Að baka pönnukökur

Í gær talaði ég um það við Valdísi að það væri tími til kominn að hún kenndi mér að baka pönnukökur svo að ég gæti nú farið að baka pönnukökur handa henni þegar við vildum halda upp á eitthvað. En hún hló bara að mér. Svo fórum við inn til Örebro í dag þar sem hún keypti garn og annað handavinnuefni. Svo var að byrja að rökkva þegar við komum heim og fór ég út að saga í vélsöginni áður en það yrði aldimmt. Á meðan bakaði hún pönnukökur og svo bauð hún upp á kakó og pönnukökur. Ég segi nú bara að mikið var þetta góð hugmynd hjá henni. Mér getur orðið ónotalegt af kökuáti nú á seinni árum en hins vegar eru pönnukökkur alltaf sama góðgætið sem mér verður gott af. Þær ilma vel, eru fallegar á borði og gera mig glaðan. Ég hugsa að margir séu sammála mér. En hvað um það; ég ætti nú að læra að baka pönnukökur.

Önnur fæðutegund er ekki eins falleg á diski. Þegar búið er að setja hana disk er hún ólöguleg hrúga, einhvern veginn grádrappbrún á lit, með dökkum flygsum á víð og dreif og skapar alls ekki sömu átlöngunina og pönnukökur. Hvað skyldi þetta svo vera? Jú, það er hafragrautur með rúsínum. En hafragrautur hefur ótrúlegt aðdráttarafl í öllum sínum ófrýnileika. Mér verður nefnilega svo ótrúlega gott af honum. Einstaka sinnum fæ ég mér Cheerios með Valdísi á morgnana en mér verður ekki almennilega gott af því. Það er svo skrýtið þegar ég geri þetta, að mér finnst ég vera að halda framhjá hafragrautnum. Svo fæ ég mér hafragraut morgunin eftir, ólystugan á diski en góðan fyrir maga og kropp. Að vísu er ég farinn að nota pínulítinn rjóma út á hann til að gera hann meira aðlaðandi. En sem sagt; hafragrautur býður upp á góðan dag.
 
Þorsteinn heitinn Svanlaugsson vann lengi við veðbókarvottorðin hjá sýslumanninum á Akureyri. Ég kom þangað oft og við töluðum svolítið um daginn og veginn. Svo þakkaði ég fyrir og hélt minn veg. Ég býst ekki við því að Þorsteinn hafi vitað hversu mikla virðingu ég bar fyrir honum. Það gerði ég vegna þess að samkvæmt beiðni leiðangurstjórans í björgunarleiðangrinum að flugvélinni Geysi á Vatnajökli í september 1950, þá sneri hann einn við til að sækja eitthvað sem hreinlega mátti ekki skilja eftir í flugvélarflakinu sem þar beið örlaga sinna. Mér hefur alltaf fundist þetta svo hetjulega gert í septembermyrkrinu upp á víðáttum Vatnajökuls, á óhugnanlegum stað þar sem flugslys hafði orðið og flakið lá dreift yfir nokkuð svæði.
 
En hvað skeður svo. Ung kona gengur alein meira en 1100 kílómetra leið yfir ísfrera suðurskautsins til að ná marki sem menn hafa sótst eftir í heila öld, að standa sem sigurvegarar á suðurpólnum. Þetta gerði mig alveg ringlaðan. Hvað er hetjuskapur og afrek? Sennilega hvort tveggja. Ég skil þannig við þetta mál. Þorsteinn verður áfram hetja í mínum augum.
 
Fyrsti snjór kom í nóvemnberlok og svo snjóaði oft, í vikur, og það varð upp undir hálfs meters jafnfallinn snjór. Svo var vetur fram að áramótum eða svo. Eftir það hvarf snjórinn að mestu og það varð hálfgert vorveður í tvær vikur. Myndin fyrir ofan var tekin í gær og það er upp undir 20 sm snjór. Frostið er eitthvað yfir tíu stig og á að verða mun meira á morgun. Það er búið að loga í kamínunni í dag og það er hlýtt inni. Valdís hélt áfram að horfa á Skavlan þegar ég yfirgaf sjónvarpið. Rétt í þessu var ég að bæta í kamínuna og sá þá að hún var komin með prjónana á loft og farin að vinna úr garninu sem hún keypti í bæjarferðinni í dag.
 
Þegar ég horfi á þessa mynd af húsinu okkar er ég svolítið hissa á því að ekki skuli sjást nein ljós. En þeir sem hafa komið hingað vita að húsið er bjart og býsna hátt til lofts og það er gott að vera í þessu húsi. Það eru bjartari tímar framundan og dagurinn hefur þegar lengst um 66 mínútur. Ég skal viðurkenna að ég þrái langa daga meira nú en yfirleitt áður. Birtan síast inn í sálina og gefur mestan kraft þeim sem eru í mestri þörf fyrir hann. Vor er dásamlegt hugtak á þessari stundu.


Kommentarer
Björkin.

Segjum tvö mágur minn.Komið nóg af mirkri þennann veturinn.Flott er handbragðið á Bjargi.Listaverk. Knús í hús.

2013-01-19 @ 13:29:52


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0