Að brúa milli heimsálfa

Veturinn hafði verið nágranni okkar æði lengi og sýndi sig í ýmsum myndum, mörgum býsna fallegum, og einna fallegastur var hann að baki húsinu.
 
Valdís sat með handavinnuna sína við gluggann móti skóginum þar sem veturinn hélt skrautsýningar sínar. Stundum var hljótt í bænum og stundum minna hljótt. Svo hringdi síminn. Rósa hringdi til að láta vita að hún og Hannes Guðjón ætluðu að koma í heimsókn, ekki á morgun og ekki hinn, heldur hinn. Mig minnir að einhvern veginn svona hafi að minnsta kosti ég reiknað dagana fram að einhverju mikilvægu hér áður fyrr. Til dæmis jólunum í gamla daga með angandi eplakassa sem kom með útkeyrslubílnum og svo góðum mat, góðum mat jafnvel dag eftir dag. Eða afmælinu mínu með jólaköku og rjómatertu. Núna töldum við dagana fram að kærkominni heimsókn þegar það yrði líflegt í bænum og alls ekki hljótt öllum stundum.
 
Svo voru Rósa og Hannes komin og það var margt haft á prjónunum. Hannes talaði mikið um brýr og það var nú það minnsta að fara út í það að byggja brýr. Mikilvægar brýr, alveg á milli heimsálfa og ólíkra kynþátta þar sem við þurftum að koma á friði milli ólíkra hópa sem slógust um gæði heimsins. Við sópuðum ósemju og spillingu til hliðar og Hannes sneri baki mót ósómanum sem við vorum ákveðnir í að útrýma, en nú snerum okkur að skipulagningu þessara stóru verkefna.
 
Svo hófst ferðin og Hannes var kominn af stað með kranabílinn sinn sem honum þótti vissara að hafa meðferðis ef það þyrfti að lyfta fleiri hindrunum úr vegi og setja yfir í ónytjuhauginn mikla sem við ætluðum að eyða síðar. Hann var þegar kominn með kranabílinn yfir fyrstu heimshafsbrúna og þá kom hann til baka til að athuga hvernig afa gengi með vörubílinn með öllum nauðsynjunum sem við þurftum að hafa með okkur á mikilvægustu ferð okkar um hin víðáttumiklu lönd. Og nú má segja frá hvað á að verða um stóra ónytjuhauginn sem er bæði af hinu illa og til mikils ama fyrir augað sem auðvitað á að leita eftir eftir því besta og fallegasta sem finnst í þessum heimi. Við nefnilega ætlum að taka þennan haug þegar allt er komið í hann og elda hann upp til að kynda hýbýli allra þeirra sem er kalt. Þá verður heimurinn nefnilega betri.
 
Að lokum fundum við Hannes að við þyrftum að hvíla okkur og líta inn til fólksins okkar áður en ferðinni yrði haldið áfram. Þá fórum við inn til mömmu og ömmu. Það væri alveg eins víst að þær væru búnar að útbúa eitthvað gott fyrir menn sem unnu að því að gera heiminn betri. Svo var komið kvöld og nótt og að morgni fór afi í vinnuna.
 
 Já, þannig var nú það. Einvhern veginn er það svo að það eru ekki til svo margar myndir af Hannesi með henni mömmu sinni í myndasafninu okkar. Því var ég búinn að biðja um að Valdís tæki mynd af þeim þegar vel stæði á meðan ég væri í vinnunni. Þetta er árangurinn af því. Að vísu er myndin tekin á síma þar sem myndavélin okkar var eitthvað kvefuð. Þanig var það líka með myndirnar af heimshafsbrúnum fyrir ofan. Það virðist mikið gaman á þessari mynd. Hannes er duglegur við að leika sér og þar er hann ekki í neinum vandræðum með hugmyndaflugið.
 
Þegar hann vissi að heimferðin til Stokkhólms nálgaðist varð hann ekki beinlínis samvinnuþýður. Hann vildi alls ekki fara heim. Það olli blendnum tilfinningum hjá okkur afa og ömmu. Síðan fréttum við að hann hefði fljótt orðið ánægður í lestinni og að hann hefði líka orðið alveg himinlifandi þegar hann sá pabba sinn á járnbrautarstöðínni í Stokkhólmi. Hann á eftir að koma fleiri ferðir í heimsókn, enda eigum við nafni minn mikið óunnið við að bæta heiminn.
 
Þessi brottföt vakti upp gamlar minningar, eins og til dæmis þessa 18 mánaða gömlu mynd þar sem við erum báðir uppteknir við mikilvæga uppbyggingu á Sólvöllum.
 
Eða þessi mynd þegar amma og Hannes horfa á eitthvað mikilvægt í sjónvarpi heima hjá honum í Stokkhólmi.
 
Á morgun verður ekkert tipplandi fótatak hjá okkur þegar við vöknum til nýs dags. En okkur vantar ekki verkefni til að snúa okkur að og minningarnar verða með okkur næstu dagana, og vissulega alla daga. Svo er spáð hlýju veðri í eina tvo til fjóra daga. Svo á að kólna aftur og það verður væntanlega síðasta kuldatímabil vetrarins. Það eru góðir tímar skammt undan handan við hornið.

Góðir eiginleikar

Það er skrýtið með Valdísi að stundum virðist hún bara finna á sér að eitthvað sé eins og það er. Mér getur fundist það svo ótrúlega fráleitt og þverneita að svo geti verið sem hún segir. Eins og eitt sinn fyrir löngu þegar frárennslið allt í einu stoppaði. Ég safnaði vatni og hellti svo einhverjum ósköpum í einu í vaska og klósett, alveg þangað til klósettið var að verða barmafullt. Svo beið ég og beið eftir miklu soghljóði þegar fyrirstaðan brysti en allt fór afskaplega hægt fram. Eigum við ekki að prufa drullusokkinn sagði Valdís? Nei, svaraði ég og útskýrði af mikilli rökfestu hvers vegna það væri tilgangslaust.
 
Ég sá út undan mér hvar Valdís leitaði að drullusokknum en fann ekki. Ég vissi af tilviljun hvar hann var og þegar Valdís hætti að leita og tók rökfærslu mína gilda, þá tók ég fram drullusokkinn og sagði hérna er hann, þú mátt svo sannarlega reyna. Svo byrjaði hún með drullusokkinn í eldhúsvaskinum en ég fór fram á bað til að gá hvort það hefði lækkað í klósettinu um einhvern millimeter. Einhver sog og lofthljóð heyrðust frá eldhúsinu þar sem Valdís hafði nú hafið sínar björgunaraðgerðir.
 
En hvur skollinn sjálfur! Allt í einu heyrðist hljóðið sem ég var búinn að gleyma að ég hafði viljað heyra. Vatnið beinlínis datt með soghljóði og næstum ótrúlegum fyrirgangi niður úr klósettinu og mér var óskaplega létt. Viltu koma og sjá kallaði ég til Valdísar og hún kom fram til mín. Hefur eitthvað gengið? sagði hún með hógværð. Og ég reyndi að svara með hógværð að það væri greinilega allt komið í lag. Loksins! Já, sagði hún með sömu hógværðinni, mér bara datt sí svona í hug að það hefði verið lofttappi einhvers staðar sem þurfti að losa um og það hefur nú ábyggilega verið svoleiðis.
 
Ég sleppti frekari röksemdafærslu og reyndi að láta í ljósi feginleika yfir að henni hefði tekist að leysa þetta. Mér þykir bara vænt um ef ég get hjálpað til svaraði hún og svo var frárennslið einfaldlega komið í lag. Ekkert meira með það. Ég dáðíst að æðruleysinu í röddinni og skammaðist mín fyrir sjálfsánægju mína. Eitt svona atvik átti sér stað hér á bæ í dag.
 
