Nógur tími

Það er miðvikudagur 11. maí og ég var áðan að taka saman í huganum hvað mér hefur verið efst í huga síðustu dagana og hvað ég hef verið að aðhafast. Það hefur verið alveg óvenju kalt og það er eins og allt hafi staðið í stað síðan fyrir síðustu helgi.
 
Það hljóta að vera átta eða níu ár síðan og það var einmitt í maí. Það voru þrálátir vestan vindar þetta vor og algengasta vindáttin hér er jú úr vestri. Ekkert hvassviðri var það en stöðugur blástur. Þegar maður er orðinn vanur góðu og hæglátu veðri verður maður líka kröfuharðari á það.
 
Ég átti leið til grannanna sunnan við og gekk þvert yfir lóðirnar. Þegar ég kom inn á þeirra lóð breyttist veðrið á nokkrum skrefum, það lygndi og sólarylurinn naut sín. En hvað það var notalegt. Ég stoppaði og velti fyrir mér hvað væri eiginlega á ferðinni. Á vestur lóðamörkum grannanna var þéttur trjágróður í einfaldri röð, aðallega hlynur og eik, sem ekki var hjá okkur. Ég vissi að skógur skýldi en að það væru svona skörp skil og gríðarlega mikill munur, það hafði mér aldrei komið til hugar. Og það var bara einföld röð af trjám. Það var eins og nágrannarnir byggju í öðrum heimi.
 
Við Valdís ræddum um þetta og svo tókum við ákvörðun. Við skyldum koma upp skógi á vestur mörkunum eins og hjá nágrönnunum og við völdum að mestu hlyn úr okkar eigin skógi sem við gróðursettum með tveggja metra millibili. En til að missa ekki fallegasta útsýnið frá sjálfu húsinu settum við sírenurunna vestan við það. Tvö tré keyptum við til að hafa þessa línu aðeins fjölbreytta en þau urðu aldrei falleg. Í fyrrasumar ákvað ég að skipta þeim út móti hlyn úr skóginum.
 
Ég var svolítið óþolinmóður þannig að ég valdi tré sem voru fimm og hálfur metri annað en hitt sex og hálfur metri. Þetta var auðvitað alveg kolvitlaus ákvörðun að velja svo stór tré og bauð upp á að misheppnast. Við þennan flutning hafði ég bara stunguspaða og hjólbörur. Ég beið vorsins núna með spenningi til að sjá hvort trén hefðu lifað af flutninginn og veturinn.
 
Það mætti kannski kalla þessa mynd fæðingu, en hún er af lífinu sem er að kvikna á stærra trénu, því sem var sex og hálfur meter. Svona lítur laufgun hlynsins út þegar hún er að opnast. Síðar verða blöðin á stærð við undirskál eða brauðdisk. Á haustin er mikið verk að annast laufin sem mynda þykkt lag umhverfis þessi tré en stundum hef ég látið veturinn annast verkið að miklu leyti og þá hafa síðvetrarvindar úr vestri blásið því inn í skóginn þar sem það hefur orðið að næringu á ný.
 
Hér sjáum við aftur á mótu fæðingu hjá hestkastaníu. Hestkastaníubtöðin skoða ég á hverjum degi því að breytingin er svo ör.
 
 
Ég stikaði mikið og spekúleraði áður en kastaníunni var valin staður, ég giska á fyrir níu árum síðan. Síðan var tekin óvænt ákvörðun um að lengja húsið í átt að henni og eftir nokkur ár fara greinar að teygja sig ansi nálægt því þar sem hestkastanían vex upp undir hálfan meter á ári, hingað til alla vega. Þegar ég skrifa þetta minnist ég þess vel af hversu mikilli alúð ég gekk frá þessu tré sem þá var upp undir mannhæðar hátt og stóra holu gróf ég fyrir því sem og mörgum öðrum trjám og runnum á Sólvöllum. Á hverju ári lít ég á nálægðina við húsið en svo slæ ég því á frest. Hvað gert verður verður leyst í framtíðinni.
 
Þannig litaði kvöldsólin fyrir nokkrum kvöldum síðan. Það var fallegt kvöld þó að það væri kalt. Myndin minnir mig á að það er ekki allt tilbúið á Sólvöllum. Ég á eftir að loka grunninum undir litla húsið. Það er auðvelt að verða blindur fyrir svona atriðum en þessu atriði tek ég eftir nánast daglega.
 
