Helgin að enda

Já, nú eru fáir vinnutíma eftir af þessari helgi. Klukkan er að verða sjö og um ellefu leytið geng ég út í næsta hús til að leggja mig. Ég veit af gamalli reynslu að það verður léttara fyrir mig að vakna klukkan tíu mínútur í sex í fyrramálið þar sem ég veit að ég get farið heim upp úr klukkan níu. Svo verð ég í fríi í óákveðinn tíma en mig grunar, líka af gamalli reynslu, að þetta frí verði styttra en skipulagt er á þessari stundu á þessari stundu.

Annars hefur allt gengið svo fínt þessa helgi eins og venjulega. Veðrið hefur líka verið sjálfu sér líkt með 11 til 16 stiga frosti og engin breyting á því er í sjónmáli. Við Valdís þurfum helst að fara að fá hlýrra veður en ef ekki, þá er ekkert við því að segja. Við komum ekki frá landi sem liggur norður undir heimskautsbaug til að kvarta undan kulda hér þar sem lognið er ríkjandi mánuð eftir mánuð.

En nú er frímínútum mínum lokið og ég er búinn að frétta að Íslendingar hafi tryggt sér bronsið í handboltanum.

Sniðugt

Sniðugt með þessa tölvu, fyrir nokkrum dögum kunni hún ekki íslenska stafrófið en núna er hún eldklár í því. Ég er nefnilega í vinnunni og í morgun sá ég tölvukalla á hlaupum hér í húsinu og spurði þá hvort þeir gætu ekki sett íslenska stasfrófið upp í þessari tölvu. Þeir héldu nú það og hér er árangurinn. Annars hef ég engan tíma til að blogga núna en get þó ekki látið vera að koma aðeins að því.

Veturinn lætur sér ekki segjast en það er í raun eins og hægt sé að finna á sér að þetta eigi að vera svona á þessum árstíma og það er einfaldlega þannig. Mikið verður vorið fljótt að koma undan snjónum þar sem öll jörð er þýð undir. Vorið verður ekki minna stórfenglegt en öll hin árin og ég þarf ekki að leggja mig fram um að hlakka til. Ég hlakka til.

Það er rólegur hópur fólks hér í Vornesi sem vinnur að því að koma reiðu á líf sitt. Mér dettur í hug nú um leið og ég skrifa þetta að það eru ýmsir sem þyrftu að gera slíkt hið sama, koma reiðu á líf sitt, þó að það snúist ekki um áfengi. Mikil óreiða er á ferðinni samt. Ég held næstum að ég hætti að líta í íslensku blöðin því að það eru alltaf nýjar fyrirsagnir um voðaverk manna. Það þyrfti að senda allan þennan lýð í meeeeðferð en hýða þá mikið og lengi fyrst. Nú er frítími minn útrunninn. Eigið góða helgi og hlustið ekki á ljótu fréttirnar.

Bless, bless.

Komin heim frá Uppsala

Nýr dagur hófst í Uppsala upp úr klukkan átta í morgun og kvefgemlingurinn afi vaknaði í mikið betra ástandi, eða öllu heldur vil ég segja að mér fannst sem ég væri í fullum bata. Nú gat ég farið að tala almennilega við hann nafna minn og hann tók því fegins hendi. Við töluðum um skógarferðir, álfa, fólkið á götunni, ömmu, mömmu og pabba og hlógum alveg af hjartans lyst. Það var nú meira fjörið í okkur Guðjónunum. Svona stundir verðum við að endurtaka eins fljótt og hægt er. En það er best að eyða ekki svo mörgum orðum um þetta því að það er til fullt af myndum.


Loksins tókst okkur að hittast almennilega og gera að gamni okkar.


Afi, ertu viss um að þú skiljir mig? Já, auðvitað skildi afi og svo héldum við áfram að spjalla.


Það var svolitið erfitt fyrir ömmu að ná myndunum þegar drengurinn hló mest. Stundum hló hann svo mikið að hann hreinlega skrækti af hlátri. Það var voða gaman fyrir alla nærverandi og sagði að hann er hraustur og líður vel


Heldurðu ekki afi að ég sé sé farinn að nota varirnar þegar ég tala? Jú-ú, það væri ekkert almennilegt mannamál sem ég tala ef ég ekki gerði það.


Það er svo gott eftir glaða stund að borða góða matinn sem mamma útbýr handa mér. Svo útbýr pabbi líka oft mat handa mér og þeim finnst svo gaman að gefa mér því að ég er svo duglegur að borða. Þetta finnst ömmu líka

Svo héldu amma og afi heim á leið ánægð með heimsóknina til fjölskyldunnar í Uppsala. Enginn glaður drengur var með en minningarnar voru með í staðinn.

Snjórinn féll niður í örsmáum kornum og frá því í gær hefur bætt mjög í snjóinn. Nú er líklega mesti snjór sem við höfum séð á Örebrosvæðinu. Snjóruðningstæki voru á ferðinni, tankbíll lá á hliðinni við vegkantinn, nokkrir bílar runnu hver á annan í Örebro og hingað og þangað voru óhöpp að eiga sér stað. Við héldum okkur á réttum vegarkanti sem svo margir aðrir, en svo voru nokkrir sem virtust hafa mikilvægum erindum að sinna og tóku framúr á mikilli ferð. Á morgun fer ég í vinnu og fyrir mánudagsmorgun verð ég búinn að skila tæplega viku vinnu. Ég treysti því bara að það verði gott fólk innskrifað í Vornesi þessa helgi eins og flestar aðrar helgar. Þá verður líka gott að vera þar. En núna skal ég setja lax í pott og sjóða upp á honum. Svo verður veisla.

Snjókoma

Það snjóar drjúgt hér og á að gera fram til morguns. Norsk veðurstofa sem Pétur hefur fundið á netinu sýnir hvernig veður eiga að ganga yfir samkvæmt spá þeirra, og þar kom fram að það ætti að byrja að snjóa í Uppsala klukkan ellefu. Klukkan ellefu byrjaði svo að snjóa. Svo heyrði ég í manni í Eskilstuna og þegar hann heyrði þetta gat hann staðfest að nákvæmlega það sama hefði skeð þar, það hefði byrjað að snjóa á mínútunni samkvæmt spánni. http://www.yr.no/sted/Sverige/Uppsala/Uppsala/ Svo er hægt að setja alla mögulega staði inn á þetta og sjá veðrið hreint út um allt, hvort heldur er í Hrísey, Vestmannaeyjum eða Reykjavík

Hannes er búinn að vera úti um tíma með mömmu og ömmu og þá er gott tækifæri til að setjast við tölvuna og setja nokkur orð á blað. Annars er ekki réttnefni að setja orð á blað, ætli það sé ekki frekar að setja orð á skjá. Það var á mánuðunum áður en við Valdís fórum til Svíþjóðar og við dvöldum í Reykjavík, að við höfðum skiptst á e-pósti ég og Svandís Svavarsdóttir. Svo endaði hún einn tölvupóstinn á orðunum; við skjáumst.

Nú er Valdís komin til baka frá útivistartímanum með Hannesi Guðjóni en þau mæðginin ætla að anda að sér meiru útilofti. Það veitir ekki af þegar afi kemur í heimsókn með kvefpest að byggja upp varnarkerfi líkamans. Það er fúlt að koma í heimsókn og halda sig svo í mátulegri fjarlægð frá fólki. Ekki það að ég fái fyrirskipanir um það en það er bara svo sjálfsagt að fara varlega og ekki vil ég fá hnerrakast með barnið á handleggnum. Ég er þeim ósköpum gæddur að fá hnerraköst þar sem ég hnerra hvað eftir annað í einni lotu og þegar ég er kvefaður er eins og þessi hnerraköst fái snaraukinn kraft. Þá vitið þið það.

Mæðgurnar er mættar eftir útivistina og nafni minn starði á mig meðan amma klæddi hann úr útigallanum, þennan undarlega mann sem sem alltaf er í ákveðinni fjarlægð frá honum. Það næsta sem ég hef komið er að taka í tærnar á honum. Nú er boðið upp á súkkulaði að drekka. Namm namm, ég þangað.


Stóllinn minn er bestur og þegar ég er búinn að henda öllu dótinu mínu á gólfið kemur alltaf einhver til að tína það upp til mín aftur.

Hvíldartími

Klukkan nálgast tíu þetta þriðjudagskvöld. Ég hef fengið kvef og smávegis hita og vil ekki smita hann Hannes Guðjón minn. Hann er búinn að brosa svo mikið í dag, hlæja og hjala, að hann á það ekki skilið af mér að ég smiti hann. Ég hef reynt að halda mig í hæfilegri fjarlægð og vera kattþrifinn og svo er að vona það besta.

Veturinn heldur áfram sínu hljóða taki á landinu. Það er ekki belgingurinn en það er alltaf frost, ekkert svakalegt frost þó, og allt er snævi þakið. Svo er spáð snjókomu á morgun. Nú segir Óli lokbrá að ég eigi að leggja mig á koddann og ég skal vera honum trúr í kvöld.

Hannes Guðjón

Árdegi í Uppsala. Það er búið að taka nokkrar myndir af ungum morgunhressum manni og nú verður það ekkert bull í afa, bara myndir af fallegum strák teknar 26. janúar 2010













Í Uppsala á ný

Það var ekki leiðinlegt að koma til Uppsala eftir þriggja vikna fjarveru. Hann Hannes Guðjón tók okkur með brosi og það fyllti væntingar okkar vonum framar. Hann kannaðist við okkur. Hins vegar fórum við ekki saman út að glugganum til að fylgjast með öndunum á ánni. Við Valdís vorum heldur seinna á ferðinni en til stóð og það var komið kvöld hjá honum skömmu síðar. Svo er líka Fyrisáin ísi lögð bakka á milli og bara smá auður flekkur neðan við Íslandsbrúna og Íslandsfossinn. Það verður engin mynd birt af honum nafna mínum núna. Það voru jú teknar tvær myndir af honum en á þeim myndum er hann fatalaus niður að mitti og svoleiðis myndir birtum við ekki af honum fyrr en hann leifir það sjálfur.