*
 
Það var sjónvarpsþáttur nú í kvöld þar sem útbýtt var verðlaunum fyrir besta þetta og hitt í sænskri kvikmyndagerð á síðasta ári. Þar var saman kominn mikill fjöldi fólks sem lifir og hrærist í sænska kvikmyndaheiminum og þátturinn gekk mikið út á það að þetta fólk dáðist hvert að öðru hvað hæfileika, fegurð og ágæti hrærði. Eitthvað á þá leið. Svo var komið að honum Hasse Alfredsson. Hann fékk svonefnd heiðursverðlaun fyrir að ég held gott starf að kvikmyndagerð gegnum árin.
 
Hasse Alfredsson er minn maður. Hann hefur gert afar góða hluti og er nú háaldraður. Kannski var hann svolítið elliær og hann var leiddur fram á sviðið. Svo talaði hann svo ekta, sagði frá og söng að lokum eitthvað sem hann hafði lært hjá Lúí Amstrong. Mér fannast kallinn svo fínn innan um allt glittrið. Þegar hann var búinn að taka við verðlaununum sínum fór ég inn að tölvu og borgaði reikningana.
 
*
 
Ég veit ekki alveg hvernig það er með okkar fjárhag nú orðið. Reikningarnir voru mun lægri en ég hafði reiknað með og þeir voru það líka í síðasta mánuði. Ég held bara að öll ár áður hafi þeir verið hærri en ég hafði reiknað með. Annars er það skrýtið með reikningana, ég held að það sé hægt að hafa dulræn áhrif á þá -til lækkunar. En ég held bara að ég tali ekki meira um það. Geri ég það verð ég talinn ögn galinn. Mig grunar þó að ég hafi bloggað um það fyrir all nokkrum árum. Ég held að það nægi að gera það einu sinni.
 
*
 
Ég er búinn að aðhafast töluvert í dag en þó minnst af því sem til stóð. Nú er ég harla glaður yfir reikningunum og ég er einnig búinn að drekka engiferdrykk kvöldsins. Engifer er hreinlega dálítill galdradrykkur. Ég held þó að það hafi ekki nein áhrif á upphæð mánaðarreikningana. Það var talað um öldrun í sjónvarpi hér fyrir einhverjum mánuðum. Þar var talað um að engifer, hvítlaukur og D-vítamín væri mjög gott fyrir okkur sem erum kominn í eftirmiðdag lífsins. Svo skildist mér að maður ætti ekki að vera með svo miklar kúnstir í matarræði umfram það. Ég trúi þessu. Það er dálítið ólíkt hvað við Valdís leggjum áhreslu á í þessu sambandi, en við eigum það þó sameiginlegt að við tökum D-vítamínið alltaf með morgunverðinum.
 
Ég hélt framhjá harfagrautnum í morgun. Það ætla ég ekki að gera í fyrramálið. Þá ætla ég að halda mig við gamla góða hafragrautinn minn og hann skal verða með rúsínum og smá, smá rjómalögg út á. Ég held að það sé allt of mikill sykur í sjerríosinu.
 
Það er mál að linni og eigið góðar stundir.

Þráin til vorsins byrjar óvenju snemma á þessum vetri

Það mun hafa verið stuttu fyrir jól 1995 að við Valdís fórum frá Svärdsjö í Dölunum niður til Falun. Þá voru að ganga í garð fyrstu jólin okkar hér í Svíþjóð. Það var töluvert frost og við munum hafa lagt snemma af stað. Barrskógarnir voru snævi þaktir á þann hátt sem gerir þá jólalega eins og mér finnst endilega að ég hafi séð á jólakortum þegar ég var barn. Laufskógarnir voru hins vegar alþaktir hrími og þegar við nálguðumst Falun höfðum við laufskóg til bekkja handa. Þá sáum við nokkuð sem við höfðum aldrei séð áður. Við ferðuðumst gegnum veröld sem við höfðum aldrei áður augum litið. Morgunsólin var farin að skína mátulega mikið á þessa dýrð og lýsti upp tuttugu metra hátt kristallríki og okkur fannst við vera stödd i einhverju sem vart væri af þessum heimi. Þegar ég nefndi þetta við Valdísi áðan mundi hún samstundis eftir undrinu sem við upplifðum í þessari árdegisferð.
 
Það nálgaðist að vera þannig dagur hjá okkur hér í dag í 16 stiga frosti. Kannski er minningin frá Falun fegruð af tímanum sem liðinn er, en okkur finnst sem við höfum aldrei síðan séð neitt sem jafnast á við þá minningu. En málið er líka það að hér á myndinni sjáum við stök tré næst okkur en þar uppi ókum við gegnum all víðáttumikinn og þéttan birkiskóg. Bjarkirnar með öllum sínum hárfínu, hangandi greinum eru sem gerðar til að annast svona sýningu. Hér á myndinni sjáum við tvær bjarkir sem eru á lóðamörkunum hjá okkur að vestanverðu og þriðja tréð, það sem er fjærst, er það sem við köllum stóru Sólvallaeikina. Bjarkirnar annast sýninguna mikið betur en eikin.
 
Svo kom kvöld og þá hreinlega skeði eitthvað. Ný veröld blasti við og þá leit það svona út þegar gengið var frá veginum heim að Bjargi. Bara því miður, þá er ekki hægt að taka mynd af þessu og kannski verra en ekki neitt að birta svona mynd. En þegar ég gekk þarna fyrr í kvöld var himinninn framundan full hlaðinn þéttri kristallþoku og hingað og þangað í þokunni kviknuðu hvít ljós sem lifðu eitt eða örfá augnablik. Það var þegar snjókristallar blöstu rétt við einhverju nálægu ljósi. Hálfur máninn skein gegnum hálfgerða frostþoku niður á dýrðina frá hægri.
 
Það eru margir þræðirnir sem prýða tuttugu metra hátt birkitré og þetta er bara af einum meter.
 
Og svona lítur grjótgarðurinn vestan við húsið út á þessu janúarkvöldi. Það er eins og önnur lögmál ríki í veröld kvöldsins en gerðu í sólskininu í dag. Ég er ekki hissa þó að fólk fyrri tíma í dreifðum sveitum Íslands þar sem aðeins fá og dauf ljós var að finna, jafnvel engin, sæi vætti, álfadans og ævintýri í mánaskini við þessar aðstæður.
 
John O´Donohue ljóðaskáld, rithöfundur, prestur og heimspekingur sagði: "Æ ofan í æ missum við af dásemdum í lífinu af eintómu eirðarleysi. Við erum oft með hugann annars staðar, sjaldnast þar sem við stöndum og á líðandi stund."
 
Við höfum ekki gefið okkur nægjanlegan tíma til að fylgjast með þessu öllu í dag. Við höfum ryksugað, skúrað, baðað ullarfeldina okkar upp úr snjónum og svo viðrað þá, hengt upp þvott og svo hef ég líka smíðað svolítið. Og þó. Milli níu og tíu í kvöld fórum við út í dyrnar bakdyramegin og horfðum á hreinu, litlu ljósin kvikna og slokkna í stórri björk. Það var þegar hrímkristallarnir sneru rétt við einhverri birtu sem þá náði að skína á þá og kveikja svo ótrúlega hrein ljós sem voru fíngerðari en skraut á nokkru jólatré. Það hefur verið afar fallegur dagur í dag en ég verð samt að segja að í dag vel ég þá fegurð sem hinn fegursti vordagur býður upp á. Þráin til vorsins byrjar óvenju snemma hjá mér á þessum vetri.
 
