Gáta

Hér er gáta: Hvað eiginlega er konan sem við sjáum á myndinni hér fyrir neðan að gera?


Haha, ég veit, hún er að steikja laufabrauð. Og stafurinn á þessari laufabrauðsköku er V. Hún fékk útbreitt laufabrauð frá Íslandi í gær sem Valgerður sendi henni. Svo var ekki beðið boðanna og hún skar í laufabrauðið ein en ég fékk að pressa kökurnar þegar þær komu úr steikarpottinum og þær urðu svo sléttar og fínar.

En hér er önnur gáta: Hvað þýðir bókstafurinn H á myndinni hér fyrir neðan?


Ég veit það líka. Það þýðir að þetta er laufabrauðskakan hans Hannesar Guðjóns nafna míns og undir þeirri köku eru margar aðrar kökur með ólíkum bókstöfum og jólatrjám.


Svo er húsmóðirin á Sólvöllum búin að setja þessar jólastjörnur í svefnherbergisgluggann okkar. Það er ekki bara laufabrauð og soðiðbrauð sem hún hefur komið í verk að baka í dag, hún er líka að tína upp jóladótið sitt og finna því stað. Ég sé núna að þessi mynd er svolítið gölluð þar sem það eru missterkar perur í stjörnunum. Því er valdís búin að kippa í liðinn líka en tölvan er svo sein að öllu þessa stundina að ég legg ekki í að taka nýja mynd og vista.

Kuldinn er samur við sig og mælirinn er í -17 stigum. Það snarkar undir skósólunum þegar gengið er í snjónum og það rýkur frá vitunum. En inni er hlýtt og það er reyniviður úr Sólvallaskóginum sem hefur yljað okkur í dag og nú er skorsteinninn vel heitur fyrir nóttina. Þegar hann fer að kólna taka rafmagnsofnarnir við.

Hitamælirinn

Áður en ég settist við tölvuna lýsti ég með vasaljósi á hitamælinn sem ég skrúfaði á nýja gluggagereftið í norðvesturhorninu fyrr í dag. Hann sýndi -12 gráður. Á sama tíma var talað um veður í sjónvarpinu. Þar sagði að hitastigið um þessar mundir væri verulega mikið undir meðaltali. Um næstu helgi mundi trúlega hlýna dálítið, en þó ekki yfir frostmark, og þessum hlýindum mundi fylgja snjókoma. En hvað þetta er líkt veðráttunni í fyrravetur fyrir utan að þessi vetrarveðrátta kom fimm vikum fyrr núna en í fyrra. Þetta sagði ég líka í blogginu mínu í gær.

Meðan ég var að setja upp mælirinn í dag hugsaði ég til uppsetningar á öðrum mæli, en það var væntanlega árið 1954 eða 1955. Það hafði verið mikill áhugi fyrir því í neðri bænum á Kálfafelli að fá hitamæli en af einhverjum ástæðum drógst sú fjárfesting á langinn. Kannski voru mælar dýrari þá en í dag en ekki veit ég hvort það var ástæðan. En loksins var kærkominn hitamælir kominn sem var gerður fyrir að festast á gluggakarm eins og algengast er í dag. Ég man vel að mér fannst það voða gaman að geta nu farið út að glugga og gáð að hitastigi. Mikið yrði gaman að fá upp mælinn.

Hann var í mörgu líkur mælum í dag, þessi kúla neðst og svo mjótt rör upp og svo var sívalt glerhús utan um mælinn og skalann sem var að baki rörsins. Málmhettur voru á báðum endum og þvert út úr þeim stuttir málmpinnar með litlu gati þannig að hægt væri að negla mælinn á glugga. þessi göt voru mjög nálægt sjálfum mælinum þannig að það þurfti að negla af miklu öryggi. Engar skrúfur voru svo grannar að þær kæmust gegnum þessi göt.

Pabbi spurði mig hvort ég vildi vera með í því að setja upp mælinn. Mér fannst heiður að því. Svo fórum við út með mælinn, hamar og nagla, stilltum mælinum á gluggann og annar okkar fór inn til að athuga staðsetninguna. Svo var allt til. Vilt þú negla spurði pabbi og hafði orð á því að ég mundi gera það af meira öryggi. Ekki var heiðurinn minni yfir að fá að negla upp mælinn en ég sá líka mikla hættu í að taka það að mér. En ég tók það að mér.

Af allri þeirri gætni sem ég átti til tókst mér að negla báða naglana en pabbi hélt við mælinn. Ég varpaði öndinni léttar og ég er alveg viss um að pabbi varpaði öndinni léttar líka. Svo tókum við á mælinum og fundum að hann var svolítið laus og mundi kannski geta látið illa í vindi. Við vorum sammála um það að það gæti eyðilagt mælinn. Treystirðu þér að negla aðeins meira spurði pabbi. Já, ég skyldi gera það. Nú vandaði ég mig mun meira en áður og svo sló ég það sem átti að vera síðasta höggið.

Það varð enginn hávær eftirmáli vegna þessa, en mælirinn sem við pabbi vorum báðir svo áhugasamir um að fá upp brotnaði ofan við kúluna og húsið utan um hann brotnaði einnig. Við urðum mikið hljóðir og hugsuðum örugglega báðir það sama -að mikið var þetta leiðinlegt. Svo var ekki mikið um annað að gera en að plokka flakið af gluggakarminum og henda í ruslið.

Við pabbi áttum örugglega sameiginlega reynslu það sem eftir lifði dags. Það var sorgin yfir að það tókst ekki sem við báðir vönduðum okkur svo mikið við. Ég var viss um að pabbi var leiður fyrir mína hönd að hafa mistekist og ég var viss um að pabbi væri leiður yfir því að hafa ekki fengið upp hitamælinn sinn.

Mér dettur bara hreint ekkert í hug

Ja, nú er það slæmt, mér dettur hreint ekkert í hug en samt er ég búinn að opna bloggið og byrjaður að skrifa. Ég hef verið andlaus lengst af í dag þó að við höfum horft á sjónvarpsmessuna og ég var hálf stressaður langt fram eftir degi. Við Valdís tókum til úti í nýbyggingunni þar sem smiðurinn ætlaði að koma á morgun og við ætluðum að setja klæðningu í loftið. Svo var ég úti að vesenast við að gera vetrearklárt og sóttist illa. Ég sótti borð út í skóg í næstum hné djúpum snjó og bekk einnig og reyndi að ganga sæmilega frá hvoru tveggja hér heima við. Okkur vantar geymslu fyrir ýmislegt sem hreinlega verður fyrir skemmdum ef ekki verður bætt þar úr. Þegar ég var að brasa borðinu heim þurfti ég að gæta mín að verða ekki reiður yfir að vera ekki búinn að þessu í tíð.

