur skref til baka og horft yfir vetvanginn og verið glaður. Það getur aftur gefið tilefni til að borða afganginn af pönnukökunum.

Þeir sem dragast gjarnan að honum Guðbirni

Ég nennti ekki að taka mér neitt fyrir hendur eftir að ég kom heim um hálf sex leytið eftir meira en sólarhrings fjarveru. Ég dró mig í vinnu í gær skömmu fyrir hádegi, að mér fannst nokkurn veginn búinn að ná mér af vægri hálsbólgu sem ég hafði haft í rúman sólarhring. En á leiðinni í Vornes fékk ég ákafan hnerra, svo ákafan að nokkrum sinnum hnerraði ég þrisvar sinnum í sama hnerranum. Það munaði hressilega um það og ég sofnaði ekki á meðan. Þá vissi ég að ég væri að kvefast og þannig var það. Það hlaut að koma að því eftir að vera mitt á meðal fólks með hálsbógu eða kvef eða hvort tveggja. Annars er ég ótrúlega seigur að sniðganga þetta þó að fólk hnerri eða hósti beint í andlit mitt. En ekki meira um veikindi utan að ég var kvefaður í einn sólarhring og er nú næstum góður.
 
Ég sit hér og horfi út um austurgluggann og sé kvöldhúmið leggjast yfir skóginn sem er orðinn þreyttur eftir mjög sólríkt, heitt og þurrt sumar. Gulu, brúnu og gulbrúnu litirnir aukast dag frá degi og fá hausttregann til að smjúga inn í sál mína. Það er bara eins og venjulega á þessum árstíma og það veldur mér ekki áhyggjum. Enn er það eins og síðast þegar ég skrifaði um þetta að flestar eikurnar og allt beykið halda sínum ferska græna sumarlit og ein hengibjörk bakvið Bjarg er svona líka. Þessi tré bara brosa við haustinu og þá hlýt ég að gera það líka.
 
Ég hafði frosna bleikju með mér heim og ég fór með hana út á Bjarg til að setja hana í frysti. Þegar ég opnaði frystinn þar blasti við mér slatti af íspinnum. Munnvatnið flaut og ég tók einn íspinna með mér inn og ákvað að hita kaffi. Þegar ég var búinn að hella vatni á kaffivélina sá ég að klukkan var sex. Væri ekki réttara að borða? hugsaði ég. Nei, ekki endileg strax því að ég borðaði svo mikinn hádegisverðverð í Vornesi. Svo hélt ég áfram með kaffigerðina og skömmu síðar drakk ég kaffi og borðaði íspinna með súkkulaðihjúp með. Ég vissi að ég var að gera rangt en nú sjóða þó kartöflur í potti og eftir stundarkorn ætla ég að borða síðustu tvö síldarflökin úr lítilli síldarfötu sem ég á í ísskápnum.
 
En hvað með þessa bleikju? Ég hélt að ég væri að kaupa Klausturbleikju hjá honum Guðbirni þó að enginn hefði sagt að svo væri. En svo stendur á pökkunum að hún sé veidd í norðaustur Atlantshafi. Samt get ég ekki sleppt því að þetta sé Klausturbleikja, alin upp í bleikjueldinu á Teygingalæk niður undir Brunasandi í Vestur-Skaftafellssýslu. Hún er ekki gefin þessi bleikja en ég drekk ekki brennivín, reyki ekki og fer ekki til sólarlanda. Mér er því varla of gott að borða bleikju sem ég "held" að sé komin frá eldisstöð nálægt bernskuslóðum mínum. Ég er heldur ekki í vafa um að bleikjan er mjög holl og ég er aldeilis viss um að það sem ég borða hefur mikið með mína góðu heilsu að gera.
 
