Að liðnum tveimur árum

Í dag eru liðin tvö ár frá því að Valdís kvaddi. Það var þess vegna sem ég las í gær nokkur blogg frá síðustu mánuðunum í lífi hennar og vikunum eftir að hún dó og ég komst að því að það var enginn einfaldur lestur. Ég hef alla tíð síðan Valdís dó hugsað út í þetta að biðja og stundum er eins og það sé tilgangslaust, jafnvel eins og það sé að gera sig að kjána. En þetta hafa manneskjurnar gert í þúsundir ára og ég mun líka halda mig við það meðan ég hef vit og getu til. Svo hafa líka margir af vísasta fólkinu gert þó að margir hinna vísu hafi heldur ekki gert það.
 
Í gær las ég meðal annars eftirfarandi línur og ég nota þær aftur hér, línur sem ég skrifaði á aðfangadag 2012:
 
 
 
"Meðan svefnhljóðin voru erfið og ég vakti meðan Valdís svaf runnu margar myndir hjá í óraunveruleika næturinnar. Ég bað mínar bænir en fannst sem þær kæmust ekki til skila. Nótt eina lagði ég allt mitt í að koma sipulagi á hugann og ákvað að nú skyldi leið bænarinnar reynd af auðmjúkri einbeitni sem aldrei fyrr. Ég minntist orða Jesú í Jóhannesarguðspjalli þegar hann talaði einhver síðustu orð sín til lærisveinanna og ég ákvað að nota þessi orð til að komast nær markinu. Ég kveikti á lampanum mínum, teygði hendina ofan í náttborðsskúffuna og tók fram Biblíuna.
 
Ég var fljótur að finna þessi orð: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um, það mun hann veita yður í mínu nafni. Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni; biðjið, og þér munuð öðlast."
 
Þetta sagði meistarinn við lærisveina sína fyrir tæpum 2000 árum og hann var líka að segja þau við mig um miðja vornóttina. Ef ég bið skýrt í hans nafni, ákvað ég, þá mun ég verða bænheyrður. Ég reyndi að setja mig inn í 2000 ára gamla atburðinn. Mér fannst næstum sem ég yrði einn af þeim sem þá voru viðstaddir og svo bað ég.
 
Í Jesú nafni bað ég fyrir heilsufari Valdísar. Og ég bað aftur og aftur þessi sömu orð, í mínútur, í stundarfjórðunga, í einhverja hálftíma eða ég veit ekki hversu lengi. Á meðan las ég línurnar með þessum orðum yfir nokkrum sinnum til þess að tapa ekki huganum frá loforði Meistarans. Valdís hagræddi sér allt í einu í rúminu og hljóðin sem ég óttaðist breyttust, urðu léttari, og ég fann hvernig ró færðist yfir mig og óraunveruleiki næturinnar fjarlægðist. Það var virkilega eins og  eitthvað hefði gerst innra með mér og mér fannst ég líka finna það á Valdísi. Næstu tvo til þrjá daga færðist ró yfir huga minn og einhvers konar sátt við ástandið. Ég gat ekki betur fundið en það sama ætti sér stað hjá henni."
 
 
 
En kraftaverkið átti sér ekki stað og Valdís fékk ekki að vera með lengur. En það var þó nokkuð mikið gott sem átti sér stað; sá endir sem hún óttaðist mest varð ekki hlutskipti hennar. Hún fékk hægan endi í framhaldi nætursvefns. Hún fékk líka að kveðja með reisn og hún hringdi í sína allra nánustu síðasta kvöldið og með glaðlegri rödd kvaddi hún okkur og sagði að allt væri nú í lagi. Því sleppi ég ekki bæninni þó að Valdís fengi ekki að lifa. Nokkuð jákvætt fannst þrátt fyrir allt í öllu saman.
 
Valdís hafði gaman af að fá heimsóknir og sýna fólki heimilið sitt og nágrenni, hvort heldur það var uppi í Dölum, í Örebro eða á Sólvöllum. Hún lýsti þegar hún söng ásamt kórnum sínum í útitónleikahöllinni Dalhalla. Hún söng í ein þrjú skipti með gríðar stórum kór í Globen í Stokkhólmi og þá daga byrjuðu æfingar snemma morguns og stóðu fram að sýningu. Þegar við komum á staðinn um kvöldið fyrsta árið, ég Rósa og Pétur, þá beið hún okkar frammi í stórum gangi. Þá var lífið henni svo gott að hún virtist vart snerta gólfið sem hún stóð á, svo létt var að vera til. Þannig reikna ég með að það sé hjá henni í dag, að það sé létt að stíga niður og að jarðneskir erfiðleikar séu að baki.
 