Síðan komst ég að niðurstöðu. Hvernig á ég að gera ráð fyrir hlutum sem ég hef aldri upplifað áður? Það er auðvitað ómögulegt. Í fyrra var veturinn harður og kom tímanlega. Núna kom veturinn á af fullum þunga fimm vikum fyrr en í fyrra, fyrr en við höfum upplifað áður í þessu landi. Meðan ég var að brasa þetta óskaði ég þess að smiðurinn kæmi ekkert á morgun þar sem ég væri alls ekki tilbúinn að taka á móti honum. Ég vil að hlutirnir séu svo vel gerðir og ef ég er ekki tilbúinn verður alltaf eitthvað sem verður gert verr en ég vil. Síðan ætlaði ég að fara að bera dót úr nýbyggingunni út í allt of litla geymslu, en það var útilokað fyrir tvo menn að fara að vinna þarna inni með óþarfa verkfæri og efni sem bara yrði fyrir. Til að geta borið þetta út í geymsluna varð ég að moka slóðina þangað í þriðja sinn í dag. Það snjóaði viðstöðulaust og snjókoman bara jókst og svo blés óvenju mikið. Ég fann að ég var ekki í besta standi.

Ég lauk þessum flutningum og kom inn í nýbygginguna á ný og ætlaði að fara að laga plastdúk sem rafvirkinn hafði skorið dálítið óþyrmilega fyrir rafmagnssörum sem hann þurfti að koma út gegnum veggi fyrir útiljósum. Ég snerist í kringum sjálfan mig og var ekki sjálfum mér nógur en þó á fullri ferð þvert yfir gólfið. Þá hringdi síminn. Ég leit á símann og sá að það var smiðurinn. Hvað vildi hann nú? Guðjón, svaraði ég símann. Sæll, Anders hér sagði hann, hvernig er það? Svo kom hann að efninu og ég fann að honum fannst það ögn erfitt. Ég bara get ekki komið á morgun sagði hann. Áður en ég svaraði þessu leit ég út því að mér fannst snögglega birta svo órtúlega mikið inni. Nei, sólin hafði ekki brotist gegnum snjókomuna, það var þétt él.

Ég fann hvernig ég varð beinni í baki og liðkaðist um málbeinið. Anders sagði að þeir væru nokkrir sem ætluðu að reyna að setja þak á hús á morgun og næstu daga og hann gæti hreint alls ekki komið fyrr en á fimmtudag. Finnst þér það í lagi spurði hann. Áður en ég svaraði hugsaði ég til þess ef þakið væri ekki komið á húsið hjá okkur og ég stæði þá þarna inn á gólfinu með snjóinn í hné. Það væri skelfilegt. Nú stóð ég þarna í 20 stiga hita og allt í einu leið mér hversu vel sem helst. Ég sagði Anders að það væri allt í lagi, ég ætlaði þá að ljúka við vatnsbrettin á gluggana í staðinn og fleira sem ég vildi hafa klárt áður en hann kæmi. Honum fannst greinilega sem erfitt samtal hefði farið vel. Svo vorum við báðir ánægðir. Samt vildi ég ekki vera þeir sem ætluðu að moka og sópa 30 sm snjó af vinnusvæði á morgun til að setja þak á hús. Það var mér skelfileg hugsun.

Eftir samtalið fann ég hvernig hreyfingar mínar urðu þjálli og allt sem ég gerði fór mér svo mikið betur úr hendi. Ég tók efnið í vatnsbrettin á gluggana, klippti, setti brot á endana, mátaði og allt passaði. Svo næsta bretti og sama gert með það, mátað og það passaði einnig. Hvað hafði skeð? Og nú var ég byrjaður ná þriðja brettinu. Ja hérna. Mér þótti bara vænt um þennan Anders. Ég fann vel hversu mikils virði það er fyrir mig að hér sé allt vel unnið. Vissa hluti vil ég gera sjálfur og ef ég er ekki tilbúinn verður ýmislegt á annan veg en ég vil.

Það er spáð 8 til 16 stiga frosti næstu tíu dagana með smáum undantekningum en það á ekki að snjóa alveg á næstunni. En það er hlýtt á Sólvöllum og í kvöld var annar dagur í ótrúlega góðri kjötsúpu sem Valdís eldaði í gær með miklu, miklu af hollu grænmeti. Ég bara skil ekki hvað maginn í mér er stór þegar hún býður upp á þessa súpu sem ég veit að hún er höfundur að. Mér alveg blöskrar þegar ég set á þriðja djúpa diskinn og þegar ég þori ekki annað en hætta gæti ég samt borðað meira. Og svo; dagurinn endaði svo vel að ég er viss um að fundur okkar Óla Lokbrá verður góður í kvöld. Hægt og rólega verð ég fullorðnari maður en þó ekki svo mikið eldri -finnst mér.

Ps. Það verkar sem mér hafi dottið heil mikið í hug þegar ég lét verða af því að byrja að skrifa.

Fyrstu jólaljósin á Sólvöllum

Það er kannski svolítið snemmt en nú loga fyrstu jólaljósin á Sólvöllum fyrir þessi jól. Ég sagð í bloggi í gær að ég mundi hengja gamla jólaseríu upp í dag. Það er auðvitað ekki hægt annað en standa við það sem ég segi í bloggi eða hvað? Annars er jú ekkert að marka allt bullið í mér. Þessi jólasería er að verða jólaserían víðförla. Við byrjuðum með hana í Hrísey þar sem hún fékk að gleðja fólk í mörg ár og svo fylgdi hún okkur til Sverdsjö í sænsku Dölunum. Þar var hún aldrei tekin upp úr kassanum. Síðan hafnaði hún i Falun og þar lýsti hún yfir svölunum hjá okkur jólin 1995 og 1996. Síðan á tveimur stöðum í Örebro í 14 ár. Hvað meira getur ein jólasería óskað sér og nú fær hún meira að segja að lýsa á nýju förstofunni á Sólvöllum.


Til að þetta verði reglulega fínt þarf ég að klæða meira á bakvíð seríuna en það verður ekki gert næstu dagana en vonandi fyrir jól. Í glugganum vinstra megin við forstofuna gefur að líta jólagardínur sem Valdís hengdi upp í dag meðan ég var í vinnunni.

Í morgun tæplega sjö þegar klukkan hringdi var ég langt inn í draumalandinu. Ég óskaði mér svo sannarlega að ég mætti sofa lengur og ég hafði á tilfinningunni að ég hefði sofið óvenju værum svefni. En það var ekkert að semja um, ég dreif mig fram og opnaði útihurðina til að gá til veðurs. Það hafði snjóað eina 15 sentimetra í nótt og ég hreinlega sá á snjónum að hann var bæði þurr og léttur. En það var vetrarlegt og eitthvað minnti mig á síðasta vetur. Þá ætlaði ég að athuga fimm daga spána á textavarpinu en um leið sá ég að það voru fréttir um veðurhorfur vetrarins. Veðurfræðingar hér tala nú um að veturinn í vetur muni ekki gefa eftir vetrarhörkunum í fyrra og ég las um ástæðuna fyrir því en skildi ekki flóknar skammstafanirnar. Ég lét mér því bara nægja að treysta því sem þeir segja og taka svo þeim vetri sem verður í boði.

Í framhaldi af þessu með veðurspána fór ég í það eftir jólaseríuuppsetninguna núna í kvöld að bera í hús meiri eldivið en ég hef gert áður í vetur. Þurr eldiviður hitar betur en rakur og svo þarf bara að skammta loftstreymið inn í kapisuna svo að hann brenni ekki of hratt upp. Það er gott að búa vel, meðal annars hvað varðar eldivið.