Það er snjór yfir allri Svíþjóð en þó ekki jafn fallegt og það var um jólaleytið. Trén eru ekki hrímhvít lengur þó að það sé mikill snjór í þeim. Á leiðinni hingað stoppuðum við að venju í Staðarskála. Meðan Rósa og Pétur áttu heima í Stokkhólmi voru næstum 100 km eftir af ferðinni þegar komið var í Staðarskála. Núna eftir að þau fluttu til Uppsala eru bara um 60 km eftir þegar komið er í Staðarskála, en það er erfitt fyrir okkur að venja okkur af því að stoppa þar og innbyrða smá hressingu.

Nú má kannski spyrja sig hvað maðurinn sé að rugla með því að tala um Staðarskála. Staðurinn heitir jú Hummelsta en við byrjuðum mjög snemma á Svíþjóðarárum okkar að kalla þennan stað Staðarskála. Áður var sjálfsagt að stoppa í Staðarskála bæði á norður- og suðurleið og hér varð það álíka sjálfsagt að stoppa í Hummelsta.

Sumarið 1979 á föstudegi vorum við Ottó í Hrísey á norðurleið og stoppuðum í Staðarskála til að fá okkur beykon og egg. Fyrst pantaði ég og sárung stúlka skrifaði niður pöntunina. Svo vék hún sér að Ottó til að taka við hans pöntun. Með skörulegri rödd bað hann líka um beykon og egg og sagði svo: "Og hafðu eggin þrjú, helgin er framundan". Þessi unga stúlka skildi alls ekki brandarann hjá Ottó og sagði hljómlausri röddu að hún skyldi gera það. Svo fékk Ottó þrjú egg með beykoninu og ég tvö. Þið getið nú ímyndað ykkur hvort ekki varð munur á framgöngu okkar Ottós þá helgina. Þó að stúlkan skildi þetta ekki gátum við hlegið að því enda sárungir menn þá. Víst erum við ungir ennþá en bara öðru vísi ungir.

Nú er mál að ég halli mér á koddann eins og hitt fólkið í íbúðinni. Það eru víða ljós í gluggum hér í kring en algjör kyrrð ríkjandi


Þessi mynd er frá því sem kallað er Gamla Uppsala og er nyrst í Uppsala eða eiginlega norðan við. Haugarnir eru víkingahaugar. Á víkingatíð lá land mun lægra hér og var hægt að sigla upp að Gamla Uppsala. Annars á ég ekki að vera að fræða fólk mikið um þennan stað. Ég á eftir að kynna mér svo mikið sjálfur. Myndina fann ég á Google.

Uppsala

Það er ekki hægt að segja hér eins og segir í ljóðinu "Nú er hann enn á norðan/næðir kuldaél". En það er nokkuð frost og það er snjór, að stærstum hluta snjórinn sem byrjaði að koma um miðjan desember. Á miðvikudag á svo að bæta verulega í þann snjó. Við Valdís erum orðin alveg ringluð í stússinu með að flytja. Að hirða, henda, gefa í Myrorna, að leggja til hliðar, að bíða með að ákveða, hirða kannski, henda kannski, nei, nú varð það of mikið. Við erum á leið til Uppsala til að ná áttum. Við verðum líka að hitta dóttursoninn áður en hann hættir alveg að þekkja okkur. En nú er enginn tími til að blogga, bara tími til að leggja af stað.


Þau mega svo sannarlega vera stolt af honum. Hann er að ferðast í lest þarna og lítur út eins og sannur heimsmaður.



Kannski hann horfi út um gluggann þarna með afa seinni partinn í dag, eða henni ömmu sinni. Líta eftir öndunum á Fyrisánni eða umferðinni yfir Íslandsbrúna í Uppsala. Svo verða teknar nýjar myndir og birtar á bloggi.

Blómsturvellir

Í gær bloggaði ég um sérstaka sendiferð að Blómsturvöllum í Fljótshverfi þegar hann Guðjón bóndi og nafni minn tók mér á þann eftirminnilega hátt sem ég aldrei gleymi, á þann hátt sem hreinlega ekki öllum er lagið. En þetta var ekki eina ferð mín eða systkina minna á þennan afskekkta bæ.

Ég minnist þess að hafa farið þangað í sendiferðir af ýmsu tagi alla vega með Guðnýju systur minni og Snorra bróður mínum. Síðar þegar sími kom að Blómsturvöllum breyttist þetta. En það var ekki slæmt á þessum árum að fara þangað í sendiferðir og nú er ég að tala um tímabilið fyrir svo sem 55 til 60 árum. Guðríður á Blómsturvöllum, móðir systkinanna sem einnig bjuggu þar, var höfðingi heim að sækja. Hún var í fyrsta lagi barngóð og svo veitti hún vel þessum síhlaupandi krökkum sem voru líka í óða önn að stækka. Hún flóaði alltaf mjólk þegar okkur bar að garði, setti í hana svolítinn sykur, og svo bar hún fram dýrindis góðar kökur. Að koma að Blómsturvöllum var veisla á þeim árum sem sælgæti sást aðeins örsjaldan. Svo spjallaði hún við okkur þangað til við vorum orðin södd og héldum heim á leið. Ég þori að fullyrða að það var ekkert vandamál að fá okkur til að fara þangað í sendiferðir.

Ég nefndi í texta með myndinni í gær að bæjarstæðið á Blómsturvöllum væri bæði fallegt og sérstakt. Sá sem vildi vera í næði einhvern tíma úr árinu gæti vart fengið betri stað en þar. Þvílíkur staður sem það mundi vera fyrir íhugun og endurskoðun á lífinu. Umhverfið með hátt, tignarlegt Blómsturvallafjallið að baki, Harðskafann í vestri, tæra Laxána og Kálfafellsheiðina í suðri og austri og þar austur af Rauðabergsheiði og Lómagnúp.

Systkinin á Blómsturvöllum voru fimm. Ein systir bjó á öðrum bæ í sveitinni og einn bróðir flutti suður líklega um 1950 en lengst af voru þau þrjú sem bjuggu þar með móður sinni. Ekkert þessara systkina eignaðist börn og því heyrir það fólk sem ég man eftir á Blómsturvöllum sögunni til.


Til vinstri Harðskafi og til hægri Blómsturvallafjall. Á að giska lengst til hægri á myndinni er Blómsturvallabærinn að baki annarra byggða í Fljósthverfi. Bærinn lengst til vinstri niður á sléttunni er Kálfafell, æskuheimili mitt.




Þessar myndir fékk ég frá Fríðu systur minni og honum Sigurði mági mínum í Reykjavík

Heiðarbóndinn

Það er athyglisvert hvernig hugurinn getur hvarflað og hin ýmsu, löngu liðnu atvik geta komið upp í hugann við ólíklegustu tilfelli. Ég var áðan að henda tölvupósti sem að mestu var óttalegt rusl en sumt las ég þó til að vera viss um hvort ég vildi henda því eða eiga. Svo stóð ég mig allt í einu að því að ég sat hér, horfði út um gluggann og var í anda á bernskuslóðunum þegar ég var ný orðinn ellefu ára.

Bærinn Blómsturvellir stendur um einn kílómeter norðan við bæinn Kálfafell þar sem ég er fæddur og uppalinn. Þessi bær stendur þétt við brekkuræturnar að háu fjalli, Blómsturvallafjalli, og hann stendur hærra en aðrir bæir í nágrenninu. Öll hús á þessum bæ voru á þessum árum hlaðin úr torfi og grjóti en mörg meö viðarþili á framgöflum. Frá Blómsturvöllum sér ekki til næstu bæja þar sem næstu bæir standa lægra og undir lágum fjallsbrúnum sem bera á milli. Þetta segir jú að Blómsturvellir er eiginlegur heiðarbær. Á þessum tíma sem ég er að tala um bjuggu þrjú fullorðin systkini á Blómsturvöllum með mömmu sinni, tvær systur og bróðirinn Guðjón.

Nefni ég þá aftur árið sem ég var ellefu ára. Þá varð alvarlegur atburður í sveitinni og þar sem það var sími heima á Kálfafelli komu skilaboð til pabba um að hringja eftir aðstoð. Áður en pabbi sneri sér að því bað hann mig að hlaupa til Guðjóns á Blómsturvöllum og biðja hann að koma til aðstoðar á jeppanum sínum, en það var þá eini bíllinn í sveitinni. Á Blómsturvöllum var enginn sími. Ég fann mig hafa mikla ábyrgð og ég yrði nú að vera fljótur í ferðum og lagði hlaupandi á brattann móti Blómsturvöllum. Þegar ég kom þangað sögðu systurnar mér að Guðjón væri að gefa í fjárhúsunum sem eru um einn kílómeter austan við bæinn. Það var ekki um annað ræða en halda hlaupunum áfram og nú fannst mér sem mér lægi ennþá meira á. Þegar ég kom að fjárhúsunum hafði Guðjón orðið var við mig og kom fram í fjárhúsdyrnar um leið og mig bar að. Ég ætlaði að stynja upp erindinu en var það  ómögulegt með öllu svo móður sem ég var orðinn.

Þarna kom heiðarbóndinn mér algerlega á óvart. Hann lagði handleggin yfir herðar mér og sagði róandi: Sestu nú hérna við húsgaflinn nafni minn og segðu mér svo hvað þér liggur svo á hjarta þegar þú hefur hvílt þig svolítið. Það var einhver stallur þarna við húsgaflinn sem hægt var að sitja á og þar lét ég mig mig falla niður. Þrátt fyrir ástandið sem ég var í þarna varð ég bæði undrandi yfir hinum yfirvegðuðu, hárréttu viðbrögðum nafna míns og afar þakklátur. Ég held ég geti fullyrt að mér hafi á þessu augnabliki þótt mjög vænt um heiðarbóndann.