Ég sat í bílnum hjá henni Rósu Ólafsdóttur hjúkrunarfræðingi þegar frystibíllinn frá Varberg renndi í hlað við Skandic Hótel í Örebro. Við Rósa töluðum meðal annars um það að við hefðum kannski verið vinnufélagar á Vogi árið 1993. Í þetta skipti var það Rósa sem kom að sækja vörur en stundum er það hann Claes maðurinn hennar. En þegar bíllin renndi hjá sá ég ryðtauma á bílnum frá Varberg og ég hugsaði hvernig það gæti bara átt sér stað á svona nýjum bíl. Hirti Guðbjörn virkilega svona illa um frystibílinn sinn. Svo fór ég með myndavélina til að taka mynd af togaranum Baldvin Njálssyni sem fyllir hliðar bílsins og þá sá ég auðvitað að þetta voru ryðtaumar á togaranum en ekki frystibílnum.
 
Hver er svo þessi Guðbjörn? Ég get ekki svo mikið annað sagt en að hann heitir Guðbjörn Elíson og er Íslendingur. Ég veit að ég hef spurt hann nánar um uppruna hans en það er tími síðan og ég man það ekki. En ég veit að Guðbjörn hefur lengi, lengi ekið um Svíþjóð með íslenskan mat sem fólk hefur pantað hjá honum. Ekki veit ég hver maðurinn er sem stendur þarna með fiskblokkina en ég bauð honum hressilega góðan daginn á íslensku og hann bara horfði brosandi á mig. Þá gerði ég hann að sænskum manni sem væri kominn á vegum íslenskrar konu sinnar til að taka við pöntum hjá Guðbirni. Það eru gjarnan svoleiðis menn sem dragast að þessum kaupmanni.
 
"Framgangsríkum mönnum fylgir kona." Er það ekki eitthvað á þessa leið sem oft er sagt? Alla vega sat kona í bílnum, tók við greiðslum og deildi út afgreiðsluseðlum. Ég gerði hana að konunnni hans Guðbjörns en veit það ekki og veit ekki hvað hún heitir. Ég hélt líka að ég hefði náð betri mynd af henni. Þarna er hún að kalla til Guðbjörns að það komi ekki fleiri. Svo settist ég inn í minn bíl og þá sá ég hana færa sig undir stýrið á frystibílnum og svo héldu þau af stað.
 
Ég fór heim til mín með fjögur kíló af bleikju sem ég var að vonaði að væri Klausturbleikja. Hún er víst veidd í norðaustur Atlantshafinu en Teygingalækur er vissulega á eyju einmitt í því hafi.
 
Myrkrið er lagst yfir haustlitina í skóginum og ég er búinn að borða kartöflurnar og síldina. Síldarfatan er tóm og ég þarf að eignast nýja. Það er svo gott að elda kartöflur og takja síld úr fötu í ísskápnum þegar mér liggur á. Ég er ekkert svikinn að þeim mat og ekki síst þegar ég hef stóran sænskan tómat með. Ég ætla ekki að nota bleikjuna á þann hátt. Ég ætla að nota hana þegar fólk ber að garði og ef fólkið sem ber að garði er góðir kokkar má það gjarnan gera eitthvað gott af þessari bleikju og þá fæ ég gott að borða líka.
 
Nú er mál að bursta og pissa og sofa svo lengi lengi.

Ellilífeyrisþegi að fullu þessa dagana

Nú er föstudagskvöld og ég hef verið ellilífeyrisþegi í fullu strfi í tvo daga. Það er kannski hægt að misskilja þetta en ég hef ekki verið í vinnu í tvo heila daga og þá hef ég bara verið ellilífeyrisþegi. Notalegt hefur það verið og ég vinn við að ná í skottið á mér hvað varðar allt mögulegt sem sat á hakanum hjá mér.
 
Þetta eru brómberjarunnar þarna á myndinni. Ég átti til dæmis eftir að reita frá öllum runnum og blómum sem hér er að finna. Það er að vísu lítið af blómum og það var ég þakklátur fyrir í gær meðan ég hamaðist við að reita. Sem dæmi um annríki ellilífeyrisþegans, þá hafði ég ekki tíma til að taka þessa mynd fyrr en það var orðið dimmt. Að vísu ýkt. Grasið var komið allt of langt upp með runnunum sem segir að jörðin er frjósöm.
 