Góðar stundir.

Að baka pönnukökur

Í gær talaði ég um það við Valdísi að það væri tími til kominn að hún kenndi mér að baka pönnukökur svo að ég gæti nú farið að baka pönnukökur handa henni þegar við vildum halda upp á eitthvað. En hún hló bara að mér. Svo fórum við inn til Örebro í dag þar sem hún keypti garn og annað handavinnuefni. Svo var að byrja að rökkva þegar við komum heim og fór ég út að saga í vélsöginni áður en það yrði aldimmt. Á meðan bakaði hún pönnukökur og svo bauð hún upp á kakó og pönnukökur. Ég segi nú bara að mikið var þetta góð hugmynd hjá henni. Mér getur orðið ónotalegt af kökuáti nú á seinni árum en hins vegar eru pönnukökkur alltaf sama góðgætið sem mér verður gott af. Þær ilma vel, eru fallegar á borði og gera mig glaðan. Ég hugsa að margir séu sammála mér. En hvað um það; ég ætti nú að læra að baka pönnukökur.

Önnur fæðutegund er ekki eins falleg á diski. Þegar búið er að setja hana disk er hún ólöguleg hrúga, einhvern veginn grádrappbrún á lit, með dökkum flygsum á víð og dreif og skapar alls ekki sömu átlöngunina og pönnukökur. Hvað skyldi þetta svo vera? Jú, það er hafragrautur með rúsínum. En hafragrautur hefur ótrúlegt aðdráttarafl í öllum sínum ófrýnileika. Mér verður nefnilega svo ótrúlega gott af honum. Einstaka sinnum fæ ég mér Cheerios með Valdísi á morgnana en mér verður ekki almennilega gott af því. Það er svo skrýtið þegar ég geri þetta, að mér finnst ég vera að halda framhjá hafragrautnum. Svo fæ ég mér hafragraut morgunin eftir, ólystugan á diski en góðan fyrir maga og kropp. Að vísu er ég farinn að nota pínulítinn rjóma út á hann til að gera hann meira aðlaðandi. En sem sagt; hafragrautur býður upp á góðan dag.
 
Þorsteinn heitinn Svanlaugsson vann lengi við veðbókarvottorðin hjá sýslumanninum á Akureyri. Ég kom þangað oft og við töluðum svolítið um daginn og veginn. Svo þakkaði ég fyrir og hélt minn veg. Ég býst ekki við því að Þorsteinn hafi vitað hversu mikla virðingu ég bar fyrir honum. Það gerði ég vegna þess að samkvæmt beiðni leiðangurstjórans í björgunarleiðangrinum að flugvélinni Geysi á Vatnajökli í september 1950, þá sneri hann einn við til að sækja eitthvað sem hreinlega mátti ekki skilja eftir í flugvélarflakinu sem þar beið örlaga sinna. Mér hefur alltaf fundist þetta svo hetjulega gert í septembermyrkrinu upp á víðáttum Vatnajökuls, á óhugnanlegum stað þar sem flugslys hafði orðið og flakið lá dreift yfir nokkuð svæði.
 
En hvað skeður svo. Ung kona gengur alein meira en 1100 kílómetra leið yfir ísfrera suðurskautsins til að ná marki sem menn hafa sótst eftir í heila öld, að standa sem sigurvegarar á suðurpólnum. Þetta gerði mig alveg ringlaðan. Hvað er hetjuskapur og afrek? Sennilega hvort tveggja. Ég skil þannig við þetta mál. Þorsteinn verður áfram hetja í mínum augum.
 
Fyrsti snjór kom í nóvemnberlok og svo snjóaði oft, í vikur, og það varð upp undir hálfs meters jafnfallinn snjór. Svo var vetur fram að áramótum eða svo. Eftir það hvarf snjórinn að mestu og það varð hálfgert vorveður í tvær vikur. Myndin fyrir ofan var tekin í gær og það er upp undir 20 sm snjór. Frostið er eitthvað yfir tíu stig og á að verða mun meira á morgun. Það er búið að loga í kamínunni í dag og það er hlýtt inni. Valdís hélt áfram að horfa á Skavlan þegar ég yfirgaf sjónvarpið. Rétt í þessu var ég að bæta í kamínuna og sá þá að hún var komin með prjónana á loft og farin að vinna úr garninu sem hún keypti í bæjarferðinni í dag.
 
Þegar ég horfi á þessa mynd af húsinu okkar er ég svolítið hissa á því að ekki skuli sjást nein ljós. En þeir sem hafa komið hingað vita að húsið er bjart og býsna hátt til lofts og það er gott að vera í þessu húsi. Það eru bjartari tímar framundan og dagurinn hefur þegar lengst um 66 mínútur. Ég skal viðurkenna að ég þrái langa daga meira nú en yfirleitt áður. Birtan síast inn í sálina og gefur mestan kraft þeim sem eru í mestri þörf fyrir hann. Vor er dásamlegt hugtak á þessari stundu.

Ég vel eitthvað einfalt í kvöld

Ég var úti á Bjargi áðan og lét hugann reika. Ætti ég kanski að blogga í kvöld hugsaði ég? Og hvað þá? Svo runnu mörg atriði upp í huga mér og ég gerði mér grein fyrir að það yrði allt of mikið. Ég ákvað að velja eitthvað einfalt og ekkert um heilsu eða æðri hugleiðngar. Ég var nefnilega býsna seint þarna úti í þetta skipti, eða eftir kvöldmat, og það á ellilífeyrisþegi ekki að þurfa að gera. En ég er að ganga frá límingum sem ég verð að framkvæma í mörgum áföngum og þar sem það er frekar kalt þarna úti er límið lengi að þorna. Þess vegna fannst mér nauðsynlegt að ganga frá einni stórri límingu fyrir nóttina. Ég er hvort sem er ekki nema tvo til fjóra tíma að bardúsa þarna úti flesta daga og stundum ekkert.
 
Það var í gær sem ég var kominn svo langt sem myndin sýnir. Sautján sm einangrun í veggjum og lofti og svo var ég búinn að plasta allt og setja listana sem myndin sýnir. Þar með er tilbúið fyrir rafvirkjann að koma og svo er bara eftir að ganga frá 45 mm einangrun á veggina áður en hægt er að klæða með krossvið. Síðan er að klæða með gipsónetti og þá er tilbúið að sparsla. Ekki svo galið. Þetta er bara orðin fasteign! Eitthvað svoleiðis upplifði ég í gær og þá sótti ég myndavélina. En það er ekkert búið að ákveða hvenær rafvirkinn kemur og þar af leiðandi ekki heldur hvenær farið verður í framhaldið. En ef ég segi alveg eins og er, þá er óskaplega freistandi að bíða ekki lengi. Ég er eins og börnin; stundum á ég erfitt með að bíða.
 
Og séð móti hinum gaflinum þar sem bílinn á að vera. Bílskúrshurðin er galopin til að fá inn birtu fyrir myndavélina. Svo var ég fljótur að loka. Tveggja kw ofn heldur 10 til 12 stiga hita þarna inni í vægu frosti eins og nú er. Plastbúntin sem eru þarna eiga að fara í allt aðra hluti utanhúss þegar vor nálgast. Seinna ætla ég líka að bæta 10 til 20 sm steinull ofan á einangrunina í loftinu, mismunandi eftir hvar á loftinu er. Þannig standa mál á Bjargi.
 