Ég var góður til hlaupa á þessum árum og á skömmum tíma náði ég mér svo að ég gat sagt Guðjóni hvers kyns var. Síðan gengum við rösklega heim að Blómsturvöllum, hann tók jeppann og við ókum vegleysu yfir heiðina í átt að Kálfafelli. Þessi maður hefur alla tíð eftir þetta átt fulla virðingu mína og mikið þakklæti fyrir móttökurnar, bæði meðan hann lifði og eftir að hann dó.


Hann Birkir frændi minn á Selfossi tók þessa mynd af Blomsturvallafjallinu, þeim hlutanum sem ekki er hulinn þoku, og gaf mér leyfi til að nota hana. Lengst til vinstri má greina bæinn á Blómsturvöllum ef myndin er stækkuð. Ég held að Birkir hafi verið ofan við austanverð Smágilin í Kálfafellsheiðinni þegar hann tók myndina. Ef ekki, þá leiðréttir þú mig Birkir. Í Kálfafellsheiðinni segi ég, og það segir að þetta hlýtur að vera heiðarbær. Blómsturvellir er nú sumarbústaður. Þetta er í raun alveg meiri háttar fallegt bæjasrstæði og sérstakt, en kannski ekki nein bújörð. Það hefði ekki verið slæmt að eignast þennan heiðarbæ þegar Guðjón hætti þar búskap.

Lambakjöt

Ég varð hissa áðan þegar ég las að lambakjötssala hefði dregist saman á Íslandi og að það seldist meira af bæði svína- og fuglakjöti. Þegar við Valdís komum til Svíþjóðar var hversu mikið framboð sem helst af ódýru svínakjöti og okkur fannst að við hefðum komist í feitt. Lambakjöt sáum við helst ekki í verslunum og það sem það var fannst okkur það gróft og lítið freistandi. Þar með fórum við að borða svínakjöt hér í sama mæli og við höfðum borðað lambakjöt á Íslandi. Svo liðu árin. Þegar við komum til Örebro komumst við að því að útlenskir kaupmenn seldu hér ágætis lambakjöt og við keyptum það öðru hvoru en ekki í neinum mæli. Við jafnvel söltuðum það.

Svo var það fyrir fáeinum árum að við sátum hér við matarborðið og borðuðum svínakjöt. Við horfðum á kjötfatið og höfðum enga lyst á matnum. Svo horfðum við á hvort annað og vorum sammála um að við værum orðin mett af svínakjöti. Við komumst líka að því að okkur yrði ekki lengur virkilega gott af því. Svo ræddum við þetta og urðum sammála um það að þar sem við værum búin að hafa lambakjöt sem aðal fæðu í 52 ár áður en við komum til Svíþjóðar, þá hlyti fjallalambið eiginlega að vera okkar rétta fæða. Síðan erum við búin að bisa heim mörgum kílóum af lambakjöti og það er aftur orðið aðal kjötmaturinn.

Eftir þessa breytingu fannst okkur sem maganum liði betur og okkur almennt liði betur. Meiri hlutinn af því lambakjöti sem við borðum kemur frá Ástralíu. Ekki mundi okkur leiðast ef við sæum allt í einu íslenskt lambakjöt í búðardiskunum hér. Íslenskt fjallalamb. Eða er kannski fjallalambið liðin tíð og orðið að túnalambi. Er það nokkuð ástæðan fyrir minnkandi neyslu?

Doktor Saxi

Í gærmorgun, mánudag, vaknaði ég um hálf sjö að morgni og fannst ég vera hálf þreyttur ennþá. Ég hafði verið að vinna mikið laugardag og sunnudag og fannst ég verður þess að leggja mig aðeins aftur. Ég gerði það og sofnaði ekki að eigin mati. Svo giskaði ég á að klukkan væri orðin átta og þá fór ég fram. Þegar ég kom fram sá ég að klukkan var níu þannig að maðurinn sem ekki sofnaði hafði sofið eigi að síður. Og þar með hringdi síminn. Það var hann Ove dagskrárstjóri í Vornesi og hann hló við þegar hann spurði hvort ég gæti komið til að vinna eitt kvöldið enn. Ég gerði það enda með báða fætur í góðu lagi og með hressari starfsmönnum í Vornesi.

Svo kom ég heim í morgun um hádegi. Færðin var leiðinleg og ég fór hægt á leiðinni heim minnugur þess að í gær dó maður í umferðarslysi á veginum sem ég fór og ökumaður keyrði á dádýr. Þegar ég loks kom heim var ég þreyttur og vildi ekkert gera og stakk upp á að við horfðum á eitthvað efni í sjónvarpi. Valdís setti disk með Ladda í tækið og við byrjuðum að horfa. Mér fannst Laddi hundleiðinlegur og sofnaði. Eftir einhvern hálftíma vaknaði ég aftur og byrjaði að horfa á Ladda á ný. Þá allt í einu var hann bráð skemmtilegur. Ég skildi vel að það fjallaði um mig en ekki Ladda að mér fannst hann leiðinlegur í byrjun.

Svo hvarf Laddi af sviðinu en kom strax til baka og var þá doktor Saxi. Umsvifalaust upplifði ég atburð upp í Falun í Dölunum sumarið 1994. Við Valdís og mamma sem þá var í heimsókn hjá okkur vorum á járnbrautarstöðinni í Falun að taka á móti Kristni dóttursyni okkar sem var að koma í heimsókn, þá 11 ára. Þegar við gengum frá lestinni inn á járnbrautaerstöðina sáum við kunnuglegt andlit Ólafs Ólafssonar landlæknis sem líka var á leið inn á stöðina. Hann gekk hröðum skrefum gegnum stöðina og út hinu megin og stoppaði þar við litla verslun þar sem afgreitt var gegnum lúgu. Sá ég að hann var þar að kaupa símakort.

Ég ákvað að láta Ólaf ekki sleppa og stillti mér upp við hliðina á honum. Þegar hann var búinn að setja skiptimyntina og símakortið í veskið sitt sagði ég góðan daginn. Ólafur gekk í boga í nokkurri fjarlgð fram hjá mér og virtist var um sig. Svo drundi í honum "ert þú Íslendingur"? Þegar ég hafði svarað því settumst við öll á bekk í sumarblíðunni og ræddum saman lengi. Hann var þá í heimsókn ásamt konu sinni hjá tengdamóður sinni í Uppsala og kom til Falun til að heimsækja þar íslenskan lækni sem skyldi sækja hann á brautarstöðina.

Daginn eftir var ég í vinnu minni í Svartnesi og þegar leið á daginn kom Brynjólfur læknir, einn af þeim sem ráku meðferðarheimilið þar, og með Brynjólfi var Ólafur Ólafsson landlæknir frá Íslandi. Ólafur vildi hitta sem flesta sem þarna unnu, íslendinga og Svía, og ræða meðferðarmál. Dvaldi hann lengi dags. Þá hafði ég bara verið rúmlega hálft ár í Svíþjóð og var sænskukunnáttu minni þá enn verulega ábóta vant. Mér þótti óþægilegt að láta Ólaf komast að því og ég valdi að tala einungis við hann á íslensku.

Síðar þegar ég fór að vinna í Vornesi vann þar við fjölskyldumeðferðina kona frá Skáni, Bonny að nafni. Hún var hjúkrunarfræðingur að mennt og hafði fyrir löngu unnið í Uppsala. Þá var Ólafur Ólafsson þar, að mig minnir í framhandsnámi, og Bonny vann mikið með honum. Ummæli Bonny um Ólaf Ólafsson voru á þá leið að hann hefði verið sá mest sjarmerandi og skemmtilegasti maður sem húnn hefði nokkru sinni kynnst. Það var ekkert á milli okkar sagði hún, Ólafur var bara alveg yndislegur maður.



Ég talaði um Kristinn dótturson áðan. Hér er mynd af honum tekin sama ár og hann kom til okkar í Falun, sem sagt 11 ára. Þetta sumar, 1994, er eitt af þeim heitari í Svíþjóð sem einnig var okkar fyrsta sumar hér. Kristinn hafði mikið gaman af að leita að dýrum og skoða dýr. Eitt sinn komum við í dýragarð og hittum þar úlfalda. Við slitum upp gróður til að gefa honum yfir girðingu og stuttu síðar fór okkur að svíða í hendurnar. Við höfðum í fáfræði okkar gefið honum brenninetlu en úlfaldinn kvartaði ekki.

Búferlaflutningar

Hún Valdís er búin að vinna mörg stórvirki undanfarnar vikur. Hún er búin að ganga í gegnum mikið magn af þeim ósköpum sem við höfum safnað að okkur þau ellefu ár sem við höfum búið í núverandi íbúð í Örebro. Þá á ég við alls konar hluti sem eru dauðir og óviðræðuhæfir og hætt að nota, einnig skó, fatnað af öllu tagi, gardínur, rúmföt, myndir, bækur og fleira og fleira. Hún sorterar í nokkra bingi. Einn fer á haugana og sorteras þar í hina ýmsu gáma, einn fer í Mýrurnar (verslun hjálpræðishersins) og einn bingurinn fer í áframhaldandi varðveislu heima hjá okkur sem innan sex vikna verður á Sólvöllum. Ég hef verið ódrjúgur við þetta enda búinn að vinna mjög mikið það sem af er mánuðinum. Ég kemst af stað í þessu með Valdísi og svo fer ég í vinnu og svo er að komast aftur af stað og fara aftur í vinnu. Ég hef þó farið á haugana, í Mýrurnar og með talsvert á Sólvelli. En ég ítreka aftur að Valdís hefur verið krafturinn í þessu.