Í sjónvarpsdagskrá áðan var talað við sænska forsætisráðherrann. Hann var meðal annars spurður hvað hann hefði djammað með mörgum konum. Hann sagðist hafa hitt sína konu svo snemma að hann hefði eiginlega ekki haft tíma til að djamma með öðrum konum en henni. Annað svar gaf hann ekki.

Fyrr í kvöld var talað um fjármál ýmissa Evrópulanda. Í framhaldi af því vil ég segja að 1994 og áfram var niðurskurður í Svíþjóð undir óvinsælli fjármálastjórn Göran Persson álíka ofsafenginn og á Íslandi í dag. Fólki var sagt upp og vinnuálag var aukið á allar mögulegar starfsstéttir. Síðustu misseri og sérstaklega síðustu mánuði hafa Svíar lánað eða gefið loforð fyrir lánum til annarra þjóða sem eru í vandræðum fyrir meira en 50 miljarða sænskra króna. Inn í því er lán til Íslendinga sem hefur verið lagt fram að hálfu samkvæmt upplýsingum sænska fjármálaráðherrans. Þetta eru yfir 830 miljarðar íslenskra króna.

Það finnst ljós í myrkrinu og jólaseríur loga líka á kreppuárum. Það er ekki svo langur tími síðan við Valdís vorum að reyna að skilja fréttirnar af þessu þá nýkomin til Svíþjóðar. Síðar urðum við fullgildir þátttakendur í leiknum. Þetta kom áþreifanlegast niður á mér sem óöryggi með vinnu, en lengi vel gat komið að því að Vornesi yrði lokað í næsta mánuði eða svo. Vornesi var aldrei lokað og við hér í Svíþjóð virðumst vera orðin aflögufær samkvæmt ofanrituðu.

Afmælisdagur

Við fórum til Örebro í dag og sóttum jóladótið hennar Valdísar. Ég held að það hafi verið það verðmætasta fyrir hana á þessum degi, afmælisdeginum hennar. Ég sé hana í anda næstu dagana við að raða upp jólasveinunum sínum á kápuna yfir kamínunni, spá í hvar óróarnir eigi að vera, stilla upp ljósaenglunum, strauja smá dúka og eitthvað fleira sem ég ekki man í augnablikinu. Það er dálítill helgidómur fyrir hana að sýsla við þetta.

Ég fer í vinnu á morgun og svo sjaldan sem það skeður verður það dagvinna. Ég vil heldur ekki vinna kvöld eða nætur fyrr en það fer að birta af degi aftur. Maður á ekki að skilja konuna sína eina eftir heima þegar dimmi tíminn er mun lengri en dagtíminn. En alla vega, þegar ég kem heim seinni partinn á morgun hengi ég upp gömlu jólaseríuna, þessa með perum af venjulegri stærð, undir þakskeggið á forstofunni. Hún mun sóma sér vel þar. Gömlu jólaseríuna sagði ég. Já, hún er að verða 30 ára gömul og hún lýsti upp vesturhliðina á Sólvallagötu 3 í Hríseyu í mörg ár. Hún þekkir því marga Hríseyingana sem röltu Sólvallagötuna um jólaleytið serían sú og enn eru í henni litaðar perur. Það er hiss vegar orðið erfileikum háð að fá lituðu perurnar í verslunum hér.

Það eru fleira í jóladótinu hennar Valdísar komið til ára sinna. Jólagardínur, sem kannski er varla hægt að kalla jóladót, og eru frá 1973, verða mátaðar fyrir borðkróksgluggann og vonir standa til að það verði hægt að aðlaga þær glugganum á einhvern hátt.

Fólk hefur talað um það í dag á netinu að vonandi hafi ég stjanað við Valdísi. Hvað á ég nú að segja um það? Sem minnst. En ég veit að ef ég á að gera eitthvað sem hún gleðst verulega yfir, þá væri það að nýbyggingin komist svo langt fyrir jól að það verði komnir fleiri góðir gluggar fyrir stjörnur. Annars verðum við í Stokkhólmi hjá Rósu og fjölskyldu um jólin en Valdísi mundi þykja það helgispjöll ef hún mundi ekki gera jólalegt hér heima áður en við förum þangað.

Og svo aðeins um veðrið á 68. afmælisdegi Valdísar fiskimannsdóttur frá Hrísey sem á efri árum brá sér út í heim. Stinningskaldi og skafrenningur, sem ég nefndi líka í bloggi í gær, hafa verið viðloðandi í dag. Það er vægt frost en á þó að fara vaxandi. Það logar hæglátlega í kamínunni og afmælisbarnið les DAM sem er blað um góðar og slæmar fréttir af frægu fólki, ekki síst kóngafólki. Í blaðinu eru margar glæsilegar myndir af Victoríu krónprinsessu og honum Daníel hennar. Heimsins hamingjusama prinsessa segir undir einni myndinni en það er spurning hvort pabbin er eins hamingjusamur þessa dagana eftir stórfyrirsagnir síðustu daga, hvort svo sem þær eru sannar eða lognar. En það hróflar ekki við sálarró afmælisbarnsins á þessu kvöldi sem er búin að fá yfir fimmtíu afmæliskveðjur og mörg símtöl. Og fyrir mig er þessi dagur að háttatíma kominn þar sem ég ætla að vera unglegur og léttur á fæti í vinnunni á morgun.

Samtíningur

Ég sagði í bloggi í gær að ég hefði læðst út um áttaleytið til að mála gerefti. Áður en ég náði að byrja heyrði ég flugvélagný sem ég þekkti að kæmi frá stórri vél. Ég fór út og leit upp því að ég við höfum gaman af að horfa á þessa risa líða hægt hér yfir í lágflugi að flugvellinum sem er skammt undan. Það var lágskýjað og fyrst grillti í vélina af og til en nóg til að sjá að liturinn var óvingjarnlega grár og það voru engir gluggar á hliðunum. Flutningavél. Það var spurning hvort hún var að sækja drápsvélar sem eru framleiddar sem varnarvopn upp í Värmland eða hvort hún var að sækja hjálpargögn sem fara ættu til einhverra af síðustu hamfarasvæðunum.

Á sunnudaginn var læddist ég líka út en fór inn í tíð til að sjá og hlusta á sjónvarpsmessuna með Valdísi. Messan hafði yfirskriftina alkohólismi. Presturinn sem predikaði er óvirkur alkohólisti og hann snerti mig mjög með ræðu sinni. Ég ætlaði að blogga um það en svo ákvað ég að nota það frekar um miðjan janúar af vissri ástæðu. Ég skrifa þetta núna til að vera minnugur þess þegar þar að kemur.

Svo fór ég aftur út að vinna. Mér var litið upp í þakið og sá þar hvernig plastið hafði verið rifið af rafvirkjanum til að koma rafmagnsröri milli herbergja. Ég hafði ekki tekið eftir þessari skemmd áður og varð hálf argur vegna þess að það tekur tíma að laga svona. Við Anders vorum búnir að vanda okkur mikið við að plasta allt innan og svo kom rafvirki og reif þjösnalega göt á plastið. En að nýlokinni messu mátti ég ekki fara í fýlu svo að ég fór að hugsa um annað.

