Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur

 
Þetta blogg er of langt en ég vildi samt ekki slíta það sundur, hugsunin að baki því leifði það ekki. Að því leyti hefði ég viljað hafa það ennþá lengra. Einhverjir, kannski all nokkrir, koma til með að lesa það. En í fyrsta lagi er það mikilvægt fyrir mig, að setja hugsunina í það horf að mér finnist í lagi að birta hana fyrir öðrum. Þá hef ég gengið í gegnum eitthvað sem er mér mikilvægt. En svo er bara gaman ef einhverjir vilja lesa það
 
 
 
 
Þessi mynd var tekin í janúar, tekin frá mörkum Sólvallaskógarins och austur í skóg nágrannans Per. Þessi skógur er vel hirtur nytjaskógur en fátækur af tegundum, ég giska á 99 % greni, um og yfir 20 metra hátt. Síðan var ein og ein fura og ein og ein ösp.
 
 
 
 
Fyrir nokkrum vikum veitti ég því athygli að það var orðið svo bjart í austri að baki Sólvallaskógarins. Illur grunur lagðist að mér. Ég gekk með myndavélina nálægt því á sama stað og efri myndin var tekin frá og þá leit það svona út. Á minna en degi hafði einn hektari af allt að 100 ára gömlum skógi fallið í valinn. Ég varð ekki var við þetta, líklega ekki heima þann daginn.
 
Nytjaskógur er jú til að fella hann að lokum og selja og þannig lagað var þetta bara eðlilegur gangur. En það var líka annað sem rak á eftir því að fella þennan skóg og það var að ákveðið meindýr sem bara leggst á greni var komið í hluta af því. Þá skal það fellt eins fljótt og hægt er til að stöðva eða hægja á útbreiðslu meindýrsins.
 
Þetta meindýr var líka komið í skóginn hjá nágrannanum Jónasi sem á skóginn norðan við Sólvallaskóginn þannig að nokkrum vikum seinna felldi hann skóg þar líka. Þá var ég mjög nálægur og þegar gríðar sterk vél sagaði á snöggu andartaki yfir 100 ára grenitrén niður undir rót, dró þau svo með hraði gegnum gríðarlegan kjaft og sagaði þau í lengdir ásamt því að ryðja af þeim greinunum, þá var atgangurinn svo mikill og mér fannst sem skógurinn öskraði. En skógur Jónasar var líka nytjaskógur svo að þannig lagað var þetta líka eðlilegur gangur. Í skógi Jónasar var all nokkuð af furu sem skilin var eftir og nú eiga þær að verða foreldrar til nýskógarins sem taka á við.
 
En af hverju er ég að skrifa þetta? Jú, að nokkru leyti til að segja frá veðurbreytingunum sem þetta allt hefur nú valdið. Á Sólvöllum hefur aldrei blásið austan átt síðan ég kom hingað -aldrei síðan ég kom hingað- en eftir þessi inngrip í skóginn blæs nú oft af austri. Morgunverður á veröndinni er ekki svo notalegur lengur nema suma daga. Vegna breytinganna hafa líka þrjú tré fokið um koll í Sólvallaskóginum sem aftur hefur svo auðveldað austanáttinni ennþá frekari aðgang að hýbýlunum hér.
 
 
 
 
Þarna standa átta hlynir í röð við vesturmörkin á lóðinni og alla nema einn sótti ég inn í skóginn. Einn keypti ég á garðyrkjustöð. Þeir standa á hæsta punkti á Sólvallalandinu og það er möl undir þeim. En hlynir eru harðir af sér og þeir báru sig vel í hitunum og þurrkunum í fyrrasumar. Nú sé ég þá mun oftar bærast í vindi en áður, sem sagt líka í austanátt. Skógur heldur mildri verndarhendi yfir nágrönnum sínum og gefur þeim grið. Það er bara þannig. Ég hef oft staðið úti í austanátt og hlustað á veðurhljóðið sem berst frá trjátoppunum, ég á líka vídeóupptökur af því, en sjálfur hef ég staðið á jörðu niðri og einungis fundið örhægan andvara strjúka mér um kinn.
 