*
 
 
Þar sem er grunnur eins og hjá okkur verður að vera hægt að komast niður í grunninn til að sjá að allt sé í lagi með raka eða hreinlega hvort vatn renni inn í grunninn. Á myndinni sjáum við lúguna þangað niður. Þar niðri er hægt að geyma mat en það er svolítið bauk að fara þangað niður því að það þarf þá að taka upp tvö lok. Það var um jólin þegar við vorum fimm á Sólvöllum að það var þröngt í ísskápnum. Þá þurfti að koma matvælum í kæli en úti var of kalt. Þá kom upp alveg skínandi hugmynd. Að opna bara efra lokið og setja matinn ofan á neðra lokið. Það er 20 sm einangrun í gólfinu. Þarna á milli loka á að vera einangrun, en ef hún er ekki höfð þar er fimm stiga hiti. Alver frábært ekki satt. Á sumrin verður væntanlega aðeins heitara þarna. Kannski gott að fara sjálfur þangað niður þegar hitar verða mestir og þá alla leið niður á mölina þarna undir.
 
Svo þegar búið er að setja pönnuna þarna niður er bara að setja efra lokið á og ganga svo á matnum. Er ekki tilveran dásamleg? Það kom hér kona í vikunni og meðan hún var hér fór ég undir lokið til að ná í pott með mat í. Henni fannst þetta svo frábært að hún sagði að ég ætti að þegja yfir þessu þangað til ég væri kominn með einkaleyfi fyrir hugmyndinni. "Svona vil ég að hann Kjell geri heima" sagði hún ennfremur. En ég get ekki þagað og fæ líklega ekki einkaleyfi.

Frá Brändåsen gegnum Súlnaberg til Tärnaby og Storuman

Við Valdís skruppum áðan bæjarleið til Brändåsen (brendosen) og fengum okkur að borða. Við gerum þetta tvisvar sinnum í mánuði eða svo og er bara ágætis siður. Þetta er enginn fínn veitingastaður en bara ágætur.
 
Beðið eftir matardiskinum.
 
Brändåsen er kannski svolítið í líkingu við Súlnaberg sáluga á Akureyri. Þar var vel útilátinn, venjulegur og góður matur og þar hittist mikið af fólki sem borðaði og spjallaði um daginn og veginn. Svo man ég ekki betur en að alltaf hafi maður þekkt einhvern þar en það gerum við ekki þegar við borðum á Brändåsen. Þó kemur það fyrir.
 
En þetta með Súlnaberg; það er sorgarsaga sem ég hugsaði um meðan við sátum yfir matnum áðan og það er þess vegna sem ég er að segja frá þessu. Það var árið 2002 sem við Valdís komum með ferjunni til Seyðisfjarðar og höfðum þá bílinn með okkur. Þegar við komum til Akureyrar ætluðum við að fara á Súlnaberg eins og við höfðum gert hundrað sinnum forðum tíð eða mikið meira en það. Svo komum við að gamla innganginum en það var ekkert Súlnaberg. Súlnaberg heyrði sögunni til. Akureyri var ekki spennandi lengur. :(
 
 *
 
Áður en við lukum morgunverðinum í morgun byrjaði sjónvarpsmessan. Hún var frá litlum bæ norðarlega í Svíþjóð sem heitir Tärnaby (Ternaby). Hann er næstum norður undir heimskautsbaug eða á breiddargráðu sem liggur mitt á milli Hríseyjar og Grímseyjar, umkringdur fjöllum sem eru einn til einn og hálfur kílómeter á hæð. Þar er líka mikið af vötnum og skógar vaxa all langt upp í fjallshlíðar. En hvað um messuna? Hún var frábær. Þarna var all nokkuð af fólki í samabúningum og sumt messuefnið var flutt bæði á sænsku og samisku. Boðskapur messunnar var einhvern veginn hrífandi og svo umhugsunarverður að ég punktaði ýmislegt niður hjá mér strax eftir messuna.
 
Ég ætla ekki að gera messunni frekar skil hér, en messan fékk mig til að fræðast svolítið um Tärnaby. Ef við Valdís ætlum að aka á Fordinum okkar þangað norður þurfum við að aka um 970 kílómetra norður á bóginn, norður, norður og alltaf norður á bóginn. Öðru hvoru fæ ég sterka löngun til að gera það, að ferðast langt, langt norður í þetta langa land, og ég hef bloggað um það öðru hvoru gegnum árin. Svíþjóð býður upp á mjög margbreytilegt landslag og náttúru og svo fylgir jú saga hverju héraði sem er líka þáttur í að kynnast landi. Ég leitaði uppi nokkrar myndir frá héruðum þarna norður frá en sannleikurinn var að mér tókst ekki að vista bestu myndirnar.
 
Ég veit ekki hvort þessi mynd er nákvæmlega frá Tärnaby, en ég veit alla vega að hún er frá héraðinu. Það er merkilegt með þennan stað að þaðan koma og hafa komið ótúlega margir góðir íþróttamenn og konur, til dæmis skíðafólkið Anja Pärsson og Ingemar Stenmark og svo margir, margir fleiri.
 
Það er hægt að leigja ótal hús þarna norður frá og þegar ég sá þetta hús hugsaði ég hvernig það mundi líta út að sumri til. Þar sem ég er ekki skíðamaður er þetta ekki árstíðin sem ég mundi vilja taka hús á leigu þarna norður frá en óneitanlega er myndin heillandi. Hins vegar þurfum við ekki að taka hús á leigu á hinum almenna markaði upp í Norðurlandi þar sem það er fullt af fólki sem er reiðubúið að lána okkur sumarbústaðinn sinn eða annað húsnæði sem það hefur á sínum snærum. Valdís, í sumar verðum við bara að láta verða af þessu!
 
Ég mundi alls ekki vilja fara á skíðum niður þessar brekkur, en myndin er einmitt frá nágrenni Tärnaby. Ég mundi heldur ekki vilja fara brekkurnar á snjóþotu. Hins vegar væri ég alveg til í að taka dagstund í að horfa á þessar brekkur og láta hugann fljúga, en ég vil gera það að sumri til.
 
Rósa var upp í Storuman að vinna nokkrum vikum fyrir jól. Storuman er austar og einum 40 til 50 kílómetrum sunnar en Tärnaby, samt yfir 900 kílómetra í norður frá Sólvöllum. Við fengum nokkur sms frá henni meðan hún var þar og það leyndi sér ekki á þeim skilaboðum að hún var all heilluð af umhverfinu. Ég leitaði að myndum frá Storuman á netinu og þá kom þessi mynd fram og ég læt hana nægja. Hins vegar hef ég séð mikið betri myndir þaðan.
 
Já, alveg rétt. Mikið íþróttafólk. Heidi Andersson heitir kona og hún er margfaldur heimsmeistri í sjómanni. Maður hennar er Björn Ferry sem er snillingur í skíðagöngu og skotfimi og hefur verið ólympíumeistari í greininni. Heidi og Björn koma frá litlu þorpi sem heitir Ensamheten og er í nágrenni við Storuman. Að ég er að nefna þetta fólk hér núna kemur að hluta til af því að Valdís, sem horfir mikið á skíðaíþróttir, segir að þetta fólk hafi talað um að það hafi ekki haft annað að taka sig til á vetrum en fara á skíðum út í norðlensku brekkurnar og náttúruna.
 
Þannig er nú það. Eftir messuna í morgun flæddi þetta efni eins og mjúkar haföldur um huga minn, þetta efni sem ég hef nú bloggað um. Hefði ég bloggað um það einmtt þá, þá hefði þetta blogg litið allt öðru vísi út. Ég vissi það þegar ég byrjaði en vildi samt kljást við það. Ef þetta á að takast vel er mikilvægt að velja augnablikið þegar mjúku haföldurnar eru á hreyfingu en ekki eftir að þær hafa hætt að gæla við fjöruborðið.