Með Patrik rafvirkja var ungur maður, lærlingur að nafni Alex. Ég hafði séð hann áður þar sem hann vann í málningarverslun í Fjugesta í sumar. Annar eigenda þessarar verslunar heitir Per og hefur verið mér hjálplegur eins og allt fólk sem vinnur í þeirri verslun. Eitt sinn þegar ég var að koma þangað fyrir nokkrum árum stóð Per þessi út á bílastæðinu og fyrir framan hann stóð svo sem tólf ára stúlka sem hlaut að vera dóttir hans. Hún var á fullu að semja um eitthvað við pabba sinn og af einhverri ástæðu höfðu þau farið út úr versluninni til að draga sig undan. Þegar ég gekk framhjá sagði ég við stúlkuna: þú átt reglulega fínan pabba. Hún leit undrandi á mig, þennan undarlega gamla kall sem blandaði sér inn í þeirra mál á þennan hátt. Svo hallaði hún höfði sínu í hálsakot pabba síns og sagði feimin að hún vissi það.

Þessi stúlka er systir Alex. Þegar við borðuðum svo hádegismat hér heima komu þeir inn með nestistöskurnar sínar, Alex og Patrik, og borðu með okkur. Þá sagði ég þeim frá þessu og þegar ég var hálfnaður með frásögnina stoppaði ég um stund eins og ég væri hættur og hélt bara áfram að borða. Þá varð Alex hissa og skildi ekki neitt í neinu og svo leit hann ráðleysislega á Patrik og úr augnaráði hans skein þessi bæn: Patrik, hjálpaðu mér, hvað er kallinn eiginlega að fara? Svo hélt ég áfram og lauk frásögninni. Þá gat Alex ekki leynt því hvað honum þótti vænt um bæði systur sína og pabba. Hann er sérstaklega prúður og þægilegur strákur -og ég segi sérstaklega.

Ég er ekki vitund reiður út í rafvirkjann, ég nenni því ekki. Hann er kominn í vetrarfrí til Tælands og ég óska honum góðra daga. Hann var alveg svakalega duglegur þegar hann var hér að vinna um daginn. Á morgun kaupi ég sérstakt límband sem maður notar til að gera við svona skemmdir.

Ég er búinn að hlaupa úr einu í annað í hálfgerðum minnispunktafærslum. Það er komið þriðjudagskvöld og það er búinn að vera hryssingslegur dagur. Fyrst í morgun þegar ég leit út var töluverður norðvestan blástur og hryssingslegur skafrenningur. Af og til í allan dag hefur verið skafrenningur og það er eiginlega eins og vetur sé ákveðið að boða komu sína. Við Valdís erum sammála um að við höfum ekki áður upplifað hér í Svíþjóð svona hryssingslegan skafrenning sem hefur verið í dag og enn gnauðar vindurinn úti.

Í morgun læddist ég út

Í morgun um áttaleytið læddist ég út í nýbygginguna til að mála utanhússgerefti á bæði glugga og dyr. Það var hljótt þarna úti og gott að koma inn í ylinn þar sem sýndi virkilega að húsið var orðið að húsi. Svo byrjaði ég að mála og með eitt gereftið í höndunum hugsaði ég hversu mikið fljótari ég hefði verið með þennan þátt byggingarinnar ef ég hefði farið hefðbundnari leið. Þá hefði ég sett gluggana slétt við útsíðuna á panelnum og þá hefði bara verið annað en negla slétt borð á gluggann utanverðan annnars vegar og útsíðuna á panelnum hins vegar. Og svo bara klappað og klárt.

Eigum við ekki að setja gluggana slétt við útsíðuna á panelnum spurði Anders einhvern tíma. Ég bað hann að koma og sjá glugga sem ég hafði sett í sjálfur nokkrum vikum áður og hafði gluggann 1,5 sm innan við panelinn. Þá var Kristinn dóttursonur með og hjálpaði. Svo sýndi ég honum glugga sem ég gekk frá 2007 og spurði hann hvort þetta væri ekki viðurkennt af honum. Eftir svolitla þögn sagði hann að kanturinn við gluggann yrði auðvitað mikið sterkari svona. Svo settum við alla gluggana í á þennan hátt.


Það var farið að halla að hausti og komið fram yfir hádegi á föstudegi þegar Anders lagði af stað heim. Á leið út í bílinn sagði hann að það væri nú gott fyrir mig að vera tilbúin með gereftin i tíma, kaupa þau og grunnmála. Ég fór með það sama í verslun þegar hann var farinn og með kerruna hringlandi aftan í bílnum. Ég keypti efni í gereftin, panel og nokkrar þvingur. Þegar ég kom heim byrjað ég að smíða gereftin. Saga lista, líma, bíða eftir að límið þornaði, líma meira, saga þau í breidd, hefla snið á brúnirnar, líma meira og svo framvegis. Svo byrjaði ég að grunnmála. Meðan ég vann þetta með óvenju miklu hraði grunnmálaði Valdís 150 metra af panelnum sem ég keypti um leið og efnið í gereftin. Það var svolítill andvari þessa helgi og hefilspænirnir sem komu þegar ég heflaði brúnirnar safnaðist saman á nokkrum stöðum í mjúkum hnoðrum.

Þegar Anders kom á mánudeginum sá hann að gereftin voru tilbúin. Svo leit hann á hnoðrana og spurði hvort ég hefði heflað brúnirnar. Já, auðvitað hafði ég gert það. Svo byrjaði hann að vinna.

Á myndinni sjáum við húsið að framanverðu þegar ég var búinn að fella gereftin á gluggana og tylla þeim lauslega upp utan stykkin undir glugga og hurð. Þau ætla ég að fella á seinna. Í gær tók ég svo öll gereftin niður aftur til að grunna alla sagaða enda og síðan er ég að mála eina umferð áður en ég festi þau endanlega. Alger bilun -eða ekki?


Þessar hugleiðingar runnu gegnum huga minn þarna í morgun þegar ég var að grunnmála þessa enda. Þá sótti ég myndavlina. Endinn sem er nær okkur er eitthvað loðinn. Skyldu þetta vera vinnubrögðin mín? Nei, sandpappírinn lá á borðinu og svona enda snyrti ég auðvitað áður en ég mála. En allt þetta sem rann gegnum huga minn þegar ég horfði á þessa enda fékk mig til að hugsa sem svo að slétt borð hefði verið afar mikið einfaldara og fljótlegra. En það hefði ekki verið nokkurn skapaðan hlut gaman. Það hefði bara verið köllun á hraða.


Svo fór ég inn í svefnherbergið sem byggt var nýlega, opnaði annann gluggann af tveimur sem eru hlið við hlið, teygði mig út og tók þessa mynd. Það hefði verið einfaldast fyrir mig að taka myndina utan frá en ég valdi að taka hana úr ylnum inni í góðu húsi. Árið 2007 setti ég þessi gerefti á og það er eins og þau séu gróin við gluggann. Þegar menn negla bara slétta fjöl geiflast hún á sólríkum sumrum og það koma rifur sem verða vetvangur fyrir vatn og mosa. Nútímaaðferðir leyfa ekki svona vinnubrögð eins og ég stunda vegna þess að það er ekki arðbært. En sem hálfvinnandi ellilífeyrisþegi finnst mér sem ég geti vel látið þetta eftir mér ásamt mörgum öðrum verkum sem ég get unnið af alúð. Ég hef bloggað um svona áður og þá notaði ég orðið dyggð. Það sem ég er að tala um núna er líka dyggð.

