Ekki í rónni fyrr en.....

Um daginn talaði ég um nískuna í mér þegar ég ætlaði að spara 66 kr með því að nota gamlan krana. Hann auðvitað lak og þar með var inntakið ekki tilbúið. Fyrir mér er allt hálfkák þangað til það er alveg í stakasta lagi. Nú er gamli kraninn kominn til feðra sinna í ákveðinn haug sem á að fara í brotajárnsgáminn næst þegar farið verður með drasl í sortéringu á haugunum. Nýi 66 kr kraninn er kominn í staðinn, vatnsheldur og lipur í notkun. Við fórum sér ferð á Sólvelli í dag eftir vinnuna mína og gerðum þetta í stand. Það þýðir að við getum horft á Allsång på Skansen (Fjöldasöng á Skansinum) með frið í sinni kl átta í kvöld.

Meira um iðnaðarmannavinnu neðar.
GB
Ekki í rónni fyrr en.....

Eldri maður benti mér á betri leið

Um daginn var ég í byggingarvöruversluninni K-rauta (koráta) og maður um fertugt sem sagðist vera vanur öllu sem varðar röralagnir rétti mér hvíta rúllu með hvítum borða til að þétta skrúfuganga við röralagnir. Ég hafði þekkt til þessa í áratugi og tók við því sem sjáfsögðum hlut. Svo þurfti ég að tengja plast í stál og notaði auðvitað hvíta borðann. Samskeytin láku. Ég hélt að plastskrúfugangurinn væri hreinlega gallaður og hugsaði bara; bölvað plastrusl. Seinna kom ég í sömu verslun og þá var það eldri maður (greinilega á mínum besta aldri) sem var mér til aðstoðar og hann tók litla pakkningu úr hillu og sagði að þetta yrði ég að hafa líka. Ég velti þessu í hendi mér og hvað haldið þið að hann hafi rétt mér? Jú, ekkert annað en gamla góða rörahampinn ásamt túbu með gamla góða vasilíninu sem á að nudda inn í hampinn þegar hann hefur verið vafinn inn í skrúfuganginn. Er þetta til ennþá? spurði ég undrandi og hann svaraði látlaust; maður á ekki að nota neitt annað. Hvíti borðinn er bara drasl sagði hann einnig. Ég talaði ekkert um lekann á plastskrúfuganginum en þegar ég notaði þessa gamaldags aðferð við þá samsetningu lak ekki meir. Mikið er gott að það eru til fleiri gamaldags kallar en ég. Seinna tók ég Valdísi með inn í þessa búð til að sýna henni þennan fína kall.
GB
Eldri maður benti mér á betri leið

Og hvað það var mjúkt á fingrinum

Að taka smá lús af gamla góða vasilíninu á fingurinn -ja það minnti mig bara á árin um þrítugt. Og svo gekk það svo mjúklega inn í hampinn og gerði allt verkið svo traustvekjandi. Hvað kallinn í búðinni var nú góður að vera svolítið gamaldags eins og ég.

Og rétt í þessum orðum skrifuðum gerði einhverja þá mestu rigningardembu sem við höfum orðið vitni að um dagana. En það er allt í lagi okkar vegna. Sólvellir standa upp á brekkubrún, þakið er gott, það eru þakrennur og allt umfram vatn hefur sínar ákveðnu leiðir frá húsinu.
GB
Oge ekki var -aå

Þegar nýskan er Þrándur í götu

Stundu gengur betur en aðra daga á Sólvöllum og stundum gengur síður. Í gær var einn af þessum rífandi góðu dögum þangað ég ætlaði að fara að tengja inntakið eins og það verður til frambúðar. Þá vantaði fittings á einum stað og á öðrum stað lak. Svo var tekið vatn í potta og könnur og skrúfað fyrir inntakið og tekin hvíld. Með lista í brjóstvasanum og gamlan krana fyrir garðslönguna í hendi fór ég svo í búð í morgun til að kaupa fittings sem vantaði og ráðgast við lipran búðarmann sem ég kannast við. Svo var ég búinn að tína í körfuna og horfði í síðasta skipti á slöngukranann sem sjálfsagt er yfir 30 ára og ákvað að spara mér þar 145 krónurnar þar sem þessi tenging á krananum væri bara til bráðabyrgða. Það á nefnilega að koma krani út úr vegg gyrir slönguna á Sólvöllum áður en sumri líður og þangað til ætti gamli kraninn að duga. Valdís tók líka að sér að pússa hann með stálull svo að hann mundi nú sæma nýja inntakinu. Svo fór ég ánægður til baka úr verslunarferðinni og lokavinnan hófst við að ganga frá inntakinu og ég pantaði kaffi þegar því yrði lokið (ofdekraður). Svo leit allt voða fínt út og bráðabirgðafótur var settur upp fyrir inntakið. Ég dró djúpt andann og skrúfaði frá. Leiðslan inn í eldhúsið kipptist aðeins við þegar þrýstingurinn kom á og svo varð allt hljótt  -nema. Gamli slöngukraninn lak við eitthvað hallærislegt sjálfvirkt auga neðan á krananum sem á að vatnstæma hann þegar skrúfað er fyrir inntakið. Þetta átti fyrir 30 árum að verja kranann fyrir hugsanlegum frostskemmdum en var greinilega hætt að virka eðlilega. Eftir árangurslausar tilraunir til að stoppa lekann gafst ég upp og eiginlega er inntakið þar með ekki tilbúið. Það er nefnilega skrúfað fyrir það vegna leka og kaffið sem ég hafði pantað smakkaðist alls ekki sem skyldi fyrir vikið. Það er alls ekki meiningin að það standi fötur undir lekum vatnslögnum á Sólvöllum. Á leiðinni heim keyptum við nýjan slöngukrana og hann kostaði engar 145 kr. Hann kostaði 66 kr og mér mistókst hrapalega að spara mér peninga í þetta skipti og tókst í staðinn að verða af með frístundir.