Enn í dag hika ég við að fjarlægja hluti sem tilheyrðu Valdísi þó að þeir hafi ekki tilgang lengur. Árin fimmtíu og þrjú varða aldrei afmáð og í dag lifa ljósustu stundirnar jafnan best þó að það hafi tekið á að lesa bloggin sem ég las í gær. Ég hafði til dæmis skrifað að ég óskaði þess að ég hefði hlustað betur, að ég hefði skilið betur og að ég hefði verið betri maður.
 
Það eru átök að læra það mikilvægasta af lífinu.
 
Valdís mín, þín er minnst í dag af mikilli hlýju. Þakka þér fyrir árin fimmtíu og þrjú og þakka þér fyrir allt sem þú kenndir mér á leið minni til að verða betri maður. Ég vona að mér hafi miðað áleiðis.
 
Það var ekki í gær.

Látlausa góða fólkið

Við getum kallað hana Dóru og hún er níutíu og eins árs. Hún er að hluta til lömuð á vinstri hlið og getur alls ekki gengið nema með göngugrind. Susanne er meðal þeirra sem hjálpa henni, er heimaþjónustan hennar. Hún hafði verið þar um átta leytið kvöld eitt fyrir nokkrum vikum og hjálpað henni með það síðasta sem þurfti að gera fyrir hana það kvöldið. Susanne ætlaði að hafa samband við mig þetta kvöld þegar hún kæmi heim um klukkan tíu.
 
Svo dróst lengi að hún hefði samband eða fram til klukkan ellefu. Ég spurði hvað hafði tafið hana og það var einföld og ekki svo óvenjuleg saga að baki því. Hún var stödd hjá öldruðum manni og bjó hann undir nóttina þegar síminn hringdi. Það var Dóra. Hún hafði þurft að komast í skyndi inn á baðherbergið en göngugrindin festist í baðdyrunum í flýtinum og svo skeði það sem alls ekki á að ske. Geturðu komið og hjálpað mér spurði Dóra í örvæntingu. Susanne gat það raunar ekki en hún gerði það. Tíminn hjá manninum, þar sem hún var stödd hjá þegar síminn hringdi, varð styttri og hún kom mun seinna til þess síðast um kvöldið.
 
Tíminn hjá þeim manni varð líka styttri en það sem munaði mestu var að Susanne var mun lengur í vinnunni en vinnuskemað gerði ráð fyrir. Hún kom heim til Dóru og þreif hana, gekk frá fötunum hennar og hjálpaði henni í hrein föt. Þegar það var búið var Dóra mikið þakklát og niðurlægingin og skömmin sem hún hafði upplifað var að byrja að gefa sig. Geturðu ekki hitað okkur kaffi spurði Dóra svo að við getum drukkið kaffibolla saman. Susanne hitaði kaffi og svo fengu þær sér kaffibolla sitjandi sitt hvoru megin við litla matarborðið heima hjá Dóru.
 
Hvernig var að sitja þarna og drekka með henni kaffi eftir það sem þú hafðir gert spurði ég. O, sagði Susanne, hún var svo þakklát og þá varð hún líka svo ótrúlega falleg. Það var bara notalegt.
 
Anton er tuttugu ára sjúkraliði og er vinnufélagi Susanne og þau eru miklir vinir. Hann hjálpar Dóru líka oft og það sem Dóra segir um hann segir það sem segja þarf. Hún segir að hann sé svo góður og hjálplegur og að hann sé svo skemmtilegur og fallegur strákur. Ef ég væri bara yngri væri ég alveg örugglega skotin í honum. Eiginlega er ég svolítið skotin í honum. Susanne segir líka að Anton sé alveg ótrúlega góður strákur.
 