Að taka framförum og gera það einfalt

Ég var í verslun um daginn og borgaði með korti sem ég mundi ekki leyninúmerið á og reyni heldur ekki að muna. Ég rétti afgreiðslukonunni ökuskýrteinið mitt og sagðist ekki reyna að muna leyninúmerin á öllum kortunum mínum. Ég giskaði á eftir útlitinu að hún væri frá Tyrklandi. Ég hef bara eitt kort sagði hún hógvær og það er svo auðvelt að muna leyninúmerið á einu korti. Já, ég svaraði að ég væri að byggja og ætti bíl og ég fengi afslátt á ólík kort í ólíkum verslunum og bensínstöðvum. Já, ég á engan bíl og er ekki að byggja sagði hún og það gerir lífið mun einfaldara. Hún var eins og ég sagði hógvær, og kurteis var hún, og þetta voru bara viðræður okkar á milli en alls ekki gagnrýni frá henni. Þegar ég skundaði frá versluninni gat ég ekki annað en velt fyrir mér hvort ég gerði mér lífið ekki óþarflega flókið. Ég taldi svo vera þó að ég stefni alltaf að hinu gagnstæða.
 
Í fyrradag var ég að taka til úti á Bjargi þar sem það voru verkaskil og kominn tími til að losna við eitt og annað sem var geymt þar inni. Kubbahrúgan á myndinni eru dreggjarnar af síðustu plönkunum sem urðu til í ársbyrjun 2006 þegar við Valdís skunduðum út í skóg í hörku frosti, klædd okkar bestu kuldafötum og ég með keðjusög í hendinni. Svo felldum við í nokkrum svona ferðum þrettán tré sem við notuðum í fyrri útbygginguna hér á Sólvöllum eftir að hann Mats hafði sagað það niður fyrir okkur. Fáeinir plankar urðu svo snúnir við þurrkun að það var ekki hægt að byggja úr þeim, en þeir voru góðir sem braut fyrir hjólbörur, góðir í vinnupalla, til að leggja í bleytu og drullu og ganga á þegar svo stóð á. Í haust sprautaði ég á þá vatni og skrúbbaði einhverja þeirra og setti inn til þurrkunar. Þarna er ég að brytja þá í eldinn og ég sagaði þá með handsög.
 
Utan við Bjarg er vélsög sem er vel breytt yfir. Ég hefði getað dregið rafmagnskapal út að söginni og sagað þetta þar en hefði þá að sjálfsögðu fengið mikinn skít í sagarblaðið og bitið í því hefði þá væntanlega versnað. Ég ákvað sem sagt að saga í höndunum og ég fann líka að mig langaði til að gera það. Það gaf mér góðan tíma til hugleiðinga og það var mun hljóðlegra. Mér leið mjög vel meðan ég var að saga plankana niður í eldiviðarlengdir, ég velti fyrir mér lífinu eins og það snýr við okkur í dag, ég hugsaði út í orð tyrknesku konunnar um að gera það einfalt og mér fannst þar sem ég sagaði að ég væri að gera það einfalt. Ég fór ekki fljótlegustu leiðina en ég valdi leið þar sem ég naut vinnunnar sem ég var að framkvæma.
 
*
 
Í morgun fórum við Valdís til Fjugesta þar sem Valdís þurfti að láta taka blóðprufu. Svo fórum við inn til Örebro. Þar ætluðum við að byrja á því að kaupa ákveðna gerð af plastkössum í IKEA sem Valdís sorterar niður í og svo set ég þá upp á loftið á Bjargi. Nákvæmlega þessir kassar voru ekki til en margar aðrar sortir. Við vildum heldur bíða en fara að blanda samal ólíkum sortum. Næst fórum við í kaffi í stóra verslunarhúsnæðinu í Marieberg þar sem er að finna yfir hundrað verslanir. Við horfðum vandlega yfir kökurnar og að lokum völdum við innanblauta súkkulaðiköku, kladdköku. Svo settist Valdís. Meðan fremur kuldaleg og fjarræn ung kona setti á brauðdiskana og spurði hvað við vildum drekka, þá velti ég fyrir mér hvort henni leiddist þessi vinna eða kannski þótti henni ég bara vera svo hundgamall.
 
 Viltu þeyttan rjóma? spurði hún. Já, endilega. Svo setti hún rjóma við hliðina á kladdkökunum og tók svo bauk með fljótandi súkkulaði og bjó til fínar súkkulaðirendur þversum yfir allt saman. Ég fann mig knúinn til að segja; en hvað þetta verður fínt! Þá ljómaði upp andlit hennar og hún varð svona gullfalleg þegar hún sagði með eftirvæntingu í röddinni; "finnst þér það"? Það kostaði ekki mikið að fá þarna nokkur fín augnablik og minni fyrir daginn. Eftir góða stund yfir kaffinu og kökunum fórum við í kaupfélagið og keyptum til heimilisins.
 
*
 
 
Eftir heimkomuna og léttan hádegisverð og svolítið droll að auki, þá fór ég út á Bjarg til að smíða. Valdís var lúin og lagði sig. Mig vantaði 28 búta eins og þá sem eru þarna upp í loftinu milli langbandana út við vegginn. Ég minntist notalega tímans sem fór í að saga niður plankana í gær og ákvað að saga þessa 28 búta í höndunum líka, mjúkt efni og snyrtilegt. Svo gerði ég og átti aftur notalega stund þar sem ég naut vinnunnar sem ég var að framkvæma án þess að hlaupa og hamast. Ég velti fyrir mér nokkurs konar minningargrein eftir ungan mann þar sem ég las um smið nokkurn í mínu barndómshéraði. Ég vissi vel hver hann var og man vel hvernig hann bar sig að því sem hann fékkst við.
 
Í minningargreininni var sagt frá því að hann gaf sér alltaf tíma til að víkja sér að þeim sem komu eða gengu hjá, eiga við þá orðastað og taka ögn í nefið um leið. Hann hafði sinn hátt á að njóta lífsins við það sem hann vann að. Iðnaðarmenn sem hafa hjálpað okkur hér á Sólvöllum hafa ekki látið eftir sér að stoppa og taka í nefið með þeim sem ganga hjá. Þeir hafa unnið af hraða sem mér hefur stundum fundist nóg um, en ég hef svo sem verið ósköp feginn þegar ég hef borgað nóturnar. Þessir iðnaðarmenn nútímans bera mikið meira úr bítum en smiðurinn á Síðu gerði fyrir áratugum, en hann hafði, trúi ég, meiri frið í hjarta sínu.
 
Það er búinn að vera góður dagur í dag hjá okkur Sólvallahjónum þó að Valdís hafi kannski ekki verið alveg stálhress í morgun. Það jafnaði sig mikið þegar leið á daginn. Hún hefur núna verið að horfa á spurningaþátt í sjónvarpi og ég ímynda mér að hún bíði nú þess að ég komi fram til hennar. Hún er þolinmóð. Hún beið eftir mér í 30 ár. Mig minnir að ég hafi sem barn lesið eða heyrt ævintýri þar sem prinsessa eða einhver önnur ung kona hafið beðið eftir prinsinum sínum mjög, mjög lengi. Valdís beið öðru vísi. Hún beið í 30 ár eftir því að ég hætti að drekka brennivín. Við vorum ekki orðin tvítug þegar hún grét í fyrsta skipti vegna þess að ég var fyllri en aðrir. Nú er ég ófullur, hef ró í hjarta mínu og get notið þess að saga í höndunum 28 spýtur sem allar eru 23 sm að lengd.
 
Ég reyni að gera það einfalt og hef það sem verkefni í lífinu að ná árangri í þeirri list.