En það er samt margt í góðu gengi á Sólvöllum. Inntakið er þó alla vega orðið öruggt fyrir frostum næsta vetrar, Það er komin rist fyrir sturtuna, rist fyrir framan þvottavélina, frárennslisrör fyrir hana líka, frárennsli fyrir þvottahúsvask, baðhandlaug og reglulegt frárennsli fyrir vask í nýja eldhúsinnréttingu ásamt mörgu öðru sem aldrei hefur fundist á Sólvöllum. Það er nefnilega stór gaman að þessu.

Myndin fyrir neðan er af gamla slöngukrananum sem fer á haugana í næstu ferð þangað.
GB
Þegar nýskan er Þrándur í götu

Þokast áfram á Sólvöllum

Þversnið af nýju gólfi á Sólvöllum. Bitarnir sitt hvoru megin komu úr Sólvallaskóginum og eru 2 sinnum 8 tommur. Þeir eru tjargaðir að hætti eldri manna. Einangrunin er 19 sm og efst er límd og skrúfuð 22 mm spónaplata. Þetta er nú magnaðasta gólf sem ég hef unnið við. Þriggja tommu einangrun þótti mikið þegar byggt var í Sólvallagötunni í Hrísey en hér er það tæpar 8 tommur. Mikið verður gott að sitja á klóinu með 8 tommu einangrun undir yljunum. Gólfið á myndinni er forstofugólf en myndin er tekin þaðan sem um næstu helgi kemur baðgólf. Svona áfangar eru afar skemmtilegir.
GB
Þokast áfram á Sólvöllum

Kominn hluti af gólfi til að ganga á

Kominn hluti af gólfi

Bláberin vaxa bakvið Sólvallahúsið

Valdís hefur öðru hvoru farið í ber á Sólvöllum. Síðast tíndi hún bláber rétt á bakvið húsið, milli hússins og smíðabekksins sem stendur undir eikartré í skógarjaðrinum, næstum of nálægt. En ef ég fer út í skóg til að pissa fer ég lengra og ég spýti aldrei svo að þetta var svo sem í lagi.
GB
Bláberin vaxa bakvið Sólvallahúsið

Svo voru það jarðarber

Og svolítið lengra út í skóginum voru smultron eða það sem kallaðist vilt jarðarber í mínu ungdæmi og uxu í hvömmunum á Kálfafelli, Heimastahvammi, Stekkjarhvammi og Stórahvammi.
GB
Svo voru það jarðarber

Og þetta var árangurinn þann daginn

Og eru svo engin jarðarber? Jú, sjáið þið bara, það örlar á einu lengst til vinstri í fötunni. Bláberin voru í meiri hluta og huldu jarðarberin. Svo fór Valdís inn og hreinsaði berin og eftirrétturinn þetta kvöldið voru jarðaerber, bláber og rjómi. Namm namm og hvað maður verður hraustur af berjum. Svona eftirrétt er Valdís búin að bjóða upp á fleiri kvöld.
GB
Og þetta var árangurinn þann daginn

Bara nokkur skref bakvið Sólvallahúsið

Bara nokkur skref bakvið Sólvallahúsið

Fjarlægðin gerir fjöllin blá

Kilsbergin eru þakin grænum skógi frá toppi til táar en samt eru þau blá í fjarlægðinni eins og önnur fjöll. Það er raki í lofti þessa dagana en engin ógnar úrkoma hér um slóðir. Gróðurinn er sterkgrænn og safamikill. Samt er gamla túnið á myndinni ekki mikið grænt enda er hann Arnold ný búinn að slá það. Hann slær það einu sinni á ári og fær reikninginn greiddan af EU. Heyið hirðir hann ekki. Að slá þetta tún tilheyrir stefnu sem kallast "opið landslag" og miðar að því að skógur fái ekki að loka fyrir útsýni á vissum stöðum. Við Valdís fáum að njóta þessa og sjáum því til Kilsbergen um ókomna framtíð. Ég var einn á Sólvöllum þegar Arnold sló túnið og ég bauð honum í kaffi. Yfir kaffinu ræddumst við við sem vísir menn. Hann sagði hann að fyrri eigandi Sólvalla hefði alltaf boðið sér í kaffi þegar hann sló túnið. Þeirri hefði verðum við Valdís að sjálfsögðu að viðhalda.
GB
Fjarlægðin gerir fjöllin blá

Bílspesialistinn

Hún er ekki með marga þumalputta hún Valdís þegar hún tekur sig til og snyrtir bílinn. Í hvert skipti verður bíllinn einu ársmoódeli yngri. Sem sagt alltaf nýr.
GB
157010-19

Bara þegar ég er montinn

Svona geri ég bara þegar ég er montinn og þegar ég er montinn er Valdís með myndavélina á lofti alveg um leið. Tilefnið í þetta skiptið var að ákveðnu verki var lokið og svo var veðrið líka afar gott en það var ekki mér að þakka.
GB
Bara þegar ég er montinn
RSS 2.0