Maðurinn með gráa hárið

Það var í gærmorgun. Klukkan átti að hringja hálf sjö og ég vaknaði nokkrum mínútum fyrr. Það er best þannig því að næstum öll vekjaraklukkuhljóð eru eins og grimm árás á sofandi mann. Ég ætlaði að fara með bílinn í þjónustu inn í Örebro en allur ég var á móti því þarna þegar ég vaknaði. Ég var með hellu fyrir báðum eyrum og mér fannst sem ég væri á leiðinni að verða veikur. En ég fór samt.
 
Ég fór með bílinn á verkstæði sem er rekið af írönskum manni, einhver sá prúðasti og hjálplegasti maður sem ég nokkru sinni hef hitt. Þegar ég hafði skilað bíl og lyklum í hendur hans gekk ég á teríu sem er þar í nokkur hundruð metra fjarlægð og fékk mér kaffi, vatn og stóra, stóra rækjubrauðsneið. Svo fékk ég mér sæti í góðum stól á góðum stað, en mér fannst ennþá sem ég væri að verða veikur.
 
Ég vissi að ég yrði þarna í eina tvo eða þrjá klukkutíma og þann tíma ætlaði ég að nota til að lesa um rafmagnsbíla. Ég tók upp símann og leitaði að efni um rafmagnsbíla. En mitt í þeirri leit kom bara sí svona allt í einu upp fyrirsögn að grein um Ísland og þó í fyrsta lagi um Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Í þessari grein var farið mjög fallegum orðum um bæði Ísland og sérstaklega forsætisráðherra Íslands sem greinin fjallaði sérstaklega um. En þannig er það bara; þegar sænskir fjölmiðlar fjalla um Ísland er það alltaf gert á þeim nótunum.
 
Greinin var mjög löng og ég varð þreyttur við að lesa svona mikið á þessum litla skjá sem síminn minn er og því vistaði ég greinina til að lesa síðar.
 
 
 
Ég var aftur farinn að lesa um rafmagnsbíla og ég var löngu búinn að innbirða kaffið og stóru, stóru rækjusneiðina. Nú var mér orðið kalt. Já, vissulega var ég að verða veikur. Ég fór aftur að diskinum og keypti stóra gulrótarköku með þykku súkkulaði ofan á og fékk mér meira kaffi og vatn. Þetta kláraði ég á augabragði, en viti menn; mér hlýnaði. Nú fannst mér tími til kominn að heimsækja aftur bílverkstæðið.
 
Það sem ég segi núna segi ég í algjörum trúnaði. Þó að mér fyndist ég ekki nógu hress til að prufukeyra bíl, þá gerði ég það. Ég prufukeyrði "rafmagnsbíl". Það hafði ég gert áður, en núna, núna keyrði ég hreinan eðalvagn. Og hvað þessi bíll flutti manninn með gráa hárið hljóðlega og notalega norður úr Örebro. Ég var ekki lengur að verða veikur, ég var stálhress. Maður á sjötugasta og áttunda árinu getur bilast af minna. Svo keyrði ég mun lengra en ég ætlaði og hver metri var hreinn unaður.
 
Ég get talið upp að tíu og ég pantaði ekki rafmagnsbíl. En hún Gréta Thunberg hefur sagt við mig eins og alla aðra: Allir verða að gera eitthvað. Og það var snemma í vor sem ég bloggaði um það að ég væri alveg að fara að gera eitthvað, en ég hef ekki gert það ennþá sem ég bloggaði um þá.
 
Ég ætlaði mér að skrifa allt öðru vísi þegar ég byrjaði en það bara fór eins og fram er komið.
 
Það er kominn nýr dagur og undir hádegið hurfu hellurnar frá eyrunum og ég er ekki veikur.