Ég vil svo gjarnan, ef til dæmis ættingjar eða vinir koma í heimsókn á Sólvelli, að við getum setst út í kvöldkyrrðina þegar sólin er að taka sig niður fyrir Kílsfjöllin og fengið okkur kaffisopa, eða saft, og kannski litla köku. Þá vil ég geta hvarflað auga til hússins og litið á gerefti, glugga eða panelfjöl
án þess að minnast þess að þarna bakvið leynist djúpt, ljótt hamarfar vegna þess að ég varð að dúndra hamrinum hraustlega til að fá eitthvað til að falla eins og það átti að gera. Með alúðinni þarf ekki að dúndra hamrinum en þá kostar það tímann sem nútðiðin er svo fátæk af. Ég hef nefnt Anders smið og ég hef ekki gert það í slæmri meiningu. En Anders er fórnarlamb þess tíma sem ekki gefur möguleika á að vinna eins og ég geri. Ef hann gerði það fengi hann enga vinnu.

Meðan ég var við þessi verk var Valdís inn í Örebro að kaupa jólagjafir til þeirra sem okkur þykir vænt um. Að hún vildi gera þetta einsömul gaf mér tíma til að sýna húsinu okkar alúð einn dag í viðbót. Svo þegar ég var búinn að sækja hana fengum við okkur kaffisopa og svo sýndi hún mér hvað hún hafði keypt. Þegar ég skoðaði það hugsaði ég sem svo að ef ég hefði verið með henni hefði henni sjálfsagt ekki tekist svona vel til. Við vorum nú bæði í hlutverkum í dag sem best hentuðu hvoru fyrir sig. Þetta er búinn að vera góður dagur og ennþá betri varð hann þegar Valdís kallaði á mig í mat og hún bar fram það sem við köllum kjötkökur Valdísar.

Ps. Ég er ekki búinn að klæða upp í risið yfir veröndinni við innganginn. Við erum ekki alveg búin að hanna hvernig það á að vera og það hefur heldur ekki verið tími fyrir það ennþá.

50 ár

Ég var að tala um það í bloggi í gær að ég mundi ljóstra einhverju upp í dag. Raunverulega var ég bara að gefa í skin að við ættum leyndarmál. En sannleikurinn er bara sá að við eigum ósköp lítið af leyndarmálum. Það er nefnilega lang einfaldast fyrir farsælt líf.

En nú skal ég koma mér að efninu. Þann 19.nóvember 1960 vorum við Valdís stödd í herberginu sem ég leigði af henni Guðrúnu frænku minni frá Fagurhólsmýri. Þetta var í Skaftahlíð 16 og herbergisglugginn vissi móti suðri og sneri út að Miklubraut rétt austan við Lönguhlíðina. Ég var 18 ára og Valdís átti fimm daga í að verða 18 ára líka. Í litlum pakka höfðum við trúlofunarhringa og vorum að hugsa um að setja þá upp á afmælisdaginn hennar Valdísar. Nú var það svo að við vorum óþolinmóð og áttum erfitt með að bíða þannig að við ákváðum að setja þá bara upp þennan dag, þann 19. nóvember. Og svo gerðum við.

Í dag, þann 19. nóvember, nákvæmlega 50 árum eftir trúlofunina, á sér stað annar atburður. Hún Rósa dóttir okkar sem varði doktorsritgerð sína þann 4. júní í vor er nú á þessu kvöldi stödd í Borgarhúsi Stokkhólms (Stockholms stadshus) og tekur við ákveðna athöfn á móti doktorsskýrteini sínu. Hún er klædd íslenskum upphlut sem góður fulltrúi Íslands.


Ég hélt að ég yrði búinn að fá mynd af Rósu á upphlutnum við þessa athöfn en svo varð ekki. En í staðinn birti ég mynd af Borgarhúsi Stokkhólms sem stendur á Kungsholmen, einni af mörgum eyjum Stokkhólms, og svo sem einn kílometer að baki borgarhúsinu búa Rósa, Pétur og Hannes Guðjón


Og hér er önnur mynd af borgarhúsinu. Í þessu húsi eru Nóbelsverðlaunin afhent og margar aðrar hátíðir og veislur eru haldnar þar. Við Valdís höfum skoðað þetta hús með leiðsögumanni og þar er margt að sjá.

Já, 19. nóvember er sérstaklega merkilegur á 50 ára fresti.

Nú má veturinn koma

Hann talaði um það blikksmiðurinn hann Göran í morgun að það væri nauðsynlegt að hafa eitthvað gott að sýsla við svo að maður héldi sér í formi. Hann talaði líka um að hann ætlaði ekkert að hætta að vinna þegar hann verður ellilífeysrisþegi sem hann verður eftir tvö ár. En hann ætli hins vegar að minnka við sig og skoða sig um hérna innanlands. Þegar við töluðum um þetta vorum við að enda við að borða heitar vöfflur hjá Valdísi, en hún lætur engan fara hungraðan héðan sem hefur verið okkur til hjálpar. Þeir minnast hennar örugglega fyrir ilmandi baksturslykt og heitar vöfflur eða pönnukökur allir sem hafa komið hér til vinnu frá því í vor.

Þegar Göran var búinn að ganga frá sínu í morgun gengum við inn til að fá kaffið hjá Valdísi. Það var einhvern veginn hráslagalega kalt þó að að væri lítið frost og þegar við komum inn í þvottahúsið sagði Göran að hér væri hlýtt og gott og móðir væri greinilega búin að kynda vel. Það var líka satt hjá honum. Meðan við vorum að borða vöfflurnar sagði hann allt í einu að konan sín væri með krabbamein og væri í lyfjameðferð og færi brátt í geislameðferð líka. Þetta var þegar byrjað þegar hann var hjá okkur fyrr í haust en hann er hress og þróttmikill þessi kall sem er fimm árum yngri en við og lætur ekki bugast.


Ég ætlaði að taka mynd af honum við vinnu en var of seinn. Hann var nákvæmlega búinn að ljúka erindinu þegar ég kom með myndavélina. Er þér ekki kalt á höndunum spurði Göran en ég sagði svo ekki vera. Hann var með kaldan málm í höndunum en ég með þurran smíðavið svo að það var ekki saman að jafna.


Svona göngum við frá niðurföllum hér í landi þegar húsin eru með hvít horn sagði blikksmiðurinn. Hann hafði líka sagt áður að ég gæti samt ráðið því hvernig ég mundi vilja gera.


Svona gerði ég á fyrri viðbyggingunni en ég styð Göran, hans aðferð er mikið snotrari. Ég hefði nú átt að vera búinn að sjá þetta á sænskum húsum sjálfur en gerði ei. Ég á örugglega eftir að breyta niðurföllunum mínum og þá hækkar húsið sjálfsagt í verði.


Svo þegar ég fór að príla í stiga kallaði ég á Valdísi og bað hana að taka myndir af mér. Svona barnalegur er ég. Ég er svolítið moðpokalegur þarna í stiganum en það er eflaust rétt að það heldur ellilífeyrisþega í formi að fást við allt mögulegt og þar með að brölta í stiga.