Dögunum fjölgar þar sem mér þykir sem ég hafi allan tíma sem finnst í veröldinni. Ég er orðinn ellilífeyrisþegi í fullu starfi en síðasta ár var hins vegar mikið vinnuár. Ég þarf að vera vakandi fyrir því að láta letina ekki taka yfir líf mitt að fullu. Á sunnudaginn var sat ég í stofusófanum og fann hvernig letin dró mig neðar og neðar í sófann. Ég fann að ég þurfti að drekka vatn en ég nennti ekki að reisa mig upp til að fá mér vatn að drekka. Þá gerði ég mér grein fyrir því að ég var orðinn allt of latur í sófanum í það skiptið.
 
Kemurðu með til Kumla? spurði þá Susanne allt í einu. Hún ætlaði þangað í stórinnkaupaferð. Þá reif ég mig upp, drakk þrjú glös af vatni og svo fórum við til Kumla. Letin hvarf af mér og ferðin var góð og ég hefði skammast mín fyrir ef ég hefði ekki farið því að það var mikið að bera. Hún gerði nefnilega stórinnkaup.
 
Lífið í sveitinni er gott en ekki kyrrstætt. Alltaf þegar ég hef lokið einhverju lít ég vel yfir og gleðst yfir að vera virkur. Þess vegna má letin aldrei yfirvinna mig í stofusófanum enda skeður það ekki oft.
 
Að lokum um hlynina við vestri lóðarmörkin. Eftir að þeir voru gróðursettir í upphafi gerði tvo mjög kalda og vetur og með þungum snjóalögum. Þá voru dádýrin og hérarnir svöng og átu börkinn af helmingi þeirra. Sagan um hlynina var því ekki alveg áfallalaus en nú eru þeir búnir að fá svo þykkan börk að hérarnir vilja hann ekki, jafnvel þó að harðnaði í ári.

Enn eru það vorannir

Nú er best að litast um á Sólvöllum. Það er mikið í gangi. Sumardagurinn fyrsti hefur verið haldinn hátíðlegur á Íslandi en fyrir mér er vor.
 
Það er spurning um að banka upp á þarna og athuga hvort einhver er heima. Fuglahólkur heitir þetta hér í landi og ef maður er eins og fuglahólkur þýðir það að maður er ekki alveg með á nótunum. Þessi fuglahólkur er festur á eikarstofn og þegar við Valdís komum hingað að Sólvöllum var þessi eik kræklótt og illa slitin eftir að hafa verið mitt inn í reyniviðar og greniþykkni. Ég frelsaði hana úr þessari ánauð árið 2004. Til hægri á myndinni sér í aðra eik sem ekki var alveg jafn illa komið fyrir. Samvæmt myndinni virðist hún halla sem hún ekki gerir, það er bara svo margt sem myndasmiður þarf að hugsa út í en tekst ekki alltaf. Þessar eikur eru nú beinar og með fallega krónu eins og svo margar eikur sem ég hef frelsað úr ánauð hér á Sólvöllum og ég er stoltur af þeim þegar ég rölti um og styð hendi á þær. Ég býð upp á mynd af þeim seinna þegar laufhafið hefur umvafið þær. En nú er að banka upp á litla húsið í skógarjaðrinum.
 
Já góðan daginn. Mamma var ein heima. Og þó, það er ekki víst að henni hafi fundist hún vera ein. Alla vega voru eggin henni svo mikils virði að hún yfirgaf þau ekki þó að hún yrði óróleg yfir heimsókn minni. Það er veglegt lag af einangrun sem hún liggur á og skapar væntanlega jafnan hita á verðmætunum sem hún hlúir að.
 
Broddi étur sitt avókadó daglega en samt er hann ekki að sýna sig of mikið fyrir okkur. Ég hef einu sinni séð hann en Susanne hefur oftar orðið hans vör. Það er nokkuð ljóst að hann á sér heimili undir veröndinni og þar gæti hann verið með ungana sína þegar líður á sumarið, ekki fyrr en í ágúst eða svo. En svo er eitt, við vitum ekki hvort það er hann eða hún sem býr undir veröndinni. Pörun broddgalta er löng og áköf, getur tekið fleiri klukkustundir, en þegar ætlunarverkinu er lokið hittast þeir ekki fyrr en að ári. Þeir eru einfarar.
 
Broddgölturinn á myndinni er ekki ekta. Hún María fyrrverandi vinnufélagi minn sá hann á búðarhyllu stuttu eftir að hún sá mynd af Broddabústað mínum í fyrra. Hún keypti hann og gaf mér sem var vingjarnlegt af henni. Nú er hann þarna á veröndinni og ef ég er annars hugar þegar ég kem að honum getur mér brugðið verulega í brún. Ég vil alls ekki stíga á broddgölt og þetta getur fengið mig til að hoppa.
 
