Doktor Saxi

Í gærmorgun, mánudag, vaknaði ég um hálf sjö að morgni og fannst ég vera hálf þreyttur ennþá. Ég hafði verið að vinna mikið laugardag og sunnudag og fannst ég verður þess að leggja mig aðeins aftur. Ég gerði það og sofnaði ekki að eigin mati. Svo giskaði ég á að klukkan væri orðin átta og þá fór ég fram. Þegar ég kom fram sá ég að klukkan var níu þannig að maðurinn sem ekki sofnaði hafði sofið eigi að síður. Og þar með hringdi síminn. Það var hann Ove dagskrárstjóri í Vornesi og hann hló við þegar hann spurði hvort ég gæti komið til að vinna eitt kvöldið enn. Ég gerði það enda með báða fætur í góðu lagi og með hressari starfsmönnum í Vornesi.

Svo kom ég heim í morgun um hádegi. Færðin var leiðinleg og ég fór hægt á leiðinni heim minnugur þess að í gær dó maður í umferðarslysi á veginum sem ég fór og ökumaður keyrði á dádýr. Þegar ég loks kom heim var ég þreyttur og vildi ekkert gera og stakk upp á að við horfðum á eitthvað efni í sjónvarpi. Valdís setti disk með Ladda í tækið og við byrjuðum að horfa. Mér fannst Laddi hundleiðinlegur og sofnaði. Eftir einhvern hálftíma vaknaði ég aftur og byrjaði að horfa á Ladda á ný. Þá allt í einu var hann bráð skemmtilegur. Ég skildi vel að það fjallaði um mig en ekki Ladda að mér fannst hann leiðinlegur í byrjun.

Svo hvarf Laddi af sviðinu en kom strax til baka og var þá doktor Saxi. Umsvifalaust upplifði ég atburð upp í Falun í Dölunum sumarið 1994. Við Valdís og mamma sem þá var í heimsókn hjá okkur vorum á járnbrautarstöðinni í Falun að taka á móti Kristni dóttursyni okkar sem var að koma í heimsókn, þá 11 ára. Þegar við gengum frá lestinni inn á járnbrautaerstöðina sáum við kunnuglegt andlit Ólafs Ólafssonar landlæknis sem líka var á leið inn á stöðina. Hann gekk hröðum skrefum gegnum stöðina og út hinu megin og stoppaði þar við litla verslun þar sem afgreitt var gegnum lúgu. Sá ég að hann var þar að kaupa símakort.

Ég ákvað að láta Ólaf ekki sleppa og stillti mér upp við hliðina á honum. Þegar hann var búinn að setja skiptimyntina og símakortið í veskið sitt sagði ég góðan daginn. Ólafur gekk í boga í nokkurri fjarlgð fram hjá mér og virtist var um sig. Svo drundi í honum "ert þú Íslendingur"? Þegar ég hafði svarað því settumst við öll á bekk í sumarblíðunni og ræddum saman lengi. Hann var þá í heimsókn ásamt konu sinni hjá tengdamóður sinni í Uppsala og kom til Falun til að heimsækja þar íslenskan lækni sem skyldi sækja hann á brautarstöðina.

Daginn eftir var ég í vinnu minni í Svartnesi og þegar leið á daginn kom Brynjólfur læknir, einn af þeim sem ráku meðferðarheimilið þar, og með Brynjólfi var Ólafur Ólafsson landlæknir frá Íslandi. Ólafur vildi hitta sem flesta sem þarna unnu, íslendinga og Svía, og ræða meðferðarmál. Dvaldi hann lengi dags. Þá hafði ég bara verið rúmlega hálft ár í Svíþjóð og var sænskukunnáttu minni þá enn verulega ábóta vant. Mér þótti óþægilegt að láta Ólaf komast að því og ég valdi að tala einungis við hann á íslensku.

Síðar þegar ég fór að vinna í Vornesi vann þar við fjölskyldumeðferðina kona frá Skáni, Bonny að nafni. Hún var hjúkrunarfræðingur að mennt og hafði fyrir löngu unnið í Uppsala. Þá var Ólafur Ólafsson þar, að mig minnir í framhandsnámi, og Bonny vann mikið með honum. Ummæli Bonny um Ólaf Ólafsson voru á þá leið að hann hefði verið sá mest sjarmerandi og skemmtilegasti maður sem húnn hefði nokkru sinni kynnst. Það var ekkert á milli okkar sagði hún, Ólafur var bara alveg yndislegur maður.



Ég talaði um Kristinn dótturson áðan. Hér er mynd af honum tekin sama ár og hann kom til okkar í Falun, sem sagt 11 ára. Þetta sumar, 1994, er eitt af þeim heitari í Svíþjóð sem einnig var okkar fyrsta sumar hér. Kristinn hafði mikið gaman af að leita að dýrum og skoða dýr. Eitt sinn komum við í dýragarð og hittum þar úlfalda. Við slitum upp gróður til að gefa honum yfir girðingu og stuttu síðar fór okkur að svíða í hendurnar. Við höfðum í fáfræði okkar gefið honum brenninetlu en úlfaldinn kvartaði ekki.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0