Að borða úti

Hann Ove í Vornesi hringdi til mín í vikunni sem leið og spurði hvort ég gæti komið í vinnu í dag, 13. apríl. Ég nennti því ekki, ekki bara vegna þess að ég ætti afmæli í dag, heldur vegna þess að aksturinn til og frá Vornesi er bara of mikil fyrir einn dag. Að vinna kvöld/nótt er að vinna tvo daga og rúmlega það og þá er ferðin ekki eins afgerandi mikil. En ég hafði neitað vinnu í nokkur skipti undanfarið og nú fannst mér að ég yrði að bregðast vel við. Því er ég búinn að vera í vinnu í dag.
 
Ég læt mér í léttu rúmi liggja afmælisdagarnir nú orðið. Það þarf ekki að halda mér veislu, hvorki af mér eða öðrum. Samt höfðum við Susanne smá tilbreytingu í gær vegna þess að ég átti afmæli í dag. Það passaði líka fyrir hana þar sem hún hélt heim á leið til Västerås um hádegi í dag. Þegar ég skrifa þetta núna á áliðnu kvöldi veit ég að hún er búin að koma inn á fjórtán heimili þar sem fólk er að finna sem þarf aðstoðar við.
 
Í þeim hluta af Örebro sem veit að vatninu Hjälmaren, aldeilis þar í útkantinum, þar er Hús Náttúrunnar. Það er alveg sérstakt hús þar sem það er byggt á ruslahaugum og þar sem áður var olíuhöfn. Fyrir fáeinum áratugum fékk umhverfisvænt fólk þá hugmynd að gera þetta svæði að snyrtilegu útivistarsvæði og það tókst með afbrigðum vel. Þar var svo reist þetta hús sem kallast Hús Náttúrunnar. Hús Náttúrunnar er fyrst og fremst veitingahús sem er í betri kantinum en alls ekki dýrt. Þangað ákváðum við Susanne að fara og borða síðbúinn hádegisverð í gær og svo gerðum við.
 
Við vorum búin að velja matinn daginn áður og þegar við komum að kassanum til að panta þennan mat og borga dró ég upp veskið mitt og tók fram greiðslukortið. Susanne gerði það sama en ég sagðist ætla að borga afmælismatinn okkar sjálfur. Nei, ég var búin að segja að ég ætlaði að borga sagði hún. Eftir svolítil orðaskipti okkar á milli sagði konan við kassan að ef við gætum hætt að rífast væri gott að annað hvort okkar setti kortið í kortalesarann svo við gætum gengið frá þessu. Svo borgaði Susanne matinn.
 
 
 
Það var mikil birta í Húsi náttúrunnar þannig að það var erfitt að horfa óhindrað á myndavél. Eftir heil mikið salatát af okkar hálfu kom aðalrétturinn á borðið. Þetta virðist ekki vera mikið á diskunum en sannleikurinn er bara sá að diskarnir eru feikna stórir og maturinn er því ekki svo fyrirferðarmikill. Á bakkanum undir diskinum hjá Susanne eru myndir af fleiri tugum fiðrilda og nöfnin á þeim öllum. Á bakkanum hjá mér eru hins vegar myndir af fleiri tugum fugla ásamt nöfnum. Nokkru eftir matinn bauð Susanne upp á kaffi og köku með það sem kallaðist "ekta vanillusósa". En hvað það var gott. Á bakkanum sem við fengum þá var mikill fjöldi spendýra sem lifa í sænsku skógunum og við sænsku vötnin og þar voru líka nöfn á öllum dýrum. Það var mikill fróðleikur á þessum bökkum. Við sáum álengdar að það eru líka fiskabakkar í Húsi náttúrunnar. Stórsniðugt.
 
Ég mæli hiklaust með Húsi Náttúrunnar og ég mæli einnig alveg hiklaust með Goda Rum í Kumla, ennfremur veitingahúsinu í Ånnaboda. Svo er Sjökrogen við Hjálmaren afar, afar skemmtilegur veitingastaður en þar hriktir í veskinu svo um munar. Það er gott framboð ef það koma gestir sem hefðu gaman að koma á staði sem eru í betri kantinum og í skemmtilegu umhverfi.
 
 
 
Svo var að sjálfsögðu tekin mynd af Guðjóni Kálfafellsbróður þar sem hann er að borða blandaðan fisk og skeldýrarétt í Húsi Náttúrunnar í Örebro. Ég er ekki alveg með það á hreinu hvernig mér hefur tekist að flækja saman fingrunum þarna en ég náði þeim alla vega sundur aftur og gerði matnum góð skil.
 
 
Þannig leit Hús Náttúrunnar út í sólskininu í gær.
 
 
 
En vellystingarnar áttu sér takmörk og eftir að heim kom fór ég út að útbúa grænmetisreit en Súsanne settist við skrifborðið og sneri sér að lærdómi. Ég er auðvitað samur við mig og get ekki útbúið alveg venjulegan grænmetisreit, heldur tók ég mig til og lagði út möl í rásir og raðaði svo múrsteinum til að af marka reitinn. Ég ætla ekki að reyna að útskýra hvers vegna en svona bara vildi ég hafa það. Rósa er búin að panta helling af fræum og útbúnaði fyrir grænmetisræktun sumarsins og það er ekki svo mjög langt þangað til við förum að sækja hollustuna út að skógarjaðrinum og safna þannig upp vítamínum og lífskrafti fyrir komandi sumar, haust og vetur.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0