Að fanga daginn

Klukkan hjá ellilífeyrisþegunum á Sólvöllum hringdi sjö í morgun. Það var bara að sætta sig við að borða morgunverðinn á stuttri tíma en venjulega og fara svo af stað út í skammdegismyrkrið. Valdís átti að mæta á sjúkrahúsinu upp úr klukkan átta og fara í sérstaka röntgenmyndatöku. Við vorum þar vel í tíma og settumst inn á biðstofuna, fyrst Valdís og svo ég eftir að ég hafði lagt bílnum. Þar inni sátu nokkrar alvarlegar manneskjur og sögðu lítið. Það leið ekki á löngu þar til Valdís var kölluð inn og ég horfði á eftir henni og fannst eins og hún væri lítil og synd að hún þyrfti að fara ein á vit þess sem hendir þar inni. Samt gekk hún ákveðnum skrefum og bein í baki.
 
Nokkru síðar gengu hjón inn á biðstofuna, svo lík að mér datt hreinlega í hug tvíburar. Það fór fyrir þeim eins og mér að sætin voru lægri en þau reiknuðu með. Fyrst settist konan og henni brá svolítið. Svo settist maðurinn og honum brá einnig en hann hálf hló við og leit á mig. Ég kinkaði kolli til samþykkis þess að þetta væri ekki alveg samkvæmt því sem maður ætti von á.
 
Þau sátu næstum beint á móti mér og ég þurfti ekki að horfa á þau til að sjá að konan var mikið áhyggjufull. Hún virtist horfa í vegginn aðeins til hægri við mig en þó sá ég vel að hún horfi eitthvað langt, langt burtu og sá eitthvað allt annað en vegginn. Svo rétti hún út hendina til mannsins og hann tók hlýlega í hönd hennar. Síðan bað hún hann að sækja vatn að drekka. Þá vissi ég að hún væri að fara í svipaða myndatöku og Valdís. Þegar hún hafði drukkið vatnið rétti hún manninum aftur hönd sína. Augnaráðið virtist bundið einhverju langt í burtu.
 
Það hefur verið misjafnt, en öðru hvoru höfum við mætt fólki á þessum biðstofum sem hefur átt það mjög erfitt. Þá hef ég oft litið á Valdísi og séð að hún hefur borið höfuðið hátt og geigurinn hefir ekki merkst í augum hennar. Hún er dugleg konan mín. Ótrúlega fljótt kom hún til baka úr myndatökunni, við fórum niður á jarðhæð, út af B-húsinu og inn í A-húsið í svo sem 60 metra fjarlægð. Þar vorum við löngu ákveðin í að fá okkur kaffi og brauðsneið.
 
Valdís valdi sína brauðsneið og settist svo. Ég valdi mína brauðsneið, tók kaffi og borgaði. Þegar ég var búinn að borga brosti afgreiðslukonan sérlega vingjarnlega og sagði að það fylgdi ábót. Þegar ég kom að borðinu til Valdísar sagði ég henni að afgreiðslukonan hefði verið svo vingjarnleg þegar hún hefði sagt mér að ábót af kaffi fylgdi. Valdís spurði hvað gömul hún hefði verið og ég svaraði 28 til 34 ára. Góðar voru brauðsneiðarnar og svo var brátt búið úr bollunum.
 
Ég fór að ná í ábót og þá var afgreiðslukonan að raða vatnsflöskum í kæli. Ég tók þá eftir að hún var eldri en ég hafði ætlað í fyrstu. Þegar ég kom til baka að borðinu sagði ég við Valdísi að hún  hefði verið allt of gömul fyrir mig því að hún hefði verið nær fertugu. Þá skellihló Valdís, svo ótrúlega líflega, af mikið meiri gleði en ég hreinlega gat átt von á. Svona er það. Hún kemur mér ennþá á óvart eftir 52 ár undir sama þaki.
 
Síðan eftir heimsókn á heyrnadeildina í A-húsinu og einnig heim til Gihta og Robban fór ég með Valdísi í fótsnyrtingu. Stutt þar frá rekur stelpa verslun sem sérhæfir sig á kristall ljósakrónur. Ég ákvað að heimsækja hana. Þegar ég kom inn í verslunina sat hún að vanda innan við afgreiðsluborðið og fyrst þegar hún sá mig hafði hún ekki hugmynd hver ég var. Ég vissi nokkuð hversu gömul hún væri en spurði samt þegar mér gafst gott færi á. "Ja, du", sagði hún, ég er níutíu og tveggja ára.
 
Það var líklega 1998 sem við Valdís komum fyrst í þessa verslun og kynntumst þessari duglegu konu, henni Vally, og hittum hana býsna oft fram til 2002, en örsjaldan eftir það. Við keyptum ljósakrónu hjá henni og eitthvað fleira af smá dóti. Þegar á samtal okkar leið í dag sagði hún að við hefðum keypt tvær ljósakrónur hjá henni og aðra þeirra hefðum við farið með til Íslands. Já, alveg rétt. Við keyptum ljósakrónu hjá henni fyrir kunningja árið 2002 og fórum með til Íslands þegar við fórum þangað með bílinn með Norrænu. Þetta mundi hún.
 
Hún sagðist ganga tvo til þrjá kílómetra á dag, jafnvel þó að það væri él eða rigningarhraglandi. Ekkert notalegt sagði hún, en lífsspursmál að hætta því ekki. Hún sagðist einnig reka þessa verslun ein og að hún hefði verið að ljúka ársreikningnum í dag, einnig að hún hefði búið í Portúgal og Frakklandi í tuttugu ár, en til allrar hamingju hefði hún valið að koma aftur heim til Svíþjóðar. Þetta hjálpaði að halda heilanum í gangi þó að hann vissulega hafi hægt á ferðinni. Svo er ég búin að fara í mjaðmaaðgerðir en ég fer í aðgerðir til að verða frísk og það hefur mér tekist. Svo er ekkert meira vesen.
 
Mikið var ég feginn að hafa komið við hjá þessari merkilegu konu. Það var mikið meira sem hún hafði að segja en ég kemst ekki yfir það. Svo spurði ég hvort hún hefði séð heimildarmyndina um prestinn, þann sem ég bloggaði um í gær. "Ja, du", það var spengilegur kall og lifandi var hann og gladdi alla.
 
Það varð heil mikið úr þessum degi hjá okkur Valdísi þó að upphaflega erindið væri ekki það sem við manneskjurnar sækjumst eftir. Við erum í sveitinni núna í kyrrðinni og eftir smá stund ætlum við að athuga hvort eitthvað gott efni er í sjónvarpi, eða vídeómynd að skoða. Einmitt núna er Valdís að tala við Valgerði í síma. Unginn úr þessum degi er hlátur Valdísar á sjúkrahúsinu í morgun og stundin með henni Vallý í versluninni hennar. Að öðru leyti hefur dagurinn líka verið góður.
 
Háskólasjúkrahúsið í Örebro, aðalinngangur
Þarna er M-húsið, svo er A- B- E- L- P- X- húsið ef ekki fleiri.

Lífið sem gjöf

Ég er að bíða eftir að hárið þorni eftir sturtu kvöldsins og á meðan fer ég inn á Google til að forvitnast um mann að nafni Carl-Adolf Murray. Hann fæddist árið 1912 og var prestur. Á gamlársdag var sýnd heimildarmynd um hann og hún mun hafa verið tekin þegar hann var 97 og 98 ára gamall. Þá hafði hann verið ellilífeyrisþegi í 35 ár. Myndin gerði mig ennþá forvitnari um manninn og ég horfði á endursýningu hennar aftur í dag. Á Google fann ég filmubút frá 100 ára afmælinu hans sem hefur þá verið þann 25. september sl. Víst hafði hann eldst á þeim tveimur árum frá því lokið var við heimildarmyndina.
 