Til og með að skrönglast upp á þaki heldur manni í formi og ekki hvað minnst. Þarna er ég að enda við að ganga frá svörtum blikkrenningum, þar til gerðum, sem loka bilinu milli vindskeiðar og þakpönnu. Þetta er eiginlega í verkahring blikksmiðsins en ég skildi vel á honum að hann vildi láta mér þetta eftir og spara mér þannig nokkrar krónur. Þar með er þak fullfrágengið og það má snjóa og snjóa mikið og rigna mikið líka og inni heldur samt áfram að vera þurrt og hlýtt. Sólvellir eru tilbúnir fyrir vetrarkomu.

Með gat á hnakkanum

Ég leit í tölvuna í morgun og sá þá að Páll bróðir á afmlæli í dag. Þó að ég viti kannski að 18. nóvember er afmælisdagurinn hans þarf ég að sjá eitthvað sem minnir mig á það. Þannig er það bara með mig, ég er lélegur að muna eftir afmælisdögum. Konan mín hins vegar veit afmælisdaga einhvers ótrúlegs fjölda fólks.

En þegar ég hugsaði um afmælisdag Páls þarna í morgun og að hann er elsti bróðir minn minntist ég atburðar sem er býsna gamall. Við vorum á leið út í hlöðu á Kálfafelli og fórum þá framhjá smiðjunni gömlu og svo yfir vegtroðning sem lá bakvið smiðjuna. Þarna í veginum var all stór steinn sem mjúklega ávalur stóð svolítið upp úr veginum. Rétt þegar við vorum komnir framhjá steininum varð mér fótaskortur og ég datt aftur yfir mig og lenti með hnakkann á steininum.

Páll tók mig upp og bar mig inn til mömmu og þegar við komum inn sagði hann að ég hefði fengið gat á hnakkann. ég vissi að það blæddi úr hnakkanum á mér en að vera með gat á hnakkanum fannst mér afar skrýtið. Hvernig eiginlega skyldi það líta út þegar einhver hefði fengið gat á hnakkann? Minningar mínar um þennan atburð ná ekki lengra en þetta að ég velti því fyrir mér hvernig það væri að vera með gat á hnakkanum. Þarna var Páll bara unglingur en mér fannst sem það væri fullorðinn maður sem tók mig upp og bar mig inn.

Ég er að tala um atburð sem átti sér stað fyrir meira en 60 árum og ég er sjálfsagt einn um að muna eftir honum. Engir tveir geta sagt á sama hátt frá sama atburði eftir svo langan tíma, jafnvel þótt báðir minnist hans. En þegar ég mundi í morgun eftir þessum orðum um gat á hnakkanum fannst mér næstum sem ég væri með um atburðinn öðru sinni. Að ég heyrði orðin sögð og að ég upplifði spurningu mína um það hvað það þýddi að vera með gat á hnakkanum.

Nú er ég búinn að tala svo mikið um gat á hnakkanum að ég ætla að snúa mér að öðru. Á morgun kemur Göran blikksmiður til að ljúka frágangi á niðurföllum við þakrennurnar á Sólvöllum ásamt að hjálpa mér með smálítið fleira, eða alla vega að leiðbeina mér um hvernig ég eigi að framkvæma það. Það er nefnilega þannig að maður eins og ég sem á sínum tíma var smiður út á landi hefur gert ýmislegt sem ekki tilheyrði sjálfum trésmíðunum. Má þar nefna að ganga frá þakrennum. Ég gekk líka sjálfur frá þakrennunum á fyrri viðbyggingu á Sólvöllum og einnig á Sólvallagötu 3 í Hrísey fyrir 37 eða 38 árum.

En nú í þetta skiptið fannst mér best að vera ekkert að glíma við rennurnar sjálfur og Anders smiður benti mér á þennan blikksmið. Það var gaman að sjá hann framkvæma þetta og ég bloggaði um það á sínum tíma. Svo einfalt verk sem mér fannst það í rauninni þó að ég vissi að ég hefði verið lengi að framkvæma það sjálfur. Svo þegar ég horfði á Göran sá ég að ég hafði ekki verið faglegur þegar ég gerði þetta sjálfur. Ég spurði hann líka út í fleiri hluti og komst að því að ég kann ekkert í blikksmíði. Það verður vandað til verka í þetta skiptið. Svíar hafa sinn hátt á, til dæmis hvar niðurfall á að vera við húshorn en þetta þverbraut ég. Þú mátt gera það á þinn hátt, sagði Göran, en svo gerum við nú ekki hér.

Vissa daga verða miklar útlitsbreytingar á byggingu vorri og morgundagurinn verður einn af slíkum dögum. Morgundagurinn kemur líka til með að bera ýmislegt fleira í skauti sínu en enn svo lengi eru það leyndarmál. Valdís sagði áðan hvort ég vildi ekki blogga eða bara leggja mig. Ég valdi að blogga fyrst og á morgun verð ég að blogga líka svo fremri að ekkert sérstakt komi í veg fyrir það.

Hvar var Óli Lokbrá?

Ég hélt að Óli Lokbrá hefði verið hér allt um kring í gærkvöldi en svo vaknaði ég klukkan hálf fimm í morgun við vondan draum. Mig dreymdi að ég var í vinnunni og missti allt í einu tökin á því sem ég var að gera og ég gerði mér grein fyrir því að heilinn væri á hámarkshraða af stressi. Síðan þurfti ég að nota símaskrána en það var ekki nokkur leið fyrir mig að finna þar nokkurn skapaðan hlut í stafrófsröð. Ég bara gat það alls ekki. Ég sat þarna með símaskrána í höndunum og gerði mér fulla grein fyrir því að heilinn var alveg kominn í spinn og ég gat ekki leyst einföldustu verkefni. Eitt var þó ljóst, ég gerði mér grein fyrir ástandi mínu. Mér varð illa órótt í draumnum og þar með vaknaði ég.

Ég get ekki neitað því að óróleikinn yfirgaf mig ekki nærri strax þó að ég hefði vaknað en eftir ferð fram á bað og stórt glas af vatni kom smám saman höfgi yfir mig og svo leið ég inn í draumlandið en hef þó hef ekki minni um frekari drauma. Tveimur tímum seinna vaknaði ég á ný og virtist úthvíldur. Samt verð ég að viðurkenna, og takið nú eftir að "ég" verð að viðurkenna, að ég hef verið svolítið stressaður í allan dag. Rafvirkinn var hér nokkra tíma og hann vann á fullu eins og þeir iðnaðarmenn sem hafa hjálpað okkur undanfarið. Það er nú meiri hraðinn á þessum mönnum. Við þurfum ekki að kvarta undan því að þeir standi reykjandi undir húsvegg í vinnutímanum. En hafi rafvirkin verið stressaður í dag var það vegna tímaleysis en mitt stress var bara einhver dægurfluga -eða hvað?

---------------------------

Þarna hætti ég að blogga í gær, föstudag, en nú er komið laugardagskvöld. Mér fannst í gær sem ég bullað svo rosalega og ég þoldi ekki rausið í sjálfum mér. Ég lét þó vera að henda því. Ég dreif mig í sturtu, fór í betri föt og svo borðaði ég væna rjómatertusneið sem Valdís keypti inn í Örebro þar sem hún hafði verið á kaffihúsi ásamt nokkrum vinkonum. Og hvað rjómatertan, sem var sett saman úr mörgum lögum af mjúkum, sætum, feitum og vel smakkandi lögum, bráðnaði ljúflega í munni. Ég ætlaði fyrst að borða bara helminginn en fljótlega fór ég að óska þess að hún hefði verið helmingi stærri. Svo var hún búin.