Laugardagurinn 7.september 2019

Í gær eftir kvöldmatinn sótti ég í frystinn í bílskúrnum út á Bjargi ber frá fyrra ári. Illiber voru það og ég tók bara svolítinn slatta. Ég ætlaði að gera eitthvað sem ég hafði aldrei gert áður, að útbúa illiberjasaft. Þetta var frumraunin. Ég hafði hins vegar lesið í uppskrift að þetta tæki all nokkurn tíma, mikið lengri tíma en að gera sultu. Svo gerði ég illiberjasaft og var ekki búinn að sía það fyrr en eftir miðnætti. Svo sofnaði ég og mér finnst sem ég hafi sofnaði áður en ég var almennilega lagstur útaf. Korter yfir níu í morgun vaknaði ég, mjög undrandi. En hvað þetta var notalegt.
 
 
 
 
 
Tveir þroskaðir illiberjaklasar og einn óþroskaður. Berin eru á stærð við lítil krækiber. Í fyrra klippti ég heilu klasana af og frysti. Núna ætla ég að tína berin beint af klösunum og helst að gera eitthvað af þeim þegar í haust. Það var of mikil vinna fyrir mig í gær að ná berjunum af gömlu stilkunum.
 
Í morgun hitaði ég saftið og setti sykur í og nú er ég búinn að bragða á góðgætinu. Ekki eins gott og ég hafði væntingr um, en ég kenni því um að berin eru orðin árs gömul. Ég tók heldur ekki höndum um þau fyrr en mikið seinna á haustinu, eða að aflokinni Íslandsferð sem stóð fram í október og þá voru þau eiginlega farin að þroskast úr sér ef svo má segja.
 
Í dag hefur gengið á með líflegum skúrum sem aðeins hafa staðið í örfáar mínútur hver, en þó bleytt vel í. Á morgun gerir spáin ráð fyrir þurru veðri og talsverðri sól. Fyrir hádegi í dag, eftir gönguferð um eignina, skrifaði ég verkefnalista morgundagsins sem byggir á því að það verði þurrt.
 
Þar geri ég ráð fyrir að:
1 Bæta gróðrarmold á ný gróðursetta berjarunna
2 Tína þau brómberi sem hafa þroskast eftir tínslu í fyrradag
3 Tína þau bláber sem hafa þroskast eftir tínslu í fyrradag
4 Tína það síðasta af aróníaberjunum
5 Tína þroskuðustu illiberin
6 Byrja að tína hafþyrniberin
 
Þetta er ekki eins mikið og það lætur. Það sem tekur tíma er að tína hafþyrniberin og því vil ég skipta þeirri tínslu niður á fleiri daga.
 
Þannig líða dagarnir hér í sveitinni um þessar mundir. Það lætur kannski einfeldningslegt að mér líkar svona líf afar vel, en þannig er það bara. Það er líka mikill tilgangur í því fólginn að vinna þessi verk á haustin, ég segi haust þó að mér finnist það alls ekki vera komið ennþá.
 
Ég er einn heima og okkur þykir það báðum notalegt, góð tilreyting, að hafa þetta algera næði. Susanne er hjá barnabarni sínu upp í Dölum, hjá strák sem á níu ára afmæli eftir helgi en heldur upp á daginn núna um helgina. Þar sem ég var svo vel úthvíldur eftir nætursvefninn og það næði sem skúrirnar gáfu mér, þá fann ég hjá mér löngun til að setja eitthvað á blað.
 
 
 
 
 
Þetta var um miðnætti síðastliðið, fyrsta tilraun mín að gera illiberjasaft.
 
 
 
 
Já, það er ekki haustlegt. Hestkastanían fyrir miðri mynd er bara rétt liðlega á fermingaraldrinum. Alveg ótrúlegt. Og það er flaggað í turninum hans Hannesar. Hann á líka afmæli í dag.
 
Þegar ég gróðursetti þetta tré sem þá var bara dálítið stór planta völdum við Valdís stað í þokkalegri fjarlægð frá húsinu. Svo stækkuðum við húsið og það færðist fimm metrum nær trénu. Það er mögulegt að einhvern tíma í framtíðinni þurfi að taka óþægilega ákvörðum.
 
 
 
 
Það verður mikið af kastaníufræum í ár, mikið meira en nokkru sinni fyrr. Spurning hvað ég geri við þau.
RSS 2.0