Væri ég vísindamaður og vildi segja eitthvað um þetta yrði ég að hafa nákvæmlega skráða klukkutíma af vindi úr ólíkum áttum, af vindkrafti og hitastigi, allt til fleiri ára aftur í tímann. En ég hef það ekki en sumt er svo áþreifanlegt að það verður ekki um villst.
 
En svo að því góða. Hlynirnir sem við sjáum á myndinni eru í vorskrúðanum sínum. Stærð blaðanna er kannski einn fimmti eða einn sjötti af þeirri stærð sem síðar verður. Ég hlakka til að sjá það. Hlynirnir eiga að milda vestanáttina á Sólvöllum, til þess voru þeir gróðursettir þarna, en loka útsýninu þangað sem minnst. Mín óskastaða er að hafa útsýni til einnar áttar, þangað sem landslagið er fallegast. Þannig er það á Sólvöllum.
 
Skógarnir eru hluti af sænskri efnahagslegri velsæld og þeir þekja meira en helming landsins. Þegar skógar hverfa sleppa vindarnir inn á kroppinn. Engin veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Fyrir mér er auðvelt að velja milli útsýnis og veðursældar.
 
 
 
 
Í gær, sunnudaginn 28. apríl, voru þessi eikarblöð þau stærstu á Sólvallalandinu. Ég er nokkuð viss um það. Þetta er á rúmlega tveggja metra háu tré sem ég flutti fyrir tveimur árum innan úr skóginum og nær íbúðarhúsinu. Nú virðist þessi eik vera að ná sér eftir áfallið sem flutningurinn olli henni.
 
Það eru hundruð eikarplantna í Sólvallaskógi, frá 80 sm hæð og upp í nokkra metra. Margar minni einnig. Svo eru nokkur eikartré sem eru all stór eða stór. Ég hef eftir bestu getu hjálpað eikunum með því að gefa þeim rými og rétta þær og styðja í bernskunni. Eikur eru sterkar, þær berjast ötullega fyrir lífi sínu og þær rétta sig ótrúlega mikið sjálfar. Nú kemst sólin mun meira að þessum eikargróðri sem kemur væntanlega til með að auka vaxtarhraðann til muna. Það er ekki allt neikvætt við að fella skóg en samt fann ég fyrir fleiri daga sorg eftir báðar fellingarnar.
 
 
 
 
Að lokum. Húfan mín er þarna til að fá einhverja viðmiðun. Ég hef ekki reynt að telja árshringana en Jónas sagði að elstu trén væru yfir 100 ára og hans skógur var hærri en Pers skógur. Þessi mynd er frá Jónasar skógi.

Myndir frá vorinu og lítilsháttar af vorverkunum

Það er óvenju hlýtt í landinu og hitinn er nálægt því að vera frá 18 gráður og upp í 22 gráður á hverjum degi. Það er líka óvenju þurrt og það brennur í Svíþjóð. Síðustu dagana verður mér oft hugsað til síðastliðins sumars þegar það var eins og það ætlaði aldrei að hætta að brenna. Það var beðið eftir slökkviflugvélunum frá Evrópu sem voru mjög mikið öflugri en stærstu þyrlurnar. Þær komu fyrst til Örebroflugvallar sem var þeirra höfuð aðsetur sem þýddi að þær flygju lágflug yfir sólvelli við komuna. Svo heyrðum við flugvélahljóð sem var öðruvísi en flugvélahljóð sem við könnuðumst við. Ég hljóp út eins og smákrakki og kallaði svo til Susanne; komdu fljótt, komdu fljótt, og svo kom hún fljótt. Svo horfðum við eftir flugvélinni hverfa yfir skóginn og vorum glöð. Þannig gekk það til þrisvar sinnum en við misstum af einni þeirra.
 