Núna er það í fyrsta sinn á sumrinu sem ég hef slegið lóðina nákvæmlega eins og ég vil gera. Hún var orðin of loðin sums staðar og ég er búinn að slá suma bletti þrisvar sinnum, bara til að salla niður grasið. Ég vildi ekki raka því saman og bera í burtu, ég vildi að lóðin fengi það til næringar og svo varð. Allt sem ég hef reitt hef ég kastað út á grasið, látið það þorna og svo hef ég farið með sláttuvélina nokkrum sinnum yfir það og þar með hvarf það. Einnig smá moldarkögglar sem fylgdu með. Þegar ég var að reita fann ég að jörðin var enn á ný orðin mjög þurr. Ég er búinn að losa mjög margar garðkönnur í gær og í dag. Það er eins gott að það eru til níu könnur. Ég læt vatnið standa um tíma í könnum því að ég vil ekki vökva með ísköldu vatni.
 
Valgerður bað um að fá að sjá brómberin og fleira af því sem móðir jörð hefur verið að gefa af sér hér í sumar. Ég fer einu sinni til tvisvar sinnum á dag með glas og tíni brómber sem eru að þroskast mjög hratt núna. Á myndinni sést að sum berin eru ekki fullþroskuð. Ef ég geymi þau í birtu hálfan til einn dag verða þau svört. Ég spurði á Facebook í dag hvernig ég ætti að bera mig að því að frysta brómber og ég fékk svar frá gömlum atvinnuliðsforingja. Hann er ábyggilegur maður og ég gerði eins og hann sagði. Um daginn fór ég með brómber til Stokkhólms og Rósa notaði þau í berjapæ sem smakkaðist mjög vel í fimm ára afmæli.
 
Hér er líka uppskera. Til vinstri grænt zucchini, þá grasker og svo gult zucchini. Næst eru brómberin. Það eru kannski til önnur nöfn yfir þetta en ég geri það einfalt og kalla mikið zucchini. Súkkíní segi ég. Græna súkkíníið sem er lengst í burtu lenti að stórum hluta í matarpottunum mínum áðan. Ég leitaði að uppskrift með ýsu og súkkíní. Svo átti ég ekki allt sem til þurfti samkvæmt uppskriftinni og ég breytti því mesta, mikið fyrir eigin sérvisku. Uppskriftin sagði þorskur en ég var búinn að þýða ýsu.
 
Ég átti að nota krossaða tómata en notaði tómata sem ég brytjaði niður og svo tómatsósu með. Ég átti að nota sítrónu en átti ekki og kreysti því safa úr einni klemtínu í pottinn í staðinn. Svo bætti ég eplum í að eigin geðþótta og svolítinn rjóma notaði ég, líka vegna eigin sérvisku. Sérviskan tók líka með dálítinn bita af engifer. Þegar suða var komin upp í sullinu lagði ég ýsuna ofan á og sauð í fimm mínútur. Úr varð mikið góður matur og afgangur til hádegisins á morgun. Þetta varð svolítið sætt en engan notaði ég þó sykurinn. Ég kenndi um tómatsósunni og klementínunni. Ég er viss með að gera þetta aftur en þá þarf ég að vera búinn að kaupa hvítlauk. Svo get ég líka bætt í brokkólí.
 
Einangraða moltukerið til hægri keypti ég og setti upp fyrri hluta sumars. Nú er það búið að fá maka sem líka er einangraður. Kerið til vinstri keypti ég um mitt sumar en setti það ekki upp fyrr en í dag. Það virðist vera halli á kerjunum en svo er ekki. Ég notaði hallamál. Þau eru langt frá því að vera gefins þessi ker en öll gróðrarmoldin sem ég er búinn að kaupa í sekkjum í sumar og öll keyrslan með hana er ekki gefins heldur. Ég á moltukvörn sem ég get mulið greinar með og ég á næstum óendanlegt magn af greinum. Úr þeim ásamt öðru get ég fengið mikið af mold. Ég vona bara að ég nái góðu lagi á að framleiða þessa mold.
 