Fólk hefur verið að spyrja okkur hvert við flytjum og hvers vegna. Við erum að flytja á Sólvelli. Við erum búin að búa í þessu landi í 16 ár og spjarað okkur vel. Það gerum við áfram. Við erum ekki að flytja í neyð, við erum ekki á flótta en við erum að flytja.

Ef við hefðum búið á sama stað í öll okkar ár, þá er mér ómögulegt að gera mér grein fyrir hvernig það væri í pottinn búið í kringum okkur. Þegar við fluttum frá Hrísey hentum við miklu. Í tvö skipti sem við höfum flutt í Svíþjóð höfum við líka hent miklu en við erum enn með hluti sem við áttum í Hrísey og koma að engu gagni. Þeim hlutum er að fækka grimmilega núna og það er harðfylgi Valdísar að þakka.

Í helgarlok

Í gær fyrir hádegi fór ég í vinnu í þessu líka blíðskapar veðrinu. Það var eins stigs frost og svo skrýtið sem það var, þá var hreinlega eins og það væri nokkurra stiga hiti. Svo mikill var munurinn frá kulda liðinna vikna. Það sem ég sá skemmtilegast á leiðinni var við Hjälmaren þar sem mikið af fólki var úti á ísnum. Flestir sátu á einhvers konar stólum eða kössum og fiskuðu á færi sem þeir renndu niður um gat sem boruð höfðu verið á ísinn. Þetta kalla svíarnir að pimpla og er all vinsæl íþrótt hér í landi. Það var líka töluvert af fólki þarna sem var bara á rölti og virtist vera að heimsækja hina ýmsu fiskimenn og fræðast af þeim um aflabrögð.

Fyrir nokkrum árum fórum við Valdís á bílnum okkar út á Hjälmaren og fórum eftir leiðum sem vegagerðin hafði merkt sem vegi. Við fórum út á eyju sem heitir Vineyjan og eftir henni endilangri. Þegar við komum út á fjarlægari endann sáum við fólk þar út á ísnum sem einmitt var að pimpla. Við gáfum okkur á tal við þetta fólk sem að stærstum hluta voru finnskir menn á okkar aldri. Við spurðum eftir aflabrögðum og fengum þau svör að aflinn væri ekki til að tala um. Hins vegar skini sólin eins og við sæjum og í kassanum sem þeir sætu á væri hitabrúsi með kaffi eða kakói og svo væri brauðsneið í nestisboxinu. Lifið er gott sögðu finnarnir.

Mig hefur oft langað til að pimpla en aldrei orðið af. Það er svona þegar maður verður ellilífeyrisþegi að það finnst ekki tími til alls. En ég skildi finnana svo vel þarna á ísnum. Finnar hafa sín sérkenni og eitt af sérkennum þeirra er einmitt þetta að geta látið sólina skína á sig í hinni ýtrustu kyrrð og vera þakklátir fyrir lífið. Ég þekki marga finnska menn og konur og ég hrífst af tryggð þeirra og heiðarleika.

Að lokum ætla ég að leggja spurningu fyrir finnskan mann sem trúlega les þetta blogg. Markku, hvað heitir stóllinn eða kassinn sem menn sitja á þegar þeir pimpla? Markku kann ekki íslensku en hann les bloggin mín. Spurningin er hvort hann er ekki búin að læra íslensku af því að lesa þessi blogg.


Ævintýrahús við Hjälmaren

Ævintýraheimur

Í gærkvöldi var ég í vinnu reyndi ég þaðan að lýsa á blogginu náttúrunni eins og hún lítur út þessa dagana en mistókst það auðvitað. Það þarf mikinn meistara til að gera það ef það á ekki einfaldlega að mistakast. Þar að auki hafði ég ekki íslenska stafrófið í tölvunni sem ég notaði og ekki bætti það úr skák. Nú er kannski oft og víða hægt að ná svona myndum á einum og öðrum stað, en þegar stór hluti landsins lítur út eins og myndirnar tala, þá er landið líka stórfenglegt. Leiðin í Vornes er 63 km og álíka langt heim trúi ég og það er ekkert lát á dýrðinni.

Veðrið er ekki alveg venjulegt. Járnbrautarsamgöngur eru mjög truflaðar vegna þess að það er þoka sem leggst svo sem hrím á járnbrautarteina, ekki bara trjágróður, og veldur hálku á teinunum. Þokan er mjög ljós og á leið í vinnuna í gær giskaði ég á að skyggnið væri frá 100 metrum upp í einn kílómeter. Myndirnar voru því teknar í dag þegar bjartara var yfir.


Þessi mynd er að vísu ekki tekin þegar bjart var yfir, hún var tekin um klukkan hálf tólf í gærkvöldi. Mér fannst þessi græni litur svolítið sniðugur, var reyndar hissa á honum, en þessi stóra lind er græn að sjá eins og á sumardegi.



Þessi mynd er tekin til suðurs frá Vornesi af mjög blönduðum skógi allra mögulegra lauftrjáa.



Þessi er aftur tekin ntil vesturs og sjáum við þarna hvernig stoltar bjarkir norðursins líta út í vetrarhríminu. Það er sama í hvaða átt er litið.



Á leiðinni heim í morgun skammt vestan við Vingåker. Þarna er afar fallegur greniskógur meðfram veginum, fallegur hvort heldur er að vetri eða sumri. Á jólakortum fyrir 50 og 60 árum voru oft myndir eða teikningar af snævi þöktum grenitrjám, ef ég man rét, og lá ég oft yfir þessum kortum og horfði á þessi makalausu tré og sá held ég ævintýri í hverju þeirra.



Í litla þorpinu Läppe við Hjälmaren leyndist þetta hús skammt frá veginum og var afar mikið ólíkt því sem það er við venjulegri aðstæður. Þarna líkist það mynd í ævintýrasögu.



Núna erum við komin á Sólvelli, en þangað fórum við skömmu eftir að ég kom heim úr vinnunni. Þessi tré eru næstum öll bjarkir.



Og að lokum sjáum við þarna höll allra halla sem mikið og oft er búið að blogga um, sjálfa Sólvallahöllina. Við  höfum verið svolítið hissa á því hvað reyniberin hafa hangið lengi óhagganleg á trjánum. En nú eftir að mesti kuldinn var genginn yfir virðast þau hafa komið að góðu gagni. Fuglarnir eru búnir að éta þau að mestu leyti og óhreinindin sem við sjáum í snjónum næst okkur til vinstri er afrakstur þeirrar stórveislu.

Silfur- og kristalhallir

Thad voru miklar silfur- og kristalhallir sem ég fór gegnum stuttu fyrir hádegi í dag á leid í vinnuna. Eiginlega var thad sumstadar eins og af ödrum heimi thó ad ég hafi ekki verid thar til ad gera samanburd. En alla vega, thad var hreinlega óraunverulegt sums stadar. Hárfínir greinaendar bjarkanna héngu í örgrönnum silfurthrádum svo metrum skipti á utanverdum kristal og silfurlitudum krónunum. Thetta var alveg ótrúlegt ad vera vitni ad og ég held ég muni ekki eftir svo hrímudum skógi sídan 1994 thegar vid Valdís vorum eitt sinn á leid frá Svärdsjö í Dölunum til Falun. Thá urdum vid alveg ordlaus yfir thví sem vid sáum.

Á undan mér í dag voru vörubílar sem óku haegt og ég sá ekki ástaedu til ad taka framúr theim. Thad gaf mér gott taekifaeiri til ad fylgjast med. Myndavélin var í bakpokanum en ég tók ákvördun um ad láta myndatökuna bída morguns og treysta á sama vedur thá líka.

Heiðarleiki

Bengt var vinnufélai minn til margra ára. Hann er mjög vel menntaður hjúkrunarfræðingur, nuddari og hnykkir svo eitthvað sé nefnt. Bengt er um tíu árum yngri en ég og ég hreinlega finn fyrir heiðri yfir að hafa verið honum náinn vinnufélagi. Sama sagði hann um mig og það þótti mér mikils virði. Sem yngri maður vann hann sem héraðshjúkrunarfræðingur langt upp í Norðurlandi. Hann sagði frá því að hann hefði oft setið við dánarbeð eldra fólks þar uppi og honum hefði verið hugsað til þess hvort þar væri að hverfa kynslóð sem hefði alveg frábæra eiginleika. Hann sagði mér að handtak þessa fólks hefði verið mikið öruggara í viðskiptum en vel undirskrifaður víxill niður í mið-Svíþjóð. Þétt handtak með óhvikulu augnaráði var loforð sem ekki var svikið. Svoleiðis var það og annað var ekki þekkt hjá þessu fólki.

Árið 2003 fórum við Valdís niður í Smálönd og völdum að fara til austurstrandarinnar og þar suður á bóginn. Við komum við á stað sem heitir Fyrudden, afskekktur lítill staður á nesi sem gengur út í Eystrasaltið. Frá Fyrudden gengur póstbátur út til all nokkurra eyja sem eru í byggð og sumt af þeirri byggð er sumarbústaðabyggð. Ég var kunnugur kaupmanninum á Fyrudden og eftir að við Valdís höfðum borðað af nesti okkar við borð hjá bílastæðinu gengum við inn í litla verslunina. Ég spurði eftir Lars og ung stúlka sem þarna vann dró tjald til hliðar og sagði inn í litla skrifstofu að það væri kominn maður sem vildi tala við þann sem þar var inni. Fram kom Lars, alvarlegur, gekk hvatlega að mér og heilsaði með handabandi og spurði hvort hann gæti hjálpað til með eitthvað. Svo allt í einu ljómaði hann upp og sagði, nei er ekki íslendingurinn kominn. Hann vildi endilega bjóða upp á eitthvað en við vorum búin að borða. Hann gekk með okkur út að borðinu þar sem við höfðum verið og mig minnir að hann hafi tekið ís með til að bjóða upp á eitthvað.