En þetta var eiginlega ekki það sem ég ætlaði að tala um, það bara kom. Ég ætlaði aðeins að tala um vorið. Það er mikið að ske og mundi ske ennþá hraðar ef það mundi rigna býst ég við.
 
 
 
 Fyrir fimm dögum leit hestkastanían sunnan við húsið svona út
 
 
Fimm dögum seinna, það er að segja í dag, leit hún svona út. Þetta er kraftmikil fæðing og mjög gaman að fylgjast með. Að fara á hverjum morgni að kastaníunni og sjá hvernig hefur gengið frá kvöldinu áður, það er bara stór gaman.
 
 
 
 
Og hlynurinn vestur við veginn og aðeins sunnan við húsið var svona á sama tíma og fyrri myndin af kastaníunni.
 
 
Í dag, líka fimm dögum seinna, hafði mikið skeð. Það er álíka gaman að fylgjast með vextinum þarna og það kemur fyrir að mér liggur svo mikið á að ég fer á nærbuxunum. Svoleiðis er hægt að gera í sveitinni án þess að nokkur taki eftir því. Ég að sjálfsögðu mundi ekki gera það ef það væri fólk á ferðinni. Ég er vel upp alinn.
 
Það eru mörg fleiri tré að koma í gang en þessi eru þó sýnilegust ennþá, hestkastanían og hlynurinn.
 
 
 
Hér er ég búinn að hreinsa og undirbúa sáningu, eða gróðuretningu. Efst er gott lag af moltunni minni. Ætli það verði ekki pumpa hér eins og í fyrra. Mér hefur ekki tekist vel til með pumpuna í tvö eða þrjú ár en ég get verið þrár og að lokum mun ég fá góða uppskeru.
 
 
 
 
Hér voru laukar í fyrra og laukarnir entust fram yfir áramót, nota ég þó mjög mikið af lauk. Eiginlega finn ég ekki svo mikið bragð af lauk en þegar ég hef lauk í hendinni og er að gera mat, þá bara vil ég hafa mikinnl auk. Ég á eftir að bæta moltunni á þetta beð.
 
Jú, eitt enn um þessa mynd. Þarna næst okkur til hægri eru einhverjir skrýtnir hlutir í moldinni. Þetta eru pappaglös og síðast þegar Hannes var hér á ferð sáði hann eikarfræjum í glösin. Þau eru nú í mold til að halda jafnari raka á þeim. Enn eitt til að hafa gaman af. Ég veit að það er of snemmt en samt gái ég á hverjum degi hvort nokkuð sé komið upp. Þá mun ég láta Hannes vita með það sama.
 
 
 
 
Kartöflulandið, eða kartöfluholan eins og ég segi oft, er á stærð við frekar lítið herbergi, en það dugir vel. Það er líka tilbúið að setja niður hér. Ég hef enga góða geymslu fyrir kartöflur þannig að ég geri ráð fyrir að setja tvisvar sinnum niður með svo sem þriggja vikna millibili. Uppskeran þarna hefur verið afburða góð og mig minnir að stærsta kartaflan hafi verið nei, -ég man það alls ekki, en hún dugði meira en einu sinni í matinn fyrir okkur bæði. Stundum viljum við ekki borða kartöflur en sannleikurinn er að mér verður mikið betra af kartöflum en til dæmis brauði.
 
 
 
 
Og hvað í veröldinni er nú þetta? Jú, ég var að koma inn í gær eftir vinnudag úti. Þegar ég var alveg að koma að útidyrunum heyrði ég mikið þrusk í laufi undir veröndinni. Það lá við að ég hoppaði pínu lítið fyrst en svo áttaði ég mig á því að vinurinn Broddi væri kominn á kreik. Því færði ég honum egg á diski. Ekki veit ég hvort það var Broddi eða einhver fugl sem hagfi hrært í þessu í nótt, en núna er ég búinn að sjóða fisk sem ég býð honum upp á að þessu sinni.
 
Nú fer Susanne að koma heim úr vinnu og þetta passar vel, bloggið er búið. Gangi ykkur allt i haginn.
RSS 2.0