Í heimildarmyndinni er reynt að sýna hvernig hans daglega líf leit út. Hann fór á elliheimili og allir urðu glaðir þegar hann kom, hann sagði sögur og hnytna brandara en kunni sér hóf. Hann kom á fermingarbarnamót og allir hlustuðu á gamla prestinn. Hann kom á ýmsar samkomur og á einni þeirra hitti hann konu sem var í einhverju forsvari og hún sagðist hafa verið á fermingarbarnamóti hjá honum 1949. Hann horfði á hana og sagði svo að hann þekkti hana. Hann sagði sögur frá 1926 og 1939 og margar fleiri sögur. Eftir að heyra samtal við konuna sem sá um upptöku heimildarmyndarinnar treysti ég því að hún sé virkilega sönn.
 
Þegar hann var spurður í 100 ára afmælinu hvort að hann hefði átt von á svona mörgum varð honum að orði: Nei, það vissi ég ekki. Ég var heppnastur að hitta konuna mína. Hún var mér svo mikil hjálp í lífinu. Hann gerði sér alveg grein fyrir því sem hann sagði þó að hún væri þá dáin fyrir löngu. Hann vildi bara láta þetta koma fram.
 
En var það nokkuð sem hann vildi hafa gert öðru vísi? Jú, sagði hann, þúsund hlutir. Lífið er eins og gjöf sagði hann og heimildarmyndin heitir Lífið sem gjöf. Ég á eftir að finna eitthvað meira um þennan gleðigjafa sem hann virðist hafa verið og entist honum fram til 100 ára aldurs. Eitthvað vil ég læra af þeim skatti.
 
Nú er hárið orðið þurrt.

Allt er gott sem endar vel

Í dag hef ég bókstaflega ekkert gert og bara haldið mig heima, innan húss, utan það að ég fór og tók eitt mál út á Bjargi. Svo kom ég inn aftur og var nokkuð ánægður með það að málið sem ég vildi vita var 3,3 metrar. Nú mætti ætla að ég hafi verið alveg himinn lifandi yfir því að gera ekki neitt einn dag. En sannleikurinn er að ég var það ekki. Ég hef áður verið ánægður með að gera ekki hætis hót einn dag, en nú var þessi algeri frídagur ekki tekinn af fúsum vilja og minni eigin ákvörðun. Ástæðan er það sem ég bloggaði um í gær, að ég fór á "hvínandi hausinn" og er illt í úlnlið síðan. Ekkert sem ég er hræddur við þar sem ég get vel hreyft úlnliðinn og hreyft alla fingur. Ég vil bara fara vel með mig til að verða jafn góður aftur sem allra fyrst. Þessum degi hefur fylgt svo að segja mátulegur tómleiki.
 
Núna gæti ég til dæmis alls ekki nelgt nagla með hamri, en það vil ég geta gert sem allra fyrst. Eiginlega gat ég ekki heldur gengið eftir að maður stökk á hægri fótinn á mér þar sem við spörkuðum fótbolta bak við tjaldbúðirnar þegar við vorum að brúa Fjaðrá á síðu sumarið 1956. Ég horfði á fótinn á mér um leið og ég fékk mann á fullri ferð á öklann og mér fannst sem ég sæi endann á fótleggnum fara út af öklanum við höggið. Svo lagði ég mig smá stund, all smeikur, og fór svo í stígvélin um eitt leytið og fór að vinna við brúna.
 
Marga næstu daga var ég svo bólginn að ég varð að troða mér í stígvélið. Svo var það reglulega vont um tíma en svo dofnaði sársaukinn. Stígvélin studdu við öklann. Að lokum var farið fram á það að við hættum þessu sparki bak við tjaldbúðirnar í hádegishléinu þar sem þeir sem eldri vildu leggja sig eftir matinn. Ég var því afar feginn. Ég hef aldrei haft gaman af því að sparka fótbolta, en var hins vegar oft með til að vera ekki öðru vísi. Ég var lengi að ná mér í öklanum enda fór ég illa með mig en ég ætla að verða fljótur að ná mér í úlnliðnum.
 
Það er eins og Valdís hafi tekið svolítinn þátt í þessu með mér án þess þó að við töluðum um það mál. Við ákváðum að horfa á vídeó, tvær myndir sem við keyptum fyrir löngu síðan. Þessar myndir heita: Við vorum þó alla vega heppin með veðrið. Það er um fjölskyldu sem fór í sumarfrí með húsvagninn sinn og allt gekk á afturfótunum utan það að veðrið var gott. Svo var nýlega gerð framhaldsmynd með sömu hjónum, og sömu leikendum, sem fóru í sumarfrí á húsbílnum sínum, nýjum og glæsilegum. Í það skiptið fór líka allt úr skorðum utan það að veðrið var gott. Myndin endaði þó vel eins og sagt er.
 
Nú, við Valdís sátum þarna og horfðum á myndirnar og hlógum lítið. En myndirnar eiga nefnilega að vera spreng hlægilegar. Þær eru það. Samt höfðum við gaman af að horfa á þessar myndir og erum búin að ræða það nú eftir á. Ánægðust erum við þó með það að við erum búin að koma því í verk. Þá fylgja kannski fleiri myndir á eftir, myndir sem við erum búin að geyma í mánuði eða meira.
 
Matthew Arnold sem var uppi frá 1822 til 1888 var breskt ljóðaskáld og prófessor í greininni, maður vel virtur. Hann sagði: "Er það þá svo lítið, að hafa notið sólar, að hafa lifað ljósa vorið, að hafa elskað, hugsað, lagt hönd að verki."
 
 
Nei, það er ekki svo lítið. Nú er komið kvöld, sá tími dagsins sem ég er vanastur að hafa minnst fyrir stafni. Tómleikinn er líka að baki og hugsandi út í orð Matthew Arnold get ég verið hæst ánægður. Þannig var það líka í gær þrátt fyrir visst mótlæti, þá var samantekt af deginum mjög ánægjuleg. Nú ætlum við að horfa á söngprógram í sjónvarpi og hafa ánægjulega stund.
 
Så skall det låta byrjar klukkan átta að sænskum tíma.

Að syngja með mömmu og pabba

Klukkan að verða sex í kvöld, laugardag, nálguðumst við Valdís Sólvelli á leið heim frá Stokkhólmi. Bakkarðu ekki bara kerrunni inn sagði Valdís. Ég gerði ráð fyrir því. Svo þegar við vorum komin heim og ég búinn að skreppa inn og meðal annars að kveikja upp í kamínunni fór ég út til að bakka inn kerrunni. Í mörgum áföngum tókst mér að snúa við kerrunni í hálfgerðum snjógöngum milli ruðninganna sem mynduðust við að mokað hvað eftir annað snjó af leiðinni inn í nýju bílageymsluna.
 
Ég var alveg að verða búinn að fá kerruna í beina  stefnu á innkeyrsluna þegar ég fann hvernig bíllinn rann til að aftan á svellkúlu sem ég vissi að var þarna. Um leið heyrðist hljóð frá framendanum sem ég vildi alls ekki heyra. Ég fór út og steinn úr grjótgarðinum sem við förum í gegnum á leiðinni heim lá þétt að öðru framhjólinu og hann hafði gert tíu sentimetra rispu á brettið um leið. Ég tók á steininum og fann þá hvernig plásturinn rann af baugfingri hægri handar þar sem nöglin klofnaði í morgun. Ég ætlaði þá að sækja vetlinga til að hlífa fingrinum. Á leiðinni rann ég á einni svona svellkúlu og slengdist til jarðar með ótrúlegu hraði.
 