Kringum lítinn byggðakjarnann þarna vaxa furur, sumar kræklóttar og sumar gamlar, stórar og stæðilegar. Stutt utan við tekur skógi vaxinn skerjagarðurinn við og þarna er mjög fallegt. Lars sagði af högum sínum. Þetta er mjög lítil verslun, sagði hann, og gerir mig ekki ríkan. En það fólk sem ég kynnist hér er slíkt afburða fólk að ég get ekki hugsdað mér að yfirgefa það. Þegar póstbáturinn kemur úr morgunferðinni kemur einhver frá bátnum til mín í verslunina með miða í hendinni. Á þessum miðum er skrifað það sem fólk á hinum ólíku eyjum þarf að fá með næsta bát. Svo stendur nafn undir. Við tínum vörurnar í plastpoka eða pappakassa og setjum miðana á pinna sem eru inni á skrifstofunni hjá mér. Vörurnar fara með næsta bát. Sama fólk á stundum fleiri en einn eða tvo miða hjá mér. Svo á þetta fólk að lokum leið í land og á leiðinni fram hjá búiðini kemur það inn til að borga. Þá tínum við miðana af pinnanum og stimplum inn í kassann og fólkið borgar. Öll þessi ár hef ég ekki verið svikinn um eina einustu krónu.

Ég bý í Norrköping, hélt Lars áfram, eina 50 kílómetra hérna uppfrá, og ég reikna með að ég geti rekið þar verslun með mikið meiri ágóða. En að vera hér innan um þetta heiðarlega, góða fólk gefur lífi mínu mikið meira gildi en meiri peningar upp í Norrköping. Miðaviðskiptin mundu aldrei ganga í Norrköping.

Fyrir nokkrum vikum átti ég tal við 21 árs gamlan mann. Hann var afar dapur. Ég spurði hann hver væri hans æðsti draumur og hálf feiminn svaraði hann: Ég vil verða heiðarlegur og góður maður. Eitthvað hrærðist snöggt innra með mér þegar hann sagði þetta. Það var nefnilega svo að fyrir einum tíu til tólf árum spurði ég 42 ára gamlan mann sömu spurningar og hann svaraði með nákvæmlega sömu orðum og mér fannst sem sama sterka þrá einkenndi tónfallið hjá báðum. Það var sem löngu sögð orð hans bergmáluðu þegar ungi maðurinn svaraði mér. Ég hef spurt marga þessarar sömu spurningar en svör þessara tveggja manna hafa skorið sig úr hvað einlægni varðar og tilfinninguna í rödd þeirra áhrærir.

Eldri maðurinn, sá sem ég talaði við fyrir tíu til tólf árum, var mjög alvarlegur þegar hann svaraði en stuttu seinna sagði hann hlæjandi að hann yrði bara að segja mér eitt. Hann sagði að hann hefði ekki allt sitt líf getað látið sér detta í hug að hann mundi nokkurn tíma hitta svo undarlegan mann eins og mig. Hann kom lengst sunnan úr Evrópu og hafði lifað lífi sem ég þekkti ekki til og hann þekkti alls ekki til þess lífs sem ég hafði lifað. Ég hafði búið með sömu konunni í 40 ár, ég gekk í buxum með broti, var stundum með bindi og það var mikið meira sem var honum algerlega framandi.

Þetta blogg er byrjun á hugleiðingum sem hafa fylgt mér um skeið. Framhalds er að vænta.

Bræðralag og fallegar sögur

Fyrir nokkrum vikum var hann Arnold bóndi að grisja í skóginum sínum með keðjusög. Svo sá ég frá Sólvöllum hvar hann sat í litla pallbílnum sínum og virtist vera að borða nestið sitt. Ég rölti til hans og við spjölluðum um daginn og veginn um stund og ég spurði hvað hektari af skógi mundi kosta.

Já, veistu, sagði Arnold. Kirkjan var að selja 43 hektara af skógi sem lá að mínum skógi og mig langaði að gera tilboð. Gallinn var bara sá að hinu meginn við skóginn sem kirkjan ætlaði að selja var líka skógurinn hans Mikka. Ég vissi að hann langaði að bjóða í þar sem aðstaðan hjá honum var nákvæmlega sama og mín. Við ákváðum því að hittast þar sem hvorugur okkar vill að við lendum í leiðindum okkar á milli. (Það er um einn km milli bæjanna) Ég kom því heim til Mikka og við settumst yfir kaffibolla og ræddum þetta. Ég fann strax að Mikka langaði svo gjarnan að kaupa og þegar ég hafði horft á hann um stund, þennan bónda sem er 20 árum yngri en ég, tók ég ákvörðun. Ég sagði honum að bjóða í og ég skyldi ekki verða til þess að sprengja upp verðið á skóginum. Svo bauð Mikki í en eitthvað fyrirtæki bauð langt yfir og Mikki fékk ekki skóginn. Þú veist nú þegar stærðina og svo sagði hann mér upphæðina og að nú gæti ég reiknað sjálfur. En athugaðu bara að þetta er mjög hátt verð, sagði Arnold að lokum.

Ég gat ekki annað en dáðst að þeirri auðmýkt sem þessir nágrannabændur sýndu hvor öðrum til þess að geta lifað í sátt og samlyndi. Það slær gott hjarta í Arnold er ég viss um og stundum segir hann hluti sem ég á ekki von á að heyra hjá 65 ára gömlum bónda. Hann sat eitt sinn inni hjá okkur á Sólvöllum og drakk kaffi. (Það lætur eins og ég hafi bloggað um þetta áður, en hvað um það) Valdís og Arnold ræddu um börnin hans sem eru jú tveir synir á fertugs- og fimmtugs aldri. Sá yngri, Jónas, býr mjög nálægt okkur Valdísi og er hámenntaður maður á tæknisviði. Arnorld talaði um að Jónas hefði eftir háskólanám í Svíþjóð farið til Englands og haldið áfram að mennta sig þar. Síðan fór hann til Þýskalands og lauk þar námi. Já, sagði Arnold, hann er mjög vel menntaður hann Jónas, en hvað um það; hann verður alltaf litli drengurinn.

Í dag skrapp ég á Sólvelli og þaðan fór ég til Kumla sem er í tíu til fimmtán kílómetrqa fjarlægð frá Sólvöllum. Þar ætlaði ég að hitta hana Helenu í bankanum. Þegar ég fór fram hjá póstkassa Arnolds rétt hjá Sólvöllum var hann að sækja póstinn og sonardóttir hans var með honum. Mér fannst ég meiga til með að hitta hann og spjalla svolítið. Hann talaði um þennan mikla kulda sem ég hef bloggað um áður. Þá sagði ég honum að ég hefði heyrt veðurfræðing tala um það í útvarpi í gær að veturinn 1966-67 hefði verið miklum mun verri. Já, það mun nú rétt vera, sagði hann. Þá var frostið oft milli 25 og 30 stig og ég átti þá heima í húsinu þarna á bakvið okkur. Svo ef frostið lækkaði eitthvað fór strax að snjóa. Eitt kvöldið var ég ákveðinn í að fara til Kumla kvöldið eftir. Svo þegar ég vaknaði morguninn eftir hafði hlýnað, frost undir tuttugu stigum, og snjónum hlóð niður og það snjóaði allan daginn.

Rétt í þessu kom kona Arnolds út í dyrnar á núverandi heimili þeirra og kallaði á stúlkuna og sagði henni að hún gæti komið þó að afi kæmi ekki strax. Svo hélt Arnold áfram. Vegir voru þá ekki ruddir jafn hraðann eins og gert er í dag og ég varð áhyggjufullur vegna ferðar minnar til Kumla. Ég var nefnilega á leiðinni þangað til að biðja mér konu. Hún bjó í Kumla en lærði til Hjúkrunarfræðings í Örebro. Ég veitti því athygli að það varð nánast engin svipbreyting á andliti hans þegar hann sagði þetta nema þá kannsi að hann brosti svo mjög lítið bar á. Hann hélt áfram. En svo ákvað ég þó að fara og ákvað að fara á Fólksvagen bjöllu sem við áttum. Bjallan var mjög góð í snjó og var á háum dekkum (51, sem ég vissi ekki hvað þýddi) og ferðin gekk alveg ágætlega þrátt fyrir þennan mikla snjó. Já, það var harður vetur.

Þannig endaði sagan hjá Arnold og mér fannst ég yrði að fá enda á hana þó að ég vissi raunar endirinn. En hvernig gekk erindið Arnold, spurði ég. Jú, það var hún sem kallaði á barnið áðan, sagði hann, og nú birtist ósvikið bors í frostbitnu andliti bóndans. Mér þótti vænt um hann

Falleg saga á ísköldum vetrardegi, saga sem ég átti alls ekki von á. Síðan fór ég til Kumla til að hitta Helenu vegna fjármála okkar Valdísar en ekki til að biðja hennar. Hins vegar sagði ég henni söguna og hún brosti svo undur fallega og sagði; än gulligt.

Veður og heilsa

Heldur dvínaði frostharkan í morgun og bara að það hlýnaði um átta gráður gerði regin mun. Ég gat ekki betur séð og heyrt en fuglar væru glaðari en dagana á undan en kannski var það bara ég sem gladdist yfir góðum degi. Ég yfirgaf vini mína, alkana í Vornesi, strax eftir hádegi eftir sólarhrings samveru en lét þá vita að við mundum hittast aftur um hádegi á miðvikudag. Tók ég jafnframt fram að það yrði erfitt fyrir þau að losna við mig því að það væri erfitt að losna við mig þegar ég væri búinn að koma inn klónum á annað borð.