Í gær var ég í vinnunni minni og hafði það sem við köllum "samtal tvö" með konu um þrítugt. Hana getum við kallað Söndru. Í lokin af þessu samtali bæti ég alltaf við spurningu frá mér sem fólki þykir mjög vænt um að fá, spurningu sem gefur kost á að tala frjálst um sjálfan sig. Og ég spurði Söndru: Hvernig manneskja ert þú? Hún var ekki í neinum vandræðum með að svara þessari spurningu og sagði frá bæði góðu kostunum sem hún býr yfir og einnig því sem hún veit að hún þarf að breyta til hins betra.
 
Mér fannst eitthvað kunnuglegt búa í orðum hennar og ég spurði hvað hún ynni við. "Ja du" svaraði Sandra og það kom fram að hún vann við heimaþjónustu í ákveðnum bæ í Södermanland. Hún sagði að það væri ekkert yndislegra en að hjálpa fólki sem væri hjálpar þurfi, fólki sem hefði púlað allt sitt líf og byggi nú við dvínandi heilsu og krafta. Sandra lýsti upp þegar hún talaði um þetta. Ég verð hrærður þegar ég heyri fólk segja frá svona og það minnir mig á hluti sem ég fékk að heyra frá Valdísi þegar hún vann á heimili fyrir aldraða í Örebro.
 
Það sem ég segi frá núna hef ég sagt áður í bloggi, en það var atvik sem átti sér stað eftir að Valdís hætti að vinna á þessu heimili. Henni var boðið að koma á tónleika sem haldnir voru þar bæði fyrir vistfólk og starfsfólk. Valdís stóð þar meðal starfsfólksins að baki vistfólkinu. Svo fann hún að einhver kom upp að hlið hennar og tók í hönd hennar. Það var maður sem hafði flutt sunnan úr Evrópu til Svíþjóðar og var nú bæði lamaður upp að mitti og gat heldur ekki tjáð sig. Hann hafði rennt hjólastólnum sínum upp að hlið Valdísar og tók þar í hönd hennar og sleppti ekki fyrr en að tónleikunum loknum. Eitthvað var hann þakklátur fyrir og hann vildi sýna það.
 
Ég lá í rúminu mínu í morgun og bað morgunbænina mína. Í morgunbæninni hugsa ég meðal annars til aðstæðnanna sem mannkynið býr við og til þeirra manna sem belgja sig út og halda svo miklu í heljargreipum. Þá datt mér í hug látlausa góða fólkið sem svo lítið er talað um. Alla vega hluti þessara manna sem belgja sig út koma til með að skíta á sig og nota bleyju í tímans rás og væntanlega að æla matnum sínum öðru hvoru. Þá verða þeir hugsanlega þakklátir fyrir að látlausa góða fólkið finnst, alla vega ef þeir eiga eitthvað jákvætt í hugskoti sínu. Alveg er það frábært að látlausa góða fólkið finnst meðal okkar jafnvel þó að það gleymist oft að þakka því fyrir.
 
Þetta skrifaði ég snemma í morgun en vildi ekki birta það fyrr en ég hafði lesið það á sænsku fyrir Susanne og fengið leyfi hennar til að birta það.

Að borða úti

Hann Ove í Vornesi hringdi til mín í vikunni sem leið og spurði hvort ég gæti komið í vinnu í dag, 13. apríl. Ég nennti því ekki, ekki bara vegna þess að ég ætti afmæli í dag, heldur vegna þess að aksturinn til og frá Vornesi er bara of mikil fyrir einn dag. Að vinna kvöld/nótt er að vinna tvo daga og rúmlega það og þá er ferðin ekki eins afgerandi mikil. En ég hafði neitað vinnu í nokkur skipti undanfarið og nú fannst mér að ég yrði að bregðast vel við. Því er ég búinn að vera í vinnu í dag.
 
Ég læt mér í léttu rúmi liggja afmælisdagarnir nú orðið. Það þarf ekki að halda mér veislu, hvorki af mér eða öðrum. Samt höfðum við Susanne smá tilbreytingu í gær vegna þess að ég átti afmæli í dag. Það passaði líka fyrir hana þar sem hún hélt heim á leið til Västerås um hádegi í dag. Þegar ég skrifa þetta núna á áliðnu kvöldi veit ég að hún er búin að koma inn á fjórtán heimili þar sem fólk er að finna sem þarf aðstoðar við.
 
