Gestatíð

Það er orðið áliðið dags á föstudaginn langa og sólin lækkar á vesturhimni en þó eiginlega ótrúlega hátt á himni ef miðað við að það eru ískaldar næturnar hver af annarri. Það er eins og að vera nálægt miðjum vetri. Ungur veðurfræðingur spáði því nokkru fyrir jól að þessi vetur yrði frekar kaldur. Um tíma var eins og það mundi alls ekki ganga eftir en allt í einu og seint á vetrinum kom fram að hann hafði rétt fyrir sér. Nú hefur sami veðurfræðingur komið með aðra spá; þess efnis að það verði kalt þar til um miðjan apríl.
 
Þau virðast bara hafa það alveg ágætt þarna í leður tekkstólunum. Við höfum haft heimsókn frá Íslandi síðan á pálmasunnudag. Valgerður dóttir mín og Jónatan tengdasonur komu þá og þau fóru í dag. Þegar ég er að byrja að skrifa þetta eru þau líklega komin langleiðina til Vestamannaeyja. Það var engin sólarlandaferð fyrir þau að koma hingað þó að það væri bara býsna mikil sól, en það var sem sagt kalt. Og hvað er þá hægt að gera.
 
Á myndinni af þeim hér fyrir ofan erum við stödd í húsgagnaverslun sem er um 40 km sunnan við Örebro. Þessi verslun selur mest tekkhúsgögn sem voru framleidd kringum 1960. Svo er selt smálítið fleira þar frá sama tíma og árunum þar á eftir. Þau hafa komið í þessa verslun áður og keypt lítilsháttar. Síðast þegar við komum þar fann Jónatan skál sem hann vann við að forma og lita þegar hann var framleiðslustjóri hjá fyrirtækinu Glit í Reykjavík. Ég held að honum hafi hlýnað um hjartaræturnar við að finna þessa skál í útlöndum og hann keypti hana að sjálfsögðu. Í ferðinni þangað núna fann aðra skál framleidda í Glit þó að hann hefði ekki verið jafn mikið tengdur henni og þeirri fyrri. Sú skál er líka komin til Íslands aftur.
 
 
Þessi verslun er eins og ég sagði með mikið af tekkhúsgögnum frá því á sjöunda áratugnum. Svona húsgögn var verið að framleiða í TM-húsgögnum í Reykjavík þegar ég vann þar árin 1959 til 1963. Það er svo vel frá öllu gengið þarna, allt er vel viðgert sem þarfnast viðgerðar og þau hafa mjög góðan smekk fyrir uppstillingu. Ég skal viðurkenna að ég verð næstum ljóðrænn við að ganga um gólf í þessari verslun og móttökur fólksins þar eru með endemum góðar. Ég held að Valgerður og Jónatan hafi fundið fyrir þessu öllu líka.
 
 
Ég verð næstum ljóðrænn sagði ég og að halda utan um peningaveskið er alls ekki einfalt. Þessir sex stólar þarna höfðuðu mikið til mín. Þeir eru alls ekki ódýrir en svo ótrúlega fallegir og þægilegir. Það er aldrei að vita hvert leiðin liggur í næstu viku og spurning um að telja niður í veskið áður en lagt verður af stað. Það er Valgerður sem stendur þarna til hægri og er bara pínulítið inn í myndinni.
 
 
En við vorum ekki bara í verslunarferðum. Á þessari mynd eru sex íslendingar og tveir Svíar. Við söfnumst stundum saman sem búum hér á Örebrosvæðinu og nú slógust Valgerður og Jónatan með í hópinn. Til vinstri og næst okkur er íslenskan Ingibjörg Pétursdóttir og svo maðurinn hennar hann Leif Siik. Leif hafði verið með íslenskum manni til sjós. Eftir það fór hann til Íslands til að heimsækja þennan félaga sinn. Hann ílentist um skeið á Íslandi og þar kynntist hann Ingibjörgu. Hvorugt þeirra hefur sleppt hinu síðan. Þau giftu sig og þá varð Ingibjörg líka Siik. Leif talar góða íslensku og hann veit margt um Ísland sem ég veit ekki. Hann er Íslandsfróður maður.
 
Nær glugganum eru svo Jónatan og Valgerður. Á móti þeim sitja Svanhvít Gróa Ingólfsdóttir og Tryggvi Þór Aðalsteinsson. Þau eru búin að búa nokkru lengur í Svíþjóð en ég. Svanhvít hefur unnið við umönnun aldraðra og Tryggvi hefur lengi verið í forystu fyrir endurmenntun aldraðra á Örebrosvæðinu og víðar. Og að lokum erum við þarna ég og Susanne.
 
Þetta er góður hópur og við erum þarna á góðum stað, í Naturens Hus í Örebro. Naturens Hus er jú bara hús náttúrunnar. Því fylgir heil mikil saga sem ég fer ekki í gegnum hér en eitt er víst; Naturens Hus er virkilega fínni veitingastaður.
 
 
 
Valgerður og Jónatan hjálpuðu mér við að fella fimm tré. Í fyrsta lagi er ég aldrei einn þegar ég felli tré og í öðru lagi þurfti ég hjálp við að fella flest þeirra. Ég var búinn að spara að fella þau þangað til hjálp mundi berast. Tréð sem liggur þarna er birki sem var tæpir 24 metrar á hæð. Í fyrsta lagi skemmdi þetta birkitré háa furu sem stóð mjög nærri og háa furu vill maður ekki svo gjarnan skemma. Svo var birkitréð all bogið og ekkert skrauttré, en þó voldugt tré. Furur vaxa ekki hratt og það er borin stór virðing fyrir stórum furum. Það er bara ein stór fura í Sólvallaskóginum og hér eftir er þarna fura sem á tiltölulega stuttum tíma á möguleika á að verða sterkleg fura. Ég hef frelsað fleiri furur í skóginum. Þetta birkitré var jú hátt, 24 metrar eins og ég sagði og stofninn rúmlega 40 sm í þvermál. Ætli það hafi þá ekki verið upp undir eitt og hálft tonn sem skall til jarðar. Það fer ekkert alveg hljóðlega fram og það er heldur ekki alveg án tilfinninga fyrir eigandann að halda á mótorsöginni.
 
 
Hvorki ég eða Susanne höfum gert pizzu og ég hef ekki heldur verið svo mikill pizzumaður gegnum lífið. En Valgerður og Jónatan eru duglegt pizzugerðarfólk og þeirra pizzur hefur mér "reyndar" þótt góðar. Í gær vorum við Susanne sett við eldhúsbekkinn og gert að læra að gera pizzu. Í dag höfum við borðað pizzu sem við "sjálf" gerðum í gær undir vökulum augum reynds pizzugerðarfólks. Takk fyrir það Valgerður og Jónatan.
 
 
Susanne raðaði upp í dag ýmsu efnislegu sem tilheyrir páskum og tók mynd. Þannig lítur litla sófaborðið út núna, annað sófaborðið af tveimur sem við eignuðumst í Sólvallagötunni á að giska á árinu 1975.
 
 
Núna er kvöld á föstudaginn langa. Á að giska um hálf átta leytið í kvöld leit vesturhinininn svona út þegar sólin var að ganga til viðar bakvið Kilsbergen. Það verður farið snemma að sofa á Sólvöllum í kvöld, allt í fari okkar Susanne bendir til þess. Annars höfum við farið snemma að sofa núna í mörg kvöld. Gestirnir okkar gerðu það líka og það fer vel á því.
 
Góða nótt.
 
 
RSS 2.0