Ég horfði svolítið á sjónvarp, las fréttir í tölvunni, háttaði snemma og las í bókinni hans Martins Lönnebo um Hjartans lykla. Þá allt í einu datt mér í hug að það hefði verið lán að ég birti ekki það sem ég hafði bloggað. Ég líklega gæti nú þagað yfir því að dagurinn hefði verið mér erfiður. Svo mundi ég eftir því að ég hefði verið alinn upp við það að maður ætti ekki að skrökva og ef ég segi bara frá því sem gengur mér afbragðs vel, þá er ég nú að nota hljóða lygi. Svo fór ég aðeins framar í bókina og tók fram mynd af mér sem ég hef notað sem bókmerki í þessa bók.

Skrýtið að nota þessa mynd sem bókmerkið í Hjartans lyklar. Þessi mynd er frá árum sem ég er ekki stoltur af og ég mundi ekki sýna hana hverjum sem væri. Hún er af manni sem ég þekki ekki í dag. Ég skal ekki ljúga, ég skal ekki aftur til áranna sem ég er ekki stoltur af. Svo sofnaði ég.

Svo svaf ég og svaf -og svaf. Og svo var kominn nýr dagur, dagurinn i dag. Það var einhvern veginn annar ilmur i lofti en í gærmorgun og ég gerði í því að byrja þennan dag vel. Ég fór nokkuð seint á fætur og ég gekk að tölvunni og hlustaði á hann frænda minn þar sem hann söng fyrir tigið fólk á Edinborgarhátíðinni í sumar. Duglegur hann frændi minn. Ekki óraði mig fyrir að þessi maður væri elskur að söng og svo bara allt í einu er hann rúmlega þrítugur fluttur til Glasgow til að læra að syngja. Ja hérna www.bjartmar.is. Ég hef alltaf öðru hvoru undanfarið hlustað á þetta og verður gott af því.

Í dag hefur allt leikið i höndunum á mér þökk sé að ég hagaði mér betur í gærkvöldi en í fyrradag. Í fyrradag hafði ég verið að allan daginn og svo vissi ég að rafvirkinn ætlaði að koma aftur daginn eftir. Því fór ég út aftur eftir kvöldmat og var að fram undir hálftíu til að vera vel búinn undir komu hans. Svoleiðis á ekki 68 ára kall að haga sér. Ég vissi það en ég gerði það samt. Ef maður gefur alveg skít í andlegu hliðina og leggur sig alveg flatan í það efnislega verður afurðin eins og gærdagurinn sem ég skrifaði um í gær og gafst svo upp við.

Eftir sjónvarpsmessu í fyrramálið ætla ég að bregða mér í vinnugallann og velja mér skemmtilegt verkefni að vinna við. Ég ætla að byrja að sníða og fella gerefti á nýju gluggana. Það verður gaman að ganga nokkur skref aftur á bak eftir fyrsta gluggann og sjá breytinguna. Eftir annan gluggann líka og þann þriðja. Svo banka ég á glugga og bið Valdísi að koma út og hjálpa mér. Svo þegar hún kemur bið ég hana að koma og sjá líka. Svo horfum við bæði á nýju gereftin og virðum fyrir okkur breytinguna.

Fyrsti raunlegi snjór vetrarins

Það var búið að liggja í loftinu í nokkra daga að það mundi byrja að snjóa aðfaranótt þriðjudags. Og einmitt, það byrjaði að snjóa í nótt. En afskaplega lítið fyrstu tímana. Ég þurfti að fara með Valdísi til Fjugesta til sykursýkishjúkrinarfræðingsins á heilsugæslunni og var með sumardekkin undir bílnum. En það var allt í lagi með þá ferð. Það litla sem hafði komið af snjó hafði blásið burtu. Í gær var mikið talað um í útvarpi og sjónvarpi að ýmist fyrsti snjóstormur vetrarins eða fyrsta snjóóveður vetrarins væri að ganga í garð. Um fimmleytið í morgun vaknaði ég og heyrði veðurhljóð. Þar sem Fjugestaferðin stóð fyrir dyrum gat ég ekki látið vera að líta út og það var logn og ekki byrjað að snjóa. Hins vegar var talsvert veðurhljóð yfir skóginum, þeim skógi sem skýlir okkur á Sólvöllum í Krekklingesókn fyrir veðrum allt frá suðaustri til norðnorðvesturs og dregur mjög úr veðrum frá suðri einnig.

Þegar við komum út á opin akursvæðin á leið til Fjugesta heyrðist veðurhljóð á hægra framhorni bílsins og það fannst líka aðeins á bílnum að það blés. Þetta staðfesti hversu mikið 20 metra hár skógur skýlir í vindi. Það var nefnilega logn heima í fimm km fjarlægð.

Meðan Valdís var á heilsugæslunni fór ég í málningarvpruverslun í Fjugesta, ekki til að kaupa málningu, heldur til að kaupa skrúfur í hurðarhandföng. Þau selja nefnilega býsna margt í þessari góðu málningarvöruverslun. Þessi hurðarhandföng hafa sína sögu. Þegar við keyptum handföng á aðalútihurðina í Sólvallagötunni í Hrísey keyptum við fínustu handföng sem við áttum völ á. Mikið vorum við hrifin en að lokum komust þau fínu handföng upp í vana. Þrjátíu árum síðar keyptum við Sólvelli með því einfalda húsi sem eigninni fylgdi. En viti menn! Að því er við best gátum séð voru handföngin eins og handföngin í Sólvallagötunni. Nú er komin ný hurð sem aðalinngangur á Sólvöllum og auðvitað verða þessi frábæru handföng höfð áfram. Skrúfurnar voru bara of stuttar til að ná í gegnum nýju hurðina og þess vegna þurfti nýjar.

Síðan lá leið mín á heilsugæsluna aftur þar sem ég ætlaði að bíða eftir Valdísi. Eftir nokkra stund inni hjá Ulrika hjúkrunarfræðingi kom hún út létt á fæti eins og fermingarstelpa. Hún fékk mjög góða skoðun og Ulrika sagði henni að það væri vegna þess að hún gerði rétta hluti, það væri engin önnur en hún sjálf sem gæti gert réttu hlutina. Valdís var ánægð með þetta og það má hún vera. Þegar sykursýki kemst í jafnvægi kemst margt annað í jafnvægi. Þannig er þessi staða í dag. Valdísi líkar mun betur við heilsugæsluna í Fjugesta en þá sem við höfðum í Örebro áður.

Stuttu eftir heimkomuna fór að snjóa fyrir alvöru og nokkru eftir heimkomuna var hringt frá Fordverkstæðinu í Örebro og mér tilkynnt að nýju vetrardekkin tvö væru komin á felgurnar og ég gæti sótt hjólin eða komið og látið setja þau undir. En þá var ekki lengur sumardekkjafæri á vegunum þannig að frekari ferðalög voru afskrifuð á þessum degi. Ég fór með vetrarhjólin til þeirra í síðustu viku en þau urðu fyrst tilbúin í dag. Mér fannst ég fara tímanlega með þau en auðvitað hefði ég þó getað farið ennþá fyrr.