Eftir að ég yfirgaf hvínandi hálan afleggjarann heim að Vornesi og kom út á fjölfarnari vegi var færið hið ákjósanlegasta. Ég var hræddur um að verða syfjaður á leiðinni heim og það er hættulegt. Það er ekki bara að maður geti misst ökuskírteinið ef maður sofnar undir sýri og lendir í óhappi, sagt er að þreyttur maður sé álíka hættulegur undir stýri og fullur maður. Maður getur líka að sjálfsögðu bundið enda á líf sitt ef þetta á sér stað. Ég geri ráð fyrir að sama mat sé lagt á þetta á Íslandi. Ég slapp um tvo þriðju hluta leiðarinnar en þá fann ég fyrir augnalokum á niðurleið. Óli lokbrá var kominn. Þá setti ég útvarpið á og jafnskjótt kom músikstefið sem alltaf kemur á undan viðvörunum vegna ástands á vegum. Þar var tilkynnt að skammt framundan væru tveir elgir nálægt veginum og ökumenn voru beðnir að gæta varúðar. En spennandi og syfjan hvarf. Ég hef ekki séð elg mjög lengi og fannst þetta hið skemmtilegasta mál, og að nú skyldi ég sjá tvo. Svo kom ég á þennan stað en þar voru engir elgir. Svona er þetta. Elgir eru yfirleitt styggir og þessir voru greinilega komnir langt í burtu. En hvað um það. Ég varð af með syfjuna og komst heilu og höldnu heim til Valdísar.

Fríða systir hringdi áðan. Hún spurði mig hvort heilsan væri ekki allt önnur eftir að ég fékk nýja mjaðmaliðinn. Alveg rétt. Ég hef ekki gefið skýrslu um þetta lengi. Jú, heilsan er allt önnur en ég verð að viðurkenna að ég er farinn að gleyma því hvað ég var orðinn lélegur. Sannleikurinn er sá að ég hálf hleyp upp og niður stiga, er snar í snúningum í vinnunni, þarf ekki að stoppa til að rétta úr mér með 15 km millibili þegar ég ek bíl, get setið eins og maður í stól og sef sex til sjö tíma í einni lotu. Klósettferððirnar á nóttunni heyra sögunni til. Já, það er mikil breyting á, rosalega mikil breyting. Maður sem ég hitti í síðustu viku og ég hafði ekki hitt síðan fyrir aðgerð sagði að það væri aldeilis munur að sjá mig núna. Hann sagði að ég væri hættur að "hökta áfram með staf í hendi". Það má segja að ég varð albata eftir aðgerðina meðan ég var í Uppsala um jólin. Þar upplifði ég lokastigið í batanum á gönguferðum á bökkum Fyrisárinnar með Rósu og Hannesi Guðjóni.

Ég ætlaði bara að gefa smá veðurskýrslu en datt út í allt aðra sálma. Við Valdís skruppum í búð um fjögur leytið og á meðan kólnaði verulega aftur. Núna er klukkan að verða níu og frostið er 19 stig. Veðurfræðingur sagði í útvarpi í dag að þetta kuldakast væri ekkert miðað við veturinn 1966. Ég skildi það þannig að frostið væri ekkert minna núna, en þá stóð frostakaflinn bara svo rosalega lengi og allt Eystrasaltið lagðist undir ís. Þetta var þriðja árið okkar í Hrísey og þá voru ísaár fyrir Norðurlandi.

Kvedur kuldaljód

Í morgun var enn 25 stiga frost heima í Örebro en svo bjart klukkan hálf níu ad ég thurfti ekki ad kveikja ljós til ad sjá á hitamaelinn. Ég get svo sem ekki sagt ad mig hafi langad ad fara í vinnuna 63 km í burtu. En ellilífeyristhegarnir í Vornesi eru ekki svikulir og af stad hélt ég eftir morgunverd og kaffi og smá spjall um ad pakka nidur búslód. Landid var fagurt og frítt, afskaplega thrifalegt, en hvorki hlýlegt eda fjöllum skreytt. Ég er búinn ad frétta ad í Kiruna sem er mjög nordarlega sé níu stiga frost um midjan dag og á ödrum stad tharna langt uppi, eina 1000 km, sé thriggja stiga frost. Thad finnst thví von fyrir okkur hér i Mid Svíthjód ad nordlendingarnir sendi okkur eitthvad hlýrra vedur svo sem upp úr helgi.

Mér var hugsad til allra theyrra dýra sem hraerast úti í thessum kulda. Hvernig er thad eiginlega ad vera sídasta árs dádýrskid eda ófrísk verdandi dádýrsmamma í thessu vedri. Kalt er mér á k l ó. Ég sá engin dýr á leidinni en hér í Vornesi hafa hérarnir verid mikid á ferdinni undir gluggunum á matsalnum. Innandyra eru sjúklingarnir og their sem eru búnir ad fá eigin föt fóru í gönguferd um midjan dag thrátt fyrir allt. Inni á sjúkradeildinni komu nokkur ungmenni til mín á náttfötum slopp thar sem ég sat og spekúleradi í tema fyrir kvöldid. Theim fannst held ég svolítid dauflegt thá stundina og komu til ad athuga hvort afi hefdi nokkru ad segja frá.

Thad er óneitanlega mun leidinlegra ad skrifa á tölvu sem ekki hefur íslenskt letur. Thad dregur úr frásagnarkraftinum og er seinlegt. En thar sem ég á erfitt med att halda mér saman laet ég mig hafa thad. Samkvaemt skýrslu sem mér hefur borist frá Valdísi er 22 stiga frost í Örebro núna undir kvöldid en adeins 17 stig hér í Vornesi. Rósa sendi mér vedurskýrslu á blogginu og thar var 13 stiga frost um midjan dag. Hún og hann nafni minn voru búin ad fara í gönguferd og nafni minn tók víst Óla lokbrá med sér nidur í vagninn.

Mitt fólk situr nú á fundum sem thau annast sjálf og ég nota taekifaerid til ad senda út thetta blogg mitt. Svo skal ég fá mér te og vaena braudsneid.


Myndin er tekin frá adalinnganginum ad Vornesi milli jóla og nýárs

Kaldur er hann enn

Ég fór á Sólvelli í dag til að sækja hluti sem við þurftum að nota hér heima og til að líta eftir. Frostið á Sólvöllum þá stundina var 18 stig. Ég gekk spertur inn í húsið, hreinsaði snjóinn af fótum mér, gekk svo að inntakskrananum og skrúfaði frá. Það á að heyrast lítið pfp hljóð þegar skrúfað er frá kranum en það heyrðist ekki neitt. Svo skrúfaði ég frá krananum yfir handlauginni en það kom ekki neitt. Mín fyrsta hugsun var sú að ég segði alls ekki frá þessu. Ég fann fyrir vonbrigðum. Svo hringdi ég í hann Lars eldri, en í bílskúrskjallara hjá honum eru kranar fyrir þrjár fasteignir sem fá vatn frá sömu borholu. Ég bað Lars að skrúfa fyrir kranann á vatnslögninni okkar. Já, sagði Lars alvarlegur, vatnið er búið að frjósa víða enda hefur þetta alls ekki verið eðlilegt að undanförnu.

Jafnfallinn snjórinn er 30 sm.  Ég tók strákústinn við dyrnar og gekk aðeins frá húsinu og rak skaftið þar niður. Og viti menn, jörðin var þýð undir snjónum. Þegar ég skrifa þetta núna um ellefu leytið trúi ég því varla en svona var það. Samt náði að frjósa vatnið undir húsinu. Ég læt setja hitaþráð í vatnslögnina niður á vel frostfrítt dýpi í sumar. Eftir klukkutíma dvöl á Sólvöllum fór ég heim og þá var frostið orðið 22 stig. Núna í kvöld er það 24 stig hér í Örebro og á svona að vera einn til tvo daga til viðbótar. Síðan á frostið að minnka og verða um tíu stig. Þá finnst manni vorþeyr fyrir utan að snjórinn bráðnar ekki.

Ég kom við hjá grönnunum Lars yngri og Stínu. Vatnið hjá þeim kemur inn í smá kjallaraholu og þar fraus það innan við vegg. Lars var búinn að kaupa hitaþráðinn sem ég talaði um áðan og ætlar að setja í inntakið hjá sér. Svona gengur nú lífið í Sviþjóð. Á morgun er það vinna frá hádegi og fram að hádegi á sunnudag. Svo verðum við rík.


Þessi Sólvallamynd er frá því fyrir áramót.

Ég nenni þessu alls ekki

Nei, ég nenni þessu alls ekki. En alla vega, ég bloggaði um daginn og hafði fyrirsögnina Stærstu mistök Íslandssögunnar. Ég hef fengið viðbrögðvið þessu í e-pósti, sem innleggi á blogginu og feisbókinni. Sannleikurinn er sá að þrátt fyrir athugasemdirnar hefur sannfæring mín ekki haggast. Ég ætla aðeins að svara þessu þó að ég nenni því alls ekki.

Þegar við Valdís vorum á Íslandi í vor var það skoðun margra að það ætti ekki að borga skuldina við breta og hollendinga. Ég segi aftur, það var skoðun margra. Ríkisstjórninni var krossbölvað fyrir að láta sér detta í hug að borga. Það voru líka stjórnmálamenn með í þessu. Svona einfalt er þetta. En í hita bardagans og eftir því sem mánuðirnir líða gleymist þetta og að lokum gufar vitneskjan upp og verður að engu. Þetta er eins og afneitun hjá alkohólistum. En þetta hefur sem betur fer mikið breytst síðan í vor en ég hef samt séð á mörgum smábloggum undanfarið að það eru ennþá margir við sama heygarðshornið. Svo leit ég aðeins í tölvu í Vornesi seinni partinn í gær og fann þá þessa feisbókargrúppu:

Ég skulda Bretum og Hollendingum ekki krónu

Nú þegar ég er að skrifa þetta sólarhring seinna er fjöldi þátttaka í grúppunni 3500 manns. Já, en heyrðu Guðjón, hlustarðu á svona bull, vill kannski einhver spyrja. Þetta er ekki meira bull en svo að það gætu hafa verið til dæmis 15 000 eða 25 000 nöfn af þessu tagi á listanum sem forsetanum var færður og var hluti af þeim gögnum sem hann vann eftir og tók ákvörðun útfrá.