 
 
Þetta er smá skýrsla yfir hluta af ellilífeyrisþegabauki mínu. Það er margt annað og allt er mér það einhvern veginn áhugavert. Fyrir nokkrum árum eftir fyrstu bygginguna okkar hér á Sólvöllum náði óreiðan langleiðina fram undir veg. Svo færðist hún upp að húsveggnum nær veginum, síðan inn með húsinu og svo bakvið húsið, og nú nálgast að óreiðan sé að verða komin að skógarjaðrinum. Þegar hún kemur alveg að skógarjaðrinum verður engin óreiða eftir. Þá verða Sólvellir eins og draumsýnin hefur alla tíð verið um þennan stað. Það hefði verið gaman ef Valdís hefði fengið að vera með alla leiðina því að þetta var draumurinn hennar líka.
 
Ég vona að mér takist að komast í týtuberjatínslu á morgun. Málið er að verða með góðan týtuberjaforða í frysti fyrir veturinn en ég er bara kominn með þrjá lítra enn sem komið er.

Heimur trönunnar

Meðan ég hafði morgunandaktina mína hérna áðan í rúminu mínu með hnakkann upp á dýnunni við höfðagaflinn heyrði ég hróp trönunnar inn um loftventilinn að vestan. Fyrst heyrði ég þau eiginlega ekki en þegar á leið byrjaði ég að hlusta á þessi hljóð og velta þeim fyrir mér. Þetta eru há hljóð en friðsöm virðast þau vera og á vissum tímabilum geta þau heyrst um há nótt þannig að fólk vakni. Hróp trananna nú í morgun tengjast líklega undirbúningi fyrir gríðarlegar hópferðir til fjarlægra landa. Tímabilinu í Norðrinu fer að ljúka og suðlægari grundir eru kannski í hyllingum hjá þessum háfættu fuglum. Alla vega verður ferðinni heitið þangað innan skamms.
 
Í mannheimi heyrast líka gól en þau eru allt öðru vísi. Hvers vegna geta menn ekki gert svona líka, komið saman og gólað og farið svo að gera eitthvað af viti í sameiningu. Svona eins og þegar trönurnar hrópa nokkra morgna á haustin. Svo bara fara þær af stað, þúsundum og tugþúsundum saman, fara þangað sem þær ætla, fljúga oddaflug, létta undir með hver annarri, lenda á suðlægari grundum og lifa svo þar þangað til Norðrið heillar á ný. Og þá hefjast þessar hópferðir aftur, í gagnstæða átt, og þegar hóparnir lenda svo á hefðbundnum stöðum í Norðrinu heillast menn svo mikið að þeir fara með bílfarma af korni og gefa fuglunum sem á einfaldan hátt gera sér lífið friðsamt og gott.
 
Að hugsa sér ef hann Púúútín gæti nú komið flögrandi og fagnandi inn á stórþing þjóðanna og gólað, gert alla glaða. Svo gætu allir farið í hópflugi heim til sín og gert góða hluti fyrir fólkið "sitt". Þroskast af visku og vexti og náð meðal þegna sinna. Lagst svo í kistuna sína á síðasta haustdegi lífs síns, án ótta og í minningunni um að mikið hefðu nú öll gól verið dásamleg. Heillavænleg hefðu þau líka verið fyrir alþjóðasamfélagið þar sem enginn mígur í annars skó. Svo gætu aðrir menn flutt gólið hans Púúútíns heim til landa sinna, til hinna mörgu húsa við Austurvöll sem finnast um allan heim. Og skór allra yrðu þurrir þar sem enginn migi lengur í annarra skó.
 
Ástin fengi nýja merkingu og á fallegum vordögum yrðu stignir ástardansar sem væru tákn væntumþykju milli einstaklinga.
 
Svo færu allir heim til sín og þar gæti hugljúft ástarlífið haldið áfram.
 
Þjóðhátíðardagarnir yrðu svo mikið dásamlegri vegna þess að það væri bara svo sjálfsagt að vera glaður. Maturinn yrði færður að fótum hvers og eins í vörubílahlössum og enginn þyrfti að drekka sig fullan, gefa á kjaftinn, lenda í steininum eða tapa ökuskýrteininu sínu. Að lokum yrði svo stiginn ástardans og svo kannski heima líka þegar þangað væri komið.
 