Í þeim hluta af Örebro sem veit að vatninu Hjälmaren, aldeilis þar í útkantinum, þar er Hús Náttúrunnar. Það er alveg sérstakt hús þar sem það er byggt á ruslahaugum og þar sem áður var olíuhöfn. Fyrir fáeinum áratugum fékk umhverfisvænt fólk þá hugmynd að gera þetta svæði að snyrtilegu útivistarsvæði og það tókst með afbrigðum vel. Þar var svo reist þetta hús sem kallast Hús Náttúrunnar. Hús Náttúrunnar er fyrst og fremst veitingahús sem er í betri kantinum en alls ekki dýrt. Þangað ákváðum við Susanne að fara og borða síðbúinn hádegisverð í gær og svo gerðum við.
 
Við vorum búin að velja matinn daginn áður og þegar við komum að kassanum til að panta þennan mat og borga dró ég upp veskið mitt og tók fram greiðslukortið. Susanne gerði það sama en ég sagðist ætla að borga afmælismatinn okkar sjálfur. Nei, ég var búin að segja að ég ætlaði að borga sagði hún. Eftir svolítil orðaskipti okkar á milli sagði konan við kassan að ef við gætum hætt að rífast væri gott að annað hvort okkar setti kortið í kortalesarann svo við gætum gengið frá þessu. Svo borgaði Susanne matinn.
 
 
 
Það var mikil birta í Húsi náttúrunnar þannig að það var erfitt að horfa óhindrað á myndavél. Eftir heil mikið salatát af okkar hálfu kom aðalrétturinn á borðið. Þetta virðist ekki vera mikið á diskunum en sannleikurinn er bara sá að diskarnir eru feikna stórir og maturinn er því ekki svo fyrirferðarmikill. Á bakkanum undir diskinum hjá Susanne eru myndir af fleiri tugum fiðrilda og nöfnin á þeim öllum. Á bakkanum hjá mér eru hins vegar myndir af fleiri tugum fugla ásamt nöfnum. Nokkru eftir matinn bauð Susanne upp á kaffi og köku með það sem kallaðist "ekta vanillusósa". En hvað það var gott. Á bakkanum sem við fengum þá var mikill fjöldi spendýra sem lifa í sænsku skógunum og við sænsku vötnin og þar voru líka nöfn á öllum dýrum. Það var mikill fróðleikur á þessum bökkum. Við sáum álengdar að það eru líka fiskabakkar í Húsi náttúrunnar. Stórsniðugt.
 
Ég mæli hiklaust með Húsi Náttúrunnar og ég mæli einnig alveg hiklaust með Goda Rum í Kumla, ennfremur veitingahúsinu í Ånnaboda. Svo er Sjökrogen við Hjálmaren afar, afar skemmtilegur veitingastaður en þar hriktir í veskinu svo um munar. Það er gott framboð ef það koma gestir sem hefðu gaman að koma á staði sem eru í betri kantinum og í skemmtilegu umhverfi.
 
 
 
Svo var að sjálfsögðu tekin mynd af Guðjóni Kálfafellsbróður þar sem hann er að borða blandaðan fisk og skeldýrarétt í Húsi Náttúrunnar í Örebro. Ég er ekki alveg með það á hreinu hvernig mér hefur tekist að flækja saman fingrunum þarna en ég náði þeim alla vega sundur aftur og gerði matnum góð skil.
 
 
Þannig leit Hús Náttúrunnar út í sólskininu í gær.
 
 
 
En vellystingarnar áttu sér takmörk og eftir að heim kom fór ég út að útbúa grænmetisreit en Súsanne settist við skrifborðið og sneri sér að lærdómi. Ég er auðvitað samur við mig og get ekki útbúið alveg venjulegan grænmetisreit, heldur tók ég mig til og lagði út möl í rásir og raðaði svo múrsteinum til að af marka reitinn. Ég ætla ekki að reyna að útskýra hvers vegna en svona bara vildi ég hafa það. Rósa er búin að panta helling af fræum og útbúnaði fyrir grænmetisræktun sumarsins og það er ekki svo mjög langt þangað til við förum að sækja hollustuna út að skógarjaðrinum og safna þannig upp vítamínum og lífskrafti fyrir komandi sumar, haust og vetur.
RSS 2.0