Ég tel það stórhættulegt að láta umsagnir erlendra aðila eins og vind um eyrun þjóta. Ég las áðan greinina eftir Uffe Elleman Jensen, Bananalýðveldið. Í myndtexta með greininni segir hann: „Það er eins og harðgerðir Íslendingarnir hafi misst allt raunveruleikaskyn.“ Danir voru margsinnis búnir að vara við bankahruninu en það var dæmt sem bull í þeim.

Í fyrsta skipti í morgun hafa vinnufélagar mínir talað niður til Íslands í mín eyru. Við Valdís skruppum niður í bæ í dag og hittum blaðakonu sem er með Valdísi í kórnum. Nú gekk það of langt, sagði hún alvarleg, jafnvel þó að menn ætli að borga mega menn ekki draga lappirnar endalaust á eftir sér.

Ég hef velt einu fyrir mér lengi. Þurfa stjórnarandstöðuflokkarnir tveir að fela svo mikið að það sé lífsspursmál fyrir þá að komast að áður en skýrsla þingmannanefndarinnar verður birt? Ég lít á þá sem höfuð bófana. Ef þeir hefðu ekki staðið í veginum væru íslensk stjórnvöld að vinna að mörgum nytsamlegum málum í dag. Til dæmis til að mæta vandamálum heimilanna, vandamálum skuldsettra húseigenda með mörgu öðru nauðsynlegu.

Hér eftir ætla ég að snúa mér að mikið skemmtilegri bloggum en þessum tveimur síðustu.

Stærstu mistök Íslandssögunnar

Ég vann í Vornesi í nótt og þurfti að gera gott betur. Einn ráðgjafinn datt á rassinn á hálku og er því óvinnufær. Annar datt á skíðum og er því óvinnufær. Sá þriðji er laus í maganum og er því óvinnufær. Því fór svo í morgun þegar minn tími var kominn að fara heim að ellilífeyrisþegans var þörf. Svo hélt ég áfram að vinna.

Það var í mörgu að snúast á stuttum tíma og það var ekki fyrr en klukkan var níu mínútur yfir 12 á hádegi sem ég fór inn á Eyjuna á einni af Vornestölvunum og þar sá ég að forsetinn hafði hafnað Icesave. Mér brá harkalega vil ég segja. Síðan var matur og í svo mörgu að snúast að ég gleymdi þessari váfrétt. Alveg steingleymdi henni.

Klukkan að ganga fjögur var ég tilbúinn til heimferðar. Ég fór beint á Sólvelli því að eftir þær frosthörkur sem hér hafa verið vildi ég sjá hversu vel byggingar á Sólvöllum og vatnsinntak hefðu staðið sig. Ég hef reynt að gæta ýtrustu varfærni og gera allt vel úr garði og nú sá ég að ég gat fengið staðfest hversu vel mér hefði tekist til. Ég nálgaðist Sólvelli í 25 stiga frosti og einhvern veginn fann ég á mér að ég mundi fá það staðfest að allt væri í allra besta standi.

Loksins stóð ég inn á gólfi, kveikti ljós og skimaði í kringum mig. Síðan gekk ég að vatnsinntakinu og skrúfaði frá vatninu og síðan frá heita krananum yfir baðhandlauginni. Vatnið streymdi glatt úr krananum og á nokkrum sekúndum var farið að renna heitt vatn. Því næst opnaði ég og lokaði öllum hurðum, gerði sama með gluggana og hvergi sat neitt fast eða straukst utan í. Þar með var ég alsæll. Engar undirstöður höfðu hreyfst í mestu frosthörkum í langan tíma, og vatnið rann, meira að segja heitt. Ég er búinn að grafa með skóflu, járnkalli og haka, liggja á maganum á jörðinni til að ná lengra niður í holurnar, við Valdís felldum efnivið út í skógi í hörku frosti, ég er búinn að skakklappast drag haltur upp á þaki, Rósa og Pétur eru búin að koma og hjálpa mikið og svo gæti ég haldið áfram. Sólvellir voru ekki byggðir af ríkidæmi, heldur af áhuga og ósérhlífni. Nú fann ég fyrir ósegjanlegri sigurgleði þó að frostið héldi áfram að halda náttúrunni í sínum járngreipum utan dyra.

Svo hringdi ég heim og sagði Valdísi frá því hvað allt væri í góðu lagi og við ræddum það um stund. Stuttu síðar sagði hún að það væri mikil óánægja með ákvörðun forsetans. Helvíti! Þar með hrundi heimurinn fyrir mér og skapþunginn leysti gleðina af. Ég sem var búinn að gleyma þessu. Á leiðinni heim hugleiddi ég að segja upp íslenska ríkisborgararéttinum, svo heitt var mér í hamsi.

Ég skil ekki hvernig fólk fær sig til að trúa því að það sé hægt að gefa skít í þessar skuldir og segja að fáeinir áhættuseggir séu ábyrgir fyrir öllu saman. Ég skil ekki hvernig fólk heldur að það verði hægt að lifa í sátt við alþjóðasamfélagið á þann hátt. Það eru ekki fáeinir áhættuseggir ábyrgir. Allir sem kusu yfir sig síðustu ríkisstjórnir í lýðræðislegum kosningum eru ábyrgir. Stjórnvöld skulu ábyrgjast að það fyrirfinnist virkt fjármálaeftirlit og virkur seðlabanki. Stjórnvöldin sem fólk kaus yfir sig í átján ár annaðist þetta ekki. Þessi stjórnvöld fengu þar að auki einkavæðingabrjálæði og seldu vinum bankana á tonnbóluverði. Þessir kjósendur eru auðvitað samsekir.

En það eru aðrir sem eru enn sekari. Það eru allir sem skrifuðu undir áskorunina til forsetans að samþykkja ekki. Þeir eru svo sekir að þeir ættu að líta í spegil og athuga hvort ekki sé kominn svartur blettur undir tunguna. Að láta sér detta þetta í hug er ofar mínum skilningi. Nú kannski vill einhver meina að það sé einfalt fyrir einhvern sem er í útlöndum að segja þetta. Sannleikurinn er bara sá að við Valdís þurfum að blæða alveg jafn miklu í uppgjörið og þeir íslendingar sem búa á Íslandi og það er ekkert við það að athuga. En að skrifa  undir þessa áskorun til forsetans að synja, er sjálfsagt fyrir marga leiðin til að berja á ríkjandi stjórnvöldum. Og kosti þá það sem kosta vill fyrir alla landsmenn.

Íslendingar börðust hart fyrir landhelginni og báru sigur úr bítum. Þá börðust menn fyrir heiðarlegum málsstað. En Íslendingum mun aldrei takast að sigra þegar þeir berjast fyrir óheiðarlegum málsstað eins og hér um ræðir. Í Svíþjóð veit fólk ekki svo nákvæmlega hvernig þessu viðvíkur. Ef sænskir einstaklingar og sveitarfélög hefðu tapað jafn miklu fé og bretar og hollendingar, þá fengju svíar að vita mikið meira um málið og þá mundi álit svía á íslendingum detta niður í ruslflokk.

Eftir að ég kom heim í kvöld tók ég nokkrar mínútur til að skoða nöfn á undirskriftalista með áskorun til forseta um að hafna lögunum og undirskriftalista til forseta um að segja af sér, þá er þar að finna sömu nöfn á báðum listum. Hvað er á ferðinni?

Það er mikið búið að tala um að við eigum ekki að borga skuldir sem áhættuseggirnir stofnuðu til. Ég er búinn að hlusta allt of mikið á íslenska sjónvarðið í kvöld, en þar er allt fullt af því að auðvitað eigum við að borga. Urðu menn allt í einu svona skíthræddir að allir eru nú vitlausir í að borga? Bara ef það er borgað öðru vísi en lýðræðislega kjörin stjórn hefur samið um.

Heima í Örebro

Við erum komin heim eftir rúmlega hálfs mánaðar dvöl í Uppsala. Ég er búinn að blogga svo mikið um veruna þar að ég læt það duga þó að ég gæti vel farið um það mörgum góðum orðum til viðbótar. Ég get þó ekki látið vera að segja að það er sem dóttursonurinn, Hannes Guðjón, sé búinn að taka afa og ömmu góð og gild. Ég var einn með hann í vagni í dag þegar hann vaknaði og hann horfði lengi á mig án nokkurra svipbreytinga. Síðan geispaði hann löngum, stórum geispa og hélt svo áfram að vera afslappaður. Ég tók það sem að hann væri öruggur með mér einum. Amma telur sig líka vera búin að fá viðurkenninguna.

Þvílík umferð á vegunum þegar við vorum á leiðinni heim. Við fórum nánast alla leiðina í myrkri og ég get ímyndað mér að ég hafi getað haft háu ljósin á einn kílómeter af 165. Ég var orðinn þreyttur á að stara með fullri athygli móti þessum óteljandi ljósum sem komu á móti okkur. Þegar við vorum búin að bera farangur okkar inn og ég búinn að setja bílinn inn í geymslu fór ég inn á bað. Ég dró andann djúpt og svo dró ég fram baðvogina, stillti hana vel og steig á. Ég sem léttist um fimm kíló þegar ég fór í mjaðmaaðgerðina var búinn að fá að minnsta kosti sex kóló til baka. Hvað getur verið á ferðinni? Getur Guðjón inn við beinið verið átvagl? Er mögulegt að ég hafi borðað svona mikið um jól og áramót?