Níu mánuðum seinna fengju svo fólkungarnir að láta til sín heyra í mígrafón hjá til dæmis Sverges television (SVt) og enginn gréti lengur í friðsömum heimi.
 
Ef hins vegar einhver reyndi að spilla þessum friðsama heimi, þá fengi sá hinn sami að finna fyrir því og mundi aldrei gera það aftur því að það er svo mikil sneypa að láta hrekja sig á flótta með óvirðulegum tilburðum.
 
Þökk sé þér Púúútín fyrir að þú steigst niður meðal oss og skildir það fyrstur manna að það er mikið einfaldara að góla eins og trana hrópar. Mikið einfaldafra líka en að vera undirförull og lúmskur á alþjóðavetvanginum.
 
Hér er svo einn sem heitir Putin heima í Rússlandi með tilburði til að sýna þegnum "sínum" hvað góður þjóðhöfðingi getur gert í friðsömum heimi. Eiginlega er það nú samt svo að það er eins og tranan þarna uppi við vænginn sé í mótmælaham. En ég veit ekki. Ég er svolítið hissa þegar ég skoða þessa mynd hvers vegna ég valdi að nota þetta nafn "Púúútín" svo oft.
 
Þakka ykkur fyrir trönur sem hrópuðuð niður á akrinum hans Arnolds í morgun. Það var gott að hlusta á ykkur. Þið eruð svo velkomnar aftur.
 
 
 
Ég hef ekki hugmynd um það hverjir hafa tekið þessar myndir en ég bara vona að mér sé fyrirgefið að nota þær. SVt er sænska ríkissjónvarpið.

Það er samt fimmtudagsmorgun

Ég ætlaði að setjast örstutta stund við tölvuna og skrifa fáa og stutta minnispunkta fyrir kvöldið og dunda mér svo við að skrifa pínulítið fyrir svefninn. En ég missti stjórn á mér og minnispunktarnir urðu lengri en ég hafði ætlað mér. Á meðan hækkaði sólin á lofti og þurrkaði næstum upp rennblauta jörðina eftir dögg næturinnar.
 
 
 
Ég hef haft það sterkt á tilfinningunni í morgun að það sé laugardagur en ég veit samt að það er fimmtudagsmorgun. Venjulegra ellilífeyrisþegalíf er að færast yfir hér á Sólvöllum í Krekklingesókn eftir sumar þar sem lífið hefur ólgað og ég hef tekið þátt í því. Mér finnst sem ég hafi verið þarfur og staðið undir því að vera það. Sumir á mikið betri aldri en ég virðast ekki hafa heilsu eða getu til að vera lifandi þátttakendur í drifhjóli samfélagsins en lögjafinn setur lög og reglur til að fá þetta fólk í lengstu lög til að vera með, eða hreinlega þvinga það til þátttöku. Það er skorið á möguleikana til framfærslu og síðan blasir við eymd sem leiðir til ennþá meiri krankleika og þjáninga.
 
Hvað er hvað í þessu sambandi get ég ekki skilgreint en það er bara staðreynd að það er ekki öllum gefið að vera með í drifhjólinu. Nokkuð seint í fyrrakvöld hitti ég snaggaralegan mann í Vornesi, mann sem þá um kvöldið kom nokkur hundruð kílómetra suðaustan úr landi til að taka þátt í þriggja daga námskeiði. Við stóðum um stund úti á hlaðinu og komum á lítils háttar kynnum á milli okkar. Ég sagði honum að ég væri ellilífeyrisþegi síðan sjö ár til baka en væri enn í töluverðri vinnu.
 
Já, svaraði hann, ég er líka ellilífeyrisþegi, og svo hét hann áfram. Ég bý í Kalmar en á mánudaginn kemur á ég að vera í Norrköping til að keyra rútu um mið Svíþjóð í þrjá daga. Síðan á ég að keyra vörubíl fyrir fyrirtæki í Linköping þangað til í vikulokin. Það er oft hringt í mig til að fá mig í vinnu og mér finnst allt í lagi að gera þetta. Ég get vel gert þetta en svo eru margir að reyna að vinna sem virðast alls ekki geta það.
 
Við þekktum okkur vel í hvor öðrum og áttum nokkrar góðar mínútur þarna á Vorneshlaðinu. Síðan fór ég til að sinna mínu en hann ætlaði að fara að búa sig í háttinn. Líklegast er að við hittumst aldrei meir en það er samt aldrei að vita. Það er svo margt sem ég ekki veit.
 
Ég hins vegar bæði veit og sé að mörg tré hérna utan við gluggann minn eru farin að láta á sjá eftir nokkurra mánaða ötula starfssemi fyrir lífið á jörðinni. Þau eru búin að hreinsa mikið af úrgangsefnum úr loftinu í sumar og skila frá sér miklu súrefni sem án afláts streymir inn um loftræstingarventlana á svefnherberginu mínu. Annar ventillinn er rétt fyrir ofan og framan mig og ég finn hvernig hreint og svalt loftið streymir í bylgjum niður til mín þar sem ég sit.
 
Eikurnar bera af. Flestar þeirra eru jafn grænar og þær voru um miðjan júní en einstaka ein er þó byrjuð að sýna merki um þreytu eftir annríki sumarsins. Ég er ekki hissa þó að ég sé aðdáandi þessara trjáa. Að baki eikinni sem best blasir við mér er beykitré. Það er ennþá jafn grænt og það var um miðjan maí. Ég er líka aðdáandi beykitrjánna. Ef ég renni stólnum aðeins til hægri blasa við mér fleiri eikur og fleiri beykitré. Beykitrén eru af stærðinni einhvers staðar milli fimm og sjö metrar en mest áberandi eikurnar eru af stærðinni tíu til fimmtán metrar. Svo er stóra Sólvallaeikin langt yfir það hafin. Hún er búin að lifa tvær heimstyrjaldir, Kötlugos og mörg önnur gos og atburði.
 
Eikurnar að húsabaki fresluðum við Valdís úr klóm reyni og grenitrjáa fyrir sex til átta árum síðan. En beykið gróðursettum við af mikilli elju og umhyggju, líka fyrir sex til átta árum. Allir þessir einstaklingar hafa launað vel fyrir alúðina og fyrirhöfnina og hafa verið ötulir þátttakendur í drifhjóli náttúrunnar fyrir betri lífsskilyrðum á jörðinni. Á þessari morgunstund er eins og mér þyki vænna um eikurnar og beykið en sannleikurinn er sá að mér þykir vænt um þennan skóg allan.
 
Ég tala oft um að morgunsólin lýsi upp hreyfanlegar ljóshallir úti í skóginum. Í heilan klukkutíma hef ég fylgst með einni svona höll spölkorn út í Sólvallaskóginum. Hún er ofarlega í skóginum, svo ofarlega að hún hefur ekkert þak. Hún er opinn móti heiðum himni. Ég veit hvaða einstaklingar eru undir þessum sólarsal, einstaklingar sem án afláts teygja sig upp á móti til að nálgast ljósið, sólarljósið sem er þeim nauðsynlegt til að geta sinnt starfinu mikilvæga, að hreinsa sameiginlega andrúmsloftið okkar og framleiða súrefnið sem enn heldur áfram að koma í bylgjum inn um loftventilinn stutt fyrir ofan mig.
 
 
 
Ég byrjaði þennan rólega morgun liggjandi á bakinu í rúminu mínu með hnakkann upp á dýnunni sem er við höfðagaflinn minn. Þá var ég búinn að líta út um nokkra glugga, sjá þétta döggina liggja yfir öllu og lág þétt ský, nánast lágir þokubakkar, kúrðu yfir öllu og virtust vilja halda rakanum og kyrrðinni sem lengst niðri á jörðinni áður en sólinni yrði sleppt fram. En sólin vann og byrjaði síðan að lýsa upp skóginn. Viljinn til að vilja vera með sigraði mig og ég dró frá glugganum og settist við tölvuna. Nú er setunni þar lokið og mörg ellilífeyrisþegaverkefni bíða mín. Það er liðið á morgun.
 
 
 
 
 
Innviðir plómutrés.
RSS 2.0