Það er að verða áliðið og það virðist vera hætt að snjóa. Ætli það sé ekki fimmtán til tuttugu sendimetra jafnfallinn snjór. Mikki bóndi var líka að fara með snjómokstursvélina sína eftir veginum með brauki og bramli. Það eru margir búnir að meiða sig í umferðinni í dag, sumir búnir að velta fínu bílunum sínum eða fá skrámur á þá. Hér datt á hin fullkomna kyrrð eftir að Mikki ruddi veginn og hér stefnir allt í samveru með Óla Lokbrá.

Allraheilagramessa

Það er allraheilagramessa, jörðin er silfruð af frosthrími og kyrrðin í sveitinni er nánast fullkomin. Svíar taka þessa helgi nokkuð alvarlega, fara hljóðlegar, setja kerti á leiði og i minnislundi kirkjugarða. Kertið sem Valdís kveikti á í gærkvöldi er skógarmegin við húsið og lifir enn. Það mun væntanlega lifa alla helgina. Ég var ákveðinn í því þegar í gær að taka morguninn rólega og gera ekkert fyrr en eftir messu og þá verk sem ekki skapa mikinn hávaða. Um átta leytið teygði ég mig eftir bók sem heitir Hjartans lyklar og er skrifuð af gamla biskupnum Martin Lönnebo. Ég sló upp af handahófi og hafnaði á síðu 120 og las nokkrar línur þar sem Martin skrifar um kærleikann og segir eftirfarandi:

Kærleikurinn er kjarkurinn og krafturinn í hinum niðandi flúðum og hinum dynjandi fossi, hann hefur styrk sinn í að láta sig falla móti þungamiðju sinni. Kraftur vatnsins fyrirfinnst ekki í lónunum heldur í fossunum: barn fæðist, þú neitar að beygja þig fyrir ofureflinu, þú fellur á kné fyrir kærleikanum, þú neitar að búsetja þig í smáatriðunum þar sem maður á að hugsa i vinsældum, taka eftir litlu, kaupa hamingju, þagga niður samviskuna. Þú tekur að þér mikilvægt verkefni, annast það sem þér ber, vökvar blómin, ferð út með hundinn og tekur hinar stóru ákvarðanir.

Athygli mín var vakin svo ég hélt áfram að lesa og síðan segir hann:

Kærleikurinn fyllir tómleikann, hann gerir engan myrkfælinn, hann gefur lyddum kjark, hann sendir hlaupara með boðskap: Þú ert.

Ennfremur:

Kærleikurinn er alheimsins fallegasta blóm, já, Fegurðin sjálf. Hann er stolthet skrúðgarðins, gróðursettur í miðju Alheims, í blómabeði nálægt öxl hins Stærsta, englarnir læðast fram til að finna þess sæla ilm.

Og áfram:

Kærleikurinn er einfaldur, montar sig ekki, hann hreykir sér ekki, hann trúir öllu, hann stendur út með allt, hann krefst einskis, hann upphefur það litla.

Og að lokum:

Kærleikurinn er sól, hann lýsir yfir vonda og góða, hann er regn sem fellur yfir réttláta og rangláta, hinn guðdómlegi kærleikur er sameinaður með óendanleika alheimsins.

Ég hélt bókinni í hendinni nokkra stund eftir að ég hafði lesið einar fimm blaðsíður og var hugsi. Vissulega hafði ég aðeins stundað það efnislega lengi og látið hjá líða að sinna því andlega. Síðan fór ég fram og kveikti upp í kamínunni. Vegna ákveðins veðurlags sló reyknum niður og það varð mikill reykur inni. Það var kuldatappi í skorsteininum. Ég sótti dagblað með hraði, böglaði einni opnu saman og setti yfir logann og svo annarri opnu. Þar með lokaði ég kamínunni og leit svo í kringum mig. Það var mikill reykur inni en nú sá ég að kuldatappinn hafði gefið sig í skorsteininum. Ég setti loftræstinguna í gang og var ekki ánægður með það sem hafði skeð. Og einmitt þarna með höfuðið inn í miðju reykjarkófi hugsaði ég: Ef ég hefði ekki verið búinn að lesa þennan texta hefði ég trúlega hreytt út út mér alla vega einu kröftugu blótsyrði.

Síðan fór ég inn í svefnherbergið og þegar ég hafði rétt lokað hurðinni byrjaði reykskynjarinn að íla frammi með óþolandi hávaða. Ég fór fram, tók hann niður, batteríið úr og lagði hann á stól. Ekki þá heldur hreytti ég út úr mér blótsyrði. Þakka þér fyrir Martin. Núna, nokkrum mínútum síðar, er reykurinn horfinn og lyktin nánast líka.

-----------------------------------------------

Meira skrifaði ég ekki í morgun. Við horfðum á messuna, ég við matarborðið borðandi morgunverðinn, en Valdís sat hins vegar sem negld niður framan við sjónvarpið og haggaðist ekki fyrr en messunni var lokið. Stundum söng hún með. Það voru ekki bara sálmar sungnir, það voru vel flutt heilu söngverkin. Messan var kaþólsk. Presturinn talaði heil mikið um kærleikann eins og Martin hafði gert í textanum sem ég las. Hann talaði líka um að það sé erfitt að skilja heilagleikann og að það væri einmitt þess vegna sem hann heillar svo mikið. Það var athyglisvert að heyra. Hann talaði líka um það að í vor tið sé mikilvægara að hafa en að vera. Þetta var líka í textanum hans Martins. Merkilegt þetta og ég sem opnaði bókina af handahófi.

Ég kem til með að sinna hinu efnislega í fullu starfi enn um sinn, það er að segja byggingarvinnunni. En ég á mér draum og þann draum dreymdi mig líka í morgun að loknum lestrinum. Þegar okkur tekst að ljúka byggingarframkvæmdunum með aðstoð Anders, þá vil ég kaupa stóla í Varsam, en Varsam er verslun sem selur stóla sem henta ellilífeyrisþegum vel. Þeir hafa arma sem gera auðvelt að setjast niður í þá og að standa upp úr þeim og þeir eru góðir fyrir bókalestur. Draumurinn er að geta tekið góðan tíma til að sitja í Varsamstól í nýbyggðu, góðu húsi með bókina hans Martins og aðrar svipaðar bækur í höndum og orðabók á litlu borði við hliðina. Síðan dreymir mig um að lesa, lesa og nota orðabókina eftir þörfum. Ég varð þess nefnilega að vísari í morgun að orðalagið hans Martins er þess eðlis að ég þarf að taka mig á og læra meiri sænsku.

Svo get ég lutað mér móti stólbakinu og hugsað; hvað meinti hann nú með þessu, hvað meinar hann nú hér. En sannleikurinn er sá að ef maður les eitthvað sem erfitt er að skilja og gefst ekki upp, þá allt í einu opnast skilningurinn og málið verður einfalt. Þetta heitir andlegheit. Ljósið sem Valdís kveikti í gærkvöldi til minningar um þá nánu ættingja og vini sem hafa kvatt jarðlífið lifir enn. Það mun væntanlega lifa nóttina einnig og lýsa í morgunskímunni í fyrramálið þegar við förum á stjá.
RSS 2.0