Þegar við starfsfólkið í Vornesi hittumst yfir jólaborðinu fyrir næstum þremur vikum sagði hún Annelie hjúkrunarfræðingur að ég hefði lagt af. Ég sagðist vita það og ég sagði henni ástæðuna. Gott sagði hún og ég vissi hvað hún meinti. Það er ekki góðs viti að maður bara léttist allt í einu og viti enga ástæðu til þess. En þegar ég þyngist meira en ég hef léttst og veit ekki ástæðuna, ætli það geti ekki líka verið alvarlegt? En án alls gamans. Sannleikurinn er sá að ég hélt að ég hefði þyngst meira. Ég hef ekki borðað, ég hef hreinlega étið alveg gengdarlaust. Nú er mál að linni og ég set hollustu, iðjusemi og gönguferðir á framtíðaráætlunina. Tek ég þetta hér með af dagskrá enda héf ég hér með viðurkennt veikleika minn...

Ég sagði í gær að nú yrði væntanlega hlé á myndaseríunum af honum nafna mínum. En hvað gerir maður ekki þegar fullt er til af þessum myndum.


Öruggur við gluggann hjá ömmu og dómkirkjan sést upp í horninu til vinstri.


Fyrirgefðu, en stundum er ég bara svo hugsi.


Er ég orðinn aleinn í stórum heimi? Nei, nei, nei, það er engin hætta á því. Svo sneri hann  sér ögn á gólfinu.


Vetur konungur ræður ríkjum úti og Fyrisáin sem er aðeins neðar er nú ísi lögð bakka á milli ofan við Íslandsfossinn. Hérna sjáum við hús sálfræðideildar háskólans. Útsýni úr stofuglugga Rósu og Péturs, útsýnið sem Hannes og amma hans höfðu á efstu myndinni.

Síðasti dagur í Uppsala að sinni

Það verður trúlega um hádegi á morgun sem við kveðjum gestgjafa okkar hér í Uppsala. Við munum sakna þeirra allra og ekki síst unga drengsins sem margsinnis dag hvern bræðir hjarta afa og ömmu með sínu blíða brosi. Við höfum líka orðið vitni að því einu sinni enn hvað þessum smáu einstaklingum fer hratt fram þegar þau eru komin svolítið á strik og lifa í góðri umönnun foreldranna. Ég fór í burtu í þrjá daga til að vinna og ég sá ótrúlega miklar framfarir í þroska drengsins þegar ég kom til baka.

Það er enn vetrarríki í Svíþjóð. Það er gott að það komi vetur en þessi kuldakafli kom ótrúlega snemma. Við förum bara gætilega á heimleiðinni á morgun, þá mun okkur vegna vel.


Haldiði ekki að mér hafi verið skipað að taka barnavagnaprófið að nýju. Dómnefndin var auðvitað mamma, pabbi og amma barnsins. Ég stóðst prófið sögðu þau. Svo gerðu þau grín að mér á eftir vegna bláa pokans sem er í körfunni undir vagninum. Þetta er nefnilega pokinn sem notaður er af áfengisverslun ríkisins í Svíþjóð fyrir þá sem þiggja poka undir flöskurnar sínar. Ég er víst orðinn svo lítill heimsmaður og fátíður gestur í ríkinu að ég vissi þetta ekki. Þau voru að tala um að það væri betra að fólk í Vornesi sæi ekki til mín við þessar aðstæður. Í pokanum voru föt sem átti að skipta í verslun. Þessi verslunargata er upphituð en hefur þo ekki undan að bræða af sér.


Þetta er Íslandsfossinn í Fyrisánni í Uppsala og yfir honum er Íslandsbrúin. Konan sem stendur til hliðar við fossinn er íslensk og maðurinn bakvið myndavélina er íslenskur. Nokkra tugi metra bakvið ljósmyndarann er Íslandsgatan. Þetta er bara mjög íslenskt eða hvað? Húsin handan við brúna eru tilheyrandi sálfræðideild háskólans í Uppsala.


Að lokum sýni ég þrjár barnamyndir. Það verður svo væntanlega hlé á svoleiðis myndum hjá mér um sinn.


Afi og amma, sjáið bara hvað ér er orðinn stöðugur á fótunum. Mamma hjálpar mér bara pínulítið.


Svo er ég farinn að borða mat líka og matur er alveg hræðilega góður. Svo góður að ég vil ekki hætta þegar ég fæ ekki meira. Það verður líka að passa á mér hendurnar svo að ég slái ekki matinn úr skeiðinni


Þessi uppstilling var gerð alveg sérstaklega fyrir afa og ömmu.

Aftur til Uppsala

Um miðnætti í gærkvöldi eftir vel heppnaðan vinnudag í Vornesi var ég með eyrað á koddanum. Ég heyrði smellina frá flugeldum í nágrannabyggðum en fór ekki einu sinni út í glugga. Ég þarf að sofa mikið og nú var svefninn mér mikilvægari. Fimmtán mínútur fyrir sex í morgun fór ég svo með rétta fótinn fram yfir rúmstokkinn og svo allur ég á eftir. Svo var að opna sjö hurðir hingað og þangað og bjóða góðan daginn þeim sem voru komnir á stjá. Svo byrjaði starfsfólkið að tínast að um sjö leytið. Hún Lena kom í eldhúsið og stuttu síðar kom hann Ingemar, gamall fallhlífahermaður og friðargæslusveitarmaður á Kýpur. Hann þurfti ekki að koma alveg svona snemma en honum þykir gaman að koma í tíma og fá sér kaffibolla með einhverjum, í þessu tilfelli mér. Við erum báðir löglegir sænskir ellilífeyrisþegar en ómissandi í Vornesi -teljum við sjálfir. Hann er ári yngri en ég og hann er lúmskt ríkur af hnitnum tilsvörum. Því næst komu tvær konur til vinnu og eftir það var þessi nýársdagur äi Vornesi fullmannaður.

Eftir tvo morgunfundi og tvöfaldan morgunverð gekk ég með pjönkur mína út að bíl og hreinsaði af honum snjó og lagði síðan af stað til Uppsala. Ég valdi leið sem á góðum sumardegi er með eindæmum falleg. Það var líka heppilegasta leiðin. Ég hafði sjaldan farið þessa leið enda nýtt fyrir mig að fara til Uppsala frá Vornesi. Þegar ég segi með eindæmum falleg leið á ég í fyrsta lagi við þann hluta leiðarinnar sem liggur frá bæ sem heitir Strengnes (Strängnäs) og þvert norður yfir vatnið Mälaren eftir eyjum brúm og hólmum, um 20 kílómetra leið. Mälaren er jú að mestu álar og sund þó að vatnið sé það þriðja stærsta í Svíþjóð og þar er mikið af skógi vöxnum eyjum og hólmum.

Auðvitað er maður mitt inni í skógi á stórum hluta þessara leiðar allrar. Það skaðar mig ekki því að skógurinn er vinur minn. Fyrir mér er skógur bæði útsýni og lifandi landslag, land klætt lífi. Nakið landslag er líka fallegt svo að af ber svo sem víða er á Íslandi. Svoleiðis landslag er gott og gaman að heimsækja og skoða en mér líður betur að búa í lifandi landslaginu. Myndavélin lá í farþegasætinu en það var svolítið erfitt að taka myndir þar sem ég helst vildi þar sem það var gjarnan af brúm og þeir sem á eftir koma eru ekki svo hrifnir af því að sá sem ekur bílnum á undan sé að drolla við myndatöku þegar fólk er á leið í heimsóknir á nýársdag.


Ég stoppaði í skógi og tók þessa mynd til baka af leiðinni sem ég var búinn að aka.


Svo tók ég þessa fram fyrir mig og einhver mundi kanski segja að hér sæi maður ekki trén fyrir skóginum eða ekki skóginn fyrir trjánum. En svo skrýtinn sem ég er þá finnst mér þetta skemmtilegt. Sjáum svo næstu mynd.


Þessi er tekin af mjög hárri brú sem er kölluð Strengnesbrúin (Strängnäsbron). Þar má ekki stoppa og ef einhver hefði komið á eftir mér og verið á lélegum dekkjum hefði hann kannski ekki komist lengra hefði hann þurft að stoppa. Ég fylgdist með í bakspeglinum og var tilbúinn að rífa mig af stað. Þara sjáum við út á ísi lagðan Mälaren og myndin er tekin fáeinum kílómetrum frá myndunum mitt í skóginum. Að sumri til er þetta ótrúlega fallegt.


Hér sjáum við annað sund í Mälaren tekið af lágri brú. Sinulitaði gróðurinn er hávaxin stör sem heitir vass. Næsta sumar veit ég að ég fer þessa leið til að njóta þess á allt annan hátt. Ég hef einu sinni farið þetta að sumri til svo ég muni og það var 1996 þegar ég var búinn að fara með Pál bróður og Guðrúnu mágkonu mína á Arlanda. Þá fór ég leiðina í Vornes en ekki frá Vornesi eins og núna.

Upp í Uppsala beið mín fólk og hún Þórlaug sem stundum kemur með innlegg á bloggið mitt sagði í innleggi í gær að hann dóttursonur minn mundi brosa þegar ég kæmi. Er mögulegt að þórlaug hafi haft rétt? Jú, hún hafði rétt, hann brosti varlega um leið og hann sá mig. En lítum á næstu mynd.


Stuttu eftir að ég kom skellihló hann. Og það er ekki bara það að hann hlægi. Við öll sem vorum viðstödd hlógum með og allir voru glaðir. Ég var kominn á leiðarenda.
RSS 2.0