Þegar ég sá lappirnar á mér bera yfir ljósið frá bílskúrsdyrunum hugsaði ég til orða læknisins sem setti í mig nýja mjaðmaliðinn fyrir meira en þremur árum. Hann sagði að ef ég dytti illa gæti ég farið úr liði og þá þyrfti ég að koma til hans aftur og þar að auki væri það mjög sárt. Það er skrýtið hvað maður er fljótur að hugsa stundum. Svo skall ég niður á síðuna og ekki veit ég hvernig hægri hendin kom niður en mér hálf illt í úlnliðnum ennþá. Að auki blæddi úr skrámu. Ég valdi að biðja æðruleysisbænina frekar en að verða reiður. Óhöppin voru þegar orðin þrjú sama daginn. Svolítið rann mér nú samt í skap verð ég að segja. Ég vil ekki ljúga.
 
*
 
 Við höfðum sem sagt verið í Stokklhólmi og ég hafði sett allt á annan endan á heimili Rósu og Péturs með því að rífa að mestu leyti niður eitt stykki eldhúsinnréttingu og plokka svo sundur stykki fyrir stykki. En dvölin þar í einn sólarhring var þó ekki bara að rífa.
 
Pabbi Pétur spilaði á gítar og söng og Hannes sótti statífið fyrir gítarinn og söng svo í hljóðnema og dansaði.
 
Mamma og Hannes gáfu sér líka tíma til að setjast í sófann og syngja. Mér var svolítið hugsað til uppvaxtar okkar systkina þar sem tónlist og söngur voru ekki verulega í hávegum höfð. Ekki var það illa meint veit ég en ég komst ekki hjá því í dag að hugsa sem svo að þessi leið í uppeldi hlýtur að hjálpa einstaklingum við að öðlast sjálfstraust og losna við hömlur sem geta síðar í lífinu orðið til fyrirstöðu.
 
Svo hvíldi Hannes sig um stund í stólnum sínum.
 
Hann klæddi sig til riddara.
 
Og hann krýndi hana ömmu sína til drottningar. Hann er mjög góður og nærgætinn gagnvart ömmu sinni.
 
Hún Elísabet Eir Corters er alls ekki lágvaxin en hún verður það þegar hún kemur svo nærri honum Aski syni sínum. Þau komu í dag til að hjálpa til með eldhsinnréttinguna og koma henni niður tvær hæðir og út á götu þar sem henni var raðað á Sólvallakerruna. Allir hjálpuðust að. Ég verð líka að geta hennar Emblu systur Asks. Hjá henni hef ég smakkað eina af þeim allra bestu súkkulaðitertum sem ég hef nokkru sinni bragðað á. Það var þó ekki í þessari Stokkhólmsferð.
 
Þegar Hannes varð þess áskynja að við værum að leggja af stað varð hann sorgmæddur og sneri sér undan. Hann kvaddi þó að lokum og veifaði okkur. Bæði er þetta sárt en sýnir líka að honum er ekki sama um okkur.
 
Svo ókum við suður úr Stokklhólmi í dagsbirtu með kerruna nánast fulla af eldhúsinnréttingu sem á að setja upp í bílageymsluna á Bjargi. Það verður nú glæsilegasta bílageymsla í Krekklingesókn býst ég við. Á miðri leið var skammdegið að taka völdin og þegar við komum heim var orðið dimmt. Valdís var inni að ganga frá eftir ferðina þegar ég var úti og -eins og sagt var í gamla daga- fór á hvínandi hausinn. Ljósu minningarnar eftir þessa ferð gera mikið meira en að bæta upp eina ferð á hausinn, klofna nögl og smá rispu á bílinn.
 
Ef ég væri alltaf jafn fljótur að hugsa og ég er á leiðinni niður úr byltu, þá hlyti bara heimurinn að  líta öðru vísi út.

Og að sækjast eftir völdum

 
Fray Luis de Leon. Þetta nafn fann ég á Google. Hann var uppi frá því um það bil 1527 til 1591 og það er ekki auðvelt fyrir mig að segja í stuttu máli hvað hann aðhylltist og skrifaði um. En kannski segi ég ekki mikla vitleysu ef ég segi að hann hafi aðhyllst þá lífsstefnu að vera sem mest laus við hið jarðneska, að ná sambandi við Guð, sækjast eftir þekkingu og friði. Hann skrifaði um þessa stefnu með ívafi af siðfræði og fleiru þar að lútandi.
 
Ég nefnilega las rétt fyrir áramótin í bókinni Kyrrð dagsins vísdómsorð sem þessi maður skilur eftir sig og eru á þessa leið: "Og því er það að meðan aðrir aumir menn eltast hvíldarlaust við metorð og skammvin völd, sit ég í forsælunni og syng." Það var vegna þessara orða sem ég leitaði uppi nafn hans á Google.
 
Mér féll afar vel við þessi vísdómsorð en hins vegar hló ég með sjálfum mér þegar ég hugsaði mig sitjandi í skugga af stóru tré hér í Sólvallaskóginum og syngja. Ég tel mig alveg lausan við metorðagirnd en hins vegar reyni ég að gera vel það sem gera þarf vel. Og að sækjast eftir völdum. Já, menn eru kannski hættir því á mínum aldri að sækjast eftir völdum, en alla vega; í dag finnst mér það svo algerlega fáránlegt að eyða lífinu á þann hátt. Hins vegar verða sennilega einhverjir að taka að sér völd, alla vega eins og mannkynið velur að lifa lífinu nú til dags. Ég held bara að ég eigi nokkuð sameiginlegt með Fray Luis de Leon og mér fannst gott að hugleiða um stund þessi orð hans og það væri mörgum öðrum hollt að gera. Svo ekki meira um það sem mig skortir hæfni til að fjalla um.
 
*
 
Á morgun förum við hálföldungarnir til Stokkhólms til að sækja eldhúsinnréttingu sem við ætlum að nýta í geymslur á Bjargi. Okkur langar að koma reglu á vissa hluti hjá okkur og mig langar að geta farið út í þetta nýja hús þegar þannig stendur á, gert við hlut eða útbúið eitthvað, tekið fram verkfæri í þeim tilgangi sem ég get fundið af því að ég veit hvar þau eru geymd í góðri geymslu. Já, þá munu nokkrir góðir eldhússkápar koma að góðu gagni.
 
Í dag lauk ég við að einangra alla útveggi á Bjargi með 17 sm steinull. Svo setti ég rafmagnsofn í gang og fór inn til Valdísar í kaffi. Eftir um klukkutíma fór ég þangað út aftur og þá fann ég að þetta húsnæði var farið að hlýna. Mikið var það notalegt. Þó er eftir að bæta steinull innan á þá einangrun sem komin er og þá verður það auðvitað ennþá betra. Bjarg er að verða mikið gott hús. Ekki veit ég þó hversu mikil hraði verður á framkvæmdunum á næstunni. Ég hef engan metnað í því sambandi og þar á ég kannski eitthvað sameiginlegt með Fray Luis de Leon, en framkvæmdin er skemmtileg og gott væri að fá húsið tilbúið fyrir vorið.
 
Svo er allur þessi skemmtilegi snjór farinn sem var til skjóls fyrir jörð og gróður. Hiti er yfir frostmarki og spáin veit bara á gott veður. Það eru góðir tímar framundan trúi ég og það styttist í að ég fari að gera mér ferðir út í skóginn til að bera á sérstaka vini mína þar.
 
 
Svo má ég til með að birta mynd af honum Fray Luis de Leon
 
RSS 2.0