Hvar var Óli Lokbrá?

Ég hélt að Óli Lokbrá hefði verið hér allt um kring í gærkvöldi en svo vaknaði ég klukkan hálf fimm í morgun við vondan draum. Mig dreymdi að ég var í vinnunni og missti allt í einu tökin á því sem ég var að gera og ég gerði mér grein fyrir því að heilinn væri á hámarkshraða af stressi. Síðan þurfti ég að nota símaskrána en það var ekki nokkur leið fyrir mig að finna þar nokkurn skapaðan hlut í stafrófsröð. Ég bara gat það alls ekki. Ég sat þarna með símaskrána í höndunum og gerði mér fulla grein fyrir því að heilinn var alveg kominn í spinn og ég gat ekki leyst einföldustu verkefni. Eitt var þó ljóst, ég gerði mér grein fyrir ástandi mínu. Mér varð illa órótt í draumnum og þar með vaknaði ég.

Ég get ekki neitað því að óróleikinn yfirgaf mig ekki nærri strax þó að ég hefði vaknað en eftir ferð fram á bað og stórt glas af vatni kom smám saman höfgi yfir mig og svo leið ég inn í draumlandið en hef þó hef ekki minni um frekari drauma. Tveimur tímum seinna vaknaði ég á ný og virtist úthvíldur. Samt verð ég að viðurkenna, og takið nú eftir að "ég" verð að viðurkenna, að ég hef verið svolítið stressaður í allan dag. Rafvirkinn var hér nokkra tíma og hann vann á fullu eins og þeir iðnaðarmenn sem hafa hjálpað okkur undanfarið. Það er nú meiri hraðinn á þessum mönnum. Við þurfum ekki að kvarta undan því að þeir standi reykjandi undir húsvegg í vinnutímanum. En hafi rafvirkin verið stressaður í dag var það vegna tímaleysis en mitt stress var bara einhver dægurfluga -eða hvað?

---------------------------

Þarna hætti ég að blogga í gær, föstudag, en nú er komið laugardagskvöld. Mér fannst í gær sem ég bullað svo rosalega og ég þoldi ekki rausið í sjálfum mér. Ég lét þó vera að henda því. Ég dreif mig í sturtu, fór í betri föt og svo borðaði ég væna rjómatertusneið sem Valdís keypti inn í Örebro þar sem hún hafði verið á kaffihúsi ásamt nokkrum vinkonum. Og hvað rjómatertan, sem var sett saman úr mörgum lögum af mjúkum, sætum, feitum og vel smakkandi lögum, bráðnaði ljúflega í munni. Ég ætlaði fyrst að borða bara helminginn en fljótlega fór ég að óska þess að hún hefði verið helmingi stærri. Svo var hún búin.

Ég horfði svolítið á sjónvarp, las fréttir í tölvunni, háttaði snemma og las í bókinni hans Martins Lönnebo um Hjartans lykla. Þá allt í einu datt mér í hug að það hefði verið lán að ég birti ekki það sem ég hafði bloggað. Ég líklega gæti nú þagað yfir því að dagurinn hefði verið mér erfiður. Svo mundi ég eftir því að ég hefði verið alinn upp við það að maður ætti ekki að skrökva og ef ég segi bara frá því sem gengur mér afbragðs vel, þá er ég nú að nota hljóða lygi. Svo fór ég aðeins framar í bókina og tók fram mynd af mér sem ég hef notað sem bókmerki í þessa bók.

Skrýtið að nota þessa mynd sem bókmerkið í Hjartans lyklar. Þessi mynd er frá árum sem ég er ekki stoltur af og ég mundi ekki sýna hana hverjum sem væri. Hún er af manni sem ég þekki ekki í dag. Ég skal ekki ljúga, ég skal ekki aftur til áranna sem ég er ekki stoltur af. Svo sofnaði ég.

Svo svaf ég og svaf -og svaf. Og svo var kominn nýr dagur, dagurinn i dag. Það var einhvern veginn annar ilmur i lofti en í gærmorgun og ég gerði í því að byrja þennan dag vel. Ég fór nokkuð seint á fætur og ég gekk að tölvunni og hlustaði á hann frænda minn þar sem hann söng fyrir tigið fólk á Edinborgarhátíðinni í sumar. Duglegur hann frændi minn. Ekki óraði mig fyrir að þessi maður væri elskur að söng og svo bara allt í einu er hann rúmlega þrítugur fluttur til Glasgow til að læra að syngja. Ja hérna www.bjartmar.is. Ég hef alltaf öðru hvoru undanfarið hlustað á þetta og verður gott af því.

Í dag hefur allt leikið i höndunum á mér þökk sé að ég hagaði mér betur í gærkvöldi en í fyrradag. Í fyrradag hafði ég verið að allan daginn og svo vissi ég að rafvirkinn ætlaði að koma aftur daginn eftir. Því fór ég út aftur eftir kvöldmat og var að fram undir hálftíu til að vera vel búinn undir komu hans. Svoleiðis á ekki 68 ára kall að haga sér. Ég vissi það en ég gerði það samt. Ef maður gefur alveg skít í andlegu hliðina og leggur sig alveg flatan í það efnislega verður afurðin eins og gærdagurinn sem ég skrifaði um í gær og gafst svo upp við.

Eftir sjónvarpsmessu í fyrramálið ætla ég að bregða mér í vinnugallann og velja mér skemmtilegt verkefni að vinna við. Ég ætla að byrja að sníða og fella gerefti á nýju gluggana. Það verður gaman að ganga nokkur skref aftur á bak eftir fyrsta gluggann og sjá breytinguna. Eftir annan gluggann líka og þann þriðja. Svo banka ég á glugga og bið Valdísi að koma út og hjálpa mér. Svo þegar hún kemur bið ég hana að koma og sjá líka. Svo horfum við bæði á nýju gereftin og virðum fyrir okkur breytinguna.



Kommentarer
Rósa

Mikið var mamma góð að kaupa tertu handa þér!



Kveðja,



R

2010-11-13 @ 22:33:20
Guðjón Björnsson

Já, og ekki í fyrsta skipti

2010-11-13 @ 23:37:05
URL: http://gudjon.blogg.se/
Þórlaug

Gangi þér vel í dag Guðjón.



Kveðja,

Þórlaug

2010-11-14 @ 12:51:09
Guðjón Björnsson

Þakka þér fyrir Þórlaug, það gekk mjög þokkalega en ég einbeitti mér ekki bara að gereftunum þannig að þau eru ekki komin eins langt og ég hefði viljað.



Kveðja,

Guðjón

2010-11-14 @ 20:45:05
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0