Í þessum römmum er mjög góð mold en ræktunin í þeim tókst ekki svo vel í fyrra. Alls konar illgresi var nefnilega búið að taka yfirráðin í þeim og það var ekki til svo mikils að reita það burtu, það var búið að taka völdin aftur innan fárra daga. Því stakk ég þetta upp fyrir hálfum mánuði og svo lagðist ég á hnén fyrir fáeinum dögum með ótrúlega góða vinnuvetlinga sem ég fékk í allt mögulegt búðinni í Fjugesta. Svo byrjaði ég á öðrum endanum í hverju hólfi og færði alla mold til með höndunum, hrærði í henni og plokkaði upp allar rætur og allt sem ég bara fann og benti til byrjunar á gróðri. Það varð heill haugur. Nú finnst mér að ég hafi unnið gott verk.
 
Í tveimur hólfum er hvítlaukur sem varð eftir í fyrra og svo hef ég sáð fyrir dill og gulrótum. Kartöflur eru annars staðar. Ég veit að þetta er ekkert sérstakt en það er þetta sem ég bauka við þessa daganna utan að vinna í skóginum.
 
Hér eru kryddjurtirnar blóðberg, graslaukur, oreganó, steinselja og persilja. Dill hafði ég jú sáð fyrir og ef einhver getur stungið upp á fleiri góðum kryddjurtum tek ég gjarnan við uppástungum.
 
Þvottahúsbekkurinn er með í þessu og þar hef ég sáð fyrir bóndabaunum, grænum baunum, rósakáli, risagraskeri og öðru minna graskeri. Mig vantar ennþá tvær sortir af graskeri sem ég þarf að leita að í dag inn í Marieberg og Örebro.
 
Nú skreppum við út í skóg -eina fimmtíu metra. Árið 2006 þegar við Valdís felldum 13 stór grenitré til að nota í viðbyggingu á Sólvöllum átti ég í miklum samningaviðræðum við sjálfan mig. Eigum við að taka þessi tvö líka eða . . . . ? Þau voru nú stærst og hefðu gefið af sér marga sterka planka en þau uxu líka svo fallega hlið við hlið og þau fengu að lifa. Ég sé ekki eftir því. Þetta eru orðin voldug grenitré og annað þeirra hefur aukið ummál sitt um tæpan hálfan meter á tíu sumrum. Planki sem væri sagaður úr því miðju yrði tæplega fimmtíu sm breiður. Ég stoppa oft hjá þeim og virði þau fyrir mér, neðan frá og upp -og niður aftur. Þannig er það að ef maður grisjar vel í greniskógi eykst vastarhraðinn mjög hjá þeim sem eftir lifa og svo er það jú í öllum skógi. Mörg önnur grenitré sem fengu að lifa eru orðin mikið stærri en þau sem við felldum fyrir tíu sumrum.
 
Bændur velja til ásetnings á haustin þegar þeir líta yfir fjárhópinn sinn og það sama hef ég gert í vor. Svo sem ég hef einbeitt mér að grisjun og umhirðu í skóginum í vor á ég líka von á ávöxtun fyrir þá vinnu. Nú þegar ég horfi yfir tölvuna mína út um gluggan sé ég hvernig sumarið er að taka yfir með grænu laufhafi og öðru lífi. Ég finn fyrir viðkvæmum streng í brjósti mér þegar ég horfi á þetta og skrifa það. Ég verð hrærður. Vorið er guðdómlegt en haustið færir mér trega. Það er gott að skrifa á morgnana.
 
 Vor

Vorannir

Það var þannig hér í eina tíð að ég gat ekki þagað yfir neinu sem ég var að gera eða eða því sem skeði í kringum mig. Nú hef ég setið á mér lengi, svo lengi að seinni partinn í dag fékk ég fyrirspurn um það hvort tölvan mín væri í óstandi. En svo skrýtið var það að seinni partinn í dag var ég búinn að ákveða að láta heyra frá mér í kvöld, síðan var ég spurður eftir þessu með tölvuna. En nú er það svo að ég er orðinn ellilífeyrisþegi í fullu starfi og þá gefur það auga leið að ég hef ekki mikinn tíma aflögu fyrir tölvuna. (brandari)
 
Það var mánudaginn 1. maí sem við borðuðum fyrsta morgunverðinn úti þetta árið. Í tilefni dagsins var enginn hafragrautur, heldur mannagrjónagrautur með kanel út á en enginn sykur. Þetta sést líka í skálinni hjá mér. Það var svo sem ekki sérlega hlýtt þennan morgun og það er þess vegna sem ég er svolítið fínn í tauinu.
 
Í fyrradag, þann 2. maí setti ég niður svolítið af kartöflum. Ég þarf að setja meira niður en vonast jafnvel til að fá aðstoðarmann í það frá Stokkhólmi. Hann er duglegur við kartöflusáninguna, lætur spírurnar snúa upp og hefur jafn langt á milli. Það líkar afa vel. Sama dag sló ég svo lóðina í fyrsta skipti á árinu.
 
Ellilífeyrisþegi í fullu starfi sagði ég og þá lét ég gamlan draum rætast og fór út í skóg með keðjusögina og felldi yfir þrjátíu tré. Þetta var grisjun sem ég hafði skipulagt býsna vel en þegar upp var staðið hafði ég fellt um það bil helmingi fleiri tré en ég ætlaði mér. Þegar ég var á annað borð byrjaður ákvað ég að gleyma því að það er mikil vinna að taka höndum um svo mörg tré því að þetta að fella tré er bara byrjunin á mikilli vinnu. Ég er búinn að hreinsa greinar af öllum trjánum og ganga frá þeim á snyrtilegan hátt. Á myndinni eru tveir reyniviðir þar sem annar var helmingi stærri en hinn. Þessir reyniviðir höfðu ótrúlega margar greinar sem ég þurfti að annast en svo var því snyrtilega lokið og þá var ég ánægður og sneri mér að næsta tré. Þessa reyniviði hef ég ætlað mér að fella í mörg ár. Þeir áttu ekki heima þar sem þeir voru og þeir skemmdu önnur og fallegri tré. Nú liggja stofnarnir þrjátíu út í skógi og bíða þess að ég flytji þá heim. Áður en ég geri það þarf ég að ljúka mörgum og mikilvægum verkefnum.
 
En það voru ekki bara tré sem ég þurfti að grisja. Mörg hundruð plöntur og smátré þurfti ég líka að fjarlægja og það var mikið meiri vinna en að taka trén. Þar er ég liðlega hálfnaður sýnist mér. Þeir einstaklingar sem eftir eru fá meiri birtu og hafa minni samkeppni um næringuna og koma til með að vaxa betur. Krónurnar verða þá fallegri þegar haustar. Sjáið stellingarnar. Svona getur Skaftfellingur litið út þegar hann vinnur í skógi i Svíþjóð.
 
Vorkoman var seinni nú en mörg undanfarin ár en samt er hún tveimur vikum fyrr á ferðinni en var í meðal ári fyrir hundrað árum síðan. Heggirnir voru fyrstir til að laufgast og eru þegar farnir að setja vorsvip á skóginn.
 
Í hitteðfyrra gróf ég fyrir einum fimmtán berjarunnum af ýmsu tagi og svo ætlaði ég ekki að grafa fyrir fleyri runnum þar sem ég ætlaði að hafa það náðugt á eftirmiðdegi lífs míns. En hérna um daginn komst ég að því að ég mætti til með að vera með rósaberjarunna þar sem berin af þeim væru svo holl. Svo keypti ég runnann og þá komst ég ekki undan með að grafa fyrir honum. Það gerði ég svo í dag.
 
Ég bað Susanne að taka mynd af mér þegar ég var að verða búinn að grafa þessa holu. Grobb. Ég kveið svolítið fyrir þessum grefti. Hola sem er einn metri í þvermál og hálfur á dýpt tekur í þegar jarðvegurinn er samanbarinn og mikið af grjóti og járnkallinn er með í för. Að lokum liggja svo milli þrjú og fjögurhundruð kíló af uppgrefti á bakkanum. Ég er afskaplega ánægður með að geta gert þetta, jafnvel svolítið montinn. Bakvið mig eru berjarunnar sem ég gróðursetti í fyrra í holurnar sem ég gróf árið þar á undan. Þar eru berjarunnar sem hér kallast aronia, bláberjarunnar og stikilsber.
 
Meðan ég baukaði við mitt í dag fór Susanne í Marieberg og keypti sumarblóm sem hún síðan gróðursetti í marga potta og hér er mynd af þremur þeirra. Meðan ég skrifa þetta situr hún við heimanám sem lýkur um miðjan júní. Hún tók mynd af mér en ég ekki af henni. Ég bæti fyrir það seinna.
 
Hér lýkur skýrslugerð frá Sólvöllum í Krekklingesókn.
RSS 2.0