Þeir sem dragast gjarnan að honum Guðbirni

Ég nennti ekki að taka mér neitt fyrir hendur eftir að ég kom heim um hálf sex leytið eftir meira en sólarhrings fjarveru. Ég dró mig í vinnu í gær skömmu fyrir hádegi, að mér fannst nokkurn veginn búinn að ná mér af vægri hálsbólgu sem ég hafði haft í rúman sólarhring. En á leiðinni í Vornes fékk ég ákafan hnerra, svo ákafan að nokkrum sinnum hnerraði ég þrisvar sinnum í sama hnerranum. Það munaði hressilega um það og ég sofnaði ekki á meðan. Þá vissi ég að ég væri að kvefast og þannig var það. Það hlaut að koma að því eftir að vera mitt á meðal fólks með hálsbógu eða kvef eða hvort tveggja. Annars er ég ótrúlega seigur að sniðganga þetta þó að fólk hnerri eða hósti beint í andlit mitt. En ekki meira um veikindi utan að ég var kvefaður í einn sólarhring og er nú næstum góður.
 
Ég sit hér og horfi út um austurgluggann og sé kvöldhúmið leggjast yfir skóginn sem er orðinn þreyttur eftir mjög sólríkt, heitt og þurrt sumar. Gulu, brúnu og gulbrúnu litirnir aukast dag frá degi og fá hausttregann til að smjúga inn í sál mína. Það er bara eins og venjulega á þessum árstíma og það veldur mér ekki áhyggjum. Enn er það eins og síðast þegar ég skrifaði um þetta að flestar eikurnar og allt beykið halda sínum ferska græna sumarlit og ein hengibjörk bakvið Bjarg er svona líka. Þessi tré bara brosa við haustinu og þá hlýt ég að gera það líka.
 
Ég hafði frosna bleikju með mér heim og ég fór með hana út á Bjarg til að setja hana í frysti. Þegar ég opnaði frystinn þar blasti við mér slatti af íspinnum. Munnvatnið flaut og ég tók einn íspinna með mér inn og ákvað að hita kaffi. Þegar ég var búinn að hella vatni á kaffivélina sá ég að klukkan var sex. Væri ekki réttara að borða? hugsaði ég. Nei, ekki endileg strax því að ég borðaði svo mikinn hádegisverðverð í Vornesi. Svo hélt ég áfram með kaffigerðina og skömmu síðar drakk ég kaffi og borðaði íspinna með súkkulaðihjúp með. Ég vissi að ég var að gera rangt en nú sjóða þó kartöflur í potti og eftir stundarkorn ætla ég að borða síðustu tvö síldarflökin úr lítilli síldarfötu sem ég á í ísskápnum.
 
En hvað með þessa bleikju? Ég hélt að ég væri að kaupa Klausturbleikju hjá honum Guðbirni þó að enginn hefði sagt að svo væri. En svo stendur á pökkunum að hún sé veidd í norðaustur Atlantshafi. Samt get ég ekki sleppt því að þetta sé Klausturbleikja, alin upp í bleikjueldinu á Teygingalæk niður undir Brunasandi í Vestur-Skaftafellssýslu. Hún er ekki gefin þessi bleikja en ég drekk ekki brennivín, reyki ekki og fer ekki til sólarlanda. Mér er því varla of gott að borða bleikju sem ég "held" að sé komin frá eldisstöð nálægt bernskuslóðum mínum. Ég er heldur ekki í vafa um að bleikjan er mjög holl og ég er aldeilis viss um að það sem ég borða hefur mikið með mína góðu heilsu að gera.
 
Ég sat í bílnum hjá henni Rósu Ólafsdóttur hjúkrunarfræðingi þegar frystibíllinn frá Varberg renndi í hlað við Skandic Hótel í Örebro. Við Rósa töluðum meðal annars um það að við hefðum kannski verið vinnufélagar á Vogi árið 1993. Í þetta skipti var það Rósa sem kom að sækja vörur en stundum er það hann Claes maðurinn hennar. En þegar bíllin renndi hjá sá ég ryðtauma á bílnum frá Varberg og ég hugsaði hvernig það gæti bara átt sér stað á svona nýjum bíl. Hirti Guðbjörn virkilega svona illa um frystibílinn sinn. Svo fór ég með myndavélina til að taka mynd af togaranum Baldvin Njálssyni sem fyllir hliðar bílsins og þá sá ég auðvitað að þetta voru ryðtaumar á togaranum en ekki frystibílnum.
 
Hver er svo þessi Guðbjörn? Ég get ekki svo mikið annað sagt en að hann heitir Guðbjörn Elíson og er Íslendingur. Ég veit að ég hef spurt hann nánar um uppruna hans en það er tími síðan og ég man það ekki. En ég veit að Guðbjörn hefur lengi, lengi ekið um Svíþjóð með íslenskan mat sem fólk hefur pantað hjá honum. Ekki veit ég hver maðurinn er sem stendur þarna með fiskblokkina en ég bauð honum hressilega góðan daginn á íslensku og hann bara horfði brosandi á mig. Þá gerði ég hann að sænskum manni sem væri kominn á vegum íslenskrar konu sinnar til að taka við pöntum hjá Guðbirni. Það eru gjarnan svoleiðis menn sem dragast að þessum kaupmanni.
 
"Framgangsríkum mönnum fylgir kona." Er það ekki eitthvað á þessa leið sem oft er sagt? Alla vega sat kona í bílnum, tók við greiðslum og deildi út afgreiðsluseðlum. Ég gerði hana að konunnni hans Guðbjörns en veit það ekki og veit ekki hvað hún heitir. Ég hélt líka að ég hefði náð betri mynd af henni. Þarna er hún að kalla til Guðbjörns að það komi ekki fleiri. Svo settist ég inn í minn bíl og þá sá ég hana færa sig undir stýrið á frystibílnum og svo héldu þau af stað.
 
Ég fór heim til mín með fjögur kíló af bleikju sem ég var að vonaði að væri Klausturbleikja. Hún er víst veidd í norðaustur Atlantshafinu en Teygingalækur er vissulega á eyju einmitt í því hafi.
 
Myrkrið er lagst yfir haustlitina í skóginum og ég er búinn að borða kartöflurnar og síldina. Síldarfatan er tóm og ég þarf að eignast nýja. Það er svo gott að elda kartöflur og takja síld úr fötu í ísskápnum þegar mér liggur á. Ég er ekkert svikinn að þeim mat og ekki síst þegar ég hef stóran sænskan tómat með. Ég ætla ekki að nota bleikjuna á þann hátt. Ég ætla að nota hana þegar fólk ber að garði og ef fólkið sem ber að garði er góðir kokkar má það gjarnan gera eitthvað gott af þessari bleikju og þá fæ ég gott að borða líka.
 
Nú er mál að bursta og pissa og sofa svo